Centro storico & piazza

Centro storico nefnist hinn sögulegi kjarni ítalskra borga. Þar er gaman að skoða sig um en úthverfi nútímaborga á Ítalíu eru sjaldnast mjög spennandi. Margar lestarstöðvar eru nálægt centro storico. Alla vega má búast við því að góðar leiðarlýsingar séu þangað frá stöðvunum.

Drjúgur hluti mannvirkja í centro storico er frá síðmiðöldum en þar má einnig virða fyrir sér rómverska byggingarlist eða virkisveggi frá tímum Etrúska.

piazzaTorg heitir piazza á ítölsku. Ítalska piazzan er vettvangur menningarviðburða og mannlífsmiðstöð. Algengt er að bar, kaffihús eða kirkja sé við piazza. Eitt af því skemmtilega sem hægt er að taka upp á í Ítalíuferðum er að gera akkúrat ekki neitt, far neinte, á kaffihúsi við gamla piazza, nema þá helst að góna á fólk.

Á myndarlegum torgum er oft efnt til viðburða og þar eru haldnir markaðir, vikulega eða jafnvel daglega.

Þegar piazza er þakin borðum og stólum bendir það til þess að halda eigi sagra, matarhátíð, þar sem boðið er upp á góðgæti úr héraði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Sammála. Elska að sitja, hvar sem er í heiminum, á útikaffihúsi og gera nákvæmlega ekki neitt nema að horfa á mannlífið. Búa til sögur um fólkið sem ég sé.

Jóna Á. Gísladóttir, 21.5.2007 kl. 22:45

2 Smámynd: Viðar Eggertsson

Vona að þú sért staddur í Róm núna. Róm er engri lík. Var þar um páskana og átti þar dýrðardaga í centro storico og á öllum piazzonum. Eitt kom mér ánægjulega á óvart í Róm - og Vatikaninu líka: Þar var allt meira og minna opið um páskana... ólíkt hinni lútersku köldu eyju sem kúrir við ysta haf.

Merkilegt, kanntu skýringu á því? Erum við kannski katólskari en páfinn? Eða er þetta bara hversdagsleg og forpokuð hræsni í smáþjóðinni sem vill vera stór - og stærri en páfinn?

Viðar Eggertsson, 21.5.2007 kl. 23:12

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég er nú bara staddur hérna við skrifborðið mitt á henni Akureyri. Legg ekki af stað til Ítalíu fyrr en eftir tæpar þrjár vikur. Tel niður dagana. Verð að viðurkenna að ég hef aldrei til Rómar komið en það hlýtur að vera stórkostlegt. Ekki kann ég skýringar á meintri páskalokun hér en ef til vill erum við ekki jafn þróuð í úrvinnslu ferðamanna hér heima og syðra þar. Bendi þó á að í skíðabænum Akureyri er flest opið um páska sem viðkemur túrisma. Gististaðir, veitingahús, sundlaugar, kaffihús, bíó, leikhús (við sýndum Ausu í Akureyrarkirkju á föstudaginn langa) skemmtistaðir og sumar verslanir. Þeir sleppa því þó að brenna Bragakaffið rétt á meðan bláháheilagt er. Og einhvern tíma verður fólk að eiga frí.

Svavar Alfreð Jónsson, 21.5.2007 kl. 23:26

4 Smámynd: Viðar Eggertsson

Já, eins og segir í einum söngtexta Ólafs Hauks Símonarsonar: "Byltingin byrjar á Akureyri..."

Annars máttu sko hlakka til að fara til Rómar. Einstök borg.

Viðar Eggertsson, 22.5.2007 kl. 07:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband