Færsluflokkur: Bloggar

Major Tom í Akureyrarkirkju

DSC_0492

Í guðsþjónustunni í Akureyrarkirkju í morgun veltum við fyrir okkur því að veruleikinn er ekki allur þar sem hann er séður. Fleira er um hann að segja en rúmast í niðurstöðum vísindanna. Ævafornar sagnir trúarbragðanna um uppruna heimsins geta brugðið ljósi á tilvist mannsins - líka þótt þær samrýmist ekki náttúruvísindalegum kenningum.

Þess vegna höfum við listir. Ein verkan listarinnar felst í því að setja fyrirbærin í ný samhengi og fá okkur til að skoða þau í nýju ljósi. Listin er afhjúpandi og ummyndandi og ekki síður þörf en vísindin í menningarlegu og siðuðu  samfélagi.

Listþörf mannsins, sú árátta hans að þurfa að skapa og láta sér ekki nægja veruleikann eins og hann er heldur ummynda hann er ein vísbending um að maðurinn sé andleg vera.

Í kirkjunni erum við umvafin listum. Fáar stofnanir eru listinni háðari en hún. Tilbeiðsla kirkjunnar væri fátækleg og innantóm ef ekki nyti við listanna, t. d. ritlistar, myndlistar og tónlistar.

Gætum við hugsað okkur margar mikilvægustu athafnir lífsins, skírnir, fermingar, giftingar og útfarir, án aðkomu listarinnar?

Í guðsþjónustunni í morgun heyrðum við fallega sálma og forna texta sem eru svo vel ígrundaðir, hugsaðir og skrifaðir að þeir tala inn í líf okkar árið 2016 þótt árþúsund séu síðan þeir voru samdir. Við hlustuðum líka á gamla tónlist og nýja sem lyfti hugum í hæðir.

Sveskjan í sperðilendanum var útspil þeirra fósturfeðga Birkis Blæs Óðinssonar gítarista og Eyþórs Inga Jónssonar organista. Þeir fluttu okkur lagið Space Oddity eftir David Bowie til að minnast hans og þakka það sem hann gaf okkur. Sá tónlistarflutningur var hreint út sagt dásamlegur.

Þegar út var komið blasti við okkur það sem sést á myndinni hér fyrir ofan.

Soli Deo gloria!


Á jólum 2015

 P1030748

 

Víða standa vonarbörn í gáttum

veik og hrakin, köld og óttaslegin.

Augun sínum út  um dyrnar beina.

Enginn veit hvað bíður hinum megin.

 

Hlémegin í heiminum við sitjum,

horfum á þau lyfta smáum fótum,

út í myrkrið stíga stuttum skrefum

stefnulaus og slitin upp með rótum.

 

Sprengjuregnið rekur sum að heiman,

ranglætið úr skjóli önnur flæmir.

Hjarta fullt af fordómum og kulda

flóttabarn til útskúfunar dæmir.

 

Breiðist yfir jólahúmið hljóða,

heyrist óma grátur jötubarna.

Hversu löng sem leiðin þangað verður

lýsi okkur birta þeirra stjarna.

 

Myndina tók ég nú á aðfangadagskvöld þegar ég kom gangandi niður að kirkju til að syngja þar miðnæturmessu.


Hið trúarlega lag Imagine

 

DSC_0352

Í laginu Imagine eftir John Lennon ímyndar höfundurinn sér heim án landamæra, eigna og trúarbragða, þar sem hvorki er til helvíti né himnaríki. Þess vegna finnst mörgum lagið ekki tiltakanlega kristilegt. Aðrir hafa bent á að heimur þar sem hvorki finnast mismunandi þjóðir né trúarbrögð sé ef til vill ekkert spennandi. Þar séu allir eins og hugsi eins og búið sé að svipta okkur hinum dásamlega fjölbreytileika.

Eru það einmitt ekki mismunandi lönd, ólíkir menningarheimar, fjölbreytni í trúarlegum viðhorfum, stjórnmálaskoðunum og lífsháttum, sem gera heiminn spennandi og ögrandi?

Imagine er lag tileinkað samstöðu, einingu og bræðralagi. Í síðasta viðtalinu sem tekið var við þau John og Yoko áður en hann lést árið 1980 segir hann frá tilurð þess. Kveikjuna er annars vegar að finna í ljóðabók eftir Yoko Ono frá árinu 1964 en hins vegar í kristilegri bænabók sem fjallaði um svokallaða jákvæða bæn, positive prayer. John heilaðist af henni. Í jákvæðri bæn er reynt að virkja kraft hugarflugsins; ef þú getur ímyndað þér heim þar sem friðurinn ríkir gæti slíkur heimur orðið að veruleika.

Imagine hefur því trúarlegan bakgrunn og að sögn höfundarins var það ekki samið til höfuðs trúarbrögðunum. Í  viðtalinu segist John ekki sjá fyrir sér heim án trúarbragða heldur sé hann að gagnrýna hugarfar sem oft fylgi trúarbrögðunum, þar sem hver telur sinn guð meiri og stærri en guð náungans.

Imagine er vissulega gagnrýnið á trúarbrögðin og ýmsar trúarlegar hugmyndir. Og þar hefur Lennon mikið til síns máls. Þegar hann talar um að ekkert helvíti sé undir okkur og aðeins stjörnuhimininn yfir okkur er hann að benda á það sem margir kristnir guðfræðingar hafa gert fyrr og síðar: Kristin trú er ekki bundin ákveðinni heimsmynd, ekki hugmyndum miðalda um brennandi helvíti niðri í jörðinni eða kerfi sjö himna í kúplinum sem er yfir jörðinni á meðan hún taldist vera flöt.

Við gleymum stundum að trúarbrögð eru ekki það sama og trú. Trúarbrögðin, siðir þeirra og venjur eru mannanna smíði og að því leyti ófullkomin eins og önnur þannig verk. Sagan sýnir að stundum hafa trúarbrögðin meira að segja orðið óvinir trúarinnar og reynt að kæfa hana. Þess vegna þurfum við að skoða trúarbrögðin á gagnrýninn hátt. Marteinn Lúther er einn þeirra fjömörgu sem það hafa gert en íslenska Þjóðkirkjan er angi þeirrar hreyfingar sem hann kom af stað.

En þó að Imagine sé gagnrýnið á trúarbrögðin hefur textinn ýmsar trúarlegar skírskotanir. Þar er maðurinn í  paradísarástandi sínu, stöðunni sem hann var í fyrir syndafallið, þegar hann var eitt með skapara sínum og hafði þess vegna hvorki þörf fyrir að trúa né trúa ekki. Þá var heldur engin þörf á að stilla upp andstæðum himnaríkis og helvítis.

Í Imagine er líka horft fram á veginn, til enda hans, þegar heimurinn eins og við þekkjum hann verður ekki lengur til. Kristnir menn sjá fyrir sér nýjan himin og nýja jörð. Og eins og John Lennon eiga kristnir menn sér draum um heim án græðgi, hungurs og ranglætis, þar sem enginn mun gera illt eða valda skaða, þar sem hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.

Kristnir menn trúa á þannig heim. Þeir sjá hann fyrir sér. Imagine hjálpar þeim til þess. Að kristnum skilningi er óraheimur Imagine meira en ímyndun. Hann er inntak hinnar kristnu vonar. Þó ættum við mennirnir að vera búnir að læra að uppskriftin að hinum fullkomna heimi er enn ósamin.

Það kann að vera mótsagnakennt, en þannig er það engu að síður: Við eigum okkur von um fullkominn heim en um leið vitum við, að heimur mannsins verður alltaf breyskur og ófullkominn eins og maðurinn sjálfur. Heimurinn verður aldrei það fullkominn að ekki sé hægt að bæta hann eitthvað. Þess vegna hefur heimurinn sjaldan verið líkari helvíti en þegar mennirnir töldu sig hafa fundið upp hið eina sanna paradísarkerfi fyrir þjóðfélag sitt.

Þangað til að vonirnar rætast um nýjan himin og nýja jörð er besta mögulega heiminn sennilega að finna í samstöðu um fjölbreytni.

Lagið Imagine eftir John Lennon er býsna langt frá því að geta talist hlutlaust, trúarlega eða hugmyndafræðilega. Að því leyti finnst mér ekki mikill munur á því annars vegar að láta börn syngja lagið og framkvæma um leið friðarrítúal  og hins vegar því að fara með börn í kirkju til að uppfræða þau um jólahelgihald kristinna manna. Engu að síður getur hvort tveggja að mínu mati vel samræmst því hlutverki sem skólum er ætlað að sinna lögum samkvæmt.

Lagið Imagine er ekki trúarfjandsamlegt þótt það sé stundum túlkað þannig. Það er heldur ekki til höfuðs íslensku Þjóðkirkjunni eða öðrum trúfélögum þótt það það kunni að vera notað þannig.

Lagið er málsvari ímyndunaraflsins og á að bera mætti þess vitni. Þess vegna ætti það að höfða til allra sem sjá meira í þessum heimi en hægt er að hafa fyrir framan augun og finna meira en þeir hafa á milli handanna.

Þess má geta að í janúar í fyrra var Imagine-messa í Akureyrarkirkju. Þar voru sálmar og ritningarlestrar valdir með hliðsjón af þessu fallega lagi og boðskap þess.

 

 „Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu
og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum.
Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman
og smásveinn gæta þeirra. 
Kýr og birna verða saman á beit, 
ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru,
og ljónið mun bíta gras eins og nautið.
Brjóstmylkingurinn mun leika sér 
við holu nöðrunnar
og barn, nývanið af brjósti, 
stinga hendi inn í bæli höggormsins.
Enginn mun gera illt,
enginn valda skaða 
á mínu heilaga fjalli
því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni
eins og vatn hylur sjávardjúpið.


(Jesaja 11, 6 – 9)

Myndin er af Svarfaðardal í aðventuskapi


Þjóðkirkjan

P1030695

Fyrir nokkru þurfti ég að fara á útför og kveðja ástvin í litlu bæjarfélagi úti á landi. Athöfnin var erfið og sár en jafnframt hlý og falleg. Kirkjukórinn veitti huggun með fögrum söng undir öruggri stjórn og spili vel menntaðs organista. Kirkjuvörðurinn tók á móti okkur þegar við komum og vísaði okkur á laus sæti. Prestinum mæltist vel og í kaffinu á eftir blessaði fólk hann fyrir það. Kirkjan var ljósum prýdd og snyrtileg, fögur umgjörð um þessa mikilvægu kveðjustund.

Skömmu síðar var ég viðstaddur stórafmæli annarrar kirkju í öðru bæjafélagi. Þar sungu kórar, m. a. frábær barnakór. Guðshúsið var í afmælisskrúða og kirkjugestir í hátíðarskapi. Kveikt hafði verið á kerti við minnisvarða um drukknaða sjómenn sem stendur við kirkjuna. Kirkjuverðir og meðhjálparar aðstoðuðu við helgihaldið. Á eftir bauð sóknarnefndin í kaffi og tertur. Þar sat ég til borðs með fólki sem lýsti yfir mikill ánægju með prestinn sinn. Ég heyrði að það var þeim dýrmætt. Fólk gerir kröfur til prestanna. Þess vegna er það líka óhrætt við að gagnrýna þá þegar þeim tekst ekki vel upp.

Í kirkjunni þar sem ég starfa á ég yndislegt samstarfsfólk. Sumt er á launum eins og ég og getur helgað sig þessari þjónustu óskipt. Söfnuðurinn hefur til dæmis tvo organista á sínum snærum enda er fjöldi kóra starfandi við kirkjuna. Nýlega var ég  á árlegum jólasöngvum kirkjukórsins. Ekkert kostar inn á þá og þeir eru svo vinsælir að þeir fara langt með að fylla kirkjuna tvisvar sinnum. Annað starfsfólk kirkjunnar tekur ekkert fyrir störf sín, til dæmis  hjálparkokkar í barna- og æskulýðsstarfi og sóknarnefndarfólk. Ég stórefast um að nokkur hreyfing eða félagasamtök hér á landi hafi á að skipa fjölmennari hópi sjálfboðaliða en Þjóðkirkjan.

Áðan fékk ég tölvupóst frá konu sem sagðist ætla að koma nú eftir helgina með örlitla peningaupphæð. Peningunum á ég að koma til fjölskyldu sem á erfitt.

Í gær hitti ég mann sem er á leiðinni til mín með fjórar gjafakörfur, fullar af kjöti og öðru góðgæti. Körfunum eigum við prestarnir að koma á rétta staði.

Nú sit ég og skrifa jólaræðurnar og ég veit að vítt um breitt um landið eru kollegar mínir að gera það sama. Þau sitja við tölvurnar sínar með Biblíuna opna á öðrum kafla Lúkasarguðspjalls. Á borðinu logar á kerti og ef til vill er þar skál með piparkökum og glas af jólaöli. Við þurfum að leggja okkur alveg sérstaklega vel fram við jólaræðurnar því á jólunum fara margir í einu kirkjuferð ársins. Væntingarnar eru miklar og enginn má verða fyrir vonbrigðum á sjálfum jólunum. Þess vegna eru kirkjukórar landsins líka fyrir löngu byrjaðir að æfa jólasálmana, organistarnir forspilin og kirkjuverðirnir búnir að fægja altarisstjakana og koma altarisdúkunum í hreinsun.

Ég segi eins og biskupinn minn nýlega í góðu blaðaviðtali, þessi kirkja sem maður les um í fjölmiðlum er allt önnur en kirkjan sem maður upplifir.

Guð blessi biskupinn, kollega mína, djáknana, söngfólkið, organistana, meðhjálparana, sóknarnefndarfólkið, kirkjuverðina, skrifstofufólkið, kvenfélagskonurnar, æskulýðsstarfsfólkið, sjálfboðaliðana og öll þau fjölmörgu sem njóta þjónustu kirkjunnar.

Ég er stoltur af kirkjunni minni og þakklátur fyrir að mega tilheyra hennar fjölskrúðuga samfélagi.

Gleðileg jól!


Drulluhrædd

 DSC_0344

Nýlega lásum við fréttir af reykvískri konu sem vildi ekki leigja palestínskri kynsystur sinna litla íbúð vegna þess að sú palestínska var íslamstrúar. Kvaðst íbúðareigandinn vera drulluhræddur við múslima eins það var svo hreinskilnislega orðað.

Þessar vikur eftir hryðjuverkin í París hefur óttinn í sínum fjölbreytilegu myndum verið eitt helsta þemað í umræðunni.  Saga mannsins er full af skelfilegum atburðum. Hún sýnir að við höfum nóg að óttast. Við getum verið drulluhrædd við ótalmargt. Auk hryðjuverkanna er til dæmis hægt að hræðast náttúruhamfarir, flugslys, hlýnun jarðar, krónuna, Evrópusambandið og framsóknarmenn.

Um síðustu helgi benti einn pistlahöfundur Fréttablaðsins á þá augljósu hættu sem af því og öðrum blöðum stafar; þegar þeim er flett getur pappírinn skorið lesendur í fingurna sem í ákveðnum tilfellum getur valdið banvænum sýkingum.

Í blaðaviðtali í síðasta mánuði segir íslenskur metsöluhöfundur:

„Gleymum því ekki að þó að Þjóðkirkjan sé núna eins og úlfur í sauðargæru, þá er þetta úlfur. Þetta er fyrirbæri sem hefur stórskaðað okkur í aldanna rás og valdið ómældum hörmungum. Þó þeir sýnist vilja bæta sig núna þá byggir þetta á trúarbrögðum sem eru ekki falleg. Og það er vandamálið."

Íslenska Þjóðkirkjan er meðal þess sem áhrifamiklir menn segja okkur að óttast og þessa dagana vinsælt er að ala á ótta við trúað fólk og trúarbrögð.

Í innsetningarræðu sinni árið 1933 sagði forseti Bandaríkjanna, Franklin D. Roosevelt, að hans bjargfasta trú væri, að það eina sem þjóð hans þyrfti að óttast væri óttinn sjálfur.

Við getum lifað lífinu í ótta. Við getum litið á alla múslima sem líklega hryðjuverkamenn. Við getum litið á alla presta sem líklega barnaperra. Við getum litið á alla stjórnmálamenn sem líklega svindlara, alla kaupmenn sem líklega gróðafíkla og allt trúað fólk sem líklega öfgamenn.

Við getum látið vantraustið og óttann naga okkur að innan og naga síðan í sundur öll tengsl í þessu þjóðfélagi, þar sem allir vantreysta öllum og búast ekki við neinu nema því versta af náunganum.

Óttaboðendur heimsins hafa nokkuð til síns máls. Því er ekki að neita að Vesturlönd eiga óvini og fjandmenn. Til er fólk sem fyrirlítur lög þessa heimshluta, rétt, trú, siði, menningu og viðhorf. Og vegna þess að slík andúð er til reynist auðvelt að næra óttann, viðhalda honum og magna hann upp.

Saga mannsins sýnir ennfremur að verði með einhverjum hætti hörgull á raunverulegum óvinum er lítið mál að búa þá til. Fátt er vænlegri söluvara en óvinir og andskotar. Í Þriðja ríkinu voru það gyðingarnir sem urðu blórabögglarnir og uppspretta alls ills. Á tímum mcarthyismans í Bandaríkjunum á fyrri hluta síðustu aldar voru það kommúnistarnir. Nú virðist í okkar  heimshluta þörf á að æsa upp ótta fólks við múslima og heimilislausar og stríðshrjáðar manneskjur.

Og í vissum kreðsum á Íslandi sér fólk rætur okkar helstu meina í Þjóðkirkjunni og trúarbrögðunum.

Myndin er af aðventunni eins og hún kom mér fyrir sjónir fyrr í morgun.


Frjálsir miðlar og ófrjálsir

DSC_0084

Síðasti pistill fjallaði um einkarekna fjölmiðla. Þeir eru stundum nefndir „frjálsir“ til aðgreiningar frá ríkisreknum fjölmiðlum sem samkvæmt þessari flokkunaraðferð ættu að vera ófrjálsir.

Ég er þeirrar skoðunar að fá hugtök séu jafn oft misnotuð í samtíðinni og frelsið. Enginn fjölmiðill er frjáls í þeim skilningi að hann geti gert það sem honum sýnist eða sé engum háður. Markaðsvæðing fjölmiðlanna hefur haft í för með sér margháttað ófrelsi þeirra. Þeir hafa verið seldir undir allskonar miskunnarlaus og grimm lögmál.

Eitt þeirra er lögmál markaðsins. Markaðsvæðing fjölmiðlanna leiðir til þess að þar er boðið upp á efni sem selst. Fjölmiðlar sem hafa það hlutverk að vekja og leiða þjóðfélagsumræðu, styðja menningu, veita valdinu aðhald, flytja fréttir, upplýsa almenning um samhengi þeirra og birta fjölbreytileg sjónarhorn og skoðanir, fást fyrst og fremst við það sem talið er líklegt til vinsælda og fellur að smekk auglýsenda.

Krafan um hagkvæmni og ágóða hefur komið niður á gæðum blaðamennskunnar eins og dæmin sanna. Eigendur fjölmiðlanna eru í bisness og vilja fá sem mest fyrir sem minnst.

Meðal þess valds sem fjölmiðlum er ætlað að veita aðhald er peningavaldið. Það hlýtur að vera eitt af undrum veraldarinnar að menn sjái ekki þau augljósu staðreynd, að fjölmiðlar geta illa sinnt því verkefni ef þeir eru í eign þeirra sem þeir eiga að gagnrýna.

Svonefndir „frjálsir“ fjölmiðlar eru því alls ekki frjálsir.

Ég hef lengi verið ákafur stuðningsmaður lagasetningar sem tryggir að eignarhald á fjölmiðlum sé í skynsamlegri dreifingu. Ég tel það stórhættulegt ef hinu mikilvæga hlutverki fjölmiðla er sinnt af örfáum fulltrúum peningavaldsins. Það á ekki síst við í litlum og þröngum þjóðfélögum eins og okkar.

Þótt ég sé frekar hlynntur einkaframtakinu tel ég að mörgum mikilvægustu verkefnum fjölmiðlunar sé best sinnt af fjölmiðli sem sé í sameign þjóðarinnar og hafi almannahagsmuni að leiðarljósi en ekki hagnað nokkurra útvaldra. Þess vegna er ég eindreginn ríkisútvarpssinni og tel þá stofnun eina dýrmætustu stofnun samfélags okkar.

Þar með er ekki sagt að ég sé ánægður með núverandi fyrirkomulag þessara mála. Mér finnst Ríkisútvarpið oft hættulega ófrjálst. Því er t. d. stjórnað af fulltrúum stjórnmálaflokkanna. Sú tilhögun hefur leitt til þess að þessi menningarstofnun er bitbein þeirra og ýmist peð í hinni pólitísku refskák eða sjálft taflborðið. Mér finnst að þjóðarútvarpið þurfi að vera á ábyrgð fleiri fjöldahreyfinga en þeirra sem eiga fulltrúa á Alþingi. Ég dreg líka í efa að það eigi að vera sérstakt verkefni ríkisrekins fjölmiðils að nýta skattfé borgaranna til að flytja dægurlög og aðra afþreyingu sem nóg framboð er af í öðrum miðlum. Á sama tíma og Ríkisútvarpið leggur þessa miklu áherslu á allskonar afþreyingu vanrækir stofnunin stóran hluta þjóðarinnar því landsbyggðin er varla til í dagskrá þess. Það er auðvitað ekki þolandi þegar um er að ræða fjölmiðil sem kennir sig við þjóðina alla.

Að lokum vil ég mótmæla þeim fyrirætlunum að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði.  Verði það gert mun það skerða tekjur stofnunarinnar. Þar að auki eru auglýsingar ekki bara til að dæla peningum inn fjölmiðlana.  Þrátt fyrir allt skrumið, ýkjurnar og stundum glerhörð ósannindi geta líka verið mikilvæg skilaboð til almennings í auglýsingum. Hvað er hægt að kaupa? Hvar kostar það minnst? Hvað er að gerast? Hvaða bækur eru að koma út?

Mér finnst ekki nema sjálfsagt að þjóðarútvarp upplýsi almenning um slíkt  þótt eflaust megi setja umfangi auglýsinga í dagskrá einhver mörk.

Myndin er tekin frammí í Eyjafirði


365 spámiðlar

DSC_0568

Á sjónvarpsstöð 365 miðla, Stöð 2, hafa menn tekið sér fyrir hendur að fletta ofan af spámiðlum og saka þá um svik og pretti.

Í dagblaði 365 miðla, Fréttablaðinu, er stór hluti hvers blaðs reglulega helgaður „fréttum“  af smyrslum, kremum, töflum og elexírum, sem eiga að vera bót allra meina og lækna allskonar sjúkdóma. Þessum tíðindum er mokað inn á stóran hluta heimila landsmanna endurgjaldslaust.

Í Fréttablaðinu í dag er til dæmis fjallað um rauðrófuhylki sem eiga að lækna hand- og fótkulda og auka snerpu og úthald.

Í blaðinu í gær var viðtal við konu sem sagði að með því breyta til á heimilinu og koma þar fyrir allskonar smáhlutum, „búddastyttum og öðrum trúartáknum“, komi inn „ný og góð orka sem eykur vellíðan“.

Í síðustu helgarútgáfu Fréttablaðsins var hálf síða tileinkuð fréttaflutningi af hinum mögnuðu Melissa-Dream töflum sem fá fólk til að sofa betur og vakna endurnært. Þar að auki stuðla töflurnar að „eðlilegri vöðvastarfsemi“ eins og það er orðað í blaðinu.

Hinn helming umræddrar  blaðsíðu nýttu 365 miðlar til að upplýsa fávísan almenning um kynngi Femarelle-hylkjanna. Þau laga verki í liðamótum og bæta meltinguna. Viðmælandi blaðsins var hættur að geta heklað og prjónað en er nú orðinn fær um það á ný, þökk sé Femarelle-hylkjunum.

Ekki er nema vika síðan Fréttablaðið flutti Íslendingum allítarlegar fréttir af fæðubótarefninu Norðurkrilli. Verkan þess er ótrúlega öflug ef mark er takandi á fyrirsögn fréttarinnar sem blasti við rauðeygðum lesendum Fréttablaðsins þegar það var opnað við morgunverðarborðin:

Laus við kvef og veikindi

Ekki er nóg með að Krillið losi menn við veikindi. Notandi efnisins segir í viðtali við Fréttablaðið að auk þess finni hann síður fyrir augnþreytu eftir að hann byrjaði að taka tvö hylki af Norðurkrilli á dag.

Hvernig væri heilsufar þjóðarinnar ef 365 miðlar og Fréttablaðið fjölluðu ekki reglulega um öll þessi undraefni?

Þess ber að geta að ofangreindar fréttir birtust allar í Fréttablaðinu á síðustu sjö dögum.

Ég  óska 365 miðlum góðs gengis í baráttu fyrirtækisins gegn hindurvitnum og falslækningum.

Megi Mátturinn vera með þeim.

Myndin: Ég trúi því að útivist á fallegu októberkvöldi bæti heilsuna.


Aðskilnaður ríkis og kirkju

DSC_0612 (2)
Ég er ekki á móti aðskilnaði ríkis og kirkju. Ég held þvert á móti að nauðsynlegt sé, bæði fyrir kirkjuna og ríkið, að endurskoða þessi tengsl og skerpa skilin á milli þessara tveggja aðila. Stórt skref í þá átt var stigið árið 1997, með lögum um stjórn, stöðu og starfshætti þjóðkirkjunnar, þar sem tekið er fram í fyrstu grein, að íslenska þjóðkirkjan sé sjálfstætt trúfélag.

En betur má ef duga skal. Þjóðkirkjan treystir sér ekki alveg til að ganga ein og óstudd því strax í næstu grein stöðulaganna segir að ríkisvaldinu beri að „styðja og vernda þjóðkirkjuna“. Sú lagagrein sýnir ennfremur að ríkið virðist heldur ekki tilbúið að sleppa hendinni af þjóðkirkjunni.

Ég tel það þjóðkirkjunni fyrir bestu að hún hafi sitt á hreinu, þar með talin hin fjárhagslegu tengsl við ríkið.

Og ég treysti kirkjunni alveg til að standa á eigin fótum. Þar er unnið metnaðarfullt starf af hæfileikaríku fólki. Fáar fjöldahreyfingar á þessu landi eiga á að skipa jafn fjölhæfu liði sjálfboðaliða og þjóðkirkjan.

Mér sýnast menn ekki á einu máli um hvað felist í því að skilja að ríki og kirkju. Sumir halda því fram að sá aðskilnaður hafi þegar átt sér stað. Aðrir telja að á meðan fjármagn renni til kirkjunnar úr ríkissjóði sé ekki hægt að tala um að aðskilnaður hafi farið fram. Enn aðrir segja að til að skilja að ríki og kirkju verði að nema úr gildi 62. grein stjórnarskrárinnar um þjóðkirkju Íslands.

Allt eru þetta sjónarmið sem taka verður tillit til og þjóðin verður að ræða. Því miður sýnist mér aðskilnaðarmálið að mörgu leyti orðið að pólitísku sælgæti sem stjórnmálaöfl veifa til að höfða til ákveðinna hópa í samfélaginu. Umræðan helgast af því markmiði.

Auk þess sem þegar hefur komið hér fram finnst mér mikilvægt að eftirfarandi sjónarmið verði rædd:

Í fyrsta lagi útilokar aðskilnaður ekki að ríki og kirkja geti haldið áfram að eiga gott samstarf. Aðskilnaður ríkis og kirkju þarf heldur ekki að hafa í för með sér að ríkinu sé óheimilt að styðja og styrkja kirkjuna eins og önnur frjáls félagasamtök fjárhagslega og með öðrum hætti telji það ástæðu til. Sumstaðar í löndunum í kringum okkur er samvinna ríkis og kirkju enn meiri en hér þótt þar hafi verið formlega skilið á milli þeirra aðila.

Í öðru lagi felur aðskilnaður ríkis og kirkju ekki í sér að þeir aðilar geti ekki gert samninga sín á milli eins og tveir sjálfstæðir aðilar, þar með talið um meðferð jarðeigna og innheimtu félagsgjalda.

Í þriðja lagi heldur þjóðkirkjan áfram að vera Þjóðkirkja þótt sambandi ríkis og kirkju sé breytt. Sérstaða þess trúfélags er þá ekki lengur fólgin í lagalegri stöðu þess heldur því, að um fjölmennasta og útbreiddasta trúfélag landsins er að ræða – reyndar eina mestu fjöldahreyfingu landsins. Meðan svo er felast í því bæði tækifæri og ábyrgð. Þjóðkirkjan mun eftir sem áður halda úti þjónustu í dreifðum byggðum landsins, á sviðum trúar, menningar og líknarstarfs. Á Þjóðkirkjunni munu halda áfram að hvíla skyldur varðandi varðveislu menningarlegra og sögulegra verðmæta.


Sameiningarmáttur þess forboðna

DSC_0406B

Ég var að lesa í bók þar sem kaþólskur prestur sagði frá uppvaxtarárum sínum á Balkanskaganum. Í þorpinu hans var á að giska helmingur íbúanna kristinn en hinn helmingurinn múslimar. Gengu samvistir trúarbragðanna ágætlega.

Þeim kristnu leyfðist að neyta áfengis en var stranglega bannað að reykja hass.

Af trúarástæðum brögðuðu múslimarnir ekki á göróttum drykkjum en í þeirra hópi var ekki amast við því þótt menn fengju sér í pípu með hinu sæta grasi.

Kristnu strákunum þótti mikið sport að læðast yfir til íslamskra jafnaldra sinna og þiggja hjá þeim nokkra smóka af hookah.

Múslimadrengirnir laumuðust líka gjarnan til kristnu strákanna og skutu á sig nokkrum sjússum af slivovitz.

Var oft mikið gaman í þessum leynilegu leiðöngrum, sagði presturinn.

Þessir forboðnu ávextir lögðu sitt af mörkum við að auka umburðarlyndi, skilning og vináttu ólíkra trúarhópa.

Ef til vill hefði ekki farið eins og fór ef fleiri hefðu tekið sér þessa Balkandrengi til fyrirmyndar?

Myndina tók ég af þolinmóðu fé í Svarfaðardal.


Samviskufrelsi og sérviskufrelsi

P1030434

Nú liggur fyrir að hvorki einstakir vígslumenn þjóðkirkjunnar né annarra trúfélaga geta útdeilt borgaralegum réttindum sem ætluð eru öllum óháð kynhneigð aðeins til sumra, samkvæmt sínum persónulega smekk með skírskotun til samviskufrelsis.

Þeirri niðurstöðu þarf þjóðkirkjan að fylgja eftir og tryggja að fólki sé ekki mismunað eftir kynhneigð, hvorki af vígðum þjónum kirkjunnar né öðrum starfsmönnum.

Ríkið þarf að mínu mati einnig að fylgja því eftir að öll trúfélög fari rétt með heimildir sem það afhendir trúfélögum til að gefa fólk saman lögformlega.

Þessi umræða hefur leitt fleira í ljós.

Til dæmis virðist það óskýrt í hugum margra hvað átt sé við með hugtakinu „samviskufrelsi“. Dæmi eru um að misnotkun samviskufrelsisins verði mönnum tilefni til að tala óvirðulega og ógætilega um þau mikilvægu mannréttindi. Jafnvel hefur verið dregið í efa, að samviskufrelsi sé til.

Í ritinu Protecting the right to freedom of thought, conscience and religion under the European Convention on Human Rights sem Evrópuráðið gaf út árið 2012 kemur fram að ákvæði sem tryggja rétt manna til að vera frjálsir skoðana sinna, samvisku og trúar séu óhjákvæmileg í stjórnarskrám allra frjálslyndra lýðræðisríkja og í sáttmálum og samþykktum í þágu mannréttinda. 

Ákvæði um samviskufrelsi er til dæmis að finna í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna en þar segir í 18. grein:

„Allir skulu frjálsir hugsana sinna, samvisku og trúar. Felur sá réttur í sér frelsi til að skipta um trú eða sannfæringu, og enn fremur frelsi til að rækja trú sína eða sannfæringu einslega eða með öðrum, opinberlega eða í einrúmi, með boðun, breytni, tilbeiðslu, og helgihaldi.“

18. grein Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem einnig var gerður á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Ísland er aðili að, er svohljóðandi:

„1.  Allir menn skulu frjálsir hugsana sinna, sannfæringar og trúar. Í þessum rétti felst frelsi til þess að hafa eða aðhyllast trú eða skoðun að þeirra vali, og frelsi til þess að láta í ljós trú sína eða játningu, einir sér eða í félagi við aðra, opinberlega eða einslega, með tilbeiðslu, helgihaldi, guðsþjónustu og kennslu.

2. Enginn skal þurfa að sæta þvingun sem mundi hefta frelsi hans til þess að hafa eða aðhyllast trú eða skoðun að hans vali.

3. Frelsi til þess að láta í ljós trú eða skoðun skal einungis háð þeim takmörkunum sem mælt er í lögum og eru nauðsynlegar til þess að vernda öryggi almennings, reglu, heilbrigði eða siðgæði, eða grundvallarréttindi og frelsi annarra.

4. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að virða frelsi foreldra og, eftir því sem við á, lögráðamanna til þess að tryggja trúarlegt og siðferðislegt uppeldi barna sinna í samræmi við þeirra eigin sannfæringu.“

Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur einnig lagagildi á Íslandi. Í 9. grein þeirra laga stendur:

1. Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Í þessu felst frelsi manna til að breyta um trú eða sannfæringu svo og til að rækja trú sína eða sannfæringu, hvort heldur einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi, með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi.

2. Frelsi manna til að rækja trú sína eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna almannaheilla, til verndar allsherjarreglu, heilsu manna eða siðgæði eða rétti og frelsi."

Í umræðunni hefur verið lagt til að vissar stéttir, opinberir starfsmenn eða prestar þjóðkirkjunnar, verði sviptar samviskufrelsinu.

Í réttarríki hlýtur að vera áhyggjuefni þegar því er gefið undir fótinn að hluti þegnanna eigi ekki að vera frjáls skoðana sinna, samvisku, sannfæringar eða trúar. Ekki hef ég heyrt lagt til hverjir eigi þá að ákveða skoðanir fólks eða vilja taka að sér að hafa samvisku fyrir það. Stundum hefur í því samhengi verið vísað til þjóðarvilja. Það var til dæmis gert í Fréttablaði dagsins. Þar tala tveir kollegar mínir um „samviskufrelsi þjóðar“ í annars ágætri grein.

Þegar þannig er tekið til orða að þjóð hafi eina skoðun, eina sannfæringu og eina samvisku getur það vakið óþægileg hugrenningatengsl í hugum fólks.

Ég hef líka heyrt því haldið fram að menn megi ekki vera frjálsir skoðana sinna, því þær séu svo sérstakar, að réttara sé að tala um sérviskufrelsi en samviskufrelsi.

Ég held að það viðhorf sé hættulegt ef takmarka á frelsi manna til skoðana, sannfæringar og samvisku við það sem helstu álitsgjafar telja tiltölulega normal. Ef til vill er tilvist þess viðhorfs vísbending um þá hjarðmennsku sem stundum er talað um að tilhneiging sé til á Íslandi.

Enginn mannréttindasáttmáli sem ég veit um setur samviskufrelsinu slíkar skorður. Það eru mannréttindi að hafa skoðanir þótt einhverjum kunni að þykja þær stórundarlegar. Og vegna þess að hér er samviskufrelsi í heiðri haft geta samborgarar mínir ekki tekið af mér þann rétt að vera með allskonar og stundum illþolandi sérvisku.

Samviskufrelsið hefur þó sín takmörk. Það þarf að komast af í samfélagi við ýmis önnur réttindi fólks. Í lögum og mannréttindasáttmálum eru þessar takmarkanir tilgreindar en jafnframt tekið fram að ekki megi takmarka samviskufrelsið að öðru leyti. Því er litið þannig á, að ekki þurfi sérstakar aðstæður til að samviskufrelsið eigi við heldur sé því þveröfugt farið: Aðeins í sérstökum aðstæðum megi takmarka það frelsi.

Ísland verður stöðugt fjölmenningarlegra.  Hér fjölgar fólki með viðhorf gjörólík þeim sem eitt sinn ríktu á þessu landi. Ég er viss um að það muni leiða til þess að á næstu árum verði umræðan um samviskufrelsið fyrirferðarmikil á Íslandi, bæði um umfang þess frelsis og takmarkanir.

Í ofangreindu riti Evrópuráðsins segir að í fjölmenningarlegri Evrópa með mörgum ólíkum trúarbrögðum sé aðkallandi að huga sérstaklega vel að vernd og framkvæmd  frelsis manna til skoðana, samvisku og trúar (bls. 11).

Ekkert bendir annars en að það sé líka aðkallandi á Íslandinu okkar eigi það að geta orðið Íslandið allra.

Myndina tók ég í sumar á franskri baðströnd.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband