Færsluflokkur: Bloggar

Blessuð reiðin

DSC_0103

Ef til vill ætti maður að láta ógert að blessa reiðina. Ekki var meistari Jón Vídalín hrifinn af henni. Í sínum fræga Reiðilestri, húslestri milli áttadags og þrettánda, segir hann um reiðina:

Hún afmyndar alla mannsins limi og liði. Hún kveikir bál í augunum. Hún hleypir blóði í nasirnar, bólgu í kinnarnar, æði og stjórnleysi í tunguna, deyfu fyrir eyrun. Hún lætur manninn gnísta með tönnunum, fljúga með höndunum, æða með fótunum. Hún skekur og hristir allan líkamann og aflagar svo sem þegar hafið er uppblásið af stórviðri. Og í einu orði að segja: Hún gjörir manninn að ófreskju og að holdgetnum djöfli í augum þeirra sem heilvita eru. 

Jón segir reiðina vera eins og býflugu.

Þegar hún stingur þá stingur hún sjálfa sig í hel og skilur lífið eftir í sárinu.

Hann varar okkur við því að reiðin geti úldnað í hjartanu og spillt því.

Þó fer því fjarri að Jón Þorkelsson Vídalín leggi blátt bann við því að reiðast. Hann segir að þeir tali yfir sig sem segjast kunna að hrinda frá sér allri reiði. Sú sé ekki þekking kristinna manna á sjálfum sér, segir hann og heldur áfram:

Það er og ekki réttvíst aldrei að reiðast. Reiðast eigum vér syndum og glæpum, reiðast eigum vér sjálfum oss nær vér fremjum eitthvað af slíku.

Við eigum að reiðast syndum okkar og glæpum. Slík reiði er uppgjör. Hún er hreinsun og Ísland samtímans þarf þannig hreinsun og uppgjör.

Við megum ekki trúa því að einu forsendur endurreisnar Íslands séu efnahagslegar.

Lán frá útlöndum eru ekki forsendur þess að við rísum upp að nýju. Ekki endurnýjuð viðskiptavild. Ekki aðild að Evrópusambandinu og ekki ríkisábyrgð á Icesave-dæminu.

Ekkert af þessu er forsenda endurreisnarinnar hvaða viðhorf sem fólk hefur að öðru leyti til þessara mála.

Hin raunverulega forsenda endurreisnarinnar er hreinsandi reiði. Uppgjör við okkur sjálf og aðra.

Dagur reiðinnar, dies irae, þarf að koma.

Ef við hreinsum ekki til, ef við gerum ekki upp, ef við rekum ekki út illu andana og eyðum óværunni, þá höfum við ekkert með öll heimsins lán að gera. Þá höfum við ekkert að gera í öll heimsins sambönd og ekkert að gera við alla heimsins hagstæðustu samninga.

En dagur reiðinnar tekur enda eins og allir dagar. Eftir hann koma aðrir mildari og átakaminni. Reiðin er ekki komin til að vera. Hún vinnur sitt verk og síðan fer hún.

Meistari Vídalín á síðasta orðið:

Vonskan er frilla djöfulsins og eitt frjósamt kikvendi. Ein illska getur þúsund aðrar af sér og er reiðin og heiftræknin móðir allra þeirra. Vakti því hver kristinn maður hjarta sitt og láti þar öngva syndsamlega girnd inni drottna heldur biðji Guð að skapa hreint hjarta í sér, þá mun honum síður verða hætt við reiðinni. 

Myndin er úr Hvalvatnsfirði. Þar var hreint enginn dies irae.


Sjálfstætt Ísland?

DSC_0149

Í hremmingum síðustu mánaða hafa komið fram efasemdir um að Íslendingar séu færir um að stjórna sér sjálfir.

Fámennið sé of mikið á Íslandi og nálægðin þrúgandi.

Ekki minnkar það þann vanda að hér á landi hefur nánast öll stjórnsýsla farið fram á einum bletti á landinu. Þar eru allar helstu stofnanir landsins og öll stærstu fyrirtækin.

Vantrúin á sjálfstæðu og fullvalda Íslandi er að aukast.

Nú síðast ritar Anne Sibert í þeim dúr í þessum skrifum.

Viðhorf hennar eru engin nýmæli - en þess ber að geta að Anne Sibert á sæti í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.

Það hljóta að teljast allnokkur tíðindi þegar kona sem gegnir svo mikilvægum nefndarstörfum fyrir lýðveldið Ísland efast um að það eigi að vera sjálfstætt og fullvalda ríki.

Fámennið og nálægðin eru dæmi um rök með þeim viðhorfum sem Anne setur fram.

Hitt má líka benda á að sagan sýnir að mesta spillingin hefur ekki endilega þrifist í fámennustu og minnstu löndunum.

Stórveldi hafa grotnað í sundur vegna iðandi spillingar.

Svo er líka hægt að bregðast við fámenni og nálægð á annan hátt en með því að afsala sér forræði yfir eigin málum.

En fleira kemur hér til en rök með eða á móti.

Þetta er líka spurning um vilja.

Viljum við hafa Ísland sjálfstætt og fullvalda?

Þegar efasemdir um það eru í efstu stigum íslensku stjórnsýslunnar er ef til vill kominn tími til að taka þá spurningu alvarlega fyrir meðal þjóðarinnar.

Myndin: Myndin er tekin í kirkjugarðinum á Þönglabakka í hinum ægifagra Þorgeirsfirði en þangað lötruðum við í gær. Prestur var á Þönglabakka allt til ársins 1902 og búið var í firðinum fram undir miðja síðustu öld. Græni flekkurinn við fjarðarbotninn gegnt Þönglabakka er held ég bæjartóftirnar á Botni. Þriðja býlið, Hóll, var frammi í firði. Auk þess var búið í Háagerði til ársins 1925, aðeins ofan við Þönglabakka. Fjallið í miðjunni á myndinni er eitt það fallegasta sem ég hef séð. Það glitraði á það í sólinni í gær. Það hlýtur að vera álfametrópól.


Siðleysið fullkomnað

sumarið og haustið 2005 018

Þeir sem harðast hafa gengið fram í því að Íslendingar eigi að samþykkja Icesave-samninginn eins og hann er hafa gjarnan höfðað til siðferðiskenndar landsmanna.

Það sé siðlaust að borga ekki skuldir sínar.

Nýjustu rökin fyrir Icesave virðast vera þau að í raun eigi ekkert að borga þessar skuldir.

Þannig skilur Egill Helgason þessi orð fjármálaráðherra Íslands úr nýlegri Moggagrein:

Eigum við annan skárri kost í stöðunni en að reyna? Skuldari sem gerir heiðarlega tilraun til að borga en óskar svo eftir endurskoðun ef þörf krefur er í annarri stöðu en sá sem neitar að reyna strax í byrjun.

Á bloggi sínu útleggur Egill þetta þannig að við munum hugsanlega aldrei borga Icesave-samninginn nema að hluta - þótt ekki megi segja það upphátt eins og Egill orðar það.

Þess vegna sé ekki byrjað að borga fyrr en eftir sjö ár.

Kannski ráðum við ekkert við þessar skuldir þegar að skuldadögum kemur, segir Egill.

Þetta þykja mér stórtíðindi, ef rétt er.

Ég hef alltaf haldið því fram að það sé siðleysi að láta fólk borga skuldir sem það stofnaði ekki til. Ekki bætir úr skák ef fólkinu er ætlað að borga þær skuldir með peningum sem ekki er víst að það eigi til.

Ef svo bætist við að meiningin sé að borga skuldirnir þannig að í raun eigi aldrei að borga þær nema að hluta er það að mínu mati einstök fullkomnun á siðleysinu. 

Og aldeilis til þess fallið að endurvekja traustið á Íslandi.

Mér sýnist á öllu að best sé að tala sem minnst um þetta upphátt.

Myndin: Úr Flateyjardal

 


Hinnsiginfiskidagurinn mikli

DSCN1562

Fyrr í sumar héldu Grindvíkingar hátíðina Sjóarann síkáta.

Ólafsfirðingar halda sína Blúshátíð og eiga eftir dýrlega Berjadaga.

Tálknfirðingar bjóða upp á Tálknafjör, Húsvíkingar Mærudaga og Þistlar efna til Kátra daga.

Reykvíkingar eru sjálfum sér líkir og þrjóskast heima með sinn Innipúka.

Vér Akureyringar bjóðum aðkomumönnum til fjölskylduhátíðarinnar Einnar með öllu sem undanfarin ár hefur heppnast frábærlega undir öruggri stjórn Möggu Blö.

Vítt og breitt um landið er verið að halda sumarhátíðir og fjöldi fólks leggur á sig mikla vinnu til að allt sé til sóma.

Ég votta þessu fólki virðingu mína. Framtak þess er mikils virði - ekki síst nú á þessum síðustu og verstu.

Núna um helgina er haldið upp á Hinsegin daga í Reykjavík og Fiskidagurinn mikli fer fram á Dalvík.

Þessar hátíðir eiga fleira sameiginlegt en tímasetninguna.

Einu sinni þótti svakalega hallærislegt að vinna í fiski. Fólk skammaðist sín hálfpartinn fyrir að leggja sér fiskmeti til munns. Kjetsteikur voru eina vitið.

Nú þykir fiskur algjört gúrme.

Viðhorfin eru gjörbreytt  hvort sem um er að ræða fisk eða samkynhneigð.

Allar þessar hátíðir eru ákveðin "steitment" svo ég sletti.

Það er fínt að vera samkynhneiðgur.

Það er flott að éta hlýra.

Það er frábært að vera frá Grundarfirði.

Þessar hátíðir sýna fjölbreytileikann á landinu okkar. Og styrk fólksins.

Auk þess legg ég til að Borðeyringar, sem eru sirka mitt á milli víknanna reykja og dals, efni árlega til Hinnsiginfiskidagsins mikla.

Þar verði í boði allir hinir siginfiskréttirnir - sem ekki komust í matreiðslubækurnar.

Meðal dagskráratriða gæti verið keppni í signi fisks og siginfisksmökkunarnámskeið.

Á morgun ætlum við félagarnir á Kussungsstaðakæti í Hvalvatnsfirði en þaðan er myndin. Hver veit nema við löbbum yfir í Þorgeirsfjörð og tökum þátt í einhverju alveg geggjuðu þar.


Hroki og eyðslusemi

DSCN1230

Í hinum snotra þýska bæ Rothenburg ob der Tauber er að finna merkilegt safn um glæpi og réttarfar á miðöldum sem við vinirnir skoðuðum fyrir nokkrum árum.

Meðal sýningargripa þar er svokallaður bakarastóll en hann var notaður til að pynda bakara sem seldu of létt brauð.

Neytendaverndin virðist hafa verið mjög virk á hinum myrku miðöldum.

Á safninu var líka gerð grein fyrir bakaraskírn. Með henni var brauðgerðarmönnum refsað fyrir að skammta of naumt en það sem vakti sérstaka athygli mína var að skírn þessi var ennfremur refsing fyrir að hafa brauðin of þung.

Það var líka refsivert og þótti bera vott um hroka og glæpsamlega eyðslu.

Bakaraskírnin kemur upp í huga mér í umræðunni um Icesave.

Ég hef ekki heyrt því haldið fram að Íslendingar eigi ekki að standa við skuldbindingar sínar.

Ég hef á hinn bóginn heyrt því haldið fram að vafi geti leikið á hverjar þær skuldbindingar séu og Íslendingar eigi ekki að borga meira en þeim ber.

Mér finnst furðu sæta þegar menn sem valdir hafa verið til að gæta hagsmuna okkar og þiggja fyrir það laun virðast endilega vilja að íslenska þjóðin greiði miklu meira en henni ber skylda til.

Ber það ekki vott um eyðslusemi og hroka?

Nauðhyggjan var yfir og allt um kring í viðtalinu við fjármálaráðherra landsins í nýjasta Kastljósi.

Hlutirnir eru bara svona, var sagt. Það er ekki um annað að ræða. Við verðum að gera þetta því það eru allir svo vondir við okkur. Bretar og Hollendingar. Evrópusambandið og Skandinavía. Við erum neydd til þess.

Og nýja ríkisstjórnin verður að vera svona ómöguleg vegna þess að gamla ríkisstjórnin var enn ómögulegri - þó að nýja ríkisstjórnin sé rúmlega hálf sú gamla.

Og til þess að forða því að sá helmingur gömlu ríkisstjórnarinnar sem ekki er í þeirri nýju komist aftur til valda verður nýja ríkisstjórnin að taka upp öll helstu stefnumál gömlu ríkisstjórnarinnar.

Myndin: Við Brúará

 

 


Óþjóðalýður

CSC_0096

Sumir sjá fyrir sér heim án þjóða. Engin landamæri. Eina menningu. Ein trúarbrögð. Eina tungu.

Eru sumar myndir svonefndrar fjölmenningarhyggju kannski í raun slík einmenningarhyggja?

Fjölmenning er ekki fólgin í því að hver gleymi og afneiti sérstöðu sinni. Fjölmenning er ekki menningarleg flatneskja.

Fjölmenning kallast það þegar fólk með ólíka menningu og af mismunandi uppruna býr saman í sátt og samlyndi.

Til þess að ólíkir menningarhópar geti þrifist í einu samfélagi þarf að sýna umburðarlyndi og tillitssemi.

Tjáningarfrelsið er einn hornsteina lýðræðisins. Það frelsi verður þó að nota af ábyrgð eins og allt annað frelsi. Það er ekki gott innlegg til fjölmenningarinnar ef við notum tjáningarfrelsið vísvitandi til að svívirða það sem öðrum er heilagt.

Heimur án landamæra, heimur án þjóða og heimur án fjölbreytileika er leiðinlegur heimur.

Eitt af því sem gerir hann skemmtilegan er það fyrirkomulag að láta hann skiptast í þjóðir.

Kurteisi og tillitssemi er gjaldið sem við borgum til að fá að hafa svoleiðis veröld.

Það er engin tilviljun að fólk sem hvorki kann að sýna kurteisi né tillitssemi er flokkað sem óþjóðalýður.

Myndin: Eyjafjarðará ætti að heita Eyjafjarðarfljót þótt ekki borgi sig að hræra í því. Hér er ein þriggja kvísla hennar.


Sjúkraskýrslur bankanna

DSC_0032

Ekki er ég sammála Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, um bankaleynd.

Þeir virðast á hinn bóginn vera nokkuð samstíga í því máli formaður Sjálfstæðisflokksins, leiðarahöfundur Fréttablaðsins og fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings eins og fram kemur í Fréttablaði dagsins.

Sigurður bendir á að bankaleynd sé hugsuð fyrir viðskiptavinina en ekki bankana.

Í leiðara Fréttablaðsins er bent á að trúnaður um sjúkraskýrslur sé heldur ekki hugsaður fyrir sjúkrahúsin heldur sjúklingana.

Þetta tvennt sé sambærilegt.

Þá gleymist að því sjúkrahúsi er hér um ræðir tókst að stefna lífi flestra sjúklinga sinna í stórhættu. Og landinu öllu sem síðan hefur verið í alþjóðlegri sóttkví.

Fámennur hópur naut svo sérstakrar vildarmeðferðar spítalans, nefnilega stjórn sjúkrahússins.

Hinir viðskiptavinirnir, hálf farlama eftir dvölina á sjúkrahúsinu, eru svo látnir borga brúsann fyrir forréttindahópinn, af örorku- og atvinnuleysisbótunum sínum.

Þetta kemur fram í sjúkraskýrslunum og því ekki nema skiljanlegt að sumir vilji ekki að þær séu lesnar.

Myndin: Ágústkvöld í Öxarfirði


Eva kysst og Ögmundi klappað

DSC_0040

Fólk hefur heldur betur mundað penna og slegið á lyklaborð meðan ég brunaði um víðerni Norður-Þingeyjarsýslu um helgina.

Sumt af því var einstaklega gott að lesa.

Fyrst af öllu nefni ég grein Evu Joly sem birtist í Mogganum og fleiri blöðum.

Þetta var tímamótagrein. Ég kyssi Evu fyrir hana. Loksins þorði einhver að taka málstað Íslands.

Ekki höfðu þau hugrekki til þess sem þiggja laun fyrir að taka málstað Íslands og Íslendinga. Sama hvar í flokki þau eru og hvort sem um er að ræða stjórn eða stjórnarandstöðu.

Skömm þeirra er mikil.

Eva Joly þorði að tala máli Íslands á alþjóðavettvangi.

Fróðlegt að sjá hvernig RÚV fjallar um þögn ráðamanna og viljaleysi þeirra að tala máli Íslands og íslensks almennings.

RÚV stillir þessu upp sem misheppuðum almannatengslum.

Annars er ég nú svo fattlaus að ég átta mig ekki alveg á góðu og vondu gæjunum í hruninu.

En það eru ýmsar vísbendingar sem geta hjálpað manni.

Til dæmis þessar:

Þeir sem emja hæst og mest og fyrst þegar Eva talar eru sennilega ekki í liði með góðu gæjunum.

Árni Snævarr birtir merkileg skriftamál á bloggsíðu sinni. Þar varar hann við þeirri hættu að fjárglæframenn geti skipt sér af störfum blaðamanna og jafnvel rekið þá ef þeim mislíkar.

Þetta skrifar Árni af gefnu tilefni.

Benda má á að stór hluti íslenskra fjölmiðla er enn í eigu þessara manna.

Oft hef ég dáðst að Ögmundi Jónassyni - þótt ekki sé ég alltaf jafn hrifinn. Aðdáun mín á honum minnkaði ekki við þessi skrif hans.

Þar segir hann:

Um hvað snýst slagurinn um bankaleynd núna? Hann snýst um rétt okkar - þessa sama almennings - til að sjá hvernig farið var með okkur. Þarf að segja meira? Þetta er siðleysi af hæstu gráðu. Ekki er nóg með að búið sé að setja bankana á hausinn heldur þjóðfélagið allt - og samt leyfa fjármálamenn sér að tala um það sem mannréttindi að sveipa  gjörðir sínar leyndarhjúp!
Niðurstaða: Aflétta verður bankaleynd af ÖLLUM fjármálastofnunum. Ekki bara Kaupþingi, heldur líka Landsbankanum og sparisjóðunum...

Ég er hjartanlega sammála Ögmundi en spyr:

Þarf ekki að aflétta leynd af fleiru en fjármálastofnunum?

Hvernig er með þann leyndarhjúp sem stjórnmálamenn landsins sveipa gjörðir sínar?

Hvers vegna fær þjóðin ekki að vita sannleikann?

Að lokum:

Egill Helgason er alveg bit á þögn stjórnmálamanna um nýjustu afrek peningaglannanna.

Ég er ekki hissa. Síðustu mánuðina virðast íslenskir stjórnmálamenn hafa tekið upp þá ákveðnu stefnu að þegja um flest það sem skiptir máli.

Myndin er af Harðbaki á Melrakkasléttu.


Norðausturhornið

DSC_0072

Þessa verslunarmannahelgina ókum við hjónin um norðausturhornið.

Allir vita að Öxarfjörðurinn er náttúruperla en Sléttan og Langanesið eru svo sannarlega vel geymd leyndarmál.

Þessar slóðir eru tómir töfrar þrátt fyrir að rignt hafi hressilega á okkur og vegirnir séu ekki alltaf beinlínis rennisléttir.

Raufarhöfn börðum við augum í glampandi miðnætursól. Þar er snyrtilegt þorp með fagurt umhverfi.

Melrakkaslétta er mikil matarkista. Þar er hægt að leggjast niður, opna munninn og bíða eftir því að fuglinn verpi upp í mann, var okkur sagt.

Við gistum í ferðaþjónustu bænda á Ytra-Álandi í hinum unaðslega Þistilfirði. Má svo sannarlega mæla með því gistihúsi og húsráðendum þar sem gáfu sér góðan tíma til að spjalla við okkur. Næst ætlum við að stoppa lengur og taka Rauðanesrúntinn.

Við ókum í gegnum Þórshöfn í ausandi rigningu og um Bakkafjörð til Vopnafjarðar. Þar er líka margt að sjá. Við skoðuðum gamla bæinn á Burstafelli. Í honum var búið til ársins 1966 en sama ættin hefur búið á Burstafelli frá því á 16. öld.

Vopnafjörð munum við heimsækja aftur fyrr en síðar og hafa þegar verið lögð drög að næstu ferð í þá mögnuðu veröld.

Myndin: Þessar fuglahræður sinna fleiri verkum en að gæta akranna. Þær blasa við vegfarendum þegar ekið er vestur af Fljótsheiðinni. Er ástæða til að minna ökumenn á að hafa augun á veginum.

 


Nýja Ísland, hvar ert þú?

DSC_0320

Hrunveturinn 2008 - 2009 var okkur erfiður. Fótunum var kippt undan okkur. Þjóðin fattaði að hún hafði verið blekkt og svikin.

Þessi erfiði vetur var samt ekki alslæmur. Mikil umræða var um stjórnmál og gildi. Tilfinningaþrungnar og vekjandi ræður bárust út í frostið á Austurvelli á fjölmennum mótmælafundum. Fólk ræddi af brennandi áhuga um siðferði og þjóðmál á mannamótum. Það hittist á borgarafundum, stórum sem smáum.

Fólk var ekki sammála en það vildi samt snúa saman bökum. Það var vongott, þrátt fyrir allt. Það var í og með fegið.

Við föttuðum ekki bara svikin og blekkingarnar. Við sáum að síðustu árin hafði þjóðfélagið okkar verið klikkað.

Við söknuðum gamalla og góðra gilda og vildum endurvekja þau. Við vildum búa til nýtt Ísland. Afmá það gamla. Reka út illu andana en blása inn öðrum betri.

Nú er pottaglamrið þagnað. Allt er að færast í sama horfið.

Græðgisöflin eru að ná yfirhöndinni aftur.

Þau halda sínu. Peningar þeirra eru þar sem þeim var komið fyrir rétt áður en allt hrundi. Fjölmiðlar þessara afla eru enn í eigu þeirra. Enginn hefur verið ákærður.

Og umræðan er að færast á 2007-planið.

Eitt dæmi um það er hvernig við erum farin að nota hugtakið "traust".

Fólk í Evrópu lagði peningana sína inn á Icesave-reikningana vegna þess að það treysti Landsbankanum. Það treysti íslenskum banka.

Þessi íslenski banki brást því trausti.

Fjárglæframennirnir allir eiga það sameiginlegt að þeir brugðust trausti.

Nú á að velta skuldum þessara manna yfir á íslenska alþýðu með þeim rökum að Ísland þurfi traust.

Þjóðin sem var svikin og svívirt á að kaupa traust handa þeim sem eyðilögðu traustið.

En traust er vandmeðfarið og brothætt.

Það er ekki traustvekjandi að láta þá leika lausum hala sem eyðilögðu traustið. 

Það er ekki traustvekjandi að láta þá í friði sem notfærðu sér traust annarra til að svíkja og pretta.

Þau stjórnvöld eru ekki traustvekjandi sem ljúga að þegnum sínum og fela sannleikann fyrir þeim.

Það ríki er ekki traustvekjandi sem er sjálfu sér sundurþykkt á örlagatímum í stað þess að sameinast um að koma sér út úr ógöngunum.

Það traust sem er keypt með því að velta skuldum græðgisaflanna yfir á saklaust fólk og ófæddar kynslóðir Íslendinga er ekki peninganna virði.

Ég endurtek það sem ég hef áður sagt:

Ísland hefur ekkert með traust að gera fyrr en búið er að vinna heimavinnuna.

Við þurfum að vera trú yfir smáu áður en við getum búist við að vera treyst fyrir öðru.

Á hinu nýja Íslandi þarf að endurvekja hinar gömlu og góðu dyggðir heiðarleika og réttlætis.

Nýtt Ísland þarf að sýna að það sé traustsins vert.

Myndin: Fundur í snæfellskri fjöru

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband