9.8.2007 | 11:57
Hvað á að gera við 3000 hamborgara?
Mér er sama þótt ég hljómi eins og biluð plata, en:
Í fyrra voru tvær nauðganir kærðar á Einni með öllu, fjölskylduhátíðinni á Akureyri. Auk þess voru gerðar margar líkamsárásir og fjöldi skemmdarverka unninn. Til dæmis voru 30 bílar skemmdir. Upp komu á sjöunda tug fíkniefnamála. Börn gengu drukkin um göturnar. Á þriðja hundrað manns leituðu á slysadeild sjúkrahússins. Sóðaskapur var um allan bæ og aðkoman á unglingatjaldsvæðinu á Þórssvæðinu, þar sem reyndar var 18 ára aldurstakmark, var ömurleg. Þar voru börn úr vinnuskóla bæjarins látin hreinsa til eftir fjölskylduhátíðargesti og tíndu m. a. upp sprautunálar og kyrfilega notaða smokka. Með gúmmíhönskum.
Þá fór engin undirskriftarsöfnun af stað. Bæjarstjórnin sat í makindum.
Eftir hátíðina í ár fer á hinn bóginn engum sögum af nauðgunum. Fíkniefnamál sem upp komst um voru mörgum sinnum færri en árið áður. Líka skemmdarverk og líkamsárásir. Hátíðargestir gerðu sér glaðan dag þrátt fyrir óyndislegt veður og gengu yfirleitt vel um fallegan bæ. Unglingadansleikir fóru fram án þess að fermingarbörn yltu þar um á herðablöðunum. Gestir tjaldsvæðanna gátu hvílt sig og notið svefns eftir annasama daga.
En eftir standa 3000 óseldir hamborgarar. Og þá verður allt vitlaust.
Undirskriftarsöfnun er hrundið af stað. Bæjarstjórnin á að segja af sér. Skátarnir eiga að hypja sig af tjaldsvæðunum.
Auðvaldið lætur ekki að sér hæða. Ef þetta fær ekki að vera eins og 2006 hættum við að koma nálægt þessu. Þá verða engir peningar settir í hátíðahöld á Akureyri um verslunarmannahelgi.
Þið eigið að hlýða! Við þurfum að selja hamborgarana okkar!
Ég geri það að tillögu minni að í stað undirskriftasöfnunar verði efnt til samskota í bænum. Peningarnir sem safnast verði notaðir til að kaupa þessa 3000 hamborgara til að bæta kaupmönnunum skaðann.
Haldin verði grillveisla á komandi Akureyrarvöku og þar fram bornir þessir sömu hamborgarar.
Fólk á aldrinum 18 - 23ja ára verði sérstaklega boðið velkomið
Ég lýsi því hér með yfir að ég er svo algjörlega tilbúinn að draga úr eigin vösum andvirði þó nokkurra hamborgara allar næstu verslunarmannahelgar ef það mætti verða til þess að afstýra nauðgunum, fækka eiturlyfjamálum, líkamsárásum og skemmdarverkum, minnka sóðaskap og draga úr fylleríi á börnunum okkar.
Ef til vill væri hægt að hafa grillveisluna yfir í heiði?
Athugasemdir
Góð hugmynd... ég er með. Annars held ég að þegar rykið sést þá sjá menn auðvitað hvað þetta var vel heppnuð verslunarmannahelgi hér. Það mættu eitthvað færri en undanfarin ár enda var veðurspá afleit og gekk eftir.
Svo er það annað mál hversu langt ágirnd getur rekið menn í málflutningi.
Jón Ingi Cæsarsson, 9.8.2007 kl. 12:29
Sæll. Svavar.
Góð grein og góður samanburður. Vona að sem flestir lesi þetta hjá þér. Ótrúlegt hvað fjölmiðlarnir eru alltaf reiðubúnir til þess að snapa upp það neikvæða. Í fyrra voru allir fjölmiðlar fullir af fréttum hvað þetta var nú ömurlegt hér á Akureyri um verslunarmannahelgina. Nú er allt ómögulegt vegna þess að hér var haldin látlaus en metnaðarfull hátíð. Aftur á móti kom fólk ekki hingað til að kaupa sér föt og einhverjir matsölustaðir sitja uppi með birgðir af vörum á borð við hamborgara, sem geymast nú ágætlega í frosti.
Hjalti Jón Sveinsson (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 14:40
Hver er munurinn á notuðum smokki og kyrfilega notuðum smokkum?
Bara svona að spá.
Jón Sigurður, 9.8.2007 kl. 15:01
Ég er þeirra mörgu sem telja rólegan og fallegan bæ og veit einnig að þorri þeirra sem heimsækja Akureyri eru sama sinnis. Ekki skemma þessa ímynd. En eiga veitingahúseigendur ekki frystikistu? Ég kem reglulega til Akureyrar og finnst bærinn vera höfuðstaður Norðurlands með fullri virðingu við aðra staði á þessu landssvæði.
Sturla Bragason, 9.8.2007 kl. 15:37
Frábær skrif. Fyllilega sammála, er aflögufær verði efnt til samskota.
Guðm.Fylkis (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 16:12
Sæll Svavar
Þetta er frábær hugmynd hjá þér... ég gæti alveg reitt framm fyrir nokkrum hamborgurum :) En hvernig ætli þetta verði á næsta ári? Ég hugsa að ef hátíðin verður með svipuðu sniði og núna í ár, með meiri fyrirvara þá kemur örugglega mun meira af fjölskyldufólki heim á Akureyri, mér finnst þetta bara mjög gott mál og vonandi að það verði fullur bær af frábæru fjölskyldufólki eftir ár. :)
Arna H. Fossberg Júlíusdóttir, 9.8.2007 kl. 16:22
Sæll Svavar
Gott hjá þér að halda áfram með gagnrýna umfjöllun um þetta málefni.
Ég skal fjármagna 10 til 15 hamborgara, ekki vandamál hér, ef þú hrindir af stað Hamborgaravökunni :) Varðandi þessi hátíðahöld þá finnst mér þó mjög miður hvernig fólk er að skiptast í tvær fylkingar "Allt ómögulegt" og "Allt í lagi" hópa. Persónulega finnst mér aðalatriðið að menn séu tilbúnir að halda þá hátíð sem auglýst er og þá meina ég fyrst og fremst að til staðar sé sá mannskapur, tæki og tól sem til þarf til að hægt sé að koma í veg fyrir það neikvæða sem gjarnan vill fylgja svona hátíðum.
Hátíðin núna leit vissulega mun betur út en hátíðin í fyrra, en eins og bent hefur verið á þá var hér til muna færra fólk og veðrið heldur ekkert sérstakt.
Mér dettur ekki í hug að ráðast á bæjaryfirvöld og heimta afsögn, hvorki vegna þess að hátíðin hafi verði hamborgaralítil nú eða skelfileg í fyrra. Aðalmálið er að dreginn verði af þessu lærdómur og næsta hátíð verði betri, ef hún þá verður haldin. Ég get þó ekki látið hjá líða að nefna það að mér finnst það helber dónaskapur af bænum okkar að meina fólki 18 til 23 ára að tjalda í bænum. Í fyrsta lagi er þetta markhópur verslunamannahelgar hátíðar eins og hátíðin hér hefur verið auglýst. Við skulum heldur ekki gleyma þeirri staðreynd að í þessum aldurshópi er að finna fullt af "FJÖLSKYLDUFÓLKI" með börn. Við erum að tala um sjálfráða einstaklinga sem upp til hópa eru bara yndislegt og heiðvirt fólk. Ef við höldum slíka hátíð oftar þá þurfum við að beyta öðrum leiðum til að koma í veg fyrir hörmungar á borð við nauðganir, ofdrykkju og ofbeldi.
Bestu kveðjur :)
Ég á sjálfur enga töfralausn að slíkri hátíð, en tel þó að útihátíð sem tengist verslunamannahelgi verði alltaf erfiðara að halda inní í miðju bæjarfélagi en á einhverju afmörkuðu svæði. Aðal vandinn hér er að það er enginn sem ber ábyrgð á öllu svæðinu. Sem dæmi má nefna að um leið og unglingarnir yfirgefa rammgirta dansleikjasvæðið (Samskipa gámana við KA heimilið) þá eru þau allt í einu á frísvæði sem enginn ber ábyrgð og enginn grípur inní fyrr en eitthvað slæmt hefur gerst (lögregla).
Hólmgeir Karlsson, 9.8.2007 kl. 18:24
Kaupmenn komust ekki í feitt
Kætast ei í þetta sinn.
Þykir þeim það afar leitt
að ekkert kom í kassann inn.
Theódór Norðkvist, 10.8.2007 kl. 13:09
Má ekki bara gefa þá til að eigendur öðlist hina sönnu gleði gjafarans? Las einhvers staðar að á Fiskideginum mikla væri allt gefið og allir glaðir en á Einni með öllu hefði ekki verið hægt að selja nóg og allir í fýlu.
Þórir Jónsson, 14.8.2007 kl. 11:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.