20.5.2007 | 17:28
Ýmislegt er á mann lagt
Við prestarnir lendum í ýmsu. Ekki er langt síðan ég kom í hús þar sem heimilishundinum þótti við hæfi að heilsa mér með því að pissa yfir mig. Þetta var afar vandræðalegt og mátti ekki milli sjá hver fór meira hjá sér ég eða húsráðendur. Hundurinn lét sér ekki bregða og var hinn vinalegasti.
Í gærkvöldi lenti ég í annarri raun. Ég hafði verið beðinn um að segja hópi kvenna nokkrar gamansögur í svo sem einn stundarfjórðung. Þegar ég gekk upp tröppurnar að anddyri hússins þar sem konurnar höfðu safnast saman mæti ég vasklegri konu á útleið. Hún var með fangið fullt af pokum og tösku mikla sér við hlið. Þegar hún sér mig kastar hún á mig innilegri kveðju og segist endilega þurfa að sýna mér örlítið af því sem hún hafi verið að kynna fyrir kynsystrum sínum inni í húsinu.
Ég þóttist vera mjög áhugasamur og taldi víst að nú fengi ég að sjá snyrtivörur eða nýmóðins eldhúsáhöld. Svo reyndist þó ekki vera. Verkfærið sem konan dró upp úr einum pokanna hefði að vísu eftir á að hyggja mátt nota til að þeyta rjóma - með töluverðri þolinmæði. Hún var búin að kveikja á því þegar það næstum því snerti á mér nefbroddinn þar sem það titraði allt og iðaði. Formið á því líktist líkamshluta karlmanna sem nefnist ekki á virðulegri bloggum en jafnramt höfðu framleiðendur tólsins haft líkamslögun höfrunga til hliðsjónar þegar það var hannað. Þetta var magnað apparat og með marga náttúru. Það gat titrað, snúið á sér efri partinum og gefið frá sér högg, allt eftir því á hvaða takka konan studdi, sem hún gerði fumlaust og fagmannlega um leið og hún útskýrði óðamála fyrir mér verkan gripsins.
Ég var orðinn dálítið vandræðalegur og nuddaði fast á mér hökuna þarna á tröppunum, enda stutt í umferðargötu og ekki gott að segja hvað vegfarendur gætu hugsað þegar þeir litu sóknarprestinn skoða slík tæki á almannafæri.
Ég var að hugsa um hvernig ég gæti losað mig úr þessari aðstöðu þegar konan seildist í annað áhald úr hirslum sínum. Mér brá nokkuð þegar það sveiflaðist fyrir augum mínum enda virtist það við fyrstu sýn hreinlega hafa verið fjarlægt af eiganda sínum með skurðaðgerð, svo eðlilega leit það út. Ekki minnkaði undrun mín þegar konan staðhæfði að tólið væri nákvæm eftirmynd þessa líkamshluta af nafngreindum karlmanni í nágrannahéraði. Hætti hún ekki fyrr en ég hafði snert tólið, því konan fullyrti að það væri eins viðkomu og það sem væri ekta.
Hikandi ýtti ég fingri í herlegheitin og um leið og snerting varð kippti ég honum að mér aftur.
Konan hafði nefnilega rétt fyrir sér....
Athugasemdir
Jóna Á. Gísladóttir, 20.5.2007 kl. 19:12
Hahahahahaha.........þetta hefði verið gaman að sjá!
Þorgerður (IP-tala skráð) 20.5.2007 kl. 21:17
Get fullyrt að konur þær sem hlustuðu á sögur þínar sl. laugardagskvöld eru enn í dag að rifja þær upp. Hef td heyrt undarlega sögu um bréfbera sem fannst í runna, dreng sem heyrðist segja tatatata !!
Kærar kveðjur
gn
Gunnar Níelsson (IP-tala skráð) 21.5.2007 kl. 18:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.