Færsluflokkur: Bloggar

Að standa upp úr sófanum

DSC_0856

Í Grímu hinni nýju er sagt frá tveimur kerlingum þingeyskum. Þetta var þegar vesturferðir voru í tísku. Kerlingunum leist best á að komast alla leið til Brasilíu. Þeim hafði verið sagt að þar sprytti bæði kaffi og sykur. Ekkert fengu þær betra en það og töldu þær landið því algjöra paradís.

Voru þær staðráðnar í að flytja til Brasilíu og fóru að grennslast fyrir um hvernig ætti að komast þangað.

Var þeim sagt að siglt væri af stað frá Akureyri. Þær þyrftu því að fara þangað fyrst.

Þótti kerlingunum þá "óvænkast ráð sitt" því ekki gátu þær komist til Akureyrar nema fara yfir Fnjóská.

Fnjóská var að þeirra mati svo ægilegur farartálmi á leiðinni til Brasilíu að þær lögðu öll áform um flutninga þangað suður á hilluna.

Þessi saga minnir okkur á að oft eru mestu torfærurnar þær að standa upp úr sófanum.

Myndin: Hláka í Innbænum á Akureyri.


Fjölmiðlar og lýðræðisumbætur

DSCN0915 

Ég fagna því ef þjóðaratkvæðagreiðslur verða tíðari hér á landi.

Ekki henta öll mál jafn vel til slíkrar afgreiðslu og sum eru flóknari en önnur.

Hin lýðræðislega niðurstaða er heldur ekki alltaf hin rétta. Meirihlutinn getur hæglega haft á röngu að standa eins og dæmin sýna. Líka þótt um sé að ræða tiltölulega einföld mál og auðskilin.

En ég er samt lýðræðissinni.

Fjölmiðlar eru ein forsenda lýðræðisins, sama í hvaða formi það er. Það er hlutverk fjölmiðlanna að vera vettvangur þjóðfélagslegrar umræðu og skoðanamyndunar. Fjölmiðlarnir eiga að veita valdinu aðhald. Þeir eiga að vera gagnrýnir. Og síðast en ekki síst eiga fjölmiðlarnir að miðla upplýsingum til almenningis, uppfræða hann, þannig að hann geti tekið upplýstar ákvarðanir um málin.

Hér eigum við Íslendingar mikið verk óunnið. Ef til vill eru brýnustu lýðræðisumbæturnar einmitt í þessu.

Ég er þeirrar skoðunar að ef fjölmiðlar eigi að gegna hlutverki sínu megi þeir ekki bara vera í eigu þeirra sem helst þarf að gagnrýna og veita aðhald.

Þess vegna þurfum við að setja eignarhaldi á fjölmiðlum einhverjar skorður.

Mikilvægasti fjölmiðillinn er og verður Ríkisútvarpið. Endurskoða þarf uppbyggingu þess og yfirstjórn. Hvort tveggja þarf að sýna að Ríkisútvarpið er þjóðarútvarp en ekki batterí á vegum stjórnmálaflokkanna.

Atburðir síðustu missera sanna nauðsyn öflugs Ríkisútvarps.

Mér finnast hugmyndir menntamálaráðherra um kennslu í fjölmiðlalæsi í skólum landsins mjög góðar.

Við þurfum ekki bara vandaða fjölmiðla. Við þurfum ekki síður mynduga áheyrendur, lesendur og áhorfendur.

Hann ber sínar byrðar, köngullinn á myndinni.


Fólkinu fórnað fyrir kerfið

DSC_0554 

Einhvern tíma gerðist það að við hættum að tala um fólk. Þetta hætti að snúast um manneskjur. Þær hættu að vera hugsjón en urðu tæki.

Allt í einu þótti hallærislegt og væmið að tala um fólk og hugtök á borð við væntumþykju hjúpuðust sykurslikju.

Enginn gat verið þekktur fyrir að vilja bæta aðstæður á vinnustöðum til að fólki liði betur.

Þess í stað átti að bæta aðstæður á vinnustöðum til að fyrirtækin gengju betur.

Allar umbætur þurftu hagfræðilegar réttlætingar.

Laun eru ekki hækkuð til að fólk verði glaðara. Þau eru hækkuð til að auka kaupmáttinn. Aðstæður fólks eru ekki bættar til að auka vellíðan þess. Þær eru bættar til að auka skilvirkni.

Einhvern tíma hætti hagfræðin að snúast um hag mannsins en fór að snúast um hag fyrirtækjanna.

Hagkerfið er ekki lengur til fyrir manninn heldur maðurinn fyrir það.

Það sést vel þegar fólk er látið borga skuldir sem það stofnaði ekki til með peningum sem það á ekki.  Fólkinu og framtíðinni er fórnað til að bjarga kerfinu.

Og fólkið skal borga til að burgeisarnir endurheimti traustið sem þeir eyðilögðu með framferði sínu.

Myndin: Tré sem standa saman.


Í sumarskapi

Þverá í Laxárdal (18)

Að undanförnu hef ég verið í sumarskapi. Sumarið hefur verið mér ofarlega í huga. Ég hef hugsað þangað, hvað eigi að gera, hvert eigi að fara og hvenær eigi að taka fríið.

Aðalástæðan fyrir þessum sumarhugleiðingum nú í aðdraganda þorrans er sú að brúðhjón sumarsins eru byrjuð að panta sér presta og kirkjur.

Töluvert mörg hjónaleysi hafa haft samband við okkur í kirkjunni með það erindi að komast loksins í eina sæng.

Nýlega var ég í viðtali við þýsku útvarpsstöðina Deutschlandsfunk vegna þeirrar fjölgunar á fæðingum sem hér hefur orðið og Þjóðverjum finnst merkileg á krepputímum.

Kannski stefnir í svipað með hjónavígslurnar?

Og þegar er komin ein pöntun á 10. 10. ´10.

Mér er sagt að margir renni líka hýru auga til dagsetningarinnar 07. 09. ´13 en við erum ekki byrjuð að taka niður pantanir fyrir þann dag.

Ég finn á mér að sumarið verður gott. Ég tek það snemma og hjóla um Þýskaland með vinum mínum í maíbyrjun. Á að giska mánuði síðar fagna ég 30 ára stúdentsafmæli með skemmtilegustu skólasystkinum í veröldinni. Síðan ætlum við hjónin að ferðast um þetta óviðjafnanlega land okkar og hver veit nema okkur takist að plata eitthvert barnanna með? Eitthvað mun ég veiða og við göngufélagarnir erum búnir að mæla okkur mót við eyfirska fossa. 

Inn á milli verður setið úti í garði við snarkandi grill.

Ég iða af tilhlökkun.

Færslunni fylgir að sjálfsögðu mynd sem ég tók í sumarfríinu mínu í fyrra. Þarna erum við á Þverá í Laxárdal.


Víti

DSC_0848 

Nú hefur stjórnmálastéttin brugðið á sama ráðið og prestastéttin í eina tíð, sem reyndi að hotta fólki inn í guðsríkið með því að hræða það með helvíti.

Óttinn er orðinn meirháttar afl í íslenskri pólitík.

Reynt er að hotta þjóðinni undir ísklafann og til Brussel með ægilegum lýsingum á því sem gerast muni óhlýðnist hún hottinu.

Ef .... þá... 

Þá verða hér okurvextir og ónýtt gengi, landið einangrast, það verður Kúba og Norður-Kórea og enginn vill lána okkur, sjá okkur eða af okkur vita.

Afdankaðir þjóðernissinnar ná hér völdum.

Hin fylkingin er lítið skárri. Ef þjóðin samþykkir ísklafann flyst hún á steinaldarstig. Ef við göngum í Evrópusambandið senda Spánverjar togara sína hingað upp og sjúga allan fiskinn af miðunum. Fullveldið er farið og landráðamenn og kvislingar ríða húsum.

Ef til vill verður þjóðaratkvæðagreiðslan keppni í hvor fylkingin nái betur að hræða líftóruna úr kreppuþjakaðri alþýðunni?

Í gamla daga var talað um víti. Nokkur dæmi úr safni Jóns Árnasonar:

Ef borin er út sæng hjóna á sunnudagsmorgni til að viðra hana þá verður hjónaskilnaður.

Ef maður kveður í rúmi sínu þá tekur hann framhjá.

Ef vanfær kona stígur yfir breima kött verður barnið viðrini.

Ef þunguð kona drekkur vatnsleifar jórturdýra þá jórtrar barnið.

Ef barn kveikir á hríslukvisti eða spýtu og veifar því til og frá eða með eldinum í, þá pissar það undir nóttina eftir.

Ef maður gengur með hendurnar fyrir aftan bakið þá teymir maður djöfulinn - og er það illt verk.

Ef prestur rær á sjó skal hafa kirkjuna opna á meðan og kemst hann þá heill á húfi að landi, en annars ekki; ekki má heldur viðra bækur meðan prestur er á sjó.

Ef maður lætur sokka sína undir höfuð sér getur maður ekki dáið nema sokkar séu látnir undir höfuð manns deyjandi.

Það á eftir koma í ljós hvor vítin séu marktækari, þau sem stjórnmálastétt okkar notar eða hin úr safni Jóns Árnasonar.

Myndin: Kirkjugarðurinn á Höfðanum, Naustahverfið og Súlur.

 

 


Þrjú hugtök

DSC_0820

Yfir vikulegum grjónagraut í foreldrahúsum spunnust umræður um hugtakið "alúðarfrekja".

Alúðarfrekjur eru svo elskulegar og kurteisar að áður en maður veit af er maður búinn að gefa þeim næstu mánaðarlaun sín.

Alúðarfrekjur ná sínu fram með alúðinni og elskulegheitunum.

Ég þekki margar slíkar. Ég útiloka ekki að ein klæðist mér sjálfum en mun þræta fyrir það því ekki er heldur hægt að útiloka að ég sé þráaskítur.

Annað ágætt hugtak er "ofbeldisgestrisni".

Ofbeldisgestrisni er hluti af gamla góða Íslandi. Ofbeldisgestrisni finnst hjá ömmum sem skella þriðju rasphjúpuðu lærissneiðinni á diskinn hjá manni þrátt fyrir mótmæli og einlæg neyðaróp.

Og gera sig líklega að sækja þá fjórðu þegar bráðaliðarnir eru búnir að koma manni í gang með straujárnunum sínum.

Þriðja hugtakið  á biskupinn sem prédikaði í bókmenntamessu í Akureyrarkirkju í dag.

Það er "fegurð þess brotna".

Fegurð tengist í margra hugum fegurðarsamkeppnum, ávölum línum, samsvörunum, fallegum litum, formum sem gleðja augun og hljóðum sem heilla eyrun.

En fegurðin er líka fólgin í brotnum girðingarstaurum, visnuðum stráum, höltum gamalmennum,  snjáðum bókum og ryðguðum dráttarvélum.

Myndin: Bæjarlækurinn hjá tengdó ristir sinn svip í ævintýralega fjallahöll vetrarríkisins í Svarfaðardal. Honum er ekki alls varnað þótt ekki sé hann stór.


Stöndum saman!

DSC_0807

Viðtalið við Þórólf Þórlindsson, prófessor, í Kastljósi kvöldsins var það jákvæðasta og uppbyggilegasta í fjölmiðlum síðustu daga - ásamt viðtalinu við Evu Joly.

Svo sannarlega er von en til þess að hún rætist þurfum við að standa saman.

Íslensk flokkapólitík er stundum hreint djöfulleg. Hún sundrar og spillir og dregur fram það versta í fari annars ágætra manna.

Við höfum oft sýnt aðdáunarverða samstöðu. Þótt okkur hafi orðið á megum við ekki láta telja okkur trú um að við séum vonlausir asnar. Við getum vel verið skynsöm og snúið saman bökum. Það höfum við til dæmis sýnt í náttúruhamförum og stórslysum.

Við megum ekki missa móðinn eins og Eva Joly áminnti okkur um.

Nú hafa dunið yfir efnahagsleg stóráföll. Ábyggilega hafa margir gert mistök og vitleysur. En til þess að komast í gegnum þau þurfum við að sýna sömu samstöðuna og í öðrum hamförum.

Og þá þarf stjórnmálastéttin að sýna fordæmi.

Það eru forréttindi að hafa kynnst Íslendingum þegar hörmulegir atburðir verða. Nú verðum við að koma okkur upp úr skotgröfunum og sýna á okkur þá góðu hlið.

Ég tek undir allt sem Þórólfur sagði í kvöld. Guð blessi hann fyrir það.

Myndin: Vetrarfriðsæld við Minjasafnskirkjuna á Akureyri.


Fyrsta bókmenntamessan

DSC_0796 

Bókmenntamessur eru nýjung í kirkjulegu starfi.

Í þeim velur presturinn sér bók sem hann styðst við í prédikun. Ritningarlestrar eru valdir með hliðsjón af bókinni og lesnir eru stuttir kaflar úr henni í messunni. Bænir tengjast efni bókarinnar, sálmar og tónlistin einnig.

Fyrirmyndin að þeim er frá Þýskalandi.

Næsta sunnudag, 10. 1. kl. 11, verður fyrsta bókmenntamessan hér á landi í Akureyrarkirkju.

Biskup Íslands, Herra Karl Sigurbjörnsson, leiðir hana.

Bókin sem hann valdi heitir Dóttir myndasmiðsins eftir Kim Edwards.

Dagskrá bókmenntamessa í vetur:

Sunnudagurinn 10. janúar  kl. 11

Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands: Dóttir myndasmiðsins eftir Kim Edwards

Sunnudagurinn 14. febrúar kl. 11

Sr. Dalla Þórðardóttir, prófastur á Miklabæ í Skagafirði: Brasilíufararnir eftir Jóhann Magnús Bjarnason

Sunnudagurinn 14. mars kl. 14

Dr. Hjalti Hugason, prófessor: Enn er morgunn eftir Böðvar Guðmundsson

Sunnudagurinn 18. apríl kl. 11

Sunna Dóra Möller, guðfræðingur, og sr. Bolli Pétur Bollason, sóknarprestur í Laufási: Saga Þernunnar eftir Margaret Atwood

Sunnudagurinn 31. maí  kl. 11

Sr. Jón A. Baldvinsson, vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal: Glíman við Guð eftir Árna Bergmann

Boðið er upp kaffisopa og spjall í Safnaðarheimili eftir messurnar.

Leikarar frá Leikfélagi Akureyrar lesa úr bókunum í messunum.

Bækurnar eru fáanlegar á Amtsbókasafninu.

Þá er að drífa sig í bókmenntamessur. Ákjósanlegt er fyrir utanbæjarfólk að nýta ferðina til skíðaiðkunar - en myndin með þessari færslu er af skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli. Hún er nýleg og nægur snjór í fjallinu.

 


Ólafur með björgum fram

DSC_0802 

Nú er vel við hæfi að rifja upp þessa þjóðsögu úr safni Jóns Árnasonar.

Útleggingar læt ég eiga sig. Þær verður hver að annast fyrir sig.

 

Svo er sagt að þá Ólafur kóngur Haraldsson var fimm vetra fór hann á skipi með fóstra sínum og sigldu þeir með björgum fram. Þá kom tröllkona fram á bjargið og spurði hvort skáld væri á skipi. En þeir sögðu ei vera. Þá kvað kerling vísu þessa:

 

„Komi sótt,

kveini drótt,

kyngi hríð

og gjöri sult víða;

hrynji mjöll,

hylji fjöll,

hatist menn.

deyi fé skatna.

 

Gremjist hauður,

glatist sauður,

gjöri hregg,

tapist fé seggja;

fáist hatur,

firrist matur,

farist her

og gjörist enn ver."

 

Ólafur Haraldsson kvað:

 

„Gjöri regn,

gefi logn,

gefi gott fang,

og komist menn þangað;

firrist snjór,

falli sjór,

fargist hatur,

fái byr skatnar.

 

Grói hauður,

gleðjist sauður,

gjörti gott ár

og færi baut vora;

linni nauð,

lifni þjóð,

líði vetur,

og gjöri enn betur."

 

Þá sprakk tröllkonan.

 

Myndin: Mjöllin hefur heldur betur hrunið á blessaðan fjörulallann pater Nonna inni í Aðalstræti.

ES:

Að gefnu tilefni tek ég fram að orðið "baut" er samkvæmt handriti.


Tíðindi dagsins

DSC_0838 

Hér skorti ekki tíðindin í dag.

Stærst eru auðvitað þau að forseti lýðveldisins ákvað að staðfesta ekki lög um ríkisábyrgð á skuld vegna Icesave-reikninganna.

Í umræðum síðustu mánaða hafa stjórnvöld hamrað á því að andstæðingar þessara laga vilji ekki borga skuldir, séu að víkja sér undan ábyrgð, vilji ekki að þjóðin standi við skuldbindingar sínar og séu í raun sviksamir óreiðumenn.

Nú þegar ljóst er að það verður að minnsta kosti einhver dráttur á að lögin verði að veruleika blasir við stjórnvöldum það verkefni að sannfæra umheiminn um að Íslendingar vilji borga skuldir, séu ekki að víkja sér undan ábyrgð, vilji að þjóðin standi við skuldbindingar sínar og séu ekki sviksamir óreiðumenn.

Stjórnvöld þurfa m. ö. o. að vinda ofan af eigin málflutningi um þjóð sína.

Merkileg umfjöllun morgunvaktarinnar á RUV féll í skuggann af synjuninni.

Þar var sagt frá því að hvernig útrásarfyrirtæki kostuðu rannsóknir háskólasamfélagsins á útrásinni - sem komst að því að útrásin íslenska væri algjörlega einstök og íslenski útrásarvíkingurinn væri engum líkur.

Þannig áttu auðmennirnir bæði fjölmiðlana, sem fjölluðu um þá, og voru á góðri leið með að eignast háskólana, sem rannsökuðu þá.

Myndin er af krossinum á Höfðanum þar sem kirkjugarðurinn á Akureyri er, tekin í frosthörkum síðustu daga.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband