Færsluflokkur: Bloggar

Ríkið og Móna Lísa

DSC_0192 

Tvennt er ég að hugsa um núna.

Annars vegar orð dr. Páls Skúlasonar um ríkið en ég horfði á ágætt viðtal Egils Helgasonar við hann í Silfri dagsins.

Dr. Páll sagði að okkur ætti að þykja vænt um ríkið. Ég er sammála því. Ríkið er samvinnuverkefni okkar borgaranna. Sumir vilja hafa verkefni ríkisins mikil, aðrir telja að þeim eigi að stilla í hóf.

En það er sama hversu miklu eða litlu hlutverki við útdeilum ríkinu, við hljótum að bera virðingu fyrir því.

Virðing fyrir ríkinu er í raun sjálfsvirðing.

Dr. Páll sakaði okkur Íslendinga um að hafa horn í síðu ríkisins.

Á Íslandi þykir hallærislegt að vera "ríkis-eitthvað".

Ég held að það sé þörf ábending hjá dr. Páli að við þurfum að endurmeta afstöðu okkar til ríkisins.

Ríki er orðið hálfgert skammaryrði.

Andstæðingar Þjóðkirkjunnar kalla hana "Ríkiskirkju" og þeir sem vilja senda mér sneið með áleggi sæma mig titlinum "ríkiskirkjupresturinn" sr. Svavar.

Hins vegar og því sem var annars vegar nánast ótengt:

Ég er að lesa einstaklega skemmtilega skrifaða ævisögu Leonardos da Vinci eftir Stefan Klein. Þar eru m. a. áhugaverðar pælingar um málverkið af Mónu Lísu.

Hvað er svona merkilegt við þá mynd?

Hún er nánast yfirnáttúruleg.

Frumlegasta skýringin á aðdráttarafli listaverksins er að mínu sú að Móna Lísa sé svo vel máluð að hún bregðist við okkur en við ekki við henni.

Hún sé á vissan hátt meira lifandi en áhorfandinn.

Myndin: Í  Árbót í Aðaldal býr einstakt sómafólk. Dæja og Konni eru einhverjar ærlegustu, bestu og skemmtilegustu manneskjur sem ég þekki. Þar að auki hef ég lengi aðhyllst þá kenningu að útsýnið úr stofuglugganum í Árbót sé flottasta stofugluggaútsýni í sólkerfinu og þótt víðar væri leitað.


Spákúlufræði og loftbólufræði

 DSC_0149

Þegar verið var að reisa óperuhúsið í Sidney átti það að verða tilbúið árið 1963.

Því skeikaði ekki nema um tíu ár.

Sérfræðingar áætluðu að byggingin kostaði 7 milljónir ástralskra dollara.

Niðurstaðan varð 104 milljónir dollara.

Þar munaði ekki nema tæpum hundrað milljónum dollara.

Óvissufræðingurinn Nassim Nicholas Taleb tekur þetta sem dæmi um fáránleika hagfræðilegra áætlana og vísindalegra framtíðarspáa í bók sinni Der Schwarze Schwan (á frummálinu The Black Swan. The Impact of the Highly Improbable) sem ég hef áður minnst á hér á þessari síðu.

Það er í raun sáralítið sem við getum sagt um framtíðina.

Fyrir það fyrsta vitum við miklu minna en við höldum. Við ofmetum þekkingu mannsins.

Við gætum spáð fyrir um feril billjardkúlu ef við þyrftum ekki að taka með í reikninginn nema þyngd kúlunnar, höggkraft kjuðans, stefnu og viðnám undirlagsins.

Aðrar kúlur og endurkast flækja málin.

Tilveran er enn flóknari en billjard. Þar eru til dæmis manneskjur. Og enda þótt ekki séu allir sammála um að þær hafi fullkomlega frjálsan vilja sýnir sagan að þú getur aldrei reiknað manninn út.

Fyrir mitt leyti verð ég að viðurkenna að ég kem sjálfum mér iðulega á óvart. Oft veld ég mér sárum vonbrigðum en fyrir kemur að ég geti sagt brosandi og sigri hrósandi:

"Sko mig!"

