Færsluflokkur: Bloggar
27.10.2016 | 21:57
Lýðræði og heiðarleiki?
Færsla mín í fyrradag þar sem ég birti svar Evrópusambandsins við spurningu minni um aðildarferlið vakti töluverða athygli. Margir lásu hana og höfðu sumir ýmislegt við hana að athuga. Ég þakka viðbrögðin og áhugann.
Nú langar mig að hugleiða svarið.
Í umræðunni hér á landi hef ég stundum undrast hvað margir af stuðningsmönnum aðildar að ESB kunna illa að meta skýringar ESB á aðildarferlinu, draga í efa að þær séu réttar og telja sig jafnvel vita betur en sambandið hvernig gerast eigi aðili að því.
Eitt af því sem einkennt hefur umræðuna fyrir komandi kosningar er spurningin um trúverðugleika stjórnmálamanna. Sú umræða var þörf og ekki tilefnislaus.
Sumir íslenskir stjórnmálamenn hafa gefið í skyn, að með því að sækja um aðild að ESB sé einungis verið að kanna hvað sé þar í boði fyrir Ísland. Einarðlega hefur því hefur verið haldið fram, að þjóðin geti ómögulega tekið afstöðu til aðildar nema fyrir liggi aðildarsamningur.
Ég set tvö stór spurningamerki við þær fullyrðingar.
Í fyrsta lagi starfa hér bæði stjórnmálaflokkar og samtök, sem vilja að Ísland gerist aðili að ESB. Þeim hefur einhvern veginn tekist að mynda sér skoðun á aðild án þess að samningur um aðild hafi verið gerður.
Af hverju ættu aðrir ekki að geta það líka?
Í öðru lagi snúast aðildarviðræður við ESB ekki um að skoða hvað sé í boði eins og fram kemur í svarinu frá sambandinu sem ég birti í gær. Aðildarviðræður við ESB felast í því að komast að samkomulagi um hvernig og hvenær umsóknarríkið lögleiði og hrindi í framkvæmd lagabálki ESB. Í svarinu er skýrt kveðið á um að sá lagabálkur sé sem slíkur óumsemjanlegur.
Ég leyfi mér að efast um að heiðarlegt sé af íslenskum stjórnmálamönnum að segja að með því að sækja um aðild að ESB sé einungis verið að skoða í pakkann, svo notaður sé gamall frasi. Fyrir liggur hvað í þeim pakka er að finna; allan lagabálk Evrópusambandsins, heilar 100.000 síður, sem sambandið sjálft hefur margítrekað að sé ekki hægt að semja um.
Hinar svonefndu samningaviðræður um aðild að ESB sem sambandið hefur bent á að geti verið villandi heiti á aðildarferlinu eru ekki könnunarviðræður. ESB lítur þannig á að ríki sem sækir um aðild að ESB vilji ganga í sambandið. Viðræðurnar hafa þess vegna aðild að sameiginlegu markmiði.
Framgangur og lyktir aðildarviðræðnanna velta á því hversu vel umsóknarríkinu gengur að taka upp hinn óumsemjanlega lagabálk ESB og laga stjórnkerfi sitt að kröfum sambandsins. Þess vegna er ekki út í hött að tala um aðildarferlið sem aðlögun. Þótt það sé hálfgert bannorð í vissum kreðsum á Íslandi reynir Evrópusambandið ekki að fela þann hluta ferlisins. Sambandið býður meira að segja umsóknarríkjum aðstoð við aðlögunina og það mikilvæga verkefni að glæða skilning almennings á henni.
Takist að selja landsmönnum þá hugmynd, að aðildarviðræður við ESB séu einungis skoðunarferð gæti farið svo, að Ísland hefji á ný aðildarferli að sambandi sem meirihluti þjóðarinnar vill ekki ganga í, undir því yfirskyni að verið sé að semja um það sem er óumsemjanlegt.
Það hlýtur að vera hvort tveggja lýðræðislegt og heiðarlegt, er það ekki?
Myndin er af haustsól í Ólafsfirði
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.10.2016 | 23:28
Samningar eða aðlögun? Svar ESB
Þó að skoðanakannanir síðustu ára sýni að töluverður meirihluti þjóðarinnar sé andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu vilja margir engu að síður halda áfram aðildarviðræðum eða efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald þeirra. Í atkvæðagreiðslunni eigi ekki að spyrja hvort fólk sé hlynnt aðild heldur hvort það sé fylgjandi aðildarviðræðum. Rökin fyrir því orðalagi eru þau, að ekki sé unnt að taka afstöðu til aðildar nema fyrir liggi aðildarsamningur þar sem fólk geti séð hvað ESB hafi að bjóða Íslendingum og hversu mikið tillit sambandið sé tilbúið að taka til sérstöðu Íslands.
Þeir sem halda fram þessari leið - sem stundum hefur verið líkt við að skoða í pakkann - telja að umsókn um aðild sé í raun án skuldbindinga: Í aðildarviðræðum kanni umsóknarríkið einungis hvað því standi til boða og hvort unnt sé að komast hjá því að taka upp þá hluta af reglusafni ESB sem taldir eru síður hagstæðir eða jafnvel óaðgengilegir. Í aðildarsamningi komi í ljós það sem í boði er og þjóðin fái síðan að hafna honum eða samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna sé ekkert óeðlilegt við að sækja um aðild að Evrópusambandinu enda þótt meirihluti þjóðarinnar vilji ekki slíka aðild. Með aðildarumsókn sé einungis verið að skoða kostina og gallana við inngöngu í sambandið.
Þessu halda sumir íslenskir stjórnmálaflokkar fram nú fyrir kosningarnar.
Aðrir hafa bent á að ríki sæki ekki um aðild nema það vilji ganga í Evrópusambandið og sé tilbúið að hlíta þeim skilyrðum, sem Evrópusambandið setur aðildarferlinu.
Til að fá úr þessu mikilvæga máli skorið sendi ég fyrirspurn til upplýsingaveitu Evrópusambandsins, Europe Direct. Venjulega tekur ekki nema þrjá virka daga að fá svör við spurningum þaðan. Evrópusambandið gaf sér góðan tíma til að svara mér. Svarið fékk ég í dag, eftir tíu daga bið. Mér finnst það bæði skýrt og skilmerkilegt og er ég sambandinu mjög þakklátur fyrir það.
Ég birti svarið hér og feitletra það sem ég tel mikilvægast:
Article 49 of the Treaty on European Union states that any European country may apply for membership if it respects the democratic values of the EU and is committed to promoting them. When a country applies to join the EU, the Member States governments, represented in the Council, first decide whether or not to accept the application. The Member States then decide, on the basis of an opinion from the European Commission, whether to grant candidate status to the applicant as well as to open accession negotiations. Then the Member States decide if, when and on what terms to open and to close negotiations with the candidate on each policy area, in the light of recommendations from the Commission.
The EU rules as such (also known as the acquis) are not negotiable; they must be transposed and implemented by the candidate. Accession negotiations are essentially a matter of agreeing on how and when the candidate will adopt and effectively implement all the EU rules and procedures. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidates adoption, implementation and application of the existing EU laws and rules.
Please note the EU operates comprehensive approval procedures that ensure new members are admitted only when they can demonstrate they will be able to play their part fully as members, namely by: complying with all the EU's standards and rules, having the consent of the EU institutions and EU member states and having the consent of their citizens as expressed through approval in their national parliament or by referendum.
Bloggar | Breytt 26.10.2016 kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
24.10.2016 | 22:13
Ótrúleg undrun
Bókin sem ég er á náttborðinu mínu núna er ein sú fallegasta sem ég hef lesið. Hún er eftir þýska rithöfundinn Navid Kermani. Hann er fæddur í Þýskalandi, sonur íranskra innflytjenda. Kermani er múslimi en í nýjustu bók sinni fjallar hann um kristna trú með því að skoða hinn ríka myndlistararf kristninnar.
Bókin hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda og fékk í fyrra friðarverðlaun þýska bóksalasambandsins. Einn gagnrýnenda orðaði það þannig að Kermani hefði með bókinni kynnt kristindóminn fyrir Þjóðverjum á nýjan leik, trúarbrögð, sem væru orðin stórum hluta þjóðarinnar framandi, enda búið að hola trúarlega merkingu innan úr helstu lykilhugtökum þeirra, þótt orðin væru notuð í daglegu lífi sneydd innihaldi sínu. Í bók sinni gæðir Kermani þau hugtök merkingu og lífi á ný.
Það er ótrúlega gefandi að mega skoða trú sína með glöggum augum gestsins. Kermani fer ekki venjulegar leiðir og stundum óvæntar en fjallar af mikilli væntumþykju um viðfangsefni sitt. Þótt hann játi ekki kristna trú leyfði hann sér að dást það mikið að henni að hann valdi bókinni heitið Ungläubliches Staunen (Ótrúleg undrun).
Í samfélagi fjölmenningar dafna ólíkir menningar- og trúarhópar. Þar gefum við og þiggjum. Þessi bók er ein blessun fjölmenningarinnar.
Skömmu eftir komu flóttamannanna frá Sýrlandi hingað til Akureyrar kom Akureyrarkirkja þeim skilaboðum til þeirra, að ef þörf væri á aðstöðu til helgihalds eða samkoma, stæði þeim Safnaðarheimili kirkjunnar til boða. Tilboðið var þegið og um tíma komu nokkrir Sýrlendingar þar saman til föstudagsbæna. Í Sýrlandi er löng hefð fyrir friðsamlegri sambúð kristinna manna og múslima. Í spjalli við Sýrlendingana kom fram hugmynd um að segja frá þessu samstarfi trúarhópanna. Það gæti verið gott innlegg í umræðuna hér á landi. Var haft samband við Ríkisútvarpið en það sá ekki ástæðu til að fjalla um þetta framtak.
Ef til vill telst það frekar fréttnæmt ef óhróður um trúarbrögð er krotaður á vegg eða veist er að innflytjendum eða flóttafólki. Dæmin um friðsamleg samskipti fólks með ólíkan trúarlegan bakgrunn eru þó mýmörg. Í gegnum aldirnar hefur slíkt fólk búið í sömu löndunum og borgunum, virt siði hvert annars og hjálpast að í erfiðum aðstæðum.
Við Íslendingar höfum ekki langa reynslu af sambúð ólíkra menningarhópa en gætum í þeim efnum lært af öðrum, til dæmis Sýrlendingum. Það er ein ástæða þess, að við njótum góðs af því að þeir setjast hér að hvort sem það er til styttri eða lengri tíma.
Gjarnan má minna á að Sýrlendingar hafa ekki látið sitt eftir liggja í því að taka á móti flóttafólki. Fáar þjóðir á okkar tímum hafa staðið sig betur í móttöku flóttamanna frá stríðshrjáðum nágrannalöndum. Þá skutu Sýrlendingar skjólshúsi yfir eina og hálfa milljón fólks sem flúði Íraksstríðið, hálfa milljón Palestínumanna og tvöhundruð þúsund Líbani. Kristnar kirkjur og hjálparstofnanir múslima unnu saman að því að sýna gestrisni og líkna þeim sem í neyð voru.
Myndina tók ég nú um helgina af fossi í Finnastaðaá. Hann fellur í gegnum steinhjarta. Í bakgrunni er Kerling, hæsta fjall Norðurlands.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2016 | 23:34
Mannkynið verður trúaðra
Oft er því haldið fram að með aukinni upplýsingu, hagsæld og stöðugum framförum í vísindum minnki vægi trúarbragða. Margir spá því að hnattvæðingin ásamt meira frelsi til hugsana og skoðana útrými trúarbrögðum. Sú skoðun virðist útbreidd að þau séu við það að hverfa.
Kommúnistar, fasistar og postmódernískir guðleysingjar hafa keppst við að boða aðsteðjandi dauða skipulegs kristindóms og hafa tekið undir fræg orð þýska heimspekingsins Friedrich Nietzsche um að Guð sé dauður.
Enginn dregur í efa að mikil umbrot eru í hinum trúarlega heimi. Ekki leikur heldur vafi á að í mörgum löndum eiga trúarbrögðin undir högg að sækja. Þar fjölgar stöðugt fólki sem kýs að standa utan allra trúfélaga. Hæpið er að tala um mörg vestræn lönd sem kristin lengur. Trúarlegu læsi í þeim heimshluta hrakar með hverju árinu.
Enn játa þó þrír af hverjum fjórum jarðarbúum einhverja trú. Samkvæmt nýrri rannsókn bandarísku Pew Research hugveitunnar mun það hlutfall vaxa næstu áratugina. Árið 2050 munu 80% mannkyns tilheyra einhverjum trúarbrögðum. Múslimar verða þá næstum jafnmargir og kristnir. Búddistum verða jafnmargir og nú en bæði hindúum og gyðingum mun fjölga. Guðleysingjum og þeim sem telja sig ekki eiga samleið með neinum trúarbrögðum mun fjölga í mörgum löndum, þar á meðal Bandaríkjunum, en á heimsvísu fer þeim hlutfallslega fækkandi.
Timothy Samuel Shah og Monica Duffy Toft, virtir bandarískir fræðimenn á sviði félagsvísinda og alþjóðastjórnmála, benda á að sennilega hafi aldrei í sögu mannkyns verið meira frelsi, virkara lýðræði eða almennari menntun í heiminum en á okkar tímum. Bandaríska rannsóknarstofnunin Freedom House telur að á árunum 1975 til 2005 hafi frjálsum ríkjum heimsins fjölgað úr 93 í 147. Samkvæmt tölum frá UNESCO fjölgaði læsu fólki í stórum hluta svokallaðra þróunarlanda um helming á árunum 1970 til 2000. Alþjóðabankinn hefur sýnt fram á að á tólf ára tímabili, frá 1990 til 2002, hafi hlutfall íbúa í sömu löndum sem þarf að draga fram lífið á minna en einum bandaríkjadal lækkað úr 28% í 22%.
Margir gætu dregið þá ályktun að því ríkara sem fólk verði, menntaðra og njóti meira lýðréttinda, verði það jafnframt afhelgaðra. Það er ekki rétt, segja fræðimennirnir í merkilegri grein sem ber yfirskriftina Why God is Winning. Síðustu áratugir hafa þvert á móti virkað eins og vítamínssprauta á trúarbrögðin. Stærstu trúarbrögð heimsins hafi vaxið hraðar en íbúafjöldi jarðar.
Svo sannarlega er hið trúarlega landslag að breytast en það virðist vera ein útbreiddasta mýta nútímans, að trúarbrögðin séu á undanhaldi. Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar:
"The belief that outbreaks of politicized religion are temporary detours on the road to secularization was plausible in 1976, 1986, or even 1996. Today, the argument is untenable. As a framework for explaining and predicting the course of global politics, secularism is increasingly unsound. God is winning in global politics. And modernization, democratization, and globalization have only made him stronger."
Myndin: Þegar ég kom út úr fiskbúðinni um daginn hafði þessi fagri regnbogi tyllt sér á Vaðlaheiðina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.9.2016 | 12:12
Staðreyndavaktin
Nýverið kynnti íslenskur vefmiðill þau áform sín að koma á fót svokallaðri Staðreyndavakt. Með þeirri vöktun á að sannreyna fullyrðingar stjórnmálamanna eins og það er orðað. Starfsmenn vaktarinnar munu síðan raða rannsökuðum fullyrðingum í flokka eftir sannleiksgildi þeirra sem samkvæmt því kerfi geta verið dagsannar, haugalygi eða einhvers staðar þar á milli.
Samkvæmt kynningu vefmiðilsins nýtur Staðreyndavaktin fulltingis Háskóla Íslands.
Ef til vill væri auðveldara að lifa ef þessi háttur væri tekinn upp á fleiri sviðum en stjórnmálum og við hefðum útlærða sérfræðinga í staðreyndum og sannleika til að finna út fyrir okkur hvað sé satt og logið.
Lengi hefur háð mannkyni að það greinir á um hvar skilji á milli staðreynda og uppspuna. Við hlustum á stjórnmálamenn eða lesum bækur og blöð og hver skilur með sínum hætti það sem sagt er eða skrifað. Ástæðulaust er að láta það líðast lengur.
Sú forna speki að sannleikurinn sé andlegs eðlis virðist úrelt þótt þar sé að finna eina undirstöðu menningar okkar. Þar hafa menn haldið því fram að sannleikann sé ekki síður að finna fyrir innan augun eða á milli eyrnanna en í því sem á sjónhimnunni dynir eða í hlustunum glymur. Það felur í sér, að ekki einungis skynjun okkar framreiði sannleikann. Við túlkum það sem við sjáum og setjum í samhengi það sem við heyrum áður en við fellum dóma um hvað sé satt eða logið. Við metum það sem fyrir augu ber og eyrun nema. Stundum er það kallað að hugsa. Sú iðja kostar bæði tíma og fyrirhöfn og þess vegna getur verið kærkomið að ráða sérfræðinga sem spara manni slíkt.
Gjarnan verða menn fangar eigin hugsana og fordóma og finnst það aðeins geta verið satt sem þeir vilja að sé satt. Þess vegna er svo gott að geta skoðað það sem öðrum finnst satt og bera það saman við sinn eigin sannleika.
Fagmennska í fjölmiðlum á að tryggja vandaða og sanngjarna umfjöllun. Fréttir þeirra, umfjöllun og myndefni er þó aldrei veruleikinn allur heldur ákveðið sjónarhorn til hans.
Fjölmiðlar hafa ekki síður það hlutverk að tryggja okkur aðgang að mismundandi skoðunum á því sem gerist og hjálpa okkur að taka afstöðu til þess. Þeir eiga að sýna okkur hinar fjölbreytilegu upplifanir manna af því hvernig sannleikurinn sé.
Okkar er að draga ályktanir af því sem við vitum og tengja það okkar eigin upplifunum og lífi. Enginn á að taka frá okkur það ómak að mynda okkur skoðanir og taka afstöðu. Þess vegna er sannleikurinn aldrei bara eitthvað þarna úti, eitthvað sem sérfræðingarnir finna fyrir okkur og okkar er að meðtaka og kyngja. Sannleikurinn verður til inni í okkur, meðal annars þegar við leitum hans í umræðu og samræðu við aðrar manneskjur.
Því hefur verið haldið fram að íslensk umræðuhefð einkennist af átakasækni og þar séu menn fljótir að svippa sér ofan í gömlu skotgrafirnar. Ný tækni til samskipta sem hefur haft í sér stóraukna möguleika okkar til að skiptast á skoðunum við annað fólk virðist ekki bæta það ástand og jafnvel gera illt verra.
Annars vegar leyfir fólk sér grófara orðbragð á þessum nýju miðlum en ef það stæði augliti til auglitis til viðmælendur sína. Það fælir marga frá því að taka þátt í umræðunni.
Hins vegar benda rannsóknir til þess að á þessum samskiptamiðlum hópist saman fólk með líkar skoðanir. Það er bagalegt því fátt er gagnlegra í leitinni að sannleikanum en að skoða hann ekki einungis með eigin augum heldur líka annarra og heyra ekki bara álit jábræðra og hallelújasystra.
Myndina tók ég eitt síðsumarkvöld nýlega af Goðafossi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2016 | 10:14
Þökk gegn græðgi
Í mörgum af elstu sögnum sem til eru um uppruna heimsins er græðgin talin eiga sinn þátt í að koma af stað þeim vandræðum mannkyns, sem fylgt hafa því frá upphafi; Pandóra opnaði öskjuna sem var full af plágum og böli vegna þess að hún var forvitin, gráðug í að sjá innihaldið og Adam og Eva gátu ekki stillt sig um að fá sér ávöxt af þessu eina tré í aldingarðinum sem þau máttu ekki snerta. Svipaðar hugmyndir um græðgina sem upphafssynd er að finna í elsta bókmenntaverki heimsins, hinni súmersku Gilgamesarkviðu, svo nokkur dæmi séu nefnd.
Þessar fornu hugmyndir um græðgina sem veigamikinn þátt í eðli mannsins eru frá ólíkum menningarsvæðum og mismunandi tímum. Samkvæmt þeim er mannskepnan þannig úr garði gerð, að hún fær aldrei nóg.
Við erum óseðjandi.
Allar ár renna í sjóinn en sjórinn fyllist ekki. Þangað sem árnar renna munu þær ávallt renna. Allt er sístritandi, enginn maður fær því með orðum lýst, augað verður aldrei satt af að sjá og eyrað verður aldrei mett af að heyra,
stendur í bók Prédikarans.
Neysluhyggja nútímans gerir út á þetta óseðjandi eðli mannsins. Ein forsenda hennar er sú gamla goðsögn, að með því að eignast minnkir þú þarfir þína og seðjir þær. Í nýlegri verðlaunabók sinni orðar tékkneski hagfræðingurinn Tomas Sedlacek það þannig, að fólk trúi því að með því að geta fært hluti úr kassanum þetta þarf ég í kassann þetta á ég sé hægt að minnka í fyrrnefnda kassanum. Sú er ekki raunin. Þvert á móti vaxa þarfir okkar í réttu hlutfalli við aukningu á eignum okkar. Hver fullnægð þörf getur af sér nýja. Það lýsir sé í því að neysla auðugustu ríkja heimsins eykst og eykst. Um leið eru gæði jarðarinnar ekki ótakmörkuð. Þess vegna hefur þessi skefjalausa og sívaxandi neysla í för með sér annars vegar hróplega misskiptingu á gæðum jarðar þar sem aðrir fá meira en nóg en hinir búa við skort. Hin afleiðing hinnar skefjalausu og sívaxandi neyslu er sú, að náttúruauðlindirnar hafa ekki undan við að sjá henni fyrir hráefni. Vistkerfið þolir ekki aðgangshörkuna og mannkynið er á góðri leið með að gera jörðina óbyggilega.
Maðurinn getur farið tvær leiðir til að takast á við þennan vanda. Annars vegar getur hann reynt að stækka kökuna, auka það sem til skiptanna er þannig að allir fái nóg og allir geti sinnt sem flestum þörfum sínum. Þetta er leiðin sem við höfum hingað til reynt að fara. Hún er alls ekki gallalaus og hefur m. a. skelfilegar afleiðingar fyrir vistkerfi jarðar.
Hin leiðin til að takast á við græðgina felst ekki í því að stækka kökuna til að seðja græðgi mannanna, heldur er í henni reynt að minnka eftirspurnina, stilla þörfunum í hóf og koma böndum á þessa eðlislægu og hættulegu græðgi mannanna.
Fyrrnefndur Tomas Sedlacek segir manninn lifa í stöðugri spennu milli þess annars vegar að móta veruleikann sem hann lifir í og hinsvegar þess að vera ánægður með tilvist sína, losa tök sín á henni og njóta hennar eins og hún er. Hvort tveggja sé nauðsynlegt en ef til vill höfum við verið of upptekin af því fyrrnefnda en vanrækt það síðarnefnda. Sedlacek bendir á nauðsyn þess að hlýða boðorðinu um að halda hvíldardaginn heilagan. Bæði maðurinn og vistkerfið hafi þörf fyrir reglulega hvíld.
Græðgin beinir athygli okkar að því sem við höfum ekki, því sem okkur vantar og skortir. Út á það ganga auglýsingar neysluþjóðfélagsins. Þar er daginn út og inn hamrað á öllum þeim ósköpum sem okkur vantar og við getum ekki án verið. Manneskjan í samfélagi neyslunnar er ein stór þarfavera. Mynd hennar er neikvæð, hana skortir svo ótalmargt og þarf svo sárlega að bæta úr því með því að eignast fleira og fá meira.
Þakklætið snýr hugum okkar á hinn bóginn að því sem við höfum. Þess vegna er þökkin náskyld hvíldinni. Sá þakkláti þorir að hvíla í því sem hann hefur. Hann er ekki gerandi, hann er ekki að elta eitthvað á harðaspretti, hann er njótandi. Hann er ekki að mála málverkin eða ramma þau inn, hann er að njóta sýningarinnar og dást að listinni.
Þakklætið er öflugasta mótefnið gegn græðginni.
Myndina tók ég um þarsíðustu helgi á leið minni út í Fossdal, sem er ystur Ólafsfjarðardala, við Hvanndalabjarg. Á henni er Ólafsfjarðarmúli með gamla Múlaveginn ristan í ógurlega klettahöllina en einnig sést inn í Eyjafjörðinn og á Látraströndina handan hans.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.8.2016 | 23:53
Enn er þó kurr...
Í síðustu færslu rifjaði ég upp þegar hornstrendska skáldkonan Jakobína Sigurðardóttir vakti með kveðskap sínum þvílíkt óveður að öflugustu drápsnökkvar veraldar hröktust frá hennar heitt elskuðu heimaströndum.
Eigi eitthvert kvæði íslenskrar ljóðsögu skilið einkunnina seiðmagnað er það mínu mati Hugsað til Hornstranda eftir Jakobínu.
En Jakobína lét ekki þar við sitja að yrkja burt herinn. Þegar ljóst var að kvæði hennar hafði orðið að áhrínsorðum orti hún annað í tilefni viðburðanna. Það heitir Hvort var þá hlegið í Hamri? og er dagsett af skáldkonunni 25. október árið 1953. Mér finnst það eitt ágætasta ljóð sem til er á íslenskri tungu.
Í viðtali við Morgunblaðið árið 2005 (Kíkt undir komma stimpilinn, Morgunblaðið 27. nóvember 2005) segir Sólveig Kristín, dóttir Einars Olgeirssonar, að Jakobína hafi sent föður hennar ljóðið nýort og bætir við:
Hann bókstaflega sveif um gólfið þegar hann las það.
Ekki er ég hissa á því.
Fyrr í þessum mánuði gekk ég á Straumnesfjall upp af Aðalvík, ekki fjarri heimaslóðum Jakobínu Sigurðardóttur. Bandaríkjastjórn eyddi á sínum tíma milljónum dala í að reisa þar mikla herstöð og leggja veg þangað upp. Framkvæmdir við mannvirkin hófust árið 1953 og voru umsvifin mikil. Leit út fyrir að enda þótt Jakobínu hefði tekist að stöðva heræfingarnar það árið hefði það einungis verið áfangasigur. Herinn færi sínu fram og eignaðist virki á Hornströndum.
Þannig fór þó að herstöðin á Straumnesfjalli var einungis starfrækt um þriggja ára skeið og var lokað átta árum eftir að framkvæmdir við hana hófust.
Enn standa mannvirkin á fjallinu og minna á þessa sögu. Vegurinn þangað hlykkjast upp fjallið og er harla beinn og breiður þá sjö kílómetra sem þarf að ganga út fjallið að stöðinni fremst á því. Hann er nú þakinn vestfirskum fjallagróðri. Vindar gnauða um brotna glugga stöðvarhúsanna og fallin þökin eru engin vörn gegn regni og snjó.
Ritgerð Sólrúnar Þorsteinsdóttur til meistaragráðu í þjóðfræði fjallar um herstöðina á Straumnesfjalli, hin fróðlegasta lesning og aðgengileg á netinu.
Jakobína hafði sigur. Hermenningin náði ekki að festa sig í sessi á Hornströndum. Norður undir Straumnesfjalli, við tjaldstæðið á Látrum, er snotur kamar. Það mannvirki gerir nú mun meira gagn en milljónafjárfesting bandarískra stjórnvalda á fjallinu fyrir ofan hann.
Enn er þó kurr í kyljum, yrkir Jakobína. Hornstrendskar vættir eru ekki alveg rólegar. Mannskepnan er til alls líkleg og sagan sýnir að henni er fátt heilagt. Mættu Hornstrandir og aðrar náttúruperlur fá að vera í friði fyrir uppátækjum mannsins. Guð blessi þessa heilögu staði.
Hvort var þá hlegið í Hamri?
Herskipin stefndu að landi,
ögrandi banvænum öldum
íshafs, við norðlæg fjöll.
Sá það Hallur í hamri.
Heyrði það Atli í bergi.
Yggldi sig lækur í lyngmó,
leiftraði roði á mjöll.
Leituðu skotmarks í landi
langsæknir víkingar. Hugðust
tækni tuttugustu aldar
tefla við Atla og Hall.
Margþættri morðvizku slungin
menningin stórbrezk og vestræn
skyldi nú loksins logum
leika um nes og fjall.
Válega ýlfruðu vindar,
veifaði Núpurinn éljum,
öskraði brimrót við björgin
boðandi víkingum feigð.
Hljómaði hátt yfir storminn:
Hér skal hver einasta þúfa
varin, og aldrei um eilífð
ykkur til skotmarks leigð.
Hertu þá seið í hamri
heiðnir og fjölkynngi vanir.
Bölþrungin blóðug hadda
byltist úr djúpi og hló.
Reykmekkir, rauðir af galdri,
risu úr björgum til skýja.
Níðrúnir gýgur í gljúfri
grálynd á klettaspjöld dró.
Hvort var þá hlegið á hamri?
Hermenning stefndi frá landi
óvíg gegn íslenzkri þoku,
ófær að glettast við tröll.
Ljómuðu bjargabrúnir,
brostu þá sund og víkur,
föðmuðust lyng og lækur
logaði ósnortin mjöll.
Hvílast nú Hallur og Atli.
Hljótt er í bjargasölum.
Enn er þó kurr í kyljum
klettur ýfist við hrönn.
Geyma skal sögn og saga
sigur hornstrendskra vætta
íslenzkur hlátur í hamri
hljóma í dagsins önn.
Það rigndi á okkur á leið upp á fjallið en smám saman stytti upp þótt drungaleg væri aðkoman að stöðinni. Frammi á fjallinu upplifðum við síðan hvernig þokan lyftist af og Fljótavík birtist í allri sinni dýrð.
Ljómuðu bjargabrúnir, brostu þá sund og víkur.
Bloggar | Breytt 19.8.2016 kl. 08:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.8.2016 | 23:32
Skáldkona yrkir burt her
Fyrsta dag októbermánaðar árið 1953 var stærsta fréttin á forsíðu Þjóðviljans um misheppnaða heræfingu Nato úti fyrir Hornströndum fyrr um haustið. Samkvæmt frásögn blaðsins átti æfingin að vera mjög umfangsmikil með fjölmörgum herskipum, tundurspillum, beitiskipum, flugmóðurskipum, flugvélum og landgönguliði. Ráðgert var að skjóta af fallbyssum á skotmörk á landi, sökkva óvinaskipi og gera innrás í Hornvík og Aðalvík.
Ekkert varð af þessum aðgerðum því á brast hið versta veður með hnausþykkri hornstrandaþoku þeirrar gerðar sem kæft getur hernaðarbrölt í fæðingu. Kom í ljós að veðrabrigðin sem settu strik í reikninga aðmírálanna voru engin tilviljun.
Þannig er greint frá framvindu heræfingarinnar í Þjóðviljanum:
Það hefur sýnt sig að landvættir íslands kunna því enn illa að vígdrekar sigli að landi með gínandi trjónum. Flotastjórn Atlanzhafsbandalagsins stefndi ýmsum völdustu herskipum sínum til Íslands um síðustu helgi til æfinga en þá reif upp sjó og hvessti svo að æfingin fór út um þúfur. Ljóð hornstrenzku skáldkonunnar Jakobínu Sigurðardóttur varð að áhrínsorðum. Aðmírállinn McCormick komst aldrei út í flaggskip sitt. Skotmarkið á Hornströndum sást aldrei, og hetjurnar miklu heyktust á því að reyna innrás sína þar!
Jakobína Sigurðardóttir var fædd og uppalin í Hælavík. Hún var búsett í Mývatnssveit þegar hún birti ljóð sitt gegn heræfingunum sumarið fyrir æfingarnar miklu. Kveðskapurinn er magnaður enda æsti hann upp veður sem hrakti burt einhverjar öflugustu vígvélar veraldar.
Haustið 1963 var í tímaritinu Vikunni viðtal við Sigmund Guðnason frá Hælavík. Þar segir hann frá kvæðinu, tildrögum þess og áhrifum:
Það var ekki örgrannt um, að sumir af dátunum bandarísku hafi verið hjátrúarfullir eftir þessa misheppnuðu innrás, því þeim hafði borizt til eyrna sá kvittur, að kona ein í Mývatnssveit, ættuð af Ströndum, hefði ort kvæði eitt biturt gegn uppgöngu þeirra á Strandir. Töldu þeir víst síðar, að orð kerlingar hefðu orðið að áhrínsorðum, er hún bannaði þeim að fara í land; og hafa jafnan sagt þá sögu heima hjá sér síðan, að þeim hafi með fjölkynngi verið meinuð uppganga á Íshafsstrandir norður í Atlantshafi þar sem heitir Ísland. Sé þar kvikt af konum, sem vita jafnlangt nefi sínu eða lengra, og hafi ekki mikið fyrir að galdra þokur um nánes þessi norður, ef þess þykir þurfa. Þessi kona, sem skaut dátunum svo skelk í bringu heitir Jakobína Sigurðardóttir og er hagyrðingur góður. Hún er uppalin á Hornströndum og ást hennar til þess héraðs er æ mikil, þótt hún dvelji ekki þar lengur. Og kvæðið, sem hún orti gegn hersetu á Hornströndum, heitir: Hugsað til Hornstranda og hljóðar svona:
Víða liggja verndaranna brautir.
Vart mun sagt um þá,
að þeir hafi óttast mennskar þrautir,
eða hvarflað frá,
þótt þeim enga auðnu muni hyggja
Íslandströllin forn.
Mér er sagt þeir ætli að endurbyggja
Aðalvík og Horn.
Við sem eitt sinn áttum þarna heima
undrumst slíkan dug.
Okkur þykir þægilegt að gleyma
því sem skelfdi hug.
Gleyma ísi og útmánaðasveltu,
angri, kotungsbrag.
Muna gróðurilm og sjávarseltu,
sól og júnídag.
Hungurvofur, hrjósturbyggðir kaldar
hugdeig flýðum við.
Vitið samt: Þær eru eftir taldar
ykkur, hetjulið,
vegna þess hann afi okkar hlóð þar
ofurlítinn bæ,
vegna þess að vaggan okkar stóð þar
varin hungri og snæ.
Láttu, fóstra, napurt um þá næða
norðanélin þín,
fjörudrauga og fornar vofur hræða.
Feigum villtu sýn,
þeim, sem vilja virkjum morðsins níða
vammlaust brjóstið þitt.
Sýni þeim hver örlög böðuls bíða
bernskuríkið mitt.
Byltist, fóstra, brim í geði þungu.
Barnið leitar þín.
Legg mér hvessta orðsins egg á tungu,
eld í kvæðin mín.
Lífsins mátt og orðsins afl þar kenni
ármenn réttar þíns.
Níðings iljar alla daga brenni
eldur ljóðsins míns.
Myndina tók ég í Hælavík í fyrrasumar. Þar sést gamla eldavélin í tóftum Hælavíkurbæjarins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.8.2016 | 14:56
Tveir veitingastaðir og kaffihús
Þungur straumur túrhesta til Íslands veldur vandræðum. Þessa dagana er vinsælt meðal Íslendinga að láta stússið í kringum ferðafólkið fara í taugarnar á sér enda vandfundin sú atvinnugrein hér á landi sem ekki er á milli tannanna á fólki hvort sem um er að ræða sjávarútveg, landbúnað, verslunarrekstur, ferðamennsku eða stóriðju.
Meira að segja strangheiðarlegir sundlaugarverðir fá sinn skammt af ónotum og aðfinnslum fyrir þá óskammfeilni að reka fólk úr fötunum og í sturtu áður en það stingur sér til sunds í laugunum eða sest í heitu pottana.
Þótt deila megi um hversu marga ferðamenn landið þoli njóta landsmenn með ýmsum hætti góðs af heimsóknum þeirra hingað upp. Nú er til dæmis fádæma gróska í rekstri veitingastaða. Þessa vikuna hef ég heimsótt þrjá slíka sem eiga það sammerkt að vera á heimsmælikvarða.
Fyrstan tel ég Tjöruhúsið á Ísafirði. Þar er boðið upp á spriklandi nýjan fisk sem reiddur er fram í rjúkandi pönnum. Er steikt án afláts ofan í gesti og boðið upp á það sem bátar í nágrenninu fiska þann daginn, steinbít, þorsk, ýsu, kola og lúðu, svo nokkuð sé nefnt. Allt er þetta sælgæti og hvorki sparaður rjóminn né smjörið. Kvöldið sem við snæddum á Tjöruhúsinu stóð Jóhann nokkur Hauksson við eldavélina. Eldamennska hans var ekki síðri en blaðamennskan og hefur hann þó unnið til viðurkenninga fyrir það síðarnefnda.
Á leiðinni heim frá Ísafirði stoppuðum við í Litlabæ í Skötufirði. Bærinn var reistur 1895 af tveimur vinafjölskyldum. Mynd af honum prýðir þessa færslu. Þegar mest var voru yfir tuttugu mannstil heimilis í Litlabæ þótt húsið sé ekki nema rétt rúmir þrjátíu fermetrar að grunnfleti. Bæjarheitið er því réttnefni. Var búið þar til ársins 1969. Þrjátíu árum síðar var hafist handa við að gera við bæinn en þá komst hann í umsjá Þjóðminjasafnsins. Nú er Litlibær skemmtilegt og fróðlegt safn. Þar er hægt að kaupa sér kaffi og nýbakaðar vöfflur. Þær eru frambornar með stífþeyttum rjóma og sultutaui úr tröllasúrum og bláberjum. Vinalegur hundur liggur fyrir bæjardyrum og haggast ekki þótt ferðalangar þrammi að á gönguskóm sínum. Eiga þeir ekki um annað að ræða en að klofast yfir seppa.
Þriðja veitingastaðinn heimsótti ég nú í hádeginu. Sá er hér á Akureyri og heitir því óþjála nafni Rub23. Akureyringar tala gjarnan um að fara á Röbbið. Virka daga er þar í boði hádegishlaðborð sem kostar ekki nema tæpar 3.000 krónur á mann. Fyrir þær fær maður sannkallaða veislu. Röbbið er þekkt fyrir alveg fádæma ljúffengt sushi. Það er meðal kræsinga á hlaðborðinu, en einnig bláskel, lax, silungur og allskonar annað hnossgæti sem allt smakkaðist unaðslega.
Ég fagna sívaxandi úrvali veitingastaða á Íslandi og gef Tjöruhúsinu á Ísafirði, Rub23 á Akureyri og Litlabæ í Skötufirði mín bestu meðmæli.
Myndin er af Litlabæ í Skötufirði
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2016 | 09:10
Forseti nýrra tíma
Í forsetakosningunum síðar í mánuðinum eru margir góðir kostir í boði, alls konar fólk úr ýmsum áttum. Lýðræðið stendur í þakkarskuld við það allt því ekki er að öllu leyti álitlegt eða þrautalaust að vera forsetaframbjóðandi á Íslandi.
Frambjóðendur geta búist við að farið verði að gramsa í fortíð þeirra og ýmislegt rifjað upp sem ef til vill hefði betur verið geymt í þeim mikla þarfagrip, glatkistunni. Slíkt grúsk getur haft óþægindi í för með sér en er eðlilegt þegar um er að ræða fólk sem sækist eftir æðsta og virðulegasta embætti þjóðarinnar. Enginn frambjóðandi má vera það heilagur að hann þoli ekki skoðun á fortíð sinni, orðum og gjörðum.
Hitt er líka rétt að lengi hefur verið þjóðarsport á Íslandi að snúa út úr orðum fólks, slíta þau úr samhengi og útleggja á versta veg. Hefur frammistaða helstu afreksmanna í íþróttinni ekki valdið aðdáendum hennar vonbrigðum í aðdraganda þessara forsetakosninga.
Þegar þjóðin velur sér forseta er þó ekki síður mikilvægt að líta til framtíðar en róta í fortíðinni. Nýr forseti er yfirlýsing þjóðarinnar um hvernig hún ætli að ganga til móts við nýja tíma. Vigdís Finnbogadóttir varð fyrst kvenna í heiminum til að ná kjöri sem þjóðhöfðingi í lýðræðisríki. Íslendingar sendu sjálfum sér og öðrum mikilvæg skilaboð um jafnréttismál þegar þeir kusu hana og gáfu tóninn inn í framtíðina.
Umhverfismál eru eitt stærsta mál samtíðarinnar. Vægi þeirra á eftir að aukast enn því með lífsháttum sínum og umgengni við náttúruna er mannkynið á góðri leið með að gera jörðina óbyggilega.
Ég er þeirrar skoðunar að í komandi forsetakosningum hafi íslenska þjóðin einstakt tækifæri til að sýna hvaða stefnu hún vilji taka inn í framtíðina og senda umheiminum skilaboð um málefni sem er svo brýnt fyrir okkur öll að það er hafið yfir hin hefðbundnu átök á milli stjórnmálaflokka.
Meðal frambjóðenda er gegnheill umhverfissinni sem nýtur virðingar og hefur hlotið viðurkenningar fyrir skrif sín um þau mál, bæði hér heima og erlendis. Með því að kjósa hann erum við Íslendingar að segja okkur sjálfum og umheiminum, að við viljum skila Íslandi til komandi kynslóða ekki síður byggilegu en það var þegar við tókum við því og að íslenska þjóðin ætli að leggja sitt af mörkum til að mannkynið nái sáttum við umhverfi sitt, loft, láð og lög.
Ég ætla að byrja framtíðina með því að kjósa Andra Snæ Magnason.
(Grein þessi birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. 6. 2016)
Myndin er tekin í Kjarnaskógi norður yfir Akureyri og út Eyjafjörð með gamla og trausta útvörðinn Kaldbak í fjarðarkjafti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)