9.3.2008 | 21:37
Gagnlegt málþing
Málþingið um skóla og kirkju sem ég sagði frá í síðustu færslu var mjög gagnlegt - og ótrúlega skemmtilegt.
Þetta var engin halelújasamkoma jásystkina. Ég var alls ekki sammála öllu sem sagt var en annað var eins og talað út frá mínum nýrum.
Framsögumenn stóðu sig með mikilli prýði. Doktor Svanur reið á vaðið og fór á kostum. Hann skaut engum púðurskotum. Sagði lýðræðið eins og við þekkjum það komið úr kristni og að hinn kristni arfur væri það eitt af því dýrmætasta í eigu þessarar þjóðar.
Ekki var hann sáttur við það hvernig Þjóðkirkjan fer með þann arf og skammaði okkur prestana fyrir aumingjaskap. Ónýtir þjónar erum vér.
Mér þykir óskaplega vænt um Svan. Hann er gegnheill. Og mikil manneskja. Ég vildi að ég gæti oftar heyrt í honum.
Kollegi minn, sr. Þórhallur Heimisson, flutti okkur stórfróðlega sögulega samantekt um tengsl kirkju og skóla sem hér á landi eru enn meiri en ég hélt. Þórhallur er með áheyrilegri prestum.
Kristín Dýrfjörð er nú meiri perlan. Erindið hennar var mjög vel unnið og eftir að hafa heyrt það skil ég þá betur sem ekki eru sáttir við framgöngu sumra kirkjunnar manna í skólum landsins.
Karl Frímannsson, skólastjóri hins háverðlaunaða Hrafnagilsskóla, var síðastur framsögumannanna. Erindi hans var áminning um að aðkoma kirkjunnar að skólum landsins eigi alltaf að vera á forsendum skólanna. Flott ræða hjá Kalla Frím.
Umræður spunnust um hvort skólastarf þurfi að vera í anda kristilegs siðgæðis og sýndist sitt hverjum. Einnig var töluvert rætt um stöðu kristindóms- og trúarbragðafræðslu í skólunum. Margt skólafólk hefur áhyggjur af greininni sem á að verða hluti af samfélagsfræðum í nýjum lögum.Virðist mér miklu frekar ástæða til að hafa áhyggjur af því en brottfalli margfrægra orða um anda kristilegs siðgæðis úr grunnskólalögum. Síðari breytingin mun m. a. s. hafa verið gerð í samráði við Biskupsstofu.
Ekki má gleyma frábæru framlagi þeirra Tjarnarhjóna, Kristjönu og Kristjáns, sem fluttu okkur fallega tónlist, m. a. yndislegan sálm sem snillingurinn Böðvar Guðmundsson þýddi úr dönsku.
Og allra síst má sleppa því að minnast á veitingarnar, sem foreldrahópur Stúlknakórs Akureyrarkirkju annaðist.
"Sár er kirkjusulturinn," sögðu þeir austur í Mjóafirði
Og "sætur er kirkjusvefninn" sögðu þeir víst suður í sýslum - en það er allt annar landshluti.
ES
Er það ekki týpískt að ég skuli gleyma fundarstjóranum, Bergþóru Þórhallsdóttur? Fundarstjórar gleymast gjarnan en þó er góð fundarstjórn forsenda góðra málþinga. Begga var svo sannarlega góður og röggsamur fundarstjóri!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.