Færsluflokkur: Bloggar

Ólesnu bækurnar

Hrísatjörnin (7) 

Ég er að lesa bók um það hvernig eigi að ræða um bækur sem maður hefur ekki lesið (Wie man ueber Buecher spricht, die man nicht gelesen hat - ISBN 978-3-7632-5903-8) eftir franska bókmenntafræðinginn Pierre Bayard.

Þar er sú iðja að láta ólesið varin með kjafti og klóm auk þess sem lestrarslúbertum er kennt hvernig þeir eigi að verða viðræðuhæfir í samkvæmum með bókmenntaelítunni.

Höfundurinn veltir fyrir sér hvenær maður hafi í raun lesið bók og hvenær ekki.

Þeir sem á annað borð lesa gera meira en að lesa. Hver lestur er ekki bara neysla á lestáknum. Lestur er alltaf skrif um leið. Lesendur eru jafnframt semjendur. Þeir túlka það sem þeir lesa og vinna lesefnið í hinum miklu hakkavélum heilanna og huganna.

Þessar bloggfærslur mínar eru auðvitað aldrei nema mín hlið á málunum. Þær birta fyrirbærin eins og ég er að upplifa þau.

Og lesendur mínir upplifa þessar upplifanir mínar með sínum hætti. Jafnvel þótt þeir lesi gaumgæfilega sjá þeir hlutina aldrei nákvæmlega eins og ég sé þá.

Mjög sennilega hef ég aldrei sagt nema brot af því sem fólk les á þessari síðu.

Fólk semur sjálft drjúgan hluta þess sem hér stendur.

Kannski eru mestu skáldin lesendurnir?

Samt stend ég við það sem ég skrifa hér nema mér snúist hugur.

Myndin: Látraströndin lesin úr Hrísatjörninni.


Réttlætið kemur þeim ekki við

DSC_0366

Hér eru skattar hækkaðir, laun lækkuð, hér hækka lán, verð á nauðsynjum og þjónustu fer upp úr öllu valdi og fólk er hneppt í skuldafangelsi út lífið. Skuldum óreiðumanna er skellt á bök alþýðunnar. Eignir fólks brenna upp.

En ekki kemur til greina að lækka lán almennings.  Síðast í dag heyrði ég einn ráðherranna segja þetta á Alþingi.

Samt er í raun verið að tala um að leiðrétta skuldir. Laga þær að veruleikanum eftir að kerfið hrundi. En sanngirni hefur aldrei verið hátt skrifuð af íslenskum ráðamönnum.

Það er ekkert svigrúm fyrir réttlætið þegar almúginn á í hlut. 

Á sama tíma berast fregnir af tugmilljarða afskriftum á skuldum auðmanna.

Og þegar hinir háu herrar voru spurðir að því á Alþingi í dag ypptu þeir bara öxlum og sögðu að þeim kæmi þetta ekki við.

Því miður er þetta sennilega rétt hjá hinum háu herrum.  Íslenskir ráðamenn hættu fyrir löngu að skipta sér af réttlætinu.

En þjóðin er þreytt á lygum og leynimakki og hana þyrstir í réttlætið.

Hún mun grípa til aðgerða. 

Eigi sögurnar um afskriftir við rök að styðjast mun ég ekki una því að minn viðskiptabanki gangi fram með þeim hætti.

Myndin: Mánaskin á Eyjafirði.


Glannarnir hneykslast

 DSC_0343

Mikið er ég sammála því sem Egill Helgason segir í þessum pistli.

Þó að löggjöfin hafi verið götótt og stjórnvöld og eftirlitsstofnanir hafi brugðist geta fjárglæframennirnir ekki hvítþvegið sig með því að benda þangað.

Það er aumkunarverður málflutningur.

Hámarkshraðinn á þjóðvegunum er 90 km en í vissum tilfellum er algjör glannaskapur að keyra á löglegum hámarkshraða. Til dæmis í hálku. Eða þoku.

Það getur verið stórhættulegt að telja sér trú um að maður megi alltaf ganga eins langt og manni leyfist. Eða þurfi að gera það.

Fjárglæframennirnir sem þannig hugsa minna á unglinga sem búnir eru að valda stórtjóni með glannaakstri en segjast vera gapandi bit á öllu frelsinu sem þeir hafi fengið.

Nær hefði verið að stoppa þá áður en tjónið varð. Lögreglan hafi brugðist og auk þess hafi umferðareglurnar verið alltof rúmar.

Glannarnir láta þess reyndar ekki getið að þeir reyndu allt til að snúa á eftirlitsaðilana og mörg undanfarin ár hafa þeir heimtað enn rýmri reglur en þeir kvarta nú undan.

Svo taka þeir andköf af hneykslan og bæta við:

"En mestu mistökin voru að selja okkur svona kraftmikla bíla á þessu tombóluverði."

 

Myndin: Við höguðum akstri eftir aðstæðum í sunnudagsbíltúrnum út með firði og gáfum okkur tíma til að dást að landinu, m. a. skælæninu í Hörgárdalnum.

 


Sykurdúddar

DSC_0341 

Við gætum alveg sagt að þetta komi okkur ekki við. Við gætum hrist höfuðin. Við gætum lokað augunum, eyrunum og munnunum. Við gætum horfið inn í okkur sjálf, gerst íhugul og innhverf og glatt okkur við fallegu ljósin okkar.

Er það annars ekki hin kristna dyggð hógværð að láta nægja að labba eftir mjólkinni sinni út í búð og gæta þess að gára aldrei hinn viðkvæma flöt mannfélagsins?

Er það ekki hógværð að skilja eftir sig sem fæst ummerki þannig að um mann verði sagt eins og forðum um manninn:

Sú staðreynd að hann er dáinn er enginn sönnun þess að hann hafi verið á lífi.

Þægilegast er að vera sætur og settlegur, vera sem flestra viðhlæjandi og segja ekkert né gera nema maður sé viss um að það mælist þokkalega vel fyrir.

"Þér eruð sykurdúddar jarðar."

Myndin: Svona leit Glerárgatan út fyrr í kvöld.


Vill einhver elska 49 ára gamlan mann?

 DSC_0185

49 ára afmælisdagur telst venjulega ekki til stórafmæla. Engu að síður finnst mér merkilegt að verða 49.

Þegar ég varð 48 átti ég svo sem ekki von á öðru en að verða 48 þótt maður geti aldrei verið öruggur um neitt. Eftir að ég varð 48 greindist ég með sjúkdóm og 49 ára afmælisdagurinn hvarf í þokureyk óvissunnar.

En allt gekk vel og nú er ég meira að segja í betra ástandi en þegar ég varð 48.

Ég hafði því góða ástæðu til að fagna í dag og vera þakklátur.

Ég fékk margar góðar gjafir. Samstarfskona mín í kirkjunni var svo vinsamleg að gefa mér tvær flöskur af sérinnfluttu pylsusinnepi frá Noregi. Besta sinnep í heimi.

Ég fékk yndislega geisladiska með færeyskum dægurlögum á íslensku og íslenskum slögurum á færeysku.

Mamma og pabbi gáfu mér bók um Jökulsárgljúfur eftir fyrsta landvörðinn í Þjóðgarðinum þar. Með gönguleiðum og vönduðu landakorti.

Vinkona mín færði mér æðislegan uppþvottabursta ásamt borðtusku í stíl.

Svo fékk ég laxaflugur hnýttar af Kalla mági en ég á enn eftir að veiða fyrsta flugulaxinn minn.

Síðast en ekki síst fékk ég heilan helling af góðum kveðjum á Facebook.

Ég tók mér frí eftir hádegið, sletti í form og smurði snittur. Þeir sem glöddu gamla manninn með heimsóknum fóru ekki svangir heim.

Líkurnar á því að ég nái 50 ára aldrinum hafa aukist þótt ekkert sé "fast í hendi" svo notaður sé frasi frá stjórnmálamönnunum og því sé "haldið til haga" svo notaður sé annar frasi úr sömu herbúðum.

Alla vega er styttra í öldina hálfu í dag en það var í gær.

Ég tók á móti 49 ára afmælisdeginum í auðmýkt.

Í tilefni dagsins birti ég mynd sem ég tók nýlega í Vatnsdalnum, þeim dýrðarstað.


Saumaklúbbar

DSC_0137 

Saumaklúbbar eru mikið rannsóknarefni.

Árum saman var konan mín í saumaklúbb. Þar var nokkuð öflugt starf. Farið í ferðir og árshátíðir haldnar.

Einu sinni var árshátíð saumaklúbbsins í elsta húsi Akureyrar, Laxdalshúsi. Var svo mikið fjör í dansinum að ein klúbbsystirin hrasaði og rak hornið á enninu í hornið á borðinu. Blæddi mikið úr og þótti vissara að kaupa leigubíl undir hana upp á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins. Þar þurftu læknar að taka nokkur spor í enni þessarar konu, sem stuttu áður hafði stigið dansspor á trégólfinu í Laxdalshúsi.

Svona er nú gæfan hverful og gleðin.

Árshátíð saumaklúbbsins í Laxdalshúsi verður líka lengi í minnum höfð vegna þess að þá tókst að stífla klósettið í húsinu með slíkum glæsibrag að klóakkerfi Innbæjarins varð óstarfhæft um tíma. Sum heimilin urðu að ganga niður í fjöru til að sinna brýnum erindum. Nutu Innbæingar þá góðs af nálægðinni við hafið enda er Fjaran annað heiti á bæjarhlutanum.

Lengi höfðum við makar kvennanna í saumaklúbbnum með okkur félagsskap sem við kölluðum smíðaklúbb.

Nú er konan í bókaklúbbi. Munurinn á honum og saumaklúbbnum er sá að í bókaklúbbnum er lesið en ég veit ekki til þess að saumað hafi verið í saumaklúbbnum - ef frá eru talin þessi örfáu saumspor sem læknarnir á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins tóku í enni dansglöðu klúbbysturinnar á árshátíðinni forðum.

Ég enda þessar frumspekilegu saumaklúbbspælingar með ljóði sem ég orti og birtist í ljóðabókinni Norðaustan ljóðátt fyrir tuttugu árum. Það heitir Saumaklúbbur.

 

Rauðar varir,

rauðar varir kvenna.

 

Þrungnar og þvældar

af fumkenndri túlkun ómarkvissrar

ástar.

 

Rauðar varir smeygjast

yfir gullnar brúnir kaffibolla,

 

opinbera

hið tignarlega látleysi,

 

sjúga þýðingarmikla reyki

úr vindlum

fullveðja karla.

 

Rauðar varir skrafa

 

en skáldið lemur hold sitt hrísi

blóðrisa fyrir framan beina.

 

Myndin er úr Hvalfirði.


Lof söngnum!

DSC_0246 

Söngurinn er allra meina bót. Sennilega má rekja flest okkar vandamál til þess að við syngjum of lítið.

Söngurinn léttir hin daglegu störf mannsins og gerir lífið bærilegra. Erfiðismennirnir syngja meðan þeir höggva grjótið í svækjuhita. Amma söng alltaf þegar hún vökvaði blómin og hrærði í lummur.

Söngurinn hefur heilsubætandi áhrif. Hann reynir á lungu, hjarta og ýmsa vöðva. Söngurinn er íþrótt.

Söngurinn sameinar okkur umhverfinu og náttúrunni. Söngurinn er ylríkur sunnanblær eða napur norðanvindur. Hann er vellandi lind og straumþungt jökufljót. Hann er mjálmið í kisu, geltið í Snata, dynur hófanna, tíst tittlingsins og ragn nautsins.

Söngurinn er tilfinningasturta. Hann opnar okkur veruleika þess ástfangna, barnsins sem dáist að móður sinni, mannsins sem er hugfanginn af fegurð landsins og smælingjans sem verið er að níðast á. Söngurinn byggir brýr til annars fólks og hjálpar okkur að setja okkur í spor þess.

Þegar við syngjum með öðrum sameinumst við röddum þeirra. Söngurinn er samfélagsmyndandi.

Samt skilur maður eiginlega ekki þetta uppátæki mannskepnunnar þegar hún brast í söng í fyrsta skipti á þróunarbrautinni. Kalt mat segir manni að hún hljóti að hafa haft margt þarfara við tímann gera.

En Guði sé lof fyrir að fleiri möt eru til en þau köldu.

Myndin: Grjótið hefur stundum engu öðru að sinna en að syngja.


Til varnar reiðinni

 DSC_0175

Það þarf að taka til varna fyrir reiðina. Hún er að renna. Hún er að komast úr tísku enda búið að telja þjóðinni trú um að hún þurfi ekkert að vera reið lengur.

Réttir rassar eru sestir í ráðherrastólana og Eva Joly sér um að meðhöndla krimmana.

Reiðin er að vísu varhugaverð. "Hún er eitt andskotans reiðarslag," segir meistari Jón í sínum fræga Reiðilestri. Ég hef minnt á hann áður og veitir ekki af að gera það aftur en um reiðina segir Jón:

Hún afmyndar alla mannsins limi og liði. Hún kveikir bál í augunum. Hún hleypir blóði í nasirnar, bólgu í kinnarnar, æði og stjórnleysi í tunguna, deyfu fyrir eyrun. Hún lætur manninn gnísta með tönnunum, fljúga með höndunum, æða með fótunum. Hún skekur og hristir allan líkamann og aflagar svo sem þegar hafið er uppblásið af stórviðri. Og í einu orði að segja: Hún gjörir manninn að ófreskju og að holdgetnum djöfli í augum þeirra sem heilvita eru.

Betur verður þetta ekki orðað.

En að þessum varnöglum slegnum fullyrði ég að reiðin geti verið holl og stundum sé hún beinlínis nauðsynleg.

Jón Vídalín minnist á þessa gagnsemi reiðinnar í lestrinum sínum:

Það er og ekki réttvíst aldrei að reiðast. Reiðast eigum vér syndum og glæpum, reiðast eigum vér sjálfum oss nær vér fremjum eitthvað af slíku.

Nú þurfum við að reiðast syndum og glæpum, okkar og annarra.

Við megum ekki trúa því sem stöðugt er haldið að okkur að efnahagslegar ráðstafanir séu forsendur endurreisnarinnar. Lán frá útlöndum eru ekki skilyrði fyrir því að við getum risið upp á ný. Ekki aðild að Evrópusambandinu. Ekki Iceasave.

Forsenda endurreisnarinnar er uppgjör. Hreinsun.

Reiðin þarf að brjótast fram sem umskapandi máttur.

Mér finnst fátt vera að breytast á Íslandi. Við hjökkum í sama farinu. Þeir ríku virðast ætla að halda sínu. Þeir fátæku verða fátækari.

Nokkrir nýir leikarar eru á sviðinu en persónurnar eru þær sömu. Sama gamla leikritið er sýnt í örlítið breyttri sviðsmynd.

McDonalds verður Metro.

Myndin: Þessi gamla brú á sunnanverðri Holtavörðuheiði hefur borið marga byrðina en fær nú að hvíla sig og fylgist með næstu kynslóð vinna verkið.


Við sáum það koma eftir á

DSC_0249 

Nú þykjast allir hafa varað við hruninu.

Ef mark er takandi á sumum fjölmiðlamönnum gerðu íslenskir fjölmiðlar fátt annað fyrir hrun en að vara okkur við ástandinu, greina efnahagsbóluna og krítísera útrásina.

En sannleikurinn er auðvitað sá að sárafáir sáu banka- og efnahagsghrunið fyrir.

Og þessir sárafáu voru gjarnan stimplaðir öfundsjúkir sérvitringar og svartsýnir nöldurseggir. Gamaldags lið sem ekki þorði að taka sénsa. Úrtölumenn.

Þeir voru á hinn bóginn allnokkrir sem voru krítískir á íslenskt þjóðfélag, þá hugmyndafræði sem hér var ríkjandi og andann í landinu.

Ég var að blaða í gamalli möppu og fann hugvekju sem ég flutti úti í Ólafsfirði á þjóðhátíð árið 1989, fyrir tuttugu árum.

Aldrei átti ég von á þessu hruni á Íslandi en segi þó meðal annars þetta í þessari gömlu ræðu:

Með sanni má segja að stórhugur sé eitt af megineinkennum tuttugustu aldar Íslendinga. Við flýtum okkur inn í nýja tíma og hugsum bæði hátt og stórt. Við erum það stórhuga, að við erum eiginlega orðin of stór fyrir okkur sjálf og flýtum okkur það mikið, að við erum komin fram úr okkur sjálfum. Við erum það stórhuga að eyjan okkar litla rúmar ekki hugsun okkar. Og flýtirinn á öllu saman er þvílíkur, að við höfum ekki efni á að framfleyta okkur lengur, heldur þurfum við að taka lán hjá erlendum bönkum, við framvísum hugsunarlaust himinháum reikningum til framtíðarinnar, til komandi kynslóða.

Ótalmargir hafa gagnrýnt  það samsæri græðginnar gegn manneskjunni sem átti sér stað á Íslandi fyrir hrunið.

Það þýðir þó ekki að þeir hafi séð hrunið fyrir eða varað við því.

Nú eru reyndar að þróast algjörlega ný vísindi á Íslandi. Þau ganga út á að ritskýra eigin orð þannig að þar hafi verið varað við hruninu - að minnsta kosti undir rós. Þannig hafi viðkomandi alltaf vitað að svona hlyti að fara.

Má binda miklar vonir við framfarir í þessum vísindum og mun ábyggilega ekki líða langur tími uns þjóðin gerir sér grein fyrir að annar hver Íslendingur reyndist hafa séð allt þetta fyrir.

Myndin: Hann var fallegur í dag, Eyjafjörðurinn.

 


Mogginn braggast

DSC_0014 

Mér finnst Mogginn vera að braggast.

Í gær gladdi mig þar og hressti frábær grein eftir Einar Má Guðmundsson. Og hún er merkt rómverskum einum þannig að maður getur átt von á meiru. Ég hlakka til.

Hópjarmið í æseivréttinni var orðið svo seiðandi að ég var kominn langleiðina í sláturhúsið með hinum dilkunum.

Vinur minn einn er með þá kenningu að ekkert hafi breyst á Íslandi eftir hrunið.

Nema eitt.

Millistéttin er að hverfa.

Stjórnvöld stefna að því að þurrka hana út.

Á Íslandi eftir hrun, hinu póstkollapseraða Fróni, verður sama auðmannastéttin og fyrir hrun enda er hún varin með kjafti og klóm. Hún á eignir sínar og fjölmiðla.

Í öreigastéttinni hefur á hinn bóginn fjölgað um það sem gömlu millistéttinni nemur.

Auk þess sem örbirgð öreiganna hefur aukist um það sem samsvarar fyrrverandi skuldum auðmannanna.

Og í dag las ég nýjan og stórgóðan sunnudagsmogga með morgunkaffinu. Flott blað.

Ekki komst ég yfir að lesa Fréttablaðið nema bakþankana eftir Davíð Þór. Þeir voru svo góðir að þótt ekkert annað læsilegt reyndist í blaðinu er þetta besta Fréttablað sem ég hef lengi séð.

Ekki hef ég samt afturkallað uppsögn mína á Fréttablaðinu.

Myndin: Það var að birta yfir Selfossi þegar ég ók þar um í síðustu viku.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband