22.7.2007 | 11:31
Blessuð börnin verða að komast á fylleríið sitt
Núna um verslunarmannahelgina verður efnt til fjölskylduhátíðar á Akureyri.
Til að fyrirbyggja misskilning verð ég að taka fram að ég er alls ekki á móti því að slík hátíð fari fram. Mér finnst á hinn bóginn ýmislegt aðfinnsluvert við skipulag og framkvæmd þessarar hátíðar. Annað er til fyrirmyndar.
Undanfarin ár hefur til dæmis verið mikil unglingadrykkja á hátíðinni. Þegar bent hefur verið á þessa skuggahlið fjölskylduhátíðarinnar hefur viðkvæðið gjarnan verið: Krakkarnir fara hvort eð er á fyllerí þessa helgi. Betra að það sé í Akureyri en einhvers staðar úti í sveit því á Akureyri er betra að hafa eftirlit með fullum börnum.
Það er reyndar ekkert endilega rétt. Ég er ekki viss um að betra sé að hafa eftirlit með samkomu sem fram fer vítt og breitt um bæinn en þeirri sem er haldin á afgirtu svæði úti í sveit. Þetta er samt ekki aðalatriðið. Mér finnst að við megum ekki samþykkja það háttalag að börnin okkar (13 ára og jafnvel þaðan af yngri) drekki sig full. Hvort sem það er undir eftirliti eða ekki.
Ættum við að afhenda nýfermdri stelpu vodkaflösku og segja? "Jæja elskan, nú skaltu fara á hressilegt fyllerí inni í herberginu þínu. Mömmu og pabba finnst betra að þú gerir það hérna heima en einhvers staðar úti í sveit, til að fylleríið á þér verði ekki eftirlitslaust af okkar hálfu."
Í fyrra komu tugir fíkniefnamála upp á fjölskylduhátíðinni. Við vitum ekkert um þau sem ekki komu fram í dagsljósið. Þessar tölur segja okkur aðeins að gífurlegt magn fíkniefna er í umferð á fjölskylduhátíðinni. Menn sem vit hafa á segja mér að sölumenn fíkniefna séu sérstaklega þakklátir bæjaryfirvöldum á Akureyri fyrir það hversu ákjósanlegar aðstæður þeim er boðið upp á fyrir norðan um verslunarmannahelgina: Hellingur af fullum unglingum á eigin vegum. Dómgreindin farin. Ég veit að mörg ungmenni hafa byrjað sinn eiturlyfjaferil á Akureyri um verslunarmannahelgina. Við vitum öll hvernig slíkum ferli getur lokið.
Um nauðganirnar hefur þegar margt verið sagt en alþjóð hló að forsvarsmönnum bæjarfélagsins í fyrra þegar þeir prísuðu sig sæla í fjölmiðlum fyrir að sleppa með sárafáar nauðganir á fjölskylduhátíðinni. Bloggvinkona mín benti á það hér á síðunni að eitt árið hefði verið ein nauðgun á Hróarskelduhátíðinni svonefndu. Þangað koma held ég um 100.000 manns. Þessi eina nauðgun gerði allt vitlaust. Skipulag hátíðarinnar var tekið í gegn og sterklega kom til greina að hætta alfarið við þessa miklu tónlistarhátíð. Skilaboðin voru: Ein nauðgun er einni of mikið.
Enn mætti margt skrifa, til dæmis um sóðaskapinn, hávaðann, líkamsmeiðingarnar og skemmdarverkin.
Það á að halda fjölskylduhátíð. Einu fréttirnar sem ég hef hingað til haft af undirbúningi fjölskylduhátíðarinnar eru þær að bæjarráð samþykkti að hafa krár opnar til klukkan fimm um morguninn fyrir fjölskyldufólkið og þar að auki verða tveir unglingadansleikir í KA-heimilinu til klukkan þrjú. Sérstakt tjaldsvæði fyrir unglinga verður í bænum sem verður að teljast mikið tilhlökkunarefni fyrir dílera landsins.
Í alvöru talað: Hvað segir það um okkur þegar við höldum fjölskylduhátíð á Akureyri með þeim rökum að nóg lögreglulið sé hér til staðar og stutt á sjúkrahús?
Athugasemdir
Sammála þér um þetta mál að venju, vinur sæll. Svo er ég viss um að starfsfólkið á FSA er þegar farið að hlakka ósegjanlega til að fá þessa skriðu yfir sig - einu sinni enn.
Helgi Már Barðason, 22.7.2007 kl. 11:47
En hvað villtu þá að verði gert?
Villtu að bæjarráð láti loka skemmtistöðum kl 12 og sleppa þessum "unglingadansleikjum"?
Það myndi einfaldlega ekki leysa nein vandamál, það er alltaf staður til að djamma á fyrir krakkana ef það er ekki á akureyri þá er það einhverstaðar annarstaðar. Þessi vandamál þarf að miklu leiti að vinna að heiman. Foreldrar geta ekki bara sagt, barnið mitt er fullt á akureyri vegna þess að helvítis bæjarráð leyfði unglingadansleik og unglingatjaldstæði.
Gísli Ólafsson (IP-tala skráð) 22.7.2007 kl. 15:42
Sæll séra Svavar. Þú segir nokkuð! Ég man eftir athugsemd vegna bíladaga sem haldnir voru á AKE fyrir skemmstu. Þá var talað um að hagsmunir fyrir verslanir og ferðaþjónustu væru svo miklir að það mætti ekki varpa "skugga" á umræðuna þó einn og einn láti eins og kjáni.
En hver er siðferðisleg skylda okkar allra? Eins og þú segir, á að afhenda barni brennivín og segja; Vertu bara til friðs og nálægt mömmu og pabba! Eins og fyrr er það heimavinnan hjá okkur sjálfum sem er óunninn með öllu og það er skammarlegt að foreldrar haldi að það sé í lagi að gefa barni vín, af því að það er betra að þau drekki hjá þeim, eða með þeim, eða nálægt. Mér var einfaldlega bannað að drekka og við það stóð!
Ég skil vel áhyggjur FSA svo og lögreglunnar. Það er einnig skammarlegt að segja að "ein" nauðgun sé heppni að ekki hafi verið fleiri. Líf einnar manneskju er eyðilagt á einni helgi.
Þetta er kannski klisja hjá mér, en samt tel ég vert fyrir bæjarbúa að skoða heildarmyndina þegar svona hátíð er haldin. Ef bæjaryfirvöld og ferðaþjónustan telur mikilvægara að fá pening í kassann, en að hafa bæjarbúa sátta, þá þeir um það. En það þýðir þá ekki að koma vælandi í fréttirnar eftir hátíðina og segja frá skemmdum á bílum, kúk í garðinum, ælum upp á hús og á öllum stéttum, brotnum rúðum, og ólátum sem eru hvergi í heiminum nema líklega hér. Það held ég sé alveg á hreinu!
Gangi þér vel séra með allt það sem koma skal. Meðan ég man. Var AKE ekki að sækjast eftir því fyrir nokkru að vera viðurkenndur sem rómaður rólegheitastaður? Það minnir mig! Það eru bæir og borgir um allan heim sem sækjast eftir því að vera rólegheitastaðir. Er kannski ekki verið memm á meðan verslunarmannahelgin er? Hver veit!
Sveinn Hjörtur , 22.7.2007 kl. 17:41
Húnaver-Eldborg-Akureyri. Hvað eiga þessi nöfn sameiginlegt? Jú staðir sem eru orðnir þekktir fyrir fyllerí, skrílslæti og ofbeldi. Það er greinilegt þegar maður hittir ungt fólk frá öðrum byggðarlögum að bærinn er orðinn eftirsóttur til að fara til og haga sér eins og bjáni. Ég hef því miður þurft að vera heima hjá mér hér á Akureyri undanfarin ár um verslunarmannahelgi. Ég vil það ekki en ég verð að verja eign mína. Ekki vanþörf á, hef alltaf lent í leiðindum í garðinum mínum undanfarin ár. Verslunarmenn hafa allt of mikil áhrif hér, það er á hreinu. Ég hef líka tekið þá ákvörðun að versla ekki í verslunum þeirra sem berjast sem mest fyrir hátíðinni og eru með yfirlýsingar eins og þú nefndir Svavar, í fjölmiðlum. Ég hef ekki hitt einn einasta fjölskyldumann sem er hlynntur þessum hátíðarhöldum eins og þau eru í dag.
Takk fyrir góðan pistil, Svavar.
Eyþór Ingi Jónsson (IP-tala skráð) 22.7.2007 kl. 19:26
Takk fyrir góðan pistil. Mér brá í brún þegar ég las frétt í Vikudegi þar sem einn forráðamanna hátíðarinnar kallaði viðhorf sem þú hafðir boðskap neikvæðninnar. Hann talaði um að hann ætlaði ekki að skattyrðast við postula neikvæðninnar. Er það neikvæðni að hafa áhyggjur af börnunum okkar, bænum okkar og þeirri ímynd og aðstæðum sem okkur Akureyringum er boðið uppá um hverja einustu verslunarmannahelgi? Ef þetta er hugarfar þeirra sem halda hátíðina er af þessum toga líst mér ekki á blikuna.
Jón Ingi Cæsarsson, 22.7.2007 kl. 22:17
Áfram séra minn.
Gerði virkilega atrennu að því fyrir 11-12 árum að komast inn í umræðuna vegna hörmulegrar framkvæmdar á Halló Akureyri þá. Þótti þá og þykir enn sem allt of fáir samfélagsþegnar hér í bæ láti til sín taka. Heiti á þig að halda forystu í umræðunni í þessum takti og er tilbúinn að leggja lið ef ég get.
Það er ekki ásættanlegt fyrir okkar samfélag að standa fyrir unglingadrykkju og setja upp viðskiptaumhverfi fyrir dílera landsins - með tilstyrk bæjaryfirvalda. Það er heldur ekki viðunandi að fáeinir viðskiptaaðilar hér í bænum valti yfir alla hina í bænum - og festi í sessi sukkímynd og yfirgangs- og ofbeldiskúltúr.
Má ég þá frekar biðja um viðskiptakonseptið sem leggur út af "slow-movement" - þar sem gæði eru sett á oddinn umfram magn og hraða og sérviska sælkerans og fagurkerans býr til eftirspurn og byggir undir viðskiptalíf. Gæði fremur en magn!
Áfram Svavar
Benedikt Sigurðarson, 23.7.2007 kl. 10:16
Sko ég sé ekki hvernig að bæjaryfirvöld geti verið ábyrg fyrir því hvernig við ölum okkar börn upp. Málið er einfalt, ef að þið viljið ekki að börnin ykkar séu að drekka og dópa passiði þau og þá meina ég talið við þau fáið að vita hvað þau vilja í stað þess að segja þeim hvað þau eiga að gera.
Skúli Þór Sveinsson (IP-tala skráð) 23.7.2007 kl. 11:33
Hjartanlega sammála þér Svavar. Það er eitthvað verulega skakkt við það að kalla þetta fjölskylduhátíð og svo er það aðalatriði að hafa skemmtistaði opna fram á morgun og unglingadansleiki til kl. 3 þrátt fyrir að reynslan hafi verið slæm af þeim undanfarin ár og þeir sem stóðu að þessum dansleikjum hafi viðurkennt það að þeir réðu ekki við ástandið.
Fór með dóttur minni á skemmtidagskrá á síðustu hátíð og við vorum sammála um að við höfðum ekkert þangað að sækja, bærinn fullur af drukknum ungmennum og lítill hátíðarbragur á hátíðinni.
En það virðist ekki vera neinar hömlur á því hvað má gera til að græða peninga, þetta snýst ekki um neitt annað. Um leið og talað er um siðferði, fyrirmyndir, bæjarbrag eða annað þá eru menn úthrópaðir eins og Svavar þekkir.
Held að hér þurfi að stokka spilin upp á nýtt, þess þurfti reyndar fyrir alllöngu síðan.
Ingimar Eydal (IP-tala skráð) 24.7.2007 kl. 08:56
"Money makes the world go around" er held ég það eina sem getur lýst viðhorfum og vörnum aðstandenda hátíðarinnar í þinn garð Svavar. Það get ég sagt þér að meðan ég starfaði sem markaðsmaður fyrir Norðurmjólk tók ég ekki í mál að fyrirtækið styrkti háríðina eins og að henni hefur verið staðið, einfaldlega vegna þess að ég vildi ekki sverta ímynd þess ágæta fyrirtækis. Fyrir þetta fékk ég bágt og þótti "skammsýnn vesalingur" sem ekki vildi henni Akureyri vel. Þetta snýst bara um allt annað eins og þú hefur svo réttilega haldið fram, en oft er snúið í andhverfu sína kæri vin. Þetta snýst um það hvort við ætlum að takast á við þann vanda sem slík hátíð skapar.
Það að hátíðin er haldin innan bæjarmarkanna gerir hana um margt miklu erfiðari, því í raun er ekkert hlið að hátíðinni og í raun ekki nokkur lífsins leið að fylgjast með því sem fram fer því svo margt af því er ekki á vegum þeirra sem hátíðina halda og þá jafnframt ekki á þeirra ábyrgð.
Þegar við vorum að alast upp Svavar þá vorum við örugglega ekkert betri en krakkarnir í dag, við vildum taka þátt í fjörinu, prófa smá áfengi til að hressa uppá sjálfstrausti sem vantaði til að bjóða sætu stelpunni í dans eða smá kelerí. Það sem hefur breyst síðan þá er ekki krakkarnir heldur það sem þeim er boðið uppá, það sem er markaðsett sem nauðsyn þess að fá þetta sjálfstraust. Allur "bolvaður óþverrinn sem ekki rennur af manni" eins og nokkrir saklausir bjórar hefðu gert. Þetta er vandamál Halló Akureyri þar sem hátíðin er, í skjóli skipulagningar, sem er í raun engin skipulagning aðeins úrvinnsla vandamála (lögregla - sjúkrahús) eitt allsherjar markaðstorg vímuefna ..... Ég segi ekki meir en styð þig í baráttunni félagi um leið og ég segi að við eigum að reyna að skapa unglingunum hátíðir / afdrep þar sem þau geta skemmt sé og fengið tækifæri til að yfirstíga "samskiptahöftin" sem allir unglingar standa frammi fyrir á einhverjum tímapunkti.
Bros og kveðja :)
Hólmgeir Karlsson, 25.7.2007 kl. 02:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.