Færsluflokkur: Bloggar
19.3.2009 | 15:28
Gagnsemi víagra
Heyrði þennan í gær og læt hann flakka.
---
Pabbi gamli ákvað að flytja á elliheimilið.
Sonurinn var í heimsókn til athuga hvernig honum liði.
"Þetta er hreinn unaður," sagði sá gamli, "maturinn fyrsta flokks og umönnunin ekki síðri."
"Hvernig sefurðu?" spurði sonurinn.
"Eins og steinn," svaraði pabbi, "klukkan tíu er komið með heitt kakó handa mér og síðan fæ ég eina víagratöflu."
"Víagra?! Pabbi minn, ég trúi alveg að þú fáir kakó fyrir svefninn en mér finnst ótrúlegt að 85 ára karl fái víagra fyrir svefninn."
"Þetta er alveg rétt hjá honum," sagði hjúkrunarfræðingur sem heyrði tal þeirra feðga. "Við gefum kakóbolla til að hann sofi betur og víagratöflu til að hann velti síður fram úr rúminu."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.3.2009 | 23:58
Hrokinn ekki síður en græðgin
Græðgi banka og viðskiptafólks er ekki eina skýringin á kreppunni. Orsök hennar er líka sú að síðustu áratugina hafa stjórnvöld unnið að afnámi boða og banna í fjármálageiranum, bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi.
Þetta segir erkibiskupinn af Kantaraborg, dr. Rowan Williams, í ræðu sem hann flutti fyrr í þessum mánuði.
Biskupinn sagði að í kapítalismanum væri siðferðilegur kjarni að því leyti að þar væri reynt að takmarka áhættu og dreifa auði. Kapítalismi nútímans hefði samt glatað þeim siðferðilegu markmiðum.
Þess í stað hefði sú trú verið boðuð að peningamarkaðurinn væri án áhættu. Hrokinn hefði leitt til hrunsins ekki síður en græðgin.
Dr. Williams lét ekki nægja að greina ástandið og leita skýringa á því. Hann gaf líka góð ráð í ræðunni. Í endursögn Timesonline af henni segir:
He called for a restoration of trust and a realistic understanding of risk, an acknowledgement of environmental cost in economics, more thinking about the role of government in the regulation of currency exchange and capital flow including international conventions about wages and working conditions, a re-examination of bodies such as the IMF and the World Bank and a balanced response to the crisis.
Erkibiskups boðskap óstyttan má lesa hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.3.2009 | 22:49
Peningar og vit
Ef til vill má draga þann lærdóm af atburðum síðustu mánaða að Rómverjar hafi hitt naglann á höfuðið þegar þeir sögðu:
Ubi mens plurima, ibi minima fortuna.
Sem ku þýða:
Þar sem er mesta skynsemin, þar er minnsti auðurinn.
Og best að taka fram að ég á ekki bót fyrir boruna á mér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.3.2009 | 18:27
Heimsmynd sjónvarpsins
Sú heimsmynd sem fjölmiðillinn sjónvarp birtir okkur og innrætir okkur sést ekki bara í fréttatengdum þáttum. Til að sjá hana verður að skoða fjölmiðilinn í heild sinni. Miðillinn sjálfur er boðskapurinn.
Bandaríski guðfræðingurin William Fore lýsir heimsmynd sjónvarpsins í fimm liðum. Sá fyrsti er að sjónvarpið boði okkur heim þar sem hinir hæfustu komast af. Það sést glöggt í öllum þeim aragrúa framhaldsþátta þar sem sýknt og heilagt er verið að senda einhverja lúsera heim. Þá sem syngja falskt, líta ekki nógu vel út, hafa ekki lést nógu mikið eða eru mislagðar hendur við endurbætur á húsnæði.
Í öðru lagi gengur sjónvarpið út frá því sem gefnu að ákvarðanir séu teknar uppi á toppnum. Á toppum veraldarinnar gerist það sem raunverulega skiptir máli, hvort sem það er á sviði stjórnmála, viðskipta, menningar eða tísku. Sjónvarpið hefur ekki nema takmarkaðan áhuga á hvað almenningi finnst. Toppfólkið er á hinn bóginn alltaf í viðtölum, stjórnmálamenn, viðskiptajöfrar, rokkstjörnur, menningarvitar og aðrir sérlegir álitsgjafar sjónvarpsins.
Í þriðja lagi er sjónvarpið öflugasti boðandi þeirrar trúar að hamingjan sé fólgin í efnislegum gæðum. Það gerist til dæmis í öllum auglýsingunum, leyndum sem ljósum. Sjónvarpið er æðakerfi neyslusamfélagsins.
Í fjórða lagi segir Fore að sjónvarpið sé gegnsýrt af þróunarhyggju. Það nýja er undantekningarlítið betra en það gamla. Æskudýrkun er áberandi í sjónvarpinu.
Síðast en ekki síst útbreiðir sjónvarpið þá skoðun að flæði upplýsinga um samfélagið sé frjálst og óhindrað.
Þetta og margt fleira má lesa í stórgóðri bók eftir Fore, Television and Religion: The Shaping of Faith, Values and Culture.
Bókina má lesa á netinu.
Bloggar | Breytt 15.3.2009 kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2009 | 09:26
Silfrið og Kiljan
Egill Helgason fær heldur ónotalegar kveðjur frá fyrrum forsvarsmanni blaðamanna og einum af leiðtogum Búsáhaldabyltingarinnar. Hér er sá atgangur.
Ekki er ég alltaf sammála Agli og helsti gallinn á þáttum hans er sá að Ísland telst fyrst og fremst þar sem hægt er að sjá turn Hallgrímskirkju berum augum uppi á holtinu.
Bloggher Egils er líka oftast fullmikill halelújakór fyrir minn smekk - og er ég þó ekki óvanur slíkum sálmum.
En Egill fær prik hjá mér fyrir Silfrið. Sá þáttur fær mig undantekningarlaust til að hugsa - að minnsta kosti einhverjum þegjandi þörfina.
Og Kiljan er ekki síðri. Bragi með dósina er yndislegur og gaman að fylgjast með spennuhlöðnu sambandi Páls og Kolbrúnar.
Ég bíð eftir því að þau láti hendur skipta og vil helst ekki missa af þeim þætti.
Egill er prýðilegur spyrill og mér finnst hann hafa staðið sig vel í hræringunum undanfarið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.3.2009 | 22:31
Efi og trú
Ég sá haft eftir íslenskum ráðamanni að skortur á gagnrýninni hugsun og efahyggju væri ein skýringin á hruninu. Það má til sanns vegar færa.
Við vorum of auðtrúa, efuðumst ekki um það sem okkur var sagt og vorum rekin jarmandi fram af brúninni. Vorum blind í trú okkar á endalausar framfarir, góðæri og hagöxt.
Gagnrýnin hugsun felst meðal annars í því að efast um sínar eigin hugsanir. Setja spurningamerki við þankagang sinn. Láta ekki hugmyndir sínar blinda sig því þær geta reynst ranghugmyndir.
Stundum er þessu stillt þannig upp að efi og trú samræmist ekki. Sá sem efast geti ekki trúað og trúuð manneskja hljóti að vera svo sannfærð að ekkert rúm sé fyrir efa í hennar hjarta.
Svona einfalt er það nú ekki.
Trúin og efinn haldast í hendur.
Allt hefur sinn tíma. Nú er tími efans á Íslandi. Tími til að efast um þau gildi sem leiddu okkur í vandræðin. Tími til að skoða undir steina og hreinsa burt skítinn. Afneita því sem við viljum ekki.
En núna er líka tími trúarinnar. Við þurfum við vita á hverju við viljum byggja. Hvar við viljum standa. Hvað við viljum endurreisa.
Aldrei hefur neinum tekist að byggja upp með því einu að rífa niður.
Við þurfum að vita hverju við viljum afneita en við þurfum líka að vita hverju við viljum játast.
Og ef til vill vitum við ekki hverju við viljum afneita nema við vitum hverju við viljum játast.
Mér þótti vel við hæfi að hafa mynd af hamri með þessari færslu. Hamarinn má nota bæði til að brjóta niður og byggja upp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.3.2009 | 21:51
Snilldarráð í kreppunni
Þetta er sennilega miklu einfaldara en við héldum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2009 | 23:18
Kreppusvæfur
Sumarið 1627 varð hér svokallað Tyrkjarán. Það var reyndar rangnefni. Að verki voru Norður-Afrískir víkingar sem fóru hér um rænandi, ruplandi, skemmandi, eyðandi, nauðgandi og drepandi. Stórtækastir voru þeir í Vestmannaeyjum. Þar myrtu þeir 34 og höfðu á brott með sér 234.
Ég hef verið að lesa bók Jóns Helgasonar um þennan atburð (Tyrkjaránið, Reykjavík 1963). Það er fróðleg lesning og vel skrifuð. Stundum stórskemmtileg þótt um hörmulega atburði sé fjallað.
Næstu sumur eftir strandhögg víkinganna ríkti mikill ótti á Íslandi. Menn litu áhyggjufullir til hafs og gátu átt von á að sjá ógnvænleg skip nálgast landið.
Sagan segir að prestur Meðallendinga, séra Magnús Pétursson, hafi séð þannig skip og riðið niður í Skaftárós. Þá voru skipin skammt frá strönd.
Prestur brá á það ráð að fara með kvæði sem hann hafði ort og nefndi Tyrkjasvæfu. Í bók sinni segir Jón Helgason að séra Magnús "hafi haft með sér kirkjuhurð og staðið á okum hennar á meðan hann flutti kvæðið, enda þurfti nú alls við".
Jón bætir við að Tyrkjasvæfa sr. Magnúsar hafi ekki verið í anda Fjallræðunnar. Er það hógvært orðalag. Tyrkjasvæfan er full af bölbænum og særingum. Þessum mergjaða kveðskap prestsins lýsir Jón þannig:
Mælti hann svo um og lagði svo á, að þeir berðust innbyrðis og dræpu hver annan, veður tortímdi þeim, sjór drekkti þeim, sóttir stráfelldu þá, eldur brenndi þá - hann bað þess, að þeir yrðu flegnir kvikir, stegldir, slitnir sundur og bornir á bál - hann óskaði þess að sjá þá falla föla af ótta, lostna þyngsta fári, og síðan drafna og rotna.
Tyrkjasvæfa var meira en þrjátíu erinda bálkur og bar tilætlaðan árangur. Ókyrrð kom á skipin, þau rákust hvert á annað og hurfu í hafið. Sumir töldu að átján hefðu sokkið. Öðrum reiknaðist til að skipin hefðu ekki verið færri en þrjátíu.
Og trúi nú hver sem nennir.
Tæpum fjórum öldum eftir Tyrkjaránið gekk önnur óáran yfir landið, svonefnd Bankakreppa.
Þær eru orðnar margar Kreppusvæfurnar sem ortar hafa verið síðan í október, greinar í blöð, ræður á Austurvelli, bloggskrif, sjónvarpsviðtöl og erindi á borgarafundum.
Að þessu sinni voru fáar svæfurnar fluttar í fjörum, hvað þá á kirkjuhurðum, en margar hafa að geyma býsna óvandaðar kveðjur á hressilegri íslensku.
Ég trúi því að allar þessar Kreppusvæfur hafi áhrif og þakka þeim sem þær hafa ort og sagt.
Við hættum ekki fyrr en átján prósenta stýrivextirnir eru sokknir.
Barnabarnabörnunum okkar segjum við svo að stýrivextirnir sem við sökktum hafi verið komnir upp í þrjátíu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.3.2009 | 23:12
Blóm og brækur
Ber ekki öllum málsmetandi hagfræðingum saman um að neyslan haldi hagkerfum okkar gangandi?
Neyslan er erótík efnahagslífsins.
Neyslan örvar vöxt.
Neyslan er lögmálið.
Og það lögmál gerði okkur að neytendum frekar en manneskjum.
Lögmál neyslunnar er ekki einungis eitthvað í fræðiritum sprenglærðra hagfræðinga. Lögmál neyslunnar birtist okkur í daglega lífinu.
Vegna lögmáls neyslunnar er sælgætið haft í augnhæð barna okkar við afgreiðslukassa stórmarkaðanna.
Lögmál neyslunnar breytir börnunum okkar í neyslusvipur.
Hið sama lögmál lætur spila útspekúleraða neysluhvetjandi tónlist í mollunum.
Lögmál neyslunnar krefst þess að stjarnfræðilegum upphæðum sé varið í auglýsingagerð. Meðalborgarinn í vestrænu samfélagi er talinn verða fyrir sirka tólfhundruð auglýsingaáreitum daglega.
Lögmál neyslunnar endurhannaði fyrir okkur lífið.
Einu sinni mætti stórfjölskyldan í sunnudagsvöfflukaffi til ömmu.
Núna er amma keyrð í mollið á sunnudögum og allir kaupa og drekka vöfflukaffið þar eftir að hafa fyllt töskurnar af neysluglingri.
Hvíldardagurinn er orðinn neysludagur.
Hátíðisdagar ársins eru það líka. Hver þeirra hefur eignast sína ákveðnu tegund af neyslu og svo eru þeir alltaf að finna upp nýja tyllidaga sem krefjast nýrra kaupa; á Valentínusardeginum á að kaupa blóm og brækur handa konunni.
Á föstunni eigum við ekki að hugsa um það sem við þurfum heldur leiða hugann að því sem við getum verið án.
Fastan nær hámarki sínu á föstudeginum langa. Sá dagur var einhver óvinsælasti og fáránlegasti dagur góðærisins. Föstudagurinn langi er langur vegna þess að hann er langt frá neysluhyggjunni.
Neysluþjóð veit ekkert hvað hún á að gera við þannig dag.
Ekkert rosalega mörg ár eru síðan Íslendingar fengu ofnæmi fyrir föstudeginum langa. Það var held ég um svipað leyti og Stöð 2 hóf útsendingar.
Á föstudeginum langa eru búðirnar lokaðar og hvorki hægt að kaupa sér glingur né vöfflur með ömmu. Á föstudeginum langa eru okkur allar bjargir bannaðar.
Ekki er nema von að helstu píslarvottar föstudagsins langa tóku að spila bingó á Austurvelli í mótmælaskyni við fyrirbærið.
En ef til vill er ógeðið sem við höfum á föstudeginum langa ein birtingarmynd neysluæðis okkar, þeirrar staðreyndar að við neyttum okkur til óbóta?
Og ef til vill er tími föstudagsins langa að koma aftur?
Dagur hinnar löngu föstu eftir nótt hins skammsýna óhófs?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.3.2009 | 23:52
Fjölmiðlar og lýðræði
Ég fagna aukinni umræðu um fjölmiðla. Hér er pistill sem ég skrifaði um efnið í síðustu viku fyrir tru.is.
"Steve Ballmer, einn yfirmanna tölvurisans Microsoft, spáir því að dagblöðin eigi ekki eftir nema sirka tíu ár. Fjölmiðlun færist alltaf meira á netið og þess sé skammt að bíða að prentmiðlar heyri sögunni til.
Ballmer er ekki einn um þessa skoðun og þróunin virðist styðja hana. Núna reynum við hana á okkar íslensku skinnum. Stærstu dagblöð landsins eru í krísu en vefmiðlar blómstra.
Margir sjá ekkert athugavert við þessa þróun. Hún sé tímanna tákn og í raun og veru fyrst og fremst spurning um hvaða tækni sé notuð til að koma upplýsingunum á framfæri.
Eitt vandamál er þó óleyst. Eigi blaðamennskan á vefmiðlunum að vera vönduð kostar það peninga. Þeir peningar eru enn ekki fundnir.
Þetta telst kannski ekki aðkallandi vandamál á Íslandi. Hér hefur nánast þótt hallærislegt að tala um vandaða blaðamennsku. Íslenskir fjölmiðlar eru einkum afþreying. Útvarp hafa menn til að geta hlustað á eitthvað með espressóinu á morgnana og blöð til að geta lesið eitthvað á klósettinu. Hér hefur tjáningarfrelsið heldur engan sérstakan tilgang. Það lýtur sömu lögmálum og markaðurinn í kokkabókum frjálshyggjunnar: Engum nema sínum eigin. Menn eiga bara að segja það sem þeim sýnist og á endanum mun það einhvern veginn verða til hagsbóta fyrir alla.
Hér á landi getur hver sem er skrifað í blöðin og talað í útvarp og það er ekkert aðalatriði hvað þar er sagt eða hvernig það er sagt. Og hér er það pólítískur rétttrúnaður að engu máli skipti hverjir eigi fjölmiðla.
Í ljósi þessa var auðvitað hæpið búast við því að íslenskir fjölmiðlar teldu sig hafa einhverjar skyldur við þessa þjóð í aðdraganda þeirra hörmunga sem nú hafa á henni skollið, að þeir hefðu það hlutverk að lesa í aðstæðurnar, greina þjóðfélagið og veröldina og vara almenning við þeirri hættu sem smám saman byggðist upp.
Bæði í Evrópu og Bandaríkjunum hafa menn miklar áhyggjur af framtíð blaðamennsku og beita ýmsum aðferðum til að tryggja að hún verði vönduð. Þýsk stjórnvöld hafa gripið til aðgerða til að bjarga prentmiðlum (Nationale Initiative Printmedien). Nýlega tilkynnti forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, að franska stjórnin ætlaði á þessu ári að styrkja útgefendur dagblaða þar í landi um 280 milljónir evra og aðrar 600 á næstu
þremur árum.
Þessar aðgerðir eru ekki einungis til þess að bjarga störfum í blaðabransanum þótt þar sé mikið í húfi heldur gera menn sér grein fyrir því að öflugir og vandaðir fjölmiðlar eru ein forsenda lýðræðisins.
Lýðræði er ekki einungis fólgið í ákveðnu stjórnkerfi. Það er meira en gegnsæi og réttlátar reglur. Lýðræði er óhugsandi án upplýstra þegna.
Fjölmiðlar starfa ekki í þágu eigenda sinna. Þeir starfa fyrir okkur, þjóðina. Þeir eiga að vera okkar helsta vörn gegn þeim lygum og lýðskrumi sem gjarnan einkenna umbrotatíma. Þörfin fyrir góða fjölmiðla hefur aldrei
verið brýnni en núna.
Án þeirra verður lýðveldið Ísland ekki endurreist."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)