22.6.2008 | 22:05
Hrópin af þökunum
Þökk sé þeim sem prédika á torgunum, flytja ræður í púltunum, hrópa af þökunum og hefja upp slagorðaspjöldin!
Þökk sé þeim skrifa greinar í blöðin, blogga og semja bækur og ljóð!
Þökk sem þeim sem hafa sannfæringu, skoðanir og trú og liggja ekki á því heldur þora að kannast við það og tjá það öðrum!
Þökk sé þeim sem hafa þó þann áhuga á okkur hinum og þá trú á mannkyninu að þeir telja það ómaksins vert að reyna að hafa áhrif á það og leggja sitt af mörkum í þess þágu!
Vörum okkur á ofbeldismönnunum sem vilja þvinga ofan í okkur sína einu réttu skoðun og í öllu sínu öryggisleysi hafa ekki meiri trú á málstað sínum en svo að hann er þeim einskis virði nema þú gerir hann að þínum.
Vörum okkur á úlfunum í sauðagærunum sem koma til okkar smjaðrandi og þykjast ekki vilja sannfæra okkur um nokkurn skapaðan hlut eða hafa nokkur einustu áhrif á okkur og eru samt einkennilega uppteknir við það.
Vörum okkur á þeim sem hafa engan áhuga á okkur, hafa engan áhuga á tilverunni, umhverfinu, menningunni, framvindunni og samfélaginu, þeim sem hafa engan áhuga á neinu nema sér sjálfum og kveikja enga elda nema þeirra eigin kaka sé í ofninum.
Stundum viljum við frið fyrir fólkinu sem hefur eitthvað að segja.
Við viljum fá að vera í friði með okkar skoðanir, okkar trú og okkar sannfæringu.
En hvaðan ætli það allt sé komið?
Ætli það hafi kviknað af sjálfu sér í brjóstum okkar?
Alveg örugglega ekki.
Skoðanir mínar, trú mín, sannfæring mín, allt er þetta meira og minna frá öðrum komið.
(Og nú á að lesa aftur upphaf þessarar færslu.)
Athugasemdir
En hvað ef enginn nennir að leggja eyrun við, nema allt sé klætt í skrúða fyndni, kláms, viðbjóðs o.s.frv. ? Nú hrópa ég og hrópa, en enginn hlustar. Skyldi það þýða að mín sannfæring (sem ég hef lært af öðrum) sé einfaldlega röng og dauðadæmd. Það væri súrt maður og því vil ég ekki trúa um mannréttindin.
Aðalheiður Ámundadóttir, 22.6.2008 kl. 22:18
Haltu áfram að hrópa. Hver pottur finnur sér lok.
Svavar Alfreð Jónsson, 22.6.2008 kl. 22:20
En hvað á ég að gjöra til að öðlast eilíft líf?
Sigurður Þór Guðjónsson, 23.6.2008 kl. 01:23
Þakka þér fyrir Svavar minn. Með beztu kveðju frá Amsterdam.
Bumba, 23.6.2008 kl. 06:07
Sæll Svavar.
þetta er það sem ég segi vera. ORÐ Í TÍMA TÖLUÐ.
ÉG TEL AÐ FÓLK ÆTTI AÐ LESA ÞENNAN PISTIL YFIR
AFTUR OG AFTUR OG SÍÐAN AÐ FARA EFTIR HONUM.
Takk fyrir.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 23.6.2008 kl. 07:08
Mætti kirkjan ekki taka þetta til sín og hugleiða, svona í ljósi alls barnatrúboðsins í skólum? Minn á þessa spurningu hér, sem enginn á Þjóðkirkjuvængnum virðist vilja svara.
Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 23.6.2008 kl. 08:58
Minni enn einu sinni á á að Þjóðkirkjan ber ekki ábyrgð á skólastarfi í landinu en sé hún þar með óleyfilega starfsemi á að sjálfsögðu að snúa sér til hlutaðeigandi yfirvalda.
Ef til vill ætti ég að bæta því við að ég vara við mönnum með þráhyggju.
Svavar Alfreð Jónsson, 23.6.2008 kl. 10:29
Gott að heyra ef ég er farinn að rugla fólk í ríminu. Ég held að það sé gott að gaumgæfa eigin hegðun og gjörðir þótt það geti líka farið út í öfgar.
Svavar Alfreð Jónsson, 23.6.2008 kl. 10:36
Nú kveður þú býsna fast að orði hér (sbr. Vörum okkur á ofbeldismönnunum sem vilja þvinga ofan í okkur sína einu réttu skoðun) og því dettur manni ekki í hug annað en að þú sért að tala um ákveðið fólk eða samtök.
Værirðu nokkuð til í að nefna hvaða hópur það er svona til að fólk búi ekki til rangar tengingar (t.d. gæti ég óvart haldið að þú værir að tala um Siðmennt þegar sannleikurinn væri sá að þér dytti ekki í hug að ganga svo langt að kalla meðlimi þess ofbeldismenn)?
Auðvitað gætirðu verið að tala um þér "harðari"presta en þig og því þyki þér ekki við hæfi að gagnrýna þá nema undir rós. Hvað veit ég.
Með fyrirfram þökk fyrir skýringarnar,
Jón.
Jón Stefánsson, 23.6.2008 kl. 12:51
Jón, þessir ofbeldismenn eru einfaldlega þeir sem vilja þvinga upp á okkur skoðun sinni hvar í flokki sem þeir eru.
Svo er ég alveg glerharður nagli en þakka þér fyrir að óska skýringa áður en þú dregur ályktanir.
Svavar Alfreð Jónsson, 23.6.2008 kl. 12:59
Þannig að þú ert ekki að vísa í neinn ákveðinn einstakling eða hóp? Gott að vita. Ástæða þess að ég spyr er að þessi færsla hljómar nefnilega alveg eins og eitthvað ákveðið tilvik hafi verið dropinn sem fyllti mælinn (sbr. fyrra dæmi: "Þetta Siðmenntarofbeldisfólk! Nú er kominn tími til að vara við þeim!"), frekar en að þetta hafi verið almennar hugleiðingar um fólk sem segir skoðanir sínar.
Þá er það komið á hreint. Almennar hugleiðingar um ofbeldisfólk og aðra sem segja skoðanir sínar.
Jón Stefánsson, 23.6.2008 kl. 13:25
Ágæti Svavar takk fyrir pistilinn ég hef þegar lesið hann oftar en tvisvar.
Okkur er öllum holt að líta okkur nær en standa trúföst á okkar skoðunum.
Getum við ekki lesið úr orðum þínum að þeir taki sem eigi?
Kveðja Ásgerður
egvania, 23.6.2008 kl. 13:38
Er ekki í mesta lagi stigsmunur á því annars vegar að "liggja ekki á því heldur þora að kannast við það og tjá það öðrum!" og hins vegar að "þvinga ofan í okkur sína einu réttu skoðun". Fyrri setningin notar bara fallegri orð.
liggur munurinn ekki bara í því hvort skoðunin samrýmist þinni eigin skoðun?
Er það ekki annars opinbert markmið hinnar boðandi kirkju að gera alla menn að kristnum mönnum?? þetta væri hægt að umorða sem: "þvinga ofan í okkur sína einu réttu skoðun"
Ari Björn Sigurðsson, 23.6.2008 kl. 14:41
Nei, Ari, ég tel miklu meira en stigsmun á því annars vegar að tjá skoðun sína og hins vegar að neyða henni upp á aðra.
Svavar Alfreð Jónsson, 23.6.2008 kl. 15:32
Svavar, það er ekki hægt að neyða skoðunum upp á fullorðið hugsandi fólk. Það notar gagnrýnina hugsun og myndar sér sjálft skoðanir.
Það er hins vegar hægt að neyða skoðunum upp á börn að vissu leyti, þar sem þau hafa ekki enn þann þroska sem þarf til að beita gagnrýninni hugsun. Þau eru gjörn á að trúa því sem fullorðnir segja gagnrýnislaust. Þeir sem sækja í að fá aðgang að börnunum okkar til að innræta þeim skoðanir sínar eru hinir raunverulegu glæpamenn.
Ari Björn Sigurðsson, 23.6.2008 kl. 16:00
Hvernig hafa annars þessir óljósu aðilar sem þú talar um farið að því að neyða skoðanir sínar upp á aðra?
Ari Björn Sigurðsson, 23.6.2008 kl. 16:13
Það verður að vera hægt að tala almennt um málefni án þess að nafngreina sérstaka hópa, hvað þá einstaklinga.
Sigurður Þór Guðjónsson, 23.6.2008 kl. 16:31
Gott og vel, það er meiri en stigsmunur á því að tjá skoðun sína með slagorðaspjöldum og hrópandi ofan af þökum og svo því að neyða henni upp á aðra.
Geturðu nefnt dæmi um slíka hópa hér á landi (sem neyða skoðanir sínar upp á aðra - láta, með öðrum orðum, sér ekki nægja að hrópa af þökum og lyfta slagorðaspjöldum)?
Jón Stefánsson, 23.6.2008 kl. 17:28
Og reyndar er spurningin hans Birgis Baldurssonar um níuleytið í morgun fróðleg og ég gef mér það bessaleyfi að umorða hana.
Hvers vegna er það líkara "hrópi af húsþökum" heldur en því að "neyða skoðun sína upp á aðra" þegar trúlausir foreldrar verða fyrir því að prestar hafa kennt börnum þeirra bænir án þeirra leyfis (sbr. frásögn trúlauss föður á dv.is núna nýlega)?
Jón Stefánsson, 23.6.2008 kl. 17:33
Tja, kannski LÍÚ? Sem kappkosta við að hlaða fjármunum inn í menntastofnannir og senda sína skósveina á svæðið til að messa yfir ungu menntafólki, sem hefur e.t.v. ekki burði né þekkingu til að gagnrýna eða hafa aðra skoðun. Ja hvað veit ég?
Aðalheiður Ámundadóttir, 23.6.2008 kl. 17:34
Ekki er ég nú viss um að dæmið sem þú nefnir, Jón, hafi verið nákvæmlega eins og þú lýsir því.
En skyldu vera dæmi þess - t. d. hér á netinu - að menn láti ekki nægja að tjá skoðanir eða andmæla þeim, heldur kalli þá ónefnum sem eru manni ósammála , dragi í efa að þeir vinni heiðarlega vinnu og ausi yfir þá fúkyrðaflaumi?
Þá er að mínu mati alla vega gerð tilraun til að troða skoðunum upp á aðra með ofbeldi.
Ef þú ert ekki sammála mér mun ég níða niður persónu þína!
Svavar Alfreð Jónsson, 23.6.2008 kl. 17:45
Ég var nú svo barnaleg að ég vogaði mér að skrifa inn á blogg manns sem er að sínu mati trúaður( JG) af því mér fannst svo skrýtið hvað maðurinn var uppfullur af fróðleik um biblíuna þ.e. bókstaflega söguna og alles en mér fannst vanta kærleikann. Skrifaði ég eins og stendur í biblíunni kann það ekki orðrétt en hljómar einhvernvegin þannig : "Þó ég hefði skilning engla og manna en skorti kærleikann þá væri ég ekki neitt. " Ég trúi á Guð og Jesú hef alltaf gert það en ég finn mig hvergi í neinum söfnuði hef reynt alla. En ég á samt mína trú, hún fer ekki frá mér. En mér finnst svo skrýtið allir þessir svokölluðu Guðsmenn hérna á blogginu (ekki þú) þeir eru svo fróðir um sögu biblíunnar að það hálfa væri nóg enda er þá yfirleitt um gamla testamentið að ræða en Guð gerði nýjan sáttmála við okkur, er það ekki?
Sólveig Þóra Jónsdóttir, 23.6.2008 kl. 17:46
Góð aðvörun við aðgerðum presta.
Jóhannes H. Proppé (IP-tala skráð) 23.6.2008 kl. 17:47
Ps. JG fannst það ekki þess virði að svara mér.
Sólveig Þóra Jónsdóttir, 23.6.2008 kl. 18:00
Kæra Sólveig Þóra, það vantar ekki mikið þegar kærleikann skortir, þá vantar allt.
Svavar Alfreð Jónsson, 23.6.2008 kl. 18:06
Ekki er ég nú viss um að dæmið sem þú nefnir, Svavar, hafi verið nákvæmlega eins og þú lýsir því :)
Þetta er vissulega þitt blogg, en þar sem þú hófst umræðurnar þá langar mig að eiga á hættu á að virðast frekur og biðja um örlítið ítarefni: Geturðu nokkuð nefnt dæmi um þetta ofbeldi og svona ofbeldisfólk?
Viljirðu svo gefa mér og öðrum lesendum rúsínu í pylsuendann mættirðu útskýra fyrir mér hvort og þá hvers vegna þessi vart tæmandi listi sé minna dæmi um ofbeldi heldur en þau dæmi sem þú tekur.
Og fyrst ég er byrjaður í auðmjúkum beiðnum get ég ekki sleppt því að biðja um einn rökstuðning til viðbótar svona rétt í blálokin, ég vona að mér fyrirgefist það: Hvort og þá hvers vegna er það minna eða meira ofbeldi að kalla hóp fólks sem vill sjálft sjá um trúaruppeldi barna sinna "hatramman", heldur en þau dæmi sem þú nefnir?
Ég veit að þú ert upptekinn maður, en að svara þessu ætti ekki að taka langan tíma; þrátt fyrir allt er ég nokkuð viss um að þú hafir ekki skrifað þessa færslu út í loftið heldur hafir nokkuð skotheld dæmi við höndina.
Með fyrirfram þökk.
Jón Stefánsson, 23.6.2008 kl. 21:06
Jón, að sjálfsögðu finnst mér að fólki eigi að fá að sjá sjálft um trúarlegt uppeldi barna sinna.
Það breytir því þó ekki að mér finnst ástæða til að vara við þeim sem vilja troða upp á okkur skoðunum sínum með ofbeldi.
Svavar Alfreð Jónsson, 23.6.2008 kl. 22:03
Fyrir mér er tjáningarfrelsið heilagt mál og grundvallarmannréttindi, eins og staðfest er víða í lögum. Þessu frelsi eru þó takmörk sett og eru þau takmörk ekki ósvipuð viðhorfum míns allranáðugasta sóknarprests. Þannig orðast t.d. 18. Alþjóðasamnings um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi:
18. gr. 1. Allir menn skulu frjálsir hugsana sinna, sannfæringar og trúar. Í þessum rétti felst frelsi til þess að hafa eða aðhyllast trú eða skoðun að þeirra vali, og frelsi til þess að láta í ljós trú sína eða játningu, einir sér eða í félagi við aðra, opinberlega eða einslega, með tilbeiðslu, helgihaldi, guðsþjónustu og kennslu.
2. Enginn skal þurfa að sæta þvingun sem mundi hefta frelsi hans til þess að hafa eða aðhyllast trú eða skoðun að hans vali.
3. Frelsi til þess að láta í ljós trú eða skoðun skal einungis háð þeim takmörkunum sem mælt er í lögum og eru nauðsynlegar til þess að vernda öryggi almennings, reglu, heilbrigði eða siðgæði, eða grundvallarréttindi og frelsi annarra.
Bestu kveðjur
Aðalheiður Ámundadóttir, 23.6.2008 kl. 22:14
Ég hafði nú vonast eftir bitameira svari, en gott og vel. Á milli línanna má lesa marga hluti.
Það er gott skref að fá viðurkenningu á því að foreldrar eigi að ráða trúarlegu uppeldi barna sinna. Að taka þann rétt af foreldrum hlýtur því að vera gróft ofbeldi - að minnsta kosti jafn gróft og að tala illa um vinnu fólks og ausa yfir það fúkyrðaflaumi í netheimum.
Það er varla langt seilst að segja þig sammála mér um ofbeldið sem biskup beitti Siðmennt á sínum tíma með ítrekuðu tali um hatrammt fólk og um það ofbeldi sem sumir prestar í krafti stöðu sinnar hjá Þjóðkirkjunni beita foreldra með mismikilli sviptingu foreldraréttar varðandi trúarlegt uppeldi barna sinna.
Þetta þykir mér gott að vita Svavar, enda hef ég oft séð þig að störfum og einatt líkað vel. Takk fyrir svörin.
Jón Stefánsson, 24.6.2008 kl. 00:14
Þeir sem sigta athugasemdir inn á bloggsíður eru að mínu mati að brjóta gegn þessari 18. gr. nefnds alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.
Theódór Norðkvist, 24.6.2008 kl. 00:41
Afsakið mig, ég setti inn rangt ákvæði, en ég ætlaði að vekja athygli á tjáningarfrelsinu enn ekki trúfrelsinu. En hvað um það, það er svosem í lagi að hafa bæði ákvæðin inni í þessari umræðu.
Hér kemur sumsé tjáningarfrelsið, hið fyrra var trúfrelsið
19. gr. 1. Allir skulu eiga rétt á að ráða skoðunum sínum afskiptalaust.
2. Allir skulu eiga rétt til að láta í ljós skoðanir sínar; í þessum rétti felst frelsi til þess að leita, taka við og miðla alls konar vitneskju og hugmyndum án tillits til landamæra, annaðhvort munnlega, skriflega eða á prenti, í formi lista, eða eftir hverjum öðrum leiðum að þeirra vali.
3. Sérstakar skyldur og ábyrgð felast í því að nota sér réttindi þau sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar. Því má takmarka þessi réttindi að vissu marki, en þó aðeins að því marki sem mælt er í lögum og er nauðsynlegt:
(a) til þess að virða réttindi eða mannorð annarra;
(b) til þess að vernda þjóðaröryggi eða allsherjarreglu (ordre public), eða heilbrigði almennings eða siðgæði.
Bestu kveðjur
Aðalheiður Ámundadóttir, 24.6.2008 kl. 01:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.