18.8.2016 | 23:53
Enn er þó kurr...
Í síðustu færslu rifjaði ég upp þegar hornstrendska skáldkonan Jakobína Sigurðardóttir vakti með kveðskap sínum þvílíkt óveður að öflugustu drápsnökkvar veraldar hröktust frá hennar heitt elskuðu heimaströndum.
Eigi eitthvert kvæði íslenskrar ljóðsögu skilið einkunnina seiðmagnað er það mínu mati Hugsað til Hornstranda eftir Jakobínu.
En Jakobína lét ekki þar við sitja að yrkja burt herinn. Þegar ljóst var að kvæði hennar hafði orðið að áhrínsorðum orti hún annað í tilefni viðburðanna. Það heitir Hvort var þá hlegið í Hamri? og er dagsett af skáldkonunni 25. október árið 1953. Mér finnst það eitt ágætasta ljóð sem til er á íslenskri tungu.
Í viðtali við Morgunblaðið árið 2005 (Kíkt undir komma stimpilinn, Morgunblaðið 27. nóvember 2005) segir Sólveig Kristín, dóttir Einars Olgeirssonar, að Jakobína hafi sent föður hennar ljóðið nýort og bætir við:
Hann bókstaflega sveif um gólfið þegar hann las það.
Ekki er ég hissa á því.
Fyrr í þessum mánuði gekk ég á Straumnesfjall upp af Aðalvík, ekki fjarri heimaslóðum Jakobínu Sigurðardóttur. Bandaríkjastjórn eyddi á sínum tíma milljónum dala í að reisa þar mikla herstöð og leggja veg þangað upp. Framkvæmdir við mannvirkin hófust árið 1953 og voru umsvifin mikil. Leit út fyrir að enda þótt Jakobínu hefði tekist að stöðva heræfingarnar það árið hefði það einungis verið áfangasigur. Herinn færi sínu fram og eignaðist virki á Hornströndum.
Þannig fór þó að herstöðin á Straumnesfjalli var einungis starfrækt um þriggja ára skeið og var lokað átta árum eftir að framkvæmdir við hana hófust.
Enn standa mannvirkin á fjallinu og minna á þessa sögu. Vegurinn þangað hlykkjast upp fjallið og er harla beinn og breiður þá sjö kílómetra sem þarf að ganga út fjallið að stöðinni fremst á því. Hann er nú þakinn vestfirskum fjallagróðri. Vindar gnauða um brotna glugga stöðvarhúsanna og fallin þökin eru engin vörn gegn regni og snjó.
Ritgerð Sólrúnar Þorsteinsdóttur til meistaragráðu í þjóðfræði fjallar um herstöðina á Straumnesfjalli, hin fróðlegasta lesning og aðgengileg á netinu.
Jakobína hafði sigur. Hermenningin náði ekki að festa sig í sessi á Hornströndum. Norður undir Straumnesfjalli, við tjaldstæðið á Látrum, er snotur kamar. Það mannvirki gerir nú mun meira gagn en milljónafjárfesting bandarískra stjórnvalda á fjallinu fyrir ofan hann.
Enn er þó kurr í kyljum, yrkir Jakobína. Hornstrendskar vættir eru ekki alveg rólegar. Mannskepnan er til alls líkleg og sagan sýnir að henni er fátt heilagt. Mættu Hornstrandir og aðrar náttúruperlur fá að vera í friði fyrir uppátækjum mannsins. Guð blessi þessa heilögu staði.
Hvort var þá hlegið í Hamri?
Herskipin stefndu að landi,
ögrandi banvænum öldum
íshafs, við norðlæg fjöll.
Sá það Hallur í hamri.
Heyrði það Atli í bergi.
Yggldi sig lækur í lyngmó,
leiftraði roði á mjöll.
Leituðu skotmarks í landi
langsæknir víkingar. Hugðust
tækni tuttugustu aldar
tefla við Atla og Hall.
Margþættri morðvizku slungin
menningin stórbrezk og vestræn
skyldi nú loksins logum
leika um nes og fjall.
Válega ýlfruðu vindar,
veifaði Núpurinn éljum,
öskraði brimrót við björgin
boðandi víkingum feigð.
Hljómaði hátt yfir storminn:
Hér skal hver einasta þúfa
varin, og aldrei um eilífð
ykkur til skotmarks leigð.
Hertu þá seið í hamri
heiðnir og fjölkynngi vanir.
Bölþrungin blóðug hadda
byltist úr djúpi og hló.
Reykmekkir, rauðir af galdri,
risu úr björgum til skýja.
Níðrúnir gýgur í gljúfri
grálynd á klettaspjöld dró.
Hvort var þá hlegið á hamri?
Hermenning stefndi frá landi
óvíg gegn íslenzkri þoku,
ófær að glettast við tröll.
Ljómuðu bjargabrúnir,
brostu þá sund og víkur,
föðmuðust lyng og lækur
logaði ósnortin mjöll.
Hvílast nú Hallur og Atli.
Hljótt er í bjargasölum.
Enn er þó kurr í kyljum
klettur ýfist við hrönn.
Geyma skal sögn og saga
sigur hornstrendskra vætta
íslenzkur hlátur í hamri
hljóma í dagsins önn.
Það rigndi á okkur á leið upp á fjallið en smám saman stytti upp þótt drungaleg væri aðkoman að stöðinni. Frammi á fjallinu upplifðum við síðan hvernig þokan lyftist af og Fljótavík birtist í allri sinni dýrð.
Ljómuðu bjargabrúnir, brostu þá sund og víkur.
Athugasemdir
Kyngimögnum sú drápa - Orðsnilld á alheimshvarða.
Már Elíson, 20.8.2016 kl. 17:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.