Hið trúarlega lag Imagine

 

DSC_0352

Í laginu Imagine eftir John Lennon ímyndar höfundurinn sér heim án landamæra, eigna og trúarbragða, þar sem hvorki er til helvíti né himnaríki. Þess vegna finnst mörgum lagið ekki tiltakanlega kristilegt. Aðrir hafa bent á að heimur þar sem hvorki finnast mismunandi þjóðir né trúarbrögð sé ef til vill ekkert spennandi. Þar séu allir eins og hugsi eins og búið sé að svipta okkur hinum dásamlega fjölbreytileika.

Eru það einmitt ekki mismunandi lönd, ólíkir menningarheimar, fjölbreytni í trúarlegum viðhorfum, stjórnmálaskoðunum og lífsháttum, sem gera heiminn spennandi og ögrandi?

Imagine er lag tileinkað samstöðu, einingu og bræðralagi. Í síðasta viðtalinu sem tekið var við þau John og Yoko áður en hann lést árið 1980 segir hann frá tilurð þess. Kveikjuna er annars vegar að finna í ljóðabók eftir Yoko Ono frá árinu 1964 en hins vegar í kristilegri bænabók sem fjallaði um svokallaða jákvæða bæn, positive prayer. John heilaðist af henni. Í jákvæðri bæn er reynt að virkja kraft hugarflugsins; ef þú getur ímyndað þér heim þar sem friðurinn ríkir gæti slíkur heimur orðið að veruleika.

Imagine hefur því trúarlegan bakgrunn og að sögn höfundarins var það ekki samið til höfuðs trúarbrögðunum. Í  viðtalinu segist John ekki sjá fyrir sér heim án trúarbragða heldur sé hann að gagnrýna hugarfar sem oft fylgi trúarbrögðunum, þar sem hver telur sinn guð meiri og stærri en guð náungans.

Imagine er vissulega gagnrýnið á trúarbrögðin og ýmsar trúarlegar hugmyndir. Og þar hefur Lennon mikið til síns máls. Þegar hann talar um að ekkert helvíti sé undir okkur og aðeins stjörnuhimininn yfir okkur er hann að benda á það sem margir kristnir guðfræðingar hafa gert fyrr og síðar: Kristin trú er ekki bundin ákveðinni heimsmynd, ekki hugmyndum miðalda um brennandi helvíti niðri í jörðinni eða kerfi sjö himna í kúplinum sem er yfir jörðinni á meðan hún taldist vera flöt.

Við gleymum stundum að trúarbrögð eru ekki það sama og trú. Trúarbrögðin, siðir þeirra og venjur eru mannanna smíði og að því leyti ófullkomin eins og önnur þannig verk. Sagan sýnir að stundum hafa trúarbrögðin meira að segja orðið óvinir trúarinnar og reynt að kæfa hana. Þess vegna þurfum við að skoða trúarbrögðin á gagnrýninn hátt. Marteinn Lúther er einn þeirra fjömörgu sem það hafa gert en íslenska Þjóðkirkjan er angi þeirrar hreyfingar sem hann kom af stað.

En þó að Imagine sé gagnrýnið á trúarbrögðin hefur textinn ýmsar trúarlegar skírskotanir. Þar er maðurinn í  paradísarástandi sínu, stöðunni sem hann var í fyrir syndafallið, þegar hann var eitt með skapara sínum og hafði þess vegna hvorki þörf fyrir að trúa né trúa ekki. Þá var heldur engin þörf á að stilla upp andstæðum himnaríkis og helvítis.

Í Imagine er líka horft fram á veginn, til enda hans, þegar heimurinn eins og við þekkjum hann verður ekki lengur til. Kristnir menn sjá fyrir sér nýjan himin og nýja jörð. Og eins og John Lennon eiga kristnir menn sér draum um heim án græðgi, hungurs og ranglætis, þar sem enginn mun gera illt eða valda skaða, þar sem hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.

Kristnir menn trúa á þannig heim. Þeir sjá hann fyrir sér. Imagine hjálpar þeim til þess. Að kristnum skilningi er óraheimur Imagine meira en ímyndun. Hann er inntak hinnar kristnu vonar. Þó ættum við mennirnir að vera búnir að læra að uppskriftin að hinum fullkomna heimi er enn ósamin.

Það kann að vera mótsagnakennt, en þannig er það engu að síður: Við eigum okkur von um fullkominn heim en um leið vitum við, að heimur mannsins verður alltaf breyskur og ófullkominn eins og maðurinn sjálfur. Heimurinn verður aldrei það fullkominn að ekki sé hægt að bæta hann eitthvað. Þess vegna hefur heimurinn sjaldan verið líkari helvíti en þegar mennirnir töldu sig hafa fundið upp hið eina sanna paradísarkerfi fyrir þjóðfélag sitt.

Þangað til að vonirnar rætast um nýjan himin og nýja jörð er besta mögulega heiminn sennilega að finna í samstöðu um fjölbreytni.

Lagið Imagine eftir John Lennon er býsna langt frá því að geta talist hlutlaust, trúarlega eða hugmyndafræðilega. Að því leyti finnst mér ekki mikill munur á því annars vegar að láta börn syngja lagið og framkvæma um leið friðarrítúal  og hins vegar því að fara með börn í kirkju til að uppfræða þau um jólahelgihald kristinna manna. Engu að síður getur hvort tveggja að mínu mati vel samræmst því hlutverki sem skólum er ætlað að sinna lögum samkvæmt.

Lagið Imagine er ekki trúarfjandsamlegt þótt það sé stundum túlkað þannig. Það er heldur ekki til höfuðs íslensku Þjóðkirkjunni eða öðrum trúfélögum þótt það það kunni að vera notað þannig.

Lagið er málsvari ímyndunaraflsins og á að bera mætti þess vitni. Þess vegna ætti það að höfða til allra sem sjá meira í þessum heimi en hægt er að hafa fyrir framan augun og finna meira en þeir hafa á milli handanna.

Þess má geta að í janúar í fyrra var Imagine-messa í Akureyrarkirkju. Þar voru sálmar og ritningarlestrar valdir með hliðsjón af þessu fallega lagi og boðskap þess.

 

 „Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu
og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum.
Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman
og smásveinn gæta þeirra. 
Kýr og birna verða saman á beit, 
ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru,
og ljónið mun bíta gras eins og nautið.
Brjóstmylkingurinn mun leika sér 
við holu nöðrunnar
og barn, nývanið af brjósti, 
stinga hendi inn í bæli höggormsins.
Enginn mun gera illt,
enginn valda skaða 
á mínu heilaga fjalli
því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni
eins og vatn hylur sjávardjúpið.


(Jesaja 11, 6 – 9)

Myndin er af Svarfaðardal í aðventuskapi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Heimsmynd kristinna miðalda var EKKI sú, að jörðin væri flöt, Svavar. Um þetta hef ég margt ritað.

Fákunnandi menn um sögu kirkjunnar hafa stundum fullyrt að hún hafi kennt það hér áður fyrr, að jörðin væri flöt. Hef ég nokkrum sinnum þurft að reka það ofan í menn, og það sama gerir próf. Þorsteinn Vilhjálmsson frændi minn í 2ja binda ritverki sínu Heimsmynd á hverfanda hveli, en hann er sérfræðingur í sögu vísindanna. Séra Hjörtur Magni Fríkirkjuprestur gekk þó flestum lengra, er hann hélt því fram í Fréttablaðinu, að það sé "ekki svo ýkja langt síðan að kirkjustofnunin refsaði grimmilega öllum þeim sem drógu það í efa að jörðin væri flöt."


Flöt er sýn Fríkirkjuprestsins á kaþólsku kirkjuna, því að aldrei kenndi kirkjan þessa vitlausu flatjarðarsýn, og þaðan af síður refsaði hún mönnum fyrir að halda öðru fram! Það var vel kunnugt á meðal kirkjunnar manna á miðöldum, að jörðin er hnöttótt, og um það geta menn fræðzt betur í verki dr. Þorsteins. Hann segir þar m.a. í fyrra bindinu, bls. 147:

"Áður en lengra er haldið, ætla ég að leiðrétta grundvallarmisskilning sem ég hef sjálfur verið haldinn af. Ég á við þá ranghugmynd sem er líkasttil útbreidd meðal nútímamanna, að það hafi verið almenn skoðun lengi fram eftir öldum að jörðin væri flöt, trúlegast eins og pönnukaka. Menn halda þá kannski að þessari skoðun hafi ekki verið hnekkt fyrr en með frægum og frækilegum ferðum Kólumbusar og Magellans. -- Þetta er hins vegar misskilningur. Þegar Kólumbus ætlaði að stytta sér leið til Indlands með því að sigla í vesturátt, hafði upplýstum mönnum verið ljóst um árþúsundir að jörðin væri kúlulaga. Og það var ekki tilhæfulaus hugdetta, heldur hugmynd sem studdist við raunhæfar athuganir, og skorti nánast það eitt á að menn hefðu hreinlega farið kringum kúluna (sjá töflu 10 til yfirlits) ..."

Sbr. einnig þetta á netinu: þessa vefslóð mína og þó enn frekar þessa vefslóð mína; einnig þessa hjá Ólafi Hauki Árnasyni sagnfræðingi og þessa hjá hinum sama.

Jón Valur Jensson, 22.12.2015 kl. 03:13

2 identicon

Þú segir:

" Kristin trú er ekki bundin ákveðinni heimsmynd, ekki hugmyndum miðalda um brennandi helvíti niðri í jörðinni eða kerfi sjö himna í kúplinum sem er yfir jörðinni á meðan hún taldist vera flöt.

Við gleymum stundum að trúarbrögð eru ekki það sama og trú. Trúarbrögðin, siðir þeirra og venjur eru mannanna smíði og að því leyti ófullkomin eins og önnur þannig verk."

Slítur þarna á milli gamalla bábilja og trúar en segir svo:

"Þar er maðurinn í  paradísarástandi sínu, stöðunni sem hann var í fyrir syndafallið, þegar hann var eitt með skapara sínum og hafði þess vegna hvorki þörf fyrir að trúa né trúa ekki. Þá var heldur engin þörf á að stilla upp andstæðum himnaríkis og helvítis."

Ertu þá að meina að hvelin sjö og flöt jörð séu gömul vitleysa sem eigi ekki skylt við kristna trú eða a.m.k. þurfi ekki, en að hugmyndin um paradís, Adam og Evu og erfðasyndina sé aftur órjúfanlegur hluti kristinnar trúar?

Vinkona Mrs Brown í samnefndum sjónvarpsþætti sagðist vera trúuð, hún tryði bara ekki á himnaríki eða helvíti eða upprisuna (a.m.k. eitthvað í þá áttina.)

Hverjar eru að þínu mati lágmarkskröfur til kristins manns að hann trúi af því sem stendur í biblíunni til að geta kallast kristinnar trúar?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 22.12.2015 kl. 10:30

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sæll, Bjarni Gunnlaugur, og takk fyrir spurningarnar! Ég þekki engar lágmarkskröfur til kristins manns aðrar en þá að trúa á Krist - sem samkvæmt guðspjöllunum sagði líka hin fleygu orð um að af ávöxtunum ættum við að þekkja þá. Ég er nokkuð viss um að trú fólks verður illa mæld með mannlegum mælikvörðum og alveg sannfærður um að hún veltur á einhverju öðru en því hversu mörgum síðum Biblíunnar maður trúir - þótt fáar bækur séu mér mikilvægari. Bestu jólakveðjur, Svavar Alfreð

Svavar Alfreð Jónsson, 22.12.2015 kl. 11:11

4 Smámynd: Einar Karl

Sæll Svavar Alfreð.

Sammála mörgu í þessum góða pistli.  Ég hins vegar stórefast um að lagið 'Imagine' hafið verið notað „til höfuðs íslensku Þjóðkirkjunni“ og allra síst í göngunni fallegu í Langholtsskóla.

Ég held að menn þurfi að vera komnir í mikinn varnarham og „MORFÍS-gír“ til að sjá eitthvað neikvætt við þessa göngu. Þeir sem það gera eru fyrst og fremst að svekkja sig á því að þetta kom í staðinn fyrir aðventustund í hverfiskirkjunni og að þarna hafi „tapast“ einn slagur í baráttunni um kristilegt uppeldi skólabarna.

Einar Karl, 22.12.2015 kl. 11:24

5 Smámynd: Már Elíson

Frábær samantekt hjá þér, Svavar, og hárrétt í öllum atriðum.

Már Elíson, 22.12.2015 kl. 12:03

6 Smámynd: Einar Karl

Eitthvað birtist kommentið mitt undarlega! Þetta áttu sem sé að vera gæsalappir þar sem birtast myllumeki og tölur  :)

Einar Karl, 22.12.2015 kl. 13:00

7 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já.  Heimsendirinn sko.  Það er boðað í Nýja Testamenti heimsendir.  Og allir dauðir rísa upp og Jesú kemur svokallaðri second coming og dæmir alla.  Þetta er í raun grunn prinsipp testamentana.  Heimsendirinn.  Svo er verið ahneykslast á muslimum í sambandi við heimsendi.  Alveg nákvæmlega það sama og í Biblíu.

En með imagine, að þá er textinn náttúrulega margslunginn eins og Lennon var von og vísa.  

M.a. sem þessi texti getur gert,  er að Lennon tekur þarna allt frá lesandanum.  Hann tekur land, trú, eignir frá honum og leiðir hann útá berangur.  Þá neyðist lesandinn að hugsa innávið og spurja:  Hvað er ég?

Mjög öflugur texti sko.  Enda Lennon mikið skáld.  Hann skáldaði upp ríki sem hann kallaði Nutopiu.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 22.12.2015 kl. 14:51

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sjálfur kallaði Lennon Imagine "anti-religious", og þú, Svavar, talar samt um það sem "hið trúarlega lag Iagine"!

Og það er sitthvað annað rangt hér í pistli þínum, sem ég hef ekki haft tíma til að gagnrýna.

Jón Valur Jensson, 23.12.2015 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband