Færsluflokkur: Bloggar

Nauðgun þingmanna og þjóðar

DSC_0225

Samkvæmt orðabókinni minni sem hefur dugað mér ágætlega (Íslensk Orðabók handa skólum og almenningi í ritstjórn Árna Böðvarssonar, Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík 1983) þýðir orðið "nauðgun" það að neyða og kúga.

Í þeirri merkingu er hægt að tala um að nauðga einhverjum til að gera eitthvað, segir orðabókin.

Séu þingmenn neyddir eða kúgaðir til að taka afstöðu gegn eigin sannfæringu í málum er því verið að nauðga þeim til þess samkvæmt Íslenskri Orðabók handa skólum og almenningi.

Ekki get ég gagnrýnt Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni í ESB-málinu.

Mér finnst líka afleitt ef varaformanni Sjálfstæðisflokksins hefur verið nauðgað til að greiða ekki atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni í þessu máli.

Eða ef þingmenn Borgarahreyfingarinnar ákváðu að greiða atkvæði þvert á eigin sannfæringu út af öðru máli.

Er hægt að tala um að fólk nauðgi sjálfu sér?

Og auðvitað er það nánast ófyrirgefanlegt ef þingmönnum VG hefur verið nauðgað til að svíkja sjálfa sig og kjósendur sína varðandi umsókn Íslands um aðild að ESB.

Umsókn Íslands um aðild að ESB byrjar ekki vel.

Stór hluti þingmanna virðist hafa kosið gegn sannfæringu sinni, andstætt stefnu flokks síns og þvert ofan í það sem þeir sögðu kjósendum sínum fyrir kosningar.

Umsókn Íslands er óhrein umsókn.

Þar við bætist að umsókninni var hálfpartinn logið að þjóðinni.

Gefið var í skyn að þetta væri engin alvöruumsókn

Einungis væri verið að kanna hvað væri í boði.

Það væri bara verið að sækja um til að fá að kíkja í pakkann.

Það ætlaði enginn í ESB.

En nú er að koma á daginn að þetta var ekki nema í mesta lagi hálfsannleikur.

Ballið er rétt að byrja.

Þannig talar Þorsteinn Pálsson í Fréttablaði dagsins:

Af málflutningi margra talsmanna VG má ráða að þeir líta svo á að með atkvæðagreiðslunni á Alþingi á fimmtudag hafi þeim tekist að koma þessu máli aftur fyrir sig. Það er ekki svo. Nú tekur þetta mál fyrst við af fullri alvöru.

Með því að naugða skoðunum, svíkja kjósendur og ljúga að þjóðinni tókst að fá Alþingi til að sækja um aðild að ESB.

Hin formlega umsóknar Íslands um aðild að ESB var ekki í mörgum orðum en niðurlagið er mjög athyglisvert í ljósi ofangreinds.

Please accept, Mr. President, the assurances of our highest consideration.

Myndin: Þessir bæklingar urðu nýlega á vegi mínum.


Kraftbirting lýðræðisins

DSC_0430

Lýðræðið getur tekið á sig skemmtilegar og óvæntar myndir.

Þannig er það lýðræði að láta kjósa sig á þing með því að vera á móti ESB - en sækja svo um aðild að ESB þegar maður er kominn á þing.

Það er víst líka lýðræði að halda alveg æðislega ræðu gegn ESB í gær - en vera svo ekki á móti því að sótt sé um aðild að ESB í dag.

Það er lýðræði að leyfa ekki þjóðinni að segja sitt um það hvort sækja eigi um aðild að ESB.

Hinir háu herrar og frúr kalla þá einföldu atkvæðagreiðslu "tvöfalda".

Gera með öðrum orðum ekki ráð fyrir að þjóðin geti ósköp einfaldlega hafnað því að sótt verði um aðild að ESB.

Líka þótt kannanir bendi eindregið til þess.

En svona er víst lýðræðið.

Lýðræðið lýsir sér líka þannig að undanfarna mánuði hefur þjóðinni verið sagt að hún geti ekki tekið vitræna afstöðu til ESB nema hún sæki um aðild að ESB.

Og þó að hún sæki um aðild að ESB sé ekki þar með sagt að hún ætli að ganga í ESB.

Sumir sögðu okkur að þeir væru algjörlega á móti því að ganga í ESB en ætluðu samt að sækja um inngöngu í ESB fyrir lýðræðið.

Núna segja þeir okkur að þessi könnunaraðildarumsókn endi sennilega með því að Ísland verði komið í ESB árið 2013.

Svona er nú lýðræðið.

Samt er engin ástæða til að óttast þó að vegir lýðræðisins séu ófyrirsjáanlegir.

Það er búið að segja okkur að ekki verði gengið í ESB án þess að þjóðin greiði um það atkvæði þegar þar að kemur.

Reyndar höfnuðu þeir því í dag að sú atkvæðagreiðsla yrði bindandi.

Hún er bara ráðgefandi.

En þannig er lýðræðið.

Meirihlutinn ræður ekkert endilega.

Í ákveðnum tilfellum er vissara að leyfa honum bara að gefa góð ráð.

Myndin: Enginn þarf að vera hissa á því þótt lýðræðið sem stendur á þessum göngustíg sé orðið frekar óljóst því það er búið að traðka á því í mörg ár.


Stjórnmálamennirnir bregðast þjóðinni

DSC_0406

Á sínum tíma þótti það tilræði við lýðræðið að hleypa fjölmiðlalögunum svonefndu ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Margir þeirra sem héldu því fram segja það núna tilræði við lýðræði að vilja fá þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Og bæta því við að Icesave-samningurinn eigi ekkert erindi í atkvæðagreiðslu þjóðarinnar.

Hún sé of vitlaus til að taka afstöðu í svoleiðis.

Við lifum á viðsjárverðum tímum.

Við horfum upp á þingmenn kúgaða til að taka afstöðu gegn eigin sannfæringu.

Við horfum upp á stjórnmálamenn panta sér þóknanlega afgreiðslu embættismanna.

Við horfum upp á stjórnmálaflokka svíkja kjósendur sína.

Þessa dagana eru stjórnmálamenn að vísu ekki í öfundsverðu hlutverki.

Ég verð samt að viðurkenna að samúð mín með þeim fer ört minnkandi.

Mér finnst þeir vera að bregðast þjóðinni.

Aldrei hefur verið meiri þörf á að þeir snúi bökum saman en núna. Aldrei hefur þjóðin haft meiri þörf fyrir sameiginlegt og samstillt átak þeirra.

Þess í stað gefa stjórnmálamennir þjóðinni langt nef.

Treysta henni ekki. Halda upplýsingum leyndum. Stinga skýrslum undir stóla og skrökva að fólki.

Og virðast gera allt sem þeir geta til að sundra þjóðinni.

Bara ef þeir geta náð sínu fram.

Myndin: Þessi burnirót (ég vona að ég greini jurtina rétt) vex á gamla bænum á Þverá í Laxárdal. Bærinn er í mjög góðu ástandi og alltaf jafn snyrtilegt að koma heim að Þverá.

 


Davíð að kenna

CSC_0121

Það var Davíð sem sagði að við ætluðum ekki að borga skuldir óreiðumanna svo Bretarnir gátu ekki annað en sett á okkur hryðjuverkalög.

Hryðjuverkalögin voru því Davíð að kenna.

Það var Davíð sem skrifaði undir yfirlýsingu þess efnis að við ætluðum að borga skuldir óreiðumanna svo við gátum ekki annað en samþykkt Icesave samninginn.

Icesave-samningurinn er Davíð að kenna.

Bankahrunið var Davíð að kenna.

Kreppan er Davíð að kenna.

Davíð að kenna.

Davíð.

Nýjustu fréttir af málinu:

Samkvæmt Árna Þór Sigurðssyni er neikvæð umsögn lögfræðinga Seðlabanka Íslands um Icesave-samninginn getiði hverjum að kenna?

Jú, þið eigið kollgátuna:

Davíð.

Lögfræðingar Seðlabankans reyndust vera "drengirnir hans Dabba" - dulbúnir sem lögfræðingar Seðlabankans.

Og í þessari færslu setur Egill Helgason fram einhverja alskörpustu davíðssamsæriskenningu seinni tíma:

Davíð vill beina Icesave-deilunni inn í íslenska dómkerfið vegna þess að þar er nánast hver einasti dómari "...handvalinn af honum sjálfum" eins og segir í bloggfærslu sem Egill birtir og telur vera eftir einn skarpasta bloggara landsins.

Vá.

Að lokum ber að taka fram að telji menn að ég og aðrir hljótum að vera með Davíð á heilanum er það að sjálfsögðu einvörðungu honum sjálfum að kenna.

Myndin: Svarfaðardalur, öndvegi íslenskra dala, eins og hann birtist af sólpalli tengdaforeldra minna. Stóllinn og Skíðadalur.


Nýtt og betra Ísland

DSC_0335

Gungur geta verið með ýmsu móti.

Eitt eiga þær þó sameiginlegt.

Þær líta helst ekki í eigin barm.

Það sem aflaga fer er ekki þeim að kenna.

Einhverjir aðrir bera ábyrgð á því.

Manneskjan er snillingur í að koma sér hjá því að skoða sig sjálfa.

Sá sem vill láta um sig muna, sá sem vill verða til blessunar, sá sem vill koma einhverju til leiðar verður að byrja á því að líta þangað þar sem allar sannar breytingar byrja:

Í eigin barm.

Þetta eiga ekki síst kristnir menn að vita.

Til þess að breyta veröldinni þarf að breyta mönnunum.

Og við breytum ekki öðru fólki.

En við getum breytt okkur sjálfum.

Sæluboðin eru einn af mínum uppáhaldstextum.

Alltaf þegar ég les þau bætist eitthvað við skilning minn á þeim.

Sæluboðin hjálpa mér við að breyta mér, þroska mig og bæta mig.

Og veitir ekki af.

Ég er sannfærður um að ef við tileinkum okkur sæluboðin höfum við stigið fyrsta og mikilvægasta skrefið að nýju og betra Íslandi.

 

Sælir eru fátækir í anda
því að þeirra er himnaríki.
Sælir eru syrgjendur
því að þeir munu huggaðir verða.
Sælir eru hógværir
því að þeir munu jörðina erfa.
Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu
því að þeir munu saddir verða.
Sælir eru miskunnsamir
því að þeim mun miskunnað verða.
Sælir eru hjartahreinir
því að þeir munu Guð sjá.
Sælir eru friðflytjendur
því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir
því að þeirra er himnaríki.
Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.

(Matteus, 5, 1 - 12)

Myndin: Vel fer á því að láta mynd af fallegasta útsýni landsins fylgja pistli um nýtt og betra Ísland. Myndina tók ég eitt kvöldið í síðustu viku. Ég var að koma framan úr Laxárdal og stoppaði í mynni hans. Leit norður yfir Aðaldal. Þar sjást hraun, tún, engi, sandar, ár, lækir, heiðar, fjöll, haf, flói, ásar, hvammar, hólar, bæir og kindur, svo nokkuð sé nefnt.


Góð þögn og hættuleg

vestmannsvatn04

Í síðustu færslu tilkynnti ég flótta minn frá fjölmiðlum og borgaralegu líferni.

Síðan þá hef ég lifað eins og "kóngur í eggi" austur á Vestmannsvatni.

Þar réri ég um vatnið, fylgdist með fuglum, lá í sólinni, veiddi silung, fór í göngur og grillaði hamborgara að hætti smáborgara.

Vestmannsvatn er unaðsreitur. Staðurinn er í eigu Þjóðkirkjunnar sem hefur rekið sumarbúðir á Vestmannsvatni í bráðum hálfa öld.

Sumarbúðareksturinn hefur reyndar verið með dálítið öðru sniði þetta sumarið.

Nú um helgina er Lúthersk hjónahelgi með mót á Vestmannsvatni og í næstu viku dvelja þar fornleifafræðingar sem eru að róta í moldinni í næsta dal, Þegjandadal.

Í næsta mánuði hefst fermingarskóli á Vestmannsvatni.

En mikið var gott að losna við argaþrasið. Ég hlustaði held ég einu sinni á fréttir þessa tæpu viku mína eystra.

Þó getur þögn fjölmiðla verið áhyggjuefni.

Þar á bæ verða menn að standa vaktina.

Fjölmiðlarnir brugðust í hruninu. Auðvitað líka bæði stjórnvöld og eftirlitsaðilar og allra helst túrbókapítalistarnir en fjölmiðlarnir stóðu sig ekki.

Þeir vöruðu okkur ekki við.

Þeir dönsuðu græðgispolkann með peningavaldinu.

Þeir hömpuðu glönnunum.

Nú heyrir maður að fjölmiðlar eigi að vera góðir við núverandi stjórn því hún standi í svo voðalega erfiðum flórmokstri.

Ég minni á að ríflega helmingurinn af núverandi stjórn er þá að moka eigin skít þaðan.

Ég minni líka á það sem Egill Helga hefur sagt, að fjölmiðlar eigi alltaf að vera í stjórnarandstöðu.

Það var heilmikið til í því hjá Agli.

Líka þó að hann hafi ekkert meint þetta því eftir að núverandi stjórn tók við bregður svo við að Egill vill ekki vera í stjórnarandstöðu lengur.

Nú tekur hann undir að menn eigi að vera góðir við stjórnina. Hún eigi svo bágt.

Sé einhvern tíma ástæða til að veita valdinu aðhald, hvar sem það er að finna og hvort sem um er að ræða stjórn eða stjórnarandstöðu, er það á örlagatíma.

Og hafi einhvern tíma verið örlagatími er það núna.

Þessi stjórn ætlar til dæmis að lemja í gegn að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu fyrir sumarfrí.

Annar stjórnarflokkurinn ætlar að svíkja kjósendur sína í því stórmáli.

Þingmenn eru beittir kúgunum til að ná fram réttri niðurstöðu.

Og þessi ríkisstjórn virðist ekki eiga sér neina ósk heitari en þá að láta þjóðina og komandi kynslóðir borgar ofurskuldir sem ekki er víst að hún eigi að borga.

En við skulum ekki styggja stjórnvöld því þau eiga svo voðalega bágt.

Efri myndin sýnir Vestmannsvatn úr Múlaheiði en á þeirri hér að neðan er horft til sumarbúðanna úr Höskuldsey (sem sést á þeirri efri).

vestmannsvatn03


Sumir mega ekki tala

Vestmannsvatn02

Mál málanna í dag er ekki Icesave.

Mál málanna er það sem Davíð Oddssyni finnst um Icesave.

Undanfarið hef ég lesið fjölda greina eftir gamla refi úr pólitíkinni, vinstri menn og hægri menn, sem hafa fjallað um Icesave.

En þegar Davíð Oddsson tekur til máls virðast sumir tryllast.

Ummælamet eru slegin á Eyjunni.

Viðtalið er í Mogganum í dag en nú þegar hafa fjölmiðlamenn skrifað helling af greinum gegn Davíð. Sumar með persónulegu skítkasti eins og við var að búast.

Ég er ekki búinn að lesa viðtalið en viðbrögðin eru dæmi um þöggunina sem er í gangi í samfélaginu.

Hér leyfast helst ekki nema sumar skoðanir.

Í morgun las ég blogg reynds fjölmiðlamanns.

Sá er ekkert að skafa utan af því.

Davíð á ekki að opna á sér túlann, segir þessi málsvari lýðræðislegrar umræðu á Íslandi.

Að sjálfsögðu er málfrelsið á Íslandi ekki fyrir alla.

Og ábyggilega verð ég sakaður fyrir Davíðsdýrkun fyrir að halda þessu fram.

Enda ætla ég að flýja bæinn og fjölmiðlana.

Næstu vikuna dvelst ég á Vestmannsvatni.

Vestmannsvatn er í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu.

Þar er ég í paradís á jörð.

Með gönguskóna, veiðistöngina, myndavélina og gítarinn.

Og til að fullkomna glæpinn er ekki loku fyrir það skotið að einhverju verði hent á grillið um helgar.

Myndin er frá Vestmannsvatni.

 


Að kaupa sér traust með því að níðast á þjóðinni

glerardalur1

Fréttablaðinu er stungið inn um blaðalúguna hjá mér nánast hvern einasta morgun.

Ekki hef ég beðið um þetta blað. Það berst mér án þess að ég þurfi að borga krónu fyrir það.

Það eru aðrir sem borga fyrir Fréttablaðið.

Það eru aðrir sem reiða fram stórar fúlgur til þess að ég geti lesið það sem stendur í  Fréttablaðinu.

Sumir hafa haldið því fram að tengsl séu á milli þessara velgjörðarmanna minna og þeirra sem fóru glannalega í útrásinni svokölluðu með þeim afleiðingum að þjóðarbúið lagðist á hliðina.

Nú er þetta blað einkum helgað greinum sem ætlað er að sannfæra mig um að ég og aðrir borgarar þessa lands eigum að borga fyrir skuldirnar sem glannarnir stofnuðu til í útlöndum.

Okkur er hótað öllu illu ef við borgum ekki.

Við einangrumst. Það vill enginn eiga samskipti við okkur. Við seljum ekki neitt.

Við erum siðlausir aumingjar ef við borgum ekki skuldir glannanna - segir Fréttablaðið sem fjármagnað er með peningum glannanna.

Í dag fjallaði leiðari Fréttablaðsins um það að borga þyrfti skilanefndarmönnum Landsbankans góð laun. Nefndarfólkið ætti helst að vera á prósentum.

En Icesave-skuldunum skal skellt á almúgann.

Enda skilst mér á Sighvati Björgvinssyni að Icesave-skuldirnar séu í raun tilkomnar vegna bílakaupa íslensks almennings - en grein þar að lútandi birtist við hlið leiðara Fréttablaðsins í dag.

Sighvatur telur ekki nema rétt mátulegt á Íslendinga að þeir axli meiri drápsklyfjar en Þjóðverjar í Versalasamningunum.

Íslendingar keyptu sér allt of flotta bíla.

Þjóðverjar komu þó ekki af stað nema einu stykki heimsstríði.

Grátlegust er þó grein kollega míns, Halldórs Reynissonar, sem birtist í Fréttablaðinu fyrir nokkrum dögum.

Hún ber yfirskriftina "Icesave - verðmiði á traust".

Og það grátlegasta sést strax í þeim orðum.

Halldór sér ekkert athugavert við það að menn kaupi sér traust.

Hann talar um verðmiða á því.

Hann beinlínis hvetur okkur til þess að kaupa okkur traust með því að taka á okkur skuldir sem margir telja að við ráðum ekki við.

Við höfum held ég lítið lært ef við höldum að traust sé hægt að kaupa fyrir peninga.

Og enn minna ef við höldum að traust sé hægt að kaupa fyrir peninga sem við eigum mjög sennilega ekki.

Og ekki ber það vott um sterkt siðferði ef menn telja að Íslendingar geti áunnið sér traust með því að níðast á eigin þegnum.

Siðlausir menn hafa ekkert með traust að gera.

Dæmin sýna að þeir nota traustið til að svíkja aðra og pretta.

Má ég frekar biðja um heiðarleika og réttlæti.

Þá getur verið að fólk fari að treysta okkur.

Og svoleiðis traust fæst hvorki keypt né er falt.

Myndin: Núna í góðviðrinu örkuðum við félagarnir glaðbeittir fram á Glerárdal með ekkert á bakinu nema kexpakka, tvo Svala og bílalánin okkar.

 


Rangur maður

liljur

Ég er einn af ranga fólkinu.

Þjóðfélagið er alltaf að meta okkur. Við erum vigtuð eins og lömb af fjalli. Þessi árátta sást um leið og við fæddumst.

Ég get alveg skilið að fólk vilji fá að vita hvort nýfætt barn sé strákur eða stelpa. Hitt finnst mér meiri ráðgáta hvers vegna þyngd barnsins skiptir svona óskaplega miklu máli. Það er sennilega eitt fyrsta matið sem á okkur er framkvæmt.

Fæðingarsögur eiga það sameiginlegt með veiðisögum að þar skiptir þyngdin máli. Og í báðum tilfellum er stuðst við fremur exótískar þyngdareiningar. Mörk og pund.

Vigtunin á fæðingardeildinni er bara upphafið. Næstu mánuðina erum við vigtuð og metin.

Hver er þroskinn? Hvenær byrjaði hann að tala? Hvenær hætti hún á brjósti? Hvernig gengur að venja hann af snuði? Hvenær byrjaði hún að ganga?

Hann byrjaði að lesa löngu á undan henni.

Svo förum við í skólana, þær ógurlegu matsfabrikkur.

Við undirgöngumst alls konar próf og mat þegar við sækjum um vinnu. 

Mörg önnur gæði fáum við ekki án þess að ganga í gegnum einhvers konar mat á hæfileikum okkar og getu.

Svo leggjum við mat á okkur sjálf. 

Spurt er: Hvernig upplifir þú þig? Hvernig talar þú við þig?

Lögð er áhersla á að við þekkjum okkur sjálf, uppgötvum hæfileika okkar, könnumst við drauma okkar og reynum að láta þá rætast.

En ljónin í veginum eru mörg. Þau eru ekki síst annað fólk.

Eitt af því undarlegasta í veröldinni er sú staðreynd að óhamingjan er aðeins í örfáum undantekningartilfellum þeim að kenna sem fyrir henni verða. Hún er nánast alltaf öðrum að kenna.

Hin vigtuðu lömb verða fórnarlömb.

Leiðin liggur beint í sláturhúsið.

Alltaf er verið að hlunnfara okkur um eitthvað.

Við vorum of fáar merkur þegar við fæddumst og verðum of mörg kíló þegar við deyjum.

Við syndum alltof hægt í sundkennslunni.

Við ösnuðumst í vitlaust nám, réðum okkur í vitlausa vinnu og höfum of lágt kaup.

Við keyptum bíl sem bilar og hús sem lekur.

Eða hús sem bilar og bíl sem lekur.

Þjóðsöngurinn er:

"Ég er rangur maður...."

Menning okkar er óánægjumenning þar sem stanslaust er alið á fórnarlambamentalíteti.

Orð Jesú úr Matteusarguðspjalli:

Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil!

Myndin: Þessar liljur vaxa við bæjarlæk tengdó í Svarfaðardal.


Svona eiga þrjótar að vera

kirkjusteinn

Þegar Bretar settu á okkur hryðjuverkalögin sællar minningar var það víst helst Davíð Oddssyni og Árna Matt að kenna.

Davíð á að hafa sagt það berum orðum í alræmdu Kastljósviðtali að við Íslendingar ætluðum ekki að borga neitt.

Árni ku hafa sagt það sama í heimsfrægu símtali við elsku fjármálaráðherra þeirra Breta.

En þar með var ekki öll sagan sögð.

Nú slá fjölmiðlar því upp (og sumir á forsíðu) að ekki hafi verið nóg með að þeir félagar Davíð og Árni hafi þverskallast við að borga skuldir óreiðumanna heldur hafi þeir líka skrifað undir samning þess efnis að Íslendingar ætluðu að borga skuldir óreiðumanna.

Þar með er upplýst að það var DO og ÁM að kenna að hryðjuverkalögin voru sett á okkur Íslendinga

- vegna þess að þessir herramenn ætluðu ekki borga skuldirnar -

og þar að auki er það DO og ÁM að kenna að við þurfum að borga Icesave

- vegna þess að þessir sömu herramenn ætluðu borga skuldirnar.

Svona menn kunna sko að vera þrjótar.

Myndin: Þessa dagana er ekki vanþörf á að biðja fyrir sér og sínum. Það gera margir við Kirkjustein í Kjarnaskógi.

PS

Vegna viðbragða við þessu bloggi birti ég hér þessa skilgreiningu:

"Irony is an implied discrepancy between what is said and what is meant."

Lesandinn hafi það í huga.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband