Færsluflokkur: Bloggar
9.2.2010 | 23:18
Hjálp í augnhæð
Fyrr eða síðar hneigjast öll kerfi til þess að vera til fyrir sig sjálf.
Kerfi verða til vegna mannlegra þarfa en í tímans rás fjarlægjast þau gjarnan þann uppruna sinn og fara að snúast um sig sjálf. Markmið þeirra verður að viðhalda sér sjálfum. Manneskjurnar sem þau voru búin til fyrir fara að verða til fyrir kerfin en þau ekki fyrir þær.
Kerfi eiga að veita þeim skjól sem skjól þurfa.
Skjólstæðingur er fallegt orð.
Stundum snýst þetta við og fólkið sem á að fá skjól af kerfunum verður skjól fyrir kerfin.
Fólk verður að viðfangsefnum. Vandamálum. Próblemum.
Kerfið sviptir það mennskunni, tappar af því mannhelginni.
Hér á öldum áður var velferðarkerfið ólíkt því sem við nú þekkjum. Þó var ekki síður til fólk sem þurfti skjól þá en nú.
Þá var skjólið ekki veitt á jafn kerfisbundinn hátt og nú.
Stefán Þorvaldsson halti var einn þeirra manna sem ekki gat verið á eigin framfæri. Hann gat ekki unnið vegna fötlunar og var þar að auki talinn einfaldur og lítill fyrir sér. Hans björg var að flakka á milli bæja í heimasveit sinni, Miðfirðinum, í þeirri von að hann nyti velvilja fólksins sem hann heimsótti, fengi húsaskjól og matarbita.
Sá velvilji var velferðarkerfi þess tíma.
En þótt Stefán væri bæði draghaltur og skrítinn virðist hann hafa gert sér grein fyrir eigin gildi; að hann væri manneskja eins og hinir sem gengu um óhaltir og voru eins og fólk er flest.
Þegar Stefán kom á bæ hafði hann fyrir sið að setjast niður á þröskuld eða pallskör og lesa upp úr Biblíunni. Jafnan byrjaði hann á sömu klausunni:
Hér er hvorki grískur né Gyðingur, þræll né frelsingi, karl eður kona, heldur erum vér allir eitt í Jesú Christo!
Þannig heilsaði þessi lítilmagni fólkinu sem hann leitaði ásjár hjá.
Hann minnti það á að sönn hjálp er ávallt veitt í augnhæð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2010 | 21:45
Hlátur í útlöndum
Ég hef sömu áhyggjur og Vilhjálmur Bjarnason.
Þeir sem réðu ríkjum fyrir hrun eru að ná tökum á viðskiptalífinu aftur.
Og ég held að þeir séu að ná tökum á landinu aftur.
Við erum að smella ofan í sama gamla farið.
Gamla auð- og valdastéttin fær gömlu fyrirtækin sín og gömlu fjölmiðlana. Gömlu skuldirnar eru strikaður út úr gömlu klöddunum.
Gömlu deilurnar eru endurvaktar. Sama gamla og þreytta liðið stjórnar umræðunni. Gömlu klisjurnar heyrast. Gömlu frasarnir lesast.
Það er enginn að segja neitt nýtt.
Gamla íslenska minnimáttarkenndin blossar upp. Í sumum kreðsum vita menn ekkert skelfilegra en að verða "aðhlátursefni í útlöndum".
Að hverju skyldu menn hlæja í útlöndum?
Liðinu sem náði að krafla sig upp á veginn eftir að drukkinn bílstjóri hafði keyrt rútuna út af og lætur það verða sitt fyrsta verk að setjast upp í alveg eins rútu hjá alveg eins drukknum bílstjóra?
Og kallar það endurreisn.
Myndina tók ég við Glerána í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.2.2010 | 21:02
Blessaðir lykilmennirnir
Það er hárrétt sem fram kom hjá Finni Arajóni í Kastljósi kvöldsins:
Menn sem tapa fimmtíu þúsund milljónum á því að vera svo árum skiptir nánast einráðir á íslenskum matvörumarkaði hljóta að teljast lykilmenn í rekstri.
Svoleiðis snillinga verður bankinn hans Finns Arajóns að verðlauna.
Banki sem verðlaunar slíka afreksmenn með nokkurra tuga milljarða afskriftum á skuldum mun ávinna sér traust meðal okkar hinna sem horfum upp á skuldirnar okkar bólgna út.
Og banki sem afhendir þeim fyrirtækin sem hafa rekið þau í þrot mun eignast sinn sess í hjörtum okkar hinna sem horfum upp á eignarhluti í fasteignum okkar brenna upp.
Auðvitað er engum treystandi til að selja Íslendingum matvæli nema þessum lykilmönnum Finns Arajóns.
Leikfléttan er fullkomin:
- Fyrst róar maður liðið og fullyrðir að engar skuldir verði afskrifaðar, sbr. þessa frétt. Athugið sérstaklega athugasemdina frá Högum sem fylgir fréttinni.
- Síðan lætur maður líða dágóðan tíma og svæfir minni fólks.
- Eftir bið í þolinmæði hristir maður fram úr erminni gamlan milljarð og tryggir sér fjölmiðlana sína.
- Þegar því er lokið er tími kominn að hrinda af stað ferli sem endar með dágóðum skuldaafskriftum og tryggir að fyrirtækið haldist í eigu "lykilmannanna".
- Ferlið verður að vera óljóst til að almenningur haldist rólegur. Þá er gott að vera búinn að tryggja sér fjölmiðlana sína og geta birt þar fréttir með fyrirsögn eins og þessum.
Svona lagað geta auðvitað engir nema lykilmenn í íslenskum viðskiptum.
Myndin: Frosið vatn í febrúar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2010 | 09:53
Af níðskrifum
Ég er með bjartsýnni mönnum en þó verð ég að viðurkenna að stundum fyllist ég ægilegri svartsýni.
Það er ekki efnahagshrunið sem gerir mig svartsýnan. Ekki risavaxtarkippurinn sem lánin mín tóku. Ekki lækkunin á laununum. Ekki ofurhækkanir á verði nauðsynja. Ekki bruninn á eignarhlutanum í íbúðinni okkar.
Þetta allt má harka af sér. Þrátt fyrir allt búum við Íslendingar við betri lífskjör en flestir aðrir og framtíðarhorfurnar eru góðar.
Það sem fyllir mig svartsýni eru stöðugar fréttir af því hvernig landið virðist vera meira og minna í eigu fjárglæframanna.
Skuldir þeirra eru afskrifaðar. Þeir halda fyrirtækjum sínum. Þeir treysta tök sín á fjölmiðlum landsins. Þeir eru sérlegir ráðgjafar stjórnvalda. Þeir njóta skattaívilnana. Þeir eru beðnir um að taka þátt í fjárfestingum ríkisins.
Og nær daglega fáum við fréttir af nánum kynnum auðvaldsins og stjórnmálamanna.
Í gær var það Bjarni Ben.
Í dag eru það þeir Össur Skarp. og Árni Þór.
Samt er rannsóknarskýrslan ekki komin út.
Um leið og þetta er að gerast vinna stjórnvöld að því hörðum höndum að velta óreiðuskuldum túrbókapítalismans yfir á herðar þess almennings sem hefur þurft að horfa upp á alla þessa spillingu.
Og þegar þjóðin leyfir sér að mótmæla eru kölluð út elítan í háskólum landsins.
Í Speglinum í gær fullyrti heimspekingur að þjóðin ætti ekkert að vera að skipta sér af Icesave. Samningurinn væri bara hluti af efnahagsáætlun og efnahagsáætlanir kæmu þjóðinni ekki við, skildist mér á manninum.
Í vikunni skrifar prófessor við eina helstu menntastofnun Íslands grein í eitt helsta blað í Noregi. Þar líkir hann þeim sem gagnrýna Icesave-samninginn við Bernard Madoff.
Til upprifjunar: Madoff þessi var bandarískur veðbréfabraskari sem talinn er hafa svikið billjónir dollara út úr fólki. Hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir glæpi sína.
Einhverjir urðu til þess að kalla þessi ummæli háskólaprófessorsins níðskrif en uppskáru mikla vandlætingu yfirálitsgjafa Íslands.
Honum finnst það ekkert eiga skylt við níð þegar prófessor við Háskóla Íslands líkir stórum hluta þjóðar sinnar við glæpamenn og dæmda stórsvikara í grein í víðlesnu erlendu blaði.
Og honum finnst líka alveg svakalega hallærislegt að vera þjóðhollur.
Samkvæmt minni málvitund er sá þjóðhollur sem lætur sér annt um hagsmuni og heill þjóðar.
Ef til vill er það tímanna tákn á hinu nýja Íslandi að þeim er hampað sem skara elda að eigin kökum en hinir teljast hallærislegir sem vilja taka hagsmuni fjöldans fram yfir hagsmuni fárra útvaldra.
Og þegar þannig er komið fyrir þjóð er ekki ástæða til bjartsýni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.2.2010 | 22:23
Úr hverju dó Heródes?
Stíflan er ein fallegasta sveit á Íslandi.
Oft ók ég um hana þegar ég var á Ólafsfirði og leysti af á Sigflufirði í sumarfríum. Ætíð var tilhlökkunarefni að komast í Stífluna. Mér er sagt að hún hafi verið enn fegurri áður en Skeiðsfossvirkjun var reist. Þá fóru margar jarðir í Stíflu undir vatn.
Í Stíflu er elsta timburkirkja landsins. Hún er á Knappsstöðum og var reist árið 1840.
Á 19. öld þjónaði þar Páll Tómasson. Hann var sérkennilegur maður og eru til af honum ótalmargar sögur.
Ári eftir útskrift sína úr Bessastaðaskóla, 1828, vígðist Páll til Grímseyjar og var því einn af forverum mínum. Þá hafði verið slysasamt þar úti. Margir höfðu hrapað til bana við eggjasig í Grímseyjarbjargi.
"Er sennilegt, að það hafi stafað af ófullkomnum útbúnaði, en Grímseyingar kenndu það illvættum þeim, sem í bjarginu byggju, og töldu sig nú illa vanta Guðmund biskup," segir Jón Jóhannesson á Siglufirði í ritgerð um Pál sem birtist í fimmta bindi Blöndu (Reykjavík 1932).
Séra Páll bauðst til að vígja bjargið, að sjálfsögðu gegn hæfilegri þóknun og var gengið að því tilboði prests.
Þannig var sú vígsla samkvæmt frásögn Jóns:
Prestur fékk nú trausta festi, sem hann þaulvígði. Safnaði hann svo saman flestu fólki eyjarinnar ákveðinn dag, og gekk hempuskrýddur í broddi fylkingar út á bjargið. Lét hann binda sig í festina og búa vel um. Tók latneska málfræði út barmi sér og las í henni lítið eitt í hálfum hljóðum. Skipaði hann svo að láta sig síga, en fólkið skyldi syngja sífellt, meðan hann væri í bjarginu og svo hátt sem það hefði róm til, en þá allra hæst, ef það heyrði högg og hávaða í bjarginu, því nú mundi alls við þurfa. - Prestur seig nú í bjargið, og á meðan söng fólkið af öllum lífs og sálar kröptum. Prestur söng einnig, en strax þegar hann var úr augsýn fólksins, dró hann hamar upp úr hempuvasa sínum, og braut með honum hvassar brúnir, sem áður höfðu skorið lélegar festar sigmanna, jafnframt og hann ruddi niður lausu grjóti. Varð af þessu hinn mesti glumrugangur. Héldu Grímseyingar hávaðann stafa af harðri viðureign prests við illvættina. Studdi það og þá skoðun þeirra, að prestur, sem var í hempunni utanyfir fötum sínum, var sveittur mjög.
Fleira hefur varðveist í Fljótum en þær listilegu skálaræður sem þar hafa verið fluttar. Þar kunna menn enn búta úr stólræðum séra Páls á Knappsstöðum. Til dæmis þennan sem fluttur var á jólum og er birtur í fyrrnefndri ritgerð Jóns:
Jesús kallar á börnin sín. Hann kallar á mig og hann kallar á þig, - si svona: Komdu hingað ekkjan mín með börnin þín. Sýndu þeim ljósin. Segðu þeim að það séu jólin og því sé kveikt. - Komið hingað volaðir og hrjáðir. Komdu hingað gamla kona, sem gekkst á járnskóm sunnan af landi, þú, ert mædd og hrjáð; þú, með þitt eina auga.
Séra Páll gekk hart fram við yfirheyrslur á tilvonandi fermingarbörnum. Hlýddi hann þeim yfir í messum að viðstöddum söfnuðinum eins og þá tíðkaðist. Þótti mörgum sérkennilega spurt. Hefur Jón ritgerðarsmiður eftirfarandi sögu eftir konu sem var til spurninga hjá séra Páli þegar hún var barn:
Það var á fyrsta sunnudag í janúar, að hann spurði hana: Geturðu sagt mér rýjan mín, úr hverju hann dó hann Heródes? Henni varð ógreitt um svarið. Þá segir prestur: "Það er varla von, að þú vitir það, en eg get sagt þér það: Hann drap sig á kálfskjötsáti."
Myndina tók ég í dag frammi í firði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.1.2010 | 17:06
Speki
Í skírnarathöfn í dag rak ég augu í miða sem hékk á vegg.
Á honum stóð heilræði.
Maður á að elska Guð og nota hluti.
Þegar maður fer að elska hluti og nota Guð er stutt í strandið.
Þetta er góð speki sem þyrfti að fá fætur.
Myndin: Tré til að faðma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2010 | 23:26
Prestur brýtur hurð
Séra Jón Jónsson var prestur í Möðrufelli á fyrri hluta 19. aldar og hafði viðurnefnið hinn lærði.
Einhverju sinni var hann í verslunarferð á Akureyri. Þá var þar aðeins einn kaupmaður, Erasmus nokkur Lynge, danskur maður.
Kaupmanni leiddist margmennið og hleypti ekki nema einum og einum í senn inn í búð sína. Hinir urðu að standa úti. Þá voru harðindi og ill útiveran. Segir sagan að sumir hafi verið nær kali.
Þegar séra Jón ber þar að var "hinn mesti kurr í lýðnum" segir séra Benedikt Þórðarson í Sagnaþáttum fjallkonunnar (Reykjavík, 1953).
Séra Jón biður kaupmann að ljúka upp búðardyrum svo fólk komist inn úr óveðrinu en Lynge harðneitar.
Svo segir séra Benedikt frá framvindu atburða:
Og er prestur fékk ekki af honum utan hroka og gaguryrði, sló í heitingar og við það skildu þeir. Litast prestur nú um og nefnir til nokkra menn úr flokknum, sem hann treysti bezt, og býður þeim að fylgja sér að búðardyrum, og ef svo ólíklega yrði, að hann kæmist inn um þær, skyldu þeir ganga djarflega inn og gera hark nokkuð. Mennirnir hétu því fúslega. Búðin var rammlega læst með sterkri, plægðri hurð úr þykkum borðum. Prestur hikar ekki, hleypur skeið að hurðinni og setur við öxlina, og í einni svipan klofnar hurðin og brotna tvær miðfjalirnar úr henni. Kemst prestur inn um gáttina og mennirnir á eftir; fara nú æstir mjög og prestur í broddi fylkingar. Kaupmanni brá mjög við hurðarbrotið, og enn meira er hann sá, hversu hvatskeytlega um var gengið, og skalf af hræðslu og drengir hans, en þó reyndi hann að hreyfa hótunum um lögsókn og dóm yfir prestinum um húsbrotið, en prestur kvað hann sjálfan skyldu sæta lögsókn og dómi fyrir lokun búðarinnar, og skuli hann nú velja um, hvort hann vilji lögsækja sig eða þegja og bæta skemmdirnar sjálfur, gefa öllum fylgjurum prests góða hressingu og láta búðina framvegis standa opna eins og lög gera ráð fyrir.
Lýsing séra Benedikts á viðbrögðum kaupmanns er snilldarleg:
Kaupmaður sýndist að taka síðari kostinn og eru síðan tvær fjalirnar í hurðinni nýlegri en hinar.
Frásögninni lýkur á þessum orðum:
Þetta þótti mikið þrekvirki, bæði að brjóta hurðina og odd af oflæti kaupmannsins, því fáir þorðu í þá daga að mæla í miðjum hlíðum við kaupmennina.
Myndin: Horft úr tóftum fram í fjörð, í átt að Möðrufelli.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.1.2010 | 09:01
Stjórnmálakreppa
Kreppan á Íslandi er ekki einungis efnahagskreppa.
Kreppan er líka í stjórnmálastéttinni.
Ef til vill er sú kreppa erfiðari og hættulegri en hin þegar til lengri tíma er litið?
Þjóðin hefur glatað trausti á þeim sem eiga að gæta hagsmuna hennar.
Orð þeirra og loforð reynast einskis virði.
Traustið á helstu stofnunum landsins minnkar dag frá degi.
Réttlætiskennd almennings er misboðið.
Peningaglannarnir virðast ósnertanlegir og stjórnmálastéttin er margflækt í sukkið.
Rannsóknarnefndin margfræga á að skoða það sukk. Alþingi hefur tilnefnt fólk sem það fól að skoða sérstaklega niðurstöður nefndarinnar.
Nú hefur einn þeirra skoðunarmanna Alþingis orðið uppvís að sannkölluðu fjármálasukki.
Þegar ráðamenn tala um endurreisn í svona kringumstæðum er auðvitað bara verið að tala um eitt:
Endurreisn fjárglæframanna og túrbókapítalista. Þeir fá að halda fyrirtækjum sínum og fjölmiðlum. Þeir fá skuldir sínar afskrifaðar. Skuldum þeirra verður velt yfir á almenning.
Og þegar ráðamenn tala um endurheimt trausts er auðvitað einungis verið að tala um að þeir sem brugðust trausti endurheimti það til að geta haldið áfram að taka lán.
Þeir verða jú að halda áfram að borga sér ofurlaun, risabónusa og arðgreiðslur.
Við þurfum utanþingsstjórn strax.
Myndina tók ég í haust í hinum ægifagra Vatnsdal.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.1.2010 | 08:41
Fjölmiðlar í svikaleik
Í Silfri Egils í gær barst talið að íslenskum fjölmiðlum.
Menn höfðu sverar áhyggjur af því að niðurskurðurinn í fjölmiðlum hér á landi bitnaði einkum á reynslumiklum blaðamönnum.
Kjúklingarnir í stéttinni sætu áfram enda væru þeir á lægra kaupi.
Vissulega er mikil eftirsjá að reyndum blaðamönnum.
En líka má benda á annað sem fram kom í Silfrinu:
Nú er að koma í ljós að hrunið fólst meðal annars í því að hér var stillt upp glæsilegri leikmynd; götumynd í vestra.
Nú er að koma í ljós að íslenskur efnhagsveruleiki var ekkert nema sú framhlið.
Þessi sviðssetning var að sjálfsögðu ekki möguleg nema með góðri hjálp fjölmiðlanna sem útskýrir áhuga auðmanna á að eignast sem mest af þeim.
Ekki vildu þeir eiga fjölmiðlana til að græða á þeim, svo mikið er víst.
Fjölmiðlarnir tóku þátt í svikaleiknum, voru hluti af honum og brugðust því hlutverki sínu að vera gagnrýnir og veita aðhald.
Einhverjir kynnu að segja að ef til vill veitti ekkert af því að fá nýtt blóð í íslenska fjölmiðlakroppinn?
Í morgunþætti Rásar tvö var enn verið að fjalla um fjölmiðla.
Formaður Blaðamannafélags Íslands og útvarpsstjóri töluðu um þá ósvinnu að fjallað væri um fjölmiðla á gagnrýninn hátt.
Kvartað var undan gagnrýni m. a. Morgunblaðsins og flokksráðs VG á RÚV.
Hvergi kom fram í hverju sú gagnrýni var fólgin en talað á óljósan hátt um einhverja ægilega heift.
Þannig var gagnrýnin afgreidd af formanninum og útvarpsstjóranum.
Hún fékk enga málefnalega umfjöllun.
Menn virtust einfaldlega hneykslaðir á að hún kæmi fram.
Útvarpsstjóri og formaður blaðamannafélags Íslands standa yfir rústum sviðsmyndarinnar sem þeir tóku þátt í að reisa og eru alveg bit á að nokkur vogi sér að gagnrýna fjölmiðla.
ES
Ég mun ekki sakna beinna útsendinga frá afhendingu Grímu, Eddu eða íslensku tónlistarverðlaunanna. Það brotthvarf er ein af fjölmörgum blessunum kreppunnar.
Myndin: Þessi lækur er einn af þeim sem hafa fengið að fossa í hlýindunum að undanförnu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.1.2010 | 21:54
Karl á hálfri brókinni
Í dag byrjaði þorrinn og þegar búið er að þreyja hann kemur góa. Vetri lýkur síðan með einmánuði en sumar hefst með hörpu, svo rifjuð séu upp hin gömlu íslensku mánaðaheiti.
Í þjóðtrúnni er þorri húsbóndinn en góa húsfreyjan. Þeirra sonur var einmánuður en dóttir harpa.
Húsfreyjur áttu að bjóða góuna velkomna hinn fyrsta góudag með því að drífa sig á lappir fyrir allar aldir fáklæddar harla. Síðan skyldu þær labba sér þrisvar í kringum bæinn hafandi yfir þessa vísu:
Velkomin sértu, góa mín,
og gakktu inn í bæinn;
vertu ekki úti í vindinum
vorlangan daginn.
Að því búnu var þess vænst að húsfreyjur efndu til kvennapartía.
Öllu flóknara var það fyrir húsbændur að fagna þorranum.
Þeir áttu líka að verða fyrstir á fætur hinn fyrsta þorradag. Síðan áttu þeir að drífa sig út á skyrtunni eða bolnum eins og það heitir líklega núna en vera bæði berfættir og berlæraðir. Þeir skyldu klæða sig í aðra brókarskálmina en draga hina á eftir sér. Þannig til fara áttu þeir að ljúka upp útidyrum, ganga út, hoppa á öðrum fæti í kringum húsið dragandi á eftir sér brókarskálmina og biðja þorrann að koma fagnandi.
Eftir allt það stapp var gert ráð fyrir að þeir héldu veislur með öðrum körlum. Ekki veit ég hvaða samkvæmisklæðnaðar var krafist í þeim samkvæmum en sé að sjálfsögðu fyrir mér brókarskrýdda og skálmardragandi kappa.
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er ennfremur tekið fram að á bóndadegi eigi húsfreyja að "halda vel til bónda síns" og er þeim eindregnu tilmælum hér með komið á framfæri þótt seint sé.
Myndin er úr Krossanesborgum en þar mun vera mikil álfabyggð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)