Færsluflokkur: Bloggar
28.6.2009 | 10:18
Hvíldardagspistill
Óttinn er einn helsti drifkraftur neyslusamfélagsins. Fjölmiðlar ala á ótta til að örva neysluna. Við erum alltaf að missa af einhverju. Við þurfum vera viðstödd þennan atburð. Við þurfum að eignast þennan hlut.
Annars gengur gullið tækifæri okkur úr greipum.
Mennirnir eru dægurflugur. Líf þeirra er stutt og því er um að gera að lifa þessu stutta lífi vakandi.
Daginn út og inn er verið að vekja okkur. Svefninn er orðinn okkar helsti óvinur - enda kaupir sofandi maður ekki neitt.
Svefninn er öruggt flot að feigðarósi.
Svefninn er forsmekkur dauðans.
Það er orðið stórhættulegt að leggjast til svefns.
Og eins gott að vara sig á hvíldinni.
Þess vegna eiga þessir fáu hvíldardagar sem enn eru til undir högg að sækja.
Þegar við sofum lokum við skilningarvitunum sem við notuðum meðan við vorum vakandi. Við notum hvorki augun né eyrun. Við setjum þau á "hóld". Við leggjum okkur sjálfum og gefum okkur á vald algleymisins.
Svefn útheimtir trú.
Okkur gengur betur að sofna ef við gerum það í þeirri trú að við munum vakna aftur. Ekki sé neitt að óttast þó að hvorki augun né eyrun séu í notkun. Það sé allt í lagi að gera ekkert nema að taka á móti andlegri og líkamlegri næringu hvíldarinnar.
Í svefninum og hvíldinni erum við þiggjendur. Að því leyti kennir svefninn okkur margt um það hvernig við eigum að vaka.
Vakendur geta margt lært af sofendum.
Að vera vakandi er ekki bara að hafa uppglennt og brýnd skilningarvit. Að vera vakandi er ekki það sama og að missa ekki af neinu og njóta alls.
Að vera vakandi er líka fólgið í því að geta sett sig á bið. Að vera vakandi er líka að kunna að þiggja. Vera óttalaus og sátt. Bægja frá sér áhyggjum. Treysta núinu.
Sofandi og vakandi þurfum við að vera móttækileg fyrir blessandi áhrifum.
Myndin: Kvöldsól í Eyjafirði.
Bloggar | Breytt 14.7.2009 kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.6.2009 | 10:29
Alveg satt
Það er hægt að efast um alveg ótrúlega margt.
Nú á dögum er pínulítið í tísku að efast um Guð. Eða himnaríki.
Það er gott.
Það eru góð meðmæli með fyrirbæri ef hægt er að efast um það.
Ég get til dæmis efast um ástina.
Svo er hægur vandi að efast um vináttuna, heiðarleikann og einlægnina svo önnur dæmi séu tekin.
Þegar grannt er skoðað er hægt að efast um flest af því sem skiptir máli.
Og Guð hjálpi þeim sem hefur aldrei efast um sjálfan sig.
Sannleikurinn er ekki borðleggjandi, ískaldar og óvéfengjanlegar staðreyndir.
Sannleikur sem stendur undir nafni liggur ekki á neinu borði.
Hann verður ekki sannur fyrr en þú lyftir honum upp af borðinu og kemur honum fyrir í hjarta þínu.
Það verður satt þegar þú hefur tileinkað þér það og gert það hluta af þér sjálfum.
Einkenni á almennilegum sannleika er að þú verður að gjöra svo vel að taka afstöðu til hans.
Þú verður að velta honum fyrir þér.
Sé það alvöru sannleikur verður þú að hafa fyrir honum.
Ef þú efast um eitthvað gæti það því verið vísbending um að það sé alveg satt.
Myndin: Kaldbakur og blámóðufylltur Eyjafjörðurinn eins og sú dýrð blasir við úr Naustaborgum.
Bloggar | Breytt 14.7.2009 kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.6.2009 | 16:54
Sæl og blessuð!
Íslenskan á fallegar kveðjur. Þegar við heilsumst og kveðjumst óskum við hvert öðru sælu og blessunar.
Einhvern tímann las ég lærða grein um málform á heilsum og kveðjum. Þegar við segjum "blessaður!" við einhvern erum við að gera meira en að óska honum blessunar.
Málform kveðjunnar er hálfmagískt. Það er eins og blessunin sé á einhvern hátt fólgin í kveðjunni.
Mörgum sinnum á degi hverjum blessum við annað fólk eða fáum blessun þess en hugsum sjaldnast út í það.
Við látum ekki nægja að skiptast á blessandi orðum heldur notum við ákveðna líkamsparta til að miðla blessuninni. Við lyftum höndum og sýnum opna lófa. Eða nuddum saman lófum í handtökum.
Það er engin tilviljun. Í sögu trúarbragðanna henta opnir lófar vel til að gefa frá sér lífgefandi orku og til að taka við henni.
Blessunin á sér margar uppsprettur. Nú þegar er hásumar finnum við vel kraftinn sem til okkar streymir úr umhverfi okkar. Hrein, óspjölluð og fögur náttúra hefur blessandi áhrif á okkur. Það eru mikil lífsgæði að geta notið slíks.
Guð blessi ykkur öll!
Myndin: Undanfarnar vikur hef ég haft þetta tré fyrir augunum. Það hefur alveg ótrúlegan karakter.
Bloggar | Breytt 14.7.2009 kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.6.2009 | 11:27
Góður kennari og Guð
Skólar landsins hafa flestir lokið störfum. Vinkona okkar var að útskrifast úr háskóla og í gærkvöldi samfögnuðum við hjónin henni og eiginmanni hennar.
Til hamingju, Yrsa!
Hvað gerir kennara góðan?
Er það spurning um hvernig honum gangi að kenna námsefnið?
Veltur það kannski ekki síður á því hvernig hann kemur fram við nemendur sína?
Eða má orða það þannig að enginn geti í raun kennt námsefni nema hann komi vel fram við nemendur?
Kennarar þurfa að kunna ýmislegt fyrir sér.
Um leið er kennsla fag sem ræðst af persónu kennarans. Sumir kennarar hafa það í sér að vera kennarar.
Þegar ég lít til baka eru mínir bestu kennarar þeir sem hafa látið mig finna að ég sé mikilvægur og dýrmætur í öllu sem þeir sögðu og gerðu. Þeir báru virðingu fyrir mér sem einstaklingi og höfðu lag á að láta mér líða eins og ég væri eitthvað.
Ef til vill er það þetta sem gerir kennara góðan: Hann hlustar ekki bara á börnin. Hann hlustar á barnið. Hann gerir sér grein fyrir að ekki eru öll börn eins. Hann reynir ekki að steypa þau í sama mótið. Hann veit að þau hafa mismunandi þarfir og hæfileika. Hann veit að ekki er hægt að gera sömu kröfur til þeirra allra. Hann veit að ekki dugar sama kennsluaðferðin á þau öll og það er heldur ekki hægt að nota sama námsefnið á þau öll - hvað þá sömu prófin.
Góður kennari veit að það er ómögulegt að nota einhverja eina leið til að börnin uppgötvi hæfileika sína og finni þeim farveg.
Góður kennari er að þessu leyti eins og góður Guð.
Guð kristindómsins er persónulegur. Hann lætur sér annt um persónur. Hann lítur ekki á manninn sem hjól í gangverki. Við erum ekki kennitölur í augum hans.
Hann þekkir mig. Hann veit hver ég er. Hann gerir sér far um að nálgast mig. Hann sér hvað í mér býr. Hann veit hvað er mér fyrir bestu. Hann hefur áhuga á mér.
Hann vill vera félagi minn.
Og kennari.
Myndin: Fossinn Glanni í Norðurá var í sumarskapi þegar ég hitti hann á föstudaginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.6.2009 | 11:00
Hælismatur
Vikurnar á Reykjalundi eru orðnar tvær og dvöl mín þar hálfnuð.
Ég finn mikla framför. Þrek og styrkur er að aukast jafnt og þétt, hægt og bítandi.
Það er indælt að vera á Reykjalundi.
Vinur minn, Steini Gunnars, er með aumingjabetri mönnum. Eitt kvöldið sótti hann mig "á Hælið" eins og hann orðaði það og ók með mig upp í Mosfellsdal. Þaðan skunduðum við á Þingvöll og treystum vor heit áður en ekið var um Grafninginn heim og Steini skilaði vini sínum aftur "á Hælið".
Mikið var þetta falleg leið og Steini skemmtilegur ferðafélagi og vinur í raun.
Ég fór að hugsa um þetta orð, "hæli".
Hefur það ekki dálítið neikvæðan hljóm?
Samkvæmt orðabók er hæli mjög fallegt orð. Hæli er skjól og athvarf.
Menn eiga sér hæli. Fólk leitar hælis.
Og góðir vinir eru góð hæli.
Oft er talað um hæli í Biblíunni.
Í síðari Samúelsbók segir:
Guð minn, hellubjarg mitt þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns,
háborg mín og hæli, frelsari minn sem bjargar mér undan ofríki.
Og í 34. Davíðssálmi:
Finnið og sjáið að Drottinn er góður,
sæll er sá maður sem leitar hælis hjá honum.
Í Sálmi 52 er þekkt týpa til umfjöllunar:
Þetta er maður sem leitaði ekki hælis hjá Guði
heldur treysti á auðsæld sína
og þrjóskaðist í illsku sinni.
Ekki eru hælin alltaf jákvæð athvörf, sbr. þessi orð úr spádómsbók Jesaja:
Þá mun hagl sópa burt hæli lyginnar
og vatnsflóð skola burt skjólinu.
Það hefur ekki breyst að enn á lygin á sér ótal hæli og svikarar skjól.
Reykjalundur er hæli í þess orðs bestu merkingu. Staðurinn er fyrirmyndardæmi um íslenska velferðarkerfið. Þar vinnur elskulegt fólk í öllum stöðum.
Og kokkurinn á Reykjalundi fær fimm stjörnur fyrir frábæran hælismat.
Myndin: Einn daginn fórum við í fjallgöngu. Helgafell var klifið. Hér er horft niður á Reykjalund úr hlíðum Helgafells. Hafravatn er í baksýn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.6.2009 | 15:42
Leit og trú
Ég hef verið að fletta ágætu riti míns gamla kennara, dr. Einars Sigurbjörnssonar. Það nefnist Credo. Kristin trúfræði (Reykjavík 1989).
Í síðustu bloggfærslu talaði ég um að grátur barns birti trú. Þá trú að einhver sé til sem geti annast barnið.
Er dr. Einar ekki að fjalla um trúna á svipuðum nótum í ofangreindu riti?
Þar segir hann m. a.:
Þeir sem afneita gildi spurninga um merkingu og tilgang eru fyrirfram vantrúaðir á, að hægt sé að finna svör við þeim og afgreiða því slíkar spurningar sem markleysu. Hinir sem aftur á móti telja unnt og jafnvel skylt að leita svara við þeim spurningum, gera það í trú á, að það sé unnt að fá svar við þeim. (Bls. 40)
Spurning hlýtur alltaf að vera borin fram í þeirri trú að hún eigi sér svar.
Trúin er því ákveðin "frumkennd" eins og dr. Einar orðar það. Allir trúa einhverju. Líka þeir sem telja sig trúlausa.
Það er ekki rétt sem sumir halda fram að trúaður maður geti hætt að spyrja. Hann þurfi ekki að efast.
Aðeins trúlausir menn sjái ástæðu til að spyrja og velta hlutunum fyrir sér - eins og stundum er gefið í skyn.
Sá sem spyr og hlýtur þvert á móti að trúa. Sá sem er leitandi gerir það í trú. Hann trúir því að leitin geti borið árangur. Hann trúir því að hann geti fundið.
Dr. Einar orðar þetta þannig:
Og trú er að sínu leyti undirstaða þekkingar, því að sá sem leitar þekkingar verður að trúa því, að þekkingu sé auðið að finna. (Bls. 41)
Þessa dagana er ég á Reykjalundi í endurhæfingu. Þar er frábært að vera. Ég legg mikið á mig enda fullur trúar á að mér geti farið fram.
Ég verð ekki við tölvu fram að næstu helgi.
Myndin er úr Kjarnaskógi en ég er heima um helgar. Þá fæ ég mér gjarnan labbitúr inni í Kjarna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.6.2009 | 11:57
Grátbænir
Nýfætt barn hefur engu áorkað.
Ekki komið neinu í verk - nema því að fæðast sem reyndar er heilmikið afrek.
Ungbarn hefur engin markmið. Það lifir ekki einu sinni frá degi til dags heldur frá mínútu til mínútu.
Við segjum að börnin séu óskrifuð blöð. Fullorðna fólkið er ekki óskrifað.
Við erum þvert á móti þéttskrifuð. Við gerum áætlanir. Við höfum áform. Við eigum drauma og þrár. Við lifum ekki frá mínútu til mínútu. Heldur ekki frá degi til dags. Við lifum fyrir það óorðna. Það sem enn er ókomið.
Þess vegna höfum við áhyggjur. Þess vegna erum við kvíðin. Við höfum áhyggjur af því að framtíðin verði ekki eins og við vorum búin að ákveða að hún yrði. Við kvíðum því að eitthhvað gæti komið fyrir sem ýtti okkur af lífsstefnu okkar.
Lítil börn eru ekki áhyggjufull og heldur ekki kvíðin. Þau hugsa ekki um framtíðina. Þau lifa í núinu. Þau eru ánægð ef einhver annast þau í núinu.
Lítil börn lifa lífinu sem þiggjendur. Þau vita ekki margt. Þau vita samt nóg. Þau vita að þau eru upp á aðra komin.
Þess vegna kunna þau að gráta. Grátur ungbarns segir:
"Nú þarf að sinna mér."
Gráturinn er tenging barnsins við umheiminn.
Grátur barns er á vissan hátt trúarjátning þess. Barnið grætur í trú.
Barnið grætur í þeirri trú að grátur þess hafi þýðingu.
Hvert tár birtir þá trú barnsins að einhver sé til sem geti annast það.
Myndin: Eilífðar smáblóm með titrandi tár.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.6.2009 | 12:58
Afturenda snúið að friðarboða
Æðstu embættismenn þjóðarinnar eru hræddir við að hitta friðarboðann Dalai Lama.
Sagt er að þeir séu hræddir við Kínverja.
Auðvitað eru þeir ekkert hræddir við Kínverja.
Ég er viss um að þeir hefðu ekki hræðst Kínverja ef Kína væri ekki talinn mikilvægur markaður.
Þeir hagsmunir eru látnir ráða - í þessum efnum sem öðrum.
Þannig var þetta hér í aðdraganda hrunsins og það hefur lítið breyst.
Við erum ofurseld valdi kapítalismans og peninganna.
Það sést glögglega á því hvernig ráðamenn þjóðarinnar taka á móti Dalai Lama.
Um leið og þeir hneigja höfuð sín fyrir peningavaldinu sýna þeir Dalai Lama á sér óæðri endana.
Myndin: Þessar hófsóleyjar brostu til okkar göngufélaganna á leið okkur niður með Gleránni í gær.
ES
Ég verð ekki mikið við tölvuna næstu daga. Bloggið verður sennilega stopult á meðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.5.2009 | 13:07
Nýtt Ísland á gömlum gildum
Í upphafi hrunsins var talað um að verkefnið framundan væri ekki eingöngu efnhagslegs eðlis. Ekki bara ákveðin tegund hagfræði hefði brugðist heldur ætti kreppan sér hugmyndafræðilegar ástæður. Hún kom vegna þess að hér varð siðferðisbrestur.
Talað var um Nýja Ísland og um leið nefndu menn gömul gildi sem þyrfti að endurvekja. Hið nýja Ísland var alla vega að hluta til byggt á því gamla sem týndist í óðærinu.
Nú hafa þessar raddir að mestu þagnað. Einar Már er hættur að skrifa í blöðin. Skáldin eru farin að grilla og rithöfundarnir búnir að taka upp gömlu krimmahandritin. Innblásnar ræður heyrast ekki lengur á Austurvöllum þjóðlífsins og risottó kraumar í mörðum pottum búsáhaldabyltingarinnar.
Nú eru það hagfræðingarnir sem eiga sviðið og reglulega flytja fjölmiðlar okkur boðskapinn frá greiningardeildum bankanna. Lífið er að verða 2007 aftur.
Gamla útrásin brást en ný útrás er í smíðum; nú liggur leiðin til Brussel. Þar á Ísland að sjálfsögðu að vera stórast og bestast. Það mun meðal annnars móta nýja sjávarútvegsstefnu fyrir Evrópu.
Ég hef verið að lesa samræðu heimspekingsins Giorgio Baruchello og hagfræðingsins Valerio Lintner. Hana er að finna í fimmta bindi bókaflokksins Death and Anti-Death (Palo Alto: Ria Press, 2007).
Þar ræða þeir m. a. um hamingjuna. Giorgio bendir á að eitt af einkennum nútímans sé röng skilgreining á hamingjunni. Það sé sérstaklega augljóst fyrir mann eins og hann sem er menntaður í forn- og miðaldaheimspeki. Á þeim tímum var málið ekki það að fullnægja löngunum heldur miklu frekar að minnka þarfir (reducing needs, not satisfying wants).
Það ástand að fá aldrei nægju sína var martröð í hugum miðaldamanna. Aðeins sá heimski ánetjaðist slíkum lífsháttum - sem voru nánast til fyrirmyndar í óðærinu.
Nú tala menn gjarnan um hinar "myrku miðaldir" - og vissulega var myrkur þeirra mikið og margvíslegt.
Myrkur okkar tíma er líka óskaplega þétt og hver veit hvernig þeirra verður minnst af komandi kynslóðum.
En við getum margt lært af miðöldum.
Og ef til vill er það lífsspursmál fyrir okkur að endurheimta skilning miðalda á hamingjunni?
Eða að hafa þennan texta í heiðri sem er enn eldri:
Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?
Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil!
Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.
(Jesús Kristur í 6. kafla Matteusarguðspjalls)
Myndin: Þessi regnbogi tyllti sér á innanverðan Eyjafjörðinn í gær.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.5.2009 | 00:02
Trunt, trunt taktkjaftur
Ég minni fólk á að í dag, 29. maí, hefst heimsmeistaramótið í taktkjafti í Berlín.
Taktkjaftur er listgrein en líka íþrótt.
Í taktkjafti framleiða menn tónlist með kjaftinum eins og nafnið gefur til kynna en styðjast að auki við innyflin í sér og andvörp.
Góðir taktkjaftar eru á við heilar hljómsveitir.
Að sjálfsögðu eru Íslendingar meðal keppenda á taktkjaftamótinu.
Bjartur frændi (eða Beatur) keppir í Advancement Class og ég sendi honum magnaða strauma yfir hafið.
Ennfremur eigum við Íslendingar glæsilegan taktkjaftaflokk í liðakeppninni.
Þess má geta að í Svarfaðardal tala menn um að stallkjafta. Staup eru stallkjöftuð þegar þau eru tæmd í einum teyg. Stallkjöftun er því líka vandasöm íþrótt og heil listgrein þegar best lætur.
Íslenskir taktkjaftar fá baráttukveðjur frá bloggi Svavars Alfreðs.
ÁFRAM ÍSLAND!
Myndin: Taktfastar og kröftugar úthafsöldur á Snæfellsnesi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)