30.5.2016 | 00:42
Erum við kristin?
Stundum er því haldið fram að Gamla testamentið geti ómögulega verið trúarrit kristinna manna því þar sé svo margt andstyggilegt.
Að sjálfsögðu neita ég því ekki að ýmislegt í þessu merkilega og ævaforna ritsafni fellur illa að hugmyndum samtíðar okkar um siðferði, trú og Guð.
Engu að síður á Gamla testamentið ótalmargar perlur. Einn minn uppáhaldstexti úr Biblíunni er þaðan, 23. Davíðssálmur.
Lexía dagsins, 1. sunnudags eftir þrenningarhátíð, er líka magnaður og á brýnt erindi við samtíð okkar. Hann kemur úr 15. kafla 5. Mósebókar og er svohljóðandi:
Ef einhver bræðra þinna er fátækur í einni af borgum þínum í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér skaltu ekki loka hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum með harðýðgi heldur skalt þú ljúka upp hendi þinni fyrir honum. Þú skalt lána honum það sem hann skortir.
Þú skalt gefa honum fúslega en ekki með ólund því að fyrir það mun Drottinn, Guð þinn, blessa öll þín verk og hvað sem þú tekur þér fyrir hendur. Því að aldrei mun fátækra vant verða í landinu og þess vegna geri ég þér þetta að skyldu: Ljúktu upp hendi þinni fyrir meðbræðrum þínum, fátækum og þurfandi í landi þínu.
Stundum velta menn því fyrir sér hvort Íslendingar séu kristnir.
Þá er gjarnan gripið til talna og reynt að mæla trúarhitann þannig; þetta og þetta mörg prósent eru í Þjóðkirkjunni eða þetta og þetta mörg eða fá prósent fara í kirkju.
Í hvert skipti, sem við lokum hjörtum okkar, augum, dyrum og hirslum, fyrir þeim, sem þurfandi eru, þá erum við að loka á Guð og fjarlægjast hann.
Í hvert sinn, sem við opnum hjörtu okkar, augu, dyr og hirslur, fyrir þeim, sem í neyð eru, þá erum við að opna fyrir Guði og veita himneskum veruleika hans inn í þessa veröld.
Það segir miklu meira um trúarhita landsmanna og stöðu kristni en tölur frá þeirri ágætu stofnun, Þjóðskrá Íslands.
Og í því samhengi má benda á, að auðæfum heimsins er ekki bara misskipt á milli manna heldur ekki síður þjóða. Við hér á Íslandi teljumst til einnar ríkustu þjóðar heimsins.
Við höfum því af miklu að miðla sem þjóð en það sést því miður ekki í framlögum okkar til þróunaraðstoðar eða í því hvað við tökum á móti mörgum flóttamönnum.
Það segir sína sögu um hvort hægt sé að kalla Ísland kristið land.
Myndin er af álft á Hundatjörn í Krossanesborgum
Athugasemdir
> Í hvert sinn, sem við opnum hjörtu okkar, augu, dyr og hirslur, fyrir þeim, sem í neyð eru, þá erum við að opna fyrir Guði og veita himneskum veruleika hans inn í þessa veröld.
Áttarðu þig í alvöru ekki enn á því hvað þetta er sjúkur málflutningur?
Matthías Ásgeirsson, 30.5.2016 kl. 00:59
Mesta mein mannkynsins? Einn þekktasti vísindamaður Þjóðverja, Harald Lesch, fjallar um málið: Papst Franziskus, Vereinte Nationen und Agenda 2030 | Harald Lesch
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 30.5.2016 kl. 13:47
???
Flosi Kristjánsson, 30.5.2016 kl. 14:49
Er ekki löngu viðurkennt að GT er saga gyðinga en hvorki trúarrit þeirra né kristinna?
Kolbrún Hilmars, 30.5.2016 kl. 16:29
Ég var að horfa á heimildamynd um Martin Luther, þar sem vitnað er í orð hans og gjörðir, og ég verð að segja að mér brá illilega.
Ég spyr hvernig getur þjóðkirkja Íslands kennt sig við þennan "drykkjusjúka brjálæðing"?
Luther einmal anders - Die Dunkle Seite Martin Luthers - Dokumentation
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 30.5.2016 kl. 21:45
Mér finnst það ansi kjánalegt að setja heila þjóð undir mengi trúar. Hvað það er að vera trúaður eða kristinn er líka nokkuð þokukennt. Kristnir prelátar gera t.d. Mun á einhverju sem þeir kalla kristni og svo sannkristni. Oftast er því hreytt í fölk,maem hefur ekki sömu nálgun og skilning á trúnni og prelátinn.
Ísland per se er ekki kristið land og raunar algerlega absúrd að gefa hugtakinu þjóð eða land sannfæringu. Hver trúir eftir sínu höfði og semur sína biblíu í eigin höfði. Flestir leggja jákvætt út af þeirri sannfæringu en skilja hana og praktísera öðruvísi en flestir aðrir. Færri nota hugtakið til að setja sig á stall ofar öðrum með fordæmingartóni. Vilja helst vera með nefið ofan í einkalífi allra og leggja öðrum línurnar um hvað sé rétt og rangt án nokkurs umboðs, geistlegs eða jarðnesks. Hugtakið trú er svo afstætt að það hefur nánast enga merkingu né segir nokkuð um nokkurn hlut.
Þeir mega vera í meirihluta sem telja sig trúaða eða aðhyllta trúnni, en að tala um land eða þjóð sem trúað fyrirbæri eða ekki er hlægilegt og marklaust.
Jón Steinar Ragnarsson, 30.5.2016 kl. 22:33
Skynsemin ræður ekki í trúarbrögðum, það er 100% óskynsemi sem ræður för.
Kristni er ekkert án GT, sama hvað þið reynið þá komist þið ekki undan því að guðinn ykkar er algerlega gaga. Þið ættuð að vera þakklát fyrir það að hann er ekki til, hvorki þessi né aðrir guðir.. allt manngert.
DoctorE (IP-tala skráð) 31.5.2016 kl. 09:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.