Færsluflokkur: Bloggar
3.1.2010 | 21:00
Æseivkálfarnir steypast í Myrká
Næst kalla ég til æsseiv-sögunnar sjálfan djáknann á Myrká.
Sú langsótta boðun er þannig tilkomin:
Myrká fékk ekki nafn sitt af lygnri, djúpri og dökkri á eins og ég hélt.
Myrká varð svo nefnd vegna þess að gilið sem hún féll fram úr var vaxið háum og þéttum skógi.
Af þeim sökum var dimmt niðri í gljúfrinu þar sem áin rann.
Þar eru þrír fossar.
Byrgisfoss er neðstur og ekki heitinn eftir Byrgi Ármanns enda er hann ekki með yfsiloni.
Síðan kemur Kálfafoss.
Nafn hans á sér þá sögu - og nú nálgumst við Icesave - að eitt vorið var tveim kálfum frá Myrká hleypt út í fyrsta sinn.
Þeir réðu sér ekki fyrir gleði, komnir út í frelsið, lausir við skorður, hömlur og girðingar. Tóku þeir á rás suður tún og stefndu á gljúfrið með hoppum og rassaskvettum.
Hróp og grátbænir stöðvuðu þá ekki. Þeir virtust þvert á móti herða á sér og bóndakonunni fannst sem hún heyrði annan þeirra kalla til sín orðin "jú eint sín noþíng jet" sem hún skildi ekki en geymdi með sér og skilin urðu síðar.
Síðan steyptust kálfarnir fram af gilbarminun í fossinn sem síðan heitir Kálfafoss eftir þeim kollegunum.
Útrásarvíkingarnir og bankarnir minna mig á þessa myrkásku kálfa.
Skyndilega var þeim hleypt út og þegar blámóðuþakinn Evrópuhimininn þandist út yfir höfðum þeirra bauluðu þeir sprökum raustum og tóku á rás í átt að þverhnípinu.
Þegar heimilisfólk sá þá steypast í fossinn bölvaði það sér og öðrum fyrir að hafa ekki sett upp neinar girðingar eða garða.
Mér finnst að velja eigi æseivstyttunni stað við Kálfafoss.
Það góða og jákvæða við söguna er samt að Kálfafoss er ekki mikilfenglegasti fossinn í Myrkárdal.
Skammt þar fyrir ofan er Geirufoss.
Lengi vel var Geirufoss frægastur fyrir það að hann tengdist manni sem var illa haldinn af támeyru. Hlógu menn dátt að því úti um álfur.
Nú er að koma í ljós að Geirufoss er hæsti og glæsilegasti foss sýslunnar og þótt víðar væri leitað.
Hann er sennilega það merkilegasta við Myrkárdal og mun halda nafni hans á lofti - ásamt djáknanum - og ef til vill æseivstyttunni ef menn fara að mínum ráðum.
Myndina tók ég um daginn frammi í nágranna Myrkárdals, Glerárdal.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.1.2010 | 23:25
Skíthælarnir eru fundnir
Óðum styttist í dómsdag - þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kemur út.
Aðalskíthællinn í bankahruninu hefur samt þegar verið fundinn.
Ég vitna í þetta blogg eftir Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóra, sem birtist á gamlársdag:
Íslendingar hafa ætíð verið heimskir, enda innræktaðir á fámennu útskeri. Allar aldir hafa þeir leyst vanda sinn með afneitun hans. Eyddu auðlindum til lands og sjávar og veðsettu restina. Kenna útlendingum um vanda sinn, hvort sem hann heitir Uppkastið eða IceSave. Þjóðrembdir eru Íslendingar með afbrigðum, enda að mestu einangraðir um aldir frá erlendum samskiptum. Í umheiminum er almennt litið á Íslendinga sem sviksöm fífl. Þeir standi ekki við skuldbindingar sínar og þurfi á refsingu að halda. Nú erum við komin á núllpunkt vegna þessa, en höfum enga greind til að læra af biturri reynslu.
