Færsluflokkur: Bloggar

Vanþakklætið og vantrúin

grjot

Eitt af því sem trúin getur blásið okkur í brjóst er þakklætið.

Þakklætið er einn öflugasti óvinur neysluhyggjunnar.

Það er sama hversu mikið af peningum þú kemst yfir, ef þú kannt ekki að þakka þá sem þú átt verður þú alltaf fátækur. Það er sama hversu mikið þú borðar, ef þú sérð aldrei ástæðu til að vera þakklátur fyrir matinn verður þú sísvangur. Og það er sama hversu frábær þú ert í alla staði, ef þú þakkar ekki fyrir það sem þér er gefið verður þú alltaf lúser.

Nú á dögum telst fátt þakkarvert. Það er púkó að þakka það sem við höfum. Það er asnalegt að vera auðmjúkur. Það er á hinn bóginn kúl að sætta sig ekki við það sem maður hefur ekki. Það er flott að vera með uppsteit og vesen.

Við eigum ekki að hugsa um fiskana sem komu í netið. Við skulum frekar ergja okkur yfir fiskunum sem fá að synda óáreittir um í sjónum.

Við skulum ekki hugsa um daginn í dag. Höfum frekar sverar áhyggjur af morgundeginum.

Í kreppunni berja allir lóminn og eiga voða bágt. 

Og verða þannig ákjósanleg skotmörk fyrir þá sem bera ábyrgð á kreppunni.

Vanþakklætið og vantrúin hneppa okkur í fjötra neysluþrælkunarinnar.

Þetta fjörugrjót í Hvalvatnsfirði bendir á snilld Skaparans.


Trú og neysla

plasttharfir

Fjörugar umræður hafa verið um síðustu bloggfærslu en þar hélt ég því meðal annars fram að tengsl væru á milli efnishyggju og neysluhyggju og einnig trúleysis og neysluhyggju.

Til nánari útskýringar birti ég hér tvær tilvitnanir.

Sú fyrri er í grein eftir hagfræðinginn Kamran Mofid. Hún skýrir sig held ég sjálf.

We cling to the notion that contentment is obtained by the senses, by sensual experiences derived from the consumption of material goods. This feeds an appetite of sensual desire. At the same time we are led to view others as our competitors, scrabbling for the same, limited resources as we are. So we experience fear -- the fear of losing out, the fear that our desires will not be satisfied.

We can observe that the whole machine of expanding capitalism is fueled by two very strong emotions: desire and fear. They are so strong that they appear to be permanent features of our condition. Yet many religious traditions have taught us that, since these emotions are based on ignorance, a misconception of reality, they can be removed by the true understanding of reality. According to religion, happiness is an inner or divine experience available to anyone, rich or poor. Fundamentally, there is nothing that we lack. By developing the mind, our inner qualities, we can experience perfect wholeness and contentment. If we share with others, we will find that we are not surrounded by competitors: others depend on us as we depend on them.

Greinina má sjá í heild sinni hérna

Seinni tilvitnunin er í sjálfan mig - hvorki meira né minna.

Þar ræði ég um þarfir en í neysluhyggjunni er mjög höfðað til mannlegra þarfa og segi:

Ef við skoðum lítillega þörf mannsins hugmyndasögulega sést að upplýsingin og líberalisminn töldu frelsun mannlegra þarfa undirstöðu menningarlegra framfara. Menn áttu að viðurkenna sig sem þurfandi, ekki að bæla niður þarfir sínar. Raunar eiga bæði kapítalisminn og sósíalisminn þessa afstöðu til þarfa mannsins sameiginlega: Maðurinn þarf og hann þarf að verða meðvitaður um þarfir sínar. Kapítalistinn segir manninn þurfa að þurfa til að sjá ástæðu til að kaupa. Karl Marx sá fyrir sér fyrirmyndarríki þar sem öllum mannlegum þörfum yrði mætt.

Síðar komu fram menn sem gagnrýndu að gert væri út á þessi mið mannlegra þarfa. Jung kallaði kapítalismann þarfaörvunarhagkerfi og yngri sósíalistar skilgreina kapítalismann gjarnan þannig að hann leiði til ofgnóttasamfélags þar sem maðurinn er gerður að fórnarlambi neysluþarfa sinna. Þar gangi allt út á að kveikja nýjar þarfir, sem séu í raun ekki þarfir mannsins heldur þarfir framleiðslunnar. Herbert Marcuse taldi vestræn hagkerfi einkennast af andstæðunum milli sannra og falskra þarfa. Falskar taldi hann þær sem kveiktar eru með manninum til að undiroka hann og festa í sessi þrælkun, árásargirni, eymd og ranglæti, en sannar þær sem frelsa einstaklinginn frá slíku.

Maðurinn er augljós þarfavera í kristnum dómi. Hann íhugar eigin skort og sér að hann hvorki getur né kann á svo margan hátt. Ef til vill má segja að það sé öllum trúarbrögðum sameinginlegt að viðurkenna að maðurinn sé sjálfum sér ekki nógur. Engu að síður eru menn ekki á einu máli um hvers maðurinn þarfnist og á hverjum tíma hefur verið gerður greinarmunur milli raunverulegra og ímyndaðra þarfa hans. Kristnin á það sameiginlegt með mörgum öðrum hugmyndakerfum að þar hafa raunverulegar eða sannar þarfir yfirleitt verið skilgreindar sem góðar þarfir, þær sem eru manninum til heilla en ekki til bölvunar. Þörf mannsins er með öðrum orðum gildisbundið hugtak. Það sýnir til dæmis sú kristna hugsun að það sé ekki sönn þörf mannsins að eignast sem mest af því sem mölur og ryð fá grandað, heldur hafi hann miklu fremur þörf fyrir gleði þess heims sem koma skal. Kristnin styðst sem sagt við ákveðin gildi og ákveðið verðmætamat, en ekki bíókemísk lögmál, þegar hún greinir milli raunverulegra og ímyndaðra þarfa mannsins. Þess vegna er í kristni beint samhengi milli þess sem við þörfnumst og þess sem okkur ber.

Þessi orð eru úr erindi sem ég flutti á prédikunarráðstefnu Kjalarnessprófastsdæmis í Skálholti í nóvember 2003.

Skiltið hér að ofan sá ég í New York fyrir nokkrum árum.


Við erum andlegar verur

eyjafjordur

Eitt öflugasta trúboð nútímans er gegn trú. Enginn efi rúmast í hjörtum hinna sannfærðu andstæðinga trúarinnar. Eitt af því sem þeir keppast við að sannfæra okkur um er að það hljóti að vera minni sannfæring að vera sannfærður trúleysingi en sannfærður trúmaður.

Ofangreint trúboð gengur út á að sannfæra okkur um að Guð sé ekki til. Hann sé ímyndun ein og trúarþörf mannsins gerviþörf. Maðurinn sé ekkert nema líkaminn.

Ýmislegt í samtíð okkar tekur undir þá kenningu. Í neysluhyggjunni er maðurinn fyrst og fremst neytandi, notandi jarðneskra gæða. Hann er með maga sem þarf að seðja og kropp að klæða.

Flóknara er það nú ekki.

Hamingjan fæst með því að sinna þessum þörfum.

Trúboðum neysluhyggjunnar hefur orðið vel ágengt. Ein skýringin á hruninu er sú að við trúðum þeim en gleymdum því að hamingjan fæst ekki keypt. Hún er ekki fólgin í því efnislega.

Aldrei hefur verið brýnna en nú að andmæla þeim sem vilja telja okkur trú um að við séum bara blóð, kjöt og sinar.

Aldrei hefur verið mikilvægara að minna á að maðurinn er andleg vera.

Við erum ekki síður til andlega en líkamlega.

Við erum hluti af Guðs góðu sköpun. Við erum sköpuð í mynd hans. Við getum skynjað hann og átt við hann samfélag.

Hann er okkur miklu nær en við héldum.

Myndina hér að ofan tók ég í Guðs góðu sköpun frammi í Eyjafirði.


Myndir af Nesinu

Kom heim nú undir kvöldið úr einstaklega góðri ferð um Snæfellsnes. Ég þakka góðu fólki í Ólafsvík frábærar móttökur. Ég þakka Kór Akureyrarkirkju fyrir að hafa leyft okkur hjónunum að þvælast með í ferðina. Og síðast en ekki síst þakka ég Skaparanum fyrir Snæfellsnes. Myndirnar tala sínu máli um það meistarastykki.

bardur

Bárður Snæfellsás býður Norðlendinga velkomna.

olafsvik

Ólafsvík er vinalegur bær með indælu fólki. Þar var gott að dvelja.

arnarstapi

Eigi að velja fallegustu höfn í heimi hlýtur Arnarstapi að fá tilnefningu.

stykkisholmur

Og Stykkishólmur fær fjölda tilnefninga fyrir fegursta bæjarstæðið.

korinn

Kór Akureyrarkirkju í Skarðsvík. Hann fær ótal tilnefningar, m. a. fyrir best heppnaða kórferðalagið.


Ferðafuður á uppstigningardegi

DSC_0100

Uppstigningardag nýtum við hjónin til ferðalaga. Einkasonurinn er að fara að heiman og flytur til Dresden í Þýskalandi. Þar ætlar hann í háskóla.

Foreldrarnir fylgja honum landið á enda, alla leið til Keflavíkur, þaðan sem hann mun stíga upp með loftfari Air Berlin um miðnætti.

Ekki er flækingi okkar þar með lokið. Ólafsfirðingar hefðu kallað okkur hinar mestu ferðafuður.

Kór Akureyrarkirkju er á söngferðalagi um Dali og Snæfellsnes. Eftir að hafa kvatt stráksa eigum við randevú við heilan kirkjukór vestur í Ólafsvík en kórfélagar voru svo vinsamlegir að bjóða okkur með í túrinn.

Helginni eyðum við í að skoða náttúruperluna Snæfellsnes og njótum gestrisni íbúanna.

Svo fáum við að hlusta á besta kirkjukór í heimi og verðum í félagsskap við skemmtilegasta kirkjukór í heimi.

Myndina tók ég af uppstígandi einkasyninum og systrum hans úti í garði í gær. Honum var haldið samsæti í tilefni dagsins með grilluðu lambalæri og tilheyrandi. Ég slátra alikálfi þegar hann kemur heim.


Til varnar Drottni allsherjar

DSC_0005

Það getur verið bæði gaman og gagnlegt að ræða trúmál en við prestarnir föllum samt oft í þá gryfju að fara að verja Guð. Við tökum til varna fyrir Drottin allsherjar eins og lögfræðingur fyrir sakborning. Vísum jafnvel til framburða vitna og teflum fram tæknilegum atriðum.

Auðvitað þarf ekki að verja Guð. Hann er fullfær um það sjálfur.

Þeir sem það þekkja vita að fyrirheit hans standa. Bera má fram fyrir hann óskir mannsins og þrár, ótta hans og áhyggjur.

Hann hlustar og hann svarar.

Þegar framgangur tilverunnar verður ekki eins og við óskuðum og báðum um, þá er það ekki vegna þess að Guð sé miklu minni en við héldum.

Þvert á móti.

Þá bendir það til þess að Guð sé miklu meiri en við getum ímyndað okkur.

Hans bjargráð bregðast ekki.

(En nú er ég pínulítið farinn að verja Guð.)

Þessir þrír heiðurskönglar urðu á vegi mínum í Kristnesskógi í gær.


Skaufhalaskokk og skógargöngur

CSC_0028Nú í kreppunni sjáum við betur ýmis lífsgæði sem við vorum kannski ekkert sérstaklega að hugsa um í óðærinu eins og skáldkonan kallaði það.

Við sem búum á Akureyri njótum þess að eiga margar skemmtilegar gönguleiðir í næsta nágrenni bæjarins.

Þær eru með ýmsu sniði. Hægt er að stunda fjörulall, skógargöngur, fjallaklifur, árbakkabrölt eða þúfnahopp svo nokkuð sé nefnt.

Sem minnir mig á minn gamla kennara dr. Hallgrím Helgason sem fann íslenskt heiti á danstegundina foxtrot og nefndi að mig minnir skaufhalaskokk.

Hér er enginn vandi að skella sér í skaufhalaskokk líka sé fólk í þannig skapi.

Við félagarnir höfum verið hörkuduglegir í göngutúrum undanfarnar vikur. Stefnum á að ganga á Kerlingu í sumar. Alla vega Súlur. 

Í það minnsta upp á öskuhauga.

Við erum búnir að labba heilmikið inni í Kjarna og lítum hýru auga á nýja stíginn fram í Hvammsskóg. Einnig höfum við gengið um Naustaborgir. Þar var gaman að ganga. Fjölbreytt landslag, trjágróður, rjóður og klappir. Næst ætlum við að kanna gamla Gróðrarstöðvarskóginn.

Eyfirskur vinur sagði okkur að það væri engu líkt að ganga um skóginn fyrir ofan Kristnes. Því trúi ég vel og þar verður tekin hressileg ganga fyrr en síðar.

Í göngutúr kvöldsins hafði ég nýju myndavélina mína með mér. Hún er góður ferðafélagi. Hér að ofan má sjá flókaprúðar sinuþúfur í Kjarnaskógi.

ES

Var að lesa frábæra ræðu Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur. Hún passar ágætlega við þennan pistil og annað sem ég hef verið að krota hérna síðustu dagana. Lesið endilega ræðuna. Hún er á við góðan labbitúr.


Bænir og skipanir

krafaBænir eru stundum notaðar sem rök gegn tilvist Guðs og sagt: "Fyrst Guð lét mig ekki fá það sem ég bað hann um getur hann ekki verið til."

Bæn er sérstakt málform. Bæn er ekki skipun. Að biðja um eitthvað er ekki það sama og að heimta það. Bæn er ekki krafa.

Stundum er því haldið fram að bænir séu gagnslausar af því að þær bera ekki árangur.

Þær eru ekki nógu skilvirkar eins og það er kallað á okkar tímum.

Erum við í raun að tala um bæn ef við stillum því þannig upp að hún beri ekki árangur fyrr en við höfum öðlast það umbeðna?

Ef ég bið þig að lána mér þúsundkall get ég átt von á því að fá samþykki eða neitun.

Útiloki ég neitunina er ég ekki að biðja um neitt. Þá er ég að skipa þér að lána mér. Þá krefst ég þess að þú lánir mér. Heimta það.

Sá sem talar þannig við Guð er ekki að biðja hann. Hann er að skipa Guði.

Ef til vill er ekkert undarlegt að fólk nenni ekki trúa á þannig Guð. Guð sem verður að gjöra svo vel að hlýða manni. Taminn Guð sem búið er að senda á hlýðninámskeið.

En kannski vill nútíminn samt helst trúa á auðsveipan og meðfærilegan Guð.

Guð sem er ekki með neitt vesen og múður og gerir eins og honum er sagt.


Skrúftennur

tennurVið félagarnir fórum á flug á göngu okkar um Kjarnaskóg í gær.

Ég var nýbúinn að borða.

Máltíðin var að hluta enn föst uppi í mér.

Tennurnar í okkur mannfólkinu eru hreinlega ekki hannaðar nema fyrir sumar fæðutegundir.

Brauðmeti klístrast í öll hugsanleg tannabil.

 

Og við eitt sakleysislegt bros birtast heilu rækjusamlokurnar.

Kjöt er sömu náttúru. Tennur eiga að vinna á kjöti en stundum virðast þær ekki síður sólgnar í það en maginn.

Sá sem gæðir sér á hrossakjöti getur til dæmis átt von á því að þurfa að eyða deginum í að stanga og sarga það úr tönnunum. Þar safnast oft ótrúlegt magn slíkra matvæla.

Oft fá menn drjúga máltíð úr eigin tönnum án þess að vera vitund svangir.

Þess vegna fengum við félagarnir hugmynd um skrúftennur.

Af hverju hafa tannlæknavísindin ekki komið fram með svoleiðis?

Skrúftennur eru tennur sem maður skrúfar upp í sig. Líka er hægt að skrúfa þær úr sér. Fólk gæti átt nokkur sett af tönnum.

Skrúftennur eru svipaðar og takkar undir fótboltaskó. Malartakkar eru settir undir skóna á malarvöllum en grastakka nota þeir sem spila á grasi.

Á sama hátt ætti maður t. d. brauðtennur og steikartennur.

Sá sem ætlar að fá sér brauð og bakkelsi skrúfar upp í sig hnoðtennur með sérstakri áferð til að verjast hveitiklístri.

Hinn sem leggur sér til munns safaríka steik festir á hinn bóginn hárbeittar steikartennur í gómana. Tannbilið er gott til að kjöt festist þar síður. Tönn jafnvel ekki sett nema í annað hvert tannstæði.

Ekkert mál væri þó að ná því kjöti sem dagaði uppi í tönnunum.

Maður skrúfaði einfaldlega úr sér tennurnar og hreinsaði þær undir rennandi vatni.

Ég sé fyrir mér að veitingahús gætu boðið fólki upp á mismunandi tannasett.

Kúnnanir gætu kannski notað tennurnar sem þeir komu með á forréttinn en áður en aðalrétturinn væri á borð borinn kæmi þjónninn og leyfði fólkinu að velja sér hentug tannasett úr snotrum harðviðarkassa.

Ég ímynda mér að tennur eins og sjást á myndinni hér fyrir ofan gætu hentað vel á rómantískum kósíkvöldum þegar vínber, ostar, ritskex og rauðvín er annars vegar.

Þetta vorum við félagarnir að spjalla á kvöldgöngu okkar í Kjarna. Síðan fórum við og fengum okkur kók í gleri.

Við vorum sammála um að langbest væri að sötra gosið tannlaus.


Nýjar dyggðir: Lygi og svik

lygiFunheitir sunnanvindar bera góða gesti hingað norður yfir heiðar. Splunkuný ríkisstjórn ætlar að funda í höfuðstað Norðurlands. Komi hún fagnandi. Ég óska henni góðs gengis og Guðs blessunar.

Fleira flutti hnúkaþeyrinn að sunnan á þessum morgni, nefnilega fagnaðarklið fjölmiðlafólks vegna nýmæla í stjórn landsins.

Nýmælin eru þessi: Lögð verður fram á Alþingi tillaga um að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Stjórnarmeirihlutinn mun ekki samþykkja þá tillögu sem slíkur. Þingmenn eiga að greiða atkvæði samkvæmt samvisku sinni.

Fjölmiðlafólk á ekki til orð að lýsa aðdáun sinni á þessu fyrirkomulagi.

Í leiðara DV talar Jón Trausti um þingræðislega tilvistarkreppu stjórnarandstöðunnar og gamalgróna andstöðu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gegn þingræðinu og lýðræðinu.

Hann fagnar þessum skrefum frá "nöldurkeppni tveggja liða" í átt til lýðræðisumbóta.

Jón Kaldal er ekki síður glaður í leiðara Fréttablaðsins. Hann bendir á að umsókn að Evrópusambandinu sé þverpólitískt mál. Þar sé ekki um að ræða reiptog milli meirihluta og minnihluta. Afstaðan til aðildar fari ekki eftir flokkslitum.

Síðan segir Jón:

Þessi leið, að leggja málið í fang þingsins, er sem sagt athyglisverð vegna þess að í henni felst tækifæri fyrir flokkana til að hugsa út fyrir hefðbundinn ramma átakastjórnmálanna.

Egill Helgason er líka frá sér numinn. Í morgun skrifaði hann færslu á bloggið sitt undir yfirskriftinni Þrammað í takt og á þá ósk heitasta að hægt verði að "riðla flokkslínum í fleiri málum".

Tvennt finnst mér athyglisvert við þessi miklu gleðilæti fjölmiðlafólks.

Í fyrsta lagi lætur enginn ofangreindra manna þess getið að einungis einn stjórnmálaflokkur hefur lýst því yfir að þar muni allir flokksmenn greiða atkvæði samkvæmt flokkslínunni í þessu máli.

Sá flokkur er Samfylkingin.

Og Samfylkingin er ekki í stjórnarandstöðu.

Í öðru lagi virðast Jónarnir báðir og Egill gleyma því að hér voru nýlega kosningar. Þar voru flokkar í framboði. Og flokkarnir höfðu stefnur.

Fjölmiðlafólk lagði sig fram við að kynna okkur, kjósendunum, þessi stefnumál flokkanna.

Samfylkingin sagði kjósendum að hún vildi ganga í Evrópusambandið.

VG sagði kjósendum á hinn bóginn að flokkurinn vildi ekki ganga í Evrópusambandið.

Nú ryðst fjölmiðlafólk fram og segir stefnumálin í raun ekki skipta neinu máli.

Ég hef miklar efasemdir um að sækja um aðild að ESB. Engu að síður stend ég með Samfylkingunni í því að ljúga ekki að kjósendum.

Flokkurinn sagði kjósendum fyrir kosningar að hann vildi í Evrópusambandið. Ég veit að margir kusu Samfylkinguna vegna þess að hún vill í ESB. 

Flokkurinn er sjálfum sér trúr eftir kosningar. Og kjósendum.

VG vildi ekki í ESB og ég veit að margir kusu VG vegna þess að flokkurinn vildi ekki þangað.

Ætli flokkurinn að standa að því að Ísland sæki um aðild að ESB er hann að svíkja þá kjósendur sína.

Og auðvitað kemur ekki á óvart að hann uppskeri hrós fjölmiðlafólks fyrir slík svik.

Því finnst til fyrirmyndar að svíkja þá kjósendur sem eru ekki á sama máli og það.

Flokkslínum á að riðla - alla vega í sumum flokkum.

Afstaðan til ESB á ekkert að vera í neinum flokkslitum - nema þá í Samfylkingunni

Fjölmiðlarnir áttu sinn þátt í því að skapa það þjóðfélag sem leiddi til kreppunnar. Þeir lögðu sitt af mörkum við að upphefja græðgina sem dyggð.

Nú eru þeir byrjaði að dubba upp nýjar syndir og klæða þær í dyggðarskrúða:

Lygi og svik.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband