Færsluflokkur: Bloggar

Þakklátur Íslendingur

DSC_0029

Í krepputalinu öllu gleymist oft að okkur hefur tekist að byggja upp gott þjóðfélag á Íslandi. Hér er gott að búa, þrátt fyrir bankahrun, Icesave, misvitra stjórnmálamenn, misheppnaða fjölmiðla og mistækar eftirlitsstofnanir, svo maður slái um sig með frösum.

Eflaust fer það í taugarnar á mörgum að því skuli haldið fram að Íslendingar séu þrátt fyrir allt lánsamir. Þeir sem dirfast að benda á það eru stundum sagðir reyna að afsaka hrunið og bera blak af öllum þessum misvitru, misheppnuðu og mistæku. Þeir séu að réttlæta spillinguna og allt þetta gjörómögulega og vonlausa og hundleiðinlega land sem við búum í.

Þessa dagana er frekar illa þokkað að vera þakklátur Íslendingur.

Þeir eru nánast grýttir sem benda á að þó að allt hafi farið hér á hausinn og annan endann er óvíða betra að búa en í þessu kalda, einangraða, fámenna og furðulega landi.

Hinir virðast eiga hljómgrunn meðal þjóðarinnar sem segja okkur svo ægilega illa stödd að við höfum ekki lengur efni á að styðja okkar minnstu bræður og systur.

Áhrifafólk hefur stungið upp á því að Íslendingar hætti eða dragi stórlega úr þróunaraðstoð.

Þess ber að geta að þó að hér hafi orðið mikið áfall telst Ísland ennþá með ríkustu löndum. Hér eru bjartar framtíðarhorfur.

Nú segja menn að þessi ríka þjóð hafi ekki efni á að hjálpa fátæku fólki.

Það að eiga gnóttir, vilja sitja einn að þeim og heimta meira, er græðgi. Og græðgin er ein höfuðorsök þess að svo fór sem fór á Íslandi.

Ef við viljum fyrirbyggja annað svona hrun verðum við að uppræta græðgina.

Ég legg til að við Íslendingar bindum í lög að ákveðið hlutfall af þjóðartekjum okkar eigi að renna til fátækari landa.

Ákvörðum um slíkt er fyrirbyggjandi aðgerð. Hún er menntandi og þroskandi.

Nú er vinsælt að tala um að Ísland þurfi að endurheimta traust. Það á að gera með því að láta almenning borga skuldir sem hann stofnaði ekki til.

Það á víst að vera siðaðra manna háttur.

En ætli það teljist siðsamleg framkoma að tíma ekki að miðla öðrum af auðæfum okkar?

Er það traustvekjandi?

Að lokum fagna ég ákvörðun umhverfisráðherra um að vilja ekki undanþágur fyrir Ísland í loftslagsmálum.

Við eigum að vera til fyrirmyndar í þeim efnum og öðrum.

Við eigum ekki að keppa að því að vera ríkust.

Við eigum að keppa að því að vera góð.

(Þessi pistill eftir mig birtist á tru.is í síðustu viku.)

Myndin: Ég kemst alltaf vel frá Skálholtsdvölum - þótt ekki sé sömu sögu að segja af öllum geistlegrar stéttar mönnum úr Hólastifti. Mishæðirnar á myndinn eru held ég Vörðufell og fjær Hestfjall. Það er óskaplega fallegt þarna. Samt fæ ég alltaf örlítinn kláða á aftanverðan hálsinn þegar ég kem í Skálholt.


Bullandi skuld

vatnsskard 

Maðurinn hefur þörf fyrir kærleika. Hann hefur þörf fyrir að einhver hlusti á hann og taki þátt í kjörum hans með hluttekningu. Hann hefur þörf fyrir að einhver fylgist með honum, samgleðjist honum þegar sigrar vinnast og finni til með honum þegar illa gengur. Maðurinn hefur þörf fyrir að skynja hlýju úr hjörtum samferðafólks. Hann hefur þörf fyrir faðm sem fagnar honum og barm til að hvíla sig við og gráta hjá.

Afkoma þjóðarinnar ræðst af því hvernig þessi sammannlega þörf mannsins er uppfyllt.

Mesta skuldin er kærleiksskuldin. Ef við greiðum ekki þá skuld er illa fyrir okkur komið.

Ef við sýnum náunga okkar ekki hluttekningu, ef við gefum honum ekki athygli, ef við hvorki samfögnum honum né samhryggjumst, ef við lokum hjörtunum fyrir honum og bjóðum honum hvorki faðm né barm, þá verðum við skuldugri en sem nemur þúsund Icesaveskuldum og lendum í algjörum ruslflokki meðal þjóða.

Myndina tók ég uppi á Vatnsskarði í gær.


Hestar og prestar

DSC_0075 

Síðustu tvo daga hef ég verið á ekki ómerkari stað en Skálholti. Þar sótti ég námskeið um prédikunina. Kjalarnessprófastsdæmi hélt námskeiðið og prófasturinn, dr. Gunnar Kristjánsson, stjórnaði því.

Þetta er að mig minnir sjöunda námskeiðið sem prófastsdæmið heldur um prédikunina.

Aðalfyrirlesari var dr. Willhelm Graeb, prófessor við Humboldt-háskólann í Berlín.

Hann var einn af kennurum mínum þegar ég var við nám úti í Göttingen fyrir sextán árum.

Graeb fjallaði um mjög áhugavert efni, nýja trúarmenningu í mótun á tímum sem eru post-secular, eða eftir-afhelgaðir. Þýski heimspekingurinn og félagsfræðingurinn Juergen Habermas setti fram hugmyndina um eftir-afhelgaðan heim. Eftir-afhelgunarferlið er að hans mati nokkurs konar leiðrétting á afhelguninni. Trúarbrögð og trúarleg samfélög eru að breytast en gegna engu að síður mikilvægu hlutverki.

Graeb sýndi nokkur dæmi um það hvernig trúin birtist í menningunni. Sérstaka athygli fékk Babel, hin stórkostlega kvikmynd leikstjórans Gonzales Inárritu.

Fjórir prestar fluttu frábærar prédikanir og útvarpsmaðurinn geðþekki, Gunnar Stefánsson, spjallaði við okkur um prédikunina sem orðsins list.

Ég þakka dr. Gunnari og hans fólki fyrir þessi góðu og þörfu námskeið.

Myndin: Á göngutúr í Skálholti hitti ég þetta vinalega hross. Því fannst vanta meiri húmor í prédikun kirkjunnar.


Fljótlegar leynigúrmeuppskriftir

sumarið og haustið 2005 043 

Vegna þess að fólk er í tímaþröng og hefur ekki tíma til að elda réttina sem sýndir eru í matreiðsluþáttunum og uppskriftabókunum koma hér nokkrar tillögur að frumlegu, fljótlegu og meinhollu hnossgæti.

Kaldur lifrarpylsuborgari

Niðursneiddum banana raðað á neðri helming hamborgarabrauðs. Væn sneið af rammíslenskri lifrarpylsu lögð ofaná. Toppað með slummu af SS-sinnepi áður en hamborgaranum er lokað með efri helmingnum af brauðinu.

Sæmundur í kjólfötunum

Mjólkurkexkaka smurð með sméri eða Léttu og laggóðu. Sneið af rúllupylsu smellt ofan á. Þetta smakkast guðdómlega. Hægt að endurtaka eftir þörfum.

Hrognasteikur með perum

Þorskhrogn (mega gjarnan vera niðursoðin) sneidd í þumlungsþykkar steikur og brúnaðar á pönnu. Hálfdós af niðursoðnum perum hellt út á. Hollt og gott. Exótískur réttur. Sumir vilja kalla réttinn Hrognasteikur með perrum.

Danski kúrinn

Slatti af beikoni steiktur á pönnu. Söxuðum eplum bætt saman við. Látið mallast. Síðan er þessu mokað ofan á rúgbrauðssneið á diski. Herlegheitunum skolað niður með túleöli.

Sláturfélagspasta

Tveir hleifar af skyndipasta soðnir. Kryddið ekki notað. Á meðan pastað sýður er einum 1944 skyndirétti, Hangikjöt með uppstúfi, skellt í örrann. Þegar pastað er til er það sett í stóra skál og hangikjötinu blandað saman við ásamt öllu gumsinu.

Verði ykkur að góðu!

Myndin: Fnjóskdælskur lækur fer í vetrarfötin.


Vondir dagar

DSC_0241 

Ég rakst á þennan flotta texta um vondu dagana - en þá þekkjum við öll.

Vondir dagar, þú veist hvernig þeir eru. Þá fer allt úrskeiðis. Þá sérðu ekkert nema svartnætti. Og það sem er verst, þú heldur að þannig haldi það áfram. Vondir dagar eru lengi að líða. Þeir eru lengstir allra daga.

Allir menn eiga vonda daga. Hvað getur maður gert á þeim? Á vondum dögum verður þú að vera þolinmóður, mjög þolinmóður. Þolinmæði er mikil dyggð og maður er alla ævina að læra hana. Í nútímanum á allt að ganga svo hratt fyrir sig. Allar óskir eiga að rætast tafarlaust. Með því einu að ýta á takkann. En lífið er ekki vél sem framleiðir ekkert nema góða daga.

Það eru til góðir dagar og vondir dagar. Góðir dagar líða. Það veist þú og þér finnst það skelfileg tilhugsun. En vondu dagarnir líða líka. Hvers vegna leiðir þú hugann ekki að því og af hverju er það þér ekki huggun?

Höfundur þessara hugleiðinga heitir Phil Bosmans og er belgískur prestur.

Myndin er haustmynd tekin handan og framan Akureyrar.


Að trúa og trúa ekki

DSC_0137 

Ég heyri því haldið fram að ein af orsökum hrunsins hafi verið sú að við vorum of trúgjörn.

Við vorum ekki nógu skeptísk og gagnrýnin.

Það má alveg til sanns vegar færa.

Við trúðum þeim sem sögðu okkur að allt væri í lagi.

Létum mata okkur á bullinu.

Samt gengur þessi kenning ekki alveg upp.

Komið hefur í ljós að hellingur af fólki varaði okkur við. Sagði okkur að hér væru hlutirnir alls ekki í lagi.

Ekki vorum við of trúgjörn á það fólk?

Nei. Þvert á móti.

Við hefðum betur trúað því. Kyngt því.

Spurningin er ekki hvort við trúum eða trúum ekki.

Spurningin er hverju við trúum.

Og hverju við trúum ekki.

Myndin er af glettilega eyfirsku fjalli.


Skrokkum skellt í gólf

DSC_0402 

Farandprédikarinn Benní Hinn kann tökin á því.

Fáum hann til að afgreiða vanhæfa stjórnmálamenn!

Látum hann takast á við Breta og Hollendinga!

Gerum Benní að yfirsaksóknara! Sá yrði ekki lengi að negla auðmennina og útrásarvíkingana!

Sendum Benní síðan á Bessastaði!

Myndbandið hér fyrir neðan sýnir að Benní Hinn er maðurinn sem Ísland þarf!

Ljósmyndin að ofan er á hinn bóginn rétt rúmlega þriggja tíma gömul og er af bæjarfjalli okkar Akureyringa.

 


Svarafátt

DSC_0205 

Við heimtum skýr svör.

Stundum erum við svo gráðug í skýrt svar að við gleymum spurningunni.

Við galopnum eyrun fyrir svörum án þess að hafa hleypt út nokkrum spurningum.

Svör við spurningum sem ekki hefur verið spurt eru platsvör. Raunveruleg svör eru aðeins við raunverulegum spurningum. Heiðarlegur efi er undanfari heiðarlegrar trúar. Og heiðarlegur efi er Guði ábyggilega þóknanlegri en blind trú sem einskis spyr en grípur hvaða svar sem er bara vegna þess að það er svar.

Bara vegna þess að ekkert spurningamerki er á eftir orðinu eða setningunni.

En hinu megum við ekki gleyma að sumar spurningar eiga engin svör.

Ekki nema það svar að þagna, halda í hönd þess sem manni þykir vænt um og horfa með honum framan í þá staðreynd og ofan í það hyldýpi, að stundum verður okkur manneskjunum svarafátt.

Myndin: Haustglóð


Járn fýkur af þökum og fyrirvarar af samningum

DSC_0337 

Dómsdagsfréttir Ríkissjónvarpssins í kvöld voru svo rosalegar að maður þorir varla að andmæla þeim.

Verður manni þá ekki kennt um hrun númer tvö?

Þetta voru samt undarlegar fréttir.

Í fyrsta lagi voru fram leiddir tveir karlmenn sem kvörtuðu sáran undan því að þessum tíðindum hefði verið lekið.

Þó duldist held ég engum að þeir voru nokkuð sáttir við lekann. Þeir gátu varla falið glottin - og annar sagði berum orðum að hann væri í raun bara góður.

"Er það verra, vinur?" var algengt viðkvæði hjá gömlum og frægum Innbæingi.

Í öðru lagi svelgdist mér örlítið á þeim ummælum seðlabankastjórans að í þessari hryllilegu spá hefði ekki verið reiknað með neinum "mótvægisaðgerðum" eins og það var orðað.

Ókei.

Ef bíllinn stefnir fram af hengifluginu er hægt að grípa til "mótvægisaðgerða".

Það er hægt að stýra inn á veginn aftur.

Það er hægt að hemla.

Bíllinn steypist fram af, sagði seðlabankastjórinn okkur í fréttatímanum.

Sé reiknað með því að hvorki verði bremsað né stýrt inn á veginn.

Ekki voru þetta góð tíðindi en ekki gat ég samt varist þeirri hugsun að hér væri líka að minnsta kosti pínulítill spuni á ferðinni.

Það er svolítið sérstakt þegar forsætisráðherra ríkis "lekur" í fjölmiðla hótunum frá andstæðingum þess.

Í þriðja lagi: 

Það er mikið rok þegar járn fer að fjúka af þökum.

Meira var rokið í Höfðahverfinu um árið. Þá fuku falskar tennur út úr bónda.

En í þessu roki fjúka fyrirvarar af samningum.

Mér fannst nauðsynlegt að hafa sumarlega lognmynd með þessari færslu. Hún er tekin við Vestmannsvatn  og er horft fram í Reykjadal.

 


Á rauðu ljósi

Copy of Fjordur2006 016

Ég lenti á rauðu ljósi en var að flýta mér heim í mat. Hafði ekki tíma fyrir þennan lit. Svipurinn á sessunautum mínum þarna á gatnamótunum gaf til kynna að þeir væru sama sinnis. Allir voru að flýta sér og þöndu bílvélarnar óþolinmóðir. Loksins kom gult og við létum græna ljósið ekki bíða eftir okkur.

Heimurinn krefst hraða og við erum undir lögmáli hans.

Við erum krafin um hraða, árangur, framlag og velgengni.

Margir brotna undan kröfum heimsins. Þjóðfélag hraðans krefst mannfórna. Það heimtar mannslíf.

Fólk keyrir út af hinum ýmsu vegum og meiðir sig eða lætur lífið.

Jesús Kristur talar um að ríki sitt sé ekki af þessum heimi. Hann starfar í heiminum og gefur okkur hlutdeild í veruleika sem er ekki af heiminum.

Við erum á rauðu ljósi en bílvélarnar hafa þagnað, dynurinn hljóðnað og asinn stillst.

Hurð fellur að stöfum og fyrir utan hana ólgar heimurinn.

Myndin: Fjöður í fjöru.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband