Færsluflokkur: Bloggar

Syngman Rhee lætur enn ófriðlega

DSC_0287 

Ég sakna gömlu flokksblaðanna.

Mogga og Vísis íhaldsins, Tíma kaupfélagsmannanna, Alþýðublaðs kratanna og Þjóvilja kommanna. 

Blöð sem komu inn um lúgurnar eins og þau voru klædd. 

Nú eru þetta bara auðmenn að rífast.

Við sjáum það kannski ekki, Íslendingar, en aðrir eru fyrir löngu búnir að sjá það, sbr. þessa frétt og þessa.

Bjöggarnir voru þar að auki búnir að kaupa sig langleiðina inn í RÚV.

Var það ekki séra Bjarni sem sagði á sínum tíma að á Akureyri vantaði bara KEA-merkið á kirkjuna?

Á Íslandi var túrbókapítalisminn búinn að eignast allt.

Nema kannski kirkjuna. Og VG.

Menn geta svo dundað sér við að finna út hvort þau fyrirbæri hafi átt eitthvað sameiginlegt.

Annað:

Maður þarf ekkert að hafa mikinn húmor til að geta brosað að ýmsu varðandi ESB.

Ég hló til að mynda pínulítið þegar ég las í morgun að meirihluti kjósenda VG væri á móti stefnu VG.

En auðvitað er það sjónarmið að segja að sækja þurfi um aðild að ESB til að hægt sé að meta hvort ganga eigi í ESB.

Samkvæmt því er í raun ekkert hægt að segja til um hugsanlega aðild Íslands að ESB nema þegar aðildarsamningurinn liggur fyrir.

Engu að síður hafa báðir stjórnarflokkarnir býsna afdráttarlausa stefnu varðandi ESB.

Annar vill inn. Hinn ekki.

Þegar þeir halda því svo fram að ekki sé hægt að meta aðild nema þegar búið er að sækja um aðild finnst mér þeir gera lítið úr stefnunni sem þeir höfðu. Og vel má brosa að því.

Ég er líka viss um að sumir af stækustu andstæðingum ESB fagna mjög umsókn Íslands um aðild að ESB.

Þeir vita sem er að sjaldan eða aldrei hefur samningsaðstaða Íslands verið verri en núna.

Sennilega hafa aldrei verið meiri líkur á að íslenska samninganefndin komi heim með skítasamning, eða "rotten deal" eins og Össur orðar það.

Þá verða allir voða reiðir.

Og ekki eykur það líkur ríkisstjórnarinnar á að ná góðum díl við ESB að um það bil helmingurinn af ríkisstjórninni sem sótt hefur um aðild að ESB vill alls ekki ganga í ESB.

Það finnst mér eiginlega fyndnast.

Myndin: Blessuð sé minning Þjóðviljans sem gaf mér fyrirsögnina að þessu bloggi.


Markaðurinn ræður

DSC_0475

Hið umdeilda fjölmiðlafrumvarp var fyrsta þingmálið í lýðveldissögunni sem skotið var til úrskurðar þjóðarinnar allrar.

Nýlega tók Alþingi þá ákvörðun að sækja um aðild að ESB. Ekki þótti ástæða til að leita til þjóðarinnar um það mál. Þó segja margir það hið stærsta og afdrifaríkasta sem Alþingi hefur fjallað um.

Fyrir þinginu liggur líka samningur sem leggja mun drápsklyfjar á íslenska alþýðu og komandi kynslóðir.

Fátt bendir til þess að íslenska þjóðin verði spurð álits um það.

Taka ber fram að ekki kom til þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlafrumvarpið. Það var dregið til baka áður en til hennar kom.

Fróðlegt er að rifja upp fjölmiðlafrumvarpið sem sagt var árás á tiltekna auðmenn.

Það var reyndar varla frumvarp heldur breytingar á gildandi útvarpslögum.

Frumvarpið svokallaða má lesa hér.

Á þessu bloggi fann ég þessa ágætu sundurliðun á frumvarpinu:

  1. Í stað þess að Alþingi kjósi sjö í Útvarpsréttarnefnd skv. hlutfallskosningu mun Menntamálaráðherra velja einn og Hæstiréttur tvo í nefndina. Gerð er krafa um að nefndarmenn séu lögfræðingar. Þá er tekið fram að nefndinni sé heimilt að kalla sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila.
  2. Fyrirtæki sem eru með meginrekstur á öðru sviði en fjölmiðlun geta ekki fengið útvarpsleyfi.
  3. Fyrirtæki sem er að meira en 5% í eigu fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu í markaðsráðandi stöðu getur ekki fengið útvarpsleyfi. Undantekning á þessu er ef ársvelta fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu er undir tveimur milljörðum kr.
  4. Það er óheimilt að veita fyrirtæki útvarpsleyfi ef annað fyrirtæki eða fyrirtæki í sömu fyrirtækjasamstæðu eiga meira en 35% eignarhlut.
  5. Fyrirtæki sem á hlut í dagblaði getur ekki fengið útvarpsleyfi.
  6. Þeir sem hafa útvarpsleyfi þurfa að tilkynna útvarpsréttarnefnd um breytingar á eignarhaldi. Ef breytingar valda broti á ofangreindum reglum getur útvarpsréttarnefnd afturkallað útvarpsleyfi. Með þeim fyrirvara þó að leyfishafi fær 120 daga til að koma eignarhaldi í lag.
  7. Útvarpsréttarnefnd getur vikið frá skilyrðum 4. mgr. ef um er að ræða leyfi til svæðisbundins hljóðvarps.
  8. Samkeppnisstofnun þarf að fylgjast með hvort fyrirtæki hafi markaðsráðandi stöðu og láta útvarpsréttarnefnd í té upplýsingar um slíkt. Viðkomandi fyrirtæki skal veittur hæfilegur frestur til andmæla.

Sjálfsagt hefði mátt hafa þetta frumvarp einhvern veginn öðruvísi.

Það þarf samt held ég engan speking til að sjá að íslenskir fjölmiðlar hefðu fjallað á annan hátt um peningaglannana ef þeir hefðu ekki verið í eigu peningaglannanna.

Íslenskir fjölmiðlar brugðust í umfjöllun sinni um fjölmiðlafrumvarpið.

Þeir bruðgust líka í aðdraganda hrunsins. Þeir dönsuðu með peningavaldinu og hömpuðu útrásarvíkingunum. Þeir sáu ekki hættuna sem steðjaði að þjóðinni, heyrðu ekki gagnrýnisraddirnar og vöruðu skjólstæðinga sína, almenning, ekki við því sem í vændum var.

Á tímum fjölmiðlafrumvarpsins höfðu íslenskir fjölmiðlar engan áhuga á kjarna málsins.

Kjarni málsins var ekki Baugur eða Árvakur.

Kjarni málsins var ekki Davíð eða Jón Ásgeir.

Kjarni málsins var hlutverk fjölmiðla í nútímasamfélagi og hvernig búa eigi um hnútana til að þeir geti sinnt því sem best og mest.

Enn er stór hluti íslenskra fjölmiðla í eigu spillingaraflanna sem keyptu hér nánast allt, bæði fjölmiðla og heilu stjórnmálaflokkana.

Svokölluðum "styrkjum" stórfyrirtækja og auðhringa til stjórnmálaflokka hafa verið settar skorður.

Enn sem fyrr er takmarkaður áhugi á því að frelsa upplýsingagjöf til almennings undan oki auðvaldsins.

Ísland hrunsins var ofurselt markaðslögmálunum. Þar var sá guð sem allir skyldu lúta.

Afstaða Fréttablaðsins til fjölmiðlafrumvarpsins kemur ekki á óvart en á tímum þess var þetta sagt í leiðara blaðsins:

Þetta góða fólk virðist gleyma því að í lýðfrjálsu landi er dómur um fjölmiðla á degi hverjum kveðinn upp á hinum frjálsa markaði. Þeir miðlar sem standa sig ekki, þykja óspennandi, óvandaðir eða ótrúverðugir, tapa kaupendum og auglýsendum og lúta í lægra haldi fyrir vandaðri eða vinsælli miðlum. Um þetta eru nokkur nýleg dæmi á okkar litla fjölmiðlamarkaði, bæði hvað varðar dagblöð og ljósvakamiðla. Þetta hlutverk markaðarins eiga stjórnvöld eða stjórnmálamenn ekki að taka að sér, enda stríðir það gegn grundvallarreglum lýðræðisins.

Stjórnmálamenn eiga ekkert að vera að trufla markaðinn, sagði Fréttablaðið.

Markaðurinn á að fá að vera í friði, sagði Fréttablaðið.

Og svo sannarlega fékk markaðurinn að vera í friði fyrir Fréttablaðinu.

Myndina tók ég í Borgarnesi.


Landið elskað og glímt við Guð

DSC_0087

 

Þú skalt ekki halda að þeir sem elska land sitt hljóti að hata og fyrirlíta aðrar þjóðir og vilja stríð sem er ekki annað en arfleifð villimennskunnar.

Árið 1912 komu breskir jafnaðarmenn sér upp sínum tíu boðorðum.

Þau eru öll ágæt. Ofangreint er það níunda. 

Það er ekkert að því að elska landið sitt. Ættjarðarást gerir mann ekki að nasista eða einangrunarsinna.

Íslendingar elska landið sitt og það er ekkert hallærislegt við það.

Íslandi veitir ekkert af ást Íslendinganna.

Ekki síst í ljósi þess að Íslendingar eru svo sárafáir.

Ég elska Ísland. Ég elska fólkið sem býr þar. Ég elska málið sem það talar. Ég elska rigninguna og vindinn. Ég elska þessa fáu íslensku góðviðrisdaga. Ég elska íslensku ostana. Ég elska hamborgarana á Bautanum. Ég elska þetta íslenska mentalítet.

Boðorð breskra jafnaðarmanna sá ég í bók sem ég er að lesa. Hún heitir Glíman við Guð og er eftir Árna Bergmann  (ISBN 978-9979-657-40-8).

Ég nota tækifærið til að mæla eindregið með henni.

Glíman við Guð er að mínu mati besta trúvarnarbók sem skrifuð hefur verið á íslenska tungu. Ég efast reyndar stórlega um að Árni hafi skrifað hana sem trúvörn - en kannski þess vegna finnst mér hún svo góð í því.

Árni er skemmtilegur, fróður og kann vel að miðla því sem hann veit. Hann er bæði djúpur og sannur.

Myndin: Sólúrið í Kjarnaskógi.

 

 

 


Skoðað í ESB-pakkann

DSC_0028

Stjórnarflokkarnir höfðu mjög ólíka stefnu varðandi aðild Íslands að ESB.

VG vildi ekki aðild.

Samfylkingin vildi aftur á móti endilega inn og auglýsti fyrir kosningar að hún væri eini flokkurinn sem vildi í ESB.

Engu að síður náðu VG og Samfylkingin að lenda ESB-málinu í stjórnarsáttmála. Þar segir:

Ákvörðun um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði í höndum íslensku þjóðarinnar sem mun greiða atkvæði um samning í þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum. Utanríkisráðherra mun leggja fram á Alþingi tillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu á vorþingi. Stuðningur stjórnvalda við samninginn þegar hann liggur fyrir er háður ýmsum fyrirvörum um niðurstöðuna út frá hagsmunum Íslendinga í sjávarútvegs-, landbúnaðar-, byggða- og gjaldmiðilsmálum, í umhverfis- og auðlindamálum og um almannaþjónustu. Víðtækt samráð verður á vettvangi Alþingis og við hagsmunaaðila um samningsmarkmið og umræðugrundvöll viðræðnanna. Flokkarnir eru sammála um að virða ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild að Evrópusambandinu og rétt þeirra til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu í samræmi við afstöðu sína og hafa fyrirvara um samningsniðurstöðuna líkt og var í Noregi á sínum tíma. 

Ég setti feitletrun á þann hluta þessarar yfirlýsingar sem mér finnst athyglisverð í ljósi þess sem síðar varð.

Sumir þingmenn sáu ástæðu til að hnykkja á því atriði.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG, tók fram við stjórnarmyndunina, að hann styddi ekki tillögu um aðild að ESB, og áskildi sér rétt til að berjast gegn henni, innan þings sem utan.

Þann 10. maí er svo fjallað um þessa sátt stjórnarflokkanna á Vísi og sagt:

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG og fjármálaráðherra, sagði á blaðamannafundi í Norræna húsinu í dag að það væri vissulega málamiðlun sem einhverjir ættu erfitt að sætta sig. Flokkurinn væri áfram andvígur inngöngu í Evrópusambandið. Þá sagði hann þingmenn bundna sannfæringu sinni þegar kemur að því að kjósa um tillögu utanríkisráðherra.

Leturbreyting er mín.

Við vitum hvernig atkvæðagreiðslan á Alþingi gekk fyrir sig.

Þingmenn VG sem vildu kjósa samkvæmt sannfæringu sinni og standa við loforð við kjósendur sína voru beittir hótunum og sumir þvingaðir til að greiða atkvæði gegn sannfæringu sinni.

Þeir voru sakaðir um að brjóta stjórnarsáttmálann þrátt fyrir að þar segi að flokkarnir ætli að virða "ólíkar áherslur hvors um sig" í þessu máli.

Við vitum líka hvernig ESB-málið var kynnt þjóðinni af núverandi stjórnvöldum.

Í einhverjum tilfellum var talað um könnunarviðræður við ESB. 

Í öðrum um samningaviðræður. 

Sennilega oftast um aðildarviðræður við ESB.

Forðast var að tala um aðildarumsókn.

Málinu var stillt upp þannig að það væri verið að tékka á hlutunum.

Sjá hvað væri í pakkanum.

Skoða málin - til að þjóðin gæti tekið upplýsta ákvörðun þegar þar að kemur, eins og það var orðað.

Hún fengi að hafa síðasta orðið.

En um leið og Alþingi hafði samþykkt "viðræðurnar" kom annað hljóð í strokkinn.

Örfáum dögum eftir að Alþingi hafði samþykkt að skoða í ESB-pakkann segir Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, að "aðildarferli Íslands að Evrópusambandinu sé vel á veg komið".

Tveimur dögum síðar segir Össur Skarphéðinsson að hann vonist til þess að Ísland "verði formlega gengið í ESB innan þriggja ára".

Og atkvæðagreiðslan um ESB var varla búin þegar Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar og þingmaður VG, lýsir því yfir í viðtali við Reuters, að árið 2013 sé líklegasta inngönguár Íslands í ESB. 

Svona fara menn að því að "skoða í pakkann".

Ein hugmyndin var sú að leyfa þjóðinni að ráða því hvort hún vildi sækja um aðild að ESB.

Ekki þótti nú ástæða til þess. Talað var af lítilsvirðingu um svoleiðis hugmyndir.

Þjóðin var alltof vitlaus til þess.

Fjölmiðlar klifuðu á því að þetta væri "tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla".

Ekki var reiknað með að þjóðin hafnaði því að sækja um aðild.

Maður sér það alveg greinilega núna að ekki einu sinni er talinn möguleiki að þjóðin hafni ESB í "einfaldri" atkvæðagreiðslu.

Nýjustu fréttir eru svo þær að blessuðum Jóni Bjarnasyni líst orðið ekkert á aðfarirnar við að "skoða í pakkann".

Enda er Ísland komið hálfa leið ofan í hann.

Jón, sem er samkvæmur sjálfum sér og trúr stefnu flokks síns, vill "fresta umsóknarferlinu".

Viðbrögðin úr herbúðum samstarfsflokksins eru þau að Jón eigi að segja af sér.

Það telst víst "að virða ólíkar áherslur hvors um sig og rétt til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu í samræmi við afstöðu".

Myndin: Þingeyskur sumarnæturhiminn.

 


Sjálfsfyrirlitning þjóðar

Fjordur2006 028

Ráðamenn landsins eru ekki öfundsverðir. Þeir vinna undir miklu álagi. Sanngjarnt er að þeir njóti skilnings þjóðarinnar.

Þjóðin þarf að sýna stjórnmálamönnunum tilhlýðilega virðingu.

En sú virðing verður að vera gagnkvæm.

Stjórnmálamenn sem vanvirða þjóð sína munu ekki njóta virðingar hennar.

Og þar eru ein af hinum stóru mistökum íslenskra pólitíkusa.

Stundum finnst manni eins og þeir fyrirlíti eigin þjóð og hafi að leiðarljósi þau frægu ummæli úr viðskiptageiranum að fólk sé fífl.

Það var logið að þjóðinni í góðærinu. Útrásin sem stjórnvöld og fjölmiðlar kepptust við að mæra reyndist blekkingarleikur og svikamylla.

Þegar spilaborgin hrundi tóku stjórnmálamennirnir við lygakeflinu. Lygin heldur áfram.

Frá fyrstu stundum hrunsins hafa íslenskir stjórnmálamenn lítilsvirt og niðurlægt þjóð sína með lygum.

Þeir hafa orðið uppvísir að því að segja henni ekki satt. Þeir hafa stungið skýrslum undir stól. Enn eru að koma fram upplýsingar sem reynt var að halda leyndum og enn eru að finnast skýrslur og minnisblöð sem tengjast hruninu.

Ekki er nóg með að íslenska þjóðin hafi tapað sparnaði sínum og þurft að taka á sig stórkostlega lífskjaraskerðingu.

Þeir sem eiga að gæta hagsmuna hennar ganga gegn þeim. Þeirra pólitíski metnaður er þeim meira virði en hagsmunir almennings. Á þessum örlagatímum sér þjóðin engin merki þess að stjórnmálamenn hennar ætli að snúa bökum saman til að koma henni út úr hremmingunum.

Nei. Nú skal þvert á móti reynt að kljúfa þjóðina.

Nú skal upphefja klækjastjórnmál og bolabrögð.

Og stjórnmálamennirnir virðast ekki gera sér grein fyrir að Icesave-samningarnir snúast ekki bara um peninga.

Þeir snúast um stolt og sjálfsvirðingu.

Getur þjóð með snefil af sjálfsvirðingu látið kúga sig til að greiða skuldir sem hún stofnaði ekki til með peningum sem hún á ekki til?

Sú ráðstöfun að skella skuldum peningaglannanna á íslenska alþýðu kostar hana ekki bara fjármuni.

Það stelur af henni sjálfsvirðingunni.

En ef til vill er það markmið valdastéttarinnar í þessu landi?

Að hafa þjóð sem fyrirlítur sig sjálfa.

Ég verð ábyggilega áfram á þjóðlegu nótunum, er svo ofboðslega íslenskur eftir tónleika með Hinum íslenska Þursaflokki á Græna hattinum í gær. Myndina tók ég á hinn bóginn úti í Fjörðum sumarið 2006.


Í nafni örlaganna

D10603_400x300[1]

Sennilega er best að lýsa stefnu íslenskra stjórnvalda sem fatalískri.

Samkvæmt Stanford Encyclopedia of Philosophy er fatalismi það álit að við getum ekki gert annað en það sem við gerum.

Það séu örlögin. Það séu engir aðrir kostir.

Aðeins ein leið sé fær og allt annað útilokað.

Fyrir tæpum mánuði sagði Jóhanna Sigurðardóttir að ríkisstjórnin hefði ekki átt um annað að ræða en að gera Icesave-samninginn.

Takið eftir: Hún sagði ekki bara að ríkisstjórnin hefði þurft að semja um Icesave. Í viðtali á Eyjunni þann 30. júní segir hún að ríkistjórninni hafi verið nauðugur kostur að gera þennan samning.

Annar samningur kom hreinlega ekki til greina.

Hann varð að líta svona út.

Nú þegar ríkisstjórnin er búin að gera samning sem var ekki hægt að hafa öðruvísi heldur fatalisminn áfram.

Nú beinist fatalisminn ekki að ríkisstjórninni heldur Alþingi Íslendinga.

Þar sagði sama Jóhanna í dag að ekki væri kostur í stöðunni fyrir Alþingi að fella samninginn, samkvæmt RUV.

Svo kemur gullkornið "...enda hafi verið skrifað undir hann með fyrirvara um samþykki Alþingis."

Ríkisstjórnin gerir samning sem ekki var hægt að hafa öðruvísi en hann er.

Undir hann er skrifað með fyrirvara um samþykki hins háa Alþingis.

Þegar hann kemur fyrir Alþingi hefur það svo ekki annan kost en að samþykkja hann eins og hann er.

Þetta er fatalismi.

Fatalistarnir leynast víða og ekki vantar lýsingarnar á því hvað gerist ef við förum ekki einu leiðina þeirra.

Í Fréttablaðinu þann 26. júní er fyrirsögn:

Stríðsástand gæti skapast verði Icesave hafnað

Þar segir Þórólfur Matthíasson, prófessor við HÍ, að Alþingi verði að samþykkja Icesave-samninginn.

Annars fær Ísland hvergi fyrirgreiðslu. Annars fara fyrirtæki unnvörpum í þrot. Annars verður Ísland sett á sama stall og Kúba og Norður-Kórea, segir prófessor Matthíasson.

"Þetta er alveg hrikalega ljót sviðsmynd sem þá kemur upp," bætir hann við.

Svo segja menn að Icesave og ESB tengist ekki!

Fengi Kúba aðild að ESB? Eða Norður-Kórea?

Í Morgunblaðinu 29. júní kemur fatalismi stjórnvalda enn við sögu.

Þar er spjallað við Steingrím J. Sigfússon sem segist nálgast málið af æðruleysi og síðan er bætt við:

Örlögin hafi falið honum að greiða úr þessari skelfilegu stöðu og það hafi hann reynt að gera eftir bestu samvisku.

Og sannið til:

Þegar búið verður að neyða Icesave ofan í okkur í nafni örlaganna koma þeir og segja að Ísland hafi enga aðra leið en að ganga í ESB.

Steingrímur J. Sigfússon er hvorki fyrsti né síðasti valdamaðurinn í veröldinni sem talar í nafni örlaganna.

Myndin: Í heimi fatalistans er bara einn takki virkur. Annað hvort já eða nei. Eftir því sem hentar.


Iðrunarlaus þjóð

DSC_0016

Iðrun er tabú Íslands.

Hér iðrast enginn.

Ekki útrásarvíkingarnir.

Ekki þjóðin. Ekki við.

Og ekki stjórnmálamennirnir.

Ísland hrundi en enginn gerði nein mistök. Það var engum að kenna.

(Nema kannski sumum - nefnum engin nöfn.)

Við höfum aldrei verið lagin við að viðurkenna mistök, Íslendingar.

Hinn íslenski vísifingur er á hinn bóginn léttur þegar þarf að benda á aðra.

Kannski var sá hroki ein skýringin á hruninu?

Við höfum alltaf verið léleg í að iðrast.

En iðrun er stórkostlegt fyrirbæri.

Án iðrunar heldur sama siðleysið bara áfram.

Iðrun er að hugsa málið upp á nýtt.

Sjá það út frá öðru sjónarhorni.

Iðrun er enginn aumingjaskapur. Hún er meira en eftirsjá.

Iðrun er dáð.

Iðrun er að brjótast út úr vananum. Því hefðbundna. Því sem alltaf hefur verið.

Iðrun er að byrja nokkuð nýtt.

Iðrun er þrá eftir þeim skapandi mætti sem endurnýjar manninn og læknar.

Iðrunarlaus þjóð er vonlaus þjóð.

Þjóðarátak í ærlegri iðrun er forsenda endurreisnarinnar.

Myndin: Í gær grilluðum við lamb á Vestmannsvatni. Ég notaði krydd af staðnum, blóðberg, einiber og berjalyng. Í morgun veiddi ég svo nokkra urriða í vatninu og bar á kvöldverðarborðið, kryddaða með fersku chili, steinselju og basil.


Vondu Reykjavíkurblöðin

hillbillies1[2]

Ég sé mikið eftir Degi gamla.

Hann birti nauðsynlegar fréttir af heimsóknum stórhættulegra aðkomumanna hingað til Akureyrar.

En stundum eru Reykjavíkurblöðin ekkert síðri.

Í Fréttablaði dagsins, sem ríka fólkið í Reykjavík borgar fyrir okkur af rómaðri rausn, er pistill undir yfirskriftinni Vondar vegasjoppur.

Þar er fundið að því að byggðir séu nýir veitingaskálar úti á landi.

En svoleiðis á að sjálfsögðu ekki heima nema í Reykjavík.

Eða eins og segir í pistlinum:

Þetta er bara enn ein birtingarmyndin af hugsunarhætti síðustu ára. Ekkert mátti vera til ára sinna komið, gamalt var ekki flott. Þetta var ömurleg þróun. Þegar stoppað er í nýja Staðarskálanum verður maður þess lítið var að maður sé úti á landi, maður gæti allt eins verið á N1 bensínstöð í höfuðborginni eins og í Hrútafirði. Ég veit ekki með aðra, en þegar ég loksins slepp úr borginni langar mig ekki að finnast eins og ég sé bara í Ártúnsholti.

Myndin: Þessa dagana spilar hinn vinsæli tónlistarflokkur Vaskir sveinar á dansiböllum í höfuðstað Norðurlands.

 


Lýðræðið á undir högg að sækja

olafsfjordur

Í nýjasta Hrafnaþinginu á ÍNN lýsti Ingvi Hrafn einlægri hrifningu sinni á atkvæðagreiðslunni um ESB á Alþingi.

Hann taldi hana ljómandi birtingarmynd lýðræðisins.

Það var ekki endilega niðurstaða atkvæðagreiðslunnar sem gerði hana svona frábæra, ef ég hef skilið Ingva Hrafn rétt, heldur það hvernig atkvæðin voru greidd.

Þingmenn greiddu atkvæði þvert á flokkslínur.

Við þetta er ýmislegt að athuga.

Auðvitað á ekki að þvinga menn eða kúga til að taka afstöðu gegn eigin sannfæringu eða í bága við samvisku sína.

Það er ekki lýðræðislegt heldur andstyggileg gerð ofbeldis og kúgunar.

Ég trúi því ekki að nokkur vilji þvílíkt á landinu okkar.

Þó kvörtuðu menn einmitt undan skoðanakúgun í tengslum við þessa atkvæðagreiðslu sem Ingva Hrafni fannst svo unaðslega lýðræðisleg.

Og sumir þingmenn tóku beinlínis fram að þeir greiddu atkvæði gegn eigin sannfæringu.

En þó að þingmenn eigi að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni þýðir það ekki að þeir séu engum skuldbundnir nema sér sjálfum.

Við höfum ekki þingmannaræði á Íslandi.

Þingmenn eru ekki kosnir á þing út á sig sjálfa og eigin skoðanir.

Við höfum lýðræði á Íslandi.

Það lýðræði á undir högg að sækja á Íslandi í dag.

Við erum farin að skilgreina lýðræðið út frá þingmanninum.

Hvað finnst honum?

Hvernig líður henni?

Þingmenn eru ekki kosnir á þing til að svala sínum persónulega metnaði.

Menn sækja ekki um þingmennsku eins og önnur störf.

Menn læra ekki til þingmennsku.

Menn eru kosnir á þing.

Af kjósendum.

Kjósendur fela þingmönnum að framfylgja ákveðinni stefnu og vinna að framgöngu tiltekinna hugsjóna.

Þess vegna eru þingmenn á þingi.

Og það er lýðræði.

En það er gömul saga og ný að lýðræðið er brothætt og að því er ekki síst sótt á umbrotatímum.

Það er fyllsta ástæða til að minna á að lýðræði er ekki það að þingmennirnir fái að ráða eða flokkarnir fái að ráða.

Lýðræði er það fyrirkomulag að þegnarnir fái að ráða.

Myndin: Ég ók út í Ólafsfjörð í dag. Honum og fólkinu þar er ég svo sannarlega hjartabundinn.

 

 


Hví ganga menn daprir í geði?

DSC_0435

Ég hef verið að lesa Alþýðusöngbók Böðvars Guðmundssonar sem hefur að geyma söngva skáldsins, sálma, tækifæriskvæði og þýðingar (Uppheimar 2009).

Böðvar er í miklum metum hjá mér.

Þessi öðlingur kenndi mér í menntaskóla og hafði meiri áhrif á mig en hann grunar.

Eitt af mínum uppáhaldslögum er Næturljóð úr Fjörðum. Böðvar á bæði textann og lagið.

Ég er nú ekki meiri bógur en það að ég tárast nánast alltaf pínulítið þegar ég heyri þetta lag. Að minnsta kosti inni í mér og undantekningarlaust þegar blessunin hún Kristjana Arngrímsdóttir syngur það.

Svo hefur Böðvar gert marga gullfallega sálma.

Hér er lokaerindið úr ljóðinu Með brosi ég mína byrði eftir Jeppe Aakjær í þýðingu Böðvars.

Mér veitir ekkert af þessu versi eftir allan ESB og IceSave barlóminn.

 

Hví ganga menn daprir í geði

er Guðs bláa himin þeir sjá?

Mitt hjarta hamast af gleði

í hvert sinn er dögg sest á strá.

 

DSC_0441

Myndirnar með færslunni tók ég inni í Kjarna í gær.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband