Þjóðkirkjan

P1030695

Fyrir nokkru þurfti ég að fara á útför og kveðja ástvin í litlu bæjarfélagi úti á landi. Athöfnin var erfið og sár en jafnframt hlý og falleg. Kirkjukórinn veitti huggun með fögrum söng undir öruggri stjórn og spili vel menntaðs organista. Kirkjuvörðurinn tók á móti okkur þegar við komum og vísaði okkur á laus sæti. Prestinum mæltist vel og í kaffinu á eftir blessaði fólk hann fyrir það. Kirkjan var ljósum prýdd og snyrtileg, fögur umgjörð um þessa mikilvægu kveðjustund.

Skömmu síðar var ég viðstaddur stórafmæli annarrar kirkju í öðru bæjafélagi. Þar sungu kórar, m. a. frábær barnakór. Guðshúsið var í afmælisskrúða og kirkjugestir í hátíðarskapi. Kveikt hafði verið á kerti við minnisvarða um drukknaða sjómenn sem stendur við kirkjuna. Kirkjuverðir og meðhjálparar aðstoðuðu við helgihaldið. Á eftir bauð sóknarnefndin í kaffi og tertur. Þar sat ég til borðs með fólki sem lýsti yfir mikill ánægju með prestinn sinn. Ég heyrði að það var þeim dýrmætt. Fólk gerir kröfur til prestanna. Þess vegna er það líka óhrætt við að gagnrýna þá þegar þeim tekst ekki vel upp.

Í kirkjunni þar sem ég starfa á ég yndislegt samstarfsfólk. Sumt er á launum eins og ég og getur helgað sig þessari þjónustu óskipt. Söfnuðurinn hefur til dæmis tvo organista á sínum snærum enda er fjöldi kóra starfandi við kirkjuna. Nýlega var ég  á árlegum jólasöngvum kirkjukórsins. Ekkert kostar inn á þá og þeir eru svo vinsælir að þeir fara langt með að fylla kirkjuna tvisvar sinnum. Annað starfsfólk kirkjunnar tekur ekkert fyrir störf sín, til dæmis  hjálparkokkar í barna- og æskulýðsstarfi og sóknarnefndarfólk. Ég stórefast um að nokkur hreyfing eða félagasamtök hér á landi hafi á að skipa fjölmennari hópi sjálfboðaliða en Þjóðkirkjan.

Áðan fékk ég tölvupóst frá konu sem sagðist ætla að koma nú eftir helgina með örlitla peningaupphæð. Peningunum á ég að koma til fjölskyldu sem á erfitt.

Í gær hitti ég mann sem er á leiðinni til mín með fjórar gjafakörfur, fullar af kjöti og öðru góðgæti. Körfunum eigum við prestarnir að koma á rétta staði.

Nú sit ég og skrifa jólaræðurnar og ég veit að vítt um breitt um landið eru kollegar mínir að gera það sama. Þau sitja við tölvurnar sínar með Biblíuna opna á öðrum kafla Lúkasarguðspjalls. Á borðinu logar á kerti og ef til vill er þar skál með piparkökum og glas af jólaöli. Við þurfum að leggja okkur alveg sérstaklega vel fram við jólaræðurnar því á jólunum fara margir í einu kirkjuferð ársins. Væntingarnar eru miklar og enginn má verða fyrir vonbrigðum á sjálfum jólunum. Þess vegna eru kirkjukórar landsins líka fyrir löngu byrjaðir að æfa jólasálmana, organistarnir forspilin og kirkjuverðirnir búnir að fægja altarisstjakana og koma altarisdúkunum í hreinsun.

Ég segi eins og biskupinn minn nýlega í góðu blaðaviðtali, þessi kirkja sem maður les um í fjölmiðlum er allt önnur en kirkjan sem maður upplifir.

Guð blessi biskupinn, kollega mína, djáknana, söngfólkið, organistana, meðhjálparana, sóknarnefndarfólkið, kirkjuverðina, skrifstofufólkið, kvenfélagskonurnar, æskulýðsstarfsfólkið, sjálfboðaliðana og öll þau fjölmörgu sem njóta þjónustu kirkjunnar.

Ég er stoltur af kirkjunni minni og þakklátur fyrir að mega tilheyra hennar fjölskrúðuga samfélagi.

Gleðileg jól!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Þökk fyrir góðan og þarfan pistil kæri Svavar Alfreð.

Ég bið þjóðlirkjunni sem og íslendingum öllum blessunar algóðs Guðs.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 20.12.2015 kl. 22:00

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Íslendingar eru góðir. Frétti af lista sem gengur á Facebook og styrkir þá sem vanhagar um sitthvað. Fer ekki nánar út í það,en vil endilega upplýsa að þangað sendu margir hluti og fatnað sem glöddu og kom í góðar þarfir,þar er vitað hvernig ástæður eru.

Helga Kristjánsdóttir, 20.12.2015 kl. 23:17

3 identicon

Góður pistill, takk fyrir hann. Þetta er starfið sem ég þekki vel. Gleðileg jól

Guðlaug Hestnes (IP-tala skráð) 21.12.2015 kl. 00:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband