Færsluflokkur: Bloggar
13.11.2008 | 00:27
Beinskeytlur
Stanislaw Jerzy Lec (1909 - 1966) var pólskur rithöfundur sem lifði tvær heimsstyrjaldir, var í útrýmingarbúðum nasista og bjó við alræðisstjórn kommúnista.
Hann er einkum frægur fyrir svokallaðan aforisma.
Má kalla það tjáningarform beinskeytlur?
Ég hef verið að dútla við að þýða beinskeytlur Stanislaws. Í einni þeirra segist hann skrifa stuttar skrýtlur vegna þess að hann skorti orð.
Beinskeytlan er hnitmiðuð hugsun sem er um leið útvíkkandi.
Að lesa beinskeytlu líkist því að horfa í afturendann á sjónaukanum.
Hér nokkrar beinskeytlur eftir Stanislaw - sem geta átt erindi við okkar tíma.
Skuggi grunsins féll á hann. Nú felur hann sig í þeim skugga.
Strengjabrúðurnar eru auðhengdar. Efnið í snörurnar liggur fyrir.
Til að bæta siðferðið verður að draga úr kröfunum.
Sum orð eru svo stór og tóm að þar má halda heilu þjóðunum í fangelsi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.11.2008 | 00:08
Þýskir Íslandsvinir
Sé mark takandi á fréttum er nóg framboð af óvinum íslensku þjóðarinnar í veröldinni.
Plús það að hún er sjálfri sér það óholl að henni hefur sennilega tekist að eyða fyrirfram öllum gróðanum af olíunni og gasinu sem hún er um það bil alveg næstum því að finna.
Þá er nú guðsþakkarvert að eiga einhverja vini.
Þar fara frændur vorir í Færeyjum fremstir.
Undanfarin tíu ár hefur Akureyrarkirkja verið í ungmennasamskiptum við systurkirkju sína í Bochum í Þýskalandi.
Þar er líka hlýlega til okkar hugsað þessa dagana.
Íslandsvinurinn og presturinn Ortwin Pflaeging boðar til fundar næstkomandi sunnudagskvöld í kaffihúsi kirkjunnar í Bochum-Stiepel. Fimmtíu aðrir þýskir Íslandsfarar og Íslandsvinir eru boðaðir á fundinn.
Yfirskrift fundarboðsins er:
Ísland í verstu krísunni síðan síldin hvarf
Í boðinu segir Ortwin að mjög misvísandi upplýsingar berist frá landinu.
(Sú misvísun á sér sennilega þær skýringar að samkvæmt fréttum er allt hér á heljarþröm en ég hef á hinn bóginn borið mig frekar karlmannlega í samskiptum mínum við hann.)
Ortwin hefur engu að síður sverar áhyggjur af þessari vinaþjóð sinni og kveðst hafa fengið ótal áskoranir um að eitthvað þurfi að gera okkur til stuðnings. Ýmsar aðgerðir séu hugsanlegar.
Fyrsta skrefið sé þó að hittast til skrafs og ráðagerða.
Svona eru vinir í raun.
Myndin er af þýskum ungmennum í Íslandsferð fyrir nokkrum árum. Ortwin er maðurinn í íslensku lopapeysunni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.11.2008 | 21:36
Ömurleiki dagsins
Nú í vikunni, meðan milljónatrilljónir brunnu upp í gjaldþrota bönkum og mannaskipti urðu í æðstu veldisstólum veraldarinnar, gekk lífið að mestu sinn vanagang hér í Norðurbyggðinni.
Vanagangur sá hefst snemma dags með því að heimilisfólk rís úr rekkjum, gerir á sér morgunverkin, fær sér árbít og smyr nesti áður en hver heldur á sinn stað í skólum og vinnustöðum bæjarins. Jafnan gengur þetta stórslysalaust fyrir sig og af þokkafullri yfirvegun.
Miðvikudagurinn síðasti var þó undantekning frá því.
Þegar heimilisfaðirinn mætti í eldhúsið, úfinn og rauðeygður eftir annasamar kreppudraumfarir, gerðu hans eigin börn að honum hávær hróp.
Ég hafði klúðrað gjörsamlega verslunarferðinni deginum áður og gleymt að kaupa helminginn af því sem vantaði í eldhússkápa og búrhillur. Þegar hungruð börnin hugðust ná sér í kornfleks í kornfleksskápinn störðu þau í holar tóttir. Þar að auki reyndust mjólkurbirgðir heimilisins ekki merkilegri en gjaldeyrisforði Seðlabankans fyrir hrunið.
Mér leið eins og Davíð og orðið "ÁBYRGÐ" stóð skrifað með stríðsfyrirsagnaletri á hrukkóttu enninu.
Ekki var um annað að ræða en að sneypast út í bíl og aka í næstu verslun að sækja fjölskyldunni þurftir.
Þannig er að eina búðin sem opin er á þessum tíma sólarhringsins hefur mjög athyglisvert verðlag á vörum sínum. Þegar kassastrákurinn hafði bíbbað það sem ég keypti og tilkynnt mér heildarverðið lá við að ég afhenti honum bíllyklana.
Ekki hafði ástandið batnað þegar ég kom heim með góssið og tómt veskið.
Örvæntingarfullum fjölskyldumeðlimi hafði tekist að veiða frosinn brauðhleif upp úr frystikistunni og smellt honum í örrann með þeim árangri að eldur varð laus í tækinu. Var töluverður reykur í eldhúsinu og hóstakjöltur.
Ekki var eiginkonunni hlátur í huga þegar allt var afstaðið, ég sestur örþreyttur með kaffibolla við eldhúsborðið og leyfði mér þann munað að brosa dauflega með hjartanu í brælunni af bráðnuðum örbylgjuofni.
Þá henti hún í mig dagblöðunum hryssingsleg og sagði í kveðjuskyni:
"Hér hefurðu svo ömurleika dagsins."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.11.2008 | 00:11
Þjóðarrógi svarað
Gories Peerse hét maður. Hann orti níðkvæði um Ísland og Íslendinga á lágþýsku. Það birtist árið 1561.
Á þeim tíma var Íslendingum annt um ímynd þjóðarinnar. Guðbrandur Hólabiskup var mikill bókagerðarmaður. Hann fékk frænda sinn, Arngrím Jónsson hinn lærða, til að semja ritið Brevis comentarius Islandia. Þar var mishermi um Ísland leiðrétt og spjótunum einkum beint að rógi Peerse. Rit Arngríms var prentað árið 1593 þannig að menn voru ekki að flana að neinu í ímyndarbransanum þá.
Áður fyrr þótti það nokkuð sport í útlöndum að segja alls konar tröllasögur af Íslandi; Hekla var helvíti sjálft, sauðfé svo vænt að það kafnaði í eigin fitu, þjóðin byggði sér kofa úr fiskbeinum og lokkaði til sín veiðidýr með hljóðfæraleik.
Góðborgarar heimsins hrylltu sig af viðbjóði þegar þeir heyrðu um sóðaskap Íslendinga og saurlífi.
Þetta leiddist Íslendingum og árið 1609 sendi Arngrímur lærði frá sér annað rit um Ísland. Nefndi hann það Crymogæa. Það er gríska heitið á Íslandi. Crymogæa er höfuðrit Arngríms og merkileg landkynning.
Ekki var þó ímyndarstríðinu lokið. Fjórtán árum eftir að hinn þýski Peerse níddi landann gangsetti Dithmar nokkur Blefken mykjudreifara sinn til höfuðs Fróni. Jón Helgason, en frá honum hef ég þennan fróðleik, segir Blefken þann mann sem mestu hefur logið á Ísland.
Blefken segist hafa dvalið hér tvo vetur en það mun lygi eins og annað úr hans penna. Hann var slíkur lygari að trúlega hefur hans eigin tilvera verið uppspuni, alla vega undir því nafni sem hann gaf sér.
Eitt telja menn þó víst: Blefken þessi mun hafa þénað duglega á lygaþvættingi sínum um landið.
Hér á landi brugðust menn hart við bók Blefkens. Teiknuð var af honum skopmynd. Segja sumir að höfundur hennar hafi verið sjálfur Hólabiskupinn Guðbrandur "og er þá þessi rétttrúnaðarberserkur jafnframt fyrsti skrípateiknari Íslendinga" segir Jón Helgason. Einnig voru ort ljóð til höfuðs Dithmari, bæði á ástkæra ylhýra og ensku þeirra tíma, latínu. Eitt ljóðanna er svona:
Dithmar dári vottast,
Dithmar lygapyttur,
Dithmar dreggjapottur,
Dithmar frjósi og svitni,
Dithmar drussi réttur,
Dithmar innan slitni,
Dithmar drafni og rotni,
Dithmar eigi rythmum.
"En Arngrímur gekkst undir þyngstu byrðina nú sem fyrr og samdi heilt kver til varnar," segir Jón Helgason. "Mikill hluti þess fer í að leggja Blefken á skurðarborð og kryfja hann eins og hvert annað hræ; sú krufning leiðir ekki annað í ljós en eintóma fúlmennsku, lesti og ódyggðir."
Þannig var nú indífensið á þeim dögum.
Myndin er af Arngrími lærða.
(Heimild: Jón Helgason, Arngrímur lærði, í: Ritgerðarkorn og ræðustúfar, Reykjavík 1959)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.11.2008 | 14:24
Nú þarf særingar
Kvak okkar prestanna um góðmennsku, samstöðu og fyrirgefningu í kreppunni fer í taugarnar á mörgum.
Ég get sosum skilið það. Þó er held ég aldrei brýnna fyrir þjóðina að standa saman en þegar á móti blæs.
Spurningin er kannski um hvað samstaðan eigi að vera?
Nú eiga margir um sárt að binda. Þess vegna er líka ástæða til að hvetja fólk til að sýna hvert öðru umhyggju og kærleika.
Og þegar fram líða stundir kemur að tíma fyrirgefningarinnar. Hún er nauðsynleg.
Í heimi trúarinnar kemur iðrunin á undan fyrirgefningunni; viðurkenning sektar og sá ásetningur að snúa af rangri braut.
Mér sýnist á öllu að ekki fari nú mikið fyrir iðrun í okkar samfélagi. Frekar að hver bendi á annan. En iðrunin á kannski eftir að koma og þá má vænta þess að henni fylgi einlægur og marktækur vilji til að snúa af rangri braut.
Og þá er ferli fyrirgefningar og sáttargjörðar byrjað.
Á máli trúarinnar er heldur aldrei hægt að tala um uppbyggingu án þess að fram hafi farið niðurrif. Áður en það góða og uppbyggilega getur komist að verður að reka burt það vonda og skaðlega.
Særa verður burt illu andana áður en andanum góða er blásið inn, reyta illgresið áður en góðplöntur eru gróðursettar, spóla burt skemmdina áður en tönninn er fyllt.
Við afneitum djöflinum og öllu hans athæfi og öllum hans verkum áður en við játumst því góða.
Við skulum standa saman. Sýna hvert öðru umhyggju og nærgætni. Þeir sem sök finna viðurkenni hana.
En við getum ekki búist við því að hér fari fram nokkur uppbygging eða sáttargjörð ef við heykjumst á því að særa burt illu andana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
2.11.2008 | 21:12
Lifi Ríkisútvarpið!
Í ljósi nýjustu hræringa á fjölmiðlamarkaði liggur fyrir að stórefla þarf Ríkisútvarpið.
Upp er komið berlúskonískt ástand í íslenskri fjölmiðlun.
Vinstri menn í veröldinni hafa beitt sér fyrir lögum um eignarhald á fjölmiðlum.
Þó ekki á Íslandi. Hér beita þeir sér gegn slíku.
Nokkrar spurningar lesendum mínum til umhugsunar:
Er rétt að tala um "frjálsa" fjölmiðla annars vegar og ríkismiðla hins vegar? Væri ekki réttara að skipta þeim í einkarekna og ríkisrekna?
Eða auðvaldsfjölmiðla og almenningsfjölmiðla?
Er ekki kominn tími til að hugsa yfirstjórn Ríkisútvarpsins upp á nýtt? Búa til raunverulegt þjóðarútvarp? T. d. með því að leggja af útvarpsráð í núverandi mynd. Það verði ekki flokkspólitískt bitbein. Allar fjöldahreyfingar þjóðarinnar tilnefni fólk í útvarpsráð.
Ég skil að einkareknu fjölmiðlarnir þurfa auglýsingar. En ef taka á Ríkisútvarpið út af þeim markaði er verið að skerða tekjur stofnunarinnar. Á að bæta Ríkisútvarpinu upp þá skerðingu? Hvernig? Er það raunsætt eins og ástandið í efnahagsmálum er núna?
Og verði Ríkisútvarpið fyrir skerðingu án þess að nokkuð komi á móti þýðir það þá ekki minni þjónustu?
Líta menn þannig á að auglýsingar séu aðeins tekjulind fyrir fjölmiðla? Enda þótt mikið sé skrumað í auglýsingum nútímans þjóna þær líka þeim tilgangi að upplýsa almenning. Þær eru þjónusta við almenning. Verður ekki alla vega ákveðinn þáttur þeirrar þjónustu að vera þjóðinni allri aðgengilegur án tillits til búsetu og efnahags?
Ríkisútvarpið hefur öryggishlutverk. Á þeim umbrotatímum sem við upplifum núna er mikilvægt að því sé gert kleift að rækja það hlutverk.
Það getur skipt sköpum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.11.2008 | 00:50
Barns vármorgun og blinds manns nótt
Ég var yngri en ég man þegar ég kynntist fyrstu Færeyingunum. Einn þeirra, Jóggvan, afgreiddi í herradeild KEA að mig minnir og var baptisti. Það var ljúfur og broshýr heiðursmaður eins og allir Færeyingar sem ég þekki.
Einu sinni gisti hjá okkur færeyskur Hjálpræðishermaður. Við urðum góðir vinir og ég var sérstaklega hrifinn af búningnum hans. Svo miklu ástfóstri tók ég við hann að ég sagði honum að ég myndi fara í brúðkaupsferðina mína til Færeyja. Hann hló mikið þegar hann sagði foreldrum mínum frá áformum stráksa en ég held að honum hafi þótt vænt um þau.
Tveir Færeyingar voru með mér í guðfræðideildinni. Indælir drengir báðir tveir og þjóð sinni til sóma.
Ég hef einu sinni komið til Færeyja og stoppaði alltof stutt. Brúðkaupsferðin þangað verður farin þótt síðar verði. Ef konan vill ekki koma með fer ég einn.
Hér á Akureyri bjó Færeyingur, Jón Samúelsson, fæddur 1924 á Toftum en búsettur á Íslandi frá 18 ára aldri. Jón var ríkari mörgum öðrum að því leyti að hann átti tvær fósturjarðir; systurnar Færeyjar og Ísland. Báðum unni hann mjög. Jón lést árið 2005 og við útför hans las ég örlítið kvæði sem hann gerði um eyjarnar sínar.
Það er svona:
Tað er sum allt Föroyskt um allar tíðir
lands og fólks sveimar um mín hug.
Fólkið at balast, leitt av lagnu.
Sögan öld eftir öld.
Andstöður allar, aldir ígjögnum
og allt har í millum.
Vetraródn og stjörnubjart.
Bakkabrim og sólblíð vág.
Bóndans garður og gerðismanns hús.
Hövdingasetur og smáttan smá.
Eyður og örbirgð, sæla og eymd.
Barns vármorgun og blinds manns nótt.
Þetta finnst mér fallegt kvæði. Ég er sérstaklega hrifinn af sögninni að balast, smáttunni smáu og lokalínan er yndisleg.
Færeyingar hafa sýnt okkur Íslendingum ýmsan sóma. Meðal annars hafa skáld þeirra ort dýr kvæði til landsins okkar. Eitt þeirra, Mikkjal á Ryggi, gerði ljóð um landið sem Jón Helgason segir að sé "Íslendingum mun ókunnara en maklegt væri". Ekki skemmir að það er með stuðlum og höfuðstöfum.
(Ég bið menn að fyrirgefa mér að ég nota íslenskt ö því ég fann ekki það færeyska sem hefur strik skáhallt í gegnum sig.)
Eitt erindið úr kvæði Mikkjals á Ryggi er svona:
Frítt tú vart í fornum tíma
fagra jökulsland,
eingin orkaði at gríma
Ingolvs ætt í band;
hetjur hevjaðu á tingi
hátt sítt fríða mál,
teir frá fedrum hövdu fingið
frælsishug í sál.
Lokaerindið er afbragðsgott og sýnir ást skáldsins á frændlandi sínu:
Lýsi vítt um tún og tindar
tungl og gylta sól,
láti blítt í leyvi vindar,
leiki frískt um hól;
bleiktri merkið bjart um landið
blátt og reytt og hvítt,
gjögnum allar ævir standi
Ísland sterkt og frítt.
Takk, Færeyjar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.10.2008 | 23:50
Kallíkles enn að
Nú standa yfir mánudagssamverur í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju undir yfirskriftinni Mánudagar gegn mæðu.
Á þá fyrstu mætti dr. Sigurður Kristinsson, heimspekingur og forseti hug- og félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri. Hann spjallaði við okkur um gamlar og góðar dyggðir.
Sigurður er afar þægilegur fyrirlesari með mikla og djúpa þekkingu á viðfangsefni sínu.
Hann sagði okkur m. a. frá hinum unga aðalsmanni Kallíklesi sem líklega hefur fæðst á 5. öld fyrir Krist - hafi hann verið til á annað borð. Kallíkles er persóna í samræðubókinni Gorgías eftir Platon.
Þótt á þriðja árþúsund sé liðið frá því að Kallíkles var uppi er hann ótrúlega nálægt okkur. Margir fundarmanna könnuðust vel við þau gildi sem hann hafði í hávegum.
Kallíkles aðhylltist skefjalausa einstaklingshyggju. Hann taldi ekki nema sjálfsagt og eðlilegt að hver tranaði sér fram eins og honum væri framast unnt. Siðferði er ekki nema heftandi mannasetningar. Mannleysur einar láta níðast á sér og engin ástæða er til að taka tillit til annarra ef maður græðir ekkert á því sjálfur.
Í því hugarfari sem ríkt hefur á Íslandi að undanföru þótti ekki fínt að tala mikið um siðferði eða lög og reglur. Manneskjan átti að stjórna sér sjálf og ekki sæmandi dugandi mönnum að leggja á sig þær hömlur að vera að taka óþarflega mikið tillit til annarra.
Frelsið var töfraorðið og græðgin rafhlaðan sem allt dreif áfram.
Hin eina leyfilega spurning var: Hvað græði ég á því?
Þeir vissu hvað þeir sungu, gömlu spekingarnir. Íslensk þjóð á tímamótum getur sótt ómetanlega visku í rit þeirra.
Næsta mánudagskvöld ætlar Þórgnýr Dýrfjörð, forstöðumaður Akureyrarstofu, að tala gegn mæðunni með því að ljúka upp fyrir okkur ágæti þess að búa í höfuðstað Norðurlands. Hvað er gott við það að eiga heima á Akureyri og hver er helsti styrkur samfélagsins þar?
Bræðurnir Heimir og Sigurður Ingimarssynir syngja á samverunni sem hefst kl. 20.
Myndin með færslunni er af Platon.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2008 | 00:41
Íslensk umræðugreining ehf
Álitsgjafar fjölmiðlanna sögðu IMF Íslands einu von.
Örstutt er síðan þeir fögnuðu ákaflega þegar samningurinn við IMF var í höfn.
"Þótt fyrr hefði verið!" sögðu þeir. "Loksins!" "Mikið var!"
Liðlega einum sólarhring síðar liggja fyrir fyrstu afleiðingar þessa samnings.
Hækkun á svívirðilegum stýrivöxtum.
Og þá finna þessir sömu menn afurðum samningsins allt til foráttu.
Eins og þær hefðu átt að koma á óvart.
Ég átta mig ekki alveg á þessu.
Og þó.
Hér á landi virðist hafa skapast sú hefð að fylgja málefnum meðan þau eru vænleg til vinsælda og að hugmynd sé ekki góð nema rétt manneskja hafi fengið hana.
Íslendingar eru afspyrnulélegir í hugsjónum.
Hér er bútur úr ræðu sem séra Sigurbjörn Einarsson heitinn flutti í samkomusal Mjólkurstöðvarinnar 12. desember 1948:
Það er sanngjarnra manna háttur að láta jafnvel andstæðinga njóta þess, er þeir fylgja góðum málstað, og þeir, sem af alvöru fylgja máli, sem þeim er hjartans mál, gleðjast yfir slíku. En sá er ekki háttur stjórnmálamanna á Íslandi yfirleitt. Það virðist í þeirra augum ráða úrslitum um málstaðinn, hverjir fylgja honum.
(Sigurbjörn Einarsson, Draumar landsins, Reykjavík 1949, bls. 138)
Annað: Hér fyrir norðan er gömul vísa gengin aftur enda skyndilega orðin viðeigandi. Hún hefur sennilega orðið til þegar verðbólgan æddi um og gleypti í sig allt sem fyrir varð. Mér er sagt að höfundurinn hafi verið Bjarni sálugi úrsmiður og vona að ég muni vísuna rétt:
Hugarvíl og harmur dvín
er horfi ég á frúna.
Hún er eina eignin mín
sem ekki rýrnar núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.10.2008 | 10:52
Fjölmiðlar á umbrotatímum
Fjölmiðlar eiga að vera aðgangsharðir. Þeir eiga að nota vald sitt til að veita valdinu öflugt aðhald. Fjölmiðlar eiga að vera krítískir á valdið hver sem fer með það, hvernig sem það birtist og hvort sem um er að ræða t. d. ríkisvald eða auðvald.
Undanfarna daga hafa fjölmiðlar verið duglegir við að benda á skýrslur og ummæli þar sem varað var við tæpu ástandi íslenskra banka og hættunni sem íslenskri þjóð stafaði af því.
Ábyrgð þeirra er mikil sem létu slíkt eins og vind um eyru þjóta. Og ábyrgð fjölmiðlanna er líka mikil. Hvar voru þeir þegar ummælin féllu og skýrslurnar voru lagðar fram?
Íslendingar eiga marga góða blaðamenn. Mín skoðun er sú að skynsamleg lög um eignarhald á fjölmiðlum hjálpi okkar góðu blaðamönnum að vinna sín mikilvægu störf sem eru í þágu okkar allra.
Nokkuð er um að kvartað sé undan aðgangshörku fjölmiðlafólks. Ég held að blaðamenn geti vel verið fastir fyrir og krafið menn um svör án þess að vera dónalegir. En línan þar á milli er stundum hárfín.
Og ég velti fyrir mér hvort rétt sé að blaðamenn megi ekki setja sig í dómarasæti. Blaðamaður sem hefur þekkingu á viðfangsefni sínu hlýtur að mega draga ályktanir af því sem hann heyrir og sér.
Þekking á viðfangsefninu er samt alltaf það sem greinir á milli skynsamlegra dóma annars vegar og innantómra upphrópana hins vegar.
Stundum er sagt að blaðamenn séu spegill samtíðarinnar. Þess vegna hafi þeir leyfi til að tjá reiði þjóðarinnar. Reiði þjóðar birtist í reiðum spyrlum.
Það finnst mér alls ekki fráleit kenning.
Ég set á hinn bóginn spurningamerki við að fjölmiðlar verði hluti af refsivaldinu; sökudólgar séu dregnir fyrir fjölmiðlaböðla og látnir sæta húðlátum eða öðru verra.
Blaðamenn eiga alltaf að vera aðgangsharðir. Stundum er ekki nema von að þeir séu reiðir.
En þeir eiga líka að vera yfirvegaðir. Ekki síst á umbrotatímum.
Sagan sýnir að kreppur eru tímar popúlista og öfgamanna.
Nú eru þeir allir búnir að taka sín númer og bíða eftir að komast að.
Ef til vill er röðin þegar komin að sumum?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)