Frelsi fjölmiðla

Bonbons_400[1]Í hádeginu á miðvikudögum skýst ég stundum upp í háskóla og hlusta á eitt stykki fyrirlestur.

Dr. Markus Meckl stóð í púltinu í dag og talaði um skopmyndirnar frægu af Múhameð spámanni sem birtust í Jótlandspóstinum.

Dr. Meckl hefur undanfarin fjögur ár kennt nútímafræði og fjölmiðlafræði við HA. Doktorsritgerð hans fjallaði um helförina.

Fyrirlesturinn nefndi hann "The Mohammad cartoons in Jyllands-Posten and the freedom of the press".

Dr. Meckl benti á að samkvæmt vestrænni hefð hefur frelsi fjölmiðla aldrei verið markmið í sér sjálfu. Það á sér æðri tilgang.

Mörk frelsisins ákvarðast af þeim tilgangi sem það hefur.

Tilgangslaust frelsi, frelsi sem engu er bundið og beinist ekki að neinu, er innantómt.

Dr. Meckl velti fyrir sér hvaða tilgangi birting skopmyndanna þjónaði.

Voru þær ekki til þess eins að ögra og storka?

Ef til vill höfðu þær líka þann tilgang að útmála illsku óvinarins - en Danir voru jú þátttakendur í Íraksstríðinu.

Og því er ekki að neita að þær seldu ágætlega.

Dr. Meckl var langt frá því sannfærður um að þetta mál hefði nokkuð með vestræn gildi að gera. Hvað þá að birting myndanna hafi verið innlegg í baráttu gegn einhvers konar "and-upplýsingu" sem sumir íslenskir gáfumenn hafa verið uppteknir af.

Ég hef aldrei botnað í þeirri hysteríu að vondir arabar og bandarískir fúndamentalistar séu að eyðileggja fyrir okkur upplýsinguna.

Dr. Meckl sagði mikilvægt að við ræddum meira um í hvernig þjóðfélagi við vildum búa.

Frelsi fjölmiðlanna ætti að nota til þess að skapa slíkt þjóðfélag og hlúa að því.

Skopmyndin með færslunni er úr smiðju nasista.

Gyðingurinn á henni segir:

"Hier, Kleiner, hast du etwas ganz Suesses. Aber dafuer musst ihr beide mit mir gehen..."

(Hérna er soldið dísætt handa þér, litli minn. Í staðinn verðið þið bæði að koma með mér...)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

http://www.youtube.com/watch?v=JIq7tsVvEoY

Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 22:56

2 identicon

>Mörk frelsisins ákvarðast af þeim tilgangi sem það hefur. 

Getur þú útskýrt nánar?

>Tilgangslaust frelsi, frelsi sem engu er bundið og beinist ekki að neinu, er innantómt.

Þessu er ég ósammála.   Frelsi getur ekki verið tilgangslaust.  það hefur í eðli sínu tilgang.  Setningin er því þversögn í sjálfu sér. 

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 07:53

3 identicon

Skrítið hvað þið trúmennirnir hafið mikin áhuga á að hefta frelsið okkar.
Hugsanlega teygir þessi hugmynd ykkar sig aftur til þess tíma þegar almenningur mátti ekki lesa biblíu.

DoctorE (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 08:43

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Hver er tilgangurinn sem frelsið hefur í eðli sínu, Teitur?

Svavar Alfreð Jónsson, 11.9.2008 kl. 08:49

5 identicon

Ef þér finnst rétt að hefta mitt tjáningarfrelsi Svavar, þá vilt þú ekki frelsi... þá ertu faktíkst kominn í sama "frjálsa" vilja og guð er með... Þið megið gera hvað sem er EN þið verðið pyntuð ef þið gerið ekki eins og ég segi.

DoctorE (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 09:10

6 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er misskilningur að tjáningarfrelsið eigi sér æðri tilgang, nema ef vera skyldi að það telst til mannréttinda, og mannréttindi eru byggð á hugmyndinni um göfgi mannsins. Þess vegna liggur við að segja megi að tjáningarfrelsið hafi gildi í sjálfu sér. Það eina sem gæti sett því takmörk eru áþreifanlegar afleiðingar þess, eins og til dæmis að það sé notað til að meiða annað fólk, eða hvetja fólk til voðaverka. Samanber manninn sem æpir eldur eldur í troðfullu samkomuhúsi. Hans tjáningarfrelsi er réttmætt að hefta. Ég held reyndar að þessar skopmyndir af Múhameð hafi verið til þess gerðar að egna öfgafulla múslíma til voðaverka, einmitt í þeirri von að óorð félli almennt á múslíma, svona eins og þegar Hitler lét brenna þinghúsið og skellti skuldinni á alla gyðinga. Að skopteikningabirtingin hafi verið gerð til að "standa fast á prinsippi" eru bara stælar. Undarlegt að frjálslyndir fjölmiðlamenn skuli hafa látið nota sig svona til að ýta undir fordóma gagnvart íslam.

Kristján G. Arngrímsson, 11.9.2008 kl. 13:08

7 identicon

Ekki fannst þér frelsið leiðinlegt hér um árið, Svavar Alfreð, þegar þú birtist í sjónvarpsfréttum á stöð 2 þar sem gefið var í skyn að DoktorE hafi kallað þig barnaníðing á netinu, og sú lygi notuð til að gera blogg undir dulnefnum tortryggileg!

Er þetta einkaskoðun þín, að gera frelsi mannanna tortryggilegt, eða er þetta stefna þjóðkirkjunnar? 

magus (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 18:01

8 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég held að við séum að tala í kross, Kristján. Frelsi er alltaf til einhvers og frelsi sem ekki er til einhvers, er ekki til neins.

Tjáningarfrelsið er frelsi til tjáningar. Frelsið er rammað inn af því.  Í öllum þjóðfélögum lýtur tjáning ákveðnum reglum, skráðum og óskráðum. Tjáningarfrelsið gefur mönnum ekki heimild til að segja hvað sem er, hvenær sem og og hvar sem er.

Frelsi til fjölmiðlunar er enn önnur tegund frelsis. Það frelsi markast af því umhverfi sem fjölmiðlum er búið og þeim vinnureglum sem fjölmiðlar setja sér.

Ég held þannig að tjáningarfrelsið hafi æðri tilgang. Það sé hluti af mennskunni að mega tjá sig. Það er þó held ég efni í aðra umræðu.

Magus: Það er alltaf tortryggilegt þegar menn gera fólki upp skoðanir og orð. Ekki síst þegar þeir gera það undir dulnefni. Nefnt viðtal við mig má heyra hér. Dæmi hver fyrir sig. Svo skulum við halda okkur við efnið.

Svavar Alfreð Jónsson, 11.9.2008 kl. 18:29

9 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Einu "þannig" er ofaukið hér að ofan og gerir setninguna illskiljanlega. Hún á að hljóða:

Ég held að tjáningarfrelsið hafi æðri tilgang.

Svavar Alfreð Jónsson, 11.9.2008 kl. 18:34

10 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

100% sammála orðum Kristjáns G. Arngrímssonar.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.9.2008 kl. 19:30

11 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sælir

Margir þekkja ekki tilurð Múhameð teikninga Jótlands-póstsins. Tilurð þeirra var svona: á ritstjórn blaðsins hafði um tíma farið fram langar umræður um sjálfsritskoðun fjölmiðla, listamanna, rithöfunda, stjórnmálamanna og almennings hvað varðar trúmál Islam og að málefni þessarar trúar væru orðin hafin yfir þá almennu umræðu og gagnrýni á að geta farið fram í frjálsum lýðræðisþjóðfélögum. Það voru skipar skoðanir í ritstjórninni um hvort þetta væri raunverulegt eða ímyndað vandamál, þ.e. þessi sjálfsritskoðun. Þá kom upp sú spontant hugmynd að sannprófa málið. Teikningar og greinar voru gerðar í hvelli, og svo var ýtt á PRINT hnappinn. Þegar blaðið kom út rann sannleiksgildið upp og það kviknaði í heiminum. Sannleiksgildi áhyggjumanna varð með öllu sannað, og gott betur en svo. Jyllands Posten hafði ekki í sínum villtustu fantasíum ímyndað sér hversu rétt sumir í ritstjórn blaðsins höfðu haft fyrir sér. Þeir urðu hreinlega agndofa - og óttaslegnir. Þeir höfðu enga hugmynd um afleiðingarnar, sem voru hreint skelfilegar

Hug-myndir Dr. Meckl eru rangar og einmitt afleiður þess versta sem áhyggjumenn á ritstjórn Jótlands Pósturinn óttuðust.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 11.9.2008 kl. 21:14

12 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sælir aftur.

Það er í raun skrýtið að það sér verið að ræða frelsi fjölmiðla á þeim nótum sem hér er gert. Flest blöð og rit hafa ritstjórnir. Þessar ritstjórnir fara yfirleitt eftir lögum landsins því annars er þeim stefnt fyrir dómstóla alveg eins og gert var við ritstjórn Jyllands Postens. Lög landsins eru sett af ríkisstjórn og lögþingi okkar og á sjálfu lögþingi okkar. Lögþingið er kosið af fólkinu. Þessvegna höfum við þau lög sem við höfum og á þann hátt sem við höfum þau. Svona er þetta. Þangað til Múslímar eða aðrar trúar- eða jafnvel vantrúarstefnur verða komnar í meirihluta á löggjafarþingum okkar þá munu lögin verða samin og framkvæmd samkvæmt hefðum okkar og í anda hefða okkar. Hefðir og andi laga okkar byggja að miklu leyti á kristinni trú, og meira en flesta grunar. Þau byggja á grunni og arfleið hennar um að einstaklingurinn sé einstakur og frjáls. Þangað til að þessi meirihluti á löggjafarþingi okkar raskast verða menn að finna síg í því erfiða hlutskipti að fara eftir lögum landsins. Án laga og virks lýðræðis mun ríkja öngþveiti. Þetta er dýrmætt og alls ekki sjálfgefið. En sem sagt, - þangað til, og ekki fyrr.

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 11.9.2008 kl. 21:58

13 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þakka þér þetta, Gunnar. Erindi Meckls er komið á netið. Hér er það. Ég hvet fólk til að lesa það.

Svavar Alfreð Jónsson, 11.9.2008 kl. 23:08

14 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Fyrirgefið, gleymdi vísuninni. Hér er erindið.

Svavar Alfreð Jónsson, 11.9.2008 kl. 23:09

15 identicon

Það er nú reyndar alrangt að frelsi sé alltaf til einhvers (óháð því hvaða stönsu ég hafi til umræðunnar að öðru leyti). Mér var á sínum tíma kennt að það væru tvær leiðir til að skilgreina frelsi:

  1. Frelsi til einhvers
  2. Frelsi frá einhverju
Þetta er tvennt ólíkt. Og mér hefur alltaf þótt það síðara mun sterkari hornsteinn vestræns lýðræðis en það fyrra.

Hjörvar Pétursson (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 14:39

16 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Væntanlega er frelsi frá einhverju til einhvers, er það ekki?

Svavar Alfreð Jónsson, 12.9.2008 kl. 15:28

17 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Hafði ekki tíma til að klára síðustu athugasemd, Hjörvar. Ég þekki þessa tvískiptingu og finnst hún ekki gagnleg í þessu samhengi.

Frelsi er líka til sem ástand mannsins, hinn frjálsi vilji hans og svo framvegis.

Punkturinn er samt að það segir ósköp lítið um mann ef látið er nægja að segja að hann sé frjáls. Til hvers er hann frjáls - eða frá hverju?

Svavar Alfreð Jónsson, 12.9.2008 kl. 18:35

18 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Nei það kemur víst út á eitt hvort maður segir tjáningarfrelsi vera frelsi til að tjá sig eða frelsi frá höftum á tjáningu. Sitthvor hliðin á sama peningi, eins og sagt er.

Við erum sammála um það Svavar, sýnist mér, að frelsið sé hluti af því sem gerir mann að manni - og þess vegna finnst mér ekki rétt að tala um að frelsið eigi sér æðri tilgang.

Allt um það. Það var athyglisvert hvernig blöð vestanhafs tóku á skopmyndamálinu. Þau birtu myndirnar ekki. Kannski sjálfsritskoðun, en þó held ég fyrst og fremst pragmatísk afstaða: Birting myndanna þjónaði engum tilgangi.

Sennilega eru blaðamenn í Bandaríkjunum og Kanada svo öruggir með sitt tjáningarfrelsi að þeir þurfa ekki að sýna það og sanna.

Kristján G. Arngrímsson, 13.9.2008 kl. 18:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband