Færsluflokkur: Bloggar
22.4.2009 | 09:47
Evrópusambandsmafían
Nú á dögum þykir voða fínt að tala um að þjóðin eigi að fá að ráða. Þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram um hin ýmsu mál.
Ekki hef ég á móti því en eitt verður þó að benda á: Eigi þjóðin að fá að ráða og greiða atkvæði um mál sem hana varðar verður að tryggja að hún sé vel upplýst um það sem hún á að taka afstöðu til.
Ég er viss um að margir þeirra sem tala þannig um að þjóðin eigi að ráða gera það af einlægri lýðræðisást.
Ég er jafnviss um að stór hópur þeirra sem tala fjálglega um að þjóðin eigi að ráða gera það vegna þess að þeir telja sig vera í góðri aðstöðu til að geta mótað álit þjóðarinnar. Eru nokkuð vissir um að þjóðin muni taka afstöðu þeim að skapi.
Þjóðin á að ráða (en við stjórnum því svo hvað hún vill).
Umræðan um Evrópusambandið er eitt dæmi um þetta. Daglega er áróðri um ágæti Evrópusambandsins dreift inn á stærstan hluta heimila landsins.
Ég á hér að sjálfsögðu við Fréttablaðið.
Fjölmiðlar, pólitíkusar ásamt stórum og fjölmennum hagsmunasamtökum keppast við að telja okkur trú um að eina von Íslands sé að þjóðin afsali sér fullveldi sínu og gangi í Evrópusambandið.
"Þið ráðið þessu," er sagt við okkur, "en þið eruð algjörir hálfvitar og asnar ef þið ráðið ekki rétt."
Það á að vera svo ofboðslega púkó að vera ekki í Evrópusambandinu. Sé Ísland ekki þar erum við einangruð. Kúba norðursins.
Þessu er haldið fram af sæmilega upplýstum mönnum. Mönnum sem vita að Ísland er svo sannarlega ekki einangrað land. Það tekur mjög virkan þátt í alþjóðlegu starfi. Sameinuðu þjóðirnar, Norðurlandaráð, NATO og EES eru dæmi þar um.
Ísland er ekki einangrað utan Evrópusambandsins. Ekki frekar en Noregur.
Dugi ekki að segja að það sé púkó og hallærislegt að vera utan Evrópusambandsins er gripið til hótana.
Við eigum að fá að ráða - en hér hrynur bókstaflega allt ef við ráðum vitlaust.
Samkvæmt því er Evrópusambandið einhvers konar fjölþjóðleg götustrákaklíka. Þeir þrífast sem innan þess eru en hinir mega detta og liggja.
Í haust heimsótti ég bóndabæ í Þýskalandi. Bóndinn þar var ekki hress með Evrópusambandið - eins og reyndar stór hluti Þjóðverja. Þetta væri skriffinnskubákn og Ísland ætti ekkert erindi þangað.
Sá þýski sagði mér að eftir evruna hefðu þýskir bændur fengið minna fyrir afurðir sínar en áður en þó þurft að leggja á sig miklu meiri vinnu. Neytendur hefðu ennfremur þurft að greiða hærra verð fyrir vörurnar.
"Evrópusambandið er hvorki fyrir framleiðendur né neytendur. Það er fyrir milliliðina," sagði bóndinn þýski.
Ég er ekki viss um að Íslendingar fái að vita allt um Evrópusambandið. Það þjónar einfaldlega ekki hagsmunum þeirra sem mest ligur á í þau samtök að hafa þjóðina vel upplýsta áður en hún "fær að ráða".
(Myndin með færslunni er af nauti bóndans þýska. Evrópusambandsnautin eru ekkert digurri en önnur.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.4.2009 | 13:28
Ríkasta land í heimi
Fyrir um það bil ári þótti ekkert hallærislegt að velta fyrir sér hvernig fara ætti að því að gera Ísland að ríkasta landi í heimi.
Skrifaðar voru bækur um málefnið og búnar til kvikmyndir sem dembt var yfir landslýð.
Hinir þóttu yfirmáta hallærislegir sem ekki voru tilbúnir að stíga dansinn.
Stundum deila menn um það hvort Ísland sé kristið. Sitt sýnist hverjum en eitt er að mínu mati alveg á hreinu:
Þjóð sem hefur það að markmiði að verða ríkust allra stendur ekki á kristnum grunni.
Það er ókristilegt að hafa peninga sem markmið. Peningar geta verið leið að markmiði en þeir eru aldrei markmið.
Þeir eru tæki en ekki tilgangur í sér sjálfum.
Þetta á við um þjóðir, einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki.
Jesús Kristur minnti okkur á að hvíldardagurinn væri mannsins vegna en ekki öfugt.
Á sama hátt eru peningarnir til að þjóna manninum. Maðurinn er ekki til þjónustu við peningana.
Þjóðfélag sem hefur það að markmiði að eignast sem mest af peningum en lætur liggja milli hluta hvernig þeim auðæfum er varið lætur manninn og heill hans liggja milli hluta. Þjóðfélag sem hefur auðsöfnun að markmiði er mannfjandsamlegt kerfi.
Gegn slíku kerfi ber okkur að berjast með öllum tiltækum ráðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.4.2009 | 18:25
Vor í lofti
Það er vel við hæfi að tala um vor í lofti. Vorið finnst svo vel þar. Þegar vorið kemur ilmar það í vitum manns og einmitt þannig angan fann ég á göngutúrum mínum í dag.
Vor í lofti.
Stundum heyrist að eiginleg vor komi ekki á Íslandi. Íslensk vor eru stutt en þau eru kröftug. Fá vor eiga meira sameiginlegt með voninni en þau íslensku enda munar ekki nema einum staf á vorum og vonum.
Í smæð sinni bendir íslenska vorið út fyrir sig, á það sem í vændum er. Vorið bendir á annan tíma eins og vonin. Og vorið býr yfir endurnýjandi krafti eins og vonin.
Ég hef fundið vor í lofti og ég hef líka fundið von í lofti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.4.2009 | 17:11
Páskar allt árið
Páskarnir eru búnir og boðskapur þeirra ekki lengi að falla í gleymsku. Tilvera okkar er ekki böðuð sigurbjarma þeirra nema stutta stund. Gamli syngjandinn um að hver dagur geti verið sá síðasti er tjúnaður upp á ný. Við eigum að vera í stanslausu kapphlaupi við dauðann og njóta lífsins lystisemda áður en allt verður of seint og moldin eignast okkur.
Rætur neyslusamfélagsins liggja ekki síst í þessu: Búið er að telja okkur trú um að við séum á síðasta séns. Þess vegna er ekki hægt að slá neinum kaupum á frest. Græðgin bólgnar út í mannheimum. Allir verða að eignast sem mest hér og nú og ná tafarlaust besta hugsanlega árangrinum. Ekki er hægt að bíða eftir að draumarnir rætist því við höfum ekki nema þennan dag vísan og hann er að kvöldi kominn. Kirkjugarðar heimsins segja okkur að ekki sé á lífið treystandi. Það sé ekki á vetur setjandi.
Of lengi höfum við trúað því að eina leiðin til að njóta lífsins sé að óttast dauðann. Páskarnir segja okkur að lífinu sé treystandi. Alltaf komi nýr dagur. Alltaf sé hægt að vona. Lífið sigrar að lokum, hvernig sem fer.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.4.2009 | 13:20
Ég lýt að blómi
Síðustu tvær vikurnar hef ég ekkert bloggað. Til að skýra það kemur hér örlítil sjúkrasaga.
Í febrúar síðastliðnum fannst í mér stífluð kransæð. Ég hafði engin einkenni slíks sjúkdóms en var rannsakaður fyrst og fremst vegna tíðra hjartasjúkdóma í móðurætt minni. Þann 31. mars síðastliðinn lagðist ég undir hnífinn á Landspítalanum í Reykjavík. Aðgerðin gekk mjög vel og viku síðar var ég kominn heim til Akureyrar.
Nú staulast ég hér um og eflist með degi hverjum.
Ég hef notið blessunar. Sjúkdómurinn uppgötvaðist áður en ég fékk áfall og hjartað mitt er óskemmt. Ég fékk frábæra þjónustu á Landspítalanum. Læknarnir þar eru snillingar. Þeim og læknunum mínum hérna fyrir norðan á ég lífið að þakka. Engin orð ná heldur að tjá þakklæti mitt til starfsfólks hjartaskurðdeildar Landspítalans. Það vinnur kraftaverk á degi hverjum. Guð blessi það.
Ég sendi ykkur öllum páskakveðju með sálmi sem ég hef lengi haft mikið dálæti á. Hann er eftir Þorstein Valdimarsson og er númer 410 í Sálmabók Þjóðkirkjunnar:
Ó, undur lífs, er á um skeið
að auðnast þeim, sem dauðans beið -
að finna gróa gras við il
og gleði' í hjarta vera til.
Hve björt og óvænt skuggaskil!Ei sá ég fyrr þau skil svo skýr.
Mér skilst, hve lífsins gjöf er dýr
- að mega fagna fleygri tíð
við fuglasöng í morgunhlíð
og tíbrá ljóss um loftin víð.Og gamaltroðna gatan mín
í geislaljóma nýjum skín.
Ég lýt að blómi í lágum reit
og les þar tákn og fyrirheit
þess dags, er ekkert auga leit.Ég svara, Drottinn, þökk sé þér!
Af þínu ljósi skugginn er
vor veröld öll, vort verk, vor þrá
að vinna þér til lofs sem má
þá stund, er fögur hverfur hjá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
28.3.2009 | 11:25
Blessaður fjórflokkurinn
Ég held að við séum að kjósa of snemma. Ekki er komið á hreint hvað sé í raun verið að velja. Uppgjörið við hrunið er of skammt á veg komið. Rannsóknarnefndir hafa ekki skilað neinum niðurstöðum. Við vitum ekki einu sinni hvað við skuldum nákvæmlega sem þjóð. Lítil umræða hefur farið fram um ný gildi - eða endurreisn eldri. Búsáhaldabyltingin afsleifaðist um leið og "geðþekkara" fólk komst í ráðherrastólana. Andófið þagnaði við dabbalabbið úr Seðlabankanum.
Ný framboð hafa ekki haft nógu mikinn tíma til að skilgreina sig og skipuleggja. Hvað þá að kynna stefnumál sín fyrir alþjóð.
Fátt er léttara að segja en "það hefði átt að..". Samt segi ég: Það hefði átt að mynda þjóðstjórn í október. Kjósa síðan í haust eða næsta vetur.
Nú er í tísku að hamast í fjórflokknum. Það er ekki að ástæðulausu. Fjórflokkurinn gamli ber mikla ábyrgð á ástandinu, einkum B, D og S.
Ég er nú samt svolítið skotinn í fjórflokknum. Mörg stefnumál hans eru ágæt. Þetta finnst mér um fjórflokkinn:
Samvinnustefnan er eitt helsta ágæti Framsóknarflokksins. Ég bý í annáluðum kaupfélagsbæ og hugsjónir kaupfélaganna eru held nokkuð sem orðið er tímabært að skoða og endurvekja. Framsóknarmenn hafa líka verið eindregnir málsvarar landbúnaðar og sveitamenningar. Ekki hefur sú árátta þeirra alltaf verið vel séð en ég held að komið sé á daginn að þeir höfðu á réttu að standa. Framókn er samt helst til of mikill klíkuflokkur fyrir minn smekk.
Stefna Samfylkingarinnar er í mjög mörgum greinum sú sem ég aðhyllist. Samfylkingarfólk styður þennan skandínavíska kapítalisma sem ég held að sé skásta hagkerfi heimsins. Samfylkingin hefur á að skipa miklu af velþenkjandi jafnaðarmönnum sem eru með hjartað á réttum stað. Að minni hyggju er gallinn við Samfylkinguna popúlismi og röng stefna í Evrópumálum.
Sjálfstæðisflokkurinn er enginn smásmíði (eða var það?). Hann er flokkur ættmenna minna. Amma sáluga sagðist kjósa Flokkinn þótt fjandinn væri þar á lista. Flokkurinn á sér mjög trygga áhangendur sem gerir það að verkum að hann getur leyft sér meira en aðrir. Sjálfstæðisflokkurinn sýnir stundum mikið hugrekki og honum er treystandi til að vinna óvinsæl en nauðsynleg verk. Hann veitir skattaglöðum yfirvöldum aðhald og stendur vörð um frelsi einstaklingsins til orða og athafna. Helsti veikleiki Sjálfstæðisflokksins er frjálshyggjan.
Mér finnst Vinstri græn mesta hugsjónafólkið í íslenskri pólitík. Þar þorir fólk að leggja sig sjálft að veði. Mörg baráttumál Vinstri grænna eru mér mjög að skapi. Vinstri græn eru stundum sökuð um að vera naív og afturhaldssöm. Ég tek ekki undir það og er viss um að stefna flokksins er á margan hátt sú nútímalegasta hér á landi - ekki síst í umhverfis- og atvinnumálum. Það háir Vinstri grænum hvað þeir eru oft neikvæðir og nöldursamir. Örlítið meiri húmor kæmi heldur ekki að sök.
Frjálslyndi flokkurinn tilheyrir eiginlega ekki þessu skema en samt er hann á margan hátt hin geðslegasta hreyfing.
Þangað er til dæmis kominn vinur minn, Kalli Matt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.3.2009 | 22:20
Mannvonska í skólum landsins
Í dag hitti ég glöggan borgara í mollinu. Talið barst um víðlendi áður en það náði að þéttast um skólamáltíðir.
Við vorum sammála um að þær ættu ekki að kosta neitt.
"Hugsaðu þér," sagði viðmælandi minn, "tveir sjö ára guttar búa hlið við hlið. Foreldrar annars eiga pening en hins ekki. Annar fær heita máltíð í hádeginu í skólanum. Hinn horfir á og verður að láta sér nægja þurra og kramda ostasamloku."
Þetta er ósköp einfalt:
Við eigum ekki að ala börnin okkar upp við að þeir ríku fái að borða en hinir ekki.
Það er með ólíkindum að þannig ranglæti og mannvonska skuli líðast í skólum landsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
25.3.2009 | 00:48
Obama og Berndsen
Þátturinn Nýtt útlit sem var á dagskrá kvöldsins á Skjá einum er í miklu uppáhaldi hjá okkur hjónunum. Þar er öðlingurinn Karl Berndsen ásamt aðstoðarmanni að hjálpa fólki að hafa hár og klæðnað sem sæmir og skipulegan búning að öllu.
Seinna um kvöldið var svo sjálfur Obama gestur hjá Jay Leno. Forseti Bandaríkjanna er mikið prúðmenni, mælir hvorki ónýt orð né óvarleg og lætur eigi geiga augu sín.
Kalli og Obama eru grandvarir menn og gott að hafa átt þessa vináttu við þá í kvöld.
Eftir að hafa séð uppáhaldsþáttinn minn og uppáhaldsforsetann minn las ég í uppáhaldsbókinni minni, Íslenskri hómilíubók. Þar segir:
Grandveri líkamans er að girnast eigi á annars manns eigin og forðast hórdóm ljótan, fasta vel, þá er maður skal fasta, mæla eigi ónýt orð né flærðsamleg og hafa skipulegan búning að öllu og maklegan sinni fyrirætlun og svo hár og klæðnað sem sæmir. Hafa og eigi vináttu við vonda menn, ygglast á engi, láta eigi geiga augu sín, gera engum kinnroða og lasta engi, hlæja eigi að gömlum manni né vanheilum, dæma eigi of það, er þú veist eigi, og mæla eigi allt það, er þú veist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2009 | 23:47
Alveg endilega gera ekki neitt!
Helgidagarnir voru miklir þrándar í götu græðgisvæðingarinnar.
Síðustu árin hefur sárlega verið undan þeim kvartað. Helgidagarnir pössuðu ekki inn í samfélag þar sem eina lögmálið átti að vera markaðsins.
Fastan var óskaplegur kross á herðum markaðssamfélagsins enda passar fastan ekkert vel við neyslu.
Föstudagurinn langi var held ég óvinsælasti dagur útrásarinnar.
Dagamenningin skyldi lúta lögmálum viðskiptanna. Af hverju ættu menn ekki að geta keypt sér ost á sunnudögum? Af hverju mátti ekki fara í Kringluna á nýársdag? Og hvers vegna í ósköpunum mátti ekki spila bingó á föstudeginum langa?
Þegar kirkjan - ásamt verkalýðshreyfingunni að mig minnir - mótmælti græðgisvæðingu hvítasunnudags skrifaði leiðarahöfundur DV (var það ekki Óli Björn?):
Enn á ný stekkur forneskjan upp úr greni sínu og gerir landsmenn forviða.
Þannig voru þeir nú brennimerktir sem leyfðu sér að andæfa Þróuninni. Þeir voru gamaldags.
Og unnu sér það til óhelgi að gera landsmenn forviða.
Nú er fasta og bráðum kemur föstudagurinn langi. Á hinu forbankahrunda Íslandi kvörtuðu menn sáran undan þeim degi. Þá var ekkert hægt að gera.
Það var ekkert hægt að gera vegna þess að ekki mátti fara í Kringluna.
Eða spila bingó.
En burtséð frá öllu þessu og burtséð frá helgidögum erum við ekki hundrað prósent manneskjur fyrr en við uppgötvum gildi þess að gera ekki neitt.
Á ítölsku heitir það, svo ég slái um mig, il bel far niente.
Fegurð þess að gera ekkert.
Sem kostar yfirleitt ekki neitt heldur.
Kannski þess vegna er það svo illa séð?
Myndin með færslunni er af málverki eftir enska málarann John William Godward (1861 - 1922) og nefnist Dolce far niente (sætleiki þess að gera ekkert).
Verum dugleg að gera ekkert - og gera landsmenn forviða!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.3.2009 | 19:20
Ítalska á íslensku
Ítalska er fallegasta tungumál í heimi - næst á eftir ástkæra ylhýra.
Hvers vegna finnst mér ítalska svona falleg? Hún hljómar vel. Hún er músík. Hún er töluð með öllum líkamanum. Hún er bæði rokk og ballett. Hún er stútfull af sögu og menningu. Hún er angandi. Hún er seðjandi. Hún er áfeng. Og hún er heit.
Ítalskan á sér mjög sérstaka sögu. Í Frakklandi, Portúgal og á Spáni voru talaðar alls konar mállýskur - sem allar teljast systurtungur ítölskunnar. Franskan, portúgalskan og spænskan urðu til með þeim hætti að mállýskur helstu borga þar í löndum náðu yfirhöndinni.
Franska nútímans er því eiginlega paríska, portúgalska lissabonska og spænska madrillíska.
Á Ítalíu voru líka margar mállýskur enda var landið fram eftir öldum ekki eitt ríki heldur mörg. Þar töluðu menn ólíkar tungur. Vísindamaðurinn í Flórens átti erfitt með að skilja sikileyska ljóðskáldið eða feneyska kaupmanninn.
Þetta gekk auðvitað ekki.
Á sextándu öld hittust nokkrir menntamenn til að leysa vandann. Þeir ákváðu að velja fallegustu mállýskuna og gera hana að ítölsku. Þeir vönduðu sig mikið og fóru tvær aldir aftur í tímann, til Flórens fjórtándu aldar.
Fallegasta tungan var að mati menntamannanna málið sem skáldið Dante Alighieri skrifaði.
Ítalska er því eiginlega danteanska. Hún er tunga listamannsins.
Svona skigreinir Dante Guð:
L´amor che move il sole e l´altre stelle...
Þetta er meira að segja fallegt þótt maður skilji það ekki.
Lesið í bókinni Eat, pray, love eftir Elizabeth Gilbert.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)