28.5.2011 | 11:55
Andvörp gullkálfanna
Uppgjörið við Hrunið heldur áfram. Nú eru komnar út tvær bækur um það sem ég hlakka til að lesa. Annars vegar er um að ræða Bankastræti núll eftir Einar Má Guðmundsson þar sem hann veltir m. a. fyrir sér hvort hægt sé að kaupa menninguna.
Það er skiljanleg spurning.
Hins vegar hefur Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, ritað heilmikla bók um Baugsmálið.
Henni verður ábyggilega misjafnlega tekið - ekki síður en þeirri fyrrnefndu.
Baugur kom heldur betur við sögu í Hruninu. Tvö stórmál áranna þar á undan voru í föruneyti hans, fjölmiðlafrumvarpið og málið sem þessi fyrrverandi dómsmálaráðherra Íslands hefur nú ritað um heilmikla bók.
Nú eins og þá dæsa sumir og segjast ekki nenna að tala um Baug. Gefið er í skyn að málið sé gamalt og þeir sem ennþá standi í því að ræða það séu með það á heilanum eða persónulega í nöp við fólkið á bak við veldið.
Þó berast enn fréttir af eftirstöðvum Baugsmálsins.
Í þessari viku mátti til dæmis lesa um mörg hundruð milljóna gjaldþrot eignarhaldsfélags fyrrum forstjóra Baugs.
Baugsveldið átti stóran þátt í því að sjúga upp peningana úr íslenska bankakerfinu. Við Hrun skulduðu fyrirtæki Jóns Ásgeirs Jóhannessonar meira en þúsund milljarða.
Samt finnst mörgum óttaleg sérviska að tala um Baug þótt þeir fjalli ófeimnir og miskunnarlaust um aðra Hrunkvöðla.
Það ískyggilega er að mennirnir sem helst má ekki fjalla um eiga ennþá stóran hluta íslenskra fjölmiðla. Kannski er þar að finna skýringuna á ofnæmisviðbrögðum við umfjöllun um þessa menn?
Bók Björns var varla komin út þegar umræðustjóri Íslands, Egill Helgason, andvarpaði á bloggsíðu sinni og stimplaði hana ógurlega langa bloggfærslu".
Eitthvað eru þessi andvörp kunnugleg.
Egill efast um að bók Björns sé hlutlæg. Þeim efasemdum get ég deilt með Agli. Rosabaugur Björns Bjarnasonar er ábyggilega enginn stórisannleikur um Baugsmálið. Ekki frekar en bækur annarra manna um önnur mál.
Helsta einkenni þroskaðrar umræðumenningar er ekki gott aðgengi fólks að stórasannleika um málefni samtímans.
Umræðumenningin er öflug ef við höfum aðgang að fjölbreytilegum skoðunum um málin og eigum kost á að virða þau fyrir okkur frá ýmsum sjónarhornum.
Lilja Skaptadóttir, einn helstu eigenda DV og Smugunnar, orðar þetta mjög vel í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í nýjasta Sunnudagsmogganum:
Því fleiri sjónarhorn sem fólk fær á málin því betri aðstöðu hefur það til að taka upplýstar ákvarðanir. Ef fólk fær einhliða upplýsingar er ekki verið að upplýsa það heldur mata það. Það vil ég ekki horfa upp á og þess vegna er ég að leggja mitt af mörkum til að styrkja sjálfstæða fjölmiðla.
Hættan á einhliða upplýsingum vex ef fjölmiðlar komast í eigu fárra, ef sumar skoðanir mega ekki heyrast og ef menn eru gerðir að gullkálfum sem á að hlífa við gagnrýni.
Í því samhengi er hollt að rifja upp þetta tæplega þriggja ára gamla mál, þegar bloggari á Eyjunni leyfði sér að gagnrýna sjónvarpsþátt.
Þar koma gullkálfar við sögu.
Myndin er af skælæni Hörgárdals.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.