Sama dag skrifaði Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi ritstjóri, þriggja síðna grein í Fréttablaðið þar sem hann segir að Íslendingar séu landeyður sem hafi aldrei kunnað með verðmæti að fara. Hann kemst að sömu niðurstöðu og hinn fyrrverandi ritstjórinn.
Íslendingar eru heimskir.
Eða með hans eigin orðum:
Þegar horft er yfir Íslandssögu er erfitt að að verjast þeirri hugsun að Íslendingar kunni að vera vel gert fólk - svona einir sér. En þegar þeir koma saman er eins og hver vitleysan reki aðra. Íslendingar virðast vera heimskur hópur.
Þessi orð eru sögð í samhengi efnahagshruns á Íslandi, tæpum mánuði áður en ofangreind skýrsla birtist.
Þau eru skrifuð af manni sem var í forsvari fyrir blaðaútrás Baugs á sínum tíma sem forstjóri Dagsbrún Media eins og fyrirtækið var kallað.
Til upprifjunar: Baugsmenn hófu útgáfu Nyhedsavisen í Danmörku sem fór á hausinn með margra milljarða tapi.
Þeir Baugsmenn höfðu líka í hyggju að kaupa útgáfu Berlinske Tidende fyrir 80 milljarða króna. Þá vöktu athygli þau ummæli Gunnars Smára í viðtali við dönsku pressuna að peningar væru ekki vandamál eins og lesa má hér.
Nú eru öll þessi fyrirtæki Gunnars Smára farin á hvínandi hausinn. Tapið af skýjaborgum ævintýramannanna nemur stjarnfræðilegum upphæðum.
Stórum hluta þess mun velt yfir á bök íslenskrar alþýðu og hún mun súpa seyðið af því næstu áratugina.
Í þakklætisskyni fær hún ofangreindar áramótakveðjur frá ritstjórunum fyrrverandi.
Við erum heimskingjar og sviksöm fífl.
Myndin: Svona litu áramótin út sem við fögnuðum hjá tengdó í Svarfó.
Bloggar | Breytt 2.1.2010 kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
31.12.2009 | 01:41
Sekúndan sem býr til 2010
Fáar sekúndur hafa meira á samviskunni en sú sem ýtir klukkunni á miðnættið í kvöld.
Dag hvern er þessi sama sekúnda þess valdandi að einn sólarhringur deyr og annar fæðist.
Þessi sekúnda sér um að dagatalið hökti áfram en standi ekki í stað.
Og í kvöld bætist miklu meira en venjulega við þjakaða samvisku þessarar sekúndu. Heilt ár hverfur.
Ekki þarf nema eina sekúndu til að miðvikudagur verði fimmtudagur, mars breytist í apríl og árið 2007 hverfi en 2008 birtist.
Eins og við þekkjum er miðvikudagur allt annað mál en fimmtudagur, mars gjörsamlega frábrugðinn apríl og allt annað að lifa á árinu 2007 en 2008.
Það voru engin smáræðis viðbrigði þegar sekúndan margfræga smellti inn ári hrunsins.
Og hún verður ekki til friðs í kvöld, þessi sekúnda. Af hennar sökum tendrast blys, flugeldar æða um loftin og himnarnir upplýsast af marglitum bombum.
Milljónahundruð króna brenna upp í einu vetfangi vegna þessarar einu sekúndu og hún sér til þess að vaskar sveitir björgunarmanna standa gráar fyrir járnum allt árið um kring, reiðubúnar að síga eftir okkur ofan í dauðadjúpar jökulsprungur, bera okkur út úr brennandi húsum og draga bílana okkar upp úr beljandi jökulelfum.
Við gefum henni sjaldan gaum, þessari einu sekúndu. Við teljum lífið í árum, mánuðum eða vikum. Fyrir kemur að við bregðum mælistiku mínútunnar á líf okkar en til þess þarf mikið að liggja við.
Samt er það þessi eina sekúnda sem skilur á milli feigs og ófeigs, altént þegar áramót eru annars vegar.
Gleðilegt nýtt ár!
Myndina tók ég nýlega uppi í Lögmannshlíð. Hlíðarfjall og skíðasvæðið í baksýn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.12.2009 | 01:39
Fiskisúpa Schnilldarinnar
Hún er ekki flókin.
Það er ekki mikið mál að gleðja gesti.
Fyrst:
Einn blaðlaukur steiktur í isíóolíu.
Síðan:
Ein sellerírót brytjuð í litla bita.
Bætið meðalstórri sætri kartöflu, þremur niðursneiddum gulrótum og fimm afhýddum og snyrtilega sneiddum kartöflum saman við.
Að því loknu tveimur söxuðum paprikum og einum kúrbít, margþverskornum. Einnig smáslatta af sveppum og nokkrum krömdum hvítlauksrifjum.
Eftir hálftíma suðu takið þið tvær dósir af niðursoðnum tómötum og hellið út í og tvo til þrjá teninga af fiskisoði með vatni sem nemur sirkabát þrisvar sinnum einni dós af sömu tómötum.
Salta og pipra sullið og setja út í það slatta af hunangi ásamt tveimur lúkum af hveilhveitipasta.
Láta sjóða i korter. Þá taka tvö til þrjú flök af hvítum fiski, skerið í bita og setjið saman við með einu flaki af laxi eða silungi, einnig í flottum sneiðum.
Láta mallast einar tíu mínútur með góðum slatta af fersku kóríander og bera svo fram með heitu brauði.
Amen.
Myndin: Svona er Akureyri í Skátagilinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.12.2009 | 12:08
Mergskipti í málinu
Eitt af því sem einkennir íslenska umræðuhefð er að þar hafa menn gjarnan mergskipti í málinu ef hentar.
Þá tala menn um sama málið en eru í raun alls ekki að tala um sama málið því önnur fylkingin hefur skipt um merg í því.
Þetta sést vel á umræðunum um Icesave.
Helstu talsmenn fyrirliggjandi samnings um ríkisábyrgð á Icesave-skuldunum klifa á því að mergurinn málsins sé sá hvort við viljum standa við skuldbindingar okkar.
Það hentar þeim ágætlega því þá geta þeir dregið upp þá mynd af andstæðingum samningsins að þar sé um að ræða óheiðarlegt fólk sem vilji hlaupa frá skuldum sínum.
Og það hafa þeir líka gert. Ráðamenn hafa hamast á þeim mikla meirihluta þjóðarinnar sem er andvígur þessum samningi. Gefið er í skyn að aðeins heimóttarlegt óreglufólk sé á móti Icesave, bandbrjálaðir þjóðernissinnar sem ekki geti hugsað sér að útlendingar fái skuldir sínar uppgerðar.
En hinn upphaflegi mergur málsins er ekki sá hvort við viljum borga eða ekki.
Flestir þeirra sem eru á móti samningnum vilja standa við skuldbindingar sínar og vilja borga það sem þeim ber, þori ég að fullyrða.
Þeir hafa á hinn bóginn leyft sér að vilja fá úr því skorið hverjar þær skuldbindingar séu áður en veskið er tekið upp og skrifað undir samnninga.
Og þar er ekki bara um að ræða einhverjar siðlausar heimóttarkindur.
Í grein sem skrifuð var í sumar segir:
Ísland, sem telur einungis 320 þúsund íbúa, sér nú fram á að þurfa að axla margra milljarða evra skuldabyrði sem langstærstur hluti þjóðarinnar ber nákvæmlega enga ábyrgð á og ræður alls ekki við að greiða...
Rétt er að undirstrika að íslenskar stofnanir bera mikla ábyrgð á þessu máli. En þýðir það að menn eigi að líta fram hjá því að bresk stjórnvöld bera jafn mikla ábyrgð, en láta íslensku þjóðina axla allar byrðarnar?
Höfundar þessarar greinar var Eva Joly og hún birti hana samtímis í fjórum blöðum í jafnmörgum löndum.
En kannski er Eva bara ein af þessum óheiðarlegu sem eru á móti útlendingum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.12.2009 | 22:04
Snjóajól
Ég byrjaði daginn inni í Minjasafnskirkju þar sem ég gaf saman hjón.
Forveri minn, sr. Birgir Snæbjörnsson, gifti foreldra brúðgumans á sínum tíma, fárveikur með 40 stiga hita. Hann talaði um að hann hefði brætt þau saman.
Ég var hitalaus en mikið vetrarríki var þegar sonur 40 stiga hjónanna kvæntist. Ef til vill má segja að hann hafi frosið saman við eiginkonuna.
Svo festi ég bílinn minn á eftir og þurfti að fá lánaða skóflu hjá minjaverði til að moka upp farartækið.
Ef það var ekki sögufræg skófla er hún það núna.
Ég bæði gifti og skírði í dag og í fyrramálið ætla ég að ferma dreng sem kom alla leið frá París til þess verks.
Hér eru ægileg snjóalög. Ég hitti Ólafsfirðinga í dag sem áttu ekki til orð yfir fannferginu og þó kalla þeir ekki allt ömmu sína í þeim efnum - né öðrum.
Jólasnjórinn er fallegur og enda þótt ekki séu allir hrifnir af honum hafa mörg aukakílóin runnið af bæjarbúum við að ýta föstum bílum og moka frá fenntum útidyrum - eða eins og nágranni minn orðaði það þegar við hömuðumst við mokstur á aðfangadagskvöld:
"Ekki þarf mánaðarkortið í þetta."
Myndina tók ég áðan út um eldhúsgluggann. Gripurinn liggjandi til hægri í gluggakistunni er laufabrauðsjárnið okkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.12.2009 | 17:41
Jólin 2009
Gleðileg jól, kæru vinir, nær og fjær!
Í litlu gistihúsi er drepið þungt á dyr
og daufur karlmannsrómur um næturgreiða spyr.
Úr hlýjunni berst svarið hér ekkert rými er"
svo út í dimma nóttina hófatakið fer.
Á baki situr meyjan og köld er hennar kinn.
Til kofans handan byggðar hann teymir asna sinn.
Þótt hrörlegt sé það skýli og næði þar um þil
er þreyttum ljúft að hvílast við týruflökt og yl.
Þau heyra englasönginn sér færast nær og nær
en niðamyrkrið ljómar og hopar sífellt fjær,
því hann sem er að fæðast er lífsins sanna sól
og sendir ljós til þeirra sem halda nú sín jól.
Myndin er af Akureyrarkirkju, tekin í gær, 23. 11. 2009.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.12.2009 | 00:38
Jólaguðspjall gulu pressunnar
Jólaguðspjallið notar ekki mörg orð um hirðana.
Jú, þeir voru úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar, eins og við er að búast þegar hirðar eru annars vegar.
Guðspjallamaðurinn Lúkas setur heldur ekki á langar ræður þegar hann segir frá þeim undrum og stórmerkjum sem hirðarnir sáu. Hann notar ekki lýsingarorð í botni og slær ekki upp fyrirsögnum með stríðsfréttaletri.
Hann segir einfaldlega og blátt áfram að engill Drottins hafi staðið hjá þeim.
Það er eins og þeir hafi allt í einu séð hest.
Lúkas hefði ekki þótt góður blaðamaður. Hann hefði ekki skrifað fréttir sem seldu.
Hvernig væri jólaguðspjallið í DV-stíl?
Þar á bæ hefðu menn gert mikið úr englinum og söngur hinna himnesku hersveita er gott hráefni í myndarlega fréttamáltíð.
Þar er svo sannarlega sjónarspil sem á erindi á útsíður.
Ég sé fyrir mér viðtöl við forviða hirða og ljósmyndir af þeim þar sem þeir óðamála lýsa ævintýrum næturinnar.
Í jólaguðspjalli DV yrði að finna stórbrotnar lýsingar af englinum og dýrð Drottins sem ljómaði í myrkrinu, hvernig allt varð skyndilega gjörsamlega kolvitlaust.
Jólaguðspjallinu hinu nýja myndu fylgja viðtöl við sjónarvotta undir fyrirsögnum eins og:
Hjálparsveitarmenn heyrðu englakór á Kjalvegi
Rjúpnaskytta hélt að hann sæi geimverur
Hitt er alvanalegt að börn fæðist, enginn hefur tölu á þeim foreldrum sem ekki hafa fengið inni í almennilegum gistihúsum og engum þykir fréttnæmt þótt krakki komi í heiminn í hrörlegum húsakynnum.
Í jólaguðspjalli gulu pressunnar yrði sennilega ekki minnst á Jesú.
Myndina tók ég í síðustu viku úti í Ólafsfirði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.12.2009 | 22:30
Jólin eru yfir Hrólfsskeri
Jólin hafa verið að lóna fyrir utan Norðurlandið en eru farin að mjaka sér inn í fjarðarkjaftinn.
Þegar þetta er skrifað munu jólin vera nokkurn veginn yfir Hrólfsskeri.
Klukkan sex á aðfangadag verða jólin komin í bæinn.
Þá verður allt að vera til, baukarnir fullir af dropakökum, sörum og hálfmánum, steikin snarkandi í ofninum, húsbóndinn gljárakaður, vættur dýrum rakspíra, húsfrúin í sínu fínasta dressi og börnin sitja prúð af sér máltíðina, afplána guðspjallið áður en byrjað verður að tæta utan af pökkunum.
Allra augu beinast að dagatalinu og þegar þar stendur 24 með rauðu færast augun á klukkur og úr.
Svo verður klukkan sex og jólin eru komin á áfangastað eftir siglinguna inn fjörðinn. Kólfarnir bresta í dans innan í klukkunum, organistar landsins rétta úr sér og spila inn hátíðina, kórarnir ræskja sig og það er orðið of seint fyrir okkur prestana að laga jólaræðurnar.
Myndina tók ég á föstudaginn var og þar sést áminnst Hrólfssker.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2009 | 09:17
Siðleysið toppað með vitleysi
Fróðlegt hefur verið að fylgjast með viðbrögðum við skoðanakönnunum og kosningum um Icesave-samningana.
Þegar stefndi í að andstaðan við samningana í undirskriftasöfnun Indefence-samtakanna næði áður óþekktum hæðum upphófst ófrægingarherferð gegn söfnuninni.
Sama máli gegnir um kosningu um málið sem framkvæmd var á vefsíðunni Eyjunni.
Þegar sú kosning fór af stað var ljóst hvernig hún yrði framkvæmd.
Samt er ekki fyrr en úrslitin liggja fyrir að menn finna framkvæmdinni allt til foráttu.
Bæði skoðanakannanir og kosning Eyjunnar sýna held ég að mikill meirihluti þjóðarinnar er á móti því að veita Icesave-samningunum ríkisábyrgð.
Rökin sem notuð hafa verið fyrir Icesave eru þau að það hafi ekki verið einkafyrirtæki sem stóð í siðlausum viðskiptum í Bretlandi og Hollandi.
Siðleysið hafi verið þjóðarinnar. Íslendingar séu siðlausir og þess vegna séu Icesave-klyfjarnar þeim makleg refsing - og komandi kynslóðum.
Nú er því haldið fram að ekki sé nóg með að þjóðin sé siðlaus og ærulaus heldur vitlaus í ofanálag.
Hún haldi að Icesave sé spurning um einhvers konar lýðræði!
Það er mikill misskilningur, segja ísklafasinnar.
Icesave sé bara spurning um hvort standa eigi við samninga og borga eigi skuldir.
Samkvæmt því er allt vesenið á Alþingi undanfarna mánuði líka misskilningur.
Aldrei kom annað til greina en að segja já við samingunum eins og þeir liggja fyrir.
Alþingi Íslendinga hefur í þessu tilfelli einungis það hlutverk að staðfesta díl sem felur í sér einhverjar mestu skuldbindingar sem nokkur þjóð hefur á sig tekið.
Þjóðin er bara of vitlaus til að fatta það.
Nema þessi stóri minnihluti sem veit um hvað málið snýst og á því að hafa vit fyrir okkur hinum, siðleysingjunum og vitleysingjunum.
Kannski er þarna komin elítan fræga, sem Steingrímur talaði um í vor?
Myndin er af Sigurhæðum og sér fram í Garðsárdal, tekin fyrir rúmum mánuði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)