Siðgæði og önnur bannorð

DSC_0353 

Tíðni leghálskrabbameins eykst hratt á Íslandi. Ein orsök þess er talin vera aukin útbreiðsla svokallaðra HPV-kynfæravartna.

Þróunin er uggvænleg. Fjallað var um málið í Fréttablaðinu í gær. Heilbrigðisráðherra var mætt í viðtal í morgunútvarp Rásar tvö og fjallaði um það.

Umfjöllun útvarpsins beindist einkum að bólusetningu gegn HPV-veirunni. Hún mun kosta 90.000 krónur. Útvarpsmenn voru mjög uppteknir af þeirri kenningu að dætur lækna fengju þessar bólusetningar í stórum stíl.

Bæði í grein Fréttablaðsins og hjá heilbrigðisráðherra kom fram að rakstur á kynfærum yki líkurnar á HPV-smiti.

Var ekki hægt að skilja ráðherrann á annan veg en að hún mælti síður með snoðuðum kynfærum.

Ekki heyrði ég ráðherrann gera það að sérstöku umtalsefni að fjöldi bólfélaga skiptir líka máli um líkurnar á smiti.

Í Fréttablaðinu hefur Laufey Tryggvadóttir, klínískur prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands, þetta að segja um þá hlið málsins:

Til dæmis ef stúlka hefur mök við strák sem hefur sofið hjá tuttugu stelpum, þá tengist hún allri kynfæraveirusögu hans. Og ef ein af hans fyrrverandi hjásvæfum er búin að sofa hjá fjölda manna þá berst saga hennar með kynfærum stráksins og líkur á smiti eru verulegar.

Varnirnar gegn þessum ófögnuði, vörtunum og leghálskrabbameininu, felast ekki bara í bólusetningum og öðrum tæknilegum úrræðum, eins og þeim að hlífa kynfærum sínum við raksápu eða forðast að bera að þeim flugbeitt eggvopn.

Dyggðugt og siðsamlegt líferni skiptir líka máli.

Fyrirsögnin á grein Fréttablaðsins er þessi:

Ungir Íslendingar eiga Norðurlandamet í fjölda rekkjunauta

Lauslæti íslensku þjóðarinnar er hluti vandans.

En á það má auðvitað helst ekki minnast.

Því miður er ástandið á Íslandi ennþá þannig að þar eru hugtökin „siðgæði" og „dyggðir" hálfgerð tabú.

Enda komu þau hvorki fyrir í grein Fréttablaðsins né í umfjöllun morgunútvarpsins.

En til gamans má geta þess að á forsíðu þessa sama Fréttablaðs var þessi fyrirsögn:

Forseta settar siðareglur

Svona til að taka af allan vafa um að Íslendingar ætli svo sannarlega að taka sig á í siðgæðinu. 

Myndin er af splunkunýjum köngli inni í Kjarna


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Nú er ég forvitinn: Er kynlíf fyrir hjónaband synd?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 28.4.2010 kl. 11:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband