Færsluflokkur: Bloggar
22.3.2010 | 10:16
Ég afneita djöflinum
Því heyrist oft haldið fram að Íslendingar séu of uppteknir af því liðna en geri of lítið af því að huga að framtíðinni og líta fram á veginn.
Má vel taka undir það. Ef til vill skortir okkur skýra framtíðarsýn og ég held að eitt hlutverk stjórnmálastéttarinnar sé að glæða trú fólks á framtíðina.
Úr heimi trúarbragðanna lærum við þó mikilvæga lexíu.
Ef byrja á nýtt þarf að skapa því rými og ryðja úr vegi því sem hindrar að það nýja verði til.
Það þarf að særa út illu andana áður en þeim góðu er blásið inn; afneita því illa áður en því góða er játast.
Þetta gera þeir til dæmis í dönsku þjóðkirkjunni. Þar á bæ er afneitun bætt framan við trúarjátninguna og þannig hófum við játninguna í KFUM í gamla daga:
Ég afneita djöflinum, öllu hans athæfi og öllum hans verkum.
Áður en hægt er að byggja upp nýtt Ísland þarf að afmá það gamla. Eyða þeim ósiðum og þeirri ómenningu sem leiddu til hrunsins. Steypa þeim græðgisöflum af stóli sem virtust hafa ráðið öllu á þessu landi og virðast enn ráða svo miklu.
Svo notuð séu gömul guðfræðileg hugtök þarf að byrja á mortificatio áður en kemur að vivificatio.
Hinn gamli Adam þarf að deyja áður en nýr maður fæðist í Kristi.
Eitt af því sem hindrar endurreisnina er að særingamennirnir hafa ekki lokið störfum.
Myndin er tekin í Naustaborgum. Horft er norður yfir Akureyri og Eyjafjörð. Kaldbakur blasið við sallafínn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.3.2010 | 11:17
Dyrabjölluat
Ég hef ekki sterkar sannfæringar í ESB-málinu en styrkist þó alltaf í þeirri trú að aðildarumsóknin hafi verið óráð.
Í fyrsta lagi kaupi ég ekki þau rök að verið sé að sækja um aðild til að sjá hvað sé í boði. Yfirleitt er ekki sótt um aðild að félagsskap nema umsækjandi hafi hug á að ganga í hann.
En jafnvel þótt ástæðan fyrir umsókn sé ekki sú að umsækjandi vilji endilega inn heldur eigi að ná sem bestum samningi og leggja hann í dóm þjóðar sé ég fátt skynsamlegt við umsókn núna. Ísland er með buxurnar á hælunum.
Hafa einhvern tíma verið minni líkur á að ná ásættanlegum samningi fyrir Ísland?
Kannanir sýna að meirihluti þjóðarinnar er andsnúinn aðild. Umsóknin hefur ekki vilja þjóðarinnar á bak við sig. Og ég dreg í efa að hún styðjist við meirihluta þingsins.
Í Morgunblaðinu í dag er auglýsing frá Hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Hreyfingin er að fara af stað með fundaherferð. Þar verður m. a. fjallað um afleiðingar þess að ríkisstjórnin haldi áfram leiðangrinum til Brussel í óþökk þjóðarinnar", eins og það er orðað í auglýsingunni.
Meðal þeirra sem undir hana rita eru stjórnarþingmennirnir Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.
Þegar einhver sækir um aðild að félagsskap en vill alls ekki í félagsskapinn er vel við hæfi að kalla slíkt dyrabjölluat.
Þessi umsókn er sennilega ekkert nema rándýrt spaug. Hún er eitthvað sem við höfum ekki efni á.
Hún er algjörlega 2007.
Myndin er af göngustígnum frá kirkjutröppunum á Akureyri suður í Sigurhæðir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.3.2010 | 23:21
Samheldni og fjölskyldur
Fyrr í kvöld var ég einn framsögumanna á borgarafundi í Deiglunni hér á Akureyri.
Borgarafundir þessir eru merkilegt framtak úr grasrótinni en Rakel Sigurgeirsdóttir var tengiliður undirbúningsnefndar við okkur framsögumenn.
Efni þessa fundar var Samheldnin í akureysku samfélagi.
Auk mín töluðu þau Þóroddur Bjarnason, prófessor, og Hilda Jana Gísladóttir, dagskrárgerðarmaður.
Eftir erindi tóku fulltrúar akureyskra bæjarstjórnarframboða þátt í pallborðsumræðum.
Á Akureyri hefur verið rekin samstöðupólitík sem er held ég mun heillavænlegri en átakapólitíkin sem einkennt hefur stjórn landsins.
Þó má öllu ofgera, líka samheldninni. Við þurfum líka heilbrigða díalektík andstæðra sjónarmiða.
Ég talaði um fjölskylduna. Ég held að hvergi sé betri vettvangur fyrir samheldni en þar. Brýnt er að fjölskyldur landsins fái að sinna þörf mannsins fyrir að vera hluti af stærri heild.
Besta leiðin til að auka samheldni í samfélaginu er að hlúa að fjölskyldum af öllum stærðum og gerðum.
Í erindi mínu minnti ég á skrif bandaríska guðfræðingsins Stanley Hauerwas sem segir að helsti vandi fjölskyldunnar í samfélagi nútímans sé sá að hún eigi sér engan siðferðisgrunn. Henni er ekki treyst fyrir neinu. Barnauppeldið er til dæmis sífellt minna í höndum fjölskyldunnar.
Nútíminn virðist hafa komist að þeirri niðurstöðu að það sé svo flókið og viðamikið verkefni að ala upp börn að það sé ekki lengur á færi foreldra heldur verði að fela það sérfræðingum.
Myndin: Turnar Akureyrarkirkju teygja sig upp úr jörðinni eins og tré.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2010 | 00:29
Vinaþjóðir og margræðni
Ég hef verið að hugsa um tvennt í umræðu síðustu daga.
Annars vegar heyri ég því haldið fram að ekki eigi lengur að tala um vinaþjóðir Íslendinga.
Nú eigi bara að tala um hagsmuni þjóða. Þær eigi ekki vini. Bara hagsmuni.
Ég leyfi mér að mótmæla þessu.
Mér finnst sjálfsagt að tala um vinaþjóðir.
Mér finnst enginn útúrboruskapur að telja sumar þjóðir sérstaklega vinveittar okkur.
Er til dæmis einhver í vafa um að Færeyingar séu vinir Íslendinga?
Þeir hafa margoft sýnt þá vináttu sína í verki.
Er ekki dónaskapur og vanþakklæti að segja að einungis hagsmunirnir ráði för hjá Færeyingum?
Hins vegar hef ég áhyggjur af því hvernig sumir fræðimenn túlka lýðræðið.
Auðvitað er hægt að hafa ýmsar skoðanir á nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu en ég er ekki viss um að lýðræði snúist alltaf um einhverja algjörlega skýra og afmarkaða kosti.
Síðast í dag heyrði ég heimspeking fara neikvæðum orðum um þjóðaratkvæðagreiðsluna vegna þess að fólk hefði sagt nei af ýmsum ástæðum.
Sumir hefðu sagt nei vegna þess að þeir vildu ekki borga neitt. Aðrir vildu borga en vildu fá betri samning. Enn aðrir voru að hafna heimskapítalismanum.
En er það ekki þannig um flest mál? Fólk getur verið á móti þeim af ýmsum ástæðum. Eða hlynnt.
Eða halda menn að aðeins ein ástæða sé fyrir því að menn séu með eða á móti kvótakerfinu eða með eða á móti aðskilnaði ríkis og kirkju?
Í lýðræði fá menn að kjósa. Þeir setja krossana sína við tiltölulegar einfaldar spurningar en margar ástæður geta verið fyrir því hvar krossarnir lenda.
Í lýðræði er ekki farið fram á að menn láti greinargerð fylgja atkvæði sínu.
Niðurstöður kosninga þarf að túlka - eins og reyndar flest í þessu jarðlífi.
M. a. þess vegna leggjum við stund á heimspeki.
Myndin er af eyfirskum ísfossum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.3.2010 | 17:59
Tími iðrunar
Ef til vill erum við hvorki svöng né aum, ekki hrædd og ekki þreytt, hvorki sjúk né vonsvikin. Ef til vil erum við ekkert af þessu eða annað sem hindrar að við séum bara býsna góð og getum talið okkur sæl fyrir að vera ekki eins og hinir aumingjarnir.
Það getur verið góð tilfinning að vera ekki eins og hinir eða eins og annað fólk.
Jesús sagði söguna um tollheimtumanninn og faríseann sem staddir voru í helgidóminum.
Sá síðarnefndi þakkaði Guði fyrir að vera ekki eins og annað fólk en tollheimtumaðurinn barði sér á brjóst og áræddi ekki einu sinni að líta upp.
Og tollheimtumaðurinn var til fyrirmyndar, sagði frelsarinn.
Sumir vilja skilja það þannig að þar með eigi kristnum mönnum að líða sem báglegast.
Þótt ég þori að fullyrða að slíkt sé misskilningur er ég ekki viss um að hann sé óskiljanlegur.
Dyggðirnar hógværð og auðmýkt eru ekki það sama og það sem í dag er kallað minnimáttarkennd en ef til vill ruglum við þessu oft saman.
Það að iðrast er ekki ein tegund þunglyndis.
Það er fjarri sanni að kristnu fólki sé fyrirskipað að vera dapurt og finnast það vera minnimáttar, þótt því sé heldur ekki fyrirmunað að vera það.
En við erum þurfandi sálir, við erum sjálfum okkur ekki nóg og þótt við vitum það kannski ekki sjálf veit Guð það.
Myndin: Vetrarstemmning í Eyjafirði
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2010 | 08:54
Nýr Dagur
Vinur minn einn íhugaði búferlaflutning. Hann var að spá í að flytja úr plássinu þar sem hann hefur átt heima síðustu hálfu öldina og tékkaði því á hvað hann fengi fyrir fallega einbýlishúsið sitt þar.
Um er að ræða snoturt hús í fyrirmyndarástandi á prýðilegum stað.
Hann fengi heilar 11 milljónir fyrir húsið sem þau hjónin lögðu ævistarf sitt í.
Svona hús væri sennilega hátt í þrisvar sinnum dýrara hér á Akureyri og ég þori ekki að hugsa um hvað það kostar fyrir sunnan.
Annar vinur minn sem er í fasteignabransanum hér í bæ segir mér að hér sé fátt að gerast á því sviði. Fólk haldi að sér höndum.
Þó sé ekki óalgengt að fólk að sunnan kaupi hér einbýlishús til að nota sem orlofsíbúðir.
Sífellt sannfærist ég betur um að tvær þjóðir búi í þessu landi þótt ábyggilega séu þvílíkar staðhæfingar í sumra augum dæmigert landsbyggðarnöldur.
Þriðji vinur minn er í veitingabransanum. Hann segist borga 16 sinnum meira í flutningskostnað en kollegar hans fyrir sunnan.
Þetta eru aðeins örfá dæmi um málefni sem snerta hag landsbyggðarinnar en er sárasjaldan minnst á í fjölmiðlum.
Það er kannski ekki nema von því fjölmiðlarnir eru allir fyrir sunnan.
Við þurfum nýjan fjölmiðil á Íslandi. Nú er pláss fyrir hann.
Það er brýn þörf fyrir fjölmiðil á landsvísu sem er í hæfilegri fjarlægð við elítukraðakið í Reykjavík.
Fjölmiðlar eru að störfum vítt og breitt um landið. Héraðsblaðafánan er fjölskrúðug. Af hverju ekki að virkja hana í þessu skyni?
Öflugur netmiðill væri fín byrjun.
Myndin: Þessi stolti hundaeigandi er innbæskur Akureyringur frá Patreksfirði. Hundarnir hans, Lady og Prins, fengu sér labbitúr í góðviðrinu sem verið hefur hérna fyrir norðan að undanförnu - og er nánast alla daga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.3.2010 | 21:29
Hestaheilsa og hrossamegrun
Nú þegar æseiv er lagst í dvala eru þær fréttir helstar að feitt fólk hefur skorið upp herör gegn eigin holdafari og bryður í því skyni töflur sem gefnar eru hrossum í andnauð.
Hvernig í ósköpunum datt fólki í hug að lyf ætluð hestum sem eiga erfitt með að anda gætu hugsanlega dugað gegn offitu hjá mannfólki?
Þótt ég efist ekki um að uppátækið sé stórvarasamt get ég ekki annað en hrósað þessum meðalaætum fyrir frjóa og skapandi hugsun.
Hrossaandnauðarmegrunarlyfin voru einnig til umfjöllunar í Kastljósi kvöldsins. Þar varaði læknir við þessum megrunarkúr og lét ekki þar við sitja:
Hún sagðist hvorki hafa trú á kúrum né einhverjum skyndilausnum.
Mikið gladdist mitt forherta og trénaða íhaldshjarta við að heyra það.
Skyndilausnir eru nánast aldrei góðar, hvort sem um er að ræða megrun eða annað.
Ef á annað borð þarf að breyta hlutunum er best að gera það hægt og bítandi til að maður fari ekki fram úr sjálfum sér.
Þegar konan mín biður mig um að hjálpa sér við að breyta í stofunni er ég sjálfum mér samkvæmur. Ég tek dræmt í tillögur um breytingar og er þeim andsnúinn nema sýnt sé fram á nauðsyn þeirra með skýrum rökum.
Og taki ég þeim rökum fer ég undurvarlega í breytingarnar fái ég nokkru ráðið - sem reyndar er sjaldnast.
Það er yfirleitt alltaf betra að gera hlutina hægt.
Allt gott í veröldinni verður enn betra fái það að þróast með hægðinni.
Allar nautnir eflast og auðgast ef maður treinar sér þær og dregur þær á langinn.
Það er gott að leggja af en enn betra er að grennast svo hægt að það sjáist varla.
Ég passa mig á að leggja bara pínulítið af í einu og ef vigtin sýnir óhófleg stökk gríp ég til viðeigandi ráðstafana með tertuáti og kyrrsetum.
Hrossalyfjafréttin minnir mig á að fyrir allmörgum árum var starfrækt lítil og snotur byggingavöruverslun hér á Akureyri.
Þar var meðal annars höndlað með veggfóður.
Veggfóðurslím var auðvitað líka selt í búðinni. Það var í duftformi. Að sögn kaupmanns átti að leysa það upp í volgu vatni og bera það síðan á veggfóðrið með þar til gerðum kústi.
Fylgdu húsbyggjendur þeim leiðbeiningum út í haugahörgul en samt gekk bölvanlega að fá betrekkið til að tolla á veggjum.
Líminu fylgdu leiðbeiningar á þýsku. Einn pirraður viðskiptavinur leitaði til þýskumælandi vinar síns og bað hann að þýða fyrirmælin á límpökkunum.
Í ljós kom að kaupmaður hafði rétt fyrir sér. Duftið átti að hræra út í volgu vatni.
Meinið var að slepjan sem við það myndaðist var ekki ætluð til að líma veggfóður á veggi.
Það átti að bera hana á girðingarstaura til að forða því að hestar nöguðu þá.
Myndin: Ég hitti þennan hest í Skálholti síðasta haust og hann tók andköf af hlátri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.3.2010 | 13:58
Lygin og ágirndin
Fjármálakerfi heimsins virðist eiga sér tvær höfuðstoðir.
Annars vegar byggist það á orðrómi. Ekki hið raunverulega virði hlutanna skiptir máli heldur hvernig talað er um virði hlutanna.
Gjaldþrota bönkum má bjarga með því að tala þá upp og stöndug fyrirtæki er hægt að eyðileggja með því að tala þau niður.
Lygin er önnur höfuðstoð fjármálakerfisins.
Hin undirstaða fjármálakerfisins er ágirndin. Þar er hvorki meira né minna en um dauðasynd að ræða.
Menn eru að þessu til að græða. Til að eignast og verða sífellt ríkari.
Kerfi þar sem daðrað er við lygina og lagst með græðginni er dæmt til að falla.
Ég læt gamla gátuþulu um lygina fylgja þessum orðum.
Lygin kemur víða við eins og fram kemur í þulunni.
Kringum oss flækist eitt kvikindisgrey.
Kvikindi þetta sé ég núna,
fótalaust, höfuðlaust, þei, þei, þei!
Þarna höfum við gömlu frúna.
Gamla fúin er í gömlu hettunni,
gengur þó staflaust á hæðum og sléttunni,
skjögrandi, veltandi, skríðandi, smjúgandi,
skoppandi, hoppandi, stökkvandi, fljúgandi,
laðandi, geisandi, lötrandi, fjúkandi,
líðandi, þrammandi, dansandi, rjúkandi
fer hún um gjörvallan gamlan heim.
Gestinum taka menn höndum tveim.
Í Ástralíu og Ameríku
álíta flestir hana píku.
Einstöku menn segjast ei vilja sjá hana.
Alls staðar býr hún,
öllu við snýr hún,
fjölræðin er hún,
furðumargt sér hún.
Hún á bú í brunnunum
og burðarkvenna munnunum.
Hún tekur víns úr tunnunum
tappann og segir: Gott!"
Hún predikar með prestunum,
hún prangar gömlu hestunum,
hún liggur í vagnalestunum
og lifir nokkuð flott.
Oft er hún falin í fallegu nöfnunum,
feitlagin er hún í stórbókasöfnunum.
Fylgir hún ætíð og alls staðar póstunum,
ungfrúnna stundum hún hallast að brjóstunum.
Hún setur dómþing með dáins vörum,
hún drýpur af manna og kvenna svörum,
hún skrafar í réttarskjölunum,
hún skríkir í fundarsölunum,
hún flakkar á leikhúsfjölunum,
hún fyllir kirkjur af reyk.
Hún slær bumbu í blöðunum,
hún blindar flesta í stöðunum,
breiðist út hjá blöðunum
við borð hún situr keik.
Ómandi í ljóðunum,
laðandi í hljóðunum,
ískrandi í peysunum,
pískrandi í hreysunum.
Hún er sá andsvali ísþokumökkur
sem ísböndum reyrir mannkynið allt.
Hún er það eilífa alheimsrökkur.
sem allt gerir dimmt og kalt.
Þula þessi birtist í þriðja bindi Heimdraga (Reykjavík 1967). Þar er sagt að hún gæti verið eftir Eirík á Brúnum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.3.2010 | 23:26
Þjóðstjórn og kosningar
Nú er þjóðin búin að hafna ísklafasamningi ríkisstjórnarinnar.
Þá er viðkvæði þeirra sem bjuggu til samninginn sem enginn vill að þeir beri ekki ábyrgð á Icesave.
Ég geri mér grein fyrir að hvorki Jóhanna né Steingrímur stofnuðu til þeirra reikninga á sínum tíma.
Ég veit líka að sennilega ber enginn flokkur jafn litla ábyrgð á því að þeir urðu til og VG.
Og enginn meiri en Sjálfstæðisflokkurinn.
En VG ber sína ábyrgð á samningnum um Icesave-greiðslurnar.
Hann reyndist vondur.
Svo vondur að ekki einu sinni þeir sem gerðu hann treystu sér til að mæla með honum í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Lögfræðingur sem tekur að sér að semja um skaðabætur vegna skemmdarverka getur ekki losnað við ábyrgð á lélegum samningi með því að segja að hann hafi jú ekki framið spellvirkin sjálfur.
Fjórflokkurinn ber sameiginlega ábyrgð á ísklafamálinu.
Nú er kominn tími til að hann snúi saman bökum við að leysa það og önnur brýn mál.
Við þurfum þjóðstjórn til valdra verkefna.
Að mínu mati þarf að kjósa hér ört næstu árin. Endurnýjun þarf að eiga sér stað í íslenskri pólitík.
Hún á sér ekki stað nema með öflugu aðhaldi okkar kjósenda.
Myndin er tekin á lóð Háskólans á Akureyri. Þótt hann sé inni í miðjum bæ er stutt í fallega náttúru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.3.2010 | 11:34
Höktandi lífsandinn
Því hefur verið haldið fram að rökrétt sé af þeim Jóhönnu og Steingrími að sitja heima í dag og gefa þjóðaratkvæðagreiðslunni langt nef.
Taka má undir það.
Verið er að greiða atkvæði um lög sem þau Jóhanna og Steingrímur mæltu eindregið með á sínum tíma.
Í desember síðastliðnum sagði Steingrímur þetta um lög nr. 1/2010 við 3. umræðu á Alþingi:
Frú forseti. Ég greiði þessu frumvarpi atkvæði og ég mæli með því að það verði samþykkt vegna þess að það er bjargföst sannfæring mín að það sé betri kostur fyrir Ísland og það firri meira tjóni en að gera það ekki. Í krafti þessarar sannfæringar minnar greiði ég atkvæði með góðri samvisku þótt ég viðurkenni um leið að því fylgir þung ábyrgð. Undan þeirri ábyrgð víkst ég ekki. Ég hef ekki eytt tæpum 27 árum ævi minnar hér til að víkjast undan ábyrgð eða flýja það (Gripið fram í: Snýst ekki um þig.) að taka erfiðar ákvarðanir þegar þær eru óumflýjanlegar. Ég hef engan mann beðið og mun engan mann biðja að taka neitt af mínum herðum í þessum efnum. Ég trúi því (Gripið fram í.) að sagan muni sýna að við séum hér að gera rétt, að endurreisn Íslands, sjálfstæðs og velmegandi í samfélagi þjóðanna, muni verða sönnunin. Ég mun reyna að leggja mitt af mörkum til að svo verði (Forseti hringir.) meðan lífsandinn höktir í nösum mér og ég má vinna Íslandi nokkurt gagn. [Háreysti í þingsal.] (Forseti hringir.)
Nokkrum dögum áður, 2. 12., sagði hann þetta á sama stað:
Ég er ekki að biðja nokkurn mann um að taka neina pólitíska ábyrgð af mínum herðum, ekki heldur í Icesave-málinu,en má ég þá ekki bara bera ábyrgð á því, má ég ekki bara fá að gera það? Mega ekki bara þeir þingmenn sem eru komnir að þeirri niðurstöðu að lengra verði ekki komist og þessu máli verðum við einhvern veginn að ljúka til að komast áfram almennt séð í okkar verkefnum, okkar erfiðu glímu við erfiðleikana, er ekki dálítill réttur á ferðinni þar að við fáum þá bara að gera það?
Nú, nokkrum mánuðum eftir að Steingrímur lét hin stóru orð falla um ágæti laganna og nauðsyn, treystir hann sér ekki til að samþykkja þau í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þá er kannski ekki um annað að ræða en sitja heima.
Þau Jóhanna og Steingrímur vilja telja okkur trú um að nú sé annar og betri samningur á borðinu en sá sem þau mæltu svo sterklega með í desember, að þau voru viss um að lengra yrði ekki komist.
Í Kastljósi í gær bar Steingrímur þetta til baka.
Þar spurði Helgi Seljan Steingrím að því hvort ekki hefði verið rétt af forsetanum að vísa lögunum til þjóðarinnar fyrst fyrir liggi betri samningur en þá átti að samþykkja.
Svar Steingríms var:
Nú er það því miður þannig að við erum ekki búin að ná þessum samningum en við skulum vona að það takist.
Síðar í þættinum var Steingrímur spurður að því sama og þá áréttaði hann að nýr samningur lægi ekki á borðinu. Málefni Íslands væru enn í mikilli óvissu, engin niðurstaða væri komin í málið og enn ætti eftir að brúa bil eða eins og hann orðaði það:
Ef við náum fram farsælli niðurstöðu og það tekur ekki of langan tíma en málið lenti inn í mikla óvissu og málefni Íslands eru í mun meiri óvissu af þessum sökum. Við erum ekki komin í höfn með niðurstöðu. Við skulum bara vera bjartsýn og trúa á að það takist. Við munum reyna allt sem við getum til þess - og ég - en það er auðvitað ekki í höfn og við vitum að það er erfitt að brúa þarna ákveðið bil sem er milli aðila.
Steingrímur og Jóhanna keppast við að gera lítið úr lýðræði þjóðaratkvæðagreiðslunnar á morgun. Þau segja að best sé að sitja heima því fyrir liggi betri samningur.
Nú hefur Steingrímur borið það til baka.
Betri samningur liggur ekki fyrir þótt vel hafi miðað í samningaviðræðunum.
(Og NB samningaviðræðum sem aldrei hefðu orðið að veruleika ef Jóhanna og Steingrímur hefðu fengið að ráða.)
Lögin nr. 1/2010 eru enn í fullu gildi.
Æðstu ráðamenn þjóðarinnar gefa lýðræðinu langt nef til þess að breiða yfir þá staðreynd að þau geta ekki með nokkru móti stutt lög sem þau sjálf á sínum tíma börðust fyrir með kjafti og klóm.
Og lögðu sig að veði í þeirri baráttu.
Myndin er úr Glerárgili
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)