Færsluflokkur: Bloggar
22.1.2009 | 23:12
Svartagallsraus og geðvonskunöldur
Ráðsnjöll húsfreyja sem ég þekki er fyrir löngu búin að einskorða sjónvarpsnotkun heimilis síns við Kartúnnettvork. Þar á bæ er harðbannað að hlusta á annað en Léttbylgjuna.
Árangurinn er sá að fjölskylda hennar skríður alsæl og áhyggjulaus undir sængur sínar á kvöldin og blundar blítt uns hanar gala og dagur rís.
Í öðrum húsum, þar sem menn hafa asnast til að horfa og hlusta á fréttir, skjögrar fólk skjálfandi í rúm og loksins þegar það festir svefn undir morgun fær það skelfilegar martraðir.
Stundum þegar við hjónin fáum okkar að borða í eldhúsinu sprettur konan upp og slekkur á viftunni. Það getur verið ótrúlega mikill hávaði í henni (viftunni). Sá sem kveikti á henni við matseldina gleymdi að slökkva.
Þvílíkur léttir þegar þungum dyni viftunnar slotar og maður uppgötvar að það var hann sem hafði verið að pirra mann við máltíðina.
Fréttatímarnir og fréttaþættirnir eru svipaðir og eldhúsviftan að þessu leyti. Þetta er hávær þunglyndisskarkali sem maður heyrir án þess að vera að hlusta. Eintóm ótíðindi, kreppan, ástandið, mótmælin, óeirðir, barsmíðar, gjaldþrot og skuldafen. Ekkert ljós í myrkrinu. Eyðimerkurganga. Allir firðir botnfrosnir. Hagfræðingar með heimsslitaspár. Grátklökkir stjórnmálamenn. Reiðir spyrlar.
Þjóðin missir móðinn. Enginn talar í hana kjark. Bankarnir hrundu og bang!
Ekkert jákvætt gerist lengur á Íslandi.
"Það þýðir nú ekki að vera stinga höfðinu í sandinn," segja þeir af sósíalrealískum þótta.
Sannleikurinn er sá að bæði fjömiðlar og stór hluti þjóðarinnar er nákvæmlega þar með hausinn. Á bólakafi í sandi kreppunnar og ástandsins og ekkert sýnilegt nema sá botnlausi sandur.
Við látum ljúga að okkur að ekkert sé til nema svartnættið. Við eigum helst ekki að hlusta á neitt nema svartagallsraus.
Sumir segja það sykursæta væmni og ábyrgðarleysi að vera gaspra þetta um jákvæðni á svona voðalegum tímum.
Það má vel vera. En í sykrinum er þó orka. Og þjóðin þarf kraft til að komast á lappir.
En þeir sem á hinn bóginn nærast ekki á öðru en þverhandarþykku geðvonskunöldri leggjast út af uppþembdir í spaðmollu og koma engu í verk.
Bíða eftir næsta skammti af svartagalli og fórnarlambasteik.
Strákurinn á myndinni heitir Daði og er í 2. bekk Síðuskóla. Hann segir: "Ríkur er sá sem á vin." Ég ætla að gefa kreppunni langt nef núna um helgina og elda dýrindis kjötsúpu með vini mínum. Svo bjóðum við konunum okkar upp á herlegheitin þegar þær eru búnar í bíói. Þar að auki er Sigga litla systir mín fertug í dag og verður með mikla veislu á föstudagskvöldið. Til hamingju! Ég skal passa mig á spaðmollunni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.1.2009 | 10:16
Ekki í mínu nafni
Mótmælendur ögra lögreglu og við getum velt fyrir okkur hversu langt skuli ganga í þeim efnum.
En þegar upp eru rifnar gangstéttarhellur og þeim kastað í fólk sé ég enga ögrun í því. Þá er vísivitandi verið að meiða fólk - eða drepa.
Ofbeldi leiðir ekki til góðs. Það kallar á enn meira ofbeldi. Þeirra ábyrgð er mikil sem hvetja til spellvirkja eða níðingsverka jafnvel þótt slíkar eggjanir séu undir rós.
"Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrstur," var einu sinni sagt. Stjórnvöld eru sek um að hafa sofið á verðinum meðan fjárglæframenn fengu að veðsetja þjóðina og framtíð hennar.
Íslenskir fjölmiðlar eru heldur ekki saklausir. Þeir stigu dansinn kringum gullkálfana. Hömpuðu milljarðamæringum og kyntu undir peningardýrkun. Reyndu jafnvel að hindra máttleysislega tilburði stjórnvalda til að koma böndum á viðskiptaveldi og lögum yfir þau.
Núna finnst manni ekki laust við að þessir sömu fjölmiðlar eggi fólk til ofbeldis og hryðjuverka - þótt þeir stynji sáran og beri sig aumlega ef þeirra eigin tækjum og tólum er spillt í aðgerðum mótmælenda.
Fólk er duglegt að mótmæla og fólk er duglegt að tala í nafni þjóðarinnar, segja hvað okkur hinum finnst.
En grjótkastandi skríll talar ekki fyrir mína hönd. Ég get alveg talað fyrir mig.
Á feisbúkk er hópur sem nefnist "Grímuklæddir mótmælendur tala ekki fyrir mína hönd, ég er líka þjóðin!"
Meðlimir þar voru 5.711 síðast þegar ég kíkti.
Ég get ekki talað fyrir þjóðina en þessi mikla þátttaka segir sína sögu um hana.
Út um allt land er fólk að tala saman um hvernig hægt sé að bregðast við hremmingum kreppunnar og leitar leiða út úr henni.
T. d. á fundinum sem ég fjalla um í færslunni hér á undan.
Ég vænti þess að fjölmiðlar sýni því starfi áhuga þótt þar sé hvorki kastað tómötum í hús né gangstéttarhellum í manneskjur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.1.2009 | 00:30
Niðurrif og uppbygging
Það er hreint ekki tekið út með sældinni að vera jákvæður þessa dagana.
Jákvæðni og bjartsýni er tabú í mörgum kreðsum.
Sá sem er vogar sér að vera jákvæður er á flótta undan vandanum. Sá sem dirfist að brosa í bullandi afneitun. Bjartsýni er heiftarleg veruleikafirring.
Nei, nú gildir að vera neikvæður, reiður og bitur. Sá sem er eitthvað annað gengur í lið með óvinum Íslands.
Allt tal um jákvæðni er væmið nýaldarbull fólks sem ekki hefur öðlast Meðvitundina.
Í slíkum aðstæðum þarf kjark til að fara af stað með verkefni sem ber yfirskriftina Brostu með hjartanu!
Það gera Ásprent-Stíll og Akureyrarstofa.
Mér finnst þetta flott uppátæki og dirfskufullt. Hér er lýsing á því.
Ég er ekkert viss um að eina rétta kreppuráðið sé að öskra með maganum.
Einn liður í verkefninu er fundur í Brekkuskóla nú á fimmtudag 22. janúar kl. 18 - 21. Frummælendur eru Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, Jón Björnsson, rithöfundur og reiðhjólapílagrímur og Inga Eydal, hjúkrunarfræðingur.
Akureysk matvælafyrirtæki bjóða upp á fiskisúpu, brauð og kaffi. Síðan gefa og þiggja þátttakendur ráð í umræðuhópum.
Að þessu sögðu minni ég á það sem ég hef áður sagt hér á blogginu:
Neikvæðnin er líka nauðsynleg á því Íslandi sem við erum að upplifa. Hér hafa fengið að leika lausum hala skaðleg öfl. Þau þarf að reka burt. Fyrr næst enginn árangur við endurreisnina. Við þurfum að rífa niður áður en við förum að byggja upp.
Við þurfum að afneita Djöflinum og öllu hans athæfi og öllum hans verkum.
Reiði sem ógnar því illa og mannfjandsamlega er góð reiði og holl.
Ef við finnum reiðinni réttan farveg og látum neikvæðni okkar bitna á því sem hefur skemmt samfélag okkar höfum við þegar byrjað á endurreisninni og uppbyggingunni.
Ég ætla að leyfa mér að vera alveg hrikalega bjartsýnn. Ég trúi því að íslenska þjóðin sé skynsöm; hún nýti tækifærið, hafni bölvun sinni en játist blessuninni.
Myndin með færslunni hefur prýtt strætóskýli á Akureyri. Þar sést Silja Björk úr 5. bekk Brekkuskóla. Á hjartanu hennar stendur:
Guð gefur mér alltaf marga möguleika.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
19.1.2009 | 13:46
Loðnar konur
Fyrir nokkrum árum spjallaði heimspekingur við fermingarbörnin í Akureyrarkirkju. Dómgreind var eitt umfjöllunarefnanna. M. a. var rætt um gylliboð auglýsinganna enda var þessi fundur í desember þegar auglýsingaflóðið nær hámarki.
Heimspekingurinn bað börnin að nefna dæmi um gylliboð. Ein stelpan sagði að mamma sín hefði einu sinni látið glepjast af auglýsingu um háreyðingarkrem. Kremið hefði að vísu eytt hárum en ekki látið þar við sitja.
Húðin hefði líka flagnað af mömmu.
Börnin könnuðust mörg við þessa auglýsingu og gagnrýndu hana mjög.
Eitt fermingarbarnanna klykkti svo út með því að segja að þar að auki sendi auglýsingin okkur þau skilaboð að það væri eitthvað að því að vera pínulítið loðinn.
Nú veit ég að margar konur vilja síður vera loðnar um leggi og hvað þá kjamma en þrátt fyrir það kom fermingarbarnið auga á það sem við sjáum gjarnan ekki: Auglýsingar eru meira en auglýsingar. Þær selja ekki bara vörur eða þjónustu.
Auglýsingar búa til ímyndir og fyrirmyndir. Þær sýna okkur fólk sem við viljum líkjast. Og þær sýna okkur lúserana sem við viljum ekki líkjast.
Auglýsingar birta okkur lífið sem er eftirsóknarvert og þær benda líka á það sem við eigum að forðast. Þær skilgreina sóknina og flóttann.
Þær segja okkur hvað við eigum að þrá og óttast. Þær skapa draumana og martraðirnar með öllum sínum skegglausu og kafloðnu konum.
Auglýsingar innræta gildi og siðferði. Þær móta viðhorf. Þær búa bæði til goðin og átrúnaðinn.
Daginn út og inn eru auglýsingarnar að ala okkur upp.
Hvað haldið þið t. d. að íslenskt barn sjá og heyri margar auglýsingar á degi hverjum?
Auglýsingar hafa átt sinn þátt í því að brengla gildismat okkar.
Margar auglýsingar eru hættulegar.
Best er að verjast þeirri hættu með góðri dómgreind og heilbrigðu gildismati.
Væri ekki fróðlegt að rannsaka auglýsingar liðinna ára og skoða það sem þær hafa verið að innræta okkur?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.1.2009 | 23:12
Reykur af kveik
Trúin er ekki háð þeim skilyrðum að hagstæðu atburðirnir verði og góðu hlutirnir gerist.
Trúin er miklu dýpri, víðari, hærri og lengri en það.
Til er grunn trú, þröng, stutt og lág.
Hún hjálpar ekki.
Hún kulnar um leið og okkur gengur illa. Hún kafnar í áföllunum, visnar í skortinum og deyr í mótlætinu.
Hún verður að engu í kreppunni.
Hún lýsir bara í ljósinu en þegar myrkrið skellur á er ekkert eftir af henni nema reykur af kveik.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.1.2009 | 18:16
The Icelander
Guðmundur Andri Thorsson er einn af mínum uppáhaldsrithöfundum. Bókin Ég vildi að ég kynni að dansa geymir safn skemmtilegra greina og í einni þeirra, Íslandsklukkunni, er snilldarlýsing á Íslendingum og kostulegu eðli landans. Við erum engri þjóð lík.
Ég var að skemmta mér við að lesa þessa grein nú um helgina. Bestu bitana flutti ég konu minni og mágkonu. Þær hrifust með mér. Einkum fannst þeim forvitnileg sú kenning skáldsins að íslenskar konur klæddust jogginggöllum þegar þær nenntu ekki að vera kynverur.
Við lestur greinarinnar rifjaðist upp fyrir mér 17. júní árið 2007. Þá var ég staddur á ítalskri sólarströnd ásamt nokkrum elskulegum löndum mínum. Við brutum heilann um hvernig halda ætti upp á sautjándann á Ítalíu.
Ein hugmyndin var að efna til glímusýningar á ströndinni. Meinining var að etja saman tröllvöxnum bankamanni og fyrrum norðurlandameistara í sundi annars vegar og hins vegar kattliðugum geðlækni og gömlum fimleikakappa. Þetta var þjóðlegasta hugmyndin og enginn efaðist um að strandgestir, íslenskir sem ítalskir, yrðu agndofa þegar garparnir færu að sveiflast um í glímudansi undir ölduslætti Adríahafsins.
Ekkert varð af glímusýningunni enda hafði enginn sýnt þá forsjálni að taka með sér glímubelti að heiman. Þessari þjóðhátíð var fagnað með því að hópurinn fór að sjá sirkus í nálægu þorpi.
Ekki þótti öllum það þjóðlegt.
Hótelhaldarinn, signor Bruno Rapa, reddaði því. Hann beitti sér fyrir því að bökuð var ógurleg stríðsterta í líki íslenska fánans. Henni var rennt inn í matsal hótelsins með fyrirgangi og gestum tilkynnt að nú væri þjóðhátíðardagur Íslendinga. Eftir lófaklapp og háværar hyllingar á ítölsku var tertan sneidd með viðhöfn og borin á borð sem desert það kvöldið.
Eftir mat, þegar fólk var sest út á hótelveröndina, hljómaði diskur með Alfreð Clausen í hátalaranum þar, en Bruno hafði beðið mig að útvega sér íslenska tónlist til flutnings í tilefni dagsins.
Maður gat ekki annað en fyllst þjóðernisstolti þegar ítalskar þokkadísir tóku að dilla sér undir lögunum Manstu gamla daga? og Margar góðar sögur amma sagði mér.
Þar að auki voru þær yndislega berjabláar eins og aðrir sem snætt höfðu þjóðhátíðartertuna.
Blái fánaliturinn á henni hafði auðsýnilega verið nokkuð sterkt blandaður.
Skýring á mynd: Því miður átti ég enga mynd af ítölsku Íslandsfánatertunni. Ég gúgglaði "The Icelander" með þeim árangri að upp kom mynd af þessum drullumunstraða hjólbarða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.1.2009 | 18:13
Sekúndur á stundaglösum
Sjaldan gefum við gefum þeim gaum, sekúndunum. Við teljum lífið í dögum, vikum, mánuðum og árum. Oft í klukkustundum og fyrir kemur að við bregðum mælistiku mínútnanna á tilveruna, ef mikið liggur við og á.
Oft eru það samt sekúndurnar sem sköpum skipta og bak við alla meiriháttar atburði eru þær tikkandi, þessi litlu grey.
Íslensku bankarnir voru ekki þurftarfrekir á tíma þegar þeir fóru að hrynja.
Heimssagan þarf ekki langan tíma til að breytast.
Við tímamót lítum við gjarnan til baka.
Dýrmætustu hlutar ársins 2008 voru oft ekki nema fáar mínútur að lengd. Sumir ekki nema örfá augnablik eða andartök sem urðu gull í safnkistu minninganna.
Þannig verður þetta nýbyrjaða ár. Það er ekki eitt þrjúhundruðsextíuogfimm daga stökk. Það verður safn margra augnablika og andartaka sem sum hver geta riðið baggamuninn í lífi okkar.
Tímann á ekki að stallkjafta.
Örlitlum tímadreitli er hellt í stundaglösin og okkur boðið að njóta áður en meira er veitt.
Verði ykkur að góðu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.1.2009 | 16:16
Kjötsvimi og spaðmolla
Jólin eru að klárast og þrátt fyrir kreppu og þrengingar bættust illa þokkuð aukakíló á þjóðina.
Ég brá út af venjunni og eldaði kalkúna á aðfangadagskvöld (sjá mynd). Jólalærið fékk ég hjá tengdó á gamlárskvöld. Það sveik ekki og meig í munni (svo ég noti umdeilt orðalag).
Í Svarfaðardal nefna menn eftirköst ofáts kjötsvima.
Spaðmolla er annað heiti á sama fyrirbæri.
Í dag heyrði ég ágæta sögu af presti sem þjónaði hér út með firði.
Hann hafði verið að ferma og var í veislum ásamt fylgdarmanni. Fóru þeir ríðandi um sóknina.
Miklar kræsingar voru í boði, ótrúlegt úrval af tertum, kökum og heitu súkkulaði með rjóma.
Eftir nokkrar veislur var prestur orðinn harla saddur en margar vitjanir eftir.
Brá hann á það ráð að stíga af baki á milli bæja og velta sér.
Þá jafnaðist þetta í honum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.1.2009 | 14:29
Blessað einkaframtakið
Nú er í tísku að úthúða einkaframtakinu. Það er mikið ólíkindatól og nauðsynlegt að hemja það með lögum og reglum. Fersk dæmi sýna hvernig fer ef það er látið ógert.
En stutt er til beggja öfga í þessum efnum. Þjóðfélag þar sem búið er að kæfa frumkvæði og framtak fólksins, sjálfsbjargarviðleitni þess og kreatívitet, er heldur ekki gott.
Milli jóla og nýárs var hringt dyrabjöllu hér í Norðurbyggðinni. Húsfreyjan opnaði og við henni blasti sirka fimm ára gutti, rjóður í vænum vöngum, úlpuklæddur og á nýjum stígvélum. Hann kvaðst vera að safna tómum flöskum. Hvort nokkrar væru hér á lausu?
Hann var ósköp kurteis.
Húsfreyjan spurði um málefnið sem verið væri að safna fyrir.
Stráksi tjáði henni grafalvarlegur að hann væri að safna sér fyrir trampólíni og hygðist fara út í slíkar fjárfestingar með vorinu, ef söfnun gengi vel.
Hann uppskar góðan slatta af verðmætum plastflöskum hjá okkur og var býsna drjúgur með sig þegar hann skrölti með pokann niður útidyratröppurnar.
Lesendum og bloggvinum óska ég gleðilegs nýárs og leyfi mér að vona að þjóðin verði skapandi og framtakssöm við þjóðfélagsumræðuna á komandi tíma.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.12.2008 | 22:49
Hagfræði góðærisins
Hagfræðingar frjálshyggjunnar hafa boðað okkur að markaðurinn sé eins og veðrið; það stjórnist af sínum sérstöku reglum. Að þeirra mati lýtur efnahagslífið eigin lögmálum á sama hátt og vindar og regn.
Það eina sem við getum gert er að spá í fyrirbærin.
Eina raunverulega hagfræðin er einhvers konar efnahagsleg veðurfræði.
Hinir sönnu hagfræðingar eru sjáendur.
Spádeildir bankanna eru eins og Veðurstofa Íslands.
Við trúðum þessu og gleyptum meira að segja þær kenningar þessara hagspekinga að fái markaðurinn að þróast að vild sinni endi það í unaðslegum sólarhita á öllum veðurstöðvum.
Sem er alveg þokkalega þægileg trú þangað til frostaveturinn kemur eða ísöld rennur upp og landsins forni fjandi birtist.
Sá er samt munurinn á efnahagslífinu og veðrinu að við mennirnir höfum litla stjórn á því síðarnefnda en getum haft töluvert um það að segja hvernig það fyrrnefnda þróast.
Tennur hinnar heimslægu villutrúar á sjálfstýringu markaðslögmálanna bitu að þessu sinni fyrst og dýpst í okkur Íslendinga.
Þær nöguðu af okkur bankana, fasteignirnar og spariféð. Aleiguna og atvinnuna. Og orðsporið.
Efnahagslífinu verður að stýra. Um það verða að gilda skýrar reglur. Það er ekki bara tæknilegt úrlausnarefni. Það hefur markmið. Það hefur siðræna vídd - og hún er reyndar sú mikilvægasta.
Efnahagslífið er ekki bara verkefni hagfræðinga eða sérfræðinga í fílabeinsturnum.
Það hvernig takmörkuð heimsins gæði útdeilast er á ábyrgð okkar allra.
Fatti þjóðin það leyfi ég mér að spá spennandi góðæri framundan.
Þannig er mín hagfræði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)