Hugleikur og húmorinn

DSC_0084 (2)

Á baksíðu Fréttablaðs dagsins er fjallað um húmor af húmorista sem oft hefur fengið mig til að taka andköf af hlátri.

Hugleikur Dagsson er snillingur í að hræra upp í fólki. Honum er fátt heilagt sem er dýrmætur eiginleiki húmorista. Ein blessun skopsins er í því fólgin að hjálpa okkur að sjá málin í nýju ljósi, ekki síst þau sem hafa á sér einhverskonar helgi, hvort sem hún er trúarleg, pólitísk, menningarleg eða siðferðisleg.

Ekki er ég viss um að hugtökin íhald og þróun séu jafn afdráttarlausar andstæður og Hugleikur lætur í veðri vaka í pistli sínum. Ég þekki til dæmis framfarasinnaða róttæklinga sem telja þá þróun afar uggvænlega, að auðæfi heimsins komast í hendur sífellt færri manna. Framvindan er ekki alltaf gleðileg og fáir eru það litlir íhaldsmenn, að þeir vilji breytingar einungis breytinganna vegna.

Það getur jafnframt verið eftirsóknarvert að halda í gömul gildi sem reynst hafa vel. Gjafmildi, gestrisni, sanngirni, heiðarleiki og jöfnuður eru meðal gilda sem standa á gömlum grunni og eiga sér langa sögu. Varla er það í sjálfu sér slæmt að standa vörð um þau þótt forn séu og menn geti greint á um útfærslu þeirra og framkvæmd.

Sú íhaldssemi er líka oft umdeild, að vilja halda sumum náttúruperlum landsins í óbreyttri mynd.

Ég er þeirrar skoðunar að í flestum okkar takist á íhald og viljinn til breytinga.

Grínistar leggja ýmist sitt af mörkum við að viðhalda staðalímyndum eða eyða þeim. Ég myndi kalla þá grínista íhaldssama sem viðhalda slíkum ímyndum. Líbó hippagrínistinn er ef til vill staðalímynd og kannski ekki síður hvæsandi húmorslausi íhaldskurfurinn en báðar þær týpur koma fyrir í niðurlagi þessara bakþanka Hugleiks.

Húmor er sammannlegt fyrirbæri. Vítt og breitt um veröldina rekumst við á skellihlæjandi íhaldsmenn og róttæka framfarasinna sem engjast í heiftarlegum hláturkrömpum. Siðprúðar kristnar manneskjur taka bakföll af hlátrum, guðhræddir múslimar brosa svo breitt að þeir eru heppnir að hafa eyru og að sómakærum trúleysingjum setur slíka tröllahlátra, að þeim liggur við köfnun.

Þó er ekki víst að öllum finnist allt jafn fyndið. Um það er ekki nema gott eitt að segja.

Hitt er verra, ef við höfum svo háar hugmyndir um okkur sjálf að við teljum okkur trú um að þeir hafi ekkert skopskyn, sem ekki geta hlegið að sömu vitleysunni og við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Takk.

Hólmfríður Pétursdóttir, 28.4.2016 kl. 19:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband