Færsluflokkur: Bloggar

Þjóðinni er ekki treystandi

Atferlisfræði ákvarðananna lítur einhvern veginn svona út:

  1. Þú skynjar aðstæðurnar
  2. Þú íhugar möguleg viðbrögð
  3. Þú finnur bestu viðbrögðin
  4. Þú grípur til aðgerða

Mér skilst að hingað til hafi fræðimenn talið þriðja stigið mikilvægast. Ekkert skipti meira máli en valið á réttu viðbrögðunum.

Nú eru menn farnir að efast stórlega um það - ekki síst í ljósi efnahagskreppunnar.

Kreppan er jú ein sorgarsaga rangra viðbragða, bæði fyrirtækja og stjórnvalda.

Nú beina menn athyglinni að fyrsta stiginu.

Ef til vill er ekkert mikilvægara en að skynja aðstæðurnar. Meta þær eins vel og framast er unnt.

Öll hin stigin hljóta að vera háð því hvernig okkur gengur á því fyrsta.

Nú getum við ekki metið allar aðstæður. Til þess er veruleikinn of flókinn.

Fjölmiðlar eiga að hjálpa okkur að meta veruleikann, skynja hann og gera okkur grein fyrir honum.

Ef við skoðum aðdraganda bankahrunsins á Íslandi held ég að fáir haldi því fram að fjölmiðlar hafi staðið sig vel í því að meta aðstæðurnar.

Fræðimenn féllu líka á því prófi eins og Ann Pettifor benti á í viðtali í Silfri Egils í gær.

Við vorum ekki vöruð við þeim rosalegu hættum sem fólust í ástandinu. Tækifærin voru á hinn bóginn hafin upp til skýjanna.

Umræðan var einhliða.

Valið sem Fréttablaðið efndi til á besta auðmanninum er eitt skýrasta og neyðarlegasta dæmið um það.

Ekki var tekið mark á þeim fáu sem vöruðu við ástandinu og lítið gert úr þeim.

Og nú virðist sagan vera að endurtaka sig.

Umræðan um Evrópusambandið er að mínu mati mjög einhliða.

Kostir þess að ganga í Evrópusambandið eru prísaðir en göllunum lítill gaumur gefinn.

Þeir sem efast um aðild eru sagðir einangrunarsinnaðir sveitamenn og þjóðernissinnar sem þiggja greiðslur frá kvótagreifum fyrir skoðanir sínar.

Þar að auki á þjóðin ekki að að fá að vera með á fyrsta stiginu í þessu máli.

Henni er ekki treystandi til þess.

Þau sem hæst hafa talað um aukið lýðræði og að færa eigi völdin til fólksins vilja ekki að þjóðin fái að ákveða hvort sækja beri um aðild að Evrópusambandinu.

Enda sýnir sagan að stjórnvöld þurfa ekki hjálp þjóðarinnar við að lesa vitlaust í aðstæðurnar.

Þau eru fullfær um það sjálf - með dyggri aðstoð fræðimanna og fjölmiðla.


Konfekt, magadans og skosk sjálfstæðishetja

magadansKirkjulistavikan hefur gengið mjög vel. Ég er búinn að blogga um negrasálmatónleika Hauks Ágústssonar og Daníels Þorsteinssonar.

Í hádeginu á miðvikudag hlustaði ég á þá félagana Eyþór Inga Jónsson, organista, og Hjörleif Örn Jónsson, slagverksleikara. Það voru líka frábærir tónleikar. Ótrúleg blanda af hljóðum.

Í gærkvöldi hélt Stúlknakór Akureyrarkirkju vortónleika sína. Þeir voru á léttari nótunum. Sungin var djassmessa og ýmislegt fleira.

Ég fékk ekki gæsahúð við að hlusta á stelpurnar, ég fékk gæsaskráp. Og hann er varla farinn af mér.

Séra Jóna Lísa hitti naglann á höfuðið þegar ég spjallaði við hana eftir tónleikana. Hún orðaði það þannig að þessa dagana ætti hún heima í konfektkassa. Það væri svo margt skemmtilegt og gefandi að gerast á kirkjulistaviku.

Og hann Eyþór Ingi, organisti og helsta driffjöður kirkjulistavikunnar, er þá súkkulaðiverksmiðja.

Ég guggnaði á því að fara á magadansnámskeiðið sem var á miðvikudagskvöldið. Er allur bróderaður að framan og ekki mikið augnayndi.

Námskeiðið tókst vel og hér fyrir ofan sést leiðbeinandinn, Líney Úlfarsdóttir, í fullum skrúða að kynna það á mömmumorgni. Myndina fékk ég á heimasíðu Akureyrarkirkju.

Einhverjir hafa verið að nöldra um að magandans eigi tæplega heima í kirkjunni. Ég er ekki sammála því.

Dansinn á sér trúarlegar rætur. Löngum hafa menn dansað við trúarlegar athafnir. Fjölmörg dæmi eru um trúarlegan dans í Gamla testamentinu og heimildir eru um helgidansa í guðsþjónustum frumkirkjunnar.

Dansinum var því miður úthýst úr kirkjunni. Andúðin á dansinum í kirkjunni á sér sömu rætur og andúðin á holdinu og konum.

Gregorsöngurinn er upprunninn í þeirri andúð - en það er efni í alveg sérstakt uppgjör.

Dr. Eluan Ghazal hefur skrifað bók um heilagar rætur magadansins.

Nú er kominn tími til að tengja, eins og Skriðjöklarnir sungu. Dansinn þarf að komast aftur inn í kirkjuna. Sátt þarf að nást milli þess holdlega og andlega í kirkjunni okkar.

Á morgun flytur dr. David Porter, dómkirkjuprestur í Coventry, erindi í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju um hið stórmerkilega friðar- og sáttargjörðarstarf kirkjunnar þar í borg. Það á sér stað víða um heiminn.

Maður að nafni Kenyon Wright kemur með dr. Porter hingað. Það er líka merkilegur maður, einn af frumkvöðlum skoskrar sjálfstæðisbaráttu. Ég hlakka mikið til að hitta hann.

Ég er viss um að hann getur sagt okkur ýmislegt um þá nýju íslensku sjálfstæðisbaráttu sem nú virðist framundan.


Þeir upplýstu hafa skoðun, hinum er borgað

840566volk_5100_3-12-08[1]Jón Baldvin Hannibalsson skrifar á bloggsíðu sína í dag að þeir sem fari hamförum gegn aðild Íslands að ESB séu aðallega einstaklingar sem fá borgað fyrir það.

Ef til vill er þessi fullyrðing svar við elítustimplinum sem reynt hefur verið að setja á háværustu stuðningsmenn þess að Ísland gangi í ESB. Titillinn á þessari færslu Jóns Baldvins styður það.

Umræða þar sem andstæðar fylkingar skiptast á stereótýpustimplum verður ekki til mikils gagns. 

Að lokum hrekkur hún upp af stimpilpúðunum.

Skiljanlega vilja talsmenn ESB-aðildar ekki láta flokka sig sem sem neina elítu.

Þó eru þeir alltaf að tala sig inn í hana. Hefja sig upp yfir pöpulinn, í hóp þeirra vitibornu og upplýstu.

Í pistli sínum segist Jón Baldvin Hannibalsson hafa skoðun. 

Og þeir sem hafi ekki sömu skoðun hafi í raun ekki skoðun.

Þeim sé bara borgað fyrir að segjast hafa skoðun.

Skoðanasystkin Jóns Baldvins hafa verið dugleg við að lýsa andmælendum sínum sem einangrunarsinnum.

Er það virkilega svo að þeir sem efast um erindi Íslands í ESB séu á móti alþjóðlegu samstarfi?

Vilja þeir einangrað Ísland?

Ég get ekki talað fyrir aðra en mig sjálfan en ég er eindreginn stuðningsmaður þess að Ísland taki af fullum krafti þátt í samstarfi þjóða.

En ég tel að Ísland eigi að taka þátt í samstarfi frjálsra, fullvalda og myndugra þjóða sem frjáls, fullvalda og myndug þjóð.

Nýjasti leikurinn í umræðunni er að gera hugtökin þjóð og þjóðerni að nánast hættulegum hallærishugtökum eins og má á þeim afturenda Fréttablaðsins sem snúið er að íslenskri þjóð á þessum degi.

Ef þú slærð inn þýska orðið yfir þjóð á gúgglinu og óskar eftir myndum kannast enginn við neitt nema felgur.

 


Vongleði

PICT0167[1]Í hádeginu fór ég á tónleika í Akureyrarkirkju. Haukur Ágústsson söng negrasálma við undirleik Daníels Þorsteinssonar.

Þetta voru flottir tónleikar. Vandaður söngur og píanóleikur. Þó var ekkert of niðurnjörvað fyrir þetta form tónlistar.

Gaman var að sjá hversu margir komu á tónleikana.

Haukur kynnti sálmana. Hann lætur sér ekki nægja að flytja þá heldur er hann mjög vel að sér um þessa tónlistarhefð og kann skil á tilurð einstakra sálma.

Haukur benti á að enda þótt negrasálmar væru samdir af fólki í neyð, þrælum, sem þoldu ólýsanlegt harðræða herra sinna, hins hvíta manns, væri hvorki hefndarþorsti né hatur í þeim.

Sálmarnir væru þvert á móti fullir af vongleði. Þeir eru nærandi og styrkjandi. Þeir eru verk fólks sem þrátt fyrir miklar þrengingar og þjáningar gleymdi ekki lofgjörðinni og þakklætinu.

Við getum margt af þessu lært, Íslendingar. Við upplifum núna erfiða tíma þótt ekki sé hægt að líkja þeim við það sem þrælarnir þurftu að þola.

Hættan við hremmingar af mannavöldum er sú að þá er svo auðvelt að fyllast beiskju og hefnigirni. Vissulega þurfum við að finna eðlilegri reiði útrás en ef við látum neikvæðar tilfinningar stjórna okkur tekst okkur ekki að byggja upp landið okkar.

Við þurfum að rífa niður það sem hefur skaðað okkur, hreinsa burt skemmdir og reka út illa anda.

Negrasálmarnir miðla okkur von, gleði, lofgjörð og þakklæti og það eru góðir byggingarsteinar þess nýja Íslands sem fyrir liggur að reisa.

Myndin er frá tónleikunum í dag og er tekin af heimasíðu Akureyrarkirkju, akirkja.is.


Augnaryk í Evrópuumræðu

augnarykEftirfarandi er úr frétt á visir.is sem birtist 2. 5. síðastliðinn.

Áhrifamaður innan Vinstri grænna sagði í samtali við fréttastofu í dag að hann reiknaði með að flokkarnir kæmust að samkomulagi um að þjóðin fengi að taka afstöðu til aðildarsamnings við Evrópusambandið að loknum viðræðum við sambandið. Það væri í anda stefnu Vinstri grænna að þjóðin fengi að ráða í stórum málum eins og þessum, þótt flokkurinn breytti í sjálfu sér ekki afstöðu sinni til sambandsins. Samningaviðræður flokkanna í þessum efnum eru í forsjá varaformanna.

Í þessum stutta texta er tvisvar talað um að þjóðin eigi að fá að ráða eins og feitletranir mínar sýna. Fyrst er talað um að flokkarnir, Samfylkingin og VG, séu að komast að samkomulagi um að þjóðin fái að taka afstöðu til aðildarsamnings Íslands við Evrópusambandið. Síðan er talað um að það sé sérstök stefna VG að þjóðin fái að ráða í slíkum stórmálum.

Þarna er að mínu mati verið að slá ryki í augu fólks. Samkvæmt þessari frétt er eins og það sé sérstakt samningsatriði í yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræðum að þjóðin fái að taka afstöðu til aðildarsamnings við Evrópusambandið. Ég veit ekki betur en að aldrei hafi annað staðið til.

Er það kannski líka sérstakt samningsatriði í þessum viðræðum Samfylkingar og VG að kosið verði til Alþingis eigi síðar en eftir fjögur ár?

Mikill er höfðingsskapurinn.

Sama gildir um það sem sagt er um stefnu VG í fréttinni. Af henni mætti skilja að það sé sérstakt baráttumál VG að þjóðin fái að taka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu.

Eru einhverjir flokkar á móti því?

Annað augnaryk í umræðunni er talið um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Eftir því sem ég best veit eru engar slíkar viðræður í bígerð.

Talað er um að sækja um aðild - ekki ræða um hana.

Mér finnst mikill munur á því annars vegar að ræða við einhvern um aðild að félagsskap og þá kosti og galla sem aðildinni fylgja eða hins vegar að sækja um inngöngu í klúbbinn.


Magadans í kirkjunni

mommumorgunn

Námskeið í magadansi verður meðal atriða á 11. kirkjulistaviku í Akureyrarkirkju 3. - 10. maí.

Ég efast ekki um að nú glenna margir upp víðar glyrnur.

Hvað á magadans sameiginlegt með kirkjunni?

Hér er landlæg vanþekking á störfum kirkjunnar og fordómar í hennar garð útbreiddir. Fólk heldur að kirkjulegt starf sé fyrst og fremst fólgið í messum. Þangað mæti sárafáir. Annars sé nánast ekkert um að vera í kirkjunum.

Þetta er mikill misskilningur. Það sannast meðal annars á kirkjulistavikum.

Þær sýna að kirkjulegt starf er bæði fjölbreytt og þróttmikið.

Lengi hefur dansinn átt samleið með trúnni. Menn stigu dansa við trúarlegar athafnir. Það er tími til kominn að bjóða dansinn velkominn í kirkjurnar.

Ég hef verið að lesa bók um þetta efni eftir Reinhold nokkurn Mueller. Hún heitir Tanz vor Gott. Die Heimkehr des Tanzes in die Kirche (ISBN 3-7831-1731-3).

Dagskrá Kirkjulistaviku í Akureyrarkirkju er svona:

Sunnudagur 3. 5.

Lokahátíð barnastarfs kl. 11.

Opnun myndlistarsýningar Bryndísar Kondrup í Safnaðarheimili kl. 15.

Tónleikar kammerkórsins Hymnodiu kl. 16.

Mánudagur 4. 5.

Hádegistónleikar kl. 12:10. Haukur Ágústsson syngur negrasálma við undirleik Daníels Þorsteinssonar.

Kvikmyndasýning á Amtsbókasafninu kl. 20. Sýnd verður danska myndin "To verdener".  Bjarni Randver Sigurvinsson, guðfræðingur, flytur inngang og stjórnar umræðum eftir sýninguna.

Þriðjudagur 5. 5.

Hádegistónleikar kl. 12:10. Eydís Úlfarsdóttir, sópran, Helena Guðlaug Bjarnadóttir, sópran og Guðný Erla Guðmundsdóttir, píanóleikari.

Opnun á vídeósýningu Örnu Valsdóttur í turnum Akureyrarkirkju kl. 20.

Miðvikudagur 6. 5.

Mömmumorgunn kl. 9:30 - 11:30. Kynning á magadansi.

Hádegistónleikar kl. 12:10. Eyþór Ingi Jónsson, organisti, og Hjörleifur Örn Jónsson, slagverksleikari, spinna.

Námskeið í magadansi í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju kl. 20. Rakin lauslega saga magadansins og kennd nokkur spor. Aðgangur ókeypis. Námskeiðið er bæði fyrir karla og konur. Leiðbeinandi er Líney Úlfarsdóttir, sálfræðingur og fyrrverandi formaður Æskulýðsfélags Akureyrarkirkju.

Fimmtudagurinn 7. 5.

Kynning á krílasálmasöng kl. 10. Leiðbeinandi Guðný Einarsdóttir.

Kyrrðarstund í Akureyrarkirkju kl. 12.

Vorferð eldri borgara. Lagt af stað frá kirkjunni kl. 14.

Tónleikar Stúlknakórs Akureyrarkirkju kl. 20.

Föstudagurinn 8. 5.

"Í hljóði" Sýning Örnu Valsdóttur í Akureyrarkirkju kl. 20 - 22.

Laugardagurinn 9. 5.

Fyrirlestur í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju kl. 13:30. Dr. David Porter, dómkirkjuprestur í Coventry, flytur fyrirlestur um hið  alþjóðlega friðarstarf kirkjunnar í Coventry. Með honum í för er dr. Kanyon Wright, fyrsti presturinn sem leiddi það starf. Fyrirlesturinn verður þýddur á íslensku.

Sunnudagurinn 10. 5.

Hátíðarmessa kl. 11. Dr. David Porter prédikar.

Hátíðartónleikar í Akureyrarkirkju kl. 16. Kór Akureyrarkirkju ásamt kammersveit. Einsöngvarar Marta Guðrún Halldórsdóttir, Bragi Bergþórsson og Benedikt Ingólfsson. Stjórnandi Eyþór Ingi Jónsson.

Eins og sjá má koma margar listgreinar við sögu á Kirkjulistaviku. Matargerðarlistin líka, því sérstakur kirkjulistavikumatseðill verður á Friðriki V. alla vikuna.

Nánari upplýsingar um 11. Kirkjulistaviku í Akureyrarkirkju má sjá hér.

Nú er bara að mæta og njóta!

Myndina með færslunni tók ég fyrir nokkrum árum á grillveislu mömmumorgna í Akureyrarkirkju.

 


Hótanir og skítkast

800px-Flag_of_Europe.svg[1]Fréttaþátturinn Kastljós fær prik frá mér fyrir tilraun til málefnalegrar umfjöllunar um Evrópusambandið í gær. Þar var leitað til fólks sem telur að Ísland eigi að ganga í sambandið og líka hlustað á þá sem vilja ekki þangað inn.

Annars virðist ekki mikið bíta á elítuna sem Steingrímur J. nefndi svo. Hún heldur áfram að hóta þjóðinni og kasta skít í þau sem leyfa sér að efast um erindi Íslands í Evrópusambandið.

Guðmundur Andri Thorsson er einn af hinum "föstu pennum" Fréttablaðsins. Í gær skrifaði hann grein um Evrópusambandið. Guðmundur er ekkert hissa á því að Evrópusambandið hafi staðið með Bretum og Hollendingum í Icesave-málinu. Ekki hafi verið við öðru að búast. Evrópusambandið standi með sínu fólki.

Ég veit ekki um Guðmund Andra en ég held að íslenska þjóðin hafi ekki verið að biðja um neinn sérdíl í Icesave-málinu. Ég held þvert á móti að fólk hafi verið að biðja um sanngirni og réttlæti. Að þjóðin þurfi ekki að borga meira en henni er skylt lögum samkvæmt og að kröfur á hendur henni séu raunhæfar.

Ég sé ekki betur en að Guðmundur Andri telji að þjóðir Evrópu geti hvorki átt von á sanngirni né réttlæti nema þær tilheyri réttu kreðsunum. Um stuðning Evrópusambandsins við Breta og Hollendinga í Icesave-málinu - og afstöðuna sem sambandið tók gegn Íslendingum segir Guðmundur Andri:

Fólk virtist ekki átta sig á því að þetta var einmitt til vitnis um að EES stendur með "sínum ríkjum" gegn utanaðkomandi, og að Íslendingar hefðu ekki mætt þessu viðmóti hefðu þeir verið innan sambandsins.

Tvennt er athyglisvert í þessum orðum.

Annars vegar er Evrópusambandinu lýst eins og götugengi. Þú ferð í Evrópusambandið til að kaupa þér vernd. Evrópusambandið spyr ekki fyrst um sanngirni eða réttlæti. Jafnvel ekki lög. Evrópusambandið spyr fyrst og fremst um það hverjir tilheyri sér. Það stendur með sínum. Það stendur gegn þeim sem eru "utanaðkomandi".

Hins vegar birtast hótanir í þessum orðum: Íslendingar verða að fara í Evrópusambandið. Annars eiga þeir ekki von á góðu. Annars er ekki nema skiljanlegt og sjálfsagt að íslenska þjóðin sé sett í skuldafangelsi - hver sem ábyrgð ber á þeim skuldum.

Nýjasta færsla á bloggi Egils Helgasonar er á margan hátt lýsandi fyrir umræðuna.

Þar er fram dreginn nýr sökudólgur sem ábyrgð ber á bankahruninu að sögn Egils.

Það er enginn annar er Ragnar Arnalds sem vann sér það til óhelgi að vera fjármálaráðherra Íslands fyrir um það bil aldarfjórðungi.

Egill skrifar:

En Ragnar er einn af helstu arkitektum hins óbjörgulega efnahagslífs á Íslandi. Þar ber hann mikla ábyrgð. Og við höfum öll þurft að súpa seyðið af því.

Tilefni þessara ummæla Egils er sú skoðun Ragnars að fjölmiðlar hafi verið misnotaðir í umræðunni um Evrópusambandið.

Það segir sína sögu að Egill Helgason virðist ekki eiga önnur svör við þeim ásökunum.


Fjölmiðlaelítan

kosningar[1]Mikið var ég sammála því sem Steingrímur J. Sigfússon sagði í sjónvarpinu í kvöld um framgang fjölmiðlaelítunnar nú fyrir og eftir kosningar.

Sú hirð hefur viðhaft miklar æfingar til að troða sérstöku áhugamáli sínu og Samfylkingarinnar inn í kosningabaráttuna og gera það að aðalatriðinu í úrslitum kosninganna.

Ástandið á landinu okkar er þannig að bankakerfið er hrunið. Landsmenn horfa upp á ískyggilegar tölur um atvinnuleysi.  Skuldir þjóðarinnar eru að sliga hana. Fjölskyldur eru gjaldþrota. Skera verður niður í velferðarkerfinu. Hækka verður skatta og lækka laun.

Í skugga þessa ástands var kosið í gær.

Fjölmiðlaelítan boðaði formenn flokkanna svo í sjónvarpssal í kvöld.

Þar var ekki minnst á skuldir heimilanna, gjaldþrot fólks, atvinnuleysi, skattahækkanir, launalækkanir eða velferðarkerfið.

Ekki ein spurning fram borin um það sem stjórnmálamennirnir hyggjast gera til að létta fólkinu í landinu lífið.

Ekki gerð tilraun til að bregða ljósi á það sem framundan er.

Elítan hafði ekki áhuga á neinu nema áhugamálinu sínu.

Þátturinn í kvöld var ágætt dæmi um firringu íslenskra fjölmiðla.


Nýkosinn og fínn

kimilEftir grjónagrauts- og brauðsúpuveislu hjá mömmu dreif ég mig í Verkmenntaskólann að kjósa.

Þar beið fólk í löngum röðum eftir að komast bak við tjöld kjörklefanna. Biðin var mörgum kærkomin sem sögðust nota hana til að hugsa sig um. Aðrir margskiptu um skoðanir meðan þeir biðu og settu exin sín á óvænta staði þegar þeir loksins komust að kjörkötlunum. Enn öðrum leiddist biðin og kusu einhverja vitleysu í geðvonskukasti.

Mamma bakaði tvær kökur handa íhaldinu. Þær voru vægast sagt girnilegar. Samt ætla ég ekki í neitt kosningakaffi og allra síst má ég vera þar sem búast má við erfiðum sálgæsluverkefnum (af heilsufarsástæðum).

Ekki auðveldaði það stöðuna í biðröðinni að mikill vindgangur upphófst í mér eftir brauðsúpuna og rjómann. Ég var því pínulítið samanherptur þegar ég gekk fyrir starfsmenn kjörstjórnar.

En svo er maður allur léttari svona nýkosinn.

Nú bíð ég þess sem koma skal og les bókina Inside North Korea eftir Mark Edward Harris. Það er hin fróðlegasta lesning og myndirnar hreint fyrirtak.

 

 


Sumarkveðja með broddi

Skeiðsvatn5Það var sumarlegt að keyra fram Svarfaðardalinn í dag í stilltu og mildu veðri. Ég fékk mér smá labbitúr og sá og heyrði í fuglamergðinni sem er að koma sér fyrir í öndvegi íslenskra dala. Þar á meðal álftir, lóur, gæsir og helsingja. Sumarskapið bólgnaði út innra með mér og nýbróderað hjartað fagnaði sumrinu með nokkrum innilegum aukaslögum.

Helsingjarnir sem ég sá í Svarfaðardal eru fuglar af andaætt en sama nafn er víst notað um trémaðka.

Undanfarna daga höfum við fengið að sjá hversu maðkétnir innviðir íslensks samfélags eru. Þeir eru allir meira og minna götóttir. Peningavaldið átti allt hérna. Það var búið að kaupa stjórnmálaflokkana og stjórnmálamennina líka.

VG stendur eftir sem heiðarlegasti flokkurinn hvað þetta varðar. Það verður ekki af honum tekið. Ég votta fólkinu þar  virðingu mína.

Fjölmiðlarnir hafa verið að fletta ofan af styrk- og mútugreiðslum til stjórnmálamanna og flokka.

Ég minni á að stór hluti þessara fjölmiðla er í eigu peningavaldsins sem keypti pólitíkina.

Fjölmiðlarnir í eigu auðmanna áfellast stjórnmálamenn fyrir að vera í eigu auðmanna.

Þetta er ekkert rosalega trúverðugt.

En samt: Gleðilegt sumar!

Myndina tók ég einn sumardag við Skeiðsvatn í Svarfaðardal.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband