Færsluflokkur: Bloggar
6.10.2009 | 23:27
Viðkomandi er ekki til
Margt hefiur glatt mig síðustu daga og ýmislegt jákvætt er í gangi - þó að allt sé á þröm heljar því ekki má maður vera of borubrattur og setja verður bjartsýninni fyrirvara eins og öðru.
En að þeim settum fannst mér til dæmis gott að heyra Íslandsbankastýruna Birnu Einarsdóttur, sem stödd er í Tyrklandi, lýsa því að íslensku bankarnir væru aðeins betur liðnir en maður hélt.
Það voru líka notalegar fréttir í kvöld um að íslensk fyrirtæki væru ekki öll á hausnum. Sum jafnvel í þokkalegum málum.
Mér hlýnaði um hjartarætur að heyra að menn væru að gefast upp á AGS.
Jóhanna Sigurðardóttir vill reyndar þrjóskast áfram í sjóðsprógramminu - sem felst í því að lofa Íslendingum láni sem þeir fá ekki nema þeir geri sig gjaldþrota fyrst.
Ræða Jóhönnu í dag var að mörgu leyti ágæt.
Stjörnuleik dagsins eiga samt þeir kollegarnir Jóhann Hauksson á DV og Egill Helgason á RÚV og Eyjunni.
Þeir velta fyrir sér höfundi greinar sem birtist í Mogganum í dag, Siegfried nokkrum Hugemann. Blaðamönnunum finnst þetta í meira lagi dularfullur maður. Jóhann segir frá því að reynt hafi verið að gúggla manninn en án árangurs.
Egill blandar sér í leitina, skrifar færslu um málið á Eyjuna sína og er eggjaður til dáða af blogghernum sínum.
Og sörpræs, sörpræs, spjót rannsóknarinnar beinast að Davíð Oddssyni.
Þangað til Huegemann finnst allt í einu á netinu.
Og þá kemur þessi yndislega athugasemd frá einum af upphafsmönnum Huegemanns-málsins:
Sum okkar vilja vita deili á manninum, og í dag notar maður internetið til þess að finna fleiri skrif eftir viðkomandi. Ef viðkomandi er til.
Slíkt er auðvitað talsvert erfitt ef viðkomandi er ekki til, að því virðist.
Það á að verðlauna menn fyrir svona snilld.
Og sveskjuna í sperðilendanum á svo Egill Sjálfur sem bætir þessu við:
Þess utan er greinin algjör froða - þegar menn fara að tala um 1262 í þessu sambandi er auðséð að þeir vita ekkert hvað þeir eru að segja.
Þetta kallar maður að jarða grein.
Í fyrsta lagi er höfundurinn ekki til.
Þess utan veit hann ekkert hvað hann er að segja.
Haustlitirnir njóta sín á þessari mynd sem ég tók nýlega rétt austan við höfuðstað Norðurlands.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.10.2009 | 15:37
Existensíalisminn og sauðkindin
Tengslin milli danska heimspekingsins og guðfræðingsins Sören Kierkegaard annars vegar og íslensku sauðkindarinnar hins vegar liggja ekki í augum uppi.
Þau eru þó til staðar því Kierkegaard hefði aldrei orðið sá sem hann var ef hann hefði ekki getað lært og helgað sig fræðunum. Það hefði hann ekki getað gert nema vegna þess að hann átti sæmilega stöndugan pabba. Og pabbi Kierkegaards varð ríkur á því að höndla með íslenskar vörur, þar á meðal ull.
Þetta kemur fram í ævisögu Kierkegaards, SAK, eftir Joakim Garff, sem ég hef verið að glugga í annað slagið (ISBN 87-12-04208-0).
Vel má færa fyrir því rök að upphaf tilvistarstefnunnar sé í kindinni.
En Íslands er oftar getið í þessari stórmerkilegu bók.
Þar er til dæmis sagt frá Grími Thomsen og ritgerð hans um Byron lávarð.
Og síðast en ekki síst kemur við söguna Magnús nokkur Eiríksson, "den kaotiske teolog" eins og hann er nefndur í bókinni, sem útleggst sennilega óreiðuguðfræðingur, en hann gaf út rit með afar sérkennilegum titlum og allítarlegum.
Árið 1846 gaf Magnús út ritið "Dr. H. Martensens trykte moralske Paragrapher, eller det saakaldte "Grundrids til Moralphilosophiens System af Dr. Hans Martensen", i dets forvirrede, idealistisk-metaphysiske og phantasisk-speculative, Religion og Christendom undergravende, fatalistiske, pantheistiske og selvforguderske Væsen".
Magnús var hreint ekki búinn að ljúka sér af og fjórum árum síðar sendi hann frá sér annað rit "med en for islændingen karakteristiskt langtitel", svo notað sé orðfæri Garffs. Það hét "Er Troen et Paradox og "i Kraft af det Absurde"? et Spörgsmaal foranlediget ved "Frygt og Bæven, af Johannes de silentio", besvaret ved Hjælp af en Troes-Ridders fortrolige Meddelelser, til fælles Opbyggelse for Jöder, Christne og Muhamedanere, af bemeldte Troers-Ridder Broder Theophilus Nicolaus".
Einhvern tímann heyrði ég að titlar á bókum ættu að lýsa efni þeirra. Það var af þeim sökum sem mig minnir að Þórarinn Eldjárn valdi "Snjóflóð og skriðuföll" besta titilinn því sú bók fjallar einmitt um snjóflóð og skriðuföll.
Varla verður lengra gengið í þessum skóla titlagerðar en hjá Magnúsi mínum Eiríkssyni.
Til heiðurs óreiðuguðfræðingnum Magnúsi Eiríkssyni og öðrum lútherönum set ég hér neðst skemmtilegan söng sem ég fékk nýlega ábendingu um. (Þarf að klikka á Watch on You Tube.)
Myndin: Svona er umhorfs í Kjarnaskógi þessa dagana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.10.2009 | 20:41
Í kirkju
Nýlega fann Eyþór Ingi Jónsson, organisti í Akureyrarkirkju, dýrgrip í nótnasafni kirkjunnar, sálm eftir Kristján skáld frá Djúpalæk.
Jón Hlöðver Áskelsson hefur gert við hann lag.
Sálmurinn heitir Í kirkju og kemur fram á nótnablaðinu að hann sé til brúks á kirkjuhátíðum.
Við ætlum að syngja þennan sálm næsta sunnudag í messu í Akureyrarkirkju.
Þá er heilmikið kóramót í kirkjunni.
Og ekki skal því gleymt að þá verður tekið við framlögum í söfnun Þjóðkirkjunnar fyrir þau sem eiga erfitt vegna kreppunnar.
Sálmurinn er svona:
Hvar finnur sá í veðrum var
sem villtur gengur freðna jörð
og geig í brjósti ber?
Hvar leita skal á flótta för
að friði, er það hér?
Hvar fær hinn sjúki sárabót
og sorgarbarnið huggun þá
sem eigi blekking er?
Hvar finnur sekur sannan vin
og samúð, er það hér?
Hvar gefst þeim aldna athvarf tryggt
og ungum leiðsögn fram um veg?
Þeim von sem vonlaus er?
Hvar kynnist maður miskunn Guðs
og mildi, er það hér?
Hvar hlýtur órór andi svör
sem ævilangt um sannleik spyr
og efans byrði ber?
Hvar leita skal, um langa nótt
að ljósi? Það er hér.
Myndin er af Þverá í Laxárdal, tekin í sumar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.10.2009 | 19:08
Bragðlaukarnir á heimavelli
Í dag keppti ég í matreiðslu í fyrsta skipti á ævinni.
Keppnin var liður í sýningunni Matur-Inn 2009 sem fer þessa dagana fram í Íþróttahöllinni á Akureyri.
Við vorum fjögur sem fengum öll sama hráefnið og höfðum einn og hálfan klukkutíma til að matreiða úr því fjóra skammta.
Keppinautar mínur voru María Sigurðardóttir, leikhússtjóri, Sigrún Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi og Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður.
Ég sneiddi niður rófu og gulrætur, lagði þær í smurt form, setti fjórar saltfisksteikur þar ofan á, nuddaði þær með ólífuolíu, pipraði, dreifði lauk og hvítlauk yfir og dassaði allt með hvítvíni. Síðan lét ég þetta krauma góðan hálftíma í ofni undir álhimni.
Með þessu bar ég fram brokkolístöppu, sauð kartöflur og brokkolí, stappaði það saman, setti smjör og rjóma saman við, pipraði og saltaði.
Þetta var ægilega gott en nægði samt ekki til vinnings. Saltfiskurinn hennar Sigrúnar þótti bestur. Hann hlýtur að hafa verið algjört lostæti.
Annars er þessi sýning stórmerkileg og ótrúlega mikið að gerast í gúrmebransanum hér á svæðinu. Ég smakkaði m. a. bláskel, marineraðan hest, kæstan hákarl, sítrónusmjör og ýsubollur.
Ísland er mikið gósenland.
Myndin: Haustið gerir mig svangan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.10.2009 | 22:35
Bréf frá Kolja
Á ársafmæli hrunsins rifja ég upp bréf sem vinur minn, Kolja Schmidt, sendi mér skömmu eftir að ósköpin dundu yfir.
Síðast þegar ég vissi var Kolja á fullu í stúdentapólitíkinni í Bochum og starfaði einnig með áhugamannaleikhúsi þar í borg.
Hann leyfði mér að nota búta úr bréfinu.
Fyrir ári benti Kolja mér á að kreppan væri ekki bara á Íslandi. Alls staðar lýsti hún sér meðal annars í því að þeir hlypu í felur sem búnir væru að fylla vasana sína.
Og þeir sýnilegu væru á fullu að leika fórnarlömb.
Kolja batt miklar vonir við að á Íslandi yrði hreinsun.
Hann var viss um að við Íslendingar gætum fundið nýtt og betra þjóðfélagsmódel.
Hann sagði að eyru heimsins væru opin fyrir hugmyndum okkar og tillögum.
Hann lofaði mér því að ef við Íslendingar þyrðum að gera tilraun með nýja og betri þjóðfélagsgerð, sem hvorki fælist í kommúnisma né nýfrjálshyggju, myndi heimurinn fylgjast spenntur með.
Kolja benti á að til væru aðrar leiðir út úr kreppunni en með USA eða ESB og ef einhver gæti fundið þær væru það Íslendingar.
Hann endaði bréfið á þessum orðum:
Ihr seid nicht die Opfer am Rande dieser Weltkrise - Ihr seid die Hoffnung der Völker auf einen neuen Anfang.
Sem gæti útlagst:
Þið eruð ekki fórnarlömbin á jaðri þessarar heimskreppu - þið eruð von þjóðanna um nýtt upphaf.
Nú er sem sagt ár liðið frá því að ég fékk þetta bréf.
Lítið hefur breyst á Íslandi. Auðmennirnir eru nánast enn þeir sömu. Þeir halda sínum eignum.
Þeir eiga ennþá megnið af fjölmiðlunum og geta stjórnað umræðunni ef þeim sýnist.
Ennþá ástunda stjórnmálamennirnir það sport sitt að blekkja almenning og fela sannleikann.
Ennþá verða þeir fátæku fátækari og þeir ríku ríkari.
Í stað þess að Íslendingar stæðu saman um endurreisn á nýjum grunni er unnið að því að taka völdin af þjóðinni og afhenda þau erlendum stofnunum.
Ennþá höfum við sömu gömlu leikendurna, sömu stjórnmálamennina, sömu auðmennina, sama fjölmiðlafólkið, sömu gömlu þreyttu álitsgjafana og sama gamla nöldrið.
Svona er nú staðan á ársafmælinu, góðir Íslendingar.
Til hamingju með daginn!
Myndina tók ég í Kjarna í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.9.2009 | 22:59
Norska kanínan
Í kvöld sá ég norskan stjórnmálamann bjóða Íslendingum aðstoð í Ísklafamálinu.
Íslendingar hafa kvartað sárlega undan því að vera einir og vinalausir í þessari deilu við nýlenduveldin gömlu.
Yfirgefnir í veröldinni.
Og hver urðu fyrstu viðbrögð stjórnvalda?
Félagsmálaráðherrann íslenski kallaði þetta tilboð norskan kanínuhatt.
Stundum er sagt að með ákveðna tegund af vinum þurfi menn ekki óvini.
Þessu hefur nú verið snúið við.
Með ákveðna tegund af óvinum - og þá á ég við Breta, Hollendinga, AGS og síðast en ekki síst ESB - þurfa íslensk stjórnvöld ekki vini.
Eða vilja þá ekki.
Ég hef áður lýst aðdáun minni á Ögmundi Jónassyni. Ekki hefur hún minnkað eftir atburði dagsins.
En leyndarhyggjan og lygin í kringum Ísklafann heldur áfram.
Hin síendurteknu ósannindi um málið eru ótrúleg framkoma við þjóðina.
Myndin: Skiltið vísar á nyrsta odda landsins. Megi blekkingar og spuni stjórnvalda um Icesave fara þangað og niður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.9.2009 | 21:01
Græðgin tamin
Í nýlegu tölublaði þýska tímaritsins Spiegel (38/2009) er viðtal við Íslandsvininn góðkunna Dominique Strauss-Kahn, forstjóra AGS.
Kallinn á þar snarpa spretti.
Hann sagði meðal annars frá kvöldverði sem þáverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Hank Paulson, hélt toppbankamönnum nokkrum mánuðum áður en Lehman Brothers bankinn fór á hausinn.
Þá var vitað að framundan væru þrengingar og einn bankaforstjóranna sagði:
"Við höfum verið of gráðugir. Þess vegna þurfum við strangari reglur til að temja græðgi okkar."
Strauss-Kahn sagði að fjármálakreppan hefði ekki verið náttúruhamfarir heldur af völdum manna. Lexían sem hún kenndi okkur væri þessi:
Markaðshagkerfið þarf reglur. Án þeirra er það ekki starfhæft. Kenningar frjálshyggjunnar um helst ekkert regluverk og að markaðurinn sjái sjálfur um að leiðrétta sig líta vel út á pappírnum en í veruleikanum virka þær ekki.
Og forstjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins kemst að sömu niðurstöðu um manninn og við guðfræðingarnir:
Breyskleiki mannsins ber skynsemi hans ofurliði.
Myndin er af nægjusömum könglum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.9.2009 | 13:39
Fokking skuldir óreiðumanna
"Guð blessi Ísland" og "helvítis fokking fokk" eru gjörólíkar yfirlýsingar en eiga það sameiginlegt að vera upprunnar í hruninu sem varð hér fyrir einu ári.
Önnur yfirlýsing sem ætíð verður tengd hruninu er svona:
"Við borgum ekki skuldir óreiðumanna."
Í hana er gjarnan vitnað. Síðast í fréttatíma útvarps í morgun.
Ég lýsi mig fullkomlega sammála henni.
Íslendingar eiga ekki að borga skuldir óreiðumanna.
Íslendingar eiga að standa við skuldbindingar sínar en það þýðir ekki að íslensk alþýða eigi að greiða skuldir sem hún stofnaði ekki til og ber ekki ábyrgð á.
Við borgum ekki skuldir óreiðumanna!
Víða um heiminn er tekist á um þetta:
Forsvarsmenn einkafyrirtækja, sem kröfðust frelsis til athafna og frábáðu sér afskipti ríkisins, koma nú á hnjánum og heimta peninga frá ríkinu, frá almenningi sem búið er að arðræna og skuldsetja í botn og í topp.
Gróðinn var einkavædddur en nú á að ríkisvæða tapið. Hagnaðurinn rann í vasa fárra en nú skulu vasar fjöldans tæmdir til að borga afhroðið.
"We won´t pay for their crisis!" stendur á mótmælaskiltum í Lundúnum.
"Wir zahlen nicht fuer eure Krise!" er hrópað í Þýskalandi.
Það ískyggilega við íslenska hrunið er að hér á landi telst það hafa verið glæpur að halda því fram að við ættum ekki að borga skuldir óreiðumanna.
Íslenskir fjölmiðlar virðast þeirrar skoðunar að slíkar yfirlýsingar verðskuldi hryðjuverkalög og séu að því leyti í flokki með árásinni á tvíburaturnana.
Ég tek undir allar ofangreindar hrunyfirlýsingar og segi:
"Guð blessi þá sem ekki vilja að þjóðin borgi fokking skuldir óreiðumanna."
Myndin: Vegurinn fram í hinn ægifagra Djúpadal.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
27.9.2009 | 21:16
Hvað málar ást?
Orð eru til alls fyrst.
Guð nálgast okkur samt ekki bara í orðum.
Við getum upplifað kærleika hans, skynjað hann eins og þegar sólin vermir andlitið.
Stundum eiga engin orð við. Þegar við verðum fyrir áföllum höfum við ef til vill ekki mesta þörf fyrir einhver orð. Hlýtt handtak, upppörvandi bros og opinn faðmur segir stundum allt sem segja þarf.
Kannski talar Guð oftast til okkar án orða?
Séra Matthías gerir þetta að yrkisefni í einum sínum fegursta sálmi:
Hvað er það ljós, sem lýsir fyrir mér
þá leið, hvar sjón mín enga birtu sér?
Hvað er það ljós, sem ljósið gjörir bjart
og lífgar þessu tákni rúmið svart?
Hvað málar "ást" á æsku brosin smá
og "eilíft líf" í feiga skörungs brá?
Hvað er þitt ljós, þú varma hjartans von,
sem vefur faðmi sérhvern tímans son?
Guð er það ljós.Hver er sú rödd, er býr í brjósti mér
og bergmálar frá öllum lífsins her,
sú föðurrödd, sem metur öll vor mál,
sú móðurrödd, er vermir líf og sál,
sú rödd, sem ein er eilíflega stillt,
þó allar heimsins raddir syngi villt,
sú rödd, sem breytir daufri nótt í dag
og dauðans ópi snýr í vonarlag?
Guð er sú rödd.Hver er sú hönd, er heldur þessum reyr
um hæstan vetur, svo hann ekki deyr,
sú hönd, sem fann, hvar frumkorn lífs míns svaf,
sem fokstrá tók það upp og líf því gaf,
sú hönd, er skín á heilagt sólarhvel
og hverrar skuggi kallast feikn og hel,
sú hönd, er skrifar lífsins lagamál
á liljublað sem ódauðlega sál?
Guð er sú hönd.
Myndin: Veturinn er búinn að panta sér far hingað norður og er væntanlegur. Hann minnti á sig í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.9.2009 | 22:00
Gegnsæir borgarar
Nú er mikið talað um gegnsæi enda margir orðnir þreyttir á þeirri mygluðu leynd sem hvílt hefur yfir gerðum íslenskra stjórnvalda.
Margt bendir til þess að þessi leyndarárátta ráðamanna sé að versna. Upplýsingunum er annað hvort haldið leyndum fyrir borgurunum eða rangar gefnar til að fela sannleikann.
Á sama tíma og stjórnvöld fela sig og sitt er svo alltaf verið að gera okkur borgarana gegnsærri.
Ríkið býr yfir ýmsum líffræðilegum upplýsingum um okkur. Viðskiptalífið vill vita í hvað við eyðum peningunum okkar. Vinnuveitendur fylgjast með okkur í eftirlitsmyndavélum. Það er fylgst með okkur við hraðbankana, í verslununum og á bensínstöðvunum. Ókunnugt fólk njósnar um tölvunotkun okkar og símtöl.
Smám saman skreppur einkalíf okkar saman.
Samkvæmt pólitískri rétthugsun á almennilegt fólk ekki að hafa neitt að fela. Er ekki eitthvað að hjá þeim sem amast við ofangreindri þróun? Við hvað eru þeir hræddir? Hvað þolir ekki dagsljósið?
Nútímamaðurinn virðist líka vera haldinn mikilli sýniþörf sem m. a. sést í bloggi og á feisbúkki. Þar er fólk gjarnan að upplýsa ókunnuga um einkalíf sitt.
Í nýrri bók "Angriff auf die Freiheit" (Árás á frelsið) halda rithöfundarnir Ilija Trojanow og Juli Zeh því fram að allt þetta gegnsæi borgaranna sé farið að ógna frelsi þeirra og réttindum.
Þau minna á að frelsið er ekki gefið í eitt skipti fyrir öll. Það kosti stöðuga baráttu að vera frjáls.
Myndin er nýleg og tekin við Öxnadalsá.
Bloggar | Breytt 26.9.2009 kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)