19.7.2009 | 23:27
Lýðræðið á undir högg að sækja
Í nýjasta Hrafnaþinginu á ÍNN lýsti Ingvi Hrafn einlægri hrifningu sinni á atkvæðagreiðslunni um ESB á Alþingi.
Hann taldi hana ljómandi birtingarmynd lýðræðisins.
Það var ekki endilega niðurstaða atkvæðagreiðslunnar sem gerði hana svona frábæra, ef ég hef skilið Ingva Hrafn rétt, heldur það hvernig atkvæðin voru greidd.
Þingmenn greiddu atkvæði þvert á flokkslínur.
Við þetta er ýmislegt að athuga.
Auðvitað á ekki að þvinga menn eða kúga til að taka afstöðu gegn eigin sannfæringu eða í bága við samvisku sína.
Það er ekki lýðræðislegt heldur andstyggileg gerð ofbeldis og kúgunar.
Ég trúi því ekki að nokkur vilji þvílíkt á landinu okkar.
Þó kvörtuðu menn einmitt undan skoðanakúgun í tengslum við þessa atkvæðagreiðslu sem Ingva Hrafni fannst svo unaðslega lýðræðisleg.
Og sumir þingmenn tóku beinlínis fram að þeir greiddu atkvæði gegn eigin sannfæringu.
En þó að þingmenn eigi að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni þýðir það ekki að þeir séu engum skuldbundnir nema sér sjálfum.
Við höfum ekki þingmannaræði á Íslandi.
Þingmenn eru ekki kosnir á þing út á sig sjálfa og eigin skoðanir.
Við höfum lýðræði á Íslandi.
Það lýðræði á undir högg að sækja á Íslandi í dag.
Við erum farin að skilgreina lýðræðið út frá þingmanninum.
Hvað finnst honum?
Hvernig líður henni?
Þingmenn eru ekki kosnir á þing til að svala sínum persónulega metnaði.
Menn sækja ekki um þingmennsku eins og önnur störf.
Menn læra ekki til þingmennsku.
Menn eru kosnir á þing.
Af kjósendum.
Kjósendur fela þingmönnum að framfylgja ákveðinni stefnu og vinna að framgöngu tiltekinna hugsjóna.
Þess vegna eru þingmenn á þingi.
Og það er lýðræði.
En það er gömul saga og ný að lýðræðið er brothætt og að því er ekki síst sótt á umbrotatímum.
Það er fyllsta ástæða til að minna á að lýðræði er ekki það að þingmennirnir fái að ráða eða flokkarnir fái að ráða.
Lýðræði er það fyrirkomulag að þegnarnir fái að ráða.
Myndin: Ég ók út í Ólafsfjörð í dag. Honum og fólkinu þar er ég svo sannarlega hjartabundinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
19.7.2009 | 13:42
Hví ganga menn daprir í geði?
Ég hef verið að lesa Alþýðusöngbók Böðvars Guðmundssonar sem hefur að geyma söngva skáldsins, sálma, tækifæriskvæði og þýðingar (Uppheimar 2009).
Böðvar er í miklum metum hjá mér.
Þessi öðlingur kenndi mér í menntaskóla og hafði meiri áhrif á mig en hann grunar.
Eitt af mínum uppáhaldslögum er Næturljóð úr Fjörðum. Böðvar á bæði textann og lagið.
Ég er nú ekki meiri bógur en það að ég tárast nánast alltaf pínulítið þegar ég heyri þetta lag. Að minnsta kosti inni í mér og undantekningarlaust þegar blessunin hún Kristjana Arngrímsdóttir syngur það.
Svo hefur Böðvar gert marga gullfallega sálma.
Hér er lokaerindið úr ljóðinu Með brosi ég mína byrði eftir Jeppe Aakjær í þýðingu Böðvars.
Mér veitir ekkert af þessu versi eftir allan ESB og IceSave barlóminn.
Hví ganga menn daprir í geði
er Guðs bláa himin þeir sjá?
Mitt hjarta hamast af gleði
í hvert sinn er dögg sest á strá.
Myndirnar með færslunni tók ég inni í Kjarna í gær.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)