Færsluflokkur: Bloggar

Við fáum tapið af gróðanum

DSCN1081

Í gær fjallaði leiðari Fréttablaðsins m. a. um hina misheppnuðu frjálshyggjutilraun íslenskra stjórnvalda og nauðsyn þess að þjóðin axlaði ábyrgð á henni - eins og til var vitnað í næstu bloggfærslu hér á undan.

Himinhá laun og fáránlegir bónusar var eitt af því sem einkenndi frjálshyggjutilraunina miklu sem íslenskum almenningi er ætlað að bera ábyrgð á og borga fyrir samkvæmt leiðara Fréttablaðsins í gær.

Leiðari Fréttablaðsins í dag ber yfirskriftina "Jákvæðir bónusar".

Ég held að hann sé skrifaður af sama manni og vildi í gær láta íslenskan almenning bera ábyrgð á frjálshyggjutilrauninni.

Í leiðaranum er kerfi hinna himinháu bónusa varið með kjafti og klóm. Ekkert sé að því.

Gripið er til fornfrægra frjálshyggjufrasa og sagt orðrétt:

Þetta er gott kerfi því allir græða.

Leiðarahöfundur lætur þess reyndar ekki getið að fólk er að græða "mismikið" - svo vægt sé til orða tekið.

Nýjasta dæmið er Straumshneykslið. Þar ætluðu stjórnendur að græða allt að tíu milljarða króna fyrir vinnu sína. Ofan á launin sín. 

Forstjórinn hefur að mér skilst fjórar milljónir í mánaðarlaun.

Gróði íslensks almennings er svo auðvitað tapið af frjálshyggjutilrauninni þegar hún misheppnast.

Nýjasta dæmið um það er Icesave. Þar er alveg dýrlega háum tapupphæðum velt yfir á hin breiðu bök okkar sem aldrei fengum neina bónusa eða kaupauka - nema tapið af öllum gróðanum.

Við verðum að axla ábyrgð og megum aldrei gleyma því að

kerfið er gott

því allir græða.

Myndin er frá Hólum í Hjaltadal.


Amma axli ábyrgð

Horft upp á Flateyjardal 400

Í gærkvöld neitaði fyrrverandi bankastjóri hins gjaldþrota Kaupþings að biðjast afsökunar. Hann skuldaði þjóðinni ekkert þannig.

Forstjóri hins fallna Kaupþings sagði ekkert athugavert hafa verið við lánastarfsemi bankans. Seðlabankinn hafi gert skelfileg mistök.

Í dag les ég það svo í leiðara Fréttablaðsins að þjóðin verði "að axla ábyrgð á þeirri frjálshyggjutilraun sem stjórnvöld réðust í að gera".

Smám saman er að koma í ljós að þetta var alls ekki bankastjórunum og útrásarvíkingunum að kenna.

Þetta er þjóðinni að kenna. Hún kaus svo hrikalega vitlaust. Einkum kjósendur Sjálfstæðisflokksins.

Böndin berast að ömmu.

Hún ætti að sjá sóma sinn í því að biðja bankastjórana afsökunar á því að setja bankana þeirra á hausinn og gera auðmennina gjaldþrota.

Myndin: Horft úr Flatey á Skjálfandi yfir í Flateyjardal. Ég held að húsið á dalnum sé bærinn Jökulsá.


Þokkalega sverar áhyggjur

Maður_veiðir_við_foss

Um þessar mundir eru margir áhyggjufullir.

Lítill vandi er að útmála fyrir fólki að ekkert þýði að hafa áhyggjur. Þær bæti ekki ástandið. Geri bara illt verra.

Um það er léttara að tala en í að komast.

Að hafa áhyggjur er ekkert til að skammast sín fyrir.

Sá sem kemur inn samviskubiti hjá fólki fyrir það að hafa áhyggjur hefur aðeins aukið við áhyggjur þess.

Upp frá því hefur það í ofanálag áhyggjur af því að hafa áhyggjur.

Þá er nú skárra að hafa áhyggjur af því að vera áhyggjulaus. Áhyggjurnar tryggja ákveðna árvekni. Að því leyti geta þær verið af hinu góða. Sumir halda því fram að óhóflegt áhyggjuleysi hafi orðið þess valdandi að við flutum fram af þverhnípi kreppunnar.

Hafðu því endilega þokkalega sverar áhyggjur.

En ef þú getur ekki rætt áhyggjur þínar við nokkurn mann, ef þær brjóta þig niður og stela algjörlega frá þér lífsgleðinni, sjúga úr þér kraftinn og ekki líður mínúta án þess að þær víbri inni í þér, þá er í óefni komið.

Þá hefur þú ekki lengur áhyggjur heldur þær þig.

Myndin: Veiðisvæðið Barnafell í Skjálfandafljóti. Þar veiddi ég minn fyrsta lax. Vegleg verðlaun í boði fyrir þá sem sjá veiðimanninn. Veiði er mjög afstressandi en samt hefur maður sífelldar áhyggjur af því að fá ekki fisk.


Mælskir moðhausar

DSC_0392

Vandræðaminnst er að hlusta á þá sem maður er sammála.

Því getur á hinn bóginn fylgt vesen að heyra menn lýsa sjónarmiðum sem eru ekki manns eigin.

Ekki síst ef það er vel gert og ég fer að efast um það sem ég hélt.

Sumt fólk með undarlegar skoðanir er óþarflega vel máli farið.

Hentugast er að hafa mestu rugludallana nánast ótalandi - sem er reyndar oft raunin.

Málið fer að vandast þegar þeir fara að kunna að koma fyrir sig orði.

Jónas frá Hriflu og Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur voru ekki skoðanabræður.

Jónas sagði eitt sinn um Sverri að hann væri ekki nema glerbrot á sorphaugum mannlífsins.

Þó gæti hann stundum talað eins og hann væri full flaska.

Myndin er frá Vestmannsvatni. Þar var ég í morgun með fermingarbörnum. Við sigldum út í Höskuldsey í aftakablíðu.


Hin köldu lögmál

DSCN3675

Markaðslögmálin eru ekki algild enda þótt keppst hafi verið við að telja okkur trú um það.

Græðgisvæðingin fólst í því að innræta þjóðinni að allt sé falt fyrir peninga og um allt gildi reglan um kaup kaups.

Meira að segja í kirkjunni þótti orðið fínt að tala á markaðsfræðilegum nótum en þeir voru taldir hálfgerðir sperrileggir og skýjaglópar sem vildu blanda einhverri guðfræði í málið.

Hitt og þetta var "sóknarfæri" fyrir kirkjuna.

Í djöfulgangi síðustu ára gleymdum við liljum vallarins sem hvorki vefa né spinna. Samt var Salómon í allri sinni dýrð ekki svo búinn sem ein þeirra.

Við lifum af náð í þessari undursamlegu veröld.

Hver einasti dagur okkar er gjöf. Þegar nýr slíkur býður okkur góðan sig sjálfan er Guð þar að baki.

Guð er aflið sem frelsar þig frá því sem bindur þig á klafa lögmála og kröfuhörku.

Störf þín eru ekki þrældómur undir valdi ópersónulegra lögmála.

Þau eru þjónusta við höfund lífsins.

Myndin: Ásbyrgi


Hinir máttlausu íslensku fjölmiðlar

DSCN1158

Margoft hefur verið bent á það að íslenskir fjölmiðlar brugðust í aðdraganda hrunsins.

Þeir vöruðu almenning ekki við aðsteðjandi hættu. Margt bendir til þess að þeir hafi ekki séð hana. Íslenskir blaðamenn höfðu ekki forsendur til að greina hætturnar, hvorki menntun né annað. Þeir hlustuðu heldur ekki á viðvörunarraddirnar.

Fjölmiðlar hér landi voru flestir uppteknir af því að viðhalda sjálfum sér. Þess vegna forðuðust þeir að styggja eigendur sína en létu nota sig sem vopn þeirra á fólkið sem þeim er ætlað að þjóna.

Þetta hefur lítið breyst. Enn eiga aðalleikendur hrunsins megnið af íslenskum fjölmiðlum. Það veikir vonir um ærlegt uppgjör og minnkar líkurnar á að endurreisnin geti farið af stað á grunni þeirra gömlu gilda sem lentu í glatkistu græðgisvæðingarinnar.

Taka ber fram að við eigum marga frábæra blaðamenn. Aldrei hefur verið brýnna en núna að skapa þeim ákjósanleg starfsskilyrði. Og aldrei hefur verið mikilvægara að losa blaðamannastéttina við skussa og undirlægjur auðvalds og stjórnmálaflokka.

Eitt af því sem taka verður með í reikninginn er smæð íslensks samfélags. Þess vegna eru störf blaðamanns hér erfiðari en í stærri samfélögum.

Setja verður strangari reglur um eignarhald hér en í öðrum löndum.

Einnig er bráðnauðsynlegt að dreifa fjölmiðlunum meira um landið en verið hefur.

Myndina tók ég fyrir nokkrum árum ekki langt frá Laugarvatni. Hálendið er í norðurátt en slíkt tíðkast ekki hér fyrir norðan. Upplýsta fjallið þekki ég ekki en gaman væri að fá að vita hvað það heitir.


Skítt með fólkið

DSC_0080

Loksins náðist samstaða um lyktir Icesave-málsins.

Margt bendir þó til að sá endir sé ekki nema hálfleikur og þjóðin geti stytt sér stundirnar með því að rífast um Icesave eitthvað fram eftir vetri.

En stjórnmálamenn eru samt byrjaðir að eigna sér sigurinn og andstæðingum afhroð.

Þeim virðist sem fyrr sama um fólkið.

Aðalatriðið er hvernig þeir geti upphafið sig og sinn flokk og komið höggi á hina.

Icesave-samningurinn er að mínu mati óaðgengilegur fyrir Ísland nema þá með ströngum fyrirvörum.

Ég fagna því að þó þessi samstaða náðist um fyrirvarana en skil samt ekki fólk sem fagnar samningunum sem slíkum.

Og það er gjörsamlega óviðunandi að þeir sem eiga að gæta hagsmuna íslensks almennings eigi sér helst ekkert takmark æðra en að slíkar drápsklyfjar verði lagðar á þjóðina.

Ummæli norska fjármálaráðherrans, Halvorsen, eru fyrir neðan allar hellur. Hún lítur þannig á að Icesave-skuldirnar séu refsing fyrir frjálshyggjuflipp síðustu ára.

Þetta eru undarleg skilaboð til einstæðra mæðra á Íslandi, öryrkja eða fólksins sem búið er að missa vinnuna og hefur þurft að horfa upp á skuldirnar sínar bólgna út en eignirnar brenna.

Ykkur var nær! Skammist bara til að borga!

Icesave er eins konar alþjóðleg sekt á Ísland fyrir að hafa kosið vitlaust í kosningum síðustu ára.

Því miður er of mörgum stjórnmálamönnum hjartanlega sama um fólkið.

Myndin er af Sundskála Svarfdæla sem ég held að hafi verið fyrsta yfirbyggða sundlaug á Íslandi. Eyjafjörðurinn blasir við, Hrísey og Látraströnd handan fjarðar.


Framtíð landsins

DSC_0231

Þessa dagana starfar fermingarskóli Akureyrarkirkju á Vestmannsvatni.

Ég var að koma heim eftir dvöl með fyrsta hópnum þar eystra.

Gaman var að sjá hversu vel krökkunum leið úti í náttúrunni. Sum voru ótrúlega seig í berjamó og fljót að fylla skyrdollurnar.

Og nóg var til af þeim eftir hetjulegt skyrát krakkanna.

Það var enginn matvandur í hópnum og ekki fúlsað við neinu hvort sem það var KEA-skyr eða Royal-búðingur.

Fátt er þjóð mikilvægara en að búa vel að æsku sinni.

Hluti af því er að kenna ungmennum það sem við teljum hollt, gott, satt og rétt.

Og innræta þeim virðingu fyrir því sem heilagt er á himni og jörðu.

Af því ræðst framtíð landsins.

Á myndinn erum við í kvöldgöngu í Vatnshlíðinni. Vestmannsvatn, Höskuldsey og hið dásnotra Hólkot í baksýn.

 

 


Eins og í útlöndum

DSC_0305

Heimskur er sá sem aldrei fer að heiman og ekkert sér nema heima hjá sér.

Það er að minnsta kosti jafn mikil heimska að sjá ekkert nema í hillingarbláma fjarlægðarinnar.

Oft heyri ég talað um að eitthvað sé "eins og í útlöndum".

Þá hafa menn séð eitthvað á Íslandi en finnst að það sé eins og í útlandi og þar af leiðandi ekki á Íslandi.

Breiðar götur, margir bílar, stór hús, fjöldi verslana og mengun er að margra mati eins og í útlöndum.

Svækjuhiti og brennandi sól er eins og í útlöndum.

Stress og hraði er eins og í útlöndum.

Fátt líkist útlöndum minna en íslenska strálbýlið.

Þar er fátt um byggingar og þær jafnan lágreistar. Þar eru götur ræfilslegar og nánast engar verslanir. Þar eru engin mislæg gatnamót. Bara gnauðandi rimlahlið. Þar eru karlarnir með alskegg og konurnar í flíspeysum með ískrandi barnavagna á leið í kaupfélagið sem fór á hausinn á síðustu öld. Þar er súld og svo mikil og seig þoka að hún kæfir hraðann.

Ég hef búið í útlöndum. Þar finnst sumu fólki eftirsóknarvert að búa á þeim svæðum sem líkjast íslenska dreifbýlinu.

Sennilega vegna þess að Ísland er útland ef þú ert í útlöndum.

Myndin: Þetta íslenska eyðibýli er ekki eins og í útlöndum nema þú sért þar.

 


Stólarnir eða þjóðin?

DSCN1198

Mikið skil ég reiði þeirra sem treystu Landsbankanum í Bretlandi og Hollandi fyrir peningunum sínum. Ég vona svo sannarlega að það fólk verði fyrir sem minnstum skaða.

Í umræðunni hér á landi finnst mér samt stundum eins og að eina fólkið sem tapaði peningum í kreppunni hafi verið breskir og hollenskir viðskiptavinir Landsbankans.

Eina fólkið sem hafi farið illa út úr kreppunni séu fórnarlömb spilltra íslenskra bankamanna.

Sannleikurinn er auðvitað sá að fjöldi fólks um allan heim tapaði stórum fúlgum á bankahruninu vegna viðskipta sinna við íslenska banka og aðra.

Líka hér heima þurfti fólk að horfa á eftir sparnaði sínum.

Og hér heima hefur fólk þurft að horfa upp á virði fasteigna sinna brenna upp, skuldirnar bólgna út, hér heima hefur fólk misst vinnuna og tekið á sig launalækkanir og skattahækkanir.

Ég skil líka vel reiði íslensks almúga - og ekki minnkar hún við það að mörgum finnst að þau sem tekið hafa að sér að gæta hagsmuna fólksins og tala máli þess, virðast gera það andstæða.

Þau leggja ofurkapp á að demba skuldum á íslenska þjóð sem hún stofnaði ekki til og vafamál er hvort hún geti staðið undir.

Nýjasta skýringin á þessu ofurkappi er sú að það verði að samþykkja Icesave-skuldirnar, annars geti vitlausir flokkar komist í stjórn.

Gamla íslenska flokkapólitíkin er komin í málið og þjóðin skal borga - sumir segja allt að þrjúþúsund milljarða króna - til að rétta fólkið tolli í valdastólunum.

Á örlagatímum í sögu þjóðar eiga stjórnmálamenn hennar að slíðra sverðin og hætta að höggvast innbyrðis.

Ef þeir sameinast um að tala máli fólksins og taka málstað þess efast ég ekki um að þeir fá þjóðina með sér.

Byrðarnar léttast á bökum sameinaðrar þjóðar en ekki nema agnarögn þarf til að sliga sundraða.

Og er ekki upplagt að birta viðhafnarmynd af Öxarárfossi með svona skrifum?

Bætt við að kvöldi 11. 8.:

Ég lýsi mikilli ánægju með frammistöðu Ögmundar Jónassonar í Kastljósi kvöldsins. Hann var málefnalegur, æsingslaus, sanngjarn, nærgætinn og skynsamur. Hann peppaði mannskapinn upp og hvatti til samstöðu. Hann safnaði þjóðinni saman en tvístraði henni ekki með þeirri pólitísku heift og þrjósku sem einkennir of marga íslenska stjórnmálamenn.  Sagt hefur verið að kreppur framkalli leiðtoga og slíkur maður sat fyrir svörum hjá Sigmari í kvöld. Áfram Ögmundur!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband