Færsluflokkur: Bloggar

Bernskunni stolið

Fermingarskóli á Vestmannsvatni 2009 004

 Í síðustu færslu beindi ég athyglinni að þeirri útreið sem helgidagarnir hafa fengið í neysluþjóðfélaginu.

Í kvöld sá ég mjög merkilega fræðslumynd um það hvernig sama þjóðfélag fer með börnin. Hún hét Neyslubörn og var á RÚV.

Þar var sýnt hvernig markaðsöflin verða sífellt ágengari við börnin og reyna kerfisbundið að gera þau að kúnnum og neytendum.

Stelpurnar eiga að kaupa sér föt, snyrtivörur og skart til að verða gjaldgengar.

Strákunum eru innrættar dásemdir ofbeldis og hrottaskapar.

Sálfræðingur fullyrti að unnið væri að því að umbreyta barnssálinni.

Börnin eiga ekki að vera í skapandi leikjum. Þau eiga að sitja klesst við flatskjái. Þau eiga ekki að nota eigin ímyndunarafl heldur annarra.

Árangurinn er sá að þeim börnum fjölgar stöðugt sem eiga við geðræn vandamál að stríða - sem reyndar er jákvætt fyrir sívaxandi barnageðlyfjabransann.

Fleiri sjúkdóma sem hrjá nútímabörn má rekja til þessarar þróunar, t. d. offitu og sykursýki.

Þegar bent er á þetta hefur viðkvæðið gjarnan verið það að börn séu jú bara á ábyrgð foreldranna.

Því var mótmælt í myndinni og staðhæft að þessari óheillaþróun verði ekki snúið við nema með inngripi ríkisvaldsins.

Við megum ekki láta stela bernskunni af börnunum okkar.


Helgidögum stolið

DSC_0362 

Guðni Ágústsson ritaði góða grein í síðasta Helgarmogga. Þar spurði hann hver hefði stolið sunnudögunum.

Hann spurði ekki hvort þeim hefði verið stolið því það er eiginlega óumdeilt. Sunnudagarnir eru að hverfa. Þeir eru ekki svipur hjá sjón. Þeir eru að verða eins og aðrir dagar.

Sömu söguna er að segja af öðrum helgidögum, þeim fáu sem enn eru til.

Dagakúltúrinn er að fletjast út í grámyglaða orvellsku.

Samfélag græðginnar hefur ekki mikið pláss fyrir helgidaga. Þar er manneskjan fyrst og fremst neytandi. Hún þarf að hafa miklar þarfir. Því meiri þeim mun betri. Manneskjan á að vera ófullnægð. Ósátt. Helst óseðjandi.

Neyslunnar vegna er best að gæta þess að við verðum alltaf pínulítið óánægð. Þurfendur. Skortendur. Neytendur.

Saddur maður og sáttur tekur síður upp veskið.

Þess vegna ógna helgidagarnir því samfélagi sem telur stöðuga og sívaxandi neyslu helstu dyggðina.

Á helgidögum eru búðirnar lokaðar og vinnustaðirnir tómir til að minna okkur á að lífið er ekki eintómur þrældómur. Helgidagarnir eiga að stuðla að hamingju mannsins. Þá eigum við að hvíla okkur. Láta uppbyggjast. Kyrra hugana, fá frið í sálirnar. Helgidagarnir minna okkur á hvað er dýrmætt og mikilvægt. Þeir eru til að við getum notið samfélags við þau sem eru okkur mikilvæg og dýrmæt.

Helgidagarnir eru til gera okkur ánægðari og sáttari.

Það er engin tilviljun að verið sé að reyna að stela þeim af okkur.

Ég spyr með Guðna:

Hverjir?

Myndin: Skemmtilegar haustsetteringar í Kjarna.


Kirkjudagur

DSC_0403 

Sunnudaginn 17. nóvember árið 1940 var Akureyrarkirkja vígð. "Veður var bjart og stillt," segir Sverrir Pálsson í bók sinni, Saga Akureyrarkirkju.

Ár hvert er kirkjudagur Akureyrarkirkju haldinn þann sunnudag sem næstur er vígsluafmælinu. Kirkjudagurinn verður því á morgun, 15. 11. Sunnudagaskólinn verður í kirkjunni kl. 11, hátíðarmessa kl. 14 og fjáröflun Kvenfélags Akureyrarkirkju, kaffisala og fleira, í Safnaðarheimili eftir messu.

Kvenfélagið er öflugur bakhjarl starfsins í kirkjunni.

Á vígsludeginum árið 1940 flutti arkitekt kirkjunnar, Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, ávarp. Þar sagði hann m. a.:

Akureyrarkirkja er að mínum dómi langveglegasta og fegursta kirkjubygging, sem reist hefur verið á Íslandi af lúterskum söfnuði.

Biskup Íslands, herra Sigurgeir Sigurðsson, vígði kirkjuna og skömmu síðar minntist hann vígsludagsins í bréfi til vinar síns. Í Sögu Akureyrarkirkju er vitnað í það bréf:

Vígsludagur Akureyrarkirkju verður mér minnisstæður. Kirkjan er stórfögur og vegleg, og hafa Akureyringar verið stórhuga og sýnt mikið örlæti við byggingu hennar. En mest þótti mér þó um vert að komast að raun um, hve hlýtt er í kringum kirkjuna á Akureyri í andlegum skilningi. Þetta kom mjög greinilega fram vígsludaginn og með mörgu móti. Mér fannst því líkast sem andleg vakning væri í bænum þennan dag.

Mörgum er mjög hlýtt til Akureyrarkirkju og ég bið þess að ævinlega verði hlýtt í kringum hana.

Myndin er af kirkjuvörðum Akureyrarkirkju, Sveini Jónassyni og Stefáni Arnaldssyni, við kirkjuna sína.


Líknarhöggið á þjóðina

DSC_0420 

Ég sé ekki betur en að ungir Sjálfstæðismenn séu að leggja til að hætt verði að stunda menningu, listir og rannsóknir á Íslandi.

Nái tillögur þeirra fram að ganga má segja að græðgisöflunum hafi tekist ætlunarverk sitt og fullkomnað glæpinn.

Búið er að hafa af þjóðinni efnisleg auðæfi og sennilega fullveldið líka.

Búið er að skuldsetja börnin og veðsetja framtíðina.

Enn á þjóðin einhver andleg verðmæti og jafnvel snefil af sjálfsvirðingu. 

Nú skal gengið í að klára það dæmi.

Gefa líknarhöggið og veita nábjargirnar.

Drepa listirnar, menninguna og vísindin.

Vel má vera að skattahækkunaráform ríkisstjórnarinnar séu hálfgert brjálæði.

En í þessum tillögum ungra Sjálfstæðismanna birtist djöfulskapurinn sem kom okkur á kaldan klaka.

(Því miður reyndist ekki unnt að setja inn mynd með þessari færslu og kannski segir það sína sögu.)

Jú annars, það hafðist í næstu tilraun, þessi mynd af fallegasta bæ í heimi, tekin nú í vikunni.


Mauraþúfa spillingarinnar

 DSC_0410

 Nýlega sá ég haft eftir Evu Joly að hún teldi kunningjasamfélagið á Íslandi eiga stóran þátt í hruninu. "Of margir lykilmenn hafi þekkst vel," var sagt í fréttinni.

En ekki er nóg með að Ísland sé lítið.

Hér er nánast allri stjórnsýslu hrúgað á sama blettinn á landinu. Fjölmiðlar landsins eru á sama skikanum. Sama máli gegnir um helstu stórfyrirtæki landsins. Og flestar æðri menntastofnanir.

Ísland er enn meira örríki en það lítur út fyrir að vera.

Engu er líkara en að mönnum hafi ekki þótt landið nógu fáránlega lítið og ástæða hafi þótt til að minnka það enn frekar.

Þetta sést í öllum tengslunum milli áhrifafólks sem stundum er fjallað um í fjölmiðlum.

Og þá á ég við ættartengsl en ekki krosseignatengslin með allri þeirri bölvun sem þeim fylgir.

Að ég tali nú ekki um önnur tengsl sem myndast í þeirri mauraþúfu iðandi spillingar sem 101 Reykjavík er:

Rannsóknarblaðamennina sem sofa hjá viðfangsefnum sínum, dómarana sem drekka með sakborningum og þingmennina sem spila golf með stórlöxunum.

Á nýju Íslandi þarf að dreifa lykilfólki og lykilstofnunum til að minnka hættur hinnar þrúgandi nándar.

Með slíkri áeggjan er við hæfi að hafa mynd af höfuðstað Norðurlands í blessaðri haustfegurðinni.

Og minna á flotta staði eins og Borgarnes, Stykkishólm, Ísafjörð, Sauðárkrók, Húsavík, Egilsstaði og Selfoss.


Aumingja frjálshyggjan

Á Vatnsskarði 

Fréttablaðið er mest lesna dagblað á Íslandi enda fá flest heimili landsins það án þess að þurfa að taka upp greiðslukortið eða einu sinni að biðja um blaðið.

Vinstri menn á Íslandi hafa gert Fréttablaðið að sérstökum skjólstæðingi sínum.

Það er ekki nema von því Fréttablaðið var einn helsti boðberi útrásarinnar og græðgisvæðingar samfélagsins.

Á sínum tíma beitti það sér fyrir ýmsum þjóðþrifamálum eins og til dæmis vali á auðmanni ársins.

Og nú hefur Fréttablaðið komist að þeirri niðurstöðu að helsta fórnarlamb kreppunnar sé hvorki eigna- og atvinnulaus almenningur né gjaldþrota fyrirtæki.

Frjálshyggjan er fórnarlambið - eins og leiðari Fréttablaðsins í gær var látinn heita.

Þar er því harðneitað að frjálshyggjan hafi verið "meginvandi Íslands undanfarin ár".

Nei. Hún er fórnarlamb.

Aumingja frjálshyggjan.

Ég fæ ekki betur séð en Davíð Odddsson hafi stórskemmt frjálshyggjuna fyrir Fréttablaðinu.

Er manninum ekkert heilagt?

Ekki er ég mikill frjálshyggjumaður en er það ekki ein kenning frjálshyggjumanna að þeir borgi þjónustuna sem nota hana?

Ekki borga ég fyrir þjónustu Fréttablaðsins frekar er aðrir lesendur þess.

Þó kostar hún sitt. Pappírinn í blaðið, prentunin, dreifingin og blaðamennskan.

Aðrir reiða fram stórfé til þess að ég og aðrir landsmenn geti lesið Fréttablaðið.

Í tilfelli Fréttablaðsins njóta þeir þjónustunnar sem greiða fyrir hana:

Eigendurnir.

Myndina tók ég uppi á Vatnsskarði 20. október síðastliðinn.


Barnið sem Hitler gat ekki drepið

DSC_0380

Albert Speer ólst upp á frekar ströngu og íhaldssömu heimili. Hann var ekki nema sextán ára þegar hann kynntist konu sinni, Margarete Weber. Fólkið hennar var mjög ólíkt fjölskyldu Speers. Þar var til dæmis mikið hlegið. Weberarnir tóku mjög hjartanlega á móti Speer og honum leið vel hjá þeim.

Tengdafjölskylda Speers talaði mállýsku sem honum var ekki alveg ókunn því faðir hans átti til að nota hana í samskiptum við undirmenn sína í vinnunni.

Svo kom stríðið með öllum sínum ólýsanlegu hörmungum og hryllingi. Frá árinu 1942 var Speer hægri hönd Hitlers. Eftir stríð slapp Speer við dauðadóm í hinum frægu réttarhöldum í Nuernberg og furðuðu margir sig á því.

Hann var dæmdur 20 ára fangelsi og afplánaði dóminn í Spandau-fangelsinu í Berlín.

Skömmu áður en Speer fékk frelsið fór hann að dreyma á mállýskunni sem töluð hafði verið á heimili eiginkonu hans tæpri hálfri öld áður. Hann kvaðst hafa verið búinn að steingleyma henni en allt í einu lifnaði hún við á ný. Í draumunum talaði hann mállýskuna við eiginkonu sína og samræður þeirra voru elskulegri en þær höfðu nokkurn tíma verið, að sögn hans.

Seinna ræddi Speer þessar draumfarir sínar við sálgreininn og rithöfundinn Erich Fromm. Fromm sagði að draumarnir sýndu að Speer þráði sína saklausustu og hreinustu tíma. Hann skrifaði Speer og hvatti hann til að láta undan lönguninni að tala mállýskuna eða hugsa á henni í vöku jafnt sem svefni.

Það gæti laðað fram það besta í honum.

Ég las þetta í ævisögu sem mér var gefin um daginn og heitir Albert Speer: His Battle with Truth og er eftir einn fremsta blaðamann heims, Gittu Sereny.

Sagan um mállýskuna og draumana er saga um hið bernska sakleysi og hreinleika sem við öll þráum.

Þrá sem býr í mönnunum og hvorki Adolf Hitler né aðrir harðstjórar ná að ræna frá þeim.

Þetta er saga um barnið inni í okkur sem heimstyrjaldir geta ekki drepið.

Sagan minnir okkur líka á að það býr gott í öllum.

Gitta lýkur frásögn sinni af þessum bernsku hreinleikadraumum næstæðsta valdamanns Þýskalands nasismans á þessum orðum:

One night in 1978, when I stayed with the Speers in their mountain retreat, I heard them speak to each other in that - to me - incomprehensible dialect. They spoke it sometimes, he said in the morning, "when we feel good".

Myndin: Þeir sem aka til Akureyrar að austan fá kveðju þessa lækjar rétt áður en komið er inn í bæinn. Ég hef ekki tölu á hversu oft hann hefur heilsað mér í alls konar veðrum og á öllum mögulegum og ómögulegum tímum. Alltaf hef ég dáðst að honum og lengi hef ég ætlað að eignast mynd af þessum vini. Í dag lét ég verða af því.


Mæðuvarnir kirkjunnar

Skálholt 2009 

Í fyrra, þegar hrunið var nýskollið á, sögðum við í Akureyrarkirkju mæðunni stríð á hendur og efndum til samvera undir yfirskriftinni Mánudagar gegn mæðu.

Nú ætlum við að byrja með þessar samverur aftur og hefjum leikinn á morgun, mánudaginn 9. 11., kl. 20 í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju.

Andlegir hæfileikar verða til umfjöllunar.

Corinne Dempsey, prófessor í trúarbragðafræðum við háskólann í Stevens Point í Wisconsin í Bandaríkjunum hefur rannsakað andlega hæfileika á Indlandi og ritað bækur um efnið.

Undanfarna mánuði hefur hún dvalið hér á Íslandi við rannsóknir.

Á samverunni ætlar hún að bera saman fyrir okkur andlega hæfileika á Íslandi og Indlandi.

Fyrirlesturinn verður endursagður á íslensku.

Í kaffihléi syngja ungar stúlkur úr tónlistarstarfi Akureyrarkirkju við undirleik Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur, organista.

Eftir kaffi svarar Corinne fyrirspurnum og spjallað verður um efnið.

Allir eru hjartanlega velkomnir.

Myndin er tekin nálægt Skálholti 20. 10. 2009. Ég er alltaf hálf áttavilltur þarna en held að flórsykruð fjöllin séu nokkurn veginn í norðvestri.


Prestur í pólitík?

Stóllinn (2) 

Vinur minn spurði mig nýlega að því hvort ég væri á leiðinni í pólitík.

Orsök spurningarinnar var sú að bloggpistill sem ég ritaði nýlega vakti athygli (Réttlætið kemur þeim ekki við). Hans var getið í leiðara Morgunblaðsins og í hann vitnað í svæðisútvarpinu hérna fyrir norðan.

Óskar Þór Halldórsson hafði auk þess við mig örlítið viðtal í tilefni skrifanna sem hljómaði hlustendum svæðisútvarpsins.

Ég held að athyglin sem pistillin fékk stafi af því að þar segi ég hluti sem mjög margir eru að hugsa.

Pistillinn var kannski pólitískur í víðasta skilningi þess orðs en hann var ekki flokkspólitískur. Ég hef fengið mjög jákvæð viðbrögð við honum frá fólki úr öllum flokkum.

Þetta er nefnilega ekki bara spurning um hægri eða vinstri og ég held að fólk sé orðið þreytt á þessum flokkspólitíska skotgrafarhernaði sem alltof lengi hefur viðgengist hér á landi.

Þetta er ekki síður spurning um siðferði.

Þegar ég á sínum tíma tjáði mig um eiturlyfja- og skemmdarverkahátíðina sem efnt var til hér á Akureyri margar verslunarmannahelgar í röð fékk ég mikinn stuðning úr öllum flokkum.

Og þau græðgisöfl sem þar voru að verki áttu sér talsmenn í ólíklegustu hornum.

Ég held að þjóðin hafi aldrei haft meiri þörf fyrir það að heiðarlegt, sanngjarnt og réttsýnt fólk, hvar í flokki sem það stendur, sameinist um að hreinsa og endurreisa landið.

Ærlegar manneskjur er hægt að finna í öllum flokkum og lýðskrumararnir leynast líka víða.

Myndina tók ég um daginn inn í öndvegi íslenskra dala.


Borgaraleg ferming

DSC_0317 

Ég fagna því að aðstandendur borgaralegrar fermingar ætli að efla starf sitt hérna fyrir norðan.

Undanfarin ár hafa nokkur ungmenni að norðan látið ferma sig borgaralega en nú skilst mér að bæði verði boðið upp á fræðslu og athafnir heima í héraði.

Ástæður þess að ég fagna þessu eru eftirfarandi:

Þau ungmenni sem einhverra hluta vegna hafa ekki viljað kirkjulega fermingu hafa ekki haft um annað að velja nema sitja heima. Nú er valkostur til staðar og enn skýrari en áður. Krakkarnir þurfa ekki að upplifa sig utangarðs.

Ég veit að fræðslan sem ungmennin fá í borgaralegri fermingu er vönduð. Við í kirkjunni gætum margt af henni lært. Ég held að börn á þessum viðkvæma aldri hafi mikla þörf fyrir góða leiðsögn og þvert á það sem margir halda eru krakkar á fermingaraldri oft miklir pælarar.

Nú er ekki lengur hægt að segja með jafn miklum þunga og áður að börnin sem kjósa að fermast kirkjulega geri það bara út af gjöfunum. Þau hafa alla vega þennan borgaralega valkost.

Og síðast en ekki síst:

Við eigum að taka öllum þeim fagnandi sem reyna að hafa uppbyggileg og holl áhrif á æsku þessa lands. Nógu eru niðurrifsöflin sterk og ágeng.

Svo er um að gera að uppörva þau ungmenni sem þessa dagana eru að sækja fermingarfræðsluna, hvort sem hún er borgaraleg eða kirkjuleg.

Ég hvet foreldrana til að sýna fermingarstarfinu áhuga.

Að lokum minni ég á að næsta þriðjudag ætla fermingarbörn úr kirkjum landsins að ganga í hús og safna peningum fyrir Hjálparstarf kirkjunnar.

Takið vel á móti krökkunum!

Myndin er af runna í skjóli nætur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband