Færsluflokkur: Bloggar
3.3.2010 | 22:53
Spuninn gegn lýðræðinu
Nú eru allar líkur á að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu á laugardaginn, þeirrar fyrstu í minnum miðaldra manna.
Alls konar spuni er í gangi um atkvæðagreiðsluna.
Sumir segja að málið henti illa. Það sé of flókið.
Því er ég ekki sammála. Valkostirnir eru tveir. Annað hvort segir maður já eða nei.
Ef ég segi já vil ég að lög nr. 1/2010 haldi gildi.
En segi ég nei vil ég að sömu lög falli úr gildi.
Svo er auðvitað hægt að skila auðu.
Ef allir skiluðu auðu yrði sú þögn skilin sem samþykki.
Lögin eru ekkert sérstaklega flókin ef maður hefur fyrir því að kynna sér þau.
Það má til dæmis gera hér.
Um þessi lög sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í andsvari á Alþingi 22. október síðastliðinn:
Hér er málið hins vegar komið í skýran og endanlegan og einfaldan búning.
Ekki ætti að vera neinni sæmilega skynsamri þjóð ofviða að taka afstöðu til máls í skýrum og einföldum búningi
En engu að síður spretta upp menn sem finna þessari atkvæðagreiðslu allt til foráttu.
Þeir segja að heimskulegt sé að kjósa um lögin þar sem annar betri samningur sé í boði.
Því er best að svara með því að benda á enn hefur ekki verið samið - nú þegar þessar línur eru skrifaðar.
Þess vegna eru lögin sem kjósa á um enn í gildi.
Og hvað er svona heimskulegt við að kjósa um lög sem eru í gildi?
Aðrir halda því fram að fólk viti ekki hvað það sé að kjósa um.
Ég leyfi mér að mótmæla því.
Spurningin á kjörseðlinum er skýr. Spurt er hvort tiltekin lög eigi að halda gildi eða falla úr gildi.
Skilja ekki jafnvel öflugustu fábjánar þannig spurningu?
Andstæðingar kosningarinnar saka kjósendur um að misskilja málið. Þeir haldi t. d. að með því að segja nei geti Ísland sloppið við að borga Icesave.
Þar eru held ég sjónarmið á ferðinni sem eru hættuleg lýðræðinu.
Kjósendur geta haft ýmsar ástæður til að hafna lögum nr. 1/2010.
Hluti þeirra telur að Ísland eigi að borga en samningurinn sé ekki nógu góður.
Aðrir telja að kanna verði betur hver ábyrgð Íslands sé áður en gengið verði frá samningum.
Enn aðrir telja að Íslandi beri ekki að borga neitt.
Til eru þeir sem ætla að segja nei til að gera útaf við heimskapítalismann.
Og ábyggilega vilja einhverjir fella lögin úr gildi bara til að freista þess að fella stjórnina um leið.
Þeir sem vilja að lög nr. 1/2010 haldi gildi geta líka skýrt það með ýmsum rökum.
Sumir vilja bara klára málið.
Aðrir meta kostnað við töfina meiri en hugsanlegan ávinning.
Enn aðrir segja já af ótta við að annars falli stjórnin.
Svo gæti einhverjum bara þótt ofboðslega vænt um kapítalismann.
Í lýðræði fær fólk að velja og fær að hafa ýmsar ástæður fyrir vali sínu, jáum og neium.
Og fólk réttlætir það að skila auðu með ýmsu móti.
Ég get kosið stjórnmálaflokk af tilteknum ástæðum og svo getur einhver annar maður séð eitthvað allt annað aðlaðandi við sama flokk.
Hver hefur sína ástæðu fyrir vali sínu, jái, neii eða þögn.
Þannig er lýðræðið í skýrum og einföldum búningi.
Myndin: Þessi snjókorn komu sér saman um að falla á þennan stubb og þröngt mega sáttir sitja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.3.2010 | 21:20
Lafa milli foto
Egill Helgason er einn þeirra sem hefur húmor fyrir súrmetisgríni Símans en ekki athugasemdum landbúnaðarráðherra um auglýsinguna - þótt Jón Bjarnason sé miklu fyndnari en auglýsingin.
Verða ummæli ráðherrans Agli tilefni til að rakka niður okkar þjóðlega íslenska mat en ljúka lofsorði á evrópskt gúrmefæði.
Í athugasemd við eigin bloggfærslu segir Egill að þorramatur sé ógeðslegur á bragðið, ljótur fyrir augað og slepjulegur viðkomu".
Svoleiðis matvæli fyrirfinnast auðvitað ekki í útlöndum.
Pasta í ostasósu er ekki slepjulegt. Sniglakássa er unaðslega útlítandi. Kolkrabbi með grænum baunum er hnossgæti.
Allt eru þetta ítalskar krásir - og til útskýringar skal tekið fram að síðastnefndi rétturinn, seppie con piselli, er eitthvert mesta ómeti sem ég hef smakkað.
En auðvitað er ekki sama hvort maturinn er þjóðlegur eða cucina tipica.
Vinur minn ítalskur sagði mér að margt væri sameiginlegt með ítölskum mat og íslenskum.
Ítalir hefðu lengst af verið fátækir eins og Íslendingar og þurft að éta allt ætilegt.
Einfaldleikinn og nýtnin er aðalsmerki ítalskrar matseldar, sagði þessi vinur minn.
Í Napolí nýttu þeir blóðið úr svínunum með því að blanda því saman við brætt súkkulaði svo úr varð það sem kallað er sanguinaccio Napoletano.
Miðjarðarhafsmatur getur tekið á sig ekki síður forvitnilegar myndir en lundabaggar.
Á Ítalíu tíðkast til að mynda fegatelli, svínslifur, vafin í líknarbelgsmör, en mynd af þeim fágætu kræsingum prýðir þessi skrif.
Ég man eftir því að fyrir mörgum árum lét hið fornfræga veitingahús Bautinn prenta þorramatseðil með ítölskuðum nöfnum á hinum umdeilda íslenska þorramat til að ljá honum evrókratískan blæ.
Heiti hrútspunga á þeim menú er fyrirsögn færslunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.2.2010 | 11:58
Blessuð kreppan

Á Íslandi er allt löðrandi í vatni, bæði í fljótandi og frosnu formi. Það er vatn yfir í Vaðlaheiði. Fjörðurinn milli heiðarinnar og Akureyrar er fullur af vatni. Og ekki vantar það þegar í bæinn er komið. Hér liggur vatn á götum og það gutlar í rennusteinum og niðurföllum. Vatn ólgar í þakrennum og lemur rúður. Þyrst fólk skrúfar frá krönum og fyllir glös af ísköldu vatni. Her manns buslar í sundlaugum eða flatmagar í heitum pottum. Þreytt fólk lætur renna í bað þegar það loksins kemst heim og óþreytt fólk fær sér sturtubað til hressingar eftir nætursvefninn áður en það heldur til vinnu. Ýsan soðnar í bullandi heitu vatni. Rjúkandi vatni er hellt yfir kaffiduftið svo af verður ljúf angan sem gleður nefið og yndislegt bragð sem tungan tekur fagnandi.
Vatnið er alls staðar. Við erum alltaf með það fyrir augunum. Við heyrum það sullast og finnum það á skinninu. Við látum það renna niður hálsana. Vatn er Íslendingi næstum því jafn sjálfsagt og eðlilegt og fiskum.
Í sjónvarpsfréttum var verið var að segja frá ferð íslensku rústabjörgunarsveitarinnar til Haítí. Eins og kunnugt er varð sveitin fyrst á vettvang eftir hamfarirnar sem þar urðu. Aðkoman var skelfileg. Allt var hrunið. Ekkert í lagi. Ekki rafmagn og ekki vatn. Meira að segja almannavarnanefndin var týnd.
En Íslendingarnir höfðu með sér nóg af vatni og íslenska vatnið var eitt af því sem vakti athygli í skelfingunni þar syðra. Í fréttatímanum sáum við myndir af íslensku vatni á flöskum í einhverjum mestu náttúruhamförum sem orðið hafa í veröldinni á okkar tímum. Og þó að það hafi auðvitað ekki verið í því magni að það hafi skipt sköpum fyrir fólkið á Haítí sáum við þetta hreina og tæra vatn þarna í nýju ljósi. Við sáum hvað það er í raun og veru dýrmætt, vatnið. Við vorum minnt á að vatnið er lífsspursmál fyrir manneskjuna. Og við, Íslendingarnir, sem höfum vatn á alla kanta, vorum áminntir um að vatnið er, þrátt fyrir allt, hvorki sjálfsagt né sjálfgefið.
Og það er oft þannig, að þegar við sjáum hlutina í nýju ljósi, í öðru umhverfi en venjulega, öðru samhengi, þá gerum við okkur grein fyrir verðmæti þeirra. Þá lýkst upp gildi þeirra fyrir okkur. Þá sjáum við þá í fyrsta skiptið og við finnum að það er satt sem sagt hefur verið að hægt sé að sjá hluti margoft án þess að sjá þá í raun og veru.
Það sama á við um manneskjur. Oft höfum við þekkt manneskju árum saman án þess að hafa séð hana í raun og veru. Nýjar aðstæður laða fram óþekktar hliðar í persónunni þannig að við uppgötvum að við erum búin að þekkja hana í lengi án þess að þekkja hana.
Vatn er hversdagslegt og samferðafólkið er venjulegt. Það er hellingur af hlutum og fólki sem okkur finnst svo sjálfsagt og sjálfgefið að við leiðum sjaldan hugann að mikilvægi þess eða gildi.
Og kannski er fátt sjálfsagðara og sjálfgefnara, fátt sem er okkur eðlilegra og nálægara, en okkar eigin tilvist. Stundum látum við nægja að lifa bara án þess að hugsa um það. Við berumst áfram með straumnum og pössum okkur á því að gára ekki hinn viðkvæma flöt mannfélagsins. Um okkur er ef til vill hægt að segja eins og sagt var um kallinn: Sú staðreynd að hann er dáinn er enginn sönnun þess að hann hafi lifað."
Oft leiðum við fyrst hugann að eigin tilveru þegar óvæntir atburðir verða. Áföll, slys, ósigrar, vonbrigði, allt þetta getur orðið til þess að við þurfum að endurmeta okkur sjálf. Ég hef heyrt marga tala um að einmitt í þessu felist stærsta tækifæri kreppunnar; hún bjóði okkur að taka allt til gagngerrar endurskoðunar, ekki síst okkur sjálf, okkar eigin líf, viðhorf, lífshætti og gildi.
Daglega berast okkur fréttir af siðlausu viðskiptalífi, sofandi eftirlitsstofnunum og vanmáttugum stjórnmálamönnum. Við erum á fullu við að nota vísifingurinn. Hann brást!" Þessi á að segja af sér!" Rauða málningu á þetta hús!"
En ef við klikkum á því að taka okkur sjálf til endurskoðunar í ljósi þess sem gerst hefur mun sagan endurtaka sig og hún endurtekur sig þangað til einhver nennir að hlusta.
Myndin er af frosnu og rennandi vatni í Vaðlaheiði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.2.2010 | 09:57
Nú skal þegja!
Ég hef mínar meiningar í Evrópusambandsmálum þótt ekki séu það sannfæringar digrar.
Umræðan um málið hefur því miður einkennst af blekkingum, öfgum, upphrópunum og nú síðast tilraunum til þöggunar.
Annars vegar eru þeir sem líkja ESB við gamla Sovét og aðildarsinnum við landráðamenn.
Hins vegar eru þeir sem sjá öll vandamál hverfa við inngöngu Íslands í Sambandið og segja andstæðinga þess forpokaða einangrunarsinna sem séu á móti alþjóðlegri samvinnu.
Til hverrar sögu ber jafnan nokkuð eins og kallinn sagði. Umsókn Íslands um aðild að ESB átti sér aðdraganda.
Aðdragandinn var sá að með umsókninni átti að láta reyna á hversu góðum samningi væri hægt að ná.
Það var í raun ekki verið að sækja um aðild heldur miklu fremur verið að kanna jarðveginn - enda var stundum talað um aðildarumsóknina sem könnunarviðræður - þótt sumir fræðimenn tali núna um aðildarferli.
Nýjasta trendið í ESB-umræðunni er að nú vilja aðildarsinnar endilega þagga niður í þeim sem eru mótfallnir aðild.
Alþingi sé búið að samþykkja að sækja um aðild og nú megi ekki trufla samninganefndina með einhverjum efasemdum um gagnsemi þess að Ísland gangi í ESB.
Þeir frábiðja sér umræðu því hún gæti skemmt samninginn.
Ef ég væri eindreginn aðildarsinni þætti mér auðvitað mikilvægt að geta lagt sem bestan samning fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar.
Því betri samningur þeim mun meiri líkur eru á að þjóðin samþykki að ganga í ESB.
En aðildarsinnar fóru ekki þá leið.
Þeir sóttu um án þess að hafa haft þjóðina með sér í því. Og þeir sóttu um þegar þjóðin er með buxurnar á hælunum í efnahagsmálum og samningsaðstaðan afleit.
Þeir sóttu um þegar líkurnar á slæmum samningi eru hvað mestar.
Og sussa núna á þjóðina þegar hún leyfir sér að efast.
Myndin: Mér fannst við hæfi að hafa evrópska mynd með þessari færslu því þrátt fyrir efasemdir mínar um ágæti skrifræðisbáknsins í Bruessel er ég einlægur Evrópusinni. Myndina tók ég fyrir nokkrum árum í gönguferð upp á höfuð Mússólínis á Mörkum í Ítalíu. Áletrunin hljóðar: ZONA DEBERLUSCONIZZATA.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.2.2010 | 21:40
ESB-fréttamennska Ríkisútvarpsins
Það er hægt að segja satt með ýmsu lagi og sennilega hefur maður ekki um færri möguleika að velja ef segja á ósatt.
Það fannst mér sannast í fréttum RÚV í kvöld af ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um hvort Ísland væri tækt til aðildarviðræðna við sambandið.
Strax í kynningu fréttarinnar er tvennt athugavert. Kynningin hófst á þessum orðum:
Ísland uppfyllir öll skilyrði um aðild að Evrópusambandinu...
Þetta er í fyrsta lagi ekki rétt. Hér er um að ræða skilyrði til aðildarviðræðna eins og sést í fréttinni sjálfri.
Í öðru lagi: Eftir að fréttakona hafði í kynningu fullyrt að Ísland uppfyllti öll skilyrði um aðild að Evrópusambandinu hófst upptalning á þeim skilyrðum sem landið uppfyllir ekki eða eins og það var orðað:
...en þarf að breyta lögum um fiskveiðar og landbúnað vilji landið ganga í sambandið.
Þarna er með öðrum orðum sagt að Ísland þurfi að breyta lögum um fiskveiðar og landbúnað vilji landið ganga í sambandið - sem er ekki alveg það sama og að uppfylla öll skilyrði.
En þessu var ekki lokið. Eftir kynninguna og staðhæfinguna um að öll skilyrði væru uppfyllt - nema þessi um fiskveiðar og landbúnað - var vitnað í Fuele, stækkunarstjóra ESB, sem segir markaðshagkerfið íslenska ráða við að vera á innri markaði ESB (eins og íslensku bankarnir sönnuðu, mitt innsk.), að því gefnu að regluverk hér verði lagfært".
Ísland uppfyllir sumsé öll skilyrði - nema um fiskveiðar og landbúnað - og svo þarf reyndar líka að lagfæra regluverk hér á landi eigi landið sem uppfyllir öll skilyrði um aðild að ESB að vera tækt í ESB.
Ef til vill lítur fréttastofa RÚV þannig á að fiskveiðar, landbúnaður og regluverk um íslenskt hagkerfi sé slíkur tittlingaskítur að ekki taki að telja það með í skilyrðum fyrir aðild að ESB?
En fréttin hélt áfram og áfram hélt fréttastofa RÚV að éta ofan í sig fréttina sem hún flutti þjóðinni um að Ísland uppfyllti öll skilyrði um aðild að ESB. Næst voru rakin ummæli stækkunarstjórans, sem lét ekki nægja að bæta lagfæringum á regluverki á listann yfir óuppfyllt skilyrði landsins, heldur hélt áfram og sagði að
...ýmislegt annað þurfi að bæta á Íslandi, eigi landið að ganga í sambandið..
Eða með orðum stækkunarstjórans sjálfs:
Þessi svið spanna allt frá sjálfstæði dómstóla til markaðs- og efnahagsmála, landbúnaðar, fiskveiða og umhverfismála svo fátt eitt sé nefnt.
Samkvæmt fréttinni ætlar ESB ekki að tengja Icesave-deiluna umsókn Íslands en þó segir stækkunarstjórinn þetta í sömu frétt:
þá tel ég að framkvæmdastjórn ESB kveði skýrt á um afstöðu sína að hún fylgist mjög nákvæmlega með því að Íslendingar sýni bæði getu sína og vilja til að taka upp og fara að lagasetningu Evrópusambandsins í þessu samhengi.
Enga spekinga þarf til að sjá hvað það þýðir á mannamáli:
Hér er um að ræða enn eitt skilyrðið sem Ísland á eftir að uppfylla til að verða tekið í söfnuð réttlátra.
Það er margt athugavert við þessi vinnubrögð fréttastofu RUV. Mikilvægt er að umsókn Íslands um aðild að ESB fái heiðarlega umfjöllun í fjölmiðlun til að þjóðin geti tekið upplýsta ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi frétt gefur ekki tilefni til bjartsýni um slíka umfjöllun.
Sannleikurinn í málinu er sá að Ísland á eftir að uppfylla fjölda skilyrða áður en landið getur gerst aðili að ESB, þvert ofan í það sem fréttastofan fullyrðir.
Myndin: Horft suður yfir ísilagt Ólafsfjarðarvatn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.2.2010 | 23:46
Víst refsa bankar, Gylfi!
Fróðlegt var að heyra viðtal Helga Seljan við Gylfa Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, í Kastljósi kvöldsins.
Leikmaður eins og ég skilur vel það sjónarmið að fara verði vel með eignir bankanna eins og ráðherrann benti á.
En síðan bætti Gylfi við:
...margir vilja ganga lengra og setja bönkunum nánast einhver siðferðileg eða pólitísk markmið
Ekki leist íslenska viðskiptaráðherranum vel á það.
Og auðvitað er það arfavitlaus hugmynd að vilja setja bönkunum einhver siðferðileg markmið.
Hvað þá pólitísk.
Eða þá að gera bankana "hluta af refsikerfinu" eins og viðskiptaráðherrann kallaði það.
Það er nú svo galin hugmynd að varla má nefna hana - eða svo skildi ég ráðherrann.
Ráðherrann gat þess ekki að bankarnir refsa fólki grimmilega.
Meðaljóninn sem ekki getur greitt skuldir sínar fær ekki fyrirgreiðslu í bönkum.
Kortin eru tekin af honum.
Húsið & bíllinn.
Hann er hundeltur af bönkunum alla sína ævi.
Svo sannarlega eru bankarnir hluti af refsikerfinu.
Þegar efnahags- og viðskiptaráðherra gapir af hneykslan yfir því að menn skuli vilja setja bönkunum einhver siðferðileg markmið og vera svo galnir að ætla að gera bankana hluta af refsikerfinu er hann ekki að tala um meðaljóninn í þessu landi.
Hann er að tala um þá sem skulda bönkunum mest og hafa valdið þjóðinni hvað mestum efnahagslegum skaða.
Bankarnir mega ekki refsa þeim.
Og þegar sá aðall á í hlut má ekki setja bönkunum nein siðferðileg eða jafnvel pólitísk markmið.
Þetta er eina skjaldborgin sem stjórnvöld virðast hafa hug á að búa til.
Myndin er tekin frammi í firði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.2.2010 | 22:00
Amma og Icesave
Prófessor Þórólfur Matthíasson segir íslenska kjósendur bera ábyrgð á Icesave.
Það má til sanns vegar færa. Enginn deilir held ég um það lengur að ófullnægjandi eftirlit er ein ástæða þess að svo fór sem fór.
Þeir sem áttu að sjá um eftirlitið voru valdir af stjórnmálamönnum og stjórnmálamennirnir voru kosnir af kjósendum.
Íslenskir kjósendur bera því sinn skerf af ábyrgð í þessu máli.
En fleira verður að taka með í reikninginn.
Í fyrsta lagi hafa málsmetandi menn, innlendir sem erlendir, bent á að eftirlitið hafi ekki alfarið átt að vera á ábyrgð Íslendinga.
Því er haldið fram að breska og hollenska eftirlitið hafi líka brugðist.
Sé það rétt er má nota rök Þórólfs til að benda á ábyrgð breskra og hollenskra kjósenda á Icesave. Í þeim löndum eru sömu lögmálin virk og hér; eftirlitsmenn eru valdir af stjórnmálamönnum og stjórnmálamenn kosnir af kjósendum.
Engu að síður særir það réttlætiskennd mína að hægt sé að gera fólk ábyrgt fyrir mistökum sem það átti engan þátt í að gera og hafði ekki hugmynd um fyrr en þau voru orðin að veruleika.
Íslenskir kjósendur vissu fæstir um þær hættur sem fólust í Icesave-reikningunum.
Hvorki hætturnar né lélegt eftirlit voru í umræðunni hér á landi.
Vissulega vöruðu einhverjir við veikri stöðu bankanna en stjórnmálamenn og fjölmiðlar kepptust við að bera til baka slíkar efasemdir - auk bankanna sjálfra.
Og ekki bárust beinlínis háværar aðvörunarraddir frá hagfræðingum þjóðarinnar.
Mig minnir að einhverjir þeirra hafi meira að segja átt þátt í að veita Icesave-snilldinni markaðsverðlaun.
Og þá er ég að tala um háskólahagfræðinga á borð við prófessor Þórólf sem núna skrifar í blöðin að ég og hún amma mín beri ábyrgð á Icesave.
Svo verð ég líklega afi þeirra sem borga brúsann.
Þetta hlýtur að teljast glæsileg niðurstaða.
Myndin er úr Naustaborgum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.2.2010 | 23:52
Höfuðborgarhrokinn
Þessi frétt er á margan hátt dæmigerð fyrir ástandið á landi voru.
Hún fjallar um mann sem situr beggja vegna borðs.
Hrunsagan einkennist meðal annars af því að sama fólkið kemur aftur og aftur við hana á sífellt nýjum stöðum.
Hann er í stjórn fyrirtæksins sem lánaði fyrirtæki sem kom með nýtt hlutafé í fyrirtæki sem skuldaði fyrirtækinu sem hann á.
Svo var Fjármálaeftirlitið að rannsaka málið og fól syni hans að gera það.
Mágkona hans skrifaði svo frétt um málið í blað þar sem hún vann og blaðið var aftur í eigu mannsins sem er í stjórn fyrirtæksins sem skuldaði ofangreindu fyrirtæki pening.
Og hann var skólabróðir þingmannsins sem er að flytja frumvarp sem á að koma í veg fyrir að sömu nöfnin séu allt í öllu.
Þræðirnir liggja þvers og kruss.
Og flestir eru þeir í Reykjavík og næsta nágrenni.
Í flestum siðmenntuðum löndum gera menn sér grein fyrir hættunni sem fylgir því að hafa valdið allt á einum stað.
Það eykur hættuna á of miklum tengslum. Þess vegna grípa menn til úrræða gegn henni. Þar á meðal eru aðgerðir til að dreifa valdinu um landið.
Íslendingar hafa aldrei gefið neitt fyrir þessa hættu. Þótt hún sé enn meiri hér en víðast hvar annars staðar vegna fámennisins höfum við nánast allt á sama blettinum á þessu landi.
Stjórnsýsluna alla, fjölmiðlana og stórfyrirtækin.
Ástæðan fyrir þessu er höfuðborgarhrokinn.
Menn telja sér trú um að ekki sé hægt að hafa þetta öðruvísi. Reykjavík sé eini staðurinn á landinu.
Úti á landi séu ekkert nema gjaldþrota kaupfélög og þær fáu hræður sem þar hírist eigi sér enga ósk heitari en að flytja á hraunskagann á suðvesturhorninu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.2.2010 | 23:22
Pöddulaust Nýja Ísland
Sumarið 2000 dvöldum við hjá vinum okkar í Toskana á Ítalíu. Þau eiga sér sumarafdrep á eldgömlum herragarði, Bruciano, sem var einu sinni slíkt höfuðból að hann átti næsta þorp.
Forfaðir þess sem leigði vinum okkar hluta af sveitasetrinu vann það í fjárhættuspili.
Jarðhiti er á þessum slóðum og á setrinu voru rústir af laugum frá tímum Etrúska og aðrar minjar um þá.
Etrúskar voru á Ítalíu áður en Rómverjar urðu þar allt í öllu.
Nálægt Bruciano er ein merkasta borg Etrúska, Volterra.
Við fengum hrörlega íbúð yfir gamla fuglahúsinu. Þar var mjög fjörugt skordýralíf. Kvikindin fóru á kreik á kvöldin þegar ró hafði færst yfir. Fyrir svefninn var ég sendur af stað til skordýramorða vopnaður níðþungri fægiskóflu. Hana notaði ég á þúsundfætlur á stærð við SS-pylsur, köngulær sem minntu á skríðandi hamborgara og pattaralega sporðdreka.
Toskana-vínið er engu líkt og fékk ég mér duglega af því áður en ég lagði af stað í hernaðinn.
Síðasta kvöldið kramdi ég tarantúllu undir vopni mínu en þá var ég líka búinn að fá mér tvö staup af rauðvíninu.
Þetta rifjast upp fyrir mér núna því ég er að lesa bók um þessa fornu og stórmerku þjóð.
Etrúskar voru miklir smiðir og lögðu glæsilega vegi. Þeir voru snillingar í leirkeragerð og gullsmíði.
Etrúskar kenndu Rómverjum bæði víngerð og stafrófið.
Fáar þjóðir báru meiri virðingu fyrir trúarlegum siðum og gildum en Etrúskar. List þeirra sýnir að þeir kunnu að njóta lífsins. Etrúskar voru veisluglaðir og höfðu mikla unun af íþróttum og leikjum.
Sennilega var þeim ekkert dýrmætara en tónlistin. Þeir voru síspilandi. Jafnvel við hversdagslegustu störf var leikið undir á lútur og flautur.
Ég legg til að Nýja Ísland verði eins og hin forna Etrúría.
Þó án skorkvikindanna.
Myndina tók ég á gamlan filmuhjall út um gluggann á pödduíbúðinni okkar í Bruciano.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)