Fordómafóbía

Þegar bæjarstjórinn á Akureyri ákvað að leyfa ekki ákveðnum aldurshópi að tjalda á tjaldsvæðum bæjarins um verslunarmannahelgina síðustu varð allt vitlaust. Hann var sakaður um fordóma gagnvart ungu fólki og skorað á hann að segja af sér.

Einn áskorenda rekur skemmtistað hér í bæ. Nú hefur hann ákveðið að banna ákveðnum hópi manna aðgang að krá sinni vegna drykkjuláta og klofþukls. Þannig vill til að í þessu tilviki er um Pólverja að ræða og er öldurhúsaeigandinn að sjálfsögðu sakaður um fordóma gagnvart þeim.

(Þess má geta að einu sinni hafði ég pólskan organista. Sá var ætíð bláedrú og reyndi aldrei að seilast milli fóta kvennanna í kirkjukórnum - eða karlanna. Sjaldan hef ég kynnst öðrum eins öndvegismanni.)

Úr Reykjavík berast fréttir af íbúum í miðbænum. Þeir sofa ekki um nætur vegna gleðiláta á skemmtistað sem standa fram á morgna. Hafa þeir kvartað en uppskera lítið annað ásakanir um fordóma gegn samkynhneigðum. Skemmtistaðurinn umræddi er vinsæll í þeirra hópi.

Við Akureyringar eru taldir mjög fordómafullir þegar í hlut á aðkomufólk eins og ég skrifaði um nýlega. Akureyringi er vissara að gæta tungu sinnar þegar utanbæjarmenn ber á góma. Þá er fordómafelgulykillinn oftar en ekki reiddur til höggs.

Auðvitað eru það einungis fordómar um Akureyringa að þeir séu fordómafullir. Það eru meira að segja fordómar um Akureyringa að þeir séu Akureyringar. Aðfluttir eru til dæmis í miklum meirihluta á mínum vinnustað. Séra Óskar er Sunnlendingur, séra Halla hörgdælsk, Eyþór Ingi organisti úr Dölunum, hinn organistinn, Sigrún Magna, Höfðhverfingur sem lengi hefur verið búsett í Kaupmannahöfn og Elín húsmóðir Dalvíkingur svo nokkur dæmi um frábærlega vel heppnað aðkomufólk séu nefnd.

Ekki einu sinni konan mín er akureysk heldur úr Svarfaðardal. Fer vel á því að öndvegi íslenskra kvenna sé úr öndvegi íslenskra dala.

Alls konar fordómar og fóbíur eru í gangi í þjóðfélaginu.

Hommafóbían er eiginlega nýr fjárkláðafaraldur hér á landi og spurning hvort eigi að bregðast við honum með böðum eða klárum niðurskurði.

Á netinu er allt löðrandi í fólki sem annað hvort hefur ofnæmi fyrir Guði eða fyllist óskiljanlegum ofsa þegar á hann er minnst.

Gæti verið um theofóbíu að ræða, guðsfælni?

Og eru ekki kirkjufóbía (ekklesiofobia), prestafóbía (pastorofóbía) og kristnifóbía (kristíanófóbía) nátengd svoleiðis fælni?

Svo er til fólk sem ekki fælist neitt nema fordómana. Það er annað hvort upptekið af því að sýna okkur hinum fram á að það hafi ekki neina fordóma eða er sífellt að segja okkur hvað aðrir séu ofboðslega fordómafullir.

Þannig fólk er sennilega haldið svæsinni fordómafóbíu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þröstur Heiðar Guðmundsson

Þú hittir naglann á höfuðið Svavar minn.

Get ekki verið meira sammála þér

Strandamaður búsettur á Akureyri

Þröstur Heiðar Guðmundsson, 15.11.2007 kl. 11:26

2 Smámynd: krossgata

 Ég er örugglega með bullandi fordómafóbíu - verð að kanna þetta.

krossgata, 15.11.2007 kl. 13:54

3 identicon

Fordómar eru þeir dómar sem slegnir eru án þess að viðeigandi rökstuðningur fylgi. Sumsé í besta falli innistæðulaust tuð um ákveðna hópa eða málefni.

Fordómafóbía er gott nýyrði yfir þá til hneigingu fólks að nota fordómastimpilinn ef einhver er á öndverðu meiði við það sem er líbó. Þeir sem haldnir eru fordómafóbíu gleyma þá að athuga rökstuðninginn á bakvið meinta fordóma. Ef þeir "fordómafullu" hafa eitthvað til síns máls er ekki um fordóma að ræða þar sem viðkomandi hafa kynnt sér málin.

Til dæmis á þetta við um alternative medicine sem saka vísindasamfélagið um fordóma og þröngsýni, sem er alls ekki málið. Að vel athuguðu máli reynist alternative medicine bara vera bull og vitleysa.

Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 19:31

4 Smámynd: Helgi Már Barðason

Mæltu manna heilastur.

Helgi Már Barðason, 15.11.2007 kl. 22:20

5 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Hvað gerist ef prestur missir trúna á Guð?  Lækkar hann í launaflokkum?...mig langar að vita þetta?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 15.11.2007 kl. 22:51

6 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Neibb. Hann hlýtur að hækka. Ekstra álag á hann að standa í þessu trúlaus.

Svavar Alfreð Jónsson, 15.11.2007 kl. 22:55

7 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Snilldar svar

Jónína Dúadóttir, 16.11.2007 kl. 09:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband