Færsluflokkur: Bloggar
16.12.2009 | 22:17
Þeir ósnertanlegu
Sagan endurtekur sig því enginn var að hlusta.
Þannig mæltist vitrum manni einu sinni.
Í kvöld setti Egill Helga tveggja mánaða gamlan pistil inn á bloggið sitt ásamt jafngömlum athugasemdahala.
Nú heldur bloggherinn hans Egils áfram að gera athugasemdir þar sem frá var horfið.
Það er hægur vandi því ekkert hefur breyst.
Ekkert breytist vegna þess að enginn er að hlusta.
Auðmennirnir sitja ennþá að sínu. Þeir halda eignum sínum, fyrirtækjum og fjölmiðlum. Þeir stjórna umræðunni.
Þeir gera milljarðadíla við stjórnvöldin sem um leið vinna að því hörðum höndum að koma ofurskuldum þeirra yfir á almenning.
Þeir fá alls konar ívilnanir frá ríkinu meðan það hækkar skattana og lánin sem almenningur þarf að borga og lækkar launin.
Vinkona mín á kassanum í hverfisbúðinni spurði mig í dag hvort hún væri siðlaus.
Hún sagði að presturinn í DV segði að Íslendingar væru siðlausir og hann hefði enga trú lengur á samfélaginu.
Þannig er Ísland í dag. Mennirnir sem komu okkur á kaldan klaka halda sínu. Líka fjölmiðlunum. Og nota þá til að útbreiða þann boðskap að hrunið sé siðlausum Íslendingum að kenna - eins og vinkonu minni á kassanum í Strax.
Þeir eru ósnertanlegir enda komst þessi ágæti kollegi minn víst þannig að orði í viðtali við DV að ekki væri hægt að ætlast til annars af útrásarvíkingunum en að þeir gerðu það sem þeir gerðu.
Hluti þjóðarinnar er með öðrum orðum undanþeginn löghlýðni og siðgæðiskröfum.
Eins og sést.
Myndin er endurtekning. Ég hef birt hana áður. Nú er hún svarthvít.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.12.2009 | 23:14
Eitt stórt ÉG
MITT sálarlíf er verndað vörumerki,
MÍN vera punkturinn í stjórnarskránni
og SJÁLFUR hef ÉG á MÉR einkaleyfi,
þeir af MÉR taka mið í þjóðhagsspánni.
Allt snýst um MIG í ræðum ráðherranna
og ríkið beinir sínum nefndarstörfum
að einum MÉR, en hinum ber að bíða
því brýnast er að sinna MÍNUM þörfum.
Ég tel MIG vera inntak allra laga,
í anda MÍNUM skulu reglur settar,
en undanþágur hafa hæfilegar
og hagsmunanna gæta MINNAR stéttar.
Að MINNI vild um kaup og kjör þeir semja
að kröfum MÍNUM samninga þeir gera
því réttlætinu verður þá fyrst þjónað
ef þykir MÉR það ekki ranglátt vera.
Myndin: Úr Naustaborgum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.12.2009 | 00:11
Dúnmjúk jól
Um þetta leyti ársins eru gjarnan slegin hraðamet.
Nú er mikill asi á öllu og margir hrópendur í eyðimörkuðunum.
Manni liggur lífið á.
En sá sem er í vændum á aðventunni kemur varlega.
Þannig er þetta orðað í spádómsbók Jesaja.
Hann kallar ekki og hrópar ekki og lætur ekki heyra raust sína á strætunum. Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur og dapran hörkveik slekkur hann ekki.
Þessi texti er þörf áminning mönnum eins og mér. Ég hef ægilega gaman af öllu aðventutilstandinu og lúmskt gaman af vandlæturunum sem árlega hneykslast á slíku.
Aðventan má samt ekki verða of höst.
Og þegar jólin koma vil ég hafa þau alveg dúnmjúk.
Myndin: Í Krossanesborgum við Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.12.2009 | 11:48
Skemmdarverk á lýðræðinu
Aðstandendur undirskriftasöfnunar á netinu, þar sem forseti Íslands er hvattur til að vísa Icesave-frumvarpinu til þjóðaratkvæðagreiðslu, telja að verið sé að vinna skemmdarverk á söfnuninni.
Skemmdarverkin eru þannig unnin að menn falsa einstakar undirskriftir í söfnuninni. Þannig tekst að gera hana ótrúverðuga.
Aðstandendur fullyrða að þessi sum skemmdarverkanna megi rekja til Fréttablaðsins, Ríkisútvarpsins og Stjórnarráðsins eins og sjá má hér.
Þetta sýnir að bæta þarf framkvæmd netsafnana til að gera þær trúverðugri.
Og ef það er satt að í opinberum stofnunum og fjölmiðlum sé verið að skemma vísvitandi þessa leið lýðræðisins hér á landi er það mjög alvarlegt.
Ekki er nema um það bil hálfur áratugur síðan efnt var til undirskriftasöfnunar á netinu gegn fjölmiðlafrumvarpinu.
Nú veit ég ekki hvort öðruvísi var staðið að henni en ég minnist þess að þá hafi líka heyrst raddir um að auðvelt væri að falsa undirskriftir þar.
Það breytti því á hinn bóginn ekki að forseti Íslands tók mark á söfnuninni.
Fróðlegt er að rifja upp neðangreind ummæli frá tímum fjölmiðlafrumvarpsins, bæði með hliðsjón af undirskriftasöfnuninni - og afstöðu til málþófs.
Eigandi þeirra er Róbert nokkur Marshall, þáverandi formaður Blaðamannafélags Íslands og núverandi þingmaður Samfylkingarinnar:
Nú reynir á okkur að rísa til varnar. Að óbreyttu verður fantafrumvarpið að lögum eftir helgi. Afleiðingarnar fyrir störf okkar og afkomu eru óljósar. Við höfum eitt hálmstrá. Ólafur Ragnar Grímsson sagði í kosningabaráttunni 1996 að hefði hann verið forseti þegar rúmlega 30.000 manns skoruðu á Vigdísi Finnbogadóttur til að undirrita ekki EES-samninginn, þá hefði hann orðið við því og neitað að staðfesta lögin. Tökum nú á öll sem eitt og söfnum 35.000 undirskriftum yfir helgina á askrift.is. Við höfum tíma á meðan stjórnarandstaðan heldur uppi málþófi. Sendið tölvupóst á ALLA sem þið þekkið, hringið í fjarskylda ættingja úti á landi sem þið hafið ekki heyrt í í sjö ár. Nú er tíminn til endurnýja kynnin. Fáið fólk til að skrifa nafn og kennitölu á askorun.is Sé fólk fylgjandi frumvarpinu, fáið það samt til að skrifa undir sem persónulegan greiða við ykkur. Mætið í vinnuna á morgun og á sunnudag eða sitjið við tölvuna heima við, hringið, djöflist, látið öllum illum látum, söfnum þessum undirskriftum, fáum þessum ólögum hrundið, kaupum tíma til að fá þau í það minnsta milduð í haust. Nú reynir á. Gjör rétt - þol ei órétt.
Myndin: Það er orðið jólalegt hjá okkur hérna fyrir norðan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.12.2009 | 08:36
Bókmenntamessur
Á nýju ári verður bryddað upp á nýmælum í starfi Akureyrarkirkju. Svokallaðar bókmenntamessur komast á dagskrá og verða mánaðarlega fram á vor.
Í bókmenntamessum verður ein bók höfð til hliðsjónar við prédikun og við val á sálmum, tónlist, bænum og ritningartextum.
Lesnir verða stuttir kaflar úr bókinni. Þar nýtur kirkjan liðsinnis leikara úr Leikfélagi Akureyrar.
Fyrsta bókmenntamesan verður sunnudaginn 10. janúar. Biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, ríður á vaðið. Hann valdi sér bókina Dóttir myndasmiðsins eftir Kim Edwards.
Sr. Dalla Þórðardóttir, prófastur Skagfirðinga, annast bókmenntamessu 14. febrúar. Hennar bók er Brasilíufararnir eftir Jóhann Magnús Bjarnason.
Í lok kirkjuviku, þ. 14. mars, ætlar dr. Hjalti Hugason að fjalla um nýja bók Böðvars Guðmundssonar, Enn er morgunn.
Hjónin í Laufási, Sunna Dóra Möller og sr. Bolli Pétur Bollason, sækja Akureyrarkirkju heim sunnudaginn 18. apríl. Þeirra bók er Saga þernunnar eftir Margaret Atwood. Umfjöllunarefni þeirrar sögu er hið fullkomna karlaveldi.
Síðasta bókmenntamessan í þessari törn verður 31. maí en vígslubiskupinn á Hólum, sr. Jón A. Baldvinsson, sér um hana.
Nú er um að gera að fara að viða að sér bókum og taka frá ofangreinda sunnudaga.
Myndin: Brasilíufararnir eru meðal bókanna í messunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.12.2009 | 14:26
Við þjófarnir
Vísifingurinn er léttur enda eru þeir nú um stundir margir samtímis á lofti.
Þeir benda á okkur, íslenska þjóð, sem býr á þessu volaða, drepandi, vesæla og hrafnfundna hafísalandi.
Við erum þjófar. Við erum óskilafólk. Við erum óheiðarleg. Við erum siðblind. Við erum úrhrök meðal þjóða og eigum hvergi skilið að vera.
Þessir vísifingur eru bæði íslenskir og erlendir.
Nokkrir vísifingranna benda á okkur frá Alþingi Íslendinga.
Eigendur þeirra segja glæp þjóðarinnar svo mikinn að hún sleppi vel með að þurfa að borga 100 milljónir á dag í sekt næstu árin.
Glæpur þjóðarinnar er sá að einkabanki fór á hausinn og gat ekki staðið við skuldbindingar sínar.
Drjúgur hluti þessara vísifingra, sem benda á okkur þjófana og úrhrökin, eru í eigu fólks sem sat í stjórn landsins þegar bankarnir fóru á hausinn.
Þá vísuðu þeir vísifingur reyndar niður. Sumir voru djúpt ofan í buxnavösum eigenda sinna. Meðal annars vísifingur þess ráðherra sem fór með stjórn bankamála þegar bankarnir hrundu.
Nú er þeim fingri vísað á okkur. Þjófana.
Því er haldið fram að Ísland eigi sér enga málsvara. Alþjóðasamfélagið vilji ekki Ísland sem ekki sé tilbúið að spenna á sig þennan skuldaklafa.
Það er ekki rétt.
Ótalmargir erlendir sérfræðingar hafa bent á ranglæti Icesave-samninganna.
Þeirra á meðal er Eva Joly.
Ég rifja upp búta úr grein hennar sem birtist í fjórum blöðum í fjórum löndum í sumar.
Þar varð Eva Joly fyrri til en íslenskir stjórnmálamenn að taka til varna fyrir Ísland.
Ísland, sem telur einungis 320 þúsund íbúa, sér nú fram á að þurfa að axla margra milljarða evra skuldabyrði sem langstærstur hluti þjóðarinnar ber nákvæmlega enga ábyrgð á og ræður alls ekki við að greiða...
Það hversu mjög Brown hefur beitt sér gegn þessu smáríki er því ekki hægt að skýra á annan hátt en þann að hann hefur viljað ganga í augu eigin kjósenda og skattgreiðenda, fólks sem að sönnu varð fyrir miklu fjárhagstjóni og rétt er að halda til haga.. Rétt er að undirstrika að íslenskar stofnanir bera mikla ábyrgð á þessu máli. En þýðir það að menn eigi að líta fram hjá því að bresk stjórnvöld bera jafn mikla ábyrgð, en láta íslensku þjóðina axla allar byrðarnar?...
Þess ber að gæta að Ísland, sem hefur einungis tekjur af útflutningi, kemur ekki til með að geta staðið undir þessum ábyrgðum. Samningurinn um Icesave, sem Alþingi greiðir atkvæði um á næstunni, myndi þýða aukna skuldsetningu Íslands. Hlutfallslega er um að ræða upphæð sem er sambærileg við það að Bretar tækju á sig 700 milljarða sterlingspunda skuld eða að Bandaríkjamenn tæku á sig 5600 milljarða dollara skuld. Það er heldur ekki raunhæft að Ísland geti skilað hallalausum fjárlögum innan fimm ára á sama tíma og fjárlagahalli flestra ríkja eykst gríðarlega. Þar fara fremst í flokki stórveldi heimsins, ekki síst Bretland og Bandaríkin. Ef Evrópa og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn snúa ekki við blaðinu kann vera að þau vinni sannkallað afrek: dragi land þar sem þjóðartekjur á hvern íbúa hafa verið með þeim hæstu í heimi niður á stig þeirra allra fátækustu... Afleiðingin: Íslendingar, sem langflestir eru vel menntaðir, fjöltyngdir og í nánum tengslum við Norðurlöndin þar sem þeir aðlagast auðveldlega, eru þegar farnir að flýja land...
Við þurfum því að krefjast þess að alþjóðasamfélagið veiti svör við því hvernig koma eigi í veg fyrir hrun og hörmungar eins og Ísland lenti í. Það á ekki að líðast að alþjóðasamfélagið yppi öxlum og láti sem engra breytinga sé þörf og beiti lönd eins og Ísland þrýstingi af fullkomnu miskunnarleysi...
Greinina má lesa í heild sinni hér.
Myndin er af álfasteini á aðventu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.12.2009 | 20:31
Fyrir jólatónlistarfíkla
Nýlega voru Frostrósatónleikar hér í Íþróttahöllinni. Fer tvennum sögum af þeim. Hljómburðurinn í höllinni er vitaskuld umdeildur og eins þykir mörgum sem ég hef heyrt í of mikil peningalykt af fyrirtækinu þótt margir frábærir listamenn hafi komið fram á tónleikunum.
Frostrósir eru pínulítið 2007. Jólin í útrásarham.
Manninum sem gekk út af tónleikunum og kom til mín í kaffi og kjúkling af því ég á heima rétt hjá íþróttahöllini benti ég á Akureyrarkirkju og það frábæra og fjölbreytta tónlistarstarf sem þar fer fram.
Annað kvöld er nýstofnaður kammerkór, Ísold, með sína fyrstu tónleika í kirkjunni. Þeir hefjast kl. 20. Ég hlakka mikið til að heyra í þessum nýja kór. Hann skipa ungar konur sem eru vaxnar upp úr Stúlknakór Akureyrarkirkju.
Ég þekki eina 18 ára Ísoldarstúlku sem byrjaði að taka þátt í kórastarfinu 7 ára gömul og er búin að syngja sig upp í gegnum kórana í kirkjunni. Mér er sagt að hún hafi misst af einni kóræfingu á öllum þeim ferli.
Næsta sunnudag er síðan komið að árlegum Jólasöngvum Kórs Akureyrarkirkju. Þeir eru fyrir löngu orðnir ómissandi þáttur í jólaundirbúningi stórs hluta bæjarbúa. Undanfarin ár hefur þurft að hafa þá tvisvar, kl. 17 og 20, og hefur kirkjan fyllst í bæði skiptin.
Kórinn hefur sjaldan verið betri en núna.
Styrktartónleikar líknarsjóðsins Ljósberans verða í Akureyrarkirkju 17. desember kl. 20. Björg Þórhallsdóttir, söngkona, hefur veg og vanda af undirbúningi þeirra og syngur þar ásamt góðum gestum.
Kammerkórinn Hymnodia verður með sína jólatónleika mánudaginn 21. desember. Söngur kórsins er sannkallað eyrnakonfekt og hann er án efa í fremstu röð slíkra kóra hér á landi.
Ofangreint sýnir þróttinn í tónlistarstarfinu í Akureyrarkirkju en þar standa í brúnni organistarnir Eyþór Ingi Jónsson og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir.
Auk nefndra kóra starfa tveir barnakórar við kirkjuna.
Jólatónlistarfíklar geta flutt inn í kirkjuna næstu vikurnar með svefnpoka og tannbursta.
Myndina tók ég í Brynjuísbíltúr í gærkvöldi og þar gefur m. a. að líta Akureyrarkirkju. Akureyskara verður það varla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.12.2009 | 21:42
Vonarljósin kvikna
Árið 1967 sendi Stevie Wonder frá sér jólalagið góðkunna Someday at Christmas.
Textinn er saminn á tímum stríðsins í Víet Nam og mikillar baráttu fyrir mannréttindum í Bandaríkjunum. Hann fjallar um vonina.
Lexía dagsins, en svo nefnast ritningarlestrar úr Gamla testamentinu, er úr spádómsbók Jesaja. Hann er einn af mínum uppáhaldstextum og jólalagið Someday at Christmas er eitt af mínum eftirlætisjólalögum.
Þar segir:
Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum. Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna verða saman á beit,
ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru og ljónið mun bíta gras eins og nautið.
Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holu nöðrunnar og barn, nývanið af brjósti, stinga hendi inn í bæli höggormsins. Enginn mun gera illt, enginn valda skaða á mínu heilaga fjalli því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið.
Lexían og jólalagið eiga það sameiginlegt að þar birtast miklar og bjartar vonir. Þessir tveir textar sýna að manneskjan hefur alla tíð vonað. Henni nægir ekki veruleikinn eins og hann er. Hún sættir sig ekki við það sem fyrir liggur. Hún á sér vonir og drauma. Hún sér fyrir sér það sem gæti orðið.
Bæði í lexíunni og jólalaginu er fjallað um miklar vonir og bjartar. Þar er kveikt á vonarljósum jafnaðar, sáttar, frelsis, réttlætis og friðar. Þó eru árþúsund á milli þessara tveggja texta.
Það sýnir að þessar vonir eru sameign mannkyns og kynslóða þess.
Maðurinn á sér vonir og þær fá byr undir báða vængi nú á aðventunni.
Ljósin sem við tendrum þá eru vonarljós.
Vonin bregður birtu á dimman heim.
Ný og bjartari veröld byrjar að verða til í hjarta þess sem vonar.
Myndin er af dómkirkjunni í Skálholti, tekin í október á þessu ári.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.12.2009 | 09:18
Flaðrandi varðhundar
Í gær heyrði ég orðaskipti Sigmundar Ernis Rúnarssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, og Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, á Alþingi.
Þeir töluðu um fjölmiðla og höfðu báðir áhyggjur af þeim.
Athyglisvert þótti mér að heyra það álit fjármálaráðherra að fjölmiðlar ættu sinn hlut í því ástandi sem hér hefur skapast. Að sögn Steingríms mærðu þeir útrásina. Ég tek undir það. Fjölmiðlar hömpuðu auðmönnum, að vísu mismikið. Þögn ríkti að mestu um þá sem gagnrýndu herlegheitin og vöruðu okkur við að illa gæti farið.
Ég tek líka undir það með Steingrími að fjölmiðlar þurfi að vera uppbyggilegir. Ekki veitir af að glæða trú fólksins í landinu á framtíðina. Tala þarf kjark í þjóðina. Ótal góðir hlutir eru að gerast í þessu landi.
Ég þekki það sjálfur hversu erfitt getur verið að koma góðum fréttum á framfæri. Þær slæmu seljast betur. Hneysklisfréttirnar best og þá gildir einu hvort þær eru sannar eða lognar.
Um leið minni ég samt á það sem Egill Helgason og aðrir reynsluboltar hafa sagt: Fjölmiðlar eru alltaf í stjórnarandstöðu. Þeir eru gagnrýnir á valdið. Þeir eru málsvarar fólksins gagnvart valdinu.
Þótt Egill Helgason virðist reyndar ekki lengur vera þeirrar skoðunar að hann eigi að veita stjórnvöldum aðhald held ég að það sé engu að síður mjög mikilvægt hlutverk fjölmiðla.
Það má reyndar vel vera að fjölmiðlar hafi á undanförnum árum verið þokkalega gagnrýnir á valdsmennina. Þeir sáu það bara ekki nógu vel að hina raunverulegu valdsmenn var hvorki að finna í ráðuneytunum né á Alþingi.
Þeir sem raunverulega réðu hér ríkjum sátu í bönkunum eða í einkaþotunum sínum.
Og áttu fjölmiðlana.
Hin mikla sök þeirra sem áttu að gæta hagsmuna fólksins í landinu var sú að láta það valdarán viðgangast.
Fjölmiðlar eiga að vera uppbyggilegir. En þeir eiga líka að ástunda miskunnarlausa gagnrýni. Þeir eiga að vera geltandi og glefsandi hundar.
Það er sorglegt þegar varðhundarnir taka upp á því að flaðra upp um þjófana.
Myndina tók ég í haust í Kjarnaskógi. Kjörlendi drauga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.12.2009 | 09:38
Jesús óboðinn
Í meira en hálfrar aldar gamalli prédikun veltir sr. Sigurbjörn heitinn Einarsson fyrir sér hvernig færi ef Jesús birtist á Íslandi.
Við höfum gott af því að hugleiða það með sr. Sigurbirni:
Hvað myndi gerast, ef Jesús kæmi fram hér á Íslandi nú? Nútímamaður, Íslendingur, sprottinn úr vorum eigin jarðvegi, sem væri Jesús frá Nasaret að gerð og framkomu?
Fæddur af fátækri móður, heitinn venjulegu, íslenzku nafni, alinn upp við almúgastörf. Þrítugur að aldri eða þar um bil færi hann að tala og starfa á þann veg, sem engum manni er mögulegt. Fyrst í einhverjum smáþorpum úti á landi. Sögur færu að berast út, sagðar með undrun, hneykslun, aðdáun, spotti, gleði, gremju. Orð hans bærust frá manni til manns, auðskilin og einföld og þó svo fjarstæð, tímabær, eins og hann vissi allt, hvert minnsta málefni dagsins, hverja persónulega spurningu, og þó svo annarleg, eins og af öðru landi, já, öðrum heimi.
Hann kæmi hingað til höfuðstaðarins, nokkrir fiskimenn í fylgd hans, auk þeirra fjöldi alls kyns fólks, margt hvað með vafasama fortíð, fáir eða engir málsmetandi menn.
Hann gengur hér um götur og torg og enginn kæmist undan honum. Allt í einu á Hótel Borg og jazzinn þagnar, glasið stöðvast á miðri leið að vörunum - hann horfir svo djúpt, allt opið fyrir augum hans, bert og nakið inn úr. Allt í einu í miðri þrönginni í bankanum. Hann spyr einskis, en veit allt og vafasami seðillinn eða blaðið fer að svíða greipina, verður bruni, verður logandi brennimark inn úr, sem getur aldrei horfið, nema augu hans slokkni eða höndin afmái það. Einn daginn inni á Landsspítalam annan í Alþingishúsinu, daglega í Dómkirkjunni. Allt í einu óboðinn inni hjá mér, inni hjá þér. Læknaðir sjúklingar, sýknaðir syndarar, afhjúpaðir embættismenn og höfðingjar.
Hvað myndi kirkjan gera, heilbrigðisstjórnin, þingið, lögreglan? Hvað myndum vér yfirleitt gera við hann, góðir borgarar þessa bæjar, þessa lands? Myndum vér kannast við hann, myndi hann kannast við oss?
(Sigurbjörn Einarsson, Meðan þín náð, Reykjavík 1956, bls. 11 - 13)
Myndin: Köngull kúrir í hreiðri sígrænna nála.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)