Færsluflokkur: Bloggar
8.2.2009 | 21:53
Nornaveiðar veraldarhyggjunnar
Í prédikun dagsins fjallaði ég m. a. um nornaveiðar en sú iðja nýtur vaxandi vinsælda.
Ég studdist við greinarkorn eftir Nathalie Rotschild á bresku vefsíðunni spiked.
Fyrirsögn greinarinnar er:
A secular witch-hunt in western England
In backing the suspension of a nurse who offered to pray for her patients, New Atheists have become the new inquisitors
Þetta eru athyglisverð skrif sem lesa má hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
7.2.2009 | 00:58
Bloggher Egils Helgasonar
Oft les ég bloggið hjá Agli Helga.
Þeir fyrir sunnan fullyrða að hann sé einn áhrifamesti maður á Íslandi og hafi lengi verið.
Samkvæmt því ber hann sína ábyrgð á hruninu mikla og ef við förum eftir formúlunni ætti hann að leggja stund á nýuppgötvaða þjóðaríþrótt og axla ábyrgð.
Mér fyndist samt verra ef hann axlaði hana með því að segja af sér. Fyrir kemur að Egill hitti naglann á höfuðið.
Þau skipti gera meira en að jafna út vindhöggin.
Egill hefur heilan bloggher sér til fulltingis. Í september vakti þessi aðgerð Egils og blogghersins athygli mína.
Rúmum mánuði áður en allt fór hér á hvínandi hausinn voru þeir á fullu við að færa Reykjavíkurflugvöll út úr höfuðborginni.
Reykjavík sárvantaði pláss fyrir fleiri lúxusvillur, skrifstofur og verslanir.
Áðan las ég þessa færslu um Kaupþing hjá Agli.
"Uggvekjandi tölur," eins og það er orðað.
Bloggherinn lýsir samstundis yfir stríði og kunngjörir blóðuga byltingu.
Æsingurinn þróast uns sá skynsami maður, Vilhjálmur Þorsteinsson, bendir á að ef til vill sé ástandið ekki algjörlega vonlaust. Hann skrifar:
Enn er stærðfræðin að stríða mönnum. Dæmið er tiltölulega einfalt, eins og fram kemur ef menn lesa frétt mbl.is og skýrslu skilanefndarinnar. Skuldir gamla Kaupþings standa í 2.432 milljörðum, en eignir eftir afskriftir og endurmat eru metnar 618 milljarðar. Það tapast því rúmir 1.800 milljarðar. En eignirnar duga fyrir forgangskröfum (innlánum/Edge) og því lendir ekkert af tapinu beint á ríkinu eða almenningi, heldur einungis á lánardrottnum bankans (og hluthöfum, vitaskuld).
Þetta slær ekkert á vígahug blogghersins. Blóð heldur áfram að leka af næstu færslu. Vilhjálmur er húðskammaður fyrir leiðréttinguna. Hann svarar:
Já, það er undarlegt með suma - þeir virðast fá eitthvað út úr því að halda að þeir séu rændari en þeir eru.
Fórnarlambablæti er svo efni í alveg sérstaka færslu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.2.2009 | 23:34
Kreppukímni
Mér finnst gaman að lesa pistla eftir pólska heimspekinginn Leszek Kolakowski sem safnað hefur verið í örlitla bók (Mini-Traktate ueber Maxi-Themen). Þar veltir hann fyrir sér ótrúlegustu fyrirbærum, lyginni, ferðalögum, lukkuhjólinu, munaði, leiðinlegheitum, Guði, hjátrú, kynlífi, aðgerðarleysi og hryðjuverkum, svo nokkuð sé nefnt.
Hláturinn fær líka umfjöllun í bókinni. Allir geta hlegið, segir Kolakowski, en ekki hafa allir húmor. Sá sem hefur húmor þarf að geta horft á sig úr fjarlægð kaldhæðninnar. Allir geta hlegið en sá sem getur hlegið að sjálfum sér hefur húmor.
Í þrengingum öðlast húmor sérstakt gildi. Húmor er ein aðferð til að þola betur kreppur og harðræði.
Bankakreppan íslenska virðist ekki hafa miklar tengingar við það spaugilega.
Þó skilst mér að við Íslendingar séum eitt helsta aðhlátursefni fólks í útlöndum þessar vikurnar.
Sem flestum Íslendingum finnst ekkert fyndið.
Ég get ekki að því gert að mér finnst stappið við að drösla Davíð Oddssyni út úr Seðlabankanum stundum pínulítið fyndið.
Ég sé hann fyrir mér grípa í gerefti.
Ekki gat ég heldur varist hlátri í hádeginu þegar ég heyrði Jón Ásgeir kenna Davíð um gjaldþrot Baugs með þeim formála að það hljómaði kannski eins og gömul tugga.
Læt fylgja hér dæmi um gyðinglegan húmor úr pistlinum eftir Kolakowski.
Kona á dánarbeði segir við eiginmann sinn: "Elsku Pinkus minn. Nú er ég að kveðja og eitt ætla ég að biðja þig um: Við útförina situr þú við hliðina á henni mömmu eins og þið væruð bestu vinir. Ég veit ósköp vel að þú þolir hana ekki en við útförina mína verður þú að láta eins og þú elskir hana."
"Já, Sara," segir maðurinn, "fyrst þú ferð fram á það mun ég gera það, en eitt verð ég að segja; þessi útför verður mér ekki til neinnar gleði."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.2.2009 | 00:24
Ástandið
Stjórnmálamönnum er tíðrætt um ástandið. Þá eiga þeir við það sem við blasir. Ásigkomulag tilverunnar.
Ástandið.
Ástandið er mælt með alls konar kvörðum. Ástandið er þetta margra prósenta atvinnuleysi eða verðbólga. Ástandið er viðskiptajöfnuður. Ástandið er þetta mikil skuldsetning.
Ástandið er samt meira en allt ofangreint og annað sem hagfræðingarnir draga fram. Það er önnur stærð en sú sem birtist hjá greiningardeildunum. Ástandið er miklu meira og stærra en það sem sést í sjónvarpinu, heyrist í útvarpinu og skrifað er í blöð og blogg.
Ástandið er ekki bara þarna úti. Það er líka inni í hausunum á okkur. Í vestrænni hefð, þeirri hebresk-grísku, þeirri kristnu, er ástandið ekki síður innan við augu okkar en fyrir framan þau.
Sannleikurinn er andlegs eðlis.
Við eigum ekki að treysta skynfærunum skilyrðislaust. Hvorki augum né eyrum. Það er hluti mennskunnar að trúa ekki sínum eigin augum. Efast um það sem maður sér, heyrir og les. Velta því fyrir sér. Nota dómgreindina, skynsemina, brjóstvitið, innsæið.
Það sem er fyrir framan augu okkar ræður miklu um hvernig okkur reiðir af en alls ekki öllu. Líka skiptir máli hvernig við metum ástandið.
Og síðast en ekki síst velta örlög okkar á því hvernig við bregðumst við ástandinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.1.2009 | 00:38
Mýs á hvalveiðum
Fyrr í kvöld fékk ég símtal frá kollega í Þýskalandi.
Hann er forvitinn um gang mála hér norður í höfum því mér skilst að við Íslendingar séum mýsnar í tilraunabúri heimskreppunnar. Hingað horfir heimsbyggðin til að geta forðast mistökin sem við gerum og lært réttu brellurnar.
Sá þýski gaf lítið fyrir grýtingu á lögregluþjónum og stjórnarslit. Þetta eru allt gömul trix í Evrópu.
Þegar ég svo sagði honum frá nýjasta vopni okkar Íslendinga í baráttunni við fjármálakrísuna miklu heyrði ég eyrun vaxa á viðmælanda mínum.
Auknar hvalveiðar.
Hvalveiðar eru svo óskaplega táknrænar á þessum tíma.
Smáþjóð að takast á við veraldarkreppu og heimurinn fylgist spenntur með.
Hvalveiðimenn á bátsskel að skutla Moby Dick. Ahab skipstjóri horfir á um borð í Pequod ásamt öðrum í áhöfninni.
Hvalveiðarnar senda margþætt skilaboð frá okkur til umheimsins:
1) Við ætlum að nýta okkur auðlindir hafsins á sjálfbæran hátt
2) Verðmætasköpunin verður áþreifanleg en ekki bara einhverjar tölur á pappír eða tölvuskjám
3) Við ætlum að bjarga okkur og erum hvergi smeyk
Og síðast en ekki síst:
4) Við ætlum ekki að ganga í Evrópusambandið
Þess ber að geta að sá þýski hefur mikinn húmor fyrir hinum íslenska gorgeir, megalomania islandica.
Engu að síður held ég að honum hafi fundist þetta kúl múv hjá okkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
29.1.2009 | 20:45
Ný vika, ný tækifæri
Góðu fréttir dagsins eru þær að fræðingarnir okkar virðast sammála um að verðbólgan fari nú að hjaðna hratt. (Án efa telja líka margir það eitt allnokkur tíðindi að þeir skuli vera sammála.)
Ótíðindin eru á hinn bóginn þau að ekki hafi reynst unnt að lækka okurvextina sem eru að sliga fyrirtæki og heimili í landinu.
Stóraukið atvinnuleysi er ekki síður mikið áhyggjuefni.
Ég vil vekja athygli á mjög góðu framtaki vina minna í Glerárkirkju hérna á Akureyri. Næstu mánudagsmorgna eru þeir með samverur fyrir fólk í atvinnuleit undir yfirskriftinni hér að ofan:
Ný vika, ný tækifæri
Þær hefjast kl. 9 og kl. 9:30 koma góðir gestir og veita ýmsar gagnlegar upplýsingar. Þorsteinn E. Arnórsson frá verkalýðsfélaginu Einingu-Iðju ríður á vaðið 2. 2. n.k. og talar um ábyrgðasjóð launa.
Milli 10 og 11 verða léttar veitingar á borðum og fólk spjallar saman.
Prestur eða djákni verða á staðnum og gefa kost á sálgæsluviðtölum.
Nánari upplýsingar um þetta frábæra framtak eru á heimasíðu Glerárkirkju.
(Myndin með færslunni er af wikipedia)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2009 | 09:46
Svona fólk er til
Stundum heyrist að helst ekki megi hrósa fólki fyrir að vinna störf sín vel.
Það sé bara að vinna vinnuna sína.
Störfum má sinna með mörgum hætti og ef til vill má segja að ekki eigi að vera sérstaklega þakkarvert að fólk ræki skyldur sínar og geri það sem það fær borgað fyrir.
Heimahlynning er þjónusta sem "veitir einstaklingum með lífsógnandi og/eða langvinna sjúkdóma og þeim sem eru í erfiðri meðferð sérhæfða hjúkrunar- og læknismeðferð á heimilum þeirra" eins og segir á heimasíðu Heimahlynningar.
Nýlega var ég í húsi þar sem fólk hafði notið þjónustu hjúkrunarfræðinga Heimahlynningar á Akureyri. Fólkið átti ekki til orð um gæði þjónustunnar. Það hafði aldrei kynnst öðru eins.
Bæði voru störf hjúkrunarfræðinganna óaðfinnanleg og ekki var viðmót þeirra síðra. Frá þeim streymdi birta, kraftur og gæska. Einn aðstandenda sagði:
"Ég vissi ekki að svona fólk væri til."
Það er ekki í fyrsta skipti sem ég heyri hjúkrunarfræðinga í Heimahlynningu á Akureyri fá þau ummæli.
Svona fólk er víða til. Flest af því vinnur störf sín í kyrrþey og kærir sig ekki um að vera í sviðsljósinu en þjóðin hefur gott af því að vita að það er til staðar.
("Mér finnst gaman að vera góður," segir Agnar Ingi í 3. bekk Lundarskóla)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.1.2009 | 09:40
Friðardúfur og stríðshaukar
Við þurfum að kjósa en ég er ekki viss um að 9. maí næstkomandi sé dagurinn til þess. Mér finnst það fullsnemmt og fyrir því eru nokkrar ástæður.
Í fyrsta lagi sjáum við að nú þegar eru stjórnmálamenn búnir að setja í kosningagírinn. Næstu vikur verða því miður sennilega ekki notaðar til óvinsælla en nauðsynlegra aðgerða. Nú fara loforðamaskínurnar í gang og hættan er sú að frekar verði hugsað um atkvæðin en þjóðarhag.
Í öðru lagi tel ég eitt af tækifærum kreppunnar vera það að nú er lag til mikilla og róttækra þjóðfélagsbreytinga. Ég verð að taka fram að ég er óttaleg íhaldsblók; tel þróun betri en byltingar og vil halda í gömul gildi sem reynst hafa vel. Þegar svoleiðis kallar tala um róttækar þjóðfélagsbreytingar eru þeir að tala um hraða þjóðfélagsþróun og afturhvarf til gamalla og góðra gilda.
Eitt af því sem þarf að breytast á Íslandi er meiri og virkari þátttaka þegnanna í stjórn landsins. Nú er mikið talað um að "axla ábyrgð" og er þá horft til manna í stjórnkerfi og viðskiptalífi. En þjóðin þarf líka að axla ábyrgð á sér sjálfri. Of lengi hefur hún verið sinnulaus um mál sín. Látið nægja að hugsa um þau á sirka fjögurra ára fresti. Þess á milli sjá svonefndir atvinnustjórnmálamenn um málið.
Eitt af tækifærum kreppunnar er mikil og oft á tíðum frjó þjóðfélagsumræða. Aldrei áður hef ég upplifað þvílíkan áhuga á þjóðfélagsmálum og gildum. Það er sama hvar maður kemur. Í heitu pottunum er bullandi umræða, fólk tekst á um siðfræði í skírnarveislum og safnast á fundi til að ræða þjóðmál.
Við eigum að gefa sjálfum okkur þennan tíma.
Þar að auki þarf fólk tíma til að búa til ný framboð, marka þeim stefnu og finna fólk á lista. Gömlu flokkarnir þurfa líka að endurnýjast. Þeir þurfa að gera upp fortíð sína, breyta áherslum og þar er nauðsynlegt að endurnýja mannskap.
Allt þetta þarf tíma. Ég óttast að kosningar í maí séu ótímabær slit á þeim risastóra þjóðfundi sem nú fer fram á Íslandi.
Sumir segja að kosningar séu nauðsynlegar til að friður skapist.
Ég er ekki viss um að ég ég verði tilbúinn fyrir friðinn í maí. Ófriðurinn í þjóðfélaginu er að vissu leyti verk ofbeldisdýrkenda og lýðskrumara en hann er líka afleiðing ranglætis. Ranglætið þarf að uppræta áður en friður kemst á. Friður sem settur er á áður en ranglætið hefur verið upprætt er platfriður.
Ég rakst á þennan texta í gömlu blaði. Læt hann fylgja hér með fyrir þá sem nenna að lesa:
Þegar menn eru farnir að trú því, að hinn eilífi kærleikur Guðs þýði sama sem meinleysi og góðmennsku, sem lætur alla ná takmarkinu, á hverri brautinni sem þeir ferðast, þá liggur skiljanlega svo opið fyrir, að láta sjer standa á sama, hvernig veröldin veltist, lofa öllu, sem uppi er í tímanum, að ganga eins og verkast vill. Það er líka svo, að jeg sje menn af vorri eigin þjóð með þessari grunnu skynsemisskoðun á Guði og kærleikanum, stóra hópa af þeim, í því ástandi, að þeir eiga engin eiginleg lífs-spursmál í eigu sinni, og ekki heldur nein eiginleg dauða-spursmál, fyrir sjálfa sig og þjóð sína. Þeim stendur á sama um allt; þeir eru sannfærðir um, að það hljóti allt að fara vel á endanum rjett af sjálfu sjer. Ef þeir biðja á annað borð, þá hljóðar bænin þeirra svona: Gef frið um vora daga! - Ef einhver af lífs-spursmálum og dauða-spursmálum lands og lýðs eru dregin fram og reynt að fá almenning til að hugsa um þau og kasta sjer í alvarlega baráttu út af þeim, þá er friðinum raskað. Og þegar svo er komið, þá kveina og kvarta þessir friðarpostular um skort á kærleika hjá þeim, sem uppi í baráttunni standa. Að brjóta niður eitthvað, sem illt er, til þess þarf stríð, opt upp á líf og dauða. Og til að reisa það upp, sem gott er, og láta það verða ríkjandi í samfélaginu, til þess þarf líka stríð, opt voðalega langt og strangt stríð. Slíkt stríð þolist ekki af mönnunum, er trúa á hinn áður nefnda óekta kærleika. Þeim finnst allt slíkt stríð fordæmanlegt; þeir setja upp dæmalausan helgisvip, halda að sjer höndum og tala stórum og mörgum orðum um kærleiksleysið, sem komi fram í öllum þessum ólátum. Það þýðir ekki að einkenna þessa menn frekar. Þeir eru til beggja megin hafs. Þeir eru alstaðar til, þar sem menn tilbiðja hina ósönnu skynsemistrúarmynd af kærleikanum. Þegar menn sjá þennan makráða, værukæra, hörundsára, volaða kærleik frá mönnum til manna, þessa skrípamynd af mannlegum kærleik, sem ómögulega þolir það, að raskað sé mannfjelagsrónni, þó að hún sje ekki annað en dauðasvefn, þá má hiklaust hafa það fyrir satt, að menn trúi þar á þeim stað á einhverja mynd af Guði og hinum guðlega kærleika, sem hvergi er til í virkilegleikans heimi, mynd, sem myndazt hefir í mannanna eigin sálum og lypt sjer þaðan upp í hinn andlega himin, sem þeim tilheyrir, fram undan augum þeirra.
(Sr. Jón Bjarnason, Það, sem mest er í heimi, Kirkjublaðið, mánaðarrit handa íslenzkri alþýðu, Reykjavík 1894, bls. 67 - 68)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2009 | 22:01
Sjálfboðalið
Í dag messaði ég á dvalarheimilunum Hlíð og Kjarnalundi. Með mér var hópur sjálfboðaliða úr Kór Akureyrarkirkju sem leiddi sönginn.
Eftir guðsþjónustuna á Hlíð var messusalurinn græjaður til annarra nota. Hann var gerður að bíói. Sjálfboðaliðarnir úr kórnum gengu út en inn gekk annað sjálfboðalið. Það nefnir sig "Vinir Hlíðar" og samanstendur m. a. af fyrrum starfskonum á dvalarheimilinu. Þær eru hættar að vinna aldurs vegna en halda tengslum við heimilið með því að aðstoða þar með ýmsu móti, t. d. með því að hjálpa til við kvikmyndasýningar á Hlíð þrisvar sinnum í hverjum mánuði.
Það átti að fara að sýna Mamma mia og Abbalögin ómuðu á eftir mér þegar ég kvaddi heimilið.
Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir hversu öflugt og fjölþætt það sjálfboðaliðastarf er sem unnið er á þessu landi.
Þessir tveir sjálfboðaliðahópar sem ég sá að störfum á dvalarheimilum bæjarins eru góðu fréttir þessa dags.
Myndin er af verðlaunahöfum í keilukeppni milli dvalarheimilanna Hlíðar og Kjarnalundar árið 2006. Hún er fengin af síðunni akureyri.is.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.1.2009 | 12:50
Góðar fréttir
Í hádegisfréttum útvarpsins nú áðan heyrði ég haft eftir Gylfa Zoega, hagfræðingi, að samstarf íslenskra stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn væri þegar byrjað að bera árangur. Það eru góðar fréttir.
Fyrir rúmum mánuði var sendinefnd frá sjóðnum á Íslandi að kanna gang efnahagsmála. Niðurstaða hennar var að áætlun sjóðsins og stjórnvalda gengi vel. Talsmaður nefndarinnar, Poul Thomsen, var sáttur við þróunina.
"The worst was behind the country," sagði Thomsen á blaðamannafundi, samkvæmt frétt á BBC.
Næsta athugun sjóðsins fer fram í febrúar.
Frétt breska ríkisútvarpsins um þetta mál má lesa hér. Fyrirsögn hennar er:
Iceland recovering well, says IMF
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)