Færsluflokkur: Bloggar
28.12.2008 | 21:24
Hugrekki Fréttablaðsins
Fyrir rúmu ári efndi Fréttablaðið til vals á besta auðmanni Íslands. Valið stóð á milli ellefu nafngreindra auðmanna og var í því skyni leitað til nokkurra útvalinna álitsgjafa. Átti hver þeirra að nefna þrjá uppáhaldsauðmenn sína.
Fréttablaðið mæltist til þess að álitsgjafar hefðu þrennt til hliðsjónar við valið.
Í fyrsta lagi stíl og ásjónu auðmannanna, klæðaburð og sjónvarpsútlit.
Í öðru lagi hegðun þeirra og framkomu, orðheppni og góðverk.
Í þriðja lagi bað Fréttablaðið álitsgjafa að meta munað og lúxus auðmannanna eða eins og það er orðað í leiðbeiningum blaðsins:
Hver á flottustu bílana og kann best að nýta sér lífsins lystisemdir? Hver á flottustu flugvélarnar og húsin? Hver lifir öfundverðasta munaðarlífinu?
Nú, rúmu ári eftir að Fréttablaðið efndi til valsins á besta auðmanninum, birtir það harðorðan leiðara um ástandið.
Loksins!
Þar er m. a. talað um hyski og hef ég ekki séð svo sterkt að orði kveðið um eina þjóðfélagsstétt í ritstjórnargrein stærsta dagblaðs landsins.
Við prestarnir erum víst þetta hyski sem Fréttablaðið er búið að finna.
Hugrekki Fréttablaðsins er aðdáunarvert.
Þó veit ég ekki hvort er neyðarlegra, að vera mesta hyski Fréttablaðsins eða þess besti auðmaður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
24.12.2008 | 10:56
Jólin 2008
Þótt geisi þessi kreppa koma jól
og klukkan helgar tíðir inn mun slá.
Hún minnir á þann himins höfuðstól
sem hvorki ryð né mölur grandað fá.
Að nýju vængi fær hin forna sögn
því fjær og nær er ævintýrið sagt
og aftur fyllist hjartað helgri þögn
er heyrir það um barn í jötu lagt.
Nú birtist vonarstjarnan há og heið,
af hennar skini veröldin er kysst.
Til Betlehem hún lýsir öllum leið
og líka þeim sem kjarkinn hafa misst.
Á jólum verður gata þeirra greið
sem ganga til að finna Jesú Krist.
Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og bið Guð að blessa nýtt ár.
Hjartans þakkir fyrir samskiptin á árinu 2008.
Svavar Alfreð Jónsson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.12.2008 | 16:16
Að slá eign sinni á sól og tungl
Nú er í tísku að saka kristna menn um að hafa stolið jólunum. Þeir hafi gert ævaforna sólstöðuhátíð að trúarhátíð og tileinkað hana fæðingu frelsara síns.
Engu er hægt að stela nema það hafi verið í eigu einhvers. Þeir sem kvarta undan því að jólunum hafi verið stolið hljóta því að telja þau sína réttu eign.
Því fer auðvitað fjarri að hátíðahöld séu uppfinning kristinna manna. Frá örófi alda hafa menn gert sér dagamun, gjarnan við árstíðaskipti og önnur tímamót í náttúrunni. Jól voru haldin hér á norðurslóðum löngu fyrir Krists burð þegar dagarnir fóru að lengjast og sólin að hækka á lofti. Sú tilhögun er miklu eldri en kristni.
En þó að kristnir menn hafi ekki byrjað á þeim sið að miða hátíðir við gang himintunglanna hlýtur þeim að leyfast það eins og öðrum.
Kristin jól eru miðuð við sólina en kristnir páskar við tunglið.
Eða telja einhverjir sig hafa einkarétt á sólinni og tunglinu?
Frá upphafi hefur söngur og hljóðfærasláttur fylgt kristnu helgihaldi.
Hefur kirkjan þar með stolið tónlistinni?
Kristnir menn syngja sálma og helgiljóð.
Og þeir halda jól þar sem þeir minnast fæðingar frelsara síns.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
18.12.2008 | 00:10
Gamli fjölmiðlafrumvarpsdraugurinn
Gamli fjölmiðlafrumvarpsdraugurinn ríður húsum á Íslandi kreppunnar.
Auðvitað skiptir máli hverjir eiga fjölmiðlana. Smám saman lýkst það upp fyrir þjóðinni. Bloggarar og álitsgjafar eru samt ekki sammála um hvort það sé Davíð eða Ólafi Ragnari að kenna að hér hafi fjölmiðlar komist í eigu þeirra sem mest þörf var á að þeir gagnrýndu.
Forsetinn á að hafa afhent auðmönnum stjórnina á þjóðfélagsumræðunni með því að stoppa hið alræmda fjölmiðlafrumvarp.
Davíð á að hafa eyðilagt möguleika á lögum um eignarhald á fjölmiðlum með því að hafa samið afspyrnulélegt frumvarp.
Um þetta rífast menn síðan. Hvor sé sökudólgurinn.
Þetta er svona týpísk íslensk þjóðfélagsumræða.
Áður en lengra er haldið vil ég taka fram að ég er ekki sannfærður um að gamla fjölmiðlafrumvarpið hafi verið svo galið.
Ég held alla vega að erfitt hafi verið að semja frumvarp sem átti að koma í veg fyrir að fjölmiðlar landsins kæmust í fárra eigu nema að það bitnaði á þeim fáu sem fjölmiðlana áttu.
Kjarni málsins er sá að hér á landi hafa þeir ráðið ferðinni sem vilja helst engin lög um eignarhald á fjölmiðlum.
Hafi gamla frumvarpið verið svona ómögulegt af hverju er þá ekki fyrir löngu búið að leggja fram annað betra?
Andstæðingar fjömiðlafrumvarpsins sögðu á sínum tíma að ekki hefði farið fram nein umræða um eignarhald á fjölmiðlum. Þess vegna væri frumvarpið ekki tímabært.
Jæja - en hvar er þá þessi umræða sem menn söknuðu svo sárt?
Hvernig hafa íslenskir fjölmiðlar staðið sig í því að upplýsa okkur um hvernig tekið er á þessum málum í útlöndum?
Hafið þið lesið margar greinar um það?
Íslendingar hafa tileinkað sér hin hörðu markaðsviðhorf þegar kemur að fjölmiðlum. Um fjölmiðla eiga bara að gilda markaðslögmál. Þjóðfélagsumræðan er markaðsvædd. Upplýsingagjöf til almennings er markaðsvædd.
Í leiðara Fréttablaðsins frá árinu 2005 er talað til þeirra sem vilja tryggja með lögum dreift eignarhald á fjölmiðlum:
Þetta góða fólk virðist gleyma því að í lýðfrjálsu landi er dómur um fjölmiðla á degi hverjum kveðinn upp á hinum frjálsa markaði. Þeir miðlar sem standa sig ekki, þykja óspennandi, óvandaðir eða ótrúverðugir, tapa kaupendum og auglýsendum og lúta í lægra haldi fyrir vandaðri og vinsælli miðlum. Um þetta eru nokkur nýleg dæmi á okkar litla fjölmiðlamarkaði, bæði hvað varðar dagblöð og ljósvakamiðla. Þetta hlutverk markaðarins eiga stjórnvöld eða stjórnmálamenn ekki að taka að sér, enda stríðir það gegn grundvallarreglum lýðræðisins.
Fróðlegt er að skoða þessi orð í ljósi nýjustu frétta af ritskoðunartilburðum eigenda fjölmiðla.
Og ekki síður í ljósi berlúskónísks ástands á íslenskum fjölmiðlamarkaði - þar sem þessa dagana er unnið að því að veikja Ríkisútvarpið.
Það var hinn stjórnlausi markaður sem kallaði yfir okkur kreppuna.
Og markaðsstýrðir fjölmiðlarnir vöruðu okkur að sjálfsögðu ekki við henni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.12.2008 | 22:55
Jól endast illa
Ég kom upp útiséríunni núna um helgina. Það er afrek þegar í hlut á maður með eintóma þumalputta. Að venju hugsaði ég til þess með skelfingu þegar kemur að því að taka verður niður gervigrenið og víraflækjurnar. Auðvitað reyndi ég að festa seríuna sæmilega til að hún lafði í roki en bæði ljós og annað jólaskraut þarf ekki að vera uppi nema um það bil einn mánuð.
Skraut jólanna er ekkert varanlegt.
Þaðan af síður góðgætið sem maður útvegar sér fyrir jólin. Við skárum líka út laufabrauð um helgina, það verður keypt hangikjötsflís og steikarstubbur, jólaöl ber ég líklega í hús, smákökur eiga eftir að bakast á plötum og á aðfangadag bý ég til mitt árlega valdorfsalat.
Þetta endist heldur ekki enda stendur það ekki til. Í janúar verðum við aftur farin að naga kjúklingavængi og japla á sperðlum.
Ekki geri ég ráð fyrir að vera lengi með jólabækurnar, klára þær líklega upp úr þrettándanum, slík er áfergjan. Þá verð ég líka löngu hættur að hlusta á jóladiskana. Þeir verða komnir ofan í sín hulstur og eiga þaðan ekki afturkvæmt fyrr en að ári.
Það er helst að aukakílóin þrjóskist við á manni fram á vorið og ekki útilokað að þau dugi manni eitthvað lengur verði maður ekki þeim mun duglegri í sundinu.
Jólin eiga náttúrlega ekki að endast. Hluti af þokka þeirra er að þau klárast. Þau verða að fara til að þau geti komið aftur og mannfólkið geti á nýjan leik tekið til við að greiða úr seríum, steikja laufabrauð og hlusta á jólatónlistina.
Samt finnst manni það hálf klént ef það varanlegasta við jólin eru kílóin sem þau bæta á mann.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.12.2008 | 10:42
Sitjandi, liggjandi og standandi
Á aðventunni er hæpið að telja Akureyri hægan bæ. Þá fjölgar bílunum á götunum jafnt og þétt. Það er brunað á þeim í búðirnar og hinir sem fara þangað á fótunum flýta sér líka. Ös er í verslunum, öllum liggur á og sífellt minnkar tíminn sem fólk gefur sér til að taka aðra tali. Sölumenn standa hróðugir við jólavarninginn með verðstríðsglampa í augum. Eldglæringarnar standa upp úr önnum köfnum húsmæðrum og eyru hamslausra heimilisfeðra blístra gufustrókum. Iðnaðarmenn vinna myrkranna á milli því áður en jólin bresta á þarf að koma upp eldhúsinnréttingunni, tengja hornbaðkarið og skipta út gömlu rafmagnstöflunni. Hraðinn er eitt aðaleinkenni samfélaga nútímans og um þetta leyti árs slá þau sín árlegu hraðamet.
Nú um stundir vex þeim alheimssamtökum fiskur um hrygg sem nefnd eru Slow Movement eða Hæga hreyfingin. Að sjálfsögðu er sá vöxtur hægur og bítandi. Áhangendum hreyfingarinnar ofbýður hraðinn sem er á öllu, fólki sem er orðið leitt á því að ferðast hratt, borða hratt, elskast hratt og vaxa hratt. Það telur að vel sé hægt að lifa hægt. Ég hef til dæmis bæði ferðast um útlönd brunandi í bifreið eftir hraðbrautum og á hjóli. Það var betra á hjóli. Þannig komst ég í miklu betri tengsl við umhverfið en ef ég hefði verið í bíl. Ilmurinn úr gróðrinum náði vitum mínum og ég fann að golan var öðruvísi en heima. Svo gat ég áð nánast hvar sem mér datt í hug. Flestir vita að vilji maður njóta máltíðar þarf að borða hana hægt. Grautnum getur maður góflað í sig en eigi að virkja bragðlaukana þurfa þeir sinn tíma. Góðvinur minn hefur ekki nema þrjár lífsreglur. Hann borðar sitjandi, sefur liggjandi og syngur standandi.
Allt hefur sinn tíma," segir í bók Prédikarans.
Þrátt fyrir allar tækninýjungarnar og stöðuga styttingu vinnuvikunnar höfum við síminnkandi tíma. Kapphlaupið harðnar. Við teljum okkur þurfa að kaupa hitt og þetta til að auðvelda okkur lífið og spara dýrmætan tíma. Til að kaupa það þurfum við að vinna fyrir því. Þetta verður vítahringur, því við kaupum okkur tíma, sem við verjum svo bara í meiri vinnu. Við förum fram úr okkur sjálfum. Höfum ekki tíma til að sinna fjölskyldu og vinum, maka okkar eða okkur sjálfum og hugðarefnum okkar. Móðir jörð er farin að stynja undan hraðaáráttu mannkynsins. Við göngum svo hratt á auðlindir hennar að hún hefur ekki undan að endurnýja þær.
Ég þekki mann sem er í bissness í Reykjavík. Hann er í freku starfi sem heimtar að hann borði oft standandi og sofi sitjandi. Langt er síðan hann söng. Þó hefur hann prýðilega söngrödd. Stundum þarf hann að fljúga hingað norður til erinda. Hann á ekki nógu mörg orð til að blessa leigubílstjórana á BSO. Þegar þeir mjakast af stað frá flugstöðinni og keyra eftir Drottningarbrautinni á hraða andamömmunnar með ungana sína finn ég streituna líða úr mér," sagði hann mér.
Sá sem í vændum er á heilögum jólum kemur varlega. Hann kallar ekki og hefur ekki háreysti og lætur ekki heyra raust sína á strætunum. Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur og dapran hörkveik slökkur hann ekki," segir í spádómsbók Jesaja.
Hægjum á okkur til að finna nálægð hans. Leyfum honum að ná okkur. Borðum sitjandi, sofum liggjandi og syngjum jólalögin og jólasálmana, helst standandi.
(Þessi pistill birtist í blaði á aðventunni fyrir nokkrum árum. Ég endurbirti hann hér og legg áherslu á niðurlagsorðin. Hinir árlegu Jólasöngvar Kórs Akureyrarkirkju eru núna á sunnudaginn, kl. 17 & 20)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.12.2008 | 23:50
Baráttukveðja til Íslands
Í dag barst mér þessi kveðja frá vinum okkar í Þýskalandi en undanfarinn áratug hefur Akureyrarkirkja skipst á ungmennaheimsóknum við vinasöfnuð sinn í Bochum-Stiepel.
Opið bréf til safnaðar Akureyrarkirkju og vina á Íslandi
Fréttir af vaxandi neyð hjá ykkur valda okkur miklum áhyggjum. Margar spurningar kvikna og okkur er brugðið. Það blómlega Ísland sem við þekkjum og urðum ástfangin af gæti sogast niður í hringiðu hálf löglegra og hálf glæpsamlegra fjármálagjörninga fárra manna sem störfuði bæði innanlands og erlendis.
Annars vegar verður að leita orsaka, stunda sjálfsgagnrýni og finna þá sem ábyrgð bera. Það verður erfitt verk því þeir sérfræðingar sem að því vinna koma úr sömu hópunum og hefðu fyrir löngu getað komið í veg fyrir þessar hörmungar. Hins vegar þarf að móta framtíðina og við viljum halda áfram að gera það með ykkur.
Að okkar mati eigið þið ekki heima á einhverjum hryðjuverkalista eins og ríkisstjórn Bretlands telur sig geta sett ykkur á. Þið teljist til þess fólks sem við erum bundin vinaböndum. Þið eruð okkur alltaf kær.
Ykkar þjáningar eru okkar þjáningar og ykkar gleði okkar. Síðasta áratuginn hafa ótalamargir unglingar og fullorðnir fengið að reyna það.
Við höfum alltaf dáðst að snerpu ykkar, sköpunargleði og þolgæði, skopskyni og stóru hjarta. Við biðjum Guð að gefa að þessir eiginleikar ykkar glatist ekki. Eldgos, jarðskjálftar, jökulhlaup og langar vetrarnætur hafa ekki svipt ykkur þeim. Látið ekki hið vitskerta heimshagkerfi gera það.
Við munum halda áfram að hugsa til ykkar. Næsta sunnudag, þann þriðja í aðventu, biðjum við fyrir ykkur og landinu ykkar.
Megi þessi vers úr spádómsbók Jesaja færa ykkur blessun á aðventunni:
Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð Drottins rennur upp yfir þér. Myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum en Drottinn er runninn upp yfir þér og dýrð hans birtist yfir þér.
(Jesaja 60, 1 - 2)
Vinir ykkar í Bochum í Þýskalandi
Bréfið er undirritað af tuttugu Íslandsvinum.
Með færslunni fylgir mynd af hundrað milljón marka neyðarseðli, sem borgaryfirvöld í Bochum gáfu út á þriðja áratugi síðustu aldar. Hann minnir á þær ótrúlegu efnahagshremmingar sem Þjóðverjar þurftu að ganga í gegnum á sínum tíma.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2008 | 20:52
Jólaguðspjallsgúmmíendur
Nú leita margir í ofboði að hentugum og sniðugum jólagjöfum.
Ég rakst á eina á netinu.
Jólaguðspjallsgúmmíendurnar eru upplögð jólagjöf handa jólabörnum á öllum aldri.
Settið felur í sér endurnar Maríu, Jósef og barnið (ungann) auk samræktaðs afbrigðis af önd og rollu.
Vitringasteggirnir þrír fylgja með þótt þeir séu ekki alveg úr sama guðspjalli.
Ekki verður amalegt að skella sér í sitt árlega furunálafreyðibað umflotinn sjálfu jólaguðspjallinu.
Það gerist held ég varla jólalegra...
Jólaguðspjallsgúmmíendurnar má panta á Amazon og þær kosta ekki nema tæpa fjóra dollara.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.12.2008 | 22:13
Samherjar
Í tilefni af aldarfjórðungs afmæli fyrirtækis síns buðu þeir Samherjafrændur til mikillar veislu í dag. Þar var að sjálfsögðu boðið upp á sjávarfang í ýmsum neyslumyndum.
Íslensk matvæli eru meðal þess sem gefur þjóðinni fyrirheit um góða framtíð. Við eigum alveg einstakt hráefni í sjónum kringum landið. Við eigum duglega sjómenn, atorkusama útgerðarmenn, metnaðarfullt fiskvinnslufólk og kokka sem kunna til verka.
Það var gaman að fá að smakka á þessari framtíð landsins á afmælisdegi Samherja.
Ekki síður gladdist maður yfir höfðingsskap þeirra frænda í garð samfélagsins hér á Akureyri. Þeir veittu alls 50 milljónum króna í styrki til margs konar verkefna, einkum í þágu barna og unglinga.
Styrkirnir koma sér vel fyrir akureysk ungmenni og þeir eru líka viðurkenning og hvatning til þeirra sem vinna að málefnum þeirra.
Æskulýðs- og barnastarf kirknanna á Akureyri fékk rausnarlegt framlag frá Samherja. Takk fyrir það. Við munum gera okkar besta til að verða yngstu kynslóðinni til blessunar.
Þegar við tölum um íslenska framtíð er það auðvitað fyrst og fremst æskan sem hana myndar.
Við leggjumst öll á eitt við að varðveita og þroska þann frábæra efnivið framtíðar sem til staðar er í æsku landsins.
Þar eigum við öll að vera samherjar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.12.2008 | 23:43
Þetta er allt í áttina
Undarlegt finnst mér að lesa álitsgjafa lýsa hálfgerðri vanþóknun á framboðum í formannssæti Framsóknarflokksins.
Þetta séu ungir menn og óreyndir sem vanti "vigt" eins og það er kallað.
Undanfarnar vikur hafa þessir sömu álitsgjafar talað um þörf á allsherjar hreingerningu og endurnýjun þjóðfélagsins. Ekki síst flokkakerfið þurfi þannig tiltekt.
Hvernig geta það þá verið rök gegn þessum kandídötum að þeir séu ungir, lítt þekktir og reynslulausir?
Eigum við að endurnýja stjórnmálaflokkana með sama gamla liðinu?
Ungir, óreyndir og vigtarvana frammarar fá hrós frá mér fyrir að gefa kost á sér.
Mér finnst þetta spor í rétta átt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)