25.12.2016 | 01:55
Asninn
Prédikun við aftansöng í Akureyrarkirkju á aðfangadagskvöld jóla 2016.
Á viðeigandi stað í ræðunni hrein félagi úr Kór Akureyrarkirkju.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Í sumarfríi í Frakklandi nýlega gistum við nokkrar nætur á hóteli í gamalli sögunarmyllu úti í sveit. Þegar við komum heim á kvöldin og höfðum lagt bílnum okkar á bílastæðinu lá leiðin framhjá ösnum í girðingu. Strax fyrsta kvöldið varð einn þeirra sérstakur vinur okkar. Síðasta daginn á hótelinu vorum við frekar seint á ferðinni og hugðumst ganga fram hjá gerðinu án þess að heilsa upp á asnann. Við vorum komin langleiðina að innganginum þegar við kvað svo skelfilegt org að blóðið fraus í æðum okkar. Við litum um öxl og sáum hvar asninn okkar kom slammandi. Hann hrein eins og hann ætti lífið að leysa en þagnaði jafnskjótt og hann sá að vinir hans snéru við og gengu hröðum skrefum í átt að honum við girðinguna. Þar urðu miklir fagnaðarfundir. Asninn skælbrosti á meðan við klöppuðum honum og báðumst innilega afsökunar á þeim dónaskap að hafa ætlað að ganga framhjá honum.
Þessi franski asni sýndi okkur fram á að asnar eru alls engir asnar.
Þótt ekki sé það sérstaklega tilgreint í Biblíunni er það eldgömul hefð að hafa asna með í sögunni um fæðingu Jesú. Samkvæmt henni bar asni Maríu með barnið inni í sér til Betlehem. Asninn var viðstaddur fæðingu frelsarans. Og þegar Jósef fékk boð í draumi um að flýja með þau mæðgin undan Heródesi sem vildi drepa barnið var það samkvæmt sömu hefð asninn sem skilaði þessu flóttafólki í öryggið.
Mörgum árum síðar bar sama dýrategund Jesú inn í borgina Jerúsalem þegar fólkið fagnaði honum með pálmagreinum, nokkrum dögum áður en hann lauk sinni jarðvist.
Hafi einhverjum brugðið við að heyra asnahrín hér í aftansöngnum og ekki fundist það beinlínis jólalegt má benda á að ef til vill var það nú samt eitt það fyrsta sem Jesúbarnið heyrði. Sterk kirkjuleg hefð er fyrir því hafa asna bæði við upphaf lífs Jesú og lok þess.
Á Palatínsafninu í Róm er eldforn grínmynd frá þriðju öld eftir Krist. Upphaflega var hún rist í vegg á skóla og átti auðsjáanlega að vera einum nemendanna þar til háðungar, kristnum dreng að nafni Alexamenos. Á myndinni er verið að krossfesta mann með asnahaus. Við krossinn stendur téður Alexamenos. Þar er ritað:
Alexamenos tilbiður Guð sinn.
Þrátt fyrir napurt háðið virðist þessi asnamynd, sem talin er vera ein elsta varðveitta myndin af krossfestingunni, litlu hafa breytt um trú Alexamenosar. Á henni er önnur áritun, gerð annað hvort af Alexamenosi sjálfum eða stuðningsmanni hans, svohljóðandi:
Alexamenos er trúfastur.
Höfundur asnamyndarinnar ætlaði að sýna fram á fáránleika trúar hins kristna skólabróður síns. Hverskonar guð er það sem lætur krossfesta sig? Enn finnst mörgum asnalegt að trúa og enn asnalegra að trúa að hætti kristinna manna. Ekki var nóg með að Guð þeirra hafi verið svo varnarlaus, að hann var líflátinn saklaus, heldur fæddist hann í jötu, í fjárhúsi og var orðinn flóttamaður sömu nótt og hann fæddist. Hverskonar Guð er það? Hvaða Guð er það sem ekki beitir mætti sínum og lætur allt það vonda viðgangast? Hvaða Guð er svo máttlaus að hann getur ekki látið alla trúa á sig?
Nú fyrir jólin birtust í leiðara íslensks fjölmiðils hugleiðingar um tilvistarkreppu kirkjunnar og síminnkandi þörf mannsins fyrir trúna. Það eru helst þeir, sem standa veikast og hafa brennt allar brýr að baki sér, t. d. með neyslu og ólifnaði, sem sjá ljósið og finna nýjan tilgang í kristni, sagði þar orðrétt.
Hvað sem að öðru leyti má segja um þessi ritstjórnarskrif er sannleikur í þessari tilvitnun. Guð kristninnar kemur mörgum undarlega fyrir sjónir. Hann birtist ekki hér á jörðu í krafti sínum og mætti. Hann kemur þvert á móti í veikleika. Og hann vill vera Guð þeirra veiku. Guð þeirra sem eiga undir högg að sækja. Guð þeirra sem finna vanmátt sinn. Guð þeirra sem hafa villst. Jesús hneykslaði samborgara sína með því að samneyta tollheimtumönnun, hórsekum konum, útskúfuðum syndurum og öðrum sem undir högg áttu að sækja. Hann benti á að heilbrigðir þurfa ekki læknis við heldur þeir sem sjúkir eru. Hann sagðist ekki kominn til að kalla þá réttlátu og vammlausu heldur syndarana og leita að þeim sem væru týndir.
Þannig er Guð Alexamenosar: Guð þeirra sem veikastir eru og hafa brennt brýrnar að baki sér. Hinir sem eru frábærir og réttlátir og fullkomnir hafa enga þörf fyrir hann. Ekki þurfa heilbrigðir læknis við.
Á þessum jólum heyrum við hróp þeirra varnalausu og veiku. Börnin í Aleppó gráta. Fólk á flótta biður um miskunn. Okkur fallast hendur þegar við stöndum andspænis allri þessari botnlausu illsku og við finnum vanmátt okkar.
Í vonleysinu getur öll skynsemi mælt gegn því að vona. En við vonum nú samt. Á jólum gerist undrið. Myrkrið hverfur ekki en veikt ljós kviknar í sorta þess. Guð kemur til okkar í litlu barni. Guð hinna veiku. Guð hinna smáu.
Í kvöld gera kristnir menn það sem þeir hafa gert á öllum jólum undanfarinna alda; þeir ganga inn í hrörlegt fjárhús, gægjast ofan í jötuna og sjá litla barnið sofa. Og þeir finna það sama og Alexamenos og kynslóðirnar hafa gert allar götur síðan:
Jatan geymir Guð. Jatan veitir frelsun. Jatan kveikir von. Jatan færir frið.
Gleðileg jól, kæru vinir, gleðileg jól!
Myndin er af frönsku söguhetjunni.
Athugasemdir
Gleðileg jól og takk fyrir frábæra hugvekju.
Gunnar Heiðarsson, 25.12.2016 kl. 07:49
Takk fyrir góða og vekjandi prédikun. Jólin eiga að vekja okkur til umhugsunar um þjáningu heimsins um leð og þau vekja með okkur vonina. Takk fyrir þessa hugvekju þína, kæri nafni og kollega.
Svavar Stefánsson (IP-tala skráð) 25.12.2016 kl. 13:32
Gleðileg Svavar minn þó seint sé og þyngra en tærum taki að sjá vandalismann á kirkjunni þinni. Sendi þér ráð í pósti til að laga þetta og fyrirbyggja.
Jón Steinar Ragnarsson, 7.1.2017 kl. 06:26
Þótt trúlaus sé, þá held ég Jól og lít á þau sem endursetningu og afturhvarf til þess sem eg eitt sinn var. Barn með hreina hugsun og fölskvalausan kærleik.Tími með þeim sem maður elskar og áminning um að maður á og nýtur kærleiks og vinarbanda. Án Jólanna væri tilveran hverjum degi lík og enginn ársreikningur tekinn á andlegt líf,flatneskja stöðugs streðs og lítillar gleði. Jólin mættu vera auðmýkri og líta meira til þeirra auðmjúku og einföldu þátta, en vixlararnir verða alltaf að fá sitt. Stun með góðri máltíð í kærleik og gleði með sínum nánustu er enginn sjálfsagður hlutur og yrði sjaldan án tilefnis. Þessvegna eru jólin verðmæt fyrir mér og ég er ber djúpt þakklæti til þeirra.
Jón Steinar Ragnarsson, 7.1.2017 kl. 06:33
Jólin minna á hvaðan maður kemur og hvert skal stefnt og vefja ofan af athyglisbresti og vafstri daglegs lífs. Hreinsa hugann. Þótt það væri eini tilgangur kristninnar, þá væri það mér nóg.
Jón Steinar Ragnarsson, 7.1.2017 kl. 06:36
Takk fyrir góðar kveðjur og falleg orð, kæri Jón Steinar. Og gleðilegt nýtt ár!
Svavar Alfreð Jónsson, 7.1.2017 kl. 10:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.