Ég er ekki fyrirsjáanlegur - Guði sé lof. Margir botna ekkert í mér og margoft skil ég ekkert í mér sjálfur.

Hagspár eru að mati Talebs platvísindi og lítið að marka þær.

Hann hvetur okkur til að taka meira mið af þeirri vitneskju að við vitum minna en við höldum.

Ágætur maður hér í sóknarnefndinni fann formúlu um fjárhagsáætlanir framkvæmda. Hann tvöfaldaði upphæðina og bætti við tíu prósentum. Sú spá hans um framvindu spáa rættist stundum.

Mörg ofboðslega gæjaleg bæjarstæði eru á Íslandi. Til dæmis Möðrufell í Eyjafirði. Ég læt lesendum eftir að finna tengingu myndar við texta.


Ráð handa Íslendingum

DSC_0182 

Nýlega áskotnaðist mér gamall og merkilegur bæklingur. Hann heitir Heilræði fyrir unga menn í verzlun og viðskiftum. Höfundurinn hét George H. F. Schrader, þýskur auðkýfingur. Hann kom hingað til Akureyrar frá Englandi en hafði starfað á Wall Street.

Schrader var hér árin 1912 - 1915 en á þeim tíma voru beinar samgöngur milli Akureyrar og útlanda. Hann bjó á einu flottasta hóteli landsins, Hótel Akureyri.

Fjármunum sínum vildi Schrader umfram allt verja til góðgerðarmála. Þegar hann dvaldist vestanhafs stofnaði hann í því skyni félagið Society for Improving the Condition of the Poor.

Á Akureyri lét Schrader reisa hestahótel. Það gat rúmað 130 hross og 30 knapa. Hótelið nefndi Schrader Caroline Rest eftir móður sinni. Það starfaði til ársins 1947 en var rifið 1979.

Hið víðfræga Kaffi Karólína í Listagilinu fékk líka nafn sitt af móður Schraders enda er kaffihúsið á svipuðum stað og hestahótelið var.

Schrader lét sér mjög umhugað um aðbúnað hrossa og ritaði bókina Hestar og reiðmenn á Íslandi. Hann vildi kenna Íslendingum betri og meiri hestamennsku. Ekki gekk þó áfallalaust að kenna þeim þau fræði. Um það sagði Schrader:

Þeir gegna því ekki, þeir þykjast kunna alt miklu betur. ... Alt hvað er lagt til að gera "dugir ekki á Íslandi, við verðum að hafa það eins og við gerum." Þannig gætum vér hugsað oss, að Ísland tilheyrði alt öðrum heimi, og Íslendingar væri guðs útvalin þjóð - eða þá útskúfuð þjóð, eftir því hvort farið er eftir raupi þeirra af sjálfum sér og öllu íslenzku, eða þá eftir kveinstöfum þeirra yfir fátæktinni og jarðveginum.

Hér virðist lítið hafa breyst í þjóðarsálinni. Fyrir hrun voru Íslendingar bestir í heimi en eftir hrun algjörir aumingjar sem hvorki eru færir um að framfleyta sér né stjórna.

Það er stutt á milli mikilmennskubrjálæðisins og minnimáttarkenndarinnar.

Heilræði Schraders eru gagnleg lesning og flest eru þau enn í fullu gildi. Á sínum tíma voru þau þýdd af Steingrími Matthíassyni. Saga Capital Fjárfestingarbanki lét gefa þau út á ný í fyrra. Formála þeirrar útgáfu ritar dr. Ásgeir Jónsson.

Við hefðum sennilega betur hlustað á t. d. þetta heilræði Schraders:

Reyndu ekki til að græða peninga í flughasti. "Kemst þó hægt fari," og flýtisverk er vanalega flaustursverk. Sá sem dreymir um að auðgast fljótt, verður vanalega fljótt fátækur.

Myndina tók ég við Bægisárhyl í morgun. Þar veiddi ég sjóbirting sem ég grillaði í kvöld. Ef þú getur gefið mér betri mat en ferskan og sólarlagsbleikan sjóbirting, framborinn með nýuppteknum og mánaskinsgulum kartöflum, skal ég éta kínversku loðskinnshúfuna mína.

 

 


Vetrarstarf kirkjunnar

DSC_0035 

Um þessar mundir er vetrarstarfið að fara af stað í kirkjum landsins.

Þar er ýmislegt að gerast. Mig grunar að margir geri sér ekki grein fyrir því fjölbreytta og þróttmikla starfi sem fram fer í kirkjunum.

Við í Akureyrarkirkju hefjum vetrarstarfið með formlegum hætti næsta sunnudag. Fjölskyldumessa verður kl 11 og strax á eftir fundur með foreldrum fermingarbarna. Síðan er opið hús í Safnaðarheimili með léttum veitingum og kynningu á starfi kirkjunnar.

Sóknarnefndir bera fjárhagslega ábyrgð á kirkjustarfi. Vegna efnhagsástandsins eru peningar þeirra minni en áður þótt þörfin fyrir starfið hafi síst minnkað í kreppunni.

Kirkjurnar verða að hagræða í rekstri. Dregið verður stórlega úr framkvæmdum og aðeins brýnasta viðhaldi sinnt. Þannig verður reynt að forða því að kreppan komi niður á starfinu og þjónustunni.

Nú kemur sér líka vel að Þjóðkirkjan hefur á að skipa fjölmörgum vinnufúsum sjálfboðaliðum. Þökk sé þeim fyrir þeirra velvild og starfskrafta.

Vel fer á því að hafa gróskumynd með þessari færslu. 


Bjór og skoðanir

DSC_0044 

Fæstir fá sér eina bjórdós í ríkinu. Menn kaupa bjórinn í kippum þótt þeir ætli bara að fá sér einn.

Skoðanir mynda menn líka gjarnan í kippum.

Þú aðhyllist eina og færð margar með.

Það er ekkert öruggt að röklegt samhengi sé á milli hinna einstöku skoðana í kippunni.

Í Bandaríkjunum eru til dæmis  flestir fylgjendur frjálsra fóstureyðinga andvígir dauðarefsingu.

Hinir, sem segja lífið heilagt og því megi alls ekki eyða því, eru ósjaldan hlynntir dauðarefsingu.

Hér á Íslandi hafa mál þróast þannig, svo dæmi séu tekin, að helst þeir sem eru andvígir afskiptum ríkisins af markaðnum vilja að ríkið setji lög um eignarhald á fjölmiðlum.

Þeir sem á hinn bóginn hvetja til þess að ríkið skipti sér af markaðnum mega ekki heyra á það minnst að ríkið sé að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum.

Á Íslandi eru helstu andstæðingar einkaframtaksins nú um stundir jafnframt háværustu hvatamenn þess að skuldum einkafyrirtækja sé velt yfir á almenning.

Mestu aðdáendur einkaframtaksins sjá hins vegar rautt þegar ríkið ætlar að koma einkaframtakinu til bjargar með þeim hætti.

Hér hafa menn líka galað hátt um hættur hins ábyrgðarlausa athafnafrelsis. 

Mér sýnist stór hluti þeirra gala enn hærra þegar bent er á hættur hins ábyrgðarlausa tjáningarfrelsis.

Stundum læðist að manni sá grunur að skoðanakippa hljóti að hafa myndast eftir neyslu margra bjórkippna.

Myndin: Möstur, vitar og kirkjuturnar eiga ýmislegt sameiginlegt eins og sjá mátti á hinni krúttlegu Raufarhöfn eina ágústnóttina í sumar.


Samtök æruníðinga

 DSC_0008

Nú eru allnokkrar umræður um orðbragð á netinu.

Mín skoðun er sú að netið eigi ekki að nota til að útbreiða róg, lygar og svívirðingar um fólk.

Ég geri mér grein fyrir að ekki eru allir sammála um þetta og vilja endilega fá að útbreiða óhróður, lygar og svívirðingar um nafngreinda einstaklinga á netinu.

Ég geri mér grein fyrir því að ótrúlega margir vilja fá frið og næði til að níða æruna af náunganum og troða mannorð hans í svaðið.

Hagsmunasamtök æruníðinga rísa upp á afturlappirnar og krefjast réttinda.

Landsfundur Íslenskra rógbera sendir frá sér harðorða yfirlýsingu. Þar á bæ finnst mönnum mjög að sér vegið.

Mannorðsmorð eru hluti af umræðunni!

Rógur og svívirðingar eru hluti af frelsinu sem ekki má skerða!

Það eru sjálfsögð lýðréttindi að mega sletta drullu á aðra!

Ég minni á að peningaglannarnir vildu líka fá frið og næði.

Þeir heimtuðu sitt frelsi og ráku upp sár kvein ef skerða átti frelsi þeirra til athafna.

Hér er allt á öðrum endanum vegna þess að menn áttuðu sig ekki á því að öllu frelsi fylgir ábyrgð. 

Ein af orsökum hrunsins er sú að menn gleymdu því að allt frelsi þarf ramma.

Annars umhverfist það í andstæðu sína.

Frelsi til að útbreiða kerfisbundið lygar um fólk til þess að níða af því æruna mun breytast í óskapnað.

Ef samfélagið gefur slík skotleyfi á manneskjur getur farið að styttast í að ofbeldismennirnir fái önnur og skilvirkari skotleyfi.

Myndin: Kerahnjúkur er hæsti tindur við Ólafsfjörð, rétt tæpir 1100 metrar.


Realpólitískt raunsæi

DSC_0112 

Nú eru íslenskir stjórnmálamenn farnir að leggja stund á það sem þeir kalla realpólitík.

Realpólitíkusar eru engir skýjaglópar heldur með báða fætur á jörðinni.

Menn geta haft ákveðna pólitíska sannfæringu en hafi þeir ennfremur aðra algjörlega andstæða sannfæringu er hún mjög sennilega realpólitísk.

Dæmi: Enda þótt menn aðhyllist þá pólitík að vera á móti aðild Íslands að ESB geta þeir hæglega aðhyllst þá realpólitík að sækja um aðild að ESB.

Realpólitíkusar sjá veröldina eins og hún er, ekki eins og hún gæti orðið eða hefði átt að vera.

Sá galli er reyndar á hinni realpólitísku sýn að við sjáum veröldina ekki eins og hún er.

Við túlkum það sem við sjáum og heyrum. Við notum þekkingu okkar, gildismat og fordóma til að vinna úr því sem fyrir augun ber.

Þetta gera stjórnmálamenn ekkert síður en aðrir og realpólitíkusar eru þar ekki undanskildir.

Það sem við sjáum og heyrum er alltaf að einhverju leyti það sem við viljum.

Nú ætla stjórnmálamenn að láta almenning borga ofurskuldir einkafyrirtækja.

Það er realpólitík, er okkur sagt um leið og við erum beðin að opna veskin.

Okkur er sagt að við eigum að borga enda sé búið að reikna út að við getum borgað.

Sannleikurinn á bak við þá realpólitík er á hinn bóginn sá að við erum látin borga vegna þess að realpólitíkusarnir vilja að við borgum.

Það realpólitíska raunsæi lýsir sér í því að eiga enga ósk heitari en að almenningur fái að borga skuldir sem hann stofnaði ekki til með peningum sem hann á ekki til.

Myndin: Haustblíðan í Djúpadal í gær. Horft fram í Kambfell.


Hláturinn bjargar lífinu

DSC_0128 

Þrennt datt mér í hug þegar dóttir mín sýndi mér myndbandið hérna fyrir neðan.

Ég hugsaði um hvað hláturinn er okkur eðlilegur og nærtækur. Eitt af því fyrsta sem við lærum er að hlæja.

Myndbandið minnti mig líka á hvað hláturinn er smitandi. Hlátur er félagslegt fyrirbæri. Hláturinn sameinar fólk.

Og ég fór að hugsa um að sennilega væri ástandið allt öðruvísi og betra í veröldinni ef við notuðum þá guðsgjöf betur sem hláturinn er.

Ef við hlægjum meira saman.

Hláturinn mildar kreppuna.

Hláturinn bjargar lífi fólks.

Það er ekkert mál að taka fínar myndir í Hvalvatnsfirði. Hann er svo guðdómlega fallegur.


Pant ekki vera útrásarvíkingurinn

DSC_0055 

Ofvilnun gæti verið eitt einkennið á hugarfari nútímans. Ofvilnun er forherðing. Samkvæmt Íslenskri hómilíubók er ofvilnun "að ætla sér himinríki, þó maður uni í stórglæpum og láti eigi af þeim né bæti fyrir".

Hómilíubókin fjallar um hugtakaparið ofvilnun og örvilnun. Ég hef áður bloggað um það. Um örvilnun segir bókin að hún sé verst allra synda "því að hún tortryggvir miskunn Guðs" en bætir svo við:

En ofvilnun þar næst, því að hún tortryggvir réttlæti hans.

Bókin útskýrir örvilnun nánar með því að segja að hún sé það hugarfar að "hyggjast eigi munu bætt geta syndir sínar með miskunn Guðs".

Örvilnun er því eins konar faríseismi.

Faríseanum er ekki nóg að Guð elski hann heldur þarf hann að bæta við hinu og þessu til að gulltryggja sig. Það þarf að fasta tvisvar í viku. Það þarf að borga skilvíslega tíund. Það má ekki vera eins og annað fólk. Ekki ræningi. Ekki ranglátur. Ekki hórkarl. Ekki tollheimtumaður.

Og ekki útrásarvíkingur. Né kall með jeppa og hjólhýsi á myntkörfulánum.

Faríseinn treysti ekki miskun Guðs. Hún var ekki nógu ábyggileg. Ekki nógu örugg. Hann þurfti að tryggja hana með sjálfum sér. Hann þurfti að sýna Guði að hann væri góður kostur.

Því má svo aldrei gleyma að eitt skæðasta afbrigði faríseismans er í því fólgið að telja sig ekki vera farísea.

En samanburði Hómilíubókar á örvilnun og ofvilnun lýkur á þessum snilldarorðum:

Þeim mun er örvilnun verri en ofvilnun sem hún er réttri von ólíkari.

Myndin: Slotið sá ég í Skammadal fyrr í sumar ef ég man rétt. Mosfellsbær í bakgrunni.


Stóraukin framleiðsla á lúserum

DSC_0066 

Margir virðast líta á skuldara landsins sem hálfgerða afbrotamenn.

Frá ráðamönnum þjóðarinnar  heyrist að þeir sem skuldi peninga hafi farið of hratt, lifað um efni fram, reist sér hurðarás um öxl og gleymt sér í góðærinu, svo ég grípi suma frasana.

En skuldir landsmanna stafa ekki bara af kaupum á hömmerum og flatskjáum.

Ungt fólk var líka að kaupa sér þak yfir höfuðið, notaði sparnað sinn í útborgunina og fékk afganginn að láni.

Nú hafa fasteignalán þessa unga fólks tvöfaldast en verðmæti íbúðanna snarminnkað.

Í sumum tilvikum er skuldin orðin hærri en andvirði íbúðarinnar.

Fjölmargir lántakendur hafa auk þess lækkað í launum og enn aðrir misst vinnuna.

Þessa dagana er þetta fólk að koma til okkar prestanna og á ekki fyrir skólabókum handa börnum sínum.

Og þetta er fólkið sem fær skilaboðin um að skuldarar Íslands séu hálfgerðir glæpamenn sem beri ábyrgð á efnahagshruninu.

Þeir skuldarar sem enn halda launum sínum óskertum heyra það frá hinum háu herrum að búið sé að reikna út að þeir geti borgað þessi brjálæðislán og því sé ekki nema sjálfsagt að þeir greiði þau.

Þótt blessað fólkið geri ekki annað næstu 40 árin.

Sömu rökin voru reyndar notuð í Icesave-málinu. Þar héldu stjórnvöld því fram að almenningur ætti að borga ofurlánin vegna þess að Seðlabankinn væri búinn að reikna út að hann gæti borgað þau.

 Þótt þjóðin gerði ekki annað næstu áratugina.

Lúserar góðærisins áttu hvorki hömmer né flatskjá.

Stjórnvöld hafa nú stóraukið framleiðslu á niðurbrotnu fólki og tryggja með því nóg framboð af lúserum á Íslandi framtíðarinnar.

Myndin: Í dag var siglt á Pollinum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband