Færsluflokkur: Bloggar
16.4.2010 | 12:22
Siðferði þjóðar
Skýrslan góða staðfestir það sem oft hefur heyrst:
Siðferði Íslendinga er stórlega ábótavant.
Skýrslan er ekki bara áfellisdómur yfir útrásarvíkingunum og peningaglönnunum, pólitíkusunum og embættismönnunum, fjölmiðlunum og háskólasamfélaginu.
Þjóðin fær líka sinn dóm.
Þótt sú kenning hafi verið afsönnuð að hrunið stafi af flatskermakaupum almennings þarf þjóðin engu að síður að horfast í augu við sig sjálfa ef takast á að endurreisa samfélagið.
Og mér sýnist margt benda til þess að þjóðin ætli að axla ábyrgð.
Menn tala saman um hvernig eigi að bæta siðferðið á Íslandi.
Margir tala til dæmis um að efla þurfi kennslu í siðfræði í skólum landsins.
Ég tek undir það.
En það er ekki nóg.
Ég heyrði útundan mér að þeir voru að tala um bætt reglukerfi fyrir bankana á Alþingi. Ég tek líka undir það en er jafnframt sammála þeim sem bentu á að til hefðu verið alls konar reglur í hinum föllnu fjármálafyrirtækjum.
Það var bara enginn áhugi á að fara eftir þeim.
Og lausnin er heldur ekkert endilega sú að kenna börnum siðfræði.
Þau þurfa að hafa vilja og löngun til að fara eftir því sem þau læra.
Einhver sagði að ellefta borðorðið væri svona:
Haltu öll hin."
Í gær heyrði ég Vigdísi Finnbogadóttur segja að auka þyrfti agann í samfélaginu.
Agi felst í því að vilja fara að fyrirmælum, bera virðingu fyrir stjórnvöldum og síðast en ekki síst er agi fólginn í hæfileikanum til að breyta rétt.
Hrunið fólst ekki bara í glæpum og siðferðisbrestum. Það skýrist líka af agaleysi. Í skýrslunni sjáum við mörg dæmi um hinar skelfilegu afleiðingar sem skortur á sjálfsaga getur haft.
Einhvers staðar las ég sögu um ungan mann sem lærði járnsmíðar hjá frægum meistara. Sá kenndi lærisveini sínum alla leyndardóma iðnarinnar. Þegar ungi maðurinn kom heim eftir langt og strangt nám biðu allir í ofvæni eftir því að sjá hann leika listir sínar.
Því miður gat hann ekkert smíðað.
Það hafði nefnilega gleymst að kenna honum að kveikja eld og halda honum logandi.
Það nægir ekki að kenna börnunum siðfræði. Við þurfum líka að ala þau upp.
Og okkur sjálf.
Myndin: Þessi regnbogi tyllti sér yfir Þingvallastrætið síðasta sunnudag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.4.2010 | 09:11
Það vorar
Löng var biðin eftir rannsóknarskýrslunni. Hún reyndist þeirrar biðar virði þótt ekki hafi komið til óeirða á útgáfudaginn.
Þjóðin er að melta niðurstöðurnar og fróðlegt er að fylgjast með viðbrögðum valdablokkanna í samfélaginu.
Önnur talar um mistök og vanrækslu stjórnsýslunnar en hin um siðleysi og glæpi peningaaflanna.
Sannleikurinn er auðvitað sá að hvort tveggja brást.
Orsaka bankahrunsins er í fyrsta lagi að leita í bönkunum sjálfum. Þeim var ekki viðbjargandi. Þeir voru gangandi lík.
En þeir sem eiga að gæta hagsmuna almennings brugðust líka. Viðbrögð þeirra - eða réttara sagt skortur á þeim - gerði hrunið enn brattara og erfiðara fyrir þjóðina.
Skýrslan dregur upp mynd af úldnu og gegnspilltu viðskiptalífi, vanhæfri stjórnsýslu og blindri og heyrnarlausri stjórnmálastétt.
Árin fyrir hrun ríkti hér mannfjandsamleg hugmyndafræði", svo notuð séu orð Steingríms J. Sigfússonar í ræðu hans á Alþingi.
Er það síst ofmælt hjá Steingrími og efni í mergjaða stólræðu.
Þetta er vönduð skýrsla og efnismikil. Þjóðin hefði gott af því að ræða hana af yfirvegun en því miður virðast margir á leið ofan í gömlu skotgrafirnar.
Við búum svo sem ekki við merkilega umræðuhefð á Íslandi. Gapuxar og sorakjaftar þykja flottir í umræðunni; hinni margrómuðu íslensku hvatvísi hefur verið hampað. Stjórnmál eru persónugerð, allt snýst um einhverja tiltekna einstaklinga og að vera með þeim eða á móti. Reynt er að leiða fram sem andstæðust sjónarmið til að umræðan selji vel með þeim afleiðingum að þjóðin heyrir helst í öfgamönnunum.
Þeir ráða sem mest vilja í gegn gangast.
En um leið bendir ýmislegt til að þjóðin sé að endurmeta sig, vilji særa út illu andana en blása inn þeim góðu.
Ég gladdist til dæmis mjög að frétta af gagngerum breytingum á námskrá míns gamla skóla, Menntaskólans á Akureyri.
Að sögn skólameistara, Jóns Más Héðinssonar, verður eitt markmiðið með námi í MA að búa nemendur betur undir lífið í lýðræðisþjóðfélagi".
Íslenskir fjölmiðlar fengu þunga dóma í skýrslunni. Þeir þurfa að vanda sig betur. Huga þarf að eignarhaldi og bæta þarf menntun blaðamanna.
En hversu góðir sem fjölmiðlarnir eru þurfa þeir alltaf lesendur, áheyrendur og áhorfendur sem kunna með þá að fara.
Ég er þeirrar skoðunar að taka þurfi upp kennslu í fjölmiðlalæsi í skólum landsins. Við þurfum mynduga neytendur fjölmiðla.
Og við þurfum hugsandi og virka þegna sem láta sér ekki nægja þau þjóðfélagslegu afskipti að grilla um helgar.
Ég held að breytingarnar í MA séu í rétta átt.
Eða svo notuð séu orð meistara:
Við teljum að með breytingunum náum við að tengja nám nemenda Menntaskólans á Akureyri mun betur en áður við þjóðfélagið, umhverfi þeirra og nærsamfélag. Það á að efla hugsun þeirra og enda göngum við út frá þeirri meginhugsun að hlutverk okkar sé að búa nemendurna undir líf í lýðræðisþjóðfélagi, jafnframt því að þeir séu tilbúnir að takast á við háskólanám. Gleggsta vitni þess að við séum á réttri leið hafa verið þær áherslur sem hafa komið út úr þjóðfundum að undanförnu, en þar hefur kveðið við sama tón og er hljómurinn í nýrri námskrá Menntaskólans á Akureyri.
Ég finn indælan vorilm af þessari mannvinsamlegu hugmyndafræði.
Myndin: Litið til Sigurhæða
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2010 | 12:10
Undur Íslands
Að þessu sinni eiga helgarútgáfur Moggans og Fréttablaðsins það sameiginlegt að fjalla um furðuverur.
Fyrr á tíð virðast hvers konar furður hafa verið algengari en nú.
En kannski eru furðurnar bara öðruvísi á okkar tímum?
Undanfarið hef ég verið að lesa rit eftir Gísla Oddsson sem var biskup í Skálholti á árunum 1632 - 1638.
Annað ritið heitir Íslenzk annálabrot (Annalium in Islandia farrago) en hitt Undur Íslands (De mirabilibus Islandiae).
Er margt fróðlegt og forvitnilegt í skrifum biskupsins. Ber hann löndum sínum nokkuð vel söguna og tekur undir með hinum ágæta sagnaritara Saxa sem lét svo um mælt að Íslendingar bættu upp ruddahátt sinn með gáfnalipurðinni.
Hefur Íslendingum á tímum biskupsins verið margt til lista lagt. Þannig kann hann að segja frá manni einum á Austurlandi sem gert hefur í höndunum áttróinn bát, og stýrði skipstjórinn öllum árunum með hjólum og strengjum sitjandi í skutnum..."
Skálholtsbiskup heyrði um annan völund sem reynt hafði list Daidalosar, með því að safna fuglafiðri og fjöðrum, brugðið vængjunum undir sig og farið í þá eins og fat; hafi hann svo erfiðislaust getað flogið yfir Hvítá í Borgarfirði; niðjar manns þessa eru enn á lífi."
Ótrúlegust finnst mér samt sagan af manni sem var enn á lífi á dögum Gísla og með eigin höndum kveikti saman fleyga dúfu og spýjandi eld.
Og ekki vantar undrin í annálabrot biskupsins. Sum árin fá reyndar dapurleg eftirmæli. Árið 1374 til dæmis þessi:
Fátækir menn dóu af matarskorti og hungri.
Eða 1402:
Feiknamanndauði á Íslandi.
Loftsjónir alls konar voru tíðar á þessum árum. Sjóskrímsli skriðu á land, draugar riðu húsum og huldufólk ginnti fólk inn í hóla og kletta. Furðulegar plágur geisuðu. Árið 1605 varð fólk á Vestfjörðum bráðdautt. Menn dóu á hestbaki. Einn andaðist er hann var að leysa hey úr heygarði, annar datt niður á göngu, kona í Önundarfirði dó sitjandi við að mjólka kú og í Bolungavík önnur sem sat alheil við eldinn, féll fram á logann og dó.
Þetta hefur verið gósentíð fyrir áhugamenn um fljúgandi furðuhluti. Menn sáu hluti á lofti sem gætu hafa verið einhvers konar geimskip og fyrir kom að út úr þeim stigu einkennilegar verur. Glóandi spjót flugu um um himinhvolfin og skildu eftir sig rák á loftinu" eins og það er orðað.
Vanskapnaður virtist ekki hafa verið sjaldgæfur þótt enn hafi verið margar aldir í Tsjernóbilslysið.
Biskup greinir frá því að 16. október 1606 hafi borist fregnir af þriggja eða fjögra ára gömlu viðrini í koti nokkru nálægt Njarðvík. En ekki nóg með það:
Sömuleiðis er sagt, að á Flankastöðum sé fjögra eða fimm ára gamall drengur, sem hafi getnaðarfæri, skegg og kviðarhár sem fullorðinn karlmaður (haldið er, að hann sé umskiptingur). Sömuleiðis er sagt, að í hjáleigu hjá Hlíðarenda, sem heitir Nikulásarhús, sé sex ára gömul stúlka umskiptingur; liggur hún í vöggu, sem stendur undir hærra rúmi og geltir sem hundur, í því skyni að fá nokkurt æti í hvert sinn, sem einhver gengur um. Á Ey í Grímsnesi hefur umskiptingur nokkur lifað í nálega 15 ár og hefur allan þann tíma aldrei risið á fætur úr rúminu, - hræðileg ókind, herfileg og ferleg; stundum rekur hann upp hvínandi hljóð, svo að viðstaddir mega varla standast þau. Öðru hvoru hefur hann vaxið mjög á lengdina, og því lengri sem hann hefur orðið, því meira hefur hann grennzt fram yfir hæfi.
Ég enda þetta með annál fyrir árið 1619 úr riti Herra Gísla Oddssonar. Svona var nú fréttamennskan þá:
Vansköpuð fóstur fæddust víðs vegar. Kýr nokkur í Vestur-Landeyjum syðra er sögð 22. sunnudag eftir trínítatis að hafa borið kálfi með hundstrýni, en hann vantaði nasir, og augun lágu neðar en vant er að vera; hálsinn grannur eins og á fugli, ílangur og hlykkjóttur, framfætur engir né bógar né bógfyllur, hryggjarliðir snúnir að brjóstinu, harðir og yddir, maginn þröngur eða skroppinn, lærin bæði grönn og stutt; afturfætur voru fram úr hófi langir, klaufir íbognar, bæði fram á við og til hliðanna, rófan harla löng og alþakin burstum; náði hún fram eftir bakinu allt fram að eyrum. Hæna nokkur í Vestmannaeyjum klakti út ferfættum kjúklingi. Sama ár brann kirkjan á Hjaltabakka nyrðra til grunna með öllu, sem í henni var, en ókunnugt er um upptök. Í nóvember sama ár sást um hér um bil þriggja vikna tíma merkileg halastjarna; hali hennar eða stafur var slitróttur og teygði sig frá útsuðri beint upp á við; hún sást einnig um Danmörku og Þýskaland, og hennar getur líka lærður maður nokkur í Rauðstokki. Þann 29. júlí sama ár kom víðs vegar afskaplegt eldgos úr austurfjöllum.
Myndin: Vorvatn á Vöðlum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2010 | 21:21
Sagan endurtekur sig
Myndirnar af árásum bandarískra hermanna á saklausa borgara í Írak eru skelfilegar.
Snemma árs 2005 varð allnokkur umræða um skoðanakönnun sem Gallup gerði. Þar var spurt um afstöðu fólks til Íraksstríðsins.
Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vildi ekki bendla Ísland við stríðið.
Ég man ekki hvernig spurningin hljóðaði en ráðamenn þá lýstu því yfir að hún væri allt of óskýr.
Einn þeirra sagði að hann hefði sjálfur verið í vandræðum með að svara spurningunni. Mig minnir að hann hafi verið utanríkisráðherra.
Fimm árum síðar lýsir yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar afstöðu í öðru máli.
Aðrir ráðamenn eru sestir í valdastólana.
En ekkert breytist og sagan er sett á ríplei.
Enn eru spurningarnar óljósar og afstaðan markleysa og hjarðmennska.
Vilji þjóðarinnar virðist aðeins geta verið skýr þegar hann er ráðamönnum að skapi.
Og ef lýðræðið leiðir til niðurstöðu sem er stjórnvöldum ekki þóknanleg er náttúrlega bara um einhverja hjarðmennsku að ræða.
Myndin: Margir rassar hafa verið fegnir þessum bekk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2010 | 20:06
Upphafning hversdagsleikans
Fyrir nokkrum mánuðum fékk aldraður en furðu ern karl faðir minn sér feisbúkksíðu eftir þrálátar áeggjanir.
Til að byrja með hafði hann sig lítt í frammi en þótti afskaplega vænt um allar vinarbeiðnirnar.
Eftir að hafa safnað sér kjarki og móð og þegar mesta feisbúkkfeimnin hafði rjátlast af honum skrifaði hann sinn fyrsta status.
Þar lýsti hann því yfir að hann hygðist sjóða sér hafragraut.
Ekki stóð á viðbrögðum.
Hamingjuóskum rigndi yfir gamla manninn.
Fólk af fjarlægum landshornum átti ekki orð til að lýsa aðdáun sinni á uppátækinu.
Aðrir fundu fyrirætlunum föður míns allt til foráttu.
Að þeirra mati var um afleitan tíma að ræða til slíkra athafna.
Svo fór að gamla manninum þótti vissara að sleppa grautargerðinni í það skiptið.
Og hann hefur heldur ekki sett inn fleiri statusa.
Myndin er af hversdagslegu mannvirki ofan Akureyrar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.4.2010 | 22:40
Skelfingarhraðinn
Þegar einhver hleypur er um þrennt að ræða.
Hann gæti verið hræddur og á flótta.
Hann gæti líka verið að keppa í hlaupi.
Og svo gæti hann verið glaður því menn eru léttir á sér ef þeir eru glaðir en stíga þungt til jarðar ef þeir eru daprir.
Hraðinn á sér tvær meginástæður, gleðina eða skelfinguna.
Kappið flokkast undir skelfinguna því sá sem er í kappi er hræddur við að lenda á eftir hinum.
Og næst þegar þú ert að flýta þér skaltu hugsa um af hverju þú sért að því.
Eru hræddur eða glaður?
Við lifum hratt, eins og það heitir. Við tölum um lífsgæðakapphlaupið. Og við tölum sennilega þannig af því að skelfingarhraðinn setur sífellt sterkari svip á líf okkar.
Þeir sem ekki lengur hræðast dauðann hræðast lífið. Óttast næsta dag. Eru hræddir um að verið sé að snuða þá um eitthvað og að þeir séu að missa af því.
Bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Michael Moore hefur rétt fyrir sér þegar hann heldur því fram að í nútímanum sé kerfisbundið alið á ótta okkar.
Það er gert af þeirri einföldu ástæðu að auðveldara er að selja hræddum manni eitthvað en óhræddum.
Til dæmis byssu.
Gleðilega páska!
Myndin: Að þessu sinni var Lögmannshlíðarhringurinn píslargangan okkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.3.2010 | 15:28
Ár frá hjartaaðgerð
Þann 31. mars í fyrra lagðist ég undir hnífa hjartaskurðlækna á Landspítalanum í Reykjavík.
Aðgerðin gekk mjög vel og batinn hefur verið framar vonum.
Ég á mörgum mikið að þakka. Læknum, hjúkrunarfólki, sjúkraþjálfurum, vinum, samstarfsfólki og fjölskyldunni.
Þetta hefur gengið vel með Guðs hjálp og góðra manna.
Síðasta sumar átti ég frábæran mánuð á Reykjalundi. Þar er nú heldur betur ein birtingarmynd hins íslenska velferðarkerfis sem við verðum að verja með kjafti og klóm.
Með mér á Reykjalundi var stofufélagi minn af Landspítalanum.
Einu sinni í kaffitíma spurði hann mig hvort ég myndi eftir aðgerðarmorgninum.
Ekki var það nú mikið - sem betur fer.
Þá rifjaði hann upp að þegar búið var að gefa mér kæruleysissprautuna kom upp bráðatilfelli og varð því dráttur á að ég kæmist inn á skurðstofuna.
Tíminn leið og þóttu mér áhrifin af sprautunni óðum réna. Félagi minn, sem er sérfróður um lyf, mælti með því að ég fengi aðra sprautu.
Var hún fúslega gefin og ekki stóð á áhrifum.
Þau voru tvíefld. Allur kvíði hvarf og ég fór að gera að gamni mínu. Heimtaði að tekinn yrði úr mér botnlanginn fyrst ætti að opna mig hvort sem er. Sagði brandara og hóf upp svo mikinn söng að hjúkrunarkonur komu hlaupandi og spurðu hvað gengi eiginlega á strangar á svip.
Þegar loksins kom að því að mér var trillað út af stofunni heyrði félagi minn sönginn fjarlægjast smám saman.
Á sama tíma glömruðu kutar á smergelum í hinum enda spítalans, beinasagir voru skerptar og rifjaþvingur smurðar.
Og heima lágu áhyggjufullir ástvinir á bæn.
En ég söng þetta lag og hætti ekki fyrr en svæfingarlæknum sjúkrahússins hafði tekist að þagga niður í mér.
Myndin: Mér finnst vel við hæfi að hafa þessa sólskinsmynd af Akureyri með færslunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.3.2010 | 21:23
Ef það hentar mér

Maðurinn hefur gert sig að hinum endanlega mælikvarða allra hluta. Hann er grunnurinn sem allt byggist á. Hin eina rétta undirstaða og hið eina sanna viðmið.
Og það væri líka í sjálfu sér ágætt ef ekki kæmi til sá sameiginlegi boðskapur flestra hefðbundinna trúarbragða að maðurinn sé breyskur.
Í hefð kristninnar er það orðað þannig að maðurinn sé fallinn syndari. Hann er kengboginn inn í sjálfan sig. Hann er sjálfum sér ekki nógur. Hann er sitt eigið fórnarlamb. Mesta ógn mannsins er hann sjálfur. Hann er ekki jafn blindur á neitt eins og sig sjálfan. Hann getur ekki logið jafn rækilega að neinum eins og að sjálfum sér.
Hann á engan óvin skæðari en sig sjálfan.
Vegna þessa breyskleika sér maðurinn það sem honum hentar, skilur það sem hann vill skilja og heyrir það sem kemur sér vel fyrir hann.
Eða eins og Stuðmenn orða það:
Ég sit með augun opin og sitthvað fyrir ber,
ég sé það sem hentar mér,
svo hlusta ég á flest það sem hérna skrafað er,
og heyri það sem þóknast mér.
Svo skil ég fyrr en skellur í tönnunum á þér,
ég skil það sem hentar mér.
Þess vegna er maðurinn skakkur mælikvarði. Blinda mannsins, heimska, sjálfsréttlætingarhvötin, langanir hans, ótti og áhyggjur, skekkja þennan mæli.
Myndin: Eyjafjarðará var nýbúin að hreinsa sig þegar vetrinum snérist hugur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2010 | 20:30
Biðraðarskandallinn
Hneykslisfréttir vikunnar eru ekki um tvær komma fimm þúsund milljónir sem hurfu úr gjaldþrota bönkum og hvergi finnast.
Eða að Þjóðminjasafnið sé byrjað að rannsaka hrunið - áður en rannsóknarskýrslan birtist eða ákærur á fjárglæframenn verða gefnar út.
Hneykslisfréttir vikunnar voru um biðröð.
Jafnvel ráðherrar tóku andköf af hneykslun.
Það sem hneykslaði ráðamenn var ekki að fólk á Íslandi þyrfti að standa í röð heilu dagana til að fá mat sem það hefur ekki efni á.
Þeir hneyskluðust ekki á því að raðir af matarlausu fólki, einstæðum mæðrum og öryrkjum, næðu út á götu.
Nei.
Þeim fannst ekki nógu vel raðað í röðina.
Næst má fólk ekki klikka á því að jafna bilin.
Myndin: Í óshólmunum er verið að gera klárt fyrir vorið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.3.2010 | 23:48
Æseivhalelúja
Stundum tala stjórnmálamenn um hina pólitísku ábyrgð" á Icesave.
Þótt ég geri mér grein fyrir að sumir flokkar (lesist D) eigi meiri þátt í tilurð reikninganna en aðrir minnist ég þess ekki að Icesave hafi verið pólitískt bitbein - fyrr en allt hrundi.
Fyrir hrun man ég fyrst og fremst eftir halelújastemmningu í kringum Icesave - eins og reyndar flest annað sem útrásinni tengdist.
Þetta átti allt að vera sama tæra snilldin.
Ég man ekki eftir innblásnum ræðum á Alþingi gegn Icesave.
Birtust margar blaðagreinar um hættur Icesave?
Eða vöruðu fræðimenn þjóðina við?
Árið 2007 voru Icesave-reikninganir á hinn bóginn valdir viðskipti ársins af nefnd sem meðal annars var skipuð háskólakennurum, hagfræðingum og blaðamönnum.
Aukið hlutafé Baugs í FL-Group fékk sömu viðurkenningu sérfræðinganna.
Og sömu menn völdu viðskiptamann ársins 2007.
Sá var að sjálfsögðu Jón Ásgeir Jóhannesson.
Tilkynnt var um þetta í fylgiriti Fréttablaðsins - sem reyndar var og er í eigu verðlaunahafans.
Blaðamannafélög, innlend og norræn, umluðu ekki einu sinni.
Ekki minnist ég þess heldur að stjórnmálamenn hafi hreyft mótmælum ári síðar þegar þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, afhenti Landsbanka Íslands verðlaun Stjórnvísi og NASDAQ OMX fyrir Ársskýrslu ársins 2007.
Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri, tók við verðlaununum úr lófa bankamálaráðherrans.
Á heimasíðu Landsbankans kemur fram að bankinn hafi fengið verðlaunin fyrir vandaða og stílhreina ársskýrslu.
Skýrslan gefur greinargóða mynd af stöðu bankans og starfsemi rekstrarsviða, fjármögnun og áhættustýringu," segir einnig í fréttinni.
Og síðast en ekki síst:
Sérstök áhersla við val á Ársskýrslu ársins 2007 var lögð á stjórnarhætti fyrirtækja og umfjöllun um launakjör stjórnenda.
Þess má ennfremur geta að bæði Kaupþing og Bakkavör fengu viðurkenningar fyrir góða frammistöðu í ofangreindu.
Ef til vill liggur hin pólitíska ábyrgð víðar en menn vilja meina?
Myndina tók ég í dag við flugbrautina á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)