Horft í gegnum freyðivínsglasið

listak_frettir_0208[1]Ekki er hægt að kvarta undan lognmollu í kringum Listasafnið á Akureyri. Forstöðumaðurinn, Hannes Sigurðsson, fær snjallar hugmyndir. Ég minnist menningarvitans sem eitt sinn logaði á þaki safnsins og bænaákallsins íslamska sem hljómaði þaðan reglulega, frómum gestum Akureyrarkirkju til mismikillar ánægju, en kirkjan stendur á barmi Listagilsins þar sem safnið er að finna.

Því miður sá ég ekki sýninguna Búdda á Akureyri en las veglegan bækling sem safnið gaf út og dreifði ókeypis til bæjarbúa, útblásinn af skömmum um kristindóminn og Þjóðkirkjuna. Útgáfuna styrktu ýmis vel megandi fyrirtæki auk Akureyrarbæjar.

Nú á að taka fyrir einkavæðingu, kvótakerfi, græðgi, útrás, innflytjendur og stóriðju á sýningu á safninu sem kölluð er Bæ bæ Ísland - Uppgjör við gamalt konsept en þá bregður svo við að engir finnast styrktaraðilarnir.

Auðvitað er ekki sama í hvern er sparkað.

Mér þykir samt gott ef listamönnum tekst að sparka dálítið í okkur, borgarana, og vekja okkur til umhugsunar um lífið og tilveruna. Það er ekki síst við hæfi nú þegar fastan, tími íhugunar og iðrunar, nær hámarki.

Í gær spjallaði Björn Þorláksson við Hannes safnstjóra í fréttatíma Stöðvar tvö. Ég vona að forsjónin fyrirgefi mér glottið sem læddist fram á varir mínar þegar ég hlustaði á Hannes lýsa því hvernig allt væri að fara fjandans til á þessu skeri. Fólk fengi að upplifa það á sýningunni, sjálft helvíti, eins og það var orðað.

Glottið á sér þá skýringu að ég er að lesa bókina Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð eftir finnska rithöfundinn Arto Paasilinna. Óborganlegar bókmenntir. Sjálfsmorðskandídatarnir fara til Noregs þar sem þeir hyggjast gera út af við sig með því að keyra á lúxusrútu fram af sjávarhömrum. Stuttu áður en ég heyrði í Hannesi las ég um það þegar kandídatarnir  minntust í sameiningu síns óblíða föðurlands.

Finnland væri miskunnarlaust, þjóðin harðbrjósta, græðgi almenn, fullt af svikahröppum, falsspámönnum og lygurum, fátækir undirokaðir af ríkum, ungmenninn óalandi, skrifræðið óskaplegt og almenningur mergsoginn af kaupmönnum og heildsölum.

Í Finnlandi vinna iðnjöfrar og trjábjöllur saman að því eyða skógunum, súrt regn eitrar akra og bithaga, víkur og flóar eru að fyllast af eitruðum þörungum, ökuníðingar á þjóðvegunum sjá kirkjugörðum landsins fyrir nógu að bíta og brenna og einelti og kynferðislegt áreiti viðgengst á vinnustöðum.

Síðan segir í bókinni:

"Eftir því sem lengra leið á samræðurnar var sjálfsmorðskandídötunum smám saman farið að finnast að þegar öllu væri á botninn hvolft væru þeir lukkunnar pamfílar í samanburði við þá Finna sem voru nauðbeygðir til að halda áfram ömurlegu lífi sínu í þessu skelfilega heimalandi. Þessi uppgötvun gladdi hópinn í fyrsta skipti í langan tíma."

Skyldi sýningin gleðja akureyska elítu með sama hætti?

(Svo ég sparki pínulítið í hana.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ransu

Styrktaraðilar á sýningu sem þessari eru myndlistarmennirnir. Þeir gefa vinnu sína og tíma. Þeir eru sennilega eina fólkið sem kemur að sýningunni, frá þjónustufólki á opnun til grafísks hönnuðar, sem fær engin laun.  Og samt væri engin sýning án þeirra.

Ransu, 14.3.2008 kl. 19:05

2 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Heill og sæll Svavar!

Nú ertu já nokkuð kaldhæðin í kærleiksboðskapnum verð ég að segja og það svona rétt fyrir Stórhátíðina!

En ég skal nú ekkert blanda mér í glímu guðs og gyðju lista að öðru leiti, þekki ekki málavöxtu. En þarna eru meðal margra annara nei engir "meðaljónar" Svavar sem leggja hönd á plóg, allavega eru þeir Þorvaldur jafnaldri þinnÞorsteinsson og Hallgrímur Helgason, slíkir fjöllistamenn, að þjóðin dáir þá mjög og þeirra orstír náð langt út fyrir landsteina!Þá og fleiri sem slíka verður því að taka alvarlega í einhverjum mæli að minnsta kosti.

Magnús Geir Guðmundsson, 15.3.2008 kl. 23:10

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Guð forði mér frá því að taka ekki alvarlega öndvegismennina Þorvald og Hallgrím og listamenn og aðra sem að sýningunni koma!

Kalhæðnin verður öll að skrifast á Arto Paasilinna.

Svavar Alfreð Jónsson, 16.3.2008 kl. 12:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband