29.2.2008 | 08:34
Gamli fermingarsöngurinn
Nú er að upphefjast gamli söngurinn um að fermingarbörn landsins viti ekkert hvað þau eru að gera þegar þau fermast og að þau séu bara að þessu til að fá dýrar gjafir.
Í fjölmiðlum er kynt undir kötlum markaðshyggjunnar í tengslum við ferminguna en jafnframt alið á samviskubiti og sektarkennd fermingarbarnanna; þau þiggja gjafir sem þau verðskulda ekki.
Framangreint á að sjálfsögðu einungis við um kirkjulega fermingu. Þau börn sem láta ferma sig kirkjulega hafa ekki hugmynd um hvað þau eru að gera. Hin eru meðvituð.
Undanfarin 20 ár eða svo hef ég átt því láni að fagna að taka þátt í fermingarfræðslu og fermingarathöfnum með frábæru ungu fólki.
Þetta unga fólk er eins og æskan á að vera: Það er lífsglatt og hæfilega sannfært um óbærilegan léttleika tilverunnar. Það getur verið mjög áhugasamt um ýmis trúarleg mál og mórölsk fyrirbæri. Það hefur gaman af því að fá góðar og nytsamar gjafir eins og við hin og lítur með tilhlökkun til fermingardagsins og framtíðarinnar.
Mér finnst dýrmætt að vera með þessu unga fólki og fá að taka þátt í að búa til dag sem verður í margra hugum einhver bjartasti dagur æskunnar.
Ég lærði ekki óskaplega margt í minni fermingarfræðslu. Þegar ég lít til baka minnist ég þess helst að séra Birgir blessaður var oft að segja okkur skemmtilegar sögur. Honum sárnaði þegar við slugsuðum á náminu - og honum sárnaði ekki sjaldan. Samt hló hann oftar. Mér fannst ekki gaman í messunum en á góðar minningar um þann samfund við Þjóðkirkjuna sem fermingarveturinn minn var.
Fermingardagurinn var yndislegur, ég fékk græjur frá mömmu og pabba og fyrir fermingarpeningana keypti ég mér m. a. plötu með Uriah Heep.
Og ég er sannfærður um að eitthvað gott úr fræðslunni síðaðist engu að síður inn í minn tornæma haus.
Athugasemdir
Kannanir sem gerðar hafa verið á trúarviðhorfum unglina sýna að eftir fermingu missa þau upp til hópa trúna sem þau segjast hafa haft fyrir hana.
Segir það okkur ekki eitthvað?
Matthías Ásgeirsson, 29.2.2008 kl. 09:00
Nú er það svo að krakkar geta ekki breytt trúfélagsskráningu sinni fyrr en þau eru orðin 16 ára. Fyrst þau hafa vit á því að "gera Jesú að leiðtoga lífs síns", finnst þér ekki að við ættum að lækka þennan aldur niður í 13 ára? Kannski líka sjálfræðisaldurinn?
En það er einfaldlega staðreynd að á þessum tíma eru áhrif hópsins mest.
Árið 2006 ályktaði Landsþing ungs fólks á vegum Samfés (á aldrinum 13-16 ára) að fermingaraldurinn ætti að vera hærri en 14 ára. Fermingarbörin sjálf virðast vera sammála okkur.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 29.2.2008 kl. 15:03
Sæll Svavar,
hvers vegna segirðu að þau börn sem ekki láti ferma sig kirkjulega viti ekkert hvað þau eru að gera?
Kristján Hrannar Pálsson, 29.2.2008 kl. 17:06
ein af þeim ákvörðunum í lífinu sem ég er mjög sáttur við, var að láta ekki ferma mig.
Brjánn Guðjónsson, 29.2.2008 kl. 17:59
Matthías: Þessar kannanir sýna held ég ekkert nýtt. Á þessum aldri endurmetur maður viðhorf sín til tilverunnar. Það að verða fullorðinn er meðal annars fólgið í því að hafa sjálfstæðar skoðanir og þess vegna dregur maður í efa allt sem manni hefur verið kennt. Það getur verið meinholt hvort sem um er að ræða trú eða trúelysi.
Hjalti: Fermingarbörnum er velkomið að ferma sig eftir 14 ára aldur. Langflest kjósa samt að ferma sig fyrr því það er hefðin. Hefðin getur verið býsna lífseig og engin ástæða til að breyta henni einungis breytinganna vegna. Hver aldur hefur sinn sjarma.
Kristján Hrannar: Ég segi hvergi að þau börn sem ekki láta ferma sig kirkjulega viti ekki hvað þau séu að gera. Lestu nú færsluna aftur.
Brjánn: Til hamingju með að hafa tekið ákvörðun sem þú ert sáttur við. Ég er viss um að fleiri 14 ára unglingar en þú geta tekið slíkar ákvarðanir hvort sem þeir ákveða að fermast (kirkjulega/borgaralega) eða fermast ekki.
Snúist þér hugur er ekkert mál að ferma þig - en að sjálfsögðu þarft þú þá að fræðast fyrst um kristna trú.
Svavar Alfreð Jónsson, 29.2.2008 kl. 20:09
Ég held að það sé mikil einföldun að segja að krakkar láti upp til hópa ferma sig bara fyrir gjafirnar.
Það eru nefnilega alls ekki bara markaðsöflin sem þrýsta á krakka að láta ferma sig. Fjölskyldur þrýsta oft mjög á krakka að láta ferma sig og þá ósjaldan ömmurnar sem vilja ekki til þess hugsa að barnabarnið fermist ekki. Bekkurinn hefur líka mikil áhrif því hér er venjan að bekkir fermist saman. Það þarf því að hafa bein í nefinu til þess að vera eini krakkinn í bekknum sem ekki lætur ferma sig.
Svo er kirkjunni mjög í mun að sem flestir fermi sig svo hægt sé að flokka alla sem kristni. Auðvitað eru prestar mismunandi með þetta en mörgum er slétt sama um trú fermingarbarnanna. Ég veit t.d. um prest sem svaraði því þannig að maður gæti bara trúað á sinn eigin hátt þegar fermingarbarn sagði honum að hann tryði ekki í Jesú eða upprisuna. En þetta er líklega bara afleiðing þess að trúin er orðin að aukaatriði þegar kemur að fermingunni.
Ef að kirkjan hefur einhvern vilja til þess að gera ferminguna aftur að trúarathöfn að þá ætti hún ekki að ferma krakka fyrr en eftir 16 ára aldur og þá að algjöru frumkvæði barnsins.
Það kæmi þá þegar það teldi sig hafa þroska til, presturinn tæki það í fermingarkennslu og fermdi svo nokkrum mánuðum seinna.
Annars var mín aðal ástæða fyrir að fermast, þó ég hlægi af því núna, var að ég trúði því í alvöru að þarna væri verið að marka það að ég væri að verða fullorðinn.
Það er hins vegar margt jákvætt við ferminguna. Þarna fá börnin jákvæða athygli, fá sinn dag þar sem öll fjölskyldan fagnar þeim. Einnig er fínt að nota þetta tækifæri til þess að setja meiri ábyrgð á þau, og traust.
Gjafirnar eru líka fínar þó þær geti stundum farið úr hófi.
Það er hins vegar ekkert trúarlegt í þessu finnst mér.
Ef tilgangurinn á að vera að velja trúarlegan leiðtoga lífs manns að þá þarf maður meiri þroska en 14 ára börn hafa í dag.
Ingólfur, 1.3.2008 kl. 00:50
Ég þakka Ingólfi Harra fínar og skilmerkilegar athugasemdir. Geri þessar athugasemdir við þær:
Fermingin hefur held ég ekki mikil áhrif á tölur um kristna og ekki kristna - hún er reyndar kirkjulega ónauðsynleg en að mínu mati gagnlegt tækifæri til að uppfræða ungt fólk um trúna, lífið og tilveruna og styðja það á spennandi aldursskeiði.
Trúin er að sjálfsögðu alls ekkert aukaatriði í fermingunni og ég veit ekki um neinn prest sem heldur því fram við fermingarbörn eða aðra. Trúin á að mínu mati samt alltaf að vera persónuleg.
14 ára börn hafa sér leiðtoga og fyrirmyndir burtséð frá þroska eða þroskaleysi sínu. Í fermingunni fá þau að kynnast góðum leiðtoga og góðri fyrirmynd þótt misjafnlega þróist þau kynni.
Svavar Alfreð Jónsson, 1.3.2008 kl. 10:00
Stutt er síðan biskupinn þinn vísaði til þess hve mörg börn fermast hér á landi til að rökstyðja kristnihald í skólum.
Ég held að fáir haldi því fram að börn fermist einungis vegna gjafanna.
Eins og Svavar tekur fram, þá getur sá sem sleppir því að fermast alltaf gert það síðar. Sá sem fermist getur aldrei tekið það til baka.
Þess vegna ætti að fresta öllu havaríinu til sextán ára aldurs, svo börn séu ekki að fermast á röngum forsendum - eins og svo mörg gera í dag.
Matthías Ásgeirsson, 1.3.2008 kl. 11:21
Þegar aðeins um helmingur landsamanna svarar því til að þeir séu kristnir í trúarkönnun sem Þjóðkirkjan sjálf framkvæmir að þá er gripið til ýmissa ráða t.d. að telja alla þá kristna sem hafa fermst. Þetta hafa prestar, leikmenn og einnig ráðamenn gripið til og telja mig þar með til kristinna.
Í minni fermingu að þá var trúin ekki bara aukaatriði heldur einfaldlega ekki til staðar. Ég leit ekki á þetta sem trúarathöfn og virðurkenndi það fyrir hverjum sem vildi vita að ég væri ekki að ferma mig vegna trú minnar.
En segðu mér Svavar, hvað segir þú við fermingarbarn sem er á báðum áttum um það hvort það eigi að fermast ef það segir þér að það trúi kannski að Jesú jafi verið til en að hann hafi ekki verið sonur Guðs, ekki framið nein kraftaverk og ekki risið upp frá dauðum.
Segirðu honum að hann eigi endilega að láta ferma sig til kristinnar trúar og gera Jesú, sem hann trúir ekki á, að leiðtoga lífs síns? Eða ræður þú honum að bíða og fermast þá seinna ef hann finnur trúnna á Jesú?
Ég veit allavega um einn prest sem valdi fyrri kostinn.
Ingólfur, 1.3.2008 kl. 17:21
Ingólfur Harri: Ég vil ekki segja börnum að þau eigi "endilega" að fermast. Fermingin verður að vera þeirra ákvörðun fyrst og fremst.
Ef til mín kæmi fermingarbarn eins og þú lýsir myndi ég sennilega spjalla við það um hvað það væri að vera "sonur Guðs", um eðli kraftaverka og upprisutrúna.
Síðan yrði barnið að ákveða sjálft hvort það léti ferma sig.
Ég á enga mæla á trúarhita fermingarbarna. Þau geta efast og þau glíma við vantrú í ýmsum myndum - eins og ég - en fermingin getur engu að síður verið mikilvægur þáttur í trúarlegri bíógrafíu þeirra.
Svavar Alfreð Jónsson, 1.3.2008 kl. 17:33
Þú ert væntanlega ekki að meina að Jesú sé sonur guðs vegna þess að við séum öll börn guðs?
Annars viðurkenni ég það að trúr skiptir fjölmörg fermingarbörn miklu máli. En það er samt minnihluti fermingarbarna.
Ingólfur, 1.3.2008 kl. 18:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.