Færsluflokkur: Bloggar
1.12.2009 | 21:17
Góða landið mitt
Í dag, á fullveldisdeginum, hitti ég fermingarbörnin, framtíð landsins.
Við sátum í rökkrinu uppi í kirkju og vorum að spá í söguna af því þegar djöfullinn freistaði Jesú með því að sýna honum öll ríki heims og bjóða honum þau ef hann tilbæði sig.
Við töluðum um að ef til vill hefðum við Íslendingar ætlað að eignast heiminn og það hefði verið ein orsök hrunsins.
Og við fórum að tala um hvernig þetta hrun hefði eiginlega verið.
Ég sagði krökkunum frá því að vinur minn hefði skömmu eftir hrun fengið bréf frá bláfátæku vinafólki í Afríku þar sem það bauð að senda honum pakkamat.
Það fannst þeim fyndið.
Stelpa í hópnum sagði að hennar fjölskylda hefði fengið fyrirspurn frá ættingjum í Ameríku um hvort þau ættu ennþá þak yfir höfuðið.
Úti um allan heim er fólk að deyja úr hungri. Sums staðar er fólk ofsótt fyrir trú sína og skoðanir.
Ég sagði þeim að Ísland væri þrátt fyrir allt gott land.
"Er það?" spurði eitt barnanna.
Mér fannst eins og það væri að velta því fyrir sér hvort því væri óhætt að trúa því að það ætti heima í góðu landi.
"Svo sannarlega," svaraði ég.
Við eigum heima í frábæru landi og yndislega fallegu. Við erum heppin að eiga þetta land og við verðum að fara vel með það og öll þess gæði.
Við erum öfundsverð þjóð.
En ef til vill er allt fjölmiðlavælið að draga allan mátt úr æskunni og kæfa trú hennar á framtíðina?
Í kvöld heyrði ég þennan fallega sálm fluttan í Kastljósinu af þeim indælissystkinum Ellenu og KK. Þetta er einn af mínum uppáhaldssálmum. Hann heitir Faðir andanna og er eftir sr. Matthías. Við syngjum þennan sálm alltaf á kirkjudegi Akureyrarkirkju. Í mínum huga er þetta sálmur kirkjunnar.
Lokaversið er bæn fyrir þjóðinni sem á vel við núna:
Faðir ljósanna,
lífsins rósanna,
lýstu landinu kalda.
Vertu oss fáum,
fátækum, smáum
líkn í lífsstríði alda.
Þið getið hlustað á sálminn með því að klikka á tengilinn hérna fyrir neðan.
Myndin er tekin í Krossanesborgum, út blessaðan Eyjafjörðinn, sem maður elskar aldrei nógu heitt.
Faðir andanna í flutningi Ellenar og KK.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.11.2009 | 18:30
Beint lýðræði
Mér líst vel á hugmyndir um meira af þessu milliliðalausa lýðræði, að borgararnir fái sjálfir að taka ákvarðanir um málin.
Ég er reyndar ekkert viss um að það þýði að réttu eða bestu verði alltaf teknar.
Stundum er þjóðin æstur múgur sem tekur kolvitlausar ákvarðanir.
En það er þá hún sem hefur tekið hina kolvitlausu ákvörðun.
Það er miklu betra að gera vitleysuna sjálfur en að láta einhvern gera hana fyrir mann.
Til að minnka hættuna á að þjóðin taki vitlausar ákvarðanir þarf hún að vera vel upplýst.
Upplýst þjóð er vel menntuð og býr við góða fjölmiðla.
Hún þarf líka að koma sér upp góðri umræðumenningu.
Við Íslendingar þurfum að búa betur að fjölmiðlum okkar og þá þarf að reka af faglegum metnaði.
Við þurfum að vanda okkur betur við menntun þjóðarinnar. Meðal annars að ala upp mynduga fjölmiðlaneytendur.
Og við þurfum að bæta þessa skelfilegu umræðumenningu sem hér tíðkast.
Annars höfum við lítið við þetta beina lýðræði að gera.
Myndin: Það er orðið jólalegt uppi í Naustaborgum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.11.2009 | 20:41
Kisi nautnabelgur
Að afloknum kvöldverði í gær gaf heimiliskötturinn til kynna að hann þyrfti að skjótast út að sinna brýnum erindum.
Var honum umsvifalaust hlýtt af sauðtryggum húsbóndanum.
Allt var þetta samkvæmt venju.
Hann er vanur að skila sér aftur inn um kjallaraglugga um tíu leytið. Þá er honum gefið nýrunnið vatn í skál sem er á sínum vissa stað í baðkarinu.
Heimilisfólk er löngu hætt að baðast um þetta leyti sólarhringsins vegna þessarar áráttu kattarins að vilja endilega drekka í baðkarinu.
Í gærkvöldi þróuðust mál þannig að kötturinn lét ekki sjá sig. Þó stóðu allir kjallaragluggar galopnir og gustaði hressilega inn um þá.
Satt best að segja er kjallarinn varla íbúðarhæfur vegna kulda og rakaskemmdir eru farnar að sjást þar á útveggjum vegna þessarar áráttu kattarins að nota kjallaragluggana sem útidyr.
Í nótt vaknaði ég nokkrum sinnum til að huga að kettinum. Það var ískalt í kjallaranum og þar gnauðuðu íshafsvindar inn um galopna gluggana.
En kötturinn lét ekki sjá sig þótt þvotturinn væri frosinn á snúrunum.
Það var þrúgandi andrúmsloft við morgunverðarborðið. Enginn þorði að segja upphátt það sem allir hugsuðu:
Blessuð sé minning hans.
Samt ók ég um hverfið seinna um morguninn og skyggndist inn í garðana í veikri von ef ske kynni að ég sæi hann.
Hann var ekki kominn um hádegið og þá kulnaði eiginlega hinsti vonarneistinn. Kisi er gamall og gigtveikur. Það er óhugsandi að hann lifi af svona langa útiveru í þessum kulda.
Í huganum byrjaði ég að skipuleggja útförina.
Um þrjúleytið var hringt í mig.
Kisi var að skila sér inn um opinn glugga í kjallaranum.
Hann lét það verða sitt fyrsta verk að bryðja restina af fóðrinu úr dallinum sínum og lagðist síðan til svefns við ofn uppi á efstu hæð.
Grátbólgna fjölskylduna virti hann varla viðlits.
Það var stæk gróðurhúsalykt af kisa.
Og ekki langt frá okkur er gróðurhús með rauðum hitaperum.
Við höfum kisa grunaðan um að hafa brotist þangað inn og lagst þannig að hitalýsingin hafi vermt á honum vömbina.
Að sjálfsögðu var týnda syninum fagnað. Ég slátraði lamsbógi og bauð upp á ís með marssósu. Við kvöldverðarborðið var fátt annað rætt en næturævintýri heimiliskattarins. Niðurstaða þeirra umræðna er þessi:
Fari kisi að leggja þessar sólbaðsferðir í vana verður að gefa honum sólgleraugu í jólagjöf og gott aftersönnkrem.
Myndin: Smári, kisinn okkar, í vambarvermingu undir stofuofninum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.11.2009 | 09:31
Þeir klína smjörinu sem kunna
Höfundur þessa bloggs er einn þeirra sérvitringa sem telur að upplýsingagjöf til almennings eigi ekki að vera á höndum fárra auðmanna.
Ísland þarf að eiga öfluga almenningsfjölmiðla. Opinberir aðilar mega gjarnan styðja við einkarekna miðla því upplýsingagjöf og þjóðfélagsleg umræða er í almannaþágu en ekki eingöngu markaðsmál.
Og ég er eindregið þeirrar skoðunar að best sé að sem flestir eigi fjölmiðlana og að það geti verið stórhættulegt ef meirihluti fjölmiðla í einu landi sé í eigu sömu mannanna.
Þar er ég sama sinnis og flestir vinstri og frjálslyndir menn í veröldinni - nema á Íslandi.
Þess vegna er það mín skoðun að betra hefði verið að samþykkja fjölmiðlafrumvarpið svonefnda (sem reyndar fólst í breytingu á þágildandi útvarpslögum) en hafa engar takmarkanir á eignarhaldi.
En fjölmiðlafrumvarpið var víst til komið vegna óvildar eins manns á öðrum eins og fjölmiðlarnir hafa sagt okkur allar götur síðan það kom fram.
Fjölmiðlarnir sögðu okkur líka að Baugsmálið svonefnda hefði átt sömu orsakir. Tilteknum manni var illa við menn.
Þegar Baugur fór svo á hausinn nýlega var það líka þessum tiltekna manni að kenna, kom fram í fjölmiðlum.
Að undanförnu hafa fjölmiðlar flutt okkur fréttir af stórfelldum afskriftum á skuldum tiltekinna fyrirtækja.
Almenningi er misboðið því honum stendur ekkert slíkt til boða.
En auðvitað er ekki nema einn tiltekinn maður á bak við andstöðu almennings eins og fram kemur í greinarkorni í Fréttablaðinu í dag.
Paranojan er víða og smjörklístrið hefur fram að þessu dugað vel á þjóðina.
Ég á til dæmis von á því að þessi skrif verði afgreidd með því að höfundurinn sé blindur aðdáandi tiltekins manns, hvers nafn er betur ónefnt.
Myndin er af Hrísatjörn, tekin í átt til Dalvíkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.11.2009 | 21:29
Að lýsa fossi
Ég rakst á þennan texta í Árbók Þingeyinga frá árinu 1960. Hann er úr erindi sem Helgi Hálfdanarson flutti á félagsfundi á Húsavík og nefndi Fjalla-Bleikur.
Ljósmyndavélin lýgur ekki, segja menn. Ekki greinir hún frá öðru en því, sem fyrir auga hennar ber. En einn er þó ljóður á hennar ráði: hún skilur ekki það sem hún sér, og því getur frásögn hennar stundum orðið undarlega lítils virði. Og þannig hlaut henni að fara frammi fyrir óhemjunni ferlegu í gljúfrum Jökulsár á Fjöllum. Það veit hver sá, sem nálgazt hefur þennan furðulega stað, fetað hikandi fram á gjárbarminn og séð, hvernig úlfgrátt fljótið haugast brimbeljandi fram af þverhníptu bjarginu og svífur í hrapandi holskeflum niður í undirdjúpin. Það væri einungis á færi mikils myndlistarmanns að birta eitthvað af því, sem mestu varðar í svip og fasi þessa ægitigna jötuns...."
Einn dag fyrir rúmum sjö áratugum stóð maður á gljúfurbarminum við Dettifoss og starði hugstola gegnum úðamökkinn, ýmist framan á fossinn eða niður í hinn sjóðandi kalda heljar-hver" undir fótum sínum. Hann sagði síðar: Að lýsa fossi þessum í óbundnu máli borgar ekki ómakið." Þessi maður var Matthías Jochumsson. Hver hefði fundið það fremur en hann, hve vonlaust það var að fjalla um þessa hrikafögru sýn á hversdagsmáli hinnar óbundnu ræðu? Hér varð að koma til galdur bragformsins, sem bæði helgaði máttugra tungutak og hóf það í hærra veldi.
Beint af hengilbergi
byltast geysiföll,
flyksufax með ergi
fossa- hristir -tröll;
hendist hádunandi
hamslaus iðufeikn.
Undrast þig minn andi,
almættisins teikn.
Þannig hljóðar fyrsta erindið af fjórum í kvæði Matthíasar um Dettifoss. Þarna hefur mikill listamaður tekið til sinna ráða, og brugðið upp í örfáum stíluðum dráttum sannari mynd af fossinum en tekizt hefði með nákvæmri, fræðilegri lýsingu samkvæmt mælingum og útreikningum.
Myndin: Það passar ekki að hafa mynd af fossi eftir svona texta en þessi er úr Langadalnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.11.2009 | 10:20
Næsta Icesave undirbúið
Í morgunútvarpinu á Rás 2 talaði Einar Már um retórík, hvernig við tölum og hvaða orð við notum.
Hann birti prýðilega ádrepu í Mogganum í dag. Þar gagnrýnir hann Icesave-samningana. Hann vill ekki að við játum á okkur glæp sem við frömdum ekki.
En hverjir eru þessi við?
Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn, álitsgjafar, fjömiðlar og bloggarar talað um ábyrgð okkar. Við þurfum að axla ábyrgð. Við þurfum að endurheimta traust.
Það er til nokkuð sem heitir samfélagsleg ábyrgð.
Þjóðir bera ábyrgð á gjörðum sínum.
Við berum ábyrgð á þessu samfélagi. Við berum ábyrgð á þeim gildum sem hér ráða. Við berum ábyrgð á þeirri stefnu sem þjóðfélagið tekur.
Ef auðhringar komast hér til valda berum við okkar ábyrgð á því. Ef græðgin fær að ráða nánast öllu í þessu samfélagi getum við ekki firrt okkur ábyrgð á því. Ef bankar og helstu þjónustufyrirtæki landsins komast í eigu götustráka er það líka á okkar ábyrgð. Ef hér ríkir stefna þar sem græðginni er gefinn laus taumurinn er við okkur, kjósendur, að sakast. Ef fjölmiðlar komast í eigu auðmanna er það m. a. okkur að kenna. Ef forseti landsins er eins og útspýtt hundskinn úti um allan heim að verja óverjandi viðskiptahætti hlýtur það m. a. að vera ábyrgð þeirra sem hann kusu, nefnilega okkar.
Samfélagsleg ábyrgð er ekki fyrst og fremst lögfræðilegt hugtak. Það snýst um siðferði þjóðar. Andlega heilsu hennar.
Þjóðin verður að horfast í augu við sekt sína og skömm sína. Annars læknast hún ekki. Annars nær hún ekki heilsu á ný. Annars munum við ganga inn í framtíðina í skugga lyginnar.
En því miður finnst mér margt benda til þess að íslensk þjóð hafi ekki djörfung til að axla ábyrgð sína.
Stjórnvöld, álitsgjafar og síðast en ekki síst fjármálaelítan í veröldinni ætlar að sleppa raunverulegu uppgjöri og raunverulegri hreinsun.
Farið er í smiðju kaþólsku kirkjunnar og rifjuð upp aðferð sem þar var einu sinni notuð.
Aflátsbréf eru boðin til sölu.
"Borgið Icesave og þið eruð laus allra mála!"
Á sama tíma og þjóðinni er þröngvað til að kaupa sér hreina samvisku með ísklafaaflátum sest sama fólkið í gömlu sætin við kjötkatlana.
Auðmennirnir sitja að sínu. Gömlu andlitin birtast á skermunum. Gömlu frasarnir heyrast.
Bankamennirnir sem voru á ofurlaunum hjá bönkunum og settu þá á hausinn krefjast ofurskaðabóta úr rjúkandi þrotabúunum.
Og stjórnvöld kalla þannig menn til liðs við sig í endurreisnarstarfinu.
Svo sannarlega er rétt að kenna það starf við endurreisn, eins og Einar Már bendir á.
Hér er nefnilega ekki verið að búa til nýtt og betra samfélag.
Verið er endurreisa það gamla.
Það sést m. a. á hjálparkokkunum.
Um leið og þjóðinni er gert að borga Icesave-ævintýri fjármálaelítunnar eru lögð drög að því næsta.
Quo vadis? hlýtur að vera viðeigandi titill á þessari mynd af sunnlenskum hesti í þungum þönkum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.11.2009 | 09:56
Illskan er ekki merkt
Stundum heyrist viðkvæðið að aldrei eigi að taka dæmi af Þýskalandi nasismans. Það sem gerst hafi í Þriðja ríkinu hafi verið nánast einstakt. Hliðstæður séu vandfundnar ef nokkrar.
Hitler hafi verið svo voðalega vondur að aðrir eins menn hafi ekki verið uppi né verði. Illska hans hafi verið augljós.
Þeir sem taka dæmi af nasismanum eru gjarnan sakaðir um rökvilluna reductio ad Hitlerum og sagt að þeir sem slíkt gera dæmi sig úr umræðunni.
Ég er ekki sammála því. Ég tel að það sem gerðist á tímum nasismans hafi gerst áður og geti hæglega gerst aftur.
Vissulega getur verið til marks um rökþrot þegar gripið er til þess ráðs að stimpla alla þá sem eru ósammála manni nasista og hitlera. En það þýðir ekki að aldrei megi benda á það sem gerðist á þessum ógnartímum.
Þvert á móti megum við aldrei gleyma því.
Illskan er ekki svona augljós og auðþekkjanleg eins og margir virðast halda.
Hitler var ekki alltaf það illmenni sem hann er núna í vitund okkar. Á árunum fyrir stríð naut hann mikillar aðdáunar heima fyrir og erlendis. Á fyrstu fjórum árum valdaferils síns gerði hann stórkostlegar endurbætur á þýska velferðarkerfinu. Hann lagði grunninn að hraðbrautakerfi landsins, gerði átak í að losa miðborgir við bílaumferð og mengun og fjölgaði grænum svæðum í borgunum.
Sagt hefur verið að ef Hitler hefði dáið árið 1937 væri hans minnst sem stórmennis í Þýskalandi og jafnvel víðar.
Bandaríska skáldkonan Gertrude Stein taldi að Hitler ætti að fá friðarverðlaun Nóbels. George Bernard Shaw varði Hitler með kjafti og klóm. Áhrifafólk vítt og breitt um heiminn dáðist að þessum leiðtoga Þýskalands áður en illska hans afhjúpaðist.
Illskan er nefnilega sjaldnast augljós. Hún er ekki með áberandi límmiða á sér þar sem stendur: Varúð! Illska!
Og illmennin eru heldur ekki þannig. Þau eru ekki merkt sem slík. Þau eru ekki öll með svart skegg neðan við nefið.
Kraftar illskunnar eru alltaf að verki og jafnvel besta fólk getur ánetjast þeim.
Við þurfum alltaf að varast illskuna. Hún getur læðst að okkur í hinum ótrúlegustu gervum.
Saga mannsins sýnir að ógnarríki mannvonskunnar er aldrei þessi fjarlægi möguleiki sem margir segja það vera.
Myndin er af húnvetnsku gæðafjalli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.11.2009 | 13:57
Alibörn
Þegar dýr eru alin upp til ákveðinna nytja er talað um að þau séu ali. Alifuglar. Alidýr. Alisvín.
Í Morgunblaðinu í dag er mjög merkileg fréttaskýring undir fyrirsögninni Börn gerðir lífstíðarneytendur.
Þar er fjallað um áhrif auglýsinga á börn. Þau áhrif eru mun víðtækari en talið hefur verið.
Markaðsöflin vilja ná til ungra barna með vörumerki sín til að tryggja sér kúnna fyrir lífstíð.
En það nægir þeim ekki.
Börnunum eru innrætt ákveðin viðhorf til lífsins og gildismat til að tryggja að þau verði hagfelldir viðskiptavinir. Markvisst er þeim talin trú um að "hamingjan felist í hlutum" eins og segir í fréttaskýringunni.
Gildismati heillar kynslóðar er breytt.
Börnin eru alin upp til nytja fyrir markaðinn.
Þau eru alibörn.
Á sama tíma og það er af mörgum illa séð að innræta börnunum virðingu fyrir sjálfum sér, náunganum og því heilaga hafa markaðsöflin óáreitt fengið að ala börnin okkar upp í sálarlausri efnishyggju.
Við eigum að taka upp kennslu í fjölmiðlanotkun í skólum landsins. Þar á meðal annars að kenna börnum hvernig auglýsingar vinna til að efla varnir barnanna gegn þeim.
Auk þess á þar að sýna börnunum hvernig þau geti mætt neysluveröldinni á gagnrýnan hátt.
Við þurfum að sameinast um að rækta í börnunum gildi byggð á mannhelgi, virðingu og hófsemi.
Myndin: Vetrarkvöld í Strandgötunni á Akureyri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.11.2009 | 21:29
Af menningarhúsum
Um árabil sáu sómahjónin Hlín Stefánsdóttir og Rögnvaldur Rögnvaldsson um rekstur almenningssalerna undir kirkjutröppunum á Akureyri.
Hún var frá Haganesi í Mývatnssveit en hann Húnvetningur, frá Litlu-Þverá í Miðfirði.
Þau hjónin voru mjög menningarlega sinnuð og vinsælt að staldra við hjá þeim og spjalla við þau um bókmenntir, þjóðmál eða annað.
Rögnvaldur var afar skemmtilegur hagyrðingur. Vísur hans voru hnyttnar, vel gerðar og gjarnan þrungnar speki. Dæmi:
Í mér eru reyndar tveir
eðlisþættir ríkjandi.
Hryggð og gleði heita þeir
og hvorugur þeirra víkjandi.
Rögnvaldur lést árið 1987 og síðastliðinn föstudag var Hlín jarðsungin frá Akureyrarkirkju.
Hún var mikil saumakona og tók að sér að sníða og sauma flíkur á fólk. Oft sat hún við þá iðju fram á nætur, ekki síst fyrir jólin. Einu sinni í þannig aðstæðum gerði bóndi hennar þessa vísu:
Situr hún við sauma enn,
sama heldur hún sprettinum.
Bjargast þannig börn og menn
frá bannsettum jólakettinum.
Vísan sú heyrðist í útfararræðunni og einnig þessi eftir sama höfund:
Öll við felum okkar ráð
einni og sömu hendi,
sem að gjörði lög og láð
og ljós í heiminn sendi.
Ég man vel eftir þessum góðu hjónum.
Nú er verið að reisa menningarhús hér á Akureyri og víðar.
En steypan býr ekki til menningu.
Fólkið býr til menningu - eða ómenningu.
Það getur hæglega fyllt hinar glæstustu menningarhallir fjölbreytilegri ómenningu.
En rétta fólkið gerir almenningssalerni að menningarmiðstöð.
Myndina tók ég í frostinu í dag í Krossanesborgum. Horft er upp í aðra náttúruparadís Akureyringa, Súlur og Glerárdal.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2009 | 21:10
Velkomin til Gríslands!
Hann er ráðgjafi ráðherra.
Hann er einn þeirra sem er að hanna skuldaaðlögunarkerfið.
Hann er einn þeirra sem er að smíða skjaldborgina.
Hann er nýbúinn að lýsa því yfir í sjónvarpinu að það séu ekki til peningar í bönkunum til almennrar leiðréttingar á skuldum.
Hann sagði að þeir yrðu bara að borga sem gætu það.
Þótt það kosti ævilangt skuldafangelsi. Þótt það sem fólk átti í fasteignum sínum hafi gufað upp. Þótt lán fólksins hafi bólgnað út. Þótt laun fólksins hafi lækkað.
Því miður. Það eru ekki til peningar í bankakerfinu til að hjálpa ykkur segir maðurinn.
Vegna þess að bankinn fór á hausinn segir hann.
Þessi maður er úr hópi yfirmanna bankans sem fór á hausinn.
Og þegar maðurinn var búinn að tilkynna íslenskum skuldurum að því miður væri ekkert hægt að gera fyrir þá fór hann heim, skrifaði bréf og krafðist þess að bankinn greiddi sér tæpan kvartmilljarð.
Velkomin til Gríslands!
Myndin: Mér er tjáð að íslenskir útrásarvíkingar hafi klæðst þessum bolum þegar þeir gerðu strandhöggið í Danaveldi sællar minningar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)