Færsluflokkur: Bloggar
1.3.2009 | 22:42
Klikkaði fólkið eða stefnan?
Stjórnmálamenn eru komnir í kosningagírinn og tala um að endurheimta traust kjósenda.
Fyrir skömmu bloggaði ég aðeins um þetta margumtalaða traust.
Til hvers þurfa stjórnmálamenn traust okkar?
Ef þeir þurfa það til að geta haldið áfram að gera gömlu mistökin aftur held ég að við ættum að láta ógert að treysta þeim.
Nú er mikið talað um endurnýjun. Sú endurnýjun virðist einkum eiga að felast í því að skipta að einhverju leyti um fólk í efstu sætum framboðslistanna.
Flokkarnir eru enn þeir sömu og stefnumálin virðast ekki hafa breyst mikið.
Við fáum sennilega einhver ný andlit á næsta þing en óljóst er um aðrar breytingar.
Hvar er umræðan um ný gildi og viðmið?
Þetta staðfestist við lestur draga að skýrslu endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins.
Þar er því haldið fram að fólkið hafi klikkað en stefna flokksins ekki.
Ég er alls ekki sannfærður um að þetta sé svona. Ég hef mjög ákveðnar efasemdir um stefnu Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum.
Sumir tala um hugmyndafræðilegt þrot í þeim efnum.
Getur verið að þeir Sjálfstæðismenn sem klikkuðu í hruninu hafi gert það vegna þess að þeir voru að framfylgja gallaðri stefnu?
Eigi að endurreisa Sjálfstæðisflokkinn held ég að þar á bæ þurfi að ráðast í hugmyndafræðilegt endurmat.
Skýrsluhöfundar staðhæfa að Sjálfstæðisflokkurinn beri einvörðungu ábyrgð á sínum eigin fulltrúum en ekki á bankamönnum, eins og það er orðað.
Eitt af því sem fór úrskeiðis í hruninu var að bankarnir fengu að vaxa þjóðinni yfir höfuð. Nánast daglega fáum við fréttir af vafasömum og jafnvel glæpsamlegum gjörningum stjórnenda bankanna. Lengi hefur þjóðinni blöskrað ofurlaun og annað peningasvall í bönkunum. Afleiðingum þess þarf ekki að lýsa.
Nú biður Sjálfstæðisflokkurinn um traust kjósenda - en tilkynnir um leið að hann beri ekki ábyrgð á bankamönnum.
Er hægt að treysta flokki sem ekki kannast við að bera ábyrgð á bankamönnum og athæfi þeirra?
Hinum finnst mér treystandi sem lofar að sjá til þess að bankarnir komist ekki upp með að láta sögu síðustu ára endurtaka sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.2.2009 | 23:44
Davíðsblogg númer tvö
Í kvöld heyrði ég formann Samfylkingarinnar kvarta sáran undan því að ennþá stjórnaði Davíð Oddsson umræðunni á Íslandi.
Hvað veldur því?
Sumir dá Davíð en ég efast um að áhrif hans stafi af því.
Davíð virðist ekki síður stjórna umræðunni meðal þeirra sem hafa horn í síðu hans en hinna sem dá hann.
Sjálfstæðisflokkurinn er margslungið fyrirbæri. Þar eru samankomnir kaldhamraðir frjálshyggjunaggar, fólk af rótgrónum útgerðarmanna- og heildsalaættum, velmeinandi hægrikratar, hreinræktaðir kapítalistar, kristilegir demókratar og gamaldags íhaldsfauskar og konungssinnar - svo nokkuð sé nefnt.
Þessari hjörð hélt Davíð saman.
Hann er ekki lengur það sem sameinar Sjálfstæðismenn.
Hann hefur á hinn bóginn sennilega aldrei hætt að vera það sem sameinar andstæðinga Sjálfstæðismanna.
Þó að Sjálfstæðisflokkurinn sé fjölskrúðugur hópur eru þeir sem ekki eru Sjálfstæðismenn enn fjölbreytilegri.
Það er held ég nokkuð viðurkennd hópsálarfræði að hópurinn þurfi annað hvort að eiga sér sameiginlega vini eða óvini.
Óljóst er hvaða vin ekki-sjálfstæðismenn geta sameinast um en Davíð hefur verið þeirra óumdeildi sameiginlegi óvinur.
Þeir sem ekki exa við déið gátu fylkt sér bak við andstæðinginn Davíð.
Ég hef svo sem ekki hugmynd um hvort Davíð sé horfinn af leiksviðinu en ef svo er held ég að það muni mest bitna á þeim sem hafa sameinast um að vera á móti honum.
Nú er sameiningartákn þeirra horfið.
Annað hvort mun hópurinn riðlast eða hann verður að finna sér annað til að sameinast um.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.2.2009 | 22:39
Davíð
Ég skar samviskusamlega fituna af saltkjötinu sem ég borðaði hjá mömmu í kvöld. Enginn býr til betri baunasúpu en hún.
Davíð Oddsson skar líka dálítið af sumu sem hann sagði okkur í viðtali kvöldsins. Og feitustu bitarnir eru held ég enn í hans pottum. Það verður fróðlegt þegar lokið verður tekið af þeim, kjötið veitt upp og þjóðin fer að kjamsa á því.
Það er að koma í ljós að baunasúpan sem borin hefur verið í þjóðina að undanförnu er óttalegt glundur.
Sprengingar við heimili Davíðs og dæmalaus eltingarleikur blaðamanna við hann um Reykjavíkurborg lýsa engu öðru en einelti og ofsóknum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
24.2.2009 | 00:17
Ó
Það er mikið vandaverk að tala íslensku enda tala fáir hana vel.
Málfarsumvandanir fara í taugarnar á mörgum. Ekki þó á mér. Mér finnst þær aldrei skemmtilegri en þegar þær eru smásmugulegar, geðillskulegar eða jafnvel gjörsamlega tilhæfulausar.
Illa skrifaður texti fer á hinn bóginn í taugarnar á mér.
Þó er ég lítið í því að setja út á málfar fólks enda kemur stundum allt öfugt út úr mér.
En nú get ég ekki hamið mig lengur.
Ég þoli ekki óréttlæti!
Af hverju erum við alveg hætt að tala um ranglæti?
(Konan á myndinni er víst að segja "Ó")
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.2.2009 | 00:08
Á og í
Nú erum við að sigla inn í föstuna. Í prédikun dagsins velti ég fyrir mér muninum á því annars vegar að vera áhorfandi og hins vegar að vera íhugandi.
Mikill munur er á því að horfa á og íhuga. Orðanna hljóðan segir sína sögu.
Áhorfandi stendur utan við það sem hann sér. Hann fylgist með, er ekki á sviðinu, ekki meðal leikendanna. Atburðirnir gerast fyrir framan hann.
Að íhuga eitthvað er meira en að horfa á það eða fylgjast með því. Íhugun leiðir af sér ákveðna nánd. Við sjáum ekki aðeins atburðina, við lesum ekki bara textann, heldur drögum nær okkur það sem við skynjum, öndum því að okkur:
Í-hugum það.
Haft er eftir þýska skáldinu og andófsmanninum Wolf Biermann að áhorfendur sjái ekkert. Mikið er til í því og hollt að íhuga þá staðhæfingu nú á sjónvarpsöld.
Fastan er tími íhugunar.
Séra Hallgrímur er ekki að lýsa krossferli Jesú Krists í Passíusálmunum. Þeir eru ekki fréttaflutningur eða skýrsla. Þeir eiga ekki að gera okkur að áhorfendum. Við eigum ekki bara að sjá þá með augunum eða heyra þá með eyrunum. Séra Hallgrímur samdi þá til að við fyndum þá með hjörtunum. Þeir eru ekki bara fyrir lestur og heyrn, heldur fyrir sál, geð, hjarta, róm, hug, tungu og vilja. Þess vegna byrja þeir svona:
Upp, upp mín sál og allt mitt geð,
upp mitt hjarta og rómur með.
Hugur og tunga hjálpi til.
Herrans pínu ég minnast vil.
Ég endaði stólræðuna með því að fara með tvö lítil erindi eftir séra Matthías. Þau eru gott íhugunarnesti inn í föstuna.
Og allt vort líf, það er opin vök;
þú átt eigi, maður, þar á sök.
Og gef þú ei slysin guði að sök;
því guð er sjálfur í hverri vök.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.2.2009 | 22:42
Heilsuráð Matta Jokk - og þjóðráð
Jón Hjaltason, sagnfræðingur, sagði mér frá síðustu samfundum skáldanna séra Matthíasar og Guðmundar á Sandi.
Guðmundur var kominn að austan upp á Sigurhæðir. Áður en hann kvaddi spurði hann öldunginn hvernig hann færi að því að halda sér svona unglegum.
Matthías hugsaði sig um andartak og svaraði:
"Með því að skipta nógu oft um skoðanir."
Séra Matthías var meira en postmódern. Hann hafði skoðanir og átti sér hugsjónir. En hann hætti aldrei að hugsa. Hann var "hlaðinn af alls konar heilabrotum engu síður en japönsk sprengivél af sprengitundri" eins og Guðmundur Hannesson orðaði það.
Sami Guðmundur segir:
Séra Matthías er tilfinninganna barn. Það, sem honum þykir vel og drengilega sagt, lofar hann og lætur hrífast af því, jafnt hjá mótstöðumönnum sem flokksmönnum sínum. Þetta kemur auðvitað í bága við þá reglu, að lofa allt hjá sínum flokki, en lasta allt hjá andstæðingum, en henni fylgja nú margir á seinni tímum.
Þetta var skrifað árið 1905 en enn gengur íslensk pólitík að stórum hluta út á að telja okkur trú um að allt sé svo frábært hjá einni manneskju því hún tilheyri réttum flokki en allt tómur asnaskapur hjá hinni því hún sé í vitlausum flokki.
Vinstri menn eru ekki síðri í þessu sporti en hinir. Þar á bæ er hjarðhugsunin ekki minna áberandi en í öðrum kreðsum.
Smásálir eru hvimleiðar hvort sem þær eru til hægri eða vinstri.
Nú þurfum við Íslendingar rúmgóðar sálir á þing, sanngjarnar manneskjur, heilar og sannar.
Og þær þurfa að þora að taka sinnaskiptum, sjá allt í einu enn betri kosti og velja góða hlutann samkvæmt sinni bestu samvisku og vitund.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.2.2009 | 09:01
Cod is god
Ég hafði þorsk í kvöldmat í gær, steikti hann og kryddaði með fersku rósmaríni. Þvílíkt hnossgæti!
Er þetta ekki bara besti matur í heimi?
Einu sinni kunnu Íslendingar að meta þorsk. Lengi var hann hvorki meira né minna en sjálft skjaldarmerki landsins. Myndin með þessari færslu er af skjaldarmerki Íslands eins og það birtist í sálmabók sem prentuð var á Hólum í Hjaltadal árið 1589.
Fram eftir öldum var þorskurinn óumdeilt tákn Íslands uns menn urðu of rómantískir til að hafa fisk á skjaldarmerkjum. Íslenska þjóðin, í allri sinni fátækt og niðurlægingu, varð of fín fyrir þorskinn og hefur ef til vill þannig verið fram á okkar daga. Árið 1903 tókum við formlega upp fálka sem okkar merki og sextán árum síðar kom landvættaskjaldarmerkið til sögunnar.
Síðustu árin vilja margir meina að dollaramerkið, evrutáknið eða önnur mammonsmerki hafi verið hið raunverulega tákn okkar sem þjóðar.
Nú er ef til vill tími til að snúa sér aftur að þorskinum, hverfa á ný til einhvers sem vísar á raunveruleg verðmæti.
Fiskur er fínasta tákn.
Þess má geta að merki Þjóðkirkjunnar er fiskur.
Sumir vilja reyndar meina að það sé hvalur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.2.2009 | 22:16
Sköpunartrú
Um þessar mundir eru 200 ár liðin frá fæðingu þess merka vísindamanns Charles Darwin og menn velta fyrir sér gildi kenninga hans.
Lengi hefur þróunarkenningin verið mátuð við sköpunartrú kristinna manna. Þessu tvennu hefur verið stillt upp sem ósamrýmanlegum andstæðum; ef þú trúir þróunarkenningunni er ekki hægt að trúa á sköpunina.
Sumir ganga svo langt að segja að trúaður maður geti ekki með nokkru móti samþykkt þróunarkenninguna.
Þetta er mikill misskilningur.
Sköpunarsagan í Genesis er ekki vísindaleg útskýring á upphafi mannsins.
Og sköpunartrú er ekki í því fólgin að trúa því að sú sköpunarsaga sé vísindalegs eðlis.
Sköpunartrú snýst ekki um eitthvað sem gerðist einu sinni. Sköpunin er yfirstandandi. Baráttan milli góðs og ills er hluti sköpunarinnar.
Kristnir menn líta á sig sem sköpun Guðs.
Þó vita þeir hvernig börnin verða til.
Og nú er meira að segja Vatíkanið farið að benda á að hugmyndin um þróun finnist í kristinni guðfræði eins og lesa má í þessari umfjöllun á Times Online.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
13.2.2009 | 22:42
Engin blöð á Íslandi
Ari Edwald, prýðilegur maður og að mér skilst ættaður að vestan eins og ég, óttast um blaðaútgáfu á Íslandi. Tildrög kvíðans er sú ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að ógilda holdlegan samruna Fréttablaðsins og Moggans.
Ari segir "tvísýnt um alla blaðaútgáfu á Íslandi í dag", eins og eftir honum er haft á visir.is.
Reyndar eru gefin út fleiri blöð á Íslandi en ofangreind.
Söfnuður Akureyrarkirkju hefur um árabil gefið út safnaðarblað. Nú er verið að undirbúa eins konar samruna Safnaðarblaðs Akureyrarkirkju og fréttablaðsins Vikudags sem kemur út í höfuðstað Norðurlands.
Samningar þar að lútandi eru langt komnir og engar líkur á að Samkeppniseftirlitið hafi nokkuð við þá að athuga.
Héraðsfréttablöð eru mikið lesin. Safnaðarblöð líka. Fólk vill lesa tíðindi úr nærumhverfi sínu.
Finnist einhverjum það þröngur umfjöllunarradíus skal tekið fram að einkum reykvísku héraðsfréttablöðin sjá ástæðu til að flytja fréttir af því hvenær menn heimsóttu mömmu sína.
Héraðsfréttablöð eru sannkölluð grasrótarblöð og flest þeirra eru í litlum tengslum við flokksapparöt og viðskiptagúrúa landsins.
Menn eins og Ari Edwald hlæja kannski að þannig blöðum og telja þau ekki einu sinni með - en þeirra er nú samt sennilega framtíðin.
Bloggar | Breytt 14.2.2009 kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.2.2009 | 22:05
Hvaða traust?
Hagfræðingarnir fullyrða að ekkert eigi bankarnir dýrmætara en traust.
Traust sé forsenda viðskipta.
Nú verðum við Íslendingar að endurheimta traustið sem við glötuðum, segja þeir.
Hvaða traust?
Í skjóli traustsins fengu bankarnir okkar lánaða miklu meiri peninga en þeir gátu borgað.
Þjóðin naut þvílíks trausts hjá bönkunum að þeir lánuðu henni miklu meiri peninga en hún ræður við að endurgreiða.
Vegna alls þessa gríðarlega trausts sitjum við nú uppi með okkar eigin skuldir og skuldir bankanna.
Þar að auki treystum við stjórnvöldum, eftirlitsstofnunum og fjölmiðlum og verðum sennilega næstu mannsaldrana að súpa seyðið af þeim mistökum.
Ég fyrir mína parta afþakka meira af þessu endalausa trausti og ætla að fara varlega í allt svoleiðis á næstunni.
En dágóður slatti af heiðarleika væri vel þeginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)