Færsluflokkur: Bloggar
24.9.2009 | 23:19
Mogginn
Að sjálfsögðu setur maður spurningamerki við það uppátæki að gera einn mesta og umdeildasta áhrifamann landsins að ritstjóra eins helsta, elsta og virðulegasta fjölmiðils landsins.
Það er óneitanlega dálítið berlúskónískt.
Óskar Magnússon, Þorsteinn Már og aðrir eigendur Moggans eru að taka töluverðan séns.
Gallarnir við Davíð sem ritstjóra eru augljósir.
Hann er einn af aðstandendum sýningarinnar sem á að fara að gagnrýna.
Fáir hafa verið lengur á sviðinu en hann.
Hinu má ekki gleyma að Davíð hefur líka kosti í djobbið. Hann þekkir innviði íslensks samfélags betur en flestir aðrir. Og hann er einn af fáum áhrifamönnum sem hafa þorað að hamast í auðmönnum. Alla vega sumum þeirra. Svo er hann ágætur penni og á auðvelt með að ná sambandi við þjóðina.
Davíð þarf samt að hafa mikið fyrir því að sanna sig í þessu verkefni og þar reynir kannski ekki síður á samstarfsmenn hans.
Og samstarfshæfileika Davíðs.
Ég óska honum og Morgunblaðinu alls hins besta og held að það getið orðið spennandi og hollt að lesa blaðið með morgunkaffinu næstu mánuðina.
Því þrátt fyrir allt held ég að það sé hættuminna að menn með skoðanir ritstýri blöðum en að auðhringir eigi þau.
Myndin er af haustlaufi sem ég sá í Naustaborgum í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.9.2009 | 23:17
Fórnarlambafabrikkan
Sum börn eru matvönd. Öðrum finnst ekki gott að borða í stórum hópum. Enn önnur fella sig ekki við matseldina í skólamötuneytinu.
Svo eru það börn sem eiga fátæka foreldra. Þau geta vel hugsað sér að borða í skólanum en foreldrarnir hafa ekki efni á því. Og slíkum börnum fjölgar núna í kreppunni.
Ég veit að í skólunum er allt gert til að koma til móts við þessi börn.
En við verðum að standa saman í þessu, foreldrar og skóli. Það má ekki gerast að svangt barn verði að horfa upp á önnur börn borða í skólunum okkar.
Vissulega verður fólk að bera sig eftir björginni en við megum samt ekki hafa kerfið þannig að fátækt fólk þurfi alltaf að vera á hnjánum.
Því miður er ástandið þannig í þjóðfélaginu að stórir hópar eru búnir að missa sjálfsvirðinguna. Þar á meðal er ungt fólk, heilbrigt, reglusamt og fullt af starfsorku.
Og þessi óheillaþróun byrjaði ekki í hruninu. Ójöfnuðurinn í þjóðfélaginu hefur verið að aukast síðustu árin, bilið milli þeirra ríkustu og fátækustu.
Hættan er sú að í núverandi efnahagsástandi fjölgi þeim enn sem hafa ekkert sjálfsálit.
Úrræði stjórnvalda og stofnana mega ekki fela í sér fjöldaframleiðslu á lúserum og fórnarlömbum.
Við getum þolað þetta hrun og allan þann missi sem því fylgir.
En við megum ekki við því að glata sjálfsvirðingunni.
Myndin: Kirkjusteinn í Kjarnaskógi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.9.2009 | 20:44
Uppreisn er fyrir dyrum!
Þetta er eftirtektarvert:
Svo telst til að allir Stórbretar og Irar séu 43 milljónir. Af þeim er 1 mill. og 1/4 auðmenn, tæpar 4 milljónir efnamenn, en 38 milljónir teljast snauðir eða öreigar. Hlutfallið er 38 móti 5.
Þetta var skrifað fyrir tæpri öld og birtist í Nýju kirkjublaði árið 1913. Greinin hét Siðmenningin rammheiðin. Niðurlag á fyrirlestri Scrutons prests í Glasgow. Ég held að þýðandinn sé sr. Matthías Jochumsson.
Fróðlegt væri að finna samsvarandi tölur fyrir okkar tíma og sjá hvort okkur hefur miðað eitthvað í átt til aukins jafnaðar.
Ég aðhyllist eindregið slíkan jöfnuð, jafn mikið og mér býður við þjóðfélagi þar sem allir eiga að hugsa eins og vera eins.
Ef til vill getum við gert þessi orð Scrutons að okkar eftir að hafa borið saman tölur hans við okkar tíma:
Og þessi er árangurinn eftir alla umliðinna alda áreynslu, kvalir, ógnir og dauða. Allur þorri þjóðanna virðist vera dæmdur til óhjákvæmilegrar þrælkunar undir valdi hinna ríkari og réttarhærri stétta. Uppreisn er fyrir dyrum!
Ég slæ botninn í færsluna með þessum orðum Scrutons:
Mitt starf í lífinu er ekki það að undirbúa manneskjur undir himnaríki í öðrum heimi, heldur að gróðursetja himnaríki í þeim í þessum heimi.
Myndin: Hoho í Eyjafirði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.9.2009 | 00:29
Davíð og Jay
Stutt bloggfærsla að þessu sinni enda alltof framorðið.
Var að horfa á Skjá einn. Jay Leno byrjaði með nýjan þátt þar í kvöld.
Var líka að heyra að Davíð Oddsson sé að byrja með nýjan og ESB-skertan Mogga síðar í vikunni.
Fagna því að sjá Jay og Kevin aftur.
Og kannski maður fari að kaupa Moggann á ný?
Mynd dagsins er af skrautkálplöntum í Lystigarðinum á Akureyri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.9.2009 | 20:51
Hundleitt skuldunaut
Ég er orðinn hundleiður á ísklafamálinu eins og sennilega margir fleiri.
Ég tek undir að leiða verði það til lykta.
En þótt ég sé hundleiður á ísklafamálinu er tvennt sem fer jafnvel enn meira í taugarnar á mér.
Í fyrsta lagi öll hin ægilega og þrúgandi leynd sem hvílir á ísklafamálinu. Stjórnvöld hafa reynt að sveipa það huliðsblæju alveg frá því í byrjun þess. Og þá alveg sérstaklega þeir sem hæst töluðu um að hér ætti að "fá allt upp á borðið".
Það er ósköp fátæklegt þetta margumtalaða borð þeirra.
Nú er enn lagt af stað undir leyndarhjúpnum.
Bresk og hollensk stjórnvöld hafa sumsé brugðist við fyrirvörunum sem Alþingi setti við ríkisábyrgð á ísklafasamninginn.
Upphaflega vildu stjórnvöld fá ábyrgðina samþykkta án þess að samþykkjendur hefðu séð ísklafasamninginn.
Það tókst ekki.
Þegar tókst að spúla felulitina af samningnum átti að samþykkja hann fyrirvaralaust.
Það tókst ekki heldur.
Næst áttu bresk og hollensk stjórnvöld að samþykkja fyrirvarana fyrirvaralaust.
Nú þegar það virðist ekki ætla að ganga upp á allt að vera leyndó og þeir einir mega tjá sig um samninginn sem upphaflega vildu halda honum öllum leyndum fyrir alþjóð.
Hitt atriðið sem ég læt pirra mig enn meira en ísklafasamninginn er dugleysi þeirra sem eiga að standa vörð um hagsmuni íslenskrar alþýðu.
Ég hef enn ekki fengið viðhlýtandi svör við því hvers vegna í ósköpunum íslenskum stjórnmálamönnum er svona mikið kappsmál að íslenskur almenningur verði látinn borga "skuldir óreiðumanna" (svo notað sé orðfæri manns sem virkar eins og rauður dúkur á ákveðna tegund skuldunauta).
Myndin: Hún er leyndardómsfull þokan á Möðrudalsöræfum. Þegar pólitíkusar leggjast í þokuframleiðslu er ástæðan sú að þar á margt að fá að búa.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 00:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.9.2009 | 20:58
Góðir áheyrendur!
Alltaf finnst mér notalegt þegar útvarpsmenn heilsa mér með kveðjunni "góðir áheyrendur".
Ekki er nóg að hafa gott útvarp eða góða fjölmiðla.
Við þurfum líka góða áheyrendur, áhorfendur og lesendur.
Og þegar ég tala um góða er ég ekki að tala um þæga.
Ég er að tala um fólk sem notar dómgreind sína.
Ef við notum dómgreindina segir hún okkur að það sé ekki nóg að fletta dagblaði, hlusta á útvarp eða horfa á sjónvarp til að sjá veröldina eins og hún er.
Einn fáránlegasti frasi fjölmiðlanna er að þeir spegli bara veröldina eins og hún sé. Þess vegna séu þeir eiginlega yfir gagnrýni hafnir.
Það þýðir jú ekkert að rífast við spegilinn.
Dagblað skrifar sig ekki sjálft. Útvarp talar ekki sjálft. Sjónvarpið myndar ekki sjálft. Fréttirnar semja sig ekki sjálfar.
Sá sem segir að fjölmiðlar séu bara spegill er þess vegna að segja að fjölmiðlafólkið sé bara speglar. Það sé óskeikult eins og páfinn.
Góðir áheyrendur vita betur. Þeir vita að mönnum skjátlast.
Þeir nota dómgreindina.
Myndin: Á þessum stað, neðarlega í Aðaldal, er nánast allt sem náttúran hefur upp á að bjóða. Sandur, fjara, sjór, jökulá, bergvatnsá, vötn, hraun, kjarr, skógur, tún, fjöll, hálsar, engi, akrar, gjótur, lautir, sprungur, snjór, víkur og björg. Item sumarhúsabyggð og flottur nánast ónotaður flugvöllur með öllu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.9.2009 | 22:14
Þetta kalla ég upplýsta umræðu
Umræðan gerist sennilega ekki upplýstari en í Kastljósi kvöldsins.
Fyrst spjölluðu tveir karlar um viðbrögð Breta og Hollendinga við ísklafafyrirvörunum.
Þess ber að geta að viðbrögðin sem karlarnir töluðu um eru trúnaðarmál.
Er hægt að hugsa sér betra sjónvarpsefni?
Pólitíkusar að tala við alþjóð um efni sem er algjört trúnaðarmál.
Þegar stjórnmálamennirnir höfðu loksins úttalað sig í botn um helstu atriði trúnaðarmálsins hélt hin upplýsta umræða áfram.
Næstu tveir karlar tjáðu sig um umdeilda leiksýningu í Þjóðleikhúsinu.
Reyndar hafði annar þeirra ekki séð sýninguna sem hann var að tjá sig um.
Ekki kæmi mér á óvart þótt forráðamenn Kastljóss hefðu lagt töluvert á sig til að finna mann til að tala um leiksýningu sem hann hafði ekki séð.
Vel fer á því að bjóða þjóðinni upp á mann að tjá sig um sýningu sem hann hefur ekki séð á eftir stjórnmálamönnum að tjá sig um efni sem er algjört leyndarmál.
Þetta verður ekki toppað nema með því að fá mann í sjónvarpið til að tjá sig um leyndarmál sem hann hefur ekki séð.
Myndin: Í Fjörðum gægðust allt í einu upp fjall og lamb.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.9.2009 | 21:03
Varúð! Viðskiptafréttir!
Í sjónvarpsfréttum kvöldsins heyrði ég um Exista og Bakkavör.
Einnig fékk ég nýjustu tíðindin af athafnamanninum Ólafi Ólafssyni.
Þetta voru býsna digrar fréttir. Mikið kjöt á beinunum, vænir skammtar af upplýsingum og fjölbreytt myndefni.
Ég verð samt að viðurkenna að ég skildi hvorki upp né niður í þessum fréttum.
Ég var engu nær og mér líður ekkert skár.
Undanfarin ár hefur uppstyttulaust rignt yfir okkur alls konar hagtíðindum úr fjölmiðlum landsins.
Fréttatímar ljósvakamiðla voru meira og minna lagðir undir gengi hlutabréfa og flókna fjármálagjörninga.
Kvöldbænir á heimilunum lögðust af en enginn gat gengið til hvílu án þess að vera rækilega upplýstur um gengið á nassdagg og fútsjí.
Dagblöðin gáfu út bisnesskálfa sem voru á góðri leið með að verða jafn stærri beljum sínum og bankarnir ríkinu.
Aldrei í sögu þjóðarinnar hefur henni staðið til boða annað eins magn af upplýsingum úr veröld viðskiptanna og á undanförnum árum.
Og aldrei í sögu þjóðarinnar hefur hún farið ömurlegar út úr viðskiptum en á þeim sömu undanförnu árum.
Sennilega hefur þjóðin aldrei vitað minna um það sem raunverulega skiptir máli í viðskiptum en á þessum tíma, þegar stanslaust var dælt í hana upplýsingum um viðskipti.
Eftir alla þessa bisnessfréttabunu er þjóðin engu nær - nema þá kannski eigin gjaldþroti.
Ár hinna þrotlausu hagtíðinda enduðu með því að hagurinn komst í þrot.
En heyrt hef ég að mörgum gangi betur að sofna með bænarorð á vörunum en nasdagg í eyrunum.
Þessari mynd af þingeyskum himni náði ég nýlega uppi á Fljótsheiði. Mývetnsku fjöllin bíða stolt í fjarska.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.9.2009 | 23:23
Nærgætni
Þegar við erum á netinu höfum við fólkið sem við erum að tala við ekki fyrir framan okkur. Við höfum bara skjá og sjáum ekki annað en orðin sem skrifuð eru á hann af okkur og öðrum.
Tölvusamskipti eru að mörgu leyti frumstæð og ófullkomin og þar er meiri hætta á misskilningi en þegar við tölum við fólk augliti til auglitis.
Þess vegna þurfum við að sýna nærgætni á netinu eins og í öðrum samskiptum.
Tjáningarfrelsið er ekki það að öskra til að ekki heyrist í öðrum.
Ég fann þessi erindi ofan í skúffu:
Þessi skrápur þunnur,
þetta hörund aumt.
Jafnvel mýksti munnur
mælir ekki naumt.
Kveikir þessa kviku,
kelur þessa sál,
ótrúlega mikinn mátt
á mannsins tungumál.
Tungan einu orði
eitri frá sér spýr.
Þú veist ekki hvað að baki býr.
Sár frá yngri árum,
ör sem fáir sjá,
sumir syngja tárum
sínum koddum á.
Minningarnar magna
myrkrið kringum þá,
sálarkvölin hverfur ei
þótt kyssi nóttin brá.
Bráðlega þótt birti,
brosi dagur nýr,
þú sérð ekki hvað að baki býr.
Myndin: Þessi runni í Lystigarðinum kveður sumarið með glæsilegri litasýningu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.9.2009 | 21:18
Fyrst kemur fagnaðarerindið
Ég átti frí í dag. Hóf daginn í ræktinni. Fór svo í bókakaffi og las Spiegel sem ég skolaði niður með tvöföldum espressó.
Mánudagar hafa á sér illt orð en þessi mánudagur hefur svo sannarlega ekki verið mér til mæðu.
Í mörgum dagatölum er mánudagurinn fyrsti vikudagurinn. Fólk byrjar á því að vinna. Endar vikuna á hvíld. Byrjar á hamaganginum en endar í rónni.
Meðan sunnudagurinn fékk að vera fyrsti dagur vikunnar var hugsunin þveröfug.
Þá byrjaði fólk vikuna með því að slappa af og njóta lífsins. Byrjaði á því að hlaða batteríin.
Einhvers staðar las ég að samkvæmt gyðinglegri hefð byrji dagurinn klukkan sex að kvöldi. Þar er sama hugsun. Maður byrjar daginn ekki á því að rífa sig upp úr rúminu, gera á sér morgunverkin, smyrja nesti í krakkana og koma öllum á sína staði, maður byrjar daginn á því að steikja sér fisk og les síðan í góðri bók.
Fyrst kemur fagnaðarerindið. Síðan lögmálið. Fyrst koma góðu fréttirnar. Fyrst finnum við okkur skjól og öryggi. Fyrst endurnærum við okkur og látum uppbyggjast. Fyrst bíðum við róleg og öðlumst en síðan getum við farið að vinna og strita.
Vikan sem er hugsuð sem vika en ekki bara vinnuvika segir að ekki sé hægt að gefa nema hafa öðlast fyrst.
Enginn kunni að gefa nema hann kunni að þiggja.
Mánudagarnir eru ekki til neins nema maður hafi átt almennilegan sunnudag.
Náðin er til alls fyrst.
Myndin: Sunnudagslabbitúrinn var að þessu sinni um Lystigarð okkar Akureyringa. Hann er ekki síður fallegur í haustlitunum en í sumarskrúðanum. Það er nú töluverð eign fyrir eitt bæjarfélag, Lystigarðurinn og Pollurinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)