Færsluflokkur: Bloggar

Héraðsfréttablöðin í Reykjavík

vikudagurNú eru fjölmiðlar í fjölmiðlum.

Þar velta menn fyrir sér hlutverki Ríkisútvarpsins. Mín skoðun er sú að vegna smæðar íslensks samfélags hljóti það ætíð að vera lykilfjölmiðill. Mér finnst sjálfsagt að það hafi auglýsingar á dagskrá sinni og hafi af því tekjur. Tekjurnar eru stofnuninni nauðsynlegar.

Svo eru auglýsingar ekki einungis tekjulind fjölmiðla. Þær eru líka skilaboð frá auglýsendum til neytenda og þess vegna hluti af þeirri upplýsingagjöf til almennings sem Ríkisútvarpinu er ætlað að sinna.

Fjölmiðlar eru líka til umfjöllunar í ljósi efnahagsþrenginganna. Eitt hlutverk fjölmiðlanna er að veita valdinu í landinu aðhald. Valdið er á hinn bóginn alls ekki bara að finna hjá stjórnmálamönnum. Ísland er í klóm öflugs viðskiptavalds. Það þarf líka aðhald.

Þess vegna er það stórhættulegt ef viðskiptavaldið fær að eiga fjölmiðla landsins.

Kannski er það ein skýring á því hvernig fór fyrir okkur?

Eitt finnst mér gleymast í umræðunni um fjölmiðla: Mikilvægi svæðisbundinna fjölmiðla.

Þeir eru enn mikilvægari fyrir þá sök að varla nema hluti landsins er til í þeim fjölmiðlum hér sem starfa á landsvísu.

Þar hefur Ríkisútvarpið reyndar haft sérstöðu. Það hefur sinnt landsbyggðinni af töluverðum metnaði. Mér finnst afleitt ef niðurskurður hjá stofnuninni á helst að bitna á þeirri viðleitni.

Úti á landi starfa margir ágætir fjölmiðlar. Hér á Akureyri höfum við útvarpsstöðina Voice, sem krakkarnir mínir hlusta á. Bæjarsjónvarpið nefnist N4 og hér er gefið út vikublaðið Vikudagur. Þessa fjölmiðla þarf að efla. Þeir flytja fréttir úr nánasta umhverfi fólksins og eru vettvangur skoðanaskipta.

Hjá tengdaforeldrum mínum úti í Svarfaðardal sé ég stundum Bæjarpóstinn og Norðurslóð, en síðarnefnda blaðið er að mínu mati drottning íslenskra sveitablaða.

Þótt mörg héraðsfréttablaðanna séu gefin út af miklum vanefnum og blaðamennirnir vinni nánast kauplaust við þau eru þau mikils virði fyrir samfélögin.

Ég votta blaðasnápum landsbyggðarinnar virðingu mína. Þeir eru speglar sinna svæða og kærkomin viðbót við stærstu héraðsfréttablöð landsins; Moggann, Fréttablaðið og DV.


Brjálæðissjarmi aðventunnar

adventukransEnn ein aðventan er byrjuð, enn einn aðdragandi jólanna, þessi tími sem börnunum finnst svo ótrúlega lengi að líða en fullorðna fólkinu þykir þjóta á leifturhraða.

Ótalmörgum verkefnum þarf að ljúka áður en jólin mega koma. Aðventan er annatörn. Þá eru verkin unnin, fjárhúsið smíðað, jatan og jólin sjálf. Ekkert hangs líðst. Dagarnir krefjast sífellt nákvæmara skipulags. Við stynjum af mæði og andvörpum af stressi - en innst inni höfum við pínulítið gaman af öllu saman.

Aðventuerillinn, veltingur milli rekka búðanna, skúringar, þrif á eldhúsinnréttingum, skreytingar, bakstur, matarstúss og jólakortaföndur, svo nokkuð sé nefnt; varla værum við að þessu ár eftir ár ef við sæjum ekkert heillandi við það.

Aðventan getur verið harður húsbóndi. Ég er samt ekki viss um að við vildum gera rótttækar breytingar á henni.

Það er einhver brjálæðissjarmi yfir aðventunni.

Stressið og áhyggjurnar eru forleikur jólafriðarins.

Hinn heili heimur jólaguðspjallsins nýtur sín vel á bakgrunni firrtrar veraldar.


Volaða land!

Sigurhæðir2Ég hef verið að blaða í ljóðmælum sr. Matthíasar Jochumssonar.

Sá þjóðskáldið fyrir atburði haustsins 2008?

Garða-Brúnn, forsætisráðherra Breta, hefur gefið í skyn að sett hafi verið hryðjuverkalög á Íslendinga vegna þess að grunsamlegir peningaflutningar hafi átt sér stað frá Bretlandi til Íslands. Freistandi er að skoða í því ljósi þessar línur úr ljóði sr. Matthíasar, Landsýn í stormi:

   

    "Ýtti ég knerri við Englandsströnd,

    auðuga´ af gullinu rauða..."

 

Og skyldu einhverjar skírskotanir í Icesave-málið vera í Þjóðhátíðarsálmum sr. Matthíasar? Nokkur erindi úr þeim eru í Sálmabók þjóðkirkjunnar, meðal annars þetta:

    "Krjúp lágt, þú litla þjóð,

    við lífsins náðarflóð!

    Eilífum Guði alda

    þú átt í dag að gjalda

    allt lánsfé lífs þíns stunda

    með leigum þúsund punda."

 

Ég efast heldur ekki um að margir taka undir með þjóðskáldinu þegar hann vandar ættjörð sinni ekki kveðjurnar í sínu umdeildasta ljóði, Volaða land. Þar eru þessi vers:

    "Volaða land,

    horsælu hérvistar-slóðir,

    húsgangsins trúfasta móðir,

    volaða land!

 

    Hafísa land,

    ískrandi illviðrum marið,

    eilífum hörmungum barið,

    hafísa land!

 

    Vandræða land,

    skakt eins og skothendu kvæði

    skapaði Guð þig í bræði,

    vandræða land!

 

    Drepandi land,

    búið með kjark vorn og kjarna,

    kúgandi merg þinna barna,

    drepandi land!

 

    Vesæla land!

    Setið er nú meðan sætt er,

    senn er nú étið hvað ætt er,

    vesæla land!"

 

Tólf árum eftir að ofangreind vers urðu til hvatti sr. Matthías landsmenn til að halda tryggð við þetta volaða, vesæla og drepandi land. Í Aldarhvöt hrópar hann:

    "Flýjum ekki, flýjum ekki,

    flýjum ekki þetta land!

    það er að batna, böl að sjatna;

    báran enn þó knýi sand!

    Bölvan öll er blessun hulin;

    bíðum meðan þverrar grand.

    Flýjum ekki, flýjum ekki,

    flýjum ekki þetta land."

 

Bestu tengingarnar við okkar tíma fann ég samt í Íslandsminni Sigurhæðaskáldsins.

Ég birti það óstytt með baráttukveðjum til samlanda minna.

    "Eitt er landið ægi girt

    yzt á Ránar slóðum,

    fyrir löngu lítils virt,

    langt frá öðrum þjóðum.

    Um þess kjör og aldarfar

    aðrir hægt sér láta,

    sykki það í myrkan mar,

    mundu fáir gráta.

 

    Eitt er landið, ein vor þjóð,

    auðnan sama beggja;

    eina tungu, anda, blóð,

    aldir spunnu tveggja:

    Saga þín er saga vor,

    sómi þinn vor æra,

    tár þín líka tárin vor,

    tignar landið kæra.

 

    Þú ert allt, sem eigum vér

    ábyrgð vorri falið.

    Margir segja: sjá, það er

    svikið, bert og kalið!

    Það er satt: með sárri blygð

    sjá þín börn þess vottinn,

    fyrir svikna sátt og tryggð

    sorg þín öll er sprottin.

 

    Fóstra, móðir, veröld vor,

    von og framtíð gæða,

    svíði oss þína sáraspor,

    svívirðing og mæða!

    Burt með lygi, hlekk og hjúp,

    hvað sem blindar andann;

    sendum út á sextugt djúp

    sundurlyndis fjandann!

 

    Græðum saman mein og mein,

    metumst ei við grannann,

    fellum saman stein við stein,

    styðjum hverjir annan;

    plöntum, vökvum rein við rein,

    ræktin skapar framann.

    Hvað má höndin ein og ein?

    Allir leggi saman!

 

    Líkt og allar landsins ár

    leið til sjávar þreyta,

    eins skal fólksins hugur hár

    hafnar sömu leita.

    Höfnin sú er sómi vor,

    sögufoldin bjarta!

    Lifni vilji, vit og þor,

    vaxi trú hvers hjarta!

 

(Myndina tók ég af húsi skáldsins á fallegum sumardegi. Hún minnir á að bráðum kemur betri tíð.)


Seint fyllist helvíti

vidalinVinur minn einn segir að ég sé fastur í fortíðinni. Það má vel vera. Ég held að fortíðin sé ekki svo galin. Gömul gildi geta verið góð. Þau eru stundum miklu betri en ný.

Ég hef áður tjáð mig hér um þá fíflsku að gera græðgina að dyggð. T. d. hér og hér. Fyrr á tíð vöruðu menn eindregið við græðgi og ágirnd. Á fyrstu mánudagssamverunni okkar í Akureyrarkirkju, "Mánudagar gegn mæðu", sagði dr. Sigurður Kristinsson, forseti hug- og félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri, okkur frá áliti gömlu grísku heimspekinganna á þessum ódyggðum.

Í síðustu færslu minni birti ég bút úr prédikun meistara Jóns Vídalíns þar sem hann tekur ágirndina á beinið. Hér er annar kafli:

Helvíti og glötunin verða aldrei fylld, segir Salómon. Svo eru og augu hins ágjarna. Þess meira hann drekkur, þess meira þyrstir hann. Eins og hinar mögru pharaonis kýr, svo er hin ágjarni. Þegar þær höfðu uppetið hinar feitu þá sást það ekki að þær hefðu komið í maga þeirra, segir ritningin, rétt eins og Ovidius skáld kveður um Erisichtonem guðníðing, að þess meira sem hann át, þess meira svalt hann. Fyllin varð honum orsök til æ meira hungurs, svo þegar hann hafði selt aleigu sína fyrir mat þá seldi hann dóttur sína, og síðast allra tók hann að naga sína eigin limu. Svo er og hinum ágjarna varið. Það hann fær, það fyllir hann ekki. Hann er eins soltinn eftir sem áður. Ekki sparar hann vini né frændur, og þegar hann nær engu þá etur hann sitt eigið hjarta af því að hann getur ei uppetið hús ekkna og föðurlausra.

Óheftur kapítalismi eirir engu. Að lokum étur hann sig sjálfan. 

Nú í kreppunni tala menn um verðlausar eignir sem aðeins eru tölur á blöðum. Fjármuni sem ekki eru til staðar þegar til á að taka. Loftbólur. Froðufé. Tómar bankahirslur. Slíkt er heldur ekkert nýtt og þannig auð gerir Jón Vídalín að umtalsefni í sömu prédikun.

Mörgum af þessum Mammons púkum líður Drottinn að fylla kornhlöður sínar og aðrar hirslur með auranægt. En þess vita menn og nokkur dæmi að þess meira þeir niðursá í ranglætinu, þess minna uppskera þeir, nema í skaðseminni, svo að hirslur þeirra eru eins og óþétt lagarfat sem ekki heldur því sem í það er látið.

Og eru þessi vers úr Heims ósóma séra Hallgríms Péturssonar ekki eins og töluð inn í Ísland nútímans?

 

    Ágirnd grá æddi

    yfir fjöllin háu,

    ótrú flá flæddi

    á fróns hálsana smáu,

    þrjóskan þrá þræddi,

    því nær blindir sáu,

    þar lægðir lágu.

 

    Vizku vakt sofnar,

    veraldar bjallan klingir,

    drottna makt dofnar,

    dalaklukkan hringir.

    Stóra prakt stofnar

    sá stimpla-málminn pyngir.

    Því margt að þyngir.

(Myndin er af meistara Vídalín.)


Meistarinn um ágirndina

agirndMeistari Jón Þorkelsson Vídalín, sautjándualdar maður sem upplifði ýmsar plágur með þjóð sinni, meðal annars stórubólu, skrifaði marga fleiri snilld en sinn mergjaða og víðfræga reiðilestur.

Ég viðurkenni að oft finnst mér meira vit í eldgömlum textum en ræðum hagspekinga nútímans.

Tíunda sunnudag eftir trinitatis flutti meistari Vídalín prédikun þar sem ágirndin fær á baukinn.

Vel útmálar heilagur Paulus það skrímsli, ágirndina, er hann segir Tim 6.: Þeir sem að ríkir vilja verða, þeir falla í freistni og snörur og margar girndir, vitlausar og skaðlegar, hverjar að steypa manninum í töpun og fordjörfun. Þetta er deginum ljósara, því undir þenna skaplöst þénar svo mikið illþýði annarra lasta að varla er nokkur sú ódyggð að ei þurfi hún lið af að þiggja nær hún er mögnuð. Eins og einn stórherra þarf marga þénara, svo er og óvættur þessi. Hún tekur heila sveit af sinni kynslóð í lið með sér: lygi, rógur, bakmælgi, meinsæri, fláttskapur, undirhyggja, ofríki, og jafnvel morð og manndráp eru hennar förunautar. Það vottar postulinn skömmu síðar í þessum sama kapítula er hann segir að ágirndin sé rót alls ills, í hverja þegar nokkrir fíkst hafa þá hafi þeir villst frá trúnni og sjálfa sig í gegnum lagt með harmkvælum mörgum.


Hver stjórnar landinu?

Margar spurningar hafa kviknað eftir atburði síðustu vikna.

Ein þeirra er: Hver stjórnar Íslandi?

Betur orðað: Hvað stjórnar Íslandi?

Ég er viss um að mikill meirihluta þingmanna, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, vill landinu vel og gerir sitt besta til að vinna þjóðinni gagn á erfiðum tímum.

Samt virka þeir oft vanmáttugir og þegar kvartað hefur verið undan skorti á upplýsingum frá þeim hefur sá grunur læðst að mér að hann stafi einfaldlega af því að þeir hafi ekki umbeðnar upplýsingar.

Maður fær á tilfinninguna að það séu ef til vill ekki stjórnmálamennirnir sem stjórna landinu.

Íslensku bankarnir voru jú orðnir margfalt stærri en íslenska ríkið.

Og hér er nánast allt í eigu fárra stórfyrirtækja. Líka fjölmiðlarnir. Upplýsingagjöfin til almennings og þjóðfélagsumræðan hefur að stórum hluta verið einkavædd og rekin á markaðsforsendum.

Þeir eru að velta þessu fyrir sér í þýskum fjölmiðlum. Haft er eftir Franz Müntefering, formanni þingflokks þýskra sósíaldemókrata, að kapítalismi nútímans sé óvinur lýðræðisins. Bankamenn vilji að peningarnir stjórni. Því hafnar Müntefering. Hann vill að þeir fari með völdin sem umboð hafi til þess frá þjóðinni.

"Primat der Politik," heitir það á þýsku.

Í hinu kaþólska Rheinischer Merkur (nr. 42. 16. 10.) birtist viðtal við Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar og formann Evruhóps Evrópusambandsins.

Hann bendir á að ekki sé langt síðan viðskiptaheimurinn krafðist sjálfstæðis og frelsis, vildi öll höft burt og engin ríkisafskipti.

Nú hrópi þessir sömu menn á afskipti ríkisins.

Þessa dagana virðist hinu pólitíska valdi og viðskiptavaldinu vera að ljósta saman.

Ég vil búa í landi sem stjórnað er af fólki sem til þess er kosið í lýðræðislegum kosningum.

Ég vil ekki tilheyra ríki þar sem völdin eru hjá þeim sem eiga mest af peningum.

Að lokum þessi spurning: Er það fráleitt fyrirkomulag að bönkum í eigu ríkisins og á ábyrgð þess sé stjórnað af fulltrúum þess?


Mig angrar margt

HallgrimurPetursson[1]Þetta kvæði eftir sr. Hallgrím Pétursson er enn í fullu gildi. Margt hefur breyst á þeim á að giska 400 árum sem liðin eru frá því að það var ort. Mannlegt eðli þó lítið.

 

 

 

 

UM ÁGIRND OG AURASAFN

 

Mig angrar margt hvað manns athæfið,

hvernig heimi´ er háttað, hefi´ ég vel séð.

 

Öldin óðum spillist,

ósið margur hyllist,

af réttum vegi villist,

von, þó hjartað kvillist.

Heimur af hrekkjum fyllist,

hægt mun ekki að dylja það.

    Mig angrar margt hvað.

Synd og góssið gyllist,

svo geti menn eignast féð.

    Hvernig heimi er háttað,

    það hefi´ ég vel séð.

 

Upphaf allra klækja

er ágirnd fast að rækja,

aurasafnið sækja,

sitt frá hverjum krækja,

lög með lymsku flækja,

lagsmenn sína mest hún bað.

    Mig angrar margt hvað.

Öfund og ofstækja

af því vaxa réð.

    Hvernig heimi er háttað,

    það hefi´ ég vel séð.

 

 

Hvar sem húsrúm tekur,

heimsku´ og blindleik vekur,

blessun í burtu rekur,

búinn er skaði frekur,

tryggð og hógværð hrekur,

heimtast fals í þeirra stað.

    Mig angrar margt hvað.

Illu sá mun sekur,

sem slíku umgengst með.

    Hvernig heimi er háttað,

    það hefi´ ég vel séð.

 

Hún lét hrekki drjúga

hingað í landið fljúga,

volaða kann að kúga,

kraft úr beinum sjúga.

Fagra mammons múga

margur sína blessun kvað.

    Mig angrar margt hvað.

Seims er söfnuð hrúga,

sálin lögð í veð.

    Hvernig heimi er háttað,

    það hefi´ ég vel séð.

 

Aumt er yfir að klaga,

er það hvers manns saga,

setning lands og laga

láta pening naga!

Mútur málin draga,

meinlaus fellur oft fyrir það.

    Mig angrar margt hvað.

Víst um vora daga

veit eg að þvílíkt hefir skeð.

    Hvernig heimi er háttað,

    það hefi´ ég vel séð.

 

Flestar dyggðir falla,

finnst kærleikur varla,

sannleik hygg eg halla,

hrörnar manndáð snjalla.

Trú er farin til fjalla,

fær nú ekki í byggðum stað.

    Mig angrar margt hvað.

Ágirnd næsta alla

á annað fellir knéð.

    Hvernig heimi er háttað,

    það hefi´ ég vel séð.

 

Mammons maktar-snauður,

mjög er hjálpartrauður,

burt er brjálið og auður,

þá búkurinn liggur dauður,

leirinn rótast rauður

ríkiskroppnum utan að.

    Mig angrar margt hvað.

Fæst fyrir fremd og hauður

fánýtt moldar beð.

    Hvernig heimi er háttað,

    það hefi´ ég vel séð.

 

Viti virðar og kvendi,

von er að heimurinn endi.

Sjá til, að sálin lendi

um síðir í Drottins hendi.

Oft það efnið kenndi

einn, sá þessa vísu kvað.

    Mig angrar margt hvað.

Þönkum þangað renndi,

því ber sturlað geð.

    Hvernig heimi er háttað,

    það hefi´ ég vel séð.


Þjóðin klæði sig niður

presturJafnvel á þrengingartímum sóa menn ótrúlegum fúlgum í ónauðsynlegan fatnað, dýr tískuklæði og hégómlega merkjavöru. Má furðu sæta að ekki skuli amast við slíku óhófi þegar illa árar, fólk hvatt til aðhalds í fatakaupum og klæðaburði þess jafnvel settar einhverjar lagaskorður þannig að þegnarnir klæði sig í samræmi við efnahag sinn.

Ekki voru menn ragir við svoleiðis lög í gamla daga. Í Jónsbók er fjallað um skrúðklæða burð. Þar segir:

Þat er öllum mönnum kunnigt um þann mikla ósið, er menn hafa hér meir í venju tekit í þvísa landi en í engu öðru fátæku, um skrúðklæða búnað, svá sem margir hafa raun af með stórum skuldum, ok missa þar fyrir þarfligra hluta margra, en hinn fátæki þarfnask sinna hjálpa, ok liggr fyrir slíkt margr til dauðs úti frosinn.

Síðan lýsir Jónsbók þeim klæðnaði sem leyfist fólki miðað við efnhag þess. Sá sem "á til tuttugu hundraða ok eigi minna, hvárt sem hann er kvángaðr eða eigi, má bera eina treyju með kaprúni af skrúði; en sá, er til á fjögurra tiga hundraða, má þar með bera skrúðkyrtil einn" og þannig áfram allítarlega.

Voru ströng viðurlög við því ef menn klæddust umfram efni, eða eins og það er orðað í Jónsbók:

En ef nökkurr berr sá skrúðklæði, er minna fé á eða öðruvíss en hér váttar, sé klæði upptæk konungs umboðsmanni, nema konur beri.

Konur virtust vera undanþegnar þessum klæðafyrirmælum og lærðir menn, prestar, máttu vera í þeim fötum sem þeir kusu.

Engu að síður setti kirkjan reglur um það hvernig prestar hennar skyldu vera til fara. Þeir máttu ekki berast á. Frá árinu 1269 eru þessi fyrirmæli: "Prestar skulu eigi bera rauð klæði, gul eða græn, eða hálfskipt eða rend, utan í vosi." Árið 1323 lét kirkjan þessi boð út ganga um klæðnað þjóna sinna: "Varask skulu þeir alla breytni í klæðnaði, lit ok skurði. Í yfirklæðum sínum öllum skulu prestar einlitt hafa alls kyns, utan eigi gult eða grænt, rautt eðr röndótt." Um Lárentíus Kálfsson, Hólabiskup, er sagt: "Mikit vandlæti hafði herra Laurentíus um framferðir lærðra manna, hárskurð ok klæðaburð, ok þeir hefði engar sundurgerðir þar í hans biskupsdæmi." Enn ein tilmæli frá árinu 1345 hljóða þannig: "Prestar og djáknar skulu önga lausung á sér sýna eðr leikaraskap í klæðabúnaði sínum. Beri hvárki stikkhníf né töskur, eðr dreglahúfur opinberliga."

Ekki varð breyting á þessu eftir siðaskiptin. Í prestastefnusamþykkt Guðbrands biskups Þorlákssonar frá árinu 1576 segir:

Prestar skulu ætíð hafa siðsamlegan kennimannsbúnað, hver eftir sínum efnum, ok varast alla breytni í klæðum. Ekki skulu þeir bera rauð klæði, gul né græn, eða fellda undirstakka eður stuttar víðbuxur eður annan lauslegan leikmanna búnað.

Meðal alþýðunnar var tekið hart á þeim glæpamönnum sem ánetjuðust tísku og dýrum fötum. Árið 1627 voru menn dregnir fyrir dóm austur í Reykjadal fyrir slíkt athæfi. Sýslumaðurinn þar um slóðir hafði lengi haft mikla raun af ólöglegum klæðaburði sinna þegna og greip til aðgerða. Fatadólgarnir borguðu ekki skatta og guldu ekki tíundir en "kaupa þar fyrir dýrindis klæði að útlenzkum og íslenzkum, þar þau kunna að fást, móti kong. mayest. bréfi, sem eru silfurhnepptar og silkihnepptar treyjur, bílagðar buxur samslags, silkistrympur, hundraðs hattar eður meir, hundraðs stígvél og níutíu fiska minnst, dals eður tveggja dala kraga."

Og til að sýna hversu ósóminn var algjör og þrjótarnir forhertir var bætt við:

En þessir hinir sömu menn eiga ekki neitt skylduvopn sig með að verja eður sitt móðurland, hvað sem á liggur.

Var ekki að sökum að spyrja. Fatadólgarnir þingeysku voru dæmdir í fjársektir og klæði þeirra gerð upptæk af kóngsins umboðsmanni.

(Heimild: Guðmundur Finnbogason, Íslendingar, Reykjavík 1971, bls. 219 - 221. Myndin er af presti í vinnufötum.)

 


Um Íslendinga

bolurÍslendingar eru til umfjöllunar í útlöndum. Þessi smáþjóð er á forsíðum erlendra stórblaða.

Í bók Guðmundar Finnbogasonar, Íslendingar - Nokkur drög að þjóðarlýsingu (Reykjavík, 1971) er góð samantekt um álit manna á íslenskri þjóð. Ég birti hér parta úr þeim dómum eftir útlenda menn enda gestsaugað glöggt.

Lesendur geta velt vöngum yfir því hvort skoðanir þessara manna á Íslendingum eigi við rök að styðjast. Eða hvort það sé eftirsóknarvert fyrir okkur að vera eins og við komum þeim fyrir sjónir.

Adam frá Brimum segir um Íslendinga á elleftu öld:

Þessa þjóð tel ég sæla, sem enginn öfundar af fátæktinni, og sælasta sökum þess, að allir hafa nú tekið kristni. Margt er ágætt í fari þeirra, einkum frábær mannkærleiki, sem leiðir til þess, að þeir láta allt vera sameigið útlendum gestum sem innlendum. Þeir hafa ekki konung, heldur aðeins lög.

Öld síðar fellir Giraldus Cambrenis þennan dóm um Ísland:

Þar býr stuttorð og sannorð þjóð, því að hún talar sjaldan og stutt og viðhefir enga svardaga, með því að hún kann ekki að ljúga. Enda er ekkert fyrirlitið meira en lygi.

Sautjándu aldar maðurinn Peder Resen hefur margt að segja um Íslendinga. Telur hann eyðslusemi og óhóf í veislum einn okkar helsta löst og fullyrðir að við tökum svo stórmannlega á móti gestum til að sýnast höfðingjar að við "verðum sjálfir að þola skort eða sumir jafnvel að svelta".

Resen dáist að þjóðinni fyrir þolgæði og gestrisni og segir:

Veita þeir öllum aðkomumönnum ókeypis mat og drykk, svo að ferðast má um land allt án þess að verja eyri til matar, enda er þjóðin laus við ágirnd og telur góðgerðasemi lofsverða.

Og ekki get ég stillt mig um að vitna hér til orða Lúðvíks Holberg frá árinu 1729:

Norðlendingar eru taldir háttprúðastir og fágaðastir og eru í því gagnólíkir öðrum landsmönnum, enda þykjast þeir hinum fremri, og er norðlenska státið haft að orðtaki.

Um svipað leyti skrifar Uno von Troil þetta um okkur:

Lestir eru fátíðari hjá þeim en annarstaðar, þar sem óhóf hefir spillt hjörtum manna.

Árið 1818 kemst Ebenezer Henderson að þessari niðurstöðu um þjóðina:

Það hefir verið sagt, að Íslendingar væru yfirleitt þurrir á manninn og þunglyndir, en ég hefi veitt framkomu þeirra og háttum hina nánustu athygli og verð að segja, að þessi dómur er ekki réttur og gæti ekki verið felldur af öðrum en þeim, sem lítil eða engin mök hafa átt við þessa þjóð. Ég hefi þvert á móti verið hissa á þeirri glaðværð og því fjöri, sem ég hefi fundið ráðandi hjá þeim, og það alloft þegar hin ytri kjör voru talsvert erfið og skortur fyrir hendi. Aðallundareinkenni þeirra eru grunlaus hreinskilni, ráðvönd, nægjusöm og sífjörug lund, samfara skilningsstyrk og skarpskyggni, sem fágætt er að finna í öðrum löndum heims. Þeir eru og kunnir að nálega ósigrandi ást á ættlandi sínu. Þrátt fyrir allan sinn skort, og þótt þeir séu undirorpnir mörgum hættum af völdum náttúrunnar, þá lifa þeir eftir einu af orðtækjum sínum: Ísland er hið bezta land, sem sólin skín á.

Sex árum síðar ritar maður að nafni F. A. L. Thienemann þetta:

Eitt er það einkennilegt í fari Íslendinga, sem við oft tókum eftir, að þeir verða því fjörugri og kátari sem veðrið er verra og ofsalegra, hvort heldur er á sjó eða landi.

Um miðja nítjándu öldina gefur P. A. Schleisner okkur þessa einkunn:

Sjaldgæft er að sjá fallegt andlit á Íslandi, einkum karlmannsandlit, og ber, ef til vill, enn meira á því fyrir þá sök, að Íslendingar eru með öllu hirðulausir um að halda sér nokkuð til.

Önnur gullkorn eftir Schleisner:

Þreklyndi og djúplynd alvörugefni, ef til vill með nokkru deyflyndi, er þjóðlyndi Íslendinga... Íslendingar eru ófyrirlátsamir, kappgjarnir og sækja fast rétt sinn, enda er enn mikill sægur hjá þeim af lagasnápum og málsóknarmönnum. Eru þeir í því næsta líkir forfeðrum sínum... Það er annars furða, að þessi litla þjóð skuli allt til þessa dags hafa getað haldið svo miklu af upprunaeðli sínu, þrátt fyrir hinar mörgu ógæfusömu breytingar, sem gengið hafa yfir landið, hin mörgu skaðvænu hallæri og drepsóttir, sem mjög hafa veikt afl þjóðarinnar. En orsökin til þess er ekki einungis sú, að landið er mjög afskekkt, heldur kemur það einkum til af því, að þjóðin hefir alltaf lifað og lifir enn öllu fremur í fortíð sinni en nútíð, öllu fremur í endurminningum sögunnar en í náttúrunni.

Síðasta tilvitnunin í Schleisner:

Hina dönsku einlægni og auðtryggni við ókunnuga, sem Þjóðverjar kalla heimsku, þekkja Íslendingar ekki. Margir ferðamenn hafa talið það einkenni á Íslendingum, að vera hollir yfirvöldum sínum og stjórn. Því er nú ekki svo farið, enda mun þjóðin ekki yfirleitt öðrum fremri að virðingu fyrir lögunum. Öflug lýðræðisstefna og jafnræðistilfinning ræður hjá allri þjóðinni. Lýðveldistímann telja þeir gullöld sína. Menn nefna hver annan skírnarnafni og þúast; jafnvel æðstu embættismenn eru nefndir skírnarnafni sínu. Í sumum efnum gengur þessi jafnaðartilfinning þó í öfgar. Einkennilegt er t. d. samband húsbænda og hjúa; hjúin hafa enga hugmynd um hlýðni; það verður að betla hvert handtak af þeim, og maður á því að eins víst að fá óskir sínar uppfylltar, að þær komi heim við skoðanir hjúsins; sé það á annarri skoðun, fer það eftir geðþótta sínum. Það eru engir hermenn á Íslandi.

Svona kemur nítjándu aldar Íslendingur James Bryce fyrir sjónir:

Þó að hann vanti nokkra fágun í sumum háttum sínum, er hann algerlega eðlilegur og sjálfstæður í framgöngu og gæddur einfaldri hæversku, sem engin hætta er á að verði misskilin sem sleikjuháttur, af því að hún er úr eðlinu runnin.

Undir lok nítjándu aldar segir Andreas Heusler:

Stéttamunur mun ekki að neinu ráði standa fyrir giftingum. Og í daglegri umgengni veldur það útlendingi undrun og gleði, að allir njóta jafnrar virðingar, sem nefna mætti bróðerni. Þannig er mjög lítill munur gerður á húsbændum og hjúum á heimili: hvort vinnukona eða húsfreyja gekk um beina, var oft ekki unnt að ráða af framkomu hennar allri, enda eru ættingjar húsbænda oft á heimilinu, að hálfu sem heimilisvinir og hálfu sem hjú.

Heusler segir ennfremur:

Íslendingar eru greindir, kvikir í hugsun, skemmtilegir í tali, eiga nóg af kímni, hæðnir; þeir eru hláturmildir; þeir tala mikið, fljótt og vel... Þeir hafa andstyggð á stríði, og skólabækur þeirra, tímarit og almanök sjá um að halda óbeitinni á herbúnaði stórþjóðanna vakandi. Við börn eru þeir blíðir og góðir jafnt og við húsdýrin: gestur sem sparkar í áfjáðan hund, mundi lækka mjög í áliti viðstaddra, og hundurinn mundi ekki einu sinni skilja hann; húsdýrin hafa ekki lært að líta á mennina öðruvísi en vini.

Og síðast en ekki síst:

Alúðlegri þjóð en Íslendinga þekki ég ekki. Að prúðmannlegri, geðfelldri greiðvikni gæti ég líkt Ítölum einum við þá.

Daniel Bruun frá 1906:

Þó segja megi, að Íslendingar standi framarlega meðal frjálsra þjóða, þá skal það þó tekið fram, að þá vantar algerlega þekkinguna á því, hve afarmikla þýðingu það hefir að kunna að hlýða. Þeir eiga erfitt með að láta eigin hag og meiningar lúta í lægra haldi, hvernig sem á stendur.

Þetta er svo álit Rolfs Nordenstreng á Íslendingum árið 1926:

Í stjórnmálum hafa þeir ávallt verið ákaflega einráðir og ófyrirlátssamir, líka þrætugjarnir, og hafa þeir minnt á Kelta í því að kunna lítt að stilla sjálfræði sínu í hóf. Saga Íslands er full af ósamlyndi og sundrung. Aga hefir þá altaf skort og hafa þeir enn í dag andstyggð á sjálfu hugtakinu.

Og að lokum læt ég hér flakka snilldartilvitnun í L. Chr. Mueller frá árinu 1833:

Það, sem er sjaldgæfast á Íslandi, er fegurðartilfinning og skáldandi. Vísur þeirra eru dýrt kveðnar og með mikilli kunnáttu, en öldungis andlausar. Allur söngur að kalla má lætur þeim illa, og jafnvel unglingarnir bera varla við að syngja mestu gamanvísu, nema með líksöngslagi. Í þessu eru landsmenn hver öðrum líkir, þó því verði ekki neitað, að það er langtum meira líf í Norðlendingum en Sunnlendingum. Þeir eru fjörugri, framtaksmeiri og miklu þægilegri í umgengni, og eins eru þeir rómfegri og karlmannlegri í máli.

Amen fyrir því!


Skíthællinn ég

nyhedsavisenEkki þarf að hafa mörg orð um þau ósköp sem dunið hafa yfir íslenska þjóð á undanförnum vikum. Fólk hefur tapað sparifé sínu og misst vinnuna. Eignir þess eru skyndilega verðminni en lánin sem á þeim hvíla. Okurvextir og verðbólga sliga heimilin.

Ég er ekki hissa á að fólk sé reitt, rísi upp og mótmæli.

Mótmælandinn er á vissan hátt alltaf fórnarlamb og þannig upplifa Íslendingar sig þessa dagana. Þeir eru fórnarlömb skammsýnna stjórnmálamanna, vanhæfra embættismanna, sofandi fjölmiðla, gráðugra fjárglæframanna og síðast en ekki síst kreppunnar sjálfrar.

Þar að auki sýpur þjóðin seyðið af eigin neyslufylleríi.

Fjölmiðlar keppast við að draga upp þessa mynd af okkur sem fórnarlömbum.

Aumingja við. Æ, æ. Vei, ó, vei. Allir eru vondir við okkur. Líka umheimurinn. Evrópa og USA.

Íslenskar saumaklúbbskonur í Spánarferð verða fyrir aðkasti á veitingahúsum. Danir neita að bjarga Íslendingi úr sjávarháska.

Svo er að koma á daginn að ekki er nóg með að við séum lögð í einelti af tilverunni heldur erum við skíthælar líka.

Gunnar Smári Egilsson ritar grein í Moggann í dag. Þar fjallar hann m. a. um þá 75.000 Íslendinga sem skrifað hafa undir yfirlýsingu á netinu þess efnis að þeir væru ekki hryðjuverkamenn.

Um þá segir Gunnar Smári:

Þeir hefðu átt að bæta við að þeir væru hins vegar skíthælar.

Og hvers vegna telur Gunnar Smári að við séum skíthælar? Jú, eins og hann segir:

Samingar verða að gilda, skuldbindingar að halda og orð að standa.

Ég er sammála Gunnari Smára um það.

Það sem fólki gengur á hinn bóginn illa að skilja og sætta sig við er að það sé látið borga fyrir manndrápsskuldir sem aðrir stofnuðu til. Og skuldabagginn settur á komandi kynslóðir líka.

Gunnar Smári titlar sig blaðamann en þess má geta að á sínum tíma var hann forstjóri fjölmiðlafyrirtækisins Dagsbrúnar sem gaf út fríblaðið Nyhedsavisen í Danmörku.

Þegar því útgáfuævintýri lauk í ágúst á þessu ári var tapið af því um eitt hundrað milljón dollarar.

Skráðar kröfur í þrotabú fyrirtækisins eru meira en milljarður íslenskra króna og kröfuhafar 160. Ábyrgðarsjóður launa í Danmörku er einn þeirra. Krafa hans er upp á 8 milljónir danskra króna. Skiptum á þrotabúinu lýkur sennilega ekki fyrr en á þarnæsta ári.

Bíræfnir menn reistu skýjaborgir. Þegar þær hrundu grófst fólk í rústunum sem ekki hafði komið nálægt byggingastarfinu.

Lýðurinn möglar og er kallaður skíthæll af bíræfnum mönnum